Hæstiréttur íslands

Mál nr. 278/2009


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Uppgjör


Fimmtudaginn 4. febrúar 2010.

Nr. 278/2009.

Hefilverk ehf. 

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Smáragarði ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

Verksamningur. Uppgjör.

S og J gerðu með sér verksamning um jarðvinnu á lóð S og samdi J við undirverktaka um ýmsa þætti verksins, þar á meðal við H. J stóð ekki í skilum með greiðslur til H. Höfðaði H mál og krafði S  um greiðslu fyrir vinnu sínu en félagið byggði á því að S hefði ábyrgst greiðslur þeirra krafna sem um var deilt í málinu. Ósannað þótti að samningur hefði komist á milli H og S um skuldbindingu S að þessu leyti. Var S því sýknað af kröfum H í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.399.696 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júní 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.   

Áfrýjandi hefur andmælt því sem segir í niðurstöðukafla héraðsdóms að óumdeilt sé að stefndi hafi ekki gert samning við hann og aðra undirverktaka Jarðvéla ehf. Byggir hann meðal annars á að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða kröfuna sem um er deilt í málinu. Áfrýjanda hefur ekki tekist að sanna að komist hafi á samningur um þetta. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hefilverk ehf., greiði stefnda, Smáragarði ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 2. mars sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefnda 20. júní 2008.

Stefnandi er Hefilverk ehf., Jörfalind 20, Kópavogi, en stefndi er Smáragarður ehf., Hlíðarsmára 11, einnig í Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 2.399.696 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.268.510 krónum frá 24. október 2007 til 21. desember s.á., en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á stefnufjárhæð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málsatvik og ágreiningsefni

Aðila greinir á um málsatvik. Samkvæmt framlögðum gögnum eru þau í megindráttum eftirfarandi:

Stefndi, Smáragarður ehf., gerði verksamning við Jarðvélar ehf. um jarðvinnu á lóð stefnda við Skarfagarða 2 í Reykjavík. Jarðvélar ehf. samdi við undirverktaka um nokkra verkþætti, þ.á m. stefnanda, sem sinnir veghefilsþjónustu. Með tölvupósti 7. nóvember 2007 til byggingarstjóra stefnda skýrði verkefnisstjóri Jarðvéla ehf. frá því að fyrirtækið ætti í rekstrarerfiðleikum. Af þeim sökum var þess óskað að Smáragarður ehf. greiddi beint inn á reikninga nokkurra undirverktaka, m.a. stefnanda. Framkvæmdin yrði þannig að stofnaðir yrðu reikningar í nafni Jarðvéla ehf., sem undirverktakarnir hefðu einir prókúru fyrir, og yrði greiðsla fyrir vinnu þeirra lögð inn á þá reikninga, eftir að eftirlitsmenn stefnda hefðu fengið senda greiðsluskiptingu frá Jarðvélum ehf. og staðfestingu frá þeim undirverktökum sem ættu í hlut. Byggingarstjóri stefnda féllst á þetta fyrirkomulag með tölvupósti 9. nóvember 2007 og tók fram að verkefnisstjóri Jarðvéla ehf. myndi upplýsa viðkomandi um málið.  

Meðal gagna málsins er fundargerð verkfundar 13. nóvember 2007, þar sem mættir voru fulltrúar Jarðvéla ehf. og stefnda. Er þar m.a. bókað að undirverktaki Jarðvéla ehf. hafi haft samband við verkkaupa vegna greiðslufalls. Síðan segir: „Verkkaupi gerir kröfu um að Jarðvélar ehf greiði undirverktökum það sem þeim ber. Jarðvélar ehf hafa lagt fram tillögu til verkkaupa að beingreiðslum í samráði við undirverktaka til eftirtaldra undirverktaka: Skrautu ehf, Sigurgeirs Bjarnasonar, Hefilverks ehf og Malbikunarstöðvarinnar Höfða ehf.“

Í dagskýrslum eftirlits verkkaupa kemur fram að 27. nóvember hafi Hilmar hjá Hefilverki ehf. rætt við eftirlitsmann um að hann væri hræddur um að fá ekki greitt, og komið hefði í ljós að Jarðvélar ehf. hefði ekki greitt fyrir heflun undir steypta plötu hússins í september. Jafnframt segir þar að Hilmar muni fara fram á við Jarðvélar ehf. vinna í september verði greidd. Í skýrslunni kemur einnig fram að AB hafi látið KE vita um stöðuna og hafi KE sagt að ekki yrði hægt að greiða Hilmari fyrir vinnu inni í húsi, sem þegar hefði verið greidd Jarðvélum ehf. Skammstöfunin AB stendur fyrir Atla Bragason, eftirlitsmann hjá verkkaupa, en KE fyrir Kristin Eiríksson, byggingarstjóra verkkaupa. Af dagskýrslum næstu daga má sjá að heflun hefur verið haldið áfram.

Í samræmi við samkomulag stefnda og Jarðvéla ehf. um skiptingu greiðslna til undirverktaka sendi verkefnisstjóri Jarðvéla ehf. byggingarstjóra stefnda 12. desember 2007 tillögu að greiðsluskiptingu til þriggja undirverktaka, þ.á m. stefnanda. Samkvæmt því skyldi stefnandi fá 800.000 krónur greiddar inn á nánar tiltekinn bankareikning. Áður en til greiðslna kom hafði Landsbanki Íslands hf. hins vegar tilkynnt stefnda að Jarðvélar ehf. hefði veðsett bankanum útgefna reikninga og því bæri stefnda að leggja greiðsluna inn á tilgreindan reikning Jarðvéla ehf. í bankanum. Kom því ekki til þess að greiðslunni yrði skipt með þeim hætti sem ákveðið hafði verið.

Bú Jarðvéla ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. febrúar 2008 og lýsti stefnandi kröfum í búið, í öryggisskyni, eins og tekið er til orða í stefnu. Jafnframt er þar fullyrt að stefnandi hafi hætt vinnu sem undirverktaki Jarðvéla ehf. um mánaðamótin október/nóvember 2007, en hafið störf á ný að beiðni stefnda 27. nóvember sama ár. Hafi stefndi lofað og ábyrgst greiðslu beint til stefnanda, sem og greiðslu vegna vinnu hans í nóvember og desember.

Krafa stefnanda er samkvæmt tveimur reikningum, annars vegar samkvæmt reikningi útgefnum 24. október 2007, að fjárhæð 1.268.510 krónur, hins vegar 21. desember sama ár, að fjárhæð 1.131.186 krónur. Fyrri reikningurinn er gefinn út á nafn Jarðvéla ehf., en sá síðari á nafn stefnda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir mál sitt á því að eftir að hann hætti störfum fyrir Jarðvélar ehf. um mánaðamótin október/nóvember 2007 hefðu forsvarsmenn Jarðvéla ehf. og stefnda tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnanda að stefndi ábyrgðist greiðslur beint til stefnanda, bæði vegna ógreidds reiknings og áframhaldandi vinnu hans. Því væri stefnanda óhætt að halda áfram vinnu þar sem greiðslur til hans væru tryggðar. Hefði stefndi lagt mikla áherslu á að hann lyki við að undirbúa bílastæðaplan fyrir malbikun, þar eð vetur væri í nánd og illmögulegt að vinna slíka vinnu þegar frost væri í jörðu. Að beiðni stefnda hefði stefnandi því hafið störf að nýju 27. nóvember það ár. Þessu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til verkfundargerðar og tölvupóstsamskipta starfsmanna Jarðvéla ehf. og stefnda. Þá fullyrðir stefnandi að hann hafi jafnframt rætt málið við byggingarstjóra stefnda, Kristin Eiríksson, og eftir það samtal hefði hann hafið störf á ný. Jafnframt hefði það vakið tiltrú stefnanda á gildi loforðs stefnda að stefndi væri dóttur- eða systurfélag BYKO. Stefnandi leggur einnig áherslu á að fyrirkomulag á greiðslum til hans hafi verið á ábyrgð stefnda, en ekki hans sjálfs. Því geti það ekki leitt til réttarspjalla fyrir hann þó stefndi hafi greitt Landsbanka Íslands hf. fyrir vinnu hans, enda þótt bankinn hafi átt veð í reikningum Jarðvéla ehf., eins og haldið sé fram af stefnda. Beri stefnandi ekki ábyrgð á því hvernig staðið var að greiðslu reikninganna.

Auk ofanritaðs bendir stefnandi á að vinna hans hafi verið í þágu stefnda, þótt hann hafi í upphafi komið að verkinu sem undirverktaki Jarðvéla ehf. Í kjölfar þess að hann hætti störfum fyrir Jarðvélar ehf. hefði réttarsamband aðila breyst og beint samningssamband stofnast milli stefnanda og stefnda um áframhaldandi framkvæmdir. Forsenda þess hafi þó verið ábyrgðarloforð af hálfu stefnda um greiðslu óuppgerðra reikninga. Þá telur stefnandi að sanngirnisrök eigi að leiða til sömu niðurstöðu, einkum þegar höfð sé í huga yfirburðastaða stefnda andspænis stefnanda, að því er varðar fjárhagslegt bolmagn til að mæta tjóni.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um stofnun skuldbindinga, svo og til meginreglna verktakaréttar. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til 34. og 38. gr. sömu laga.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi tekur fram að honum sé ekki kunnugt um að stefnandi hafi hætt störfum um mánaðamótin október/nóvember 2007, a.m.k. hafi stefndi ekki fengið tilkynningu um slíkt, hvorki frá Jarðvélum ehf. stefnanda, og hafi stefndi heldur ekki beðið stefnanda um að hefja störf að nýju. Af dagskýrslum megi hins vegar sjá að heflun á lóð hússins hófst 27. nóvember 2007. Heflun í grunni hússins hafi verið lokið í septembermánuði.

Sýknukrafa stefnda byggist á því að ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnanda og stefnda og hafi stefndi hvorki með orðum né athöfnum ábyrgst greiðslur til stefnanda. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu, en engin gögn liggi frammi í málinu sem sýni slíkt samningssamband eða ábyrgð af hálfu stefnda. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 leiði varnir byggðar á aðildarskorti til sýknu. Þá bendir stefndi á að óumdeilt sé að hann hafi þegar greitt Jarðvélum ehf. fyrir alla þá vinnu sem það fyrirtæki og undirverktakar þess hafi unnið að Skarfagörðum 2. Stefndi hafi því þegar greitt fyrir þá vinnu sem stefnandi krefjist nú greiðslu fyrir.

Stefndi leggur áherslu á að í samkomulagi hans og Jarðvéla ehf. hafi aðeins falist breyting á tilhögun á greiðslum reikninga Jarðvéla ehf., og hafi það verið gert að tillögu Jarðvéla ehf. til þess að auðvelda fyrirtækinu efndir gagnvart undirverktökum þess. Ekkert samningssamband hafi hins vegar verið á milli stefnda og stefnanda og hafi stefndi aldrei heyrt um kröfu stefnanda fyrr en með innheimtubréfi 7. janúar 2008. Telur stefndi að það feli í sér staðfestingu þess að báðir aðilar hafi fram til þess tíma ekki talið að samningssamband væri þeirra í milli. Stefnandi hafi heldur ekki gert grein fyrir því hvernig stofnað hafi verið til þess samningssambands.

Stefndi mótmælir því að fyrrgreint greiðslufyrirkomulag, sem aðilar sömdu um, hafi verið á ábyrgð stefnda, enda sé það í andstöðu við fyrirliggjandi gögn málsins. Í því sambandi bendir stefndi á tölvupóst frá byggingarstjóra sínum, þar sem fram komi að fyrirkomulag greiðslna sé ákveðið af Jarðvélum ehf. Af tölvupóstinum megi sjá að Jarðvélar ehf. réðu því hvernig greiðslur fóru fram, þ.e. inn á hvaða reikninga skyldi greitt og hve háa fjárhæð. Þar komi einnig fram að starfsmaður Jarðvéla ehf. eigi að upplýsa undirverktaka um greiðslufyrirkomulagið. Sýni það að engin samskipti hafi verið á milli stefnda og stefnanda um tilhögun greiðslna. Um leið mótmælir stefndi því að Kristinn Eiríksson, byggingarstjóri, hafi lýst því yfir við stefnanda að greiðslur myndu berast honum beint vegna ógreiddra reikninga, sem og vegna frekari vinnu hans. Framlögð göng, einkum dagskýrsla eftirlitsaðila stefnda, staðfesti hið gagnstæða.

Stefndi mótmælir einnig þeirri málsástæðu stefnanda að þótt vinna hans hafi að lokum verið í þágu stefnda skapi það réttarsamband þeirra í milli. Fjárhagslegt bolmagn stefnda leiði heldur ekki til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á samningum viðsemjanda síns við undirverktaka. Loks telur stefndi að kröfulýsing stefnda í þrotabú Jarðvéla ehf. sýni að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að samningssamband hans hafi verið við Jarðvélar ehf., en ekki stefnda.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi á einhvern hátt skuldbundið sig gagnvart stefnanda, telur stefndi að hann beri aðeins einfalda ábyrgð á greiðslum til stefnanda. Stefnandi hafi þó ekki sannað algera ógjaldfærni Jarðvéla ehf., þrátt fyrir gjaldþrot félagsins.

Varakrafa stefnda er studd þeim rökum að hann beri augljóslega ekki ábyrgð á greiðslum til stefnanda fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi fyrir 9. nóvember 2007, þ.e. áður en Kristinn Eiríksson, byggingarstjóri stefnda, svaraði tölvupósti frá umsjónarmanni Jarðvéla ehf.

Stefndi mótmælir að lokum dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að dráttarvextir verði ekki reiknaðir fyrr en 30 dögum eftir að stefnandi sanni ógjaldfærni Jarðvéla ehf. Þá hafi stefndi fyrst verið krafinn um greiðslu með innheimtubréfi 7. janúar 2008 og verði dráttarvextir ekki reiknaðir fyrir þann tíma.

Um lagarök er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um stofnun samningsskuldbindinga og ábyrgða. Málskostnaðarkrafa styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Munnlegar skýrslur fyrir dómi

Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dóminum Hilmar Guðmundsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Karl Sigfússon, verkefnisstjóri stefnda, Kristinn Eiríksson byggingarstjóri stefnda, Atli Bragason, eftirlitsmaður hjá stefnda og Ásmundur Magnússon og Hilmir Freyr Sigurðsson, verkefnisstjórar hjá Jarðvélum ehf.

Hilmar Guðmundsson sagðist hafa neitað að vinna frekar fyrir Jarðvélar ehf. á lóð stefnda, þar sem erfiðlega hefði gengið að fá greitt fyrir vinnuna. Því hefði hann hætt vinnu sinni. Í nóvember 2007 hefði Hilmir, verkefnisstjóri hjá Jarðvélum ehf., hins vegar hringt í sig og sagt sér að Smáragarður ehf. myndi sjá um greiðslur til sín. Hefði hann skilið samtalið þannig að hann fengi einnig greidda eldri reikninga, og hefði hann því hafið störf að nýju. Á vinnustaðnum hefði hann hitt fyrir Kristin, byggingarstjóra stefnda, og hefði Kristinn sagt sér að hann myndi sjá til þess að hann fengi borgað. Hefði hann tekið því þannig að Smáragarður ehf. ætlaði að annast allar greiðslur fyrir vinnu hans.

Í máli Karls Sigfússonar kom fram að hann hefði fyrir hönd stefnda borið ábyrgð á framkvæmdum á lóðinni að Skarfagörðum 2. Þegar hann hefði fengið veður af því að Jarðvélar ehf. stæðu ekki í skilum við undirverktaka sína, kvaðst hann hafa beitt sér fyrir því að Jarðvélar ehf. kæmu með tillögu að lausn, enda hefði hann haft af því áhyggjur að verkið kynni að tefjast eða stöðvast ella. Tillaga Jarðvéla ehf. hefði falist í því að þegar reikningur var sendur stefnda til greiðslu, fylgdi honum yfirlit þar sem fram kom hvernig skipta ætti greiðslunni á reikninga undirverktaka. Aðeins einu sinni hefði þetta þó gengið eftir, þar sem Landsbanki Íslands hf. hefði hringt í sig í nóvember og bent sér á að allir reikningar Jarðvéla ehf. hefðu verið veðsettir bankanum. Því hefði honum ekki verið heimilt að greiða frekar í samræmi við greiðslufyrirkomulagið. Karl kvaðst ekki fyrr hafa veitt því athygli að allir reikningar Jarðvéla ehf. höfðu verið veðsettir Landsbanka Íslands hf. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann aldrei hafa séð þá reikninga sem stefnandi byggir á í máli þessu, fyrr en málið var höfðað.

Í framburði Kristins Eiríkssonar kom fram að hann hefði vitað að Hefilverk ehf. hefði hótað að hætta vinnu fyrir Jarðvélar ehf., þar sem fyrirtækið fengi ekki greitt. Þvertók hann fyrir að hafa lofað fyrirsvarsmanni Hefilverks ehf. Smáragarður ehf. myndi greiða honum beint, hvorki eldri ógreiddra reikninga né síðari reikninga. Tók hann fram að hann hefði ekki verið í beinum samskiptum við Hefilverk ehf. og hefði hann aldrei séð þá reikninga sem deilt væri um í máli þessu.

Atli Bragason kvaðst m.a. hafa haft það hlutverk fyrir stefnda að yfirfara alla reikninga sem bárust frá Jarðvélum ehf. Því hefði hann aldrei séð reikninga frá stefnanda.

Ásmundur Magnússon kannaðist ekki við að samkomulag hefði verið um það milli Jarðvéla ehf. og stefnda að stefndi tæki að sér að greiða beint til undirverktaka Jarðvéla ehf. Hins vegar staðfesti hann að Jarðvélar ehf. og Smáragarður ehf. hefðu gert með sér samkomulag um fyrirkomulag greiðslna, í því skyni að tryggja að undirverktakar héldu áfram vinnu sinni og fengju greitt. Hann kvaðst ekki minnast þess að fyrirkomulagði hefði einnig átt að taka til eldri ógreiddra reikninga.

Hilmir Freyr Sigurðsson staðfesti að hann hefði talað við Hilmar, fyrirsvarsmann Hefilverks ehf., eftir að fyrirtækið hafði hætt vinnu sinni, og fengið hann til að koma aftur að verkinu. Hefði hann talið Hilmari trú um að búið væri að tryggja honum greiðslur fyrir vinnu hans. Bætti hann við að Smáragarður ehf. hefði þó aldrei tekið yfir verkið gagnvart undirverktökum Jarðvéla ehf.

Niðurstaða

Fram er komið að stefndi og Jarðvélar ehf. gerðu með sér verksamning um jarðvinnu á lóð stefnda að Skarfagörðum 2 hér í borg. Jarðvélar ehf. samdi við undirverktaka um ýmsa þætti verksins, þ.á m. við stefnanda. Fólst vinna stefnanda í því að hefla undir steypta plötu fyrirhugaðrar byggingar og bílastæðaplan.

Þegar leið á árið 2007 fór að gæta rekstrarerfiðleika hjá Jarðvélum ehf., sem leiddu til þess að fyrirtækið stóð ekki í skilum með greiðslur til undirverktaka. Munu undirverktakar hafa orðið órólegir vegna þessa og einhverjir þeirra hótuðu að að hætta störfum. Stefnandi mun hafa hætt störfum af þessum sökum, og tilkynnt það verkefnisstjóra Jarðvéla ehf., Hilmi Sigurðssyni.

Verkefnisstjóri hjá stefnda mun hafa fregnað að Jarðvélar ehf. greiddi ekki undirverktökum sínum, og kvaðst fyrir dómi hafa beitt sér fyrir því að Jarðvélar ehf. fyndi lausn á vanda fyrirtækisins gagnvart undirverktökum, þannig að þeir héldu störfum áfram og fengju greitt fyrir vinnu sína. Jarðvélar ehf. lagði þá tillögu fyrir stefnda að fyrirkomulagi greiðslna til Jarðvéla ehf. yrði breytt þannig, að í stað þess að stefndi greiddi inn á reikning Jarðvéla ehf., yrðu stofnaðir reikningar á nafni Jarðvéla ehf., sem hver undirverktaki hefði einn prókúru fyrir. Inn á þá reikninga rynnu síðan greiðslur til undirverktaka samkvæmt skiptingu frá Jarðvélum ehf. og að fenginni staðfestingu frá viðkomandi undirverktaka. Stefndi féllst á þessa tillögu og óskaði eftir því að Jarðvélar ehf. kynnti hana fyrir undirverktökum.

Í skýrslu Hilmis Sigurðssonar, verkefnisstjóra hjá Jarðvélum ehf., fyrir dómi, kom fram að hann hefði eftir þetta haft samband við fyrirsvarsmann stefnanda og fengið hann til vinnu á ný, þar sem tryggt væri að stefndi myndi annast greiðslur til Hefilverks ehf. Kvaðst fyrirsvarsmaður stefnanda hafa skilið þetta svo að stefndi ætlaði að tryggja honum bæði greiðslu eldri ógreiddra reikninga, sem og reikninga vegna frekari vinnu hans. Jafnframt hefði Kristinn Eiríksson, verkefnisstjóri hjá stefnda, sagst myndu sjá til þess að hann fengi borgað fyrir vinnu sína.

Í vitnisburði verkefnisstjóra stefnda og Jarðvéla ehf. fyrir dómi kom fram, að aðeins einu sinni hefði reynt á þetta greiðslufyrirkomulag, en líklega hefði stefnandi þá ekki verið á meðal þeirra sem þannig fengu greitt. Þegar greiða átti næst samkvæmt sama fyrirkomulagi hefði Landsbanki Íslands hf. hins vegar komið í veg fyrir greiðslur. 

Í máli þessu er óumdeilt að enginn samningur var á milli stefnda og stefnanda, né annarra undirverktaka Jarðvéla ehf. Ekki er heldur um það ágreiningur að stefndi hefur að fullu gert upp við Jarðvélar ehf. á grundvelli verksamnings þeirra. Þá liggja engin gögn því til stuðnings að stefndi hafi ábyrgst stefnanda greiðslu fyrir vinnu hans, að öðru leyti en fólst í  samkomulagi stefnda og Jarðvéla ehf. um fyrirkomulag á greiðslu til undirverktaka. Það samkomulag fól þó ekki í sér annað en að stefndi greiddi reikninga Jarðvéla ehf., en fjárhæðinni var skipt út á undirverktaka þess fyrirtækis samkvæmt fyrirmælum verkefnisstjóra Jarðvéla ehf. Verður ekki á það fallist að með slíku fyrirkomulagi hafi stefndi stofnað til samningssambands við stefnanda. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 260.000 krónur.

Dóminn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Smáragarður ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Hefilverks ehf.

Stefnandi greiði stefnda 260.000 krónur í málskostnað.