Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 30. ágúst 2005. |
|
Nr. 314/2005. |
K(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
K höfðaði mál á hendur M og krafðist forsjár A, sonar þeirra. Svo fór að gerð var dómsátt á milli þeirra þess efnis að forsjáin fluttist til M, en óleyst var úr ágreiningi um málskostnað. Talið var óhjákvæmilegt að líta svo á, að K hefði með dómsáttinni tapað málinu í öllu verulegu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varð því til samræmis að dæma K til greiðslu málskostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. júní 2005, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem var lokið að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 80.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. júní 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. júní sl. var þingfest þann 8. desember 2004.
Dómkröfur stefnanda voru þær að henni yrði með dómi einni falin forsjá sonarins A kt. [...] til 18 ára aldurs hans, að dæmt yrði að stefndi greiddi stefnanda einfalt meðlag með syninum frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hans og að kveðið yrði með dómi á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fengi forsjá sonarins skv. nánari lýsingu í stefnu.
Að auki krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti óháð því hvort stefnandi fengi gjafsóknarleyfi vegna málsins.
Í greinargerð krafðist stefndi sýknu af kröfum stefnanda og að honum yrði falin forsjá A til 18 ára aldurs hans og að honum yrði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda og að tekið yrði þá tillit til skyldu lögmanns að innheimta 24,5 % virðisaukaskatt.
Í þinghaldi þann 2. júní sl. lýstu aðilar því yfir að með þeim hefði tekist sátt í málinu um annað en málskostnað. Væru aðilarnir sammála um að fella málið niður en leggja málið í úrskurð um málskostnað. Að ósk aðila var málinu síðan frestað til 14. júní sl. til þess að lögmenn gætu þá reifað málið nánar að þessu leyti og lagt fram málskostnaðarreikninga ásamt yfirlitum um vinnuframlag lögmannanna.
Með þeirri dómsátt sem aðilar máls þess gerðu með sér þann 2. júní sl. var forsjá beggja sonanna, A og B kt. [...] flutt til stefnda til 18 ára aldurs og stefnanda gert að greiða einfalt meðlag með þeim báðum. Loks var þar kveðið allítarlega á um umgengni drengjanna við stefnanda.
Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi til reksturs málsins fyrir héraðsdómi með leyfi dómsmálaráðuneytisins þann 21. febrúar 2005.
Af hálfu stefnanda var því lýst yfir við flutning málsins um málskostnaðarþáttinn að fallið væri frá kröfu um málskostnað úr hendi stefnda og þess í stað krafist að málskostnaður verði felldur niður. Málskostnaðarkrafa stefndu er óbreytt.
Með þeirri dómsátt sem aðilarnir hafa gert í máli þessu liggur fyrir að stefnandi fékk í engu framgengt dómkröfum sínum er lúta að forræði og meðlagi með syninum A. Verður heldur ekki fallist á það með henni að með sáttinni hafi fengist aukin umgengni við drenginn en áður svo nokkru nemi og þar með hafi markmiði málssóknarinnar verið náð. Í þessu ljósi og með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda því gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 280.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns. Þykir þóknun að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðinn 280.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Stefnandi, K, greiði stefnda, M, 280.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 280.000 krónur.