Hæstiréttur íslands

Mál nr. 727/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                            

Mánudaginn 9. nóvember 2015.

Nr. 727/2015.

A

(Gunnhildur Pétursdóttir hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2015 sem barst réttinum 26. þess mánaðar en kærumálsgögn bárust 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga til sviptingar sjálfræðis sóknaraðila í eitt ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2015.

Með beiðni, sem barst dóminum 5. október sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, [...], [...] , verði með vísan til a- og b-liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í tvö ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími.

Í kröfu sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili, sem er [...] ára að aldri, hafi að undanförnu búið á gistiheimili hér í borg. Hann hafi flutt til Íslands vorið [...] eftir að hafa búið í [...] í 12 [...]. Varnaraðili hafi verið öryrki frá árinu 1998. Líkur séu taldar á að hann hafi orðið fyrir heilaskaða, bæði vegna blóðtappa sem hann fékk í heila fyrir um þremur árum síðan og einnig vegna endurtekinna slagsmála og höfuðhögga. Þá eigi hann sér sögu um misnotkun áfengis og annarra vímuefna. Af þeim sökum hafi varnaraðili oft verið vistaður á meðferðarstofnunum fyrir einstaklinga sem misnoti fíkniefni. Auk þess hafi varnaraðili framið endurtekin fíkniefna- og auðgunarbrot og afplánað dóma vegna þeirra. Varnaraðili hafi í langan tíma glímt við geðræn veikindi og verið lagður inn á geðdeild, sem og notið þjónustu á göngudeildum bæði hér á landi og í [...]. Hann hafi verið vistaður ítrekað á geðdeild vorið og sumarið 2014. Hinn 8. september 2014 hafi hann að beiðni sóknaraðila verið sviptur sjálfræði tímabundið í tólf mánuði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Varnaraðili hafi í kjölfar þess legið inni á geðdeild í rúmlega sex mánuði en útskrifast þann 19. febrúar sl. Hinn 9. september sl. hafi hann komið að nýju til innlagnar á geðdeild vegna geðrofseinkenna,  en hann hafði þá verið í meðferð á Vogi í tvær vikur. Að morgni 15. september sl. hafi hann verið mjög órólegur og viljað útskrifast. Hafi því verið talið nauðsynlegt að hann yrði nauðungarvistaður í 48 klst. Í kjölfarið hafi sóknaraðili staðið að nauðungarvistun í 21 dag sem rann út 7. október 2015. Varnaraðili sé mjög ósáttur við að vera nauðungarvistaður og neiti allri lyfjagjöf. 

Krafa sóknaraðila um sviptingu sjálfræðis tímabundið til 12 mánaða byggist á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm og fíknivandamál að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a-og b-lið 4. gr. lögræðislaga.

Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð frá B yfirlækni [...] á Landspítalanum, frá 1. október sl., þar sem sjúkrasaga varnaraðila er rakin nánar. Fram kemur að hann sé með augljós geðrofseinkenni og ekki fær um að sjá um sig sjálfur. Miðað við fyrri reynslu séu líkur til þess að hann geti með meðferð hlotið nokkuð góðan bata, en það geti tekið tíma. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að varnaraðili hafi ekki innsæi í sjúkdómseinkenni sín og afþakki alla meðferð. Það sé enginn vafi á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða að minnsta kosti sjúkdómseinkennum sem jafnist á við alvarlegan geðsjúkdóm og að áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg. Án hennar stefni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleika sínum á bata. Án meðferðar á geðdeild sé hann einnig hættulegur. B staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Hún vísaði m.a. til þess að varnaraðili hefði að baki langa sögu um neyslu fíkniefna. Þá hefði hann verið með langvarandi geðrofseinkenni. Hann vilji ekki taka nein lyf, m.a. blóðþynningarlyf sem séu honum lífsnauðsynleg að mati hjartalækna. Þá sé hann með ranghugmyndir, m.a. um valdabaráttu í andaheimum, sé mjög tortrygginn í garð annarra og gagnvart fæðu. Var framburður hennar afdráttarlaus um að nauðsynlegt væri að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði í eitt ár til þess að unnt yrði að veita honum læknisaðstoð.

Varnaraðili aflaði sjálfur vottorðs hjá C sérfræðingi í geð- og embættislækningum. Í vottorði læknisins frá 16. október sl. kemur fram að varnaraðili sé með fjölfíkn, geðrof tengt neyslu fíkniefna, með Marfans-heilkenni, auk hjarta- og æðasjúkdóms og þá þjáist hann af minnisskerðingu vegna heilablóðfalls. Geðrof sé með ofsóknarhugmyndum, varnaraðili sé með verulega skerta hugræna getu og þá sé hegðun hans illútreiknanleg svo að hætta getur stafað af. Hann sé nú, þrátt fyrir að margar vikur séu frá því að hann var í neyslu, enn með geðrof. Hann hirði í dag hvorki um meðferð við geðsjúkdómi sínum né hjartasjúkdómi og sé innsæislaus með tilliti til eigin heilsu. Ljóst sé að hann sé í dag ófær um að sinna velferð sinni og verði hann ekki sviptur sjálfræði muni hann stefna heilsu sinni í voða og möguleikum á bata. Þá sé sýnt að hann geti í núverandi ástandi verið sjálfum sér og umhverfi sínu hættulegur. C staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Hann kvað niðurstöðu sína byggja fyrst og fremst á sjúkrasögu varnaraðila. Varnaraðili hefði jafnframt í viðtalinu sýnt af sér ógnandi hegðun sem ekki væri hægt að útskýra með þreytu einni og sér. Var framburður hans afdráttarlaus um að nauðsynlegt væri að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði í eitt ár til þess að unnt yrði að veita honum læknisaðstoð.

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann telur sig ekki eiga við nein veikindi að stríða sem þarfnist meðhöndlunar. Veikindi hans eigi frekar rætur að rekja til geðlyfja sem honum hafi verið gefin af læknum.

Niðurstaða:

Eins og að framan er rakið liggur fyrir vitnisburður tveggja geðlækna um að varnaraðili hafi verið með langvarandi geðrof og eigi við alvarlegan heilsubrest að stríða sem þarfnast meðhöndlunar. Þá á hann við vímuefnavanda að stríða. Var framburður læknanna afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita honum fullnægjandi læknismeðferð en vegna skorts á innsæi í sjúkdóm sinn og ástand hafi varnaraðili ekki skilning á að meðferð sé honum nauðsynleg. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að sjá fyrir persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo að tryggja megi honum viðeigandi læknis­meðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varn­ar­aðili verði sviptur sjálfræði í eitt ár en vegna alvarleika veikinda varnaraðila eru ekki efni til að marka sviptingunni skemmri tíma. Í því samhengi er enn fremur til þess að líta að varnaraðili á þess kost, skv. 15. gr. sömu laga, að krefjast niðurfellingar sjálfræðissviptingarinnar að sex mánuðum liðnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, telji hann að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Pétur Skúlason hdl. vegna Ívars Bragasonar hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Gunnhildur Pétursdóttir hdl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í eitt ár.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 198.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.