Hæstiréttur íslands

Mál nr. 521/2016

A og B (Gísli M. Auðbergsson hrl.)
gegn
Barnaverndarnefnd C (Ingvar Þóroddsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að synir A og B skyldu vistaðir utan heimilis í níu mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2016, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að synir sóknaraðila, D og E, skyldu vistaðir utan heimilis sóknaraðila í níu mánuði frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað, en til vara að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 350.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2016

Sóknaraðili máls þessa er Barnaverndarnefnd C en varnaraðilar eru A, [...], [...], og B, [...], [...].

Málið var tekið til úrskurðar 22. júní. Það er komið til dómsins með bréfi Sigmundar Guðmundssonar hdl. fyrir hönd sóknaraðila, dags. 6. maí og mótt. 10. maí, þar sem gerð er sú krafa að ráðstöfun sú, sem kveðið var á um í úrskurði stefnanda, uppkveðnum 16. marz, um vistun tveggja drengja varnaraðila, þeirra D, fædds [...] 2015, og E, fædds [...] 2011, verði framlengd í allt að tólf mánuði, sbr. 1. mgr. 27. og 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að drengirnir D og E verði vistaðir á fósturheimili á vegum sóknaraðila í allt að tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefjast varnaraðilar þess að vistuninni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, eins og gjafsóknar nyti ekki við.

Málavextir

Varnaraðilar eiga saman drengina E, fæddan [...] 2011, og D, fæddan [...] 2015. Gögn málsins greina frá ýmsum afskiptum barnaverndaryfirvalda á [...] og í [...] í [...] af málefnum fjölskyldunnar.

Afskipti sóknaraðila fyrir flutning varnaraðila til [...]

Samkvæmt dagnótum sóknaraðila barst tilkynning í ágúst 2013 um mikla ólykt í íbúð fjölskyldunnar og af föðurnum. Hafi varnaraðilar tekið að sér hunda í gæzlu og hafi tíu hundar verið þar á tilteknum tíma. Íbúðin sé 60 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Nokkurum dögum síðar barst önnur tilkynning um vanrækslu drengs varnaraðila og getið um mikinn óþrifnað á heimilinu vegna mikils fjölda hunda. Voru varnaraðilar fengnir í viðtal vegna þessa. Síðar í mánuðinum var af hálfu sóknaraðila farið á heimilið. Er bókað að þá hafi þar verið snyrtilegt, þar á meðal í svefnherbergjum. Þrír hundar hafi verið í gæzlu og haft eftir föður að ekki yrði aftur tekið við eins mörgum hundum og áður. Er í nótunum bókað um þá niðurstöðu að eðlilegar skýringar hafi verið gefnar á málinu og því lokið. Í apríl 2014 er bókað um tilkynningu frá leikskóla drengsins. Segir þar að hreinlæti hans sé oft ábótavant, hann komi skítugur í leikskólann og fatnaður hans sé oft óhreinn. Mæting hans sé óregluleg, komi oft of seint og sé sóttur of seint, en foreldrar svari ekki í síma. Jafnframt er skráð tilkynning frá lögreglu um að afskipti hafi verið höfð af föðurnum á [...], hann hafi verið mjög óþrifalegur og talinn undir áhrifum lyfja eða vímuefna. Þá er skráð tilkynning frá starfsmanni orkufyrirtækis sem komið hafi á heimilið til að innheimta skuld. Hann hafi lýst mjög miklum sóðaskap á heimilinu og að faðir hafi verið ör og ógnandi í framkomu. Loks er skráð tilkynning frá lögreglu um afskipti af föður sem hafi verið undir bersýnilegum áhrifum vímuefna og sjálfur sagt svo frá að hann hefði neytt kannabisefna.

Í nótunum er bókað um viðtal við varnaraðila. Er þar haft eftir föður að hann sé „fíkill inn að beini“ en vilji losna úr neyzlu. Eigi hann margar meðferðir að baki og hafi þær ekki virkað vel á hann. Í lok apríl er bókað um tilkynningu frá [...] að móðir hafi leitað þar aðstoðar vegna fráhvarfa eftir amfetamínneyzlu. Hafi hún ekki verið undir áhrifum og ekki að leita efna. Hún hafi lýst vilja til að hætta neyzlu og fengið upplýsingar um ráðgjafa sem hún hafi ætlað að leita til.

Í maí 2014 er bókað um tilkynningu um að varnaraðilar séu í mikilli fíkniefnaneyzlu og stundi jafnframt sölu slíkra efna. Heimilið sé mjög skítugt og óþrifalegt og drengurinn illa þrifinn. Síðar í sama mánuði er bókað um aðra tilkynningu um vanrækslu drengsins vegna fíkniefnanotkunar á heimilinu og óþrifnaðar þar. Í maí er einnig bókað um samstarfsfund sem hafi verið haldinn með varnaraðilum. Þeir hafi gefið sínar skýringar og lýst sig tilbúna til að nýta þann stuðning sem í boði væri.

Í júní 2014 er bókað að gerð verði ný áætlun með varnaraðilum til að glíma við þann vanda sem þeir eigi í. Þar verði ákvæði um stuðning heim, samráð við leikskóla um uppeldisráðgjöf og þeim boðin aðstoð við að leita sér meðferðar við fíkniefnavanda.

Í júlí 2014 er bókað að tilkynning hafi komið frá starfsmanni [...] um að fíkniefnasala sé stunduð frá heimilinu og faðir neyti líklega efna sjálfur. Síðar í mánuðinum er bókað um viðtal við varnaraðila. Farið hafi verið yfir stuðningsáætlun og varnaraðilar lýst sig sátta við hana, en vilji stuðningsviðtöl á göngudeild SÁÁ og AA fundi fremur en að sækja meðferð á Vogi.

Í ágúst er bókað um tilkynningu um að íbúð varnaraðila sé „eins og hænsnakofi“, þar sé neytt fíkniefna, þar sé „læknadóp“, kannabis og amfetamín, „þarna er reykt í litlu herbergi og barnið í herberginu, hóstandi – [faðir] búinn að vera vakandi í marga sólarhringa.“ Barnið hafi verið hresst og kátt og ekkert ofbeldi sýnilegt, „en aðstæður skelfilegar“. Segir svo að fjölskyldan sé á leið til [...] og hafi tilkynnandi haft af því áhyggju því ekkert myndi breytast við flutninginn. Síðar í mánuðinum er bókað um aðra tilkynningu um vanrækslu drengsins venga vímuefnanotkunar á heimilinu.

Í september 2014 er bókað að fjölskyldan sé að flytja eða sé flutt til [...]. Nauðsynlegt sé að flytja málið til barnaverndaryfirvalda þar.

Afskipti yfirvalda í [...]

Afskipti [...] yfirvalda af málefnum fjölskyldunnar munu, samkvæmt gögnum sem stafa frá barnaverndaryfirvöldum í [...], hafa byrjað að kvöldi 30. júní 2015 er lögregla var send á heimili varnaraðila vegna heimilisófriðar. Er lögregla kom á vettvang var ró á staðnum en í tilkynningarskýrslu segir að glöggt hafi mátt sjá að mikið rifrildi hefði verið. Móðir er sögð hafa verið í uppnámi en allsgáð og róleg en faðir undir áhrifum áfengis og kannabiss. Segir í skýrslunni, samkvæmt þýðingu lögg. skjalaþýðanda: „Mikil óreiða var í íbúðinni og það var greinilegt að þar hafði ekki verið þrifið lengi. Í svefnherberginu lá lítill drengur, E, og starði út í loftið og hélt dauðahaldi í sængina sína. Aðstæðurnar höfðu greinilega áhrif á hann, en hann varð rólegri þegar faðirinn tók hann upp.“ Er haft eftir föður að hann hafi verið á tólf klukkustunda vakt í vinnu á veitingastað og fyndi fyrir mikilli streitu þar sem móðir ætti að eiga barn daginn eftir. Hann hefði drukkið allmikið eftir vinnuna en móðir hrópað og hrópað á hann. Lögregla hafi í framhaldi af viðræðum þeirra fundið 47,9 g af hassi á skrifborði og hafi faðir játað að eiga það.

Samkvæmt tilkynningarskýrslu dags. 15. ágúst 2015 hafði móðir samband við lögreglu. Hitti lögregla hana fyrir á heimili nágrannakonu og var móðir þá með ungabarn með sér, vafið í handklæði. Er haft eftir henni að maður hennar væri á sameiginlegu heimili þeirra, ásamt fjögurra ára gömlum syni þeirra, og þau verið að rífast. Hafi hún leitað skjóls í næsta húsi þar sem „maður hennar hefði hótað henni bæði munnlega og líkamlega.“ Lögregla fór inn á heimili þeirra og segir í skýrslunni að anddyri, eldhús og stofa hafi verið „draslaraleg og nokkuð óþrifaleg, þar sem þar mátti finna matarleifar, diska, föt og annað dót á mörgum láréttum flötum. Það voru margar tómar bjórflöskur hér og þar í húsinu.“ Feðgarnir hafi legið í tvíbreiðu rúmi og báðir sofandi. Drengurinn hafi verið færður móður sinni en faðirinn handtekinn og fjarlægður. Hann hafi verið „metinn mjög drukkinn.“ Er haft eftir móður að faðir hafi „oft áður verið ofbeldisfullur gagnvart sér en að allt hefði stigmagnast í dag. Hann hafði drukkið og tekið töflur.“ Töflurnar hefðu verið verkjalyf sem móður hefði verið ávísað.

Samkvæmt vaktskýrslu [...], dags. sama dag, 15. ágúst, barst tilkynning um fjölskylduna. Segi vitni „að þar sé oft heimilisófriður, þau slái hvort annað, maðurinn kaupi vímuefni frá bíl, áfengi kemur greinilega við sögu og í nótt gekk konan um og bankaði upp á hjá nágrönnum til að fá hjálp við að hafa samband við lögreglu þar sem maðurinn hefði drukkið og væri orðinn geðveikur. Hún var hrædd og sagði lögreglu að hún óskað eftir að maðurinn fengi aðstoð frá sálfræðingi.“ Í skýrslunni er getið um heimsókn nafngreinds starfsmanns til fjölskyldunnar daginn eftir. Er þá friður og ró og faðir að gefa yngri drengnum pela. Er haft eftir föður að hann hafi ekki „drukkið í 5 ár, en hafi fallið tvisvar á síðustu 3 mánuðum, [hann] segir þetta vera vegna streitu af því móðir hans sé væntanleg á morgun. [Móðir] segir að ef [faðir] hætti ekki fari hún aftur til Íslands með börnin. [Föður] er ljós þessi ákvörðun. [Faðir] er mjög leiður yfir því sem hefur gerst.“ Bókað er að rætt hafi verið við eldri drenginn sem sé „ljúfur og brosandi drengur“. Mikið drasl sé í allri íbúðinni, rúmföt virðist vera „mjög sjúskuð“ og faðir og eldri drengurinn séu í óhreinum fötum. Er haft eftir föður að hann þurfi ekki að líta vel út heima hjá sér, rúmföt séu í þvotti. Móðir segist aðspurð treysta aðstæðum á heimilinu. Loks segir að „andblærinn í fjölskyldunni virðist í lagi“.

Í málinu liggur þýðing lögg. skjalaþýðanda á skýrslu [...], dags. 3. september 2015. Þar segir gerð hafi verið athugun á foreldrahæfni varnaraðila með tilliti til umönnunar ungabarns. Í niðurstöðum segir: „Núna virðist D almennt sneiða hjá augnsambandi, og hann hefur greinilega heldur ekki sýnt leitaratferli gagnvart starfsfólki eða foreldrum sínum í samræmi við aldur. D virðist einnig sýna lítil tilfinningaleg blæbrigði, hann er annað hvort óvirkur eða grátandi. Í síðustu skoðunum hefur tengslaleysi D virst vaxandi en það er áhyggjuefni hvað varðar tilfinningalegan og félagslegan þroska hans. D sýnir mörg einkenni sem eru talin tengjast streitu. Þar með talin er líkamleg spenna hans, hraður andardráttur og matarmunstur hans. Það er einnig mjög erfitt að koma reglu á D. Það er talið að staða D sé þannig nú að hann hafi þörf fyrir fullorðinn með sterk tengsl sem hefur næmni til að lesa í og uppfylla þarfir hans á öllum sviðum. Haldi D áfram á þeirri þroskabraut sem hann er á núna er hætta á varanlegu tengslaleysi sem leiðir til að þroski hans verði langt frá því sem eðlilegt telst. Það er talið að þá tengslahæfni sem D sýnir nú megi eigna því sem starfsfólk [...] bætir honum upp vikudagana 5 auk þess sem fjölskyldan hefur að öllum líkindum haft umframkrafta fyrir D vegna heimsókna frá umhverfinu. [Móðir] kemur fyrir sem óörugg kona með dapurlegan sviplítinn andlitssvip. Það virðist sem samvistir [móður] og D einkennist oft af skorti á gleði og frumkvæði. Tekið er eftir skorti á augnsambandi og gagnkvæmni milli þeirra. [Móðir] tekur ekki eftir og hefur ekki orð á tilfinningalegri tjáningu D, frumkvæði hans og merkjum, og það hefur í för með sér að D fær ekki viðbrögð við eigin tilfinningum og aðstoð við að stjórna þeim. [Faðir] virðist víkja sér undan augnsambandi og sýnir almennt líkamlegan óróleika. Það er að sjá að [faðir] geti aðeins að mjög litlu leyti haldið fókus og einbeitt sér að því að halda augnsambandi og samspili við D. Þetta hefur í för með sér að [faðir] verður D ófyrirsjáanlegur og ógreinilegur og að hann er ekki traustur og aðgengilegur fullorðinn sem er til staðar fyrir hann. Það er metið svo að [faðir] hafi ekki þekkingu á þroska barna og þörfum. Það má sjá að [varnaraðilar] búa við aðstæður heima þar sem oft skortir peninga fyrir mat og að þau geti heldur ekki tryggt börnum sínum og sjálfum sér nægilegt hreinlæti. Það er metið svo að [varnaraðilar] eigi erfitt með að lesa í og bregðast á viðeigandi hátt við tilfinningalegum og félagslegum þörfum D. Það er einnig metið svo að á núverandi tímapunkti geti [varnaraðilar] ekki yfirfært ráð og leiðbeiningar í nægilegum mæli með tilliti til að tryggja velferð D og þroska nú og til lengri tíma litið. Það er því metið svo að á núverandi tímapunkti séu [varnaraðilar] ekki í stakk [búnir] til að sjá um frumumönnun D þannig að tilfinningaleg og félagsleg velferð hans og þroski sé tryggður.“

Í málinu liggur skjal undir heitinu Fagleg könnun á aðstæðum barns og er í þýðingu lögg. skjalaþýðanda. Upphafsdagsetning er skráð 13. ágúst 2015 en lokadagsetning 7. september. Í samantekt segir að eldri drengnum sé lýst sem dreng sem oft sé óhreinn, ósnyrtilegur og ekki klæddur í samræmi við árstíðir. Hann skorti innsýn í almennar venjur með tilliti til máltíða, salernisferða og fleira. Hann er metinn með góða grundvallarhæfni en sagður koma fyrir sem „hlutlaus hvað varðar tilfinningalega framkomu“, hljóðlátur og hlédrægur og birti fáar tilfinningalegar sveiflur. Hann samsami sig ekki foreldrum sínum „í leik, samspili eða aðstæðum þar sem hann er óöruggur eða þarfnast varnar.“ Hann er sagður leitast mjög við að „lifa upp til væntinga foreldranna og krafna“. Leikskóli er sagður lýsa honum þannig „að hann bregðist mjög kröftuglega við kröfum t.d. varðandi að þvo hendur, salernisferðir, tiltekt, máltíðir o.fl.“ Hann virðist því eiga í „erfiðleikum með tilliti til sjálfsstjórnar.“ Um yngri drenginn segir meðal annars að honum, sem sé níu vikna gamall, sé lýst þannig að „hann sýni mörg einkenni sem er talið að tengja megi við streitu, þ.m.t. líkamleg spenna, hraður andardráttur og óreglulegt matarmynstur.“ Lítil blæbrigði megi sjá í tilfinningaviðbrögðum hans. Hann víki sér undan augnsambandi „og í síðustu skoðunum hefur hann í vaxandi mæli virkað eins og ekki náist tengsl við hann“. Er þetta rakið til þess að hann sé undir miklu álagi. Sé talin mikil ástæða til að hafa miklar áhyggjur af viðbrögðum hans og þörf á faglegum stuðningi strax ef hann eigi ekki að þroskast í aðra átt en eðlilegt sé. Í skjalinu segir einnig að íbúð þeirra sé lítil og að þar sé ekki mikið rými fyrir fjögurra manna fjölskyldu: „Þetta sést mjög greinilega í húsnæðinu, auk þess sem það er óhreint, draslaralegt og kemur ekki fyrir sem heimili þar sem börn eru að alast upp. Foreldrarnir hafa á tímabilinu (frá 01.07.15 til dagsins í dag) fengið aðstoð við þrif en þrátt fyrir það er íbúðin áfram ruslaraleg og oft óþrifaleg auk þess sem foreldrarnir og E eru oft óhrein og í óhreinum fötum. Báðir foreldrar teljast eiga í erfiðleikum með að skapa yfirsýn, umgjörð og veita börnunum stöðuga grundvallarumönnun og þeim hefur því ekki tekist þrátt fyrir umfangsmikinn stuðning að breyta aðstæðum á heimilinu. Þar að auki virðist fjölskyldan lifa á lágmarksupphæð og hefur m.a. verið háð aðstoð frá frjálsum hjálparaðilum til að skapa heimili og fá mat í öll mál. Umhugsun [varnaraðila] um heimilið og þau grundvallar skilyrði sem barn hefur þörf fyrir telst ekki nægileg og þau eru ekki talin geta skapað traust og öruggt heimili fyrir börnin að alast upp í. Lífsaðstæður barnanna eru taldar mjög brotakenndar og mótast af miklum óstöðugleika. Skortur [varnaraðila] á getu til að skapa yfirsýn, höndla eigin erfiðleika og veita stöðuga og tilfinningalega samstillta umönnun gerir það að verkum að þau munu ekki vera í stakk búin til að breyta lífsaðstæðum barnanna og þannig geta þau ekki verndað og varið drengina frá innbyrðis átökum sínum, misnotkunarvandamálum og öðrum umfangsmiklum persónulegum vandamálum. Framkoma drengjanna og viðbrögð er eins og vænta má hjá börnum sem búa í fjölskyldum þar sem eiga sér stað umfangsmikil átök, misnotkun og um er að ræða óörugga og ógreinilega foreldra o.s.frv.“ Þá segir: „Þrátt fyrir að fjölskyldudeildin hafi aðeins haft tiltölulega stutt kynni af fjölskyldunni hefur það sýnt sig í hinum mismunandi fyrirbyggjandi inngripum og aðgerðum að það hefur ekki verið mögulegt að breyta uppvaxtarskilyrðum barnanna. Það er metið þannig nú að áhrif hinna ýmsu inngripa séu of lítil þegar horft er til neikvæðra þátta í þroskaferli barnanna – og hættu á frekari neikvæðri þróun hvað það varðar, og horft er til hinna umfangsmiklu persónulegu [erfiðleika] foreldranna og [skorts] á viðvarandi viðbrögðum við að verða traustir, fyrirsjáanlegir og umhyggjusamir foreldrar. Það er metið svo að foreldrarnir geti ekki tryggt grundvallarumönnun drengjanna og þar sem þroski þeirra hefur vikið mjög frá því sem eðlilegt telst er nauðsynlegt að grípa miklu markvissar inn ef á að tryggja þroska- og uppvaxtarskilyrði drengjanna. Báðir drengir eru taldir hafa þörf fyrir öflugan og faglegan stuðning – með vistun í fósturfjölskyldum, þannig að þeir mæti daglega traustum, fyrirsjáanlegum og umhyggjusömum fullorðnum sem hafa mikla þekkingu á einstaklingum sem hafa gengið í gegnum alvarleg áföll og börnum með þroskaferil sem vikið hefur mjög frá því sem eðlilegt má teljast. Það er því enn frekar áhyggjuefni að foreldrarnir eftir fund aðila vegna vistunar barnanna þann 01.09.15 velja að móðir og börn taki ekki lengur þátt í fjölskyldumeðferðinni og hverfa í kjölfarið. Síðast upplýsti [faðir] að [móðir] og börnin séu erlendis. [Móðir] er ekki talin hafa nægar bjargir og getu til að sinna umönnun E og D upp á eigin spýtur. E og D eru því í AUGLJÓSRI [svo] hættu á að enn frekar muni skorta á velferð þeirra og eðlilegan þroskaferil vegna óheppilegra gjörða foreldranna og ónægrar umhyggju fyrir þeim.“

Þá liggur fyrir í málinu, í þýðingu lögg. skjalaþýðanda, skjal er geymir lýsingu á heimili varnaraðila, unnin af tveimur nafngreindum uppeldis- og fjölskylduráðgjöfum [...]. Segir þar meðal annars að þegar haldinn hafi verið innleiðingarfundur á heimilinu hafi hreingerningafyrirtæki verið að taka til og þrífa. Hafi fyrirtækið verið með þrjá menn á staðnum sem hafi unnið í sex klukkustundir og ætlað að koma aftur daginn eftir. Segir svo: „Fáum dögum eftir að þrifunum var lokið á heimilinu fór það að sýnast ruslaralegt aftur. [...] Það er líka tekið eftir því að eftir að skipt hefur verið um bleyju eru óhreinu bleyjurnar lagðar í hilluna þar sem vel geta verið 3-4 í einu, það var dót og föt á gólfinu o.s.frv.“ Síðar segir: „Eftir 14 daga er heimilið orðið afar ruslaralegt og óhreint, það eru föt, leikföng, rusl og álíka alls staðar.“ Er haft eftir föður að hann muni taka til og þrífa. Megi svo sjá að hann hafi „tekið svolítið til daginn eftir og hann hefur einnig þrifið lítið eitt svo heimilið virðist ekki eins draslaralegt og óhreint.“ Er haft eftir föður að þau gætu vel þegið leiðbeiningar um hvernig halda skuli heimili hreinu. Loks segir að íbúðin sé mjög lítil fjórum einstaklingum. „Fjölskyldan hefur líka haft samband við fjölmörg hjálparsamtök á netinu og hefur fengið mjög mikið af fötum, hlutum og leikföngum í svo miklu magni að þau hafa alls ekki pláss fyrir það hvorki hvað varðar tiltekt eða rými. [Faðir] segir að þau verði að afþakka að fá svo marga hluti gefins framvegis.“

Afskipti sóknaraðila eftir flutning varnaraðila til Íslands

Í málinu liggur „samantekt bókana teymisfunda í barnavernd og bókana barnaverndarfunda“ í málum drengjanna.

Hinn 30. september 2015 er bókað að móðir sé komin með lögheimili á [...] en faðir sé enn í [...]. Aðstæður hafi verið kannaðar og sé ekki talið að drengirnir séu í bráðri hættu þannig að nauðsynlegt sé að beita neyðarráðstöfun sbr. 31. gr. barnaverndarlaga. Bókað er að farið hafi verið yfir ýtarleg gögn sem komið hafi frá barnaverndaryfirvöldum í [...] sem hafi lagt til að drengirnir yrðu vistaðir utan heimilis í eitt ár, en móðir farið með þá til Íslands áður en sú tillaga kæmi fyrir úrskurðarnefnd. Bókað er að upplýsingar frá [...] og gögn frá fyrri vinnslu á [...] gefi til kynna að „vandinn sé það djúpstæður að engar líkur [geti] talist á því að flutningur móður og barna til Íslands verði til að leysa hann.“ Bókuð er sú niðurstaða að sótt verði um fóstur til Barnaverndarstofu og málið undirbúið fyrir barnaverndarnefnd með tillögu um úrskurð og fóstur ef samþykki foreldra fáist ekki. Jafnframt verði gerð áætlun með móður til skamms tíma um stuðning og eftirlit meðan beðið sé frekari ákvarðana.

Hinn 7. október er bókað að þýðing [...] gagna muni taka nokkurar vikur. Á þeim tíma þurfi að gera áætlun um meðferð málsins og að þar verði ákvæði um eftirlit og tilsjón með heimilinu, að foreldrar undirgangist fíkniefnapróf samkvæmt kröfu, að eldri drengurinn mæti á leikskóla, ungbarnavernd sé sinnt og barnavernd fylgist með líðan og þroska drengjanna. Áætlunin gildi til tveggja mánaða.

Barnaverndarnefnd fjallaði um málið á fundi hinn 10. nóvember 2015 og komu varnaraðilar á fundinn ásamt móður varnaraðilans A. Voru gögn frá [...] barnaverndaryfirvöldum lögð fram. Í greinargerð starfsmanna sóknaraðila sem lögð var fram á fundinum er lagt til að „núverandi stuðningi verði haldið áfram með þeirri viðbót að aukið verði við stuðning og leiðbeiningar vegna yngri sonarins í samvinnu við ungbarnavernd. Tilsjón á heimilið verði aukin þannig að hún komi nú inn í formi ráðgjafar og leiðbeiningar, auk eftirlits, og að sótt verði um tímabundið fóstur fyrir bræðurna til Barnaverndarstofu. Ákvörðun verður tekin um framhald þessa þáttar, (þ.e. hvort börnin fara í fóstur), þegar svar berst við þeirri umsókn. Framhaldið verður þá ákveðið, bæði með hliðsjón af þeim fósturheimilum sem til greina koma en þó umfram annað út frá því hvernig stuðningsaðgerðir hafa gengið og hvernig aðbúnaði barnanna verður háttað.“ Þá segir „að það sé grundvallaratriði að foreldrar barnanna haldi sig frá neyslu fíkniefna og muni þeim bjóðast allur mögulegur stuðningur svo í því efni.“ Á fundinum kom fram hjá varnaraðilum að þeir vildu að drengirnir færu til náinna ættingja sinna, svo sem föðurömmu, frekar en til vandalausra. Þá er haft eftir föður að áfengis- og vímuefnavandi hans sé nokkuð orðum aukinn í gögnum málsins. Hann sé hins vegar tilbúinn að skila þvagprufum til heimilislæknis. Bókað er af hálfu nefndarinnar að tillaga um að sótt verði um fóstur feli ekki í sér ákvörðun um vistun utan heimilis, slíkt verði ekki gert meðan aðbúnaður barnanna á heimilinu sé viðunandi. Var starfsmönnum stefnanda falið að vinna áfram að málinu.

Hinn 18. nóvember er bókað að málið sé til vinnslu samkvæmt áætlun sem gildi fram í miðjan desember. Varnaraðilar hafi sótt um styrk til að greiða fyrir ungbarnasund yngri drengsins og hafi verið samþykktur fjárstyrkur vegna þess.

Hinn 2. desember er bókað að í samkomulagi við heilsugæzlustöðina hafi verið ákveðið að varnaraðilar gangist undir vímuefnapróf með því að skila inn þvagsýni. Hafi varnaraðilar samþykkt þetta og sé það í samræmi við áætlun. Verði varnaraðili A „magnmældur í nóvember og aftur í janúar.“

Hinn 9. desember er bókað að orðið hafi „alvarleg uppákoma“ á heimilinu sem að öllum líkindum megi rekja til þess að varnaraðilar hafi neytt lyfja eða fíkniefna. Drengirnir hafi því verið vistaðir utan heimilis til bráðabirgða meðan staða þeirra sé metin og ákvörðun tekin um framhaldið. Sé nú ákveðið að vinnslu málsins verði haldið í sama farvegi og áður en aukið við ýmsan stuðning. Tilsjón og óboðað eftirlit verði óbreytt, varnaraðilar samþykki regluleg fíkniefnapróf, samráð verði við ungbarnavernd vegna yngri drengsins, reglulegir samráðsfundir verði með starfsmönnum leikskólanas, tilsjón verði veitt þar sem leiðbeiningar verði gefnar um heimilishald og uppeldi, varnaraðilar „leiti sér aðstoðar vegna eigin vanda, s.s. hjá SÁÁ, fjölskylduráðgjöf [...] eða þ.h.“, faðir þiggi aðstoð á göngudeild geðdeildar sjúkrahússins, málið verði unnið í samráði við félagsþjónustu eftir því sem þurfa þyki og barnavernd hafi samráð við föðurömmu drengjanna eftir ástæðum og hún verði upplýst um framvindu stuðningsaðgerða. Þessi áætlun gildi til 22. janúar 2016.

Hinn 15. desember er bókað á fundi barnaverndarnefndar að hinn 4. desember kl. 16:00 hafi áhyggjufullir ættingjar kallað lögreglu og bakvakt sóknaraðila á heimilið þar sem ekki hefði tekizt að ná sambandi við varnaraðila. Er vísað til skýrslu lögreglu um aðkomu á heimilinu. Eldri drengurinn hafi þá verið á leikskóla en sá yngri sofandi ásamt varnaraðilum. Þar sem ástand varnaraðila hafi þótt óvíst hafi verið ákveðið  að vista drengina til bráðabirgða hjá föðurömmu sinni. Varnaraðilar hafi samþykkt þá tilhögun. Hinn 14. desember hafi verið talið óhætt að drengirnir færu aftur í umsjá varnaraðila.

Hinn 22. desember er bókað að faðir hafi óskað eftir að sóknaraðili greiddi komugjöld sín hjá göngudeild SÁÁ. Er samþykkt að geiða fyrir fimm næstu viðtöl og skoða málið að nýju að þeim loknum.

Hinn 27. janúar 2016 er bókað að náinn ættingi hafi tilkynnt um vanrækslu drengjanna vegna lyfjanotkunar varnaraðila. Hafi varnaraðilar verið í lyfjamóki hinn 24. janúar. Farið hafi verið í vitjun á heimilið hinn 25. janúar en engu sambandi verið náð við varnaraðila og „tilsjónaraðila ekki verið hleypt inn“. Þá hafi varnaraðilar afboðað sig úr fíkniefnaprófi fyrr í mánuðinum. Í símtölum við varnaraðila 26. janúar hafi báðir verið drafandi í tali og sem undir áhrifum. Í vitjuninni hafi ástand heimilisins verið þannig að bent gæti til neyzlu, mjög óþrifalegt og mikil óreiða, tómar bjórdósir fyrir augum gesta og faðir undir greinilegum lyfjaáhrifum. Er bókuð eftirfarandi niðurstaða: „Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af aðstæðum þessara bræðra og getu [varnaraðila] til að mæta þörfum þeirra. Nú hefur í annað skiptið á skömmum tíma vaknað sterkur grunur um neyslu foreldranna. Ástand heimilisins og þeirra sjálfra í samskiptum við ráðgjafa barnaverndar, forðun við að mæta til viðtals og að undirgangast fíkniefnapróf benda sterklega til þess að þessi grunur eigi við rök að styðjast. Könnun málsins verður haldið áfram eins og kostur er og reynt að finna börnunum vist utan heimilis svo tryggja megi öryggi þeirra og viðunandi umsjá. Verður þetta rætt við [varnaraðila] og reynt að afla samþykkis þeirra fyrir slíkri ráðstöfun. Ella verður málið lagt fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar um að börnin verði fóstruð tímabundið í allt að 12 mánuði.“

Hinn 3. febrúar er bókað um fund barnaverndarnefndar. Sóttu varnaraðilar fundinn ásamt þáverandi lögmanni sínum. Er bókað að borizt hafi tvær tilkynningar um að varnaraðilar neyti fíkniefna. Sé mat starfsmanna sóknaraðila, þegar málið sé skoðað í heild, að „allt bendi til þess að þau séu að misnota lyf og/eða neyta fíkniefna. Virkni þeirra sé takmörkuð, sóðaskapur á heimilinu og það að þau [hafi] ekki mætt í fíkniefnapróf, renni stoðum undir þennan grun. Saga þeirra vitni um veikleika á þessu sviði. Því bendi allt til þess að brestir í aðbúnaði barnanna séu með sambærilegum hætti og [verið hafi] í ágúst sl. þegar barnaverndaryfirvöld í [...] töldu að börnin skyldu fara í fóstur. Því sé það mat starfsmannanna að það sé sonum [varnaraðila] fyrir bestu að komast í umsjá hæfra fósturforeldra sem fyrst.“ Er bókað eftir varnaraðilum að þeir séu fúsir „til að nýta sér allan mögulegan stuðning til að ná tökum á vanda sínum og óskuðu eftir því að nú yrði gerð áætlun um víðtækan stuðning og áformum og fóstur barnanna frestað þar til í ljós kæmi hvernig sá stuðningur myndi heppnast. Í þessu skyni mætti gera stutta áætlun, til eins eða tveggja mánaða, og væri það í anda meðalhófsreglu. Varnaraðilar myndu samþykkja tilsjón á heimilið og sögðust óska eftir að komast á uppeldisnámskeið. Í lok fundar er bókað: „Ákvörðun um vistun barnanna utan heimilis er frestað til næsta fundar nefndarinnar. Starfsmönnum er falið að gera nýja áætlun með [varnaraðilum] þar sem skýrt verði kveðið á um þá meðferð sem [varnaraðilar] fari í til að fá bót á vanda sínum og efla foreldrahæfni sína. Það er að mati nefndarinnar grundvallaratriði að tryggt sé að börnin alist ekki upp á heimili þar sem vímuefnaneysla á sér stað og því þarf að leggja áherslu á virkt eftirlit með því að svo verði ekki. Málið skal tekið fyrir að nýju á fundi þann 24. febrúar nk. og fyrr ef þurfa þykir.“

Hinn 9. febrúar er bókað um fund barnaverndarnefndar. Segir þar að hinn 4. febrúar hafi verið gripið til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og drengirnir fjarlægðir af heimilinu. Hafi þetta verið gert í samhengi við húsleit lögreglu á heimilinu þar sem lögregla hafi fundið töluvert magn fíkniefna. Hafi drengirnir verið vistaðir á ótilgreindum stað. Varnaraðilar mættu á fundinn ásamt þáverandi lögmanni sínum. Var þeim tjáð að fyrir fundinum lægi tillaga um vistun drengjanna utan heimilis sbr. b lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og að gerð yrði krafa fyrir dómi um að sú ráðstöfun héldist í allt að tólf mánuði. Er bókað eftir lögmanni varnaraðila að varnaraðilar skildu að „samningsstaða þeirra væri slæm og væru reiðubúin til samstarfs við nefndina með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi. Þau væru reiðubúin að samþykkja tímabundnar aðgerðir, þar sem drengirnir yrðu vistaðir á vegum nefndarinnar í allt að 12 mánuði. Hann vonaðist þó til að sá tími gæti orðið styttri.“

Sama dag rituðu varnaraðilar undir yfirlýsingu þar sem þeir samþykktu vistun drengjanna sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga frá þeim degi til 9. febrúar 2017.

Í málinu liggur önnur yfirlýsing, ódagsett, þar sem varnaraðilar draga fyrri yfirlýsingu sína til baka. Lýsa varnaraðilar þar jafnframt þeirri ósk að föðuramma drengjanna fái forsjá þeirra tímabundið.

Hinn 24. febrúar er bókað að drengirnir séu komnir í tímabundið fóstur með samþykki varnaraðila. Umgengni hafi farið einu sinni fram en framhaldið sé óákveðið.  Erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við varnaraðila til að fjalla um umgengni og nauðsynlegar ráðstafanir til að efla foreldrahæfni þeirra.

Hinn 16. marz 2016 kvað sóknaraðili upp þann úrskurð að drengir varnaraðila skyldu vera um kyrrt á fósturheimili sínu í allt að tvo mánuði. Segir jafnframt í úrskurðinum að sóknaraðili muni gera þá kröfu fyrir dómi að ráðstöfunin standi í allt að eitt ár, sé þess þörf, sbr. 1. mgr. 28. barnaverndarlaga.

Samkvæmt vottorði F, læknis á Vogi, var varnaraðilinn B innrituð á Vogi frá 25. maí til 3. júní 2016. Segir í vottorðinu að hún skuli njóta göngudeildarstuðnings í framhaldinu.

Samkvæmt vottorði G, læknis á Vogi, var varnaraðilinn A innritaður á Vogi frá 11. maí til 24. maí 2016 og á Staðarfelli 24. maí til 21. júní 2016.

Í málinu liggja gögn um A er munu stafa frá heilsugæzlunni á [...]. Segir þar meðal annars um skoðun sem fram hafi farið 14. janúar 2016: „skoðun á leikskólanum gekk vel. Flottur drengur. Vantar aðeins upp á hreyfiþroskann að hoppa á einum fæti – ætlar að æfa sig. Engar athugasemdir hjá leikskólanum [...]. Amman sem kom með hann fær tilvísun fyrir hann til augnlæknis því það var munur á augunum og mjög óöruggur á vinstra auga. Góð samvinna. Faðir var með letiauga ofl. og þurfti snemma gleraugu. Ráðl að fara sem fyrst til tannlæknis.“

Í málinu liggja sakavottorð varnaraðila. Varnaraðila B hefur samkvæmt vottorði þrívegis verið gerð refsing. Skal þess getið hér að í janúar 2011 voru henni ákveðin viðurlög, 54.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot og í desember 2014 var hún dæmd til greiðslu 700.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Sakaferill varnaraðila A er til muna meiri og nær samkvæmt vottorðinu aftur til ársins 2004. Frá því ári og fram á árið 2011 var hann fjórtán sinnum dæmdur til refsingar fyrir ýmis brot, þar á meðal fíkniefnalagabrot, auðgunarbrot, líkamsárásir og umferðarlagabrot. Var hann síðast á því tímabili dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsis í [...] 2011 fyrir líkamsárás, frelsissviptingu, fjárkúgun og fíkniefnalagabrot. Eftir þetta liðu allnokkur ár án þess að honum yrði gerð refsing svo kunnugt sé í málinu. Hinn [...] 2016 var hann dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir fíkniefnalagabrot og hinn [...] 2016 var hann í Hæstarétti Íslands dæmdur til tólf mánaða fangelsis fyrir fíkniefnalagabrot og var reynslulausn sem honum hafði verið veitt dæmd upp.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili segir úrskurð sinn byggðan á því að drengjunum séu búnar óviðunandi aðstæður á heimili sínu. Varnaraðilar glími við djúpstæðan vanda sem skerði hæfni þeirra til umönnunar þeirra. Hagsmunum drengjanna verði ekki betur borgið með öðru en því að þeir verði vistaðir hjá fósturforeldrum. Mál eldri drengsins hafi fyrst komið til kasta sóknaraðila í ágúst 2013, vegna vanrækslu og mikils sóðaskapar á heimilinu. Á árinu 2014 hafi ítrekað verið tilkynnt um vanrækslu vegna drengsins, hann kæmi oft óhreinn í leikskóla, í óhreinum fatnaði og mætti óreglulega. Þá hafi upplýsingar komið um fíkniefnanotkun varnaraðila A og vörzlur beggja varnaraðila á fíkniefnum. Í september 2015 hafi sóknaraðili fengið tilkynningu frá barnaverndaryfirvöldum í [...] í [...], en þar hafi varnaraðilar átt heima með drengjunum um tíma. Þar hafi staðið til að taka ákvörðun um vistun drengjanna utan heimilis en ekki orðið af því þar sem varnaraðilinn B hafi farið með þá til Íslands. Í gögnum frá [...] sé greint frá afskiptum lögreglu af málefnum fjölskyldunnar, fíkniefnanotkun og þar á meðal varnaraðila B á meðan hún hafi gengið með yngri drenginn, og að mjög mikið vanti upp á að ummönnun drengjanna sé fullnægjandi. Þrátt fyrir inngrip og stuðningsaðgerðir hafi ekki tekizt að breyta aðstæðum drengjanna til hins betra.

Sóknaraðili segir að er málið hafi komið til sinna kasta að nýju í september 2015 hafi verið gerð könnun á aðstæðum drengjanna. Tilsjón hafi verið höfð og eftirlit með heimilinu og fjölskyldunni veittur stuðningur til að tryggja öryggi drengjanna. Varnaraðilar hafi heitið því að neyta ekki fíkniefna og undirbúningur hafi verið hafinn að endurhæfingu þeirra. Könnun sóknaraðila hafi hins vegar leitt í ljós rökstuddan grun um fíkniefnanotkun varnaraðila og með samþykki varnaraðila hafi drengirnir verið vistaðir hjá föðurömmu sinni í vikutíma í desember 2015. Sóknaraðili segir að við heimsókn starfsmanna sinna á heimili fjölskyldunnar hinn 27. janúar 2016 hafi starfsmennirnir talið varnaraðila vera undir áhrifum og mikla óreiðu á heimilinu. Hinn 4. febrúar 2016 hafi lögregla lagt hald á nokkuð magn fíkniefna við húsleit þar. Hafi varnaraðili A verið ákærður fyrir að hafa í það sinn haft í sínum vörzlum ýmsar tegundir fíkniefna og ætlað til sölu. Hinn 9. febrúar hafi lögregla að nýju haft afskipti af varnaraðilanum vegna fíkniefnavarzlna.

Sóknaraðili segist hafa byggt ákvörðun sína um vistun drengjanna á a lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga en þar sé barnaverndarnefnd heimilað að kveða á um að barn skuli verða um kyrrt á þeim stað er það dvelst í tvo mánuði. Dómkrafa sín sé byggð á 1. mgr. 28. gr. laganna enda telji sóknaraðili nauðsynlegt að ráðstöfunin standi lengur, eða í allt að eitt ár frá uppkvaðingu úrskurðar. Sé vafalaust að vistun í tvo mánuði, samkvæmt upphaflegum úrskurði, sé ekki nægileg enda séu fyrir hendi óyggjandi sönnur um verulegan fíkniefnavanda varnaraðila og vanrækslu drengjanna. Í ljósi reynslunnar sé ekki ástæða til að leggja traust á yfirlýsingar varnaraðila um að breytinga til hins betra sé að vænta. Nauðsynlegt sé að drengjunum sé skapaður stöðugleiki og að hugað verði að heilsu þeirra og heilbrigði. Þá sé ekki annað raunhæft en að varnaraðilar fái svigrúm til þess að bæta stöðu sína, leita sér hjálpar vegna fíknivanda og koma sér upp varanlegu heimili. Veruleg óvissa sé þó í þeim efnum þar sem vænta megi þess að varnaraðilar þurfi innan skamms að afplána dóma sem þeir hafi hlotið vegna fíkniefnamála á árinu 2015.

Sóknaraðili segist byggja á að meðferð málsins hafi í öllu verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga. Mál drengjanna hafi verið nægilega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin í því og kveðst vegna þess vísa sérstaklega til gagna frá barnaverndaryfirvöldum í [...], greinargerða starfsmanna sóknaraðila og gagna lögreglu. Sé þar greint frá nær samfelldri vanrækslu drengjanna frá því mál þeirra hafi fyrst komið til kasta sóknaraðila. Vanhæfni varnaraðila, sem rekja megi til breytni þeirra og vímuefnanotkunar, stefni heilsu og þroska drengjanna í hættu. Að lokinni rannsókn sóknaraðila hafi niðurstaðan orðið sú að leitt hefði verið í ljós að hagsmunir drengjanna yrðu ekki betur tryggðir en með því að þeir yrðu áfram vistaðir í fóstri á vegum sóknaraðila.

Sóknaraðili segist byggja á því að skilyrði fyrir beitingu 27. og 28. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt. Þar sé gert ráð fyrir að barnaverndarnefndir geti gripið til þeirra úrræða er henti barni hverju sinni, ef brýnir hagsmunir þess krefjist. Hagsmunir drengjanna séu augljósir og brýnir. Jafnframt sé ljóst að úrræði sem getið sé um í 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað tilætluðum árangri eða eftir atvikum verið ófullnægjandi. Við meðferð málsins hafi verið gerðar áætlanir í samráði við varnaraðila, samkvæmt 23. laganna, og þar verið gert ráð fyrir fjölþættum stuðningsaðgerðum og samvinnu við framkvæmd þeirra. Stuðningsaðgerðir þessar hafi ekki borið árangur. Hafi reglum um meðalhóf verið fylgt í hvívetna. Ekki hafi verið unnt að ná því markmiði, að tryggja drengjunum viðeigandi uppeldisaðstæður, með vægari úrræðum en beitt var í úrskurði sóknaraðila.

Sóknaraðili segir að það sé skilyrðislaus réttur hvers barns að búa við viðunandi uppeldisaðstæður. Sé réttur drengjanna verulega skertur með áframhaldandi búsetu við þær aðstæður sem varnaraðilar hafi boðið þeim upp á. Við þær aðstæður beri sóknaraðila að grípa til aðgerða til að vernda hagsmuni drengjanna, sbr. 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga. Njóti hagsmunir barna ríkrar verndar, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þótt réttur varnaraðila til einkalífs, heimilis og fjölskyldu sé ríkur verði ekki litið fram hjá þeirri grundvallarreglu barnaréttar að við úrlausn mála skuli hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi og vega þyngra en forsjárréttur foreldra.

Sóknaraðili segir að vilji varnaraðila hafi staðið til þess að drengirnir yrðu vistaðir hjá föðurömmu. Sýslumaður hafi hinn 23. marz 2016 staðfest samkomulag varnaraðila og föðurömmunar þar sem henni hafi verið falin forsjá drengjanna tímabundið. Í kjölfar andmæla sóknaraðila hafi sýslumaður afturkallað staðfestinguna. Mál þetta snúist ekki um hvort rétt sé að drengirnir verði vistaðir hjá föðurömmu sinni. Starfsmenn sóknaraðila telji hins vegar ekki koma til greina að taka ákvörðun um vistun þeirra hjá henni til lengri tíma þar sem hún hafi ekki óskað eftir leyfi Barnaverndarstofu til að taka börn í fóstur og ekkert hafi legið fyrir um hæfni hennar til slíks.

Sóknaraðili segist vísa til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 27. gr. þeirra, vegna heimildar til vistunar barns án samþykkis foreldra. Vegna meginreglu um að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi vísi sóknaraðili til 1. mgr. 4. gr. laganna, 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992. Vegna rannsóknarreglu sé vísað til 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og vegna meðalhófsreglu til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Vegna andmælaréttar aðila máls og barna sé vísað til 2. mgr. 46. og 47. gr. barnaverndarlaga sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar segja aðstæður sínar alls ekki svo slæmar sem sóknaraðili haldi fram. Sé lýsing sóknaraðila villandi.

Varnaraðilar segja sóknaraðila byggja á því að á síðasta ári hafi varnaraðilar báðir verið dæmdir til fangelsisvistar og sé afplánun yfirvofandi. Að því er varnaraðilann B varði sé þetta rangt. Hún hafi í árslok 2014 verið dæmd til greiðslu fjársektar fyrir sameiginlegar vörzlur fíkniefna og sé því ekki fram undan að henni verði gert að afplána fangelsisvist. Þá megi benda á að dómurinn hafi verið útivistardómur og hún hafi ekki haldið uppi vörnum. Sakarefni hafi ekki verið alvarleg. Engin gögn liggi fyrir um fíkniefnanotkun hennar.

Varnaraðilar segjast báðir hafa ákveðið að gangast undir meðferð hjá SÁÁ. Hafi varnaraðilinn A lokið vist á meðferðarstöðinni Vogi og verið í framhaldsmeðferð á Staðarfelli. Varnaraðilinn B hafi verið í meðferð á Vogi. Með því að taka á vímuefnavanda sínum með þessum hætti hafi aðilar bætt úr því sem virðist hafi verið talinn stærsti gallinn á þeim sem foreldrum og meginástæða þeirrar kröfu sem til meðferðar sé.

Varnaraðilar segjast eiga „traust stuðningsnet“ á [...] og vísa þar til móður og ömmu varnaraðilans A. Hafi varnaraðilar fengið talsverðan stuðning við barnauppeldið og muni fá áfram. Móðir varnaraðilans A sé sjálfstætt starfandi [...] og sinni starfinu að heiman [...] og hafi því góðan tíma til aðstoðar.

Varnaraðilar segjast telja gögn frá [...] gefa mjög villandi mynd af sér sem foreldrum og aðstæðum fjölskyldunnar. Komi þar margt til. Talsverðir erfiðleikar hafi verið í samskiptum við starfsmenn [...] félagsmálayfirvalda vegna tungumálaerfiðleika eins og berlega komi fram í skýrslum. Þá hafi mikið vantað upp á fagleg vinnubrögð og faglega hæfni af hálfu „[...]“. Verði þess vegna að horfa fram hjá [...] gögnunum.

Varnaraðilar segjast tilbúnir til að þiggja stuðning og sæta tilsjón af hálfu sóknaraðila. Skylt sé að beita þeim vægustu úrræðum sem í boði séu. Meðalhófsreglan krefjist þess að stuðningsúrræði og tilsjón séu reynd til þrautar áður en gripið sé til þess að vista börn utan heimilis. Þegar varnaraðilar hafi lokið fíkniefnameðferð sinni séu ekki til staðar hjá fjölskyldunni nein þau vandamál sem réttlætt geti vistun. Að frátöldum ásökunum um óreglu séu ekki til staðar nein gögn eða upplýsingar sem sanni vanhæfni þeirra sem foreldra.

Varnaraðilar segja almennt viðurkennt að börnum sé að öðru jöfnu betur borgið að alast upp hjá foreldrum sínum en vandalausum. Horfa verði til réttinda bæði drengjanna og varnaraðila til fjölskyldulífs og samveru. Vegna tengslamyndunar sé mjög mikilvægt að drengirnir séu eins stutt og kostur sé fjarri foreldrum sínum og að því ástandi sem nú ríki verði aflétt sem fyrst. Skilyrði til áframhaldandi vistunar barnanna sbr. 27. og 28. gr. barnaverndarlaga séu ekki til staðar og beri því að hafna kröfu sóknaraðila.

Varnaraðilar segjast til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísa til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. XI. kafla barnaverndarlaga. Varnaraðilar séu ekki virðisaukaskattskyldir og sé því gerð krafa um virðisaukaskatt ofan á dæmdan málskostnað og sé vísað til laga nr. 50/1988.

Skýrslur fyrir dómi

Varnaraðilinn A kvaðst hafa lokið meðferð daginn áður og hefði hún staðið frá ellefta fyrra mánaðar og gengið vonum framar. Hefði sér aldrei liðið betur. Hann hefði ekki farið í meðferðina vegna þrýstings sóknaraðila heldur hefði hann „brotnað niður“ þegar eldri sonur sinn hefði sagt sér að hann saknaði foreldra sinna og vildi koma heim og hefði spurt hvort varnaraðilinn gæti gert eitthvað svo að svo mætti verða. Daginn eftir hefði varnaraðilinn lagt fram umsókn um meðferð og verið kominn í hana þremur dögum síðar. Hefði hann farið í meðferðina „fullkomlega með opnum hug“, staðráðinn í að nýta sér allt sem hann þar lærði til að byggja sig upp.

Varnaraðilinn var spurður um hugsanlega afplánun dæmdra refsidóma og sagðist hann ekki telja líklegt að hann þyrfti að afplána þá með fangelsisvist. Búið væri að breyta lögum, víkka heimildir til samfélagsþjónustu og rafræns eftirlits. Þá hefði hann nú sótt um nám í [...] og [...] og yrði því ekki í forgangshópi hjá Fangelsismálastofnun. En ef svo færi að hann þyrfti að afplána dómana yrði vist hans mjög stutt og varnaraðilinn B fullfær um að sjá um drengina. Hún væri sterk og fylgin sér og nyti auk þess stuðnings fjölskyldu þeirra. Þar væru allir boðnir og búnir til aðstoðar, hvort sem væri með fjárframlögum eða nærveru.

Varnaraðilinn sagði að móðir sín og drengirnir, E sérstaklega, væru verulega náin og innilega tengd.

Varnaraðilinn sagðist mótmæla þeim [...] gögnum sem liggja fyrir í málinu. Þarlend yfirvöld hefðu unnið málin án túlks, mat á E og varnaraðilanum B hefði þannig farið fram án túlks, en varnaraðilinn B talaði ekki [...]. Þá hefðu þau ekki fengið alla þá aðstoð sem þau hefðu átt rétt á og nefndi varnaraðilinn sérstaklega að löglærða „stuðningspersónu“ hefðu þau ekki fengið fyrr en þau hefðu gengið eftir því sjálf undir lokin.

Varnaraðilinn sagði að undanfarinn vetur hefði tilsjónarmaður verið með heimili þeirra og hefði hann einungis talað fallega um það sem hann hefði séð, en engar athugasemdir gert.

Varnaraðili sagðist horfa björtum augum fram á við, hvernig sem þetta mál færi. Hann sagðist vona að umgengni varnaraðila við drengina yrði betri og meiri og þeim tækist að reisa sterkar undirstöður til þess að geta „að endingu tekið við drengjunum aftur.“ Varnaraðilar væru í betra andlegu og líkamlegu standi en nokkuru sinni áður. Ástand sitt batnaði dag frá degi.

Útprentun af vefsíðunni „facebook.com“ var borin undir varnaraðilann og sagðist hann ekki kannast við það sem þar væri skráð. Á þessum tíma hefði verið „hræðilegt ástand á heimilinu, það voru fimm til sjö manns í einu inni á heimilinu og það voru tveir aðrir menn sem að eru í afplánun þessa stundina sem að bjuggu inni á heimilinu, facebookið mitt er yfirleitt alltaf opið“.

Varnaraðilinn sagði að „því miður“ hefðu drengirnir liðið fyrir fíkniefnanotkun sína í fortíðinni en hann myndi koma „til með að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að svo verði ekki í framtíðinni“. Fíkniefnanotkunin hefði hins vegar ekki skert hæfni sína til þess að fara með forsjá barna.

Varnaraðilinn sagði þau hafa flutt aftur til Íslands frá [...] „í kjölfarið af því að við erum komin í djúpan skít sem við áttum okkur á gagnvart“ félagsmálayfirvöldum í [...].

Varnaraðilinn var spurður um það sem fram kemur í ýmsum gögnum málsins um óþrifnað á heimili varnaraðila. Sagði hann að á þeim tíma hefði hann verið nýkominn úr fangelsi og væri hann mun þroskaðari nú. Sagðist hann telja þrif og annað sem tengdist heimilishaldi yrði ekki vandamál í framtíðinni. Móðir og amma varnaraðilans hefðu hjálpað þeim með þrif ef eitthvað hefði vantað upp á. Myndu varnaraðilar taka allar ábendingar til greina og gera allt sem í sínu valdi stæði til að halda hreint og eðlilegt heimili og skapa þar heilbrigt umhverfi fyrir börn. Auk þess tók hann fram að hann hefði átt sér ýmsa óvini sem hefðu tilkynnt sig „nafnlaust til barnaverndar.“

Varnaraðilinn sagði hvorugt þeirra hafa neytt fíkniefna fyrr en drengirnir hefðu verið teknir frá þeim. Sjálfur hefði hann „þurrkað“ sig upp eftir komuna frá [...] og leitað aðstoðar. Sóknaraðili hefði gengið harðar og harðar fram án mikils samstarfsvilja. Hefði til dæmis verið hægt að koma drengjunum fyrir hjá móður varnaraðilans og tryggja þannig samband þeirra við stórfjölskylduna. Meðalhófs hefði ekki verið gætt. Mjög margt hefði verið að í fari varnaraðila en varnaraðilar hefðu ekki fengið hjálp og öllum dyrum verið lokað. Margt annað hefði mátt reyna áður en svo langt hefði verið gengið að taka drengina í fóstur.

Varnaraðilinn B sagði fíkniefnanotkun sína alltaf hafa verið minni en varnaraðilans A. Hún hefði verið búin að vera allsgáð í tíu daga þegar hún hefði farið í meðferðina, sem hefði gengið vel. Það sem hún hefði lært í meðferðinni gagnaðist sér bæði sín vegna og vegna varnaraðilans A. Kvaðst hún vera bjartsýn á framtíðina og ekki ætla að neyta fíkniefna aftur. Að lokinni meðferð hefði hún tvívegis farið og hitt ráðgjafa hjá SÁÁ. Hún væri einnig mjög bjartsýn vegna varnaraðilans A og væri á honum mikil og góð breyting.

Varnaraðilinn sagði þau hafa tekið litla og snotra íbúð á leigu og fengið hana afhenta. Hentaði hún þeim vel nú, þótt hún væri ekki hugsuð sem framtíðarheimili.

Varnaraðilinn sagðist hafa verið mjög ánægð með samskipti sín við tilsjónarmann sem hefði sinnt þeim. Tilsjónin hefði gengið mjög vel og tilsjónarmaðurinn hefði aðspurður sagt varnaraðilanum að hann hefði ekki séð neitt athugavert. Myndi varnaraðilinn samþykkja tilsjónarmann að nýju ef ástæða þætti til.

Varnaraðilinn lýsti eldri syni sínum sem bráðgáfuðum, heilsuhraustum og tilfinningagreindum. Sá yngri væri mjög glaðlegt barn en aðskilnaðurinn væri farinn að hafa áhrif á tengsl við hann. Varnaraðilinn sagðist sakna þeirra beggja á hverjum degi. Ekkert benti til þess að þeir hefðu orðið fyrir neinum skaða vegna fíkniefnanotkunar hennar. Þeir væru við góða heilsu og hegðuðu sér vel.

Varnaraðilinn sagðist telja sig vera góða móður og vera fullfæra um að vera ein með drengina, færi svo að varnaraðilinn A færi til afplánunar. Þau hefðu alltaf notið mikil stuðnings föðurfjölskyldu drengjanna og hefði föðuramma þeirra verið til staðar alla tíð.

Varnaraðilinn sagðist hafa mikinn áhuga á að fræðast um uppeldi og fá að sitja námskeið um það. Væri hún fús til að taka leiðsögn um það.

Varnaraðilinn sagði þau vera nú mun þrifnari á heimili en þau hefðu áður verið. Þá væru upplýsingar í gögnum um óþrifnað á heimili þeirra orðum auknar og skýrðist ástandið meðal annars af erfiðleikum á síðari meðgöngu varnaraðilans. Þrifnaður hefði ekki verið vandamál eftir að þau hefðu flutt aftur til Íslands.

Vitnið H framkvæmdastjóri sóknaraðila sagði það hafa verið álit starfsmanna sóknaraðila að sá stuðningur sem reyndur hefði verið á haustmánuðum og fram yfir áramót hefði ekki orðið til þess að koma aðstæðum drengjanna í viðunandi horf. Markmiðið með því úrræði sem nú væri notað væri að drengirnir væru í tryggu fóstri en varnaraðilar notuðu tímann til þess að „efla og bæta sína foreldrahæfni og vinna í sínum vanda svo þau megi betur annast sín börn þegar að þessu fóstri liðnu.“

Vitnið sagði það hafa legið fyrir, þegar drengirnir hefðu komið til Íslands í ágúst 2015, að miklir erfiðleikar hefðu verið hjá þeim í [...], mánuðina á undan. Niðurstöður barnaverndaryfirvalda þar hefðu verið þær að varnaraðilar væru ekki hæfir til að sjá um börn og að drengjunum skyldi komið í fóstur um tíma. Starfsmenn sóknaraðila hefðu þekkt til málefna fjölskyldunnar „frá fyrri tíð og [vitað] um þennan vanda sem að sneri að verulegu leyti að skertri hæfni foreldra, sérstaklega föðurins vegna vímuefnaneyzlu og afbrota, til þess að rétta börnum sínum viðunandi atlæti og tryggja öryggi þeirra.“ Áætlun hafi verið sett upp með varnaraðilanum B og síðan einnig varnaraðilanum A um það hvernig þau skyldu „styrkja sig í sínu foreldrahlutverki“. Eftir því sem því hefði undið fram hefðu af og til komið upp „áhyggjur um að þetta væri ekkert að gerast, þessi vandi væri enn til staðar.“ Vísaði vitnið hér til afskipta lögreglu af varnaraðilum hinn 4. desember, mats starfsmanna sóknaraðila eftir vitjun á heimilið í janúar 2016 og þess að varnaraðilar hefðu komið sér undan að gangast undir fíkniefnapróf. Öll áform varnaraðila um að leita sér meðferðar og taka á vanda sínum hefðu verið „orðin tóm“. Þegar málið hefði verið tekið fyrir á fundi sóknaraðila hinn 24. febrúar hefðu starfsmenn sóknaraðila verið komnir að þeirri niðurstöðu að drengjanna vegna yrði að vista þá utan heimilis. Hins vegar hefði verið gert samkomulag um að varnaraðilar fengju „aðeins betri tíma til þess að hérna sýna fram á að þau gætu bætt sína foreldrahæfni en það gerist þá bara skömmu síðar að lögreglan gerir húsleit á heimili þeirra sem sem finnast fíkniefni, sem að svona lauslega áætluð að söluvirði“ næmi um 300-400 þúsund krónum. Hefðu starfsmenn sóknaraðila talið hafið yfir allan skynsamlegan vafa að aðstæður drengjanna væru mjög óöruggar og það væri ábyrgðarleysi af sóknaraðila að grípa ekki til viðeigandi ráðstafana þeim til verndar. Þessu til viðbótar hefðu verið „ýmsir fleiri annmarkar“ svo sem óvenjulegur sóðaskapur á heimilinu.

Vitnið sagðist ekki geta fullyrt að vandi varnaraðila væri fyrst og fremst fíknivandi, en sá vandi stæði upp úr og stæði í vegi því að hægt væri að aðstoða varnaraðila að öðru leyti. „Meðan að foreldrar eru í neyzlu, það er umgangur fólks á heimilinu sem líka er í neyzlu, sem að er í neyzlutengdum afbrotum, það stendur sala út frá heimilinu, þá er einfalt að segja að það er ekki staður fyrir börn og þau verða að komast í meira öryggi“. Of snemmt væri að segja til um hversu mikinn stuðning varnaraðilar þyrftu ef þeim tækist að vinna bug á fíkniefnavandanum.

Vitnið sagði að vel þekkt væri að fólk sem glímt hefði við vímuefnavanda þyrfti töluvert langan tíma til að ná sér. Það tímabundna fóstur, sem ákveðið hefði verið, yrði endurskoðað á tímabilunu, bæði með hliðsjón af gengi drengjanna en fyrst og fremst eftir því hvernig varnaraðilum gengi að „koma sér í það stand að geta hugsað vel um börnin.“ Þótt varnaraðilar hefðu nú lokið meðferð væri það aðeins fyrsta skrefið og nú þyrftu aðilar í samstarfi að ákveða næstu skref, en sagðist telja, „miðað við þá reynslu sem við höfum af málinu til þessa að að það væri óvarlegt, bara vegna þess að foreldrarnir hafa lokið meðferð núna að börnin væru að fara strax aftur heim.“ Kvaðst vitnið vilja að heimild til vistunar yrði veitt til eins árs svo hægt væri að meta hvernig endurhæfingu varnaraðila yndi fram. Ráðstöfun sem þessi sætti stöðugri endurskoðun og þar á meðal að sex mánuðum liðnum. Ef varnaraðilum gengi vel að vinna í sínum málum myndi sóknaraðili tvímælalaust reyna að auka samskipti þeirra við drengina á meðan á vistinni stæði. Lokamarkmiðið væri að drengirnir færu aftur til foreldra sinna.

Vitnið sagðist enga ástæðu hafa til að draga í efa þau gögn sem liggja í málinu frá [...] félagsmálayfirvöldum. Þau hefðu greinilega lagt mikla vinnu í að meta stöðu drengjanna og fjölskyldunnar.

Vitnið sagði að ekki hefði verið gerð sérstök athugun á ástandi drengjanna þegar þeir hefðu verið teknir í fóstrið. Þeir hefðu verið teknir úr óviðunandi aðstæðum.

Vitnið I félagsráðgjafi sagðist hafa tvívegis hafa verið kallað af bakvakt á heimili varnaraðila. Hinn 4. desember 2015 hefði lögregla hringt og fengið sig á staðinn þar sem ekki næðist samband við varnaraðila en barnsgrátur heyrðist úr íbúð þeirra. Þegar vitnið hefði komið á staðinn hefði lögregla verið komin inn í íbúðina. Varnaraðilar hefðu verið „illa áttuð“ og að mati vitnisins undir áhrifum. Yngri drengurinn hefði verið á heimilinu og verið í jafnvægi þegar vitnið hefði komið, en þá hefðu tvær konur úr föðurfjölskyldunni þegar verið komnar. Í febrúar 2016 hefði vitnið verið kallað út að nýju og hefði ástandið þá verið svipað. Allt á rúi og stúi á heimilinu og ringulreið. Varnaraðilar hefðu hins vegar ekki verið eins illa áttuð og í fyrra skiptið en ringlaðir yfir lögregluaðgerðinni. Drengirnir hefðu verið „þokkalega hreinir og ekkert út á það að setja“. Sá yngri hefði sofið en sá eldri hefði verið dálítið ringlaður.

Vitnið J, móðir varnaraðilans A, sagði að sér virtist framtíðin bjartari en oft áður. Varnaraðilar virtust „í góðu standi“ og með gott hugarfar. Hefði vitnið trú á því að nú myndi þeim ganga vel. Kvaðst vitnið heyra breyttan og betri hugsunarhátt hjá varnaraðilanum A. Hæfni varnaraðila beggja sem foreldrar væri „ljómandi fín“ og „ekkert út á hana að setja“.

Vitnið sagðist telja að fjölskylda varnaraðilans A hefði veitt þeim talsverðan stuðning og væri hún tengd drengjunum.

Vitnið sagðist hafa margsinnis reynt að fá drengina til sín en hafa þar gengið á vegg hjá sóknaraðila. Vitnið hefði oft skrifað sóknaraðila en ekki fengið svör. Sóknaraðili hefði reynt að koma í veg fyrir að drengirnir yrðu vistaðir hjá vitninu.

Vitnið sagðist telja stöðu drengjanna mjög góða. Vitnið hefði haft mikið af eldri drengnum að segja og stæði hann mjög vel. Fósturforeldrar hans töluðu við sig um hann á sama hátt.

Vitnið sagði eðlilegt að einhver reynsla fengist á árangur meðferðar varnaraðila áður en drengirnir kæmu heim, meðferð varnaraðilans A hefði lokið daginn áður og einhvern tíma þyrfti hann til að ná áttum.

Niðurstaða

Það er meginregla að í barnaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir beztu og skulu hagsmunir barna hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fari hagsmunir foreldra og barna þeirra ekki saman verður að horfa til þessarar meginreglu.

Önnur meginregla er og sú að barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Skal ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti, svo sem segir í 7. mgr. 4. gr. laganna.

Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem bezt hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

Í úrskurði sínum ákvað sóknaraðili að drengir varnaraðila skyldu verða kyrrir á þeim stað er þeir þá dvöldust á, sbr. heimild í a lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Meðal skilyrða þess að svo verði ákveðið, er að úrræði skv. 24. og 25. gr. sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna, hafi að mati nefndarinnar ekki skilað árangri eða séu ófullnægjandi. Í ljósi þess sem rakið hefur verið um aðgerðir barnaverndaryfirvalda til aðstoðar fjölskyldunni á fyrri stigum málsins verður ekki litið svo á þetta skilyrði hafi ekki verið uppfyllt eða að sóknaraðili hafi ekki reynt vægari úrræði nægilega áður en gripið var til þess úrræðis sem fjallað er um í þessu máli.

Varnaraðilar byggja á því að horfa beri fram hjá þeim gögnum málsins sem stafa frá [...] barnaverndaryfirvöldum. Vísa varnaraðilar meðal annars til tungumálaerfiðleika sem verið hafi. Þá hafi verið unnið ófaglega í málum þeirra ytra. Ekki er hægt að útiloka að eitthvað hafi farið milli mála í samtölum varnaraðila og starfsmanna [...] barnaverndaryfirvalda. Þannig er ekki unnt að útiloka að einhverjar skýringar varnaraðila á málavöxtum kunni að hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá viðmælendum þeirra. Ekki hefur hins vegar verið gert sennilegt að svo hafi verið, svo skipti máli í grundvallaratriðum á mati á efni gagnanna, eða á því sem [...] barnaverndarstarfsmenn hafa skráð um mat sitt á aðstæðum á heimili varnaraðila. Með þetta í huga verður horft til gagnanna.

Rakin hafa verið sakavottorð varnaraðila. Samkvæmt því á varnaraðilinn A óafplánaða dóma sem alls kveða á um fjórtán mánaða fangelsisvist. Ekkert hefur verið lagt fram sem bendir til þess að honum verði ekki í fyllingu tímans gert að afplána þá refsingu, en refsitíminn er lengri en svo að samfélagsþjónusta kunni að standa til boða, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Á hinn bóginn eru ekki efni til að líta svo á í málinu að líkur standi til að varnaraðilanum B verði gert að afplána hugsanlega vararefsingu vegna sekta sem henni hefur verið gert að greiða.

Með dómi héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum [...] 2016, var varnaraðilinn A sakfelldur fyrir að hafa haft í vörzlum sínum á heimili sínu hinn 4. maí 2016, 17,05 g af amfetamíni, 0,93 g af kókaíni og 40,96 grömm af maríhúana, hafa ætlað að selja hluta efnanna og hafa gert ráðstafanir til þess. Var hann jafnframt sakfelldur fyrir að hafa selt 10 g af amfetamíni og eitthvað af kannabisefnum. Þá var hann í dóminum sakfelldur fyrir að hafa haft í vörzlum sínum á heimili sínu hinn 9. febrúar 2016 0,9 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Þeir sakadómar sem kveðnir hafa verið upp í málum varnaraðila hafa fullt sönnunargildi um málsatvik sem þar greinir, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008.

Í gögnum málsins er rakið hvernig ýmsir aðilar, á [...] og í [...], bera um ástand á heimili varnaraðila, um óþrifnað þar og í sumum tilfellum óþrifnað á einstökum heimilismönnum. Ekki mun það þó eiga við um yngri drenginn. Telja verður að sú mynd sem þannig er dregin upp, af ýmsum aðilum um all langan tíma, sé í grundvallaratriðum rétt, en ekkert hefur verið lagt fram sem bendir til hins gagnstæða.

Ljóst má telja að töluverð fíkniefnanotkun hafi farið fram á heimili fjölskyldunnar. Af gögnum [...] barnaverndaryfirvalda verður ráðið að varnaraðilar hafi neytt kannabisefna og fíkniefni finnast við húsleit á heimili þeirra eftir komuna til Íslands. Þá verður að telja ljóst að fíkniefnasala hafi farið fram frá heimilinu. Verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að fíkniefnanotkun og fíkniefnasala hafi ítrekað verið stunduð á heimili drengjanna og þar hafi verið mikill óþrifnaður. Gögn málsins benda einnig til þess að eldri drengurinn hafi ítrekað verið óþrifalegur. Verður að fallast á það mat sóknaraðila að drengjunum hafi verið búnar óviðunandi uppeldisaðstæður. Ekkert hefur hins vegar komið fram í málinu sem bendir til þess að drengirnir hafi beðið líkamlegan skaða af þeim aðstæðum sem þeir hafa búið við í uppvexti sínum. Heilsufarsleg gögn í málinu, svo langt sem þau ná, benda til þess að líkamlega hafi þeir dafnað eðlilega í umsjá varnaraðila. Það breytir ekki því að telja verður aðstæðurnar svo óviðunandi að sóknaraðila hafi verið rétt að grípa til þeirra ráðstafana sem hann gerði með úrskurði sínum hinn 16. marz 2016.

Sóknaraðili krefst þess í málinu að ráðstöfunin verði framlengd í tólf mánuði.

Þótt telja verði líklegt að vandamál varnaraðila séu margþætt þykir afar sennilegt að fíkniefnanotkun þeirra sé stór hluti vandamálanna og sá sem geri þeim erfiðast fyrir. Eins og rakið hefur verið gengust báðir varnaraðilar undir fíkniefnameðferð nú snemmsumars. Með því sýndu varnaraðilar í verki vilja sinn til að bæta aðstæður sínar og möguleika sína til að búa vel að sonum sínum. Sjálfsagt er að horfa til þessa. Á hinn bóginn er afar stutt frá því hvort um sig lauk sinni meðferð. Lauk meðferð varnaraðilans A þannig daginn áður en mál þetta var tekið til úrskurðar. Jákvæður árangur af fíkniefnameðferð verður ekki staðreyndur strax að henni lokinni heldur verður þar að líta til reynslunnar. Þótt varnaraðilar hafi báðir stigið það jákvæða og virðingarverða skref að sækja meðferð verður það ekki til þess að á augabragði séu ekki lengur til staðar þau atriði sem urðu til þess að sóknaraðila var rétt að grípa til þeirra aðgerða sem hann gerði. Verður reynslan að skera úr um hversu góðum og varanlegum árangri varnaraðilar ná og hversu vel þeim gengur að öðru leyti að koma lífi sínu svo vel á kjöl að þau verði fær um að búa drengjum sínum öruggt og gott heimili.

Varnaraðilar hafa lagt fram afrit húsaleigusamnings. Hafa þeir tryggt sér litla íbúð á leigu. Þá hafa þeir byggt á og fá þar stuðning af framburði móður varnaraðilans A fyrir dómi, að þeir muni njóta stuðnings fjölskyldu hans. Hvort tveggja er jákvætt og til þess fallið að styrkja stöðu þeirra. Framhjá hinu verður hins vegar ekki horft, að hið sama mátti segja áður. Varnaraðilar voru áður með íbúð á leigu og hafa notið stuðnings fjölskyldunnar þann tíma sem þeir hafa átt heima á [...]. Þrátt fyrir það voru aðstæður fjölskyldunnar þær sem rakið hefur verið. Það, að varnaraðilar hafi nú tekið íbúð á leigu og muni sem fyrr geta treyst á stuðning fjölskyldu sinnar, er, þótt jákvætt sé, ekki trygging fyrir því að ekki muni leita í sama far og áður.

Fyrir dómi var á því byggt af hálfu varnaraðila að munurinn væri nú sá að orðið hefði viðhorfsbreyting hjá þeim, sérstaklega hjá varnaraðilanum A. Voru þau samhljóða um það fyrir dómi, varnaraðilar báðir og móðir varnaraðilans A. Verður því alls ekki vísað á bug að þetta sé rétt. Að minnsta kosti verður sú meðferð sem hann gekkst undir og stóð samtals í um sex vikur, metin sem vísbending í þá átt.

Eins og að framan er rakið verður að telja það hafa verið rétt hjá sóknaraðila að grípa til þeirra ráðstafana að fjarlægja drengina úr þeim aðstæðum sem þeir voru í. Er ljóst að varnaraðilar glímdu við verulega erfiðleika sem hindruðu þá í að búa drengjum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra. Þótt varnaraðilar hafi með því sem rakið var, og þá fyrst og fremst því að gangast undir fíkniefnameðferð, stigið jákvæð skref sem ber að virða, er ekki unnt að líta svo á að hinir verulegu erfiðleikar séu þá þegar að baki. Verður þar að fást reynsla sem byggjandi er á, áður en snúið verður til baka úr því úrræði sem gripið var til, til að vernda hagsmuni drengjanna.

Sóknaraðili krefst þess að ráðstöfun sú sem hann ákvað verði framlengd í tólf mánuði. Síðan sóknaraðili tók ákvörðun sína um vistun utan heimilis hefur það gerzt að varnaraðilar hafa báðir farið í fíkniefnameðferð. Þótt það eitt og sér geri það ekki að verkum að ekki séu lengur efni til þeirrar ráðstöfunar sem sóknaraðili greip til, vekur það engu að síður raunverulegar vonir um að varnaraðilum takist að snúa við blaðinu og þeir geti í framhaldinu búið sonum sínum gott heimili. Meðal meginreglna við barnavernd er að ekki skal ganga lengra en þörf er á hverju sinni, sbr. og almenna meginreglu í stjórnsýslurétti. Með það í huga og allt framanritað verður ákveðið að ráðstöfun sú, sem ákveðin var í úrskurði sóknaraðila hinn 16. marz 2016, verði nú framlengd í níu mánuði. Fyrir dómi kom fram hjá framkvæmdastjóra sóknaraðila að gengi varnaraðilum vel að vinna í sínum málum yrði umgengni þeirra við drengina aukin, auk þess sem vistunin sjálf verði endurskoðuð.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 806.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, 69.520 króna ferðakostnaður hans og 12.873 króna útlagður kostnaður hans.

Sigmundur Guðmundsson héraðsdómslögmaður fór með málið af hálfu sóknaraðila.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Drengirnir D og E skulu vistaðir utan heimilis síns í níu mánuði frá deginum í dag að telja.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, A og B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 806.000 krónur, 69.520 króna ferðakostnaður hans og 12.873 króna útlagður kostnaður.