Hæstiréttur íslands
Mál nr. 565/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Krafa sóknaraðili um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er reist á c. og d. liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt er krafan rökstudd með vísan til 2. mgr. sömu lagagreinar. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um gróf kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum með viku millibili. Samkvæmt gögnum málsins er fullnægt skilyrðum c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september nk,. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá því sunnudaginn 31. júlí sl., sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. R-[...]/2016, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í málinu nr. [...]/2016.
Mál nr. 007-2016-[...]
Í greinargerðinni kemur fram varðandi málsatvik að þann 31. júlí 2016 hafi lögregla fengið upplýsingar frá Neyðarlínunni um að óskað hefði verið eftir sjúkrabifreið að [...], [...], vegna hugsanlegrar nauðgunar á stúlku. Stuttu síðar hafi borist tilkynning að kærði, X, væri staddur í [...] úti í sjó og ætlaði að drekkja sér í [...] vegna þess að hann ætti yfir höfði sér ákæru fyrir nauðgun.
Lögreglumenn hafi farið á vettvang að [...] þar sem húsráðandi, A, hafi tekið á móti þeim og sagt að inni hjá sér væri stúlka sem hefði verið nauðgað af kærða. Inni í húsinu hafi lögreglumenn hitt fyrir brotaþola, B, kt. [...]. Í skýrslu lögreglu komi fram að hún hafi verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hún hafi tjáð lögreglu að kærði, sem hún þekkti ekki mikið, hefði nauðgað sér skömmu áður. Hún hafi sagt kærða hafa lamið sig og hent sér í veggi. Þá hafi hann neytt hana til að eiga við hann munnmök, „totta sig“ og síðan hafi hann einnig nauðgað henni. Hún segist hafa öskrað eins og hún hafi getað á hjálp og á einhverjum tímapunkti hafi þeir sem voru í samkvæminu lamið á hurðina hjá þeim en kærði hafi þá haldið fyrir munn hennar og sagt að þetta væri í lagi. Þá hafi kærði einnig reynt að kyrkja hana. Þá komi fram í frumskýrslu lögreglu að brotaþoli hafi losnað frá kærða og komist út og hlaupið allsnakin yfir í húsið þar sem fólkið hafi verið. Þá hafi brotaþoli verið með sjáanlega áverka í andliti, sprungna efri og neðri vör auk þess sem hún hafi verið aum í öllum líkamanum.
Brotaþoli hafi síðan verið flutt á neyðarmóttöku í sjúkrabifreið.
Lögreglumenn hafi séð kærða þar sem hann hafi staðið í flæðamálinu í [...] neðan [...]. Kærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi og talað um að hann væri of vondur fyrir þennan heim. Kærði hafi í sífellu talað um að hann þyrfti að tala við geðlækninn sinn vegna þess að hann væri hættulegur. Þá hafi hann talað um að hann vildi taka líf sitt og að hann hefði ekki áhuga á að lifa lengur í þessum heimi.
Í frumskýrslu komi fram að vitni hafi sagt brotaþola og kærða, X, hafa mætt í samkvæmið. Skyndilega hafi vitnið og aðrir heyrt mikil öskur í kvenmanni og hafi þeim ekki litist á það því það hafi líkst því að verið væri að ganga í skrokk á henni. Þeir hafi síðan áttað sig á því að þetta hafi komið frá herberginu í bílskúrnum. Þegar lamið hafi verið á herbergishurðina og beðið hafi verið um að opna dyrnar hafi kærði svarað úr herberginu að þetta væri allt í lagi, þau væru bara að stunda kinkí kynlíf. Angistarópin í brotaþola hafi verið slík að þetta hafi ekki verið tekið trúanlegt. Skyndilega hafi brotaþoli komið hlaupandi inn í hús allsnakin og hágrátandi og kærði sést fara frá húsinu. Í framhaldinu hafi verið haft samband við Neyðarlínuna.
Í framburðarskýrslu af brotaþola, B, komi fram að hún og kærði, X, hafi þekkst í u.þ.b. ár og hafi mælt sér mót í [...] í [...] og hann ætlað að fara með hana í partí einhvers staðar í [...]. Þau hafi hins vegar farið í [...] í [...]. Þau hafi farið inn í herbergi þar sem hann hafi sagt henni að hann vildi bara tala við hana. Þegar inn hafi verið komið hafi kærði hins vegar klætt hana úr fötunum þrátt fyrir mótmæli hennar. Kærði hafi tekið hana hálstaki og hótað að hálsbrjóta hana ef hún öskraði. Kærði hafi gripið um háls hennar með báðum höndum og neytt hana til þess að veita sér munnmök. Hún hafi öskrað nokkrum sinnum. Þá hafi hálstakið verið svo fast að hún hafi ekki náð að anda á meðan auk þess sem hann hafi troðið lim sínum langt inn í kok hennar. Þá hafi hann auk þessa snert kynfæri hennar og farið með fingur inn í þau þrátt fyrir mótmæli hennar. Hann hafi einnig hótað því að brjóta á henni hausinn ef hún hefði þennan hávaða en hún hafi öskrað þegar hún hafi getað, á meðan á þessu öllu hafi staðið. Kærði hafi einnig haldið henni niðri á gólfinu og haldið fyrir vit hennar þannig að hún hafi ekki náð að anda. Hún hafi síðan náð að losa sig og hlaupa allsnakin út úr herberginu rakleiðis inn í stofu í húsinu þar sem allir hafi verið. Brotaþoli segist margsinnis hafa sagt kærða að hætta auk þess sem hún hafi grátið en kærði hafi alltaf haldið áfram. Þá komi fram að brotaþola hafi liðið mjög illa á meðan á þessu hafi staðið og haldið að hún væri að deyja þegar kærði hafi ítrekað þrengt að hálsi hennar, jafnframt því sem kærði hafi í einhver skipti tekið fyrir munn hennar og nef. Þá hafi brotaþoli sagt að liðið hafi yfir hana í smástund þegar kærði hafi þrengt að hálsi hennar.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu um samtal við móður brotaþola komi fram að dóttir hennar, þ.e. brotaþoli, hafi verið áverkalaus er hún kvaddi hana þann 31. júlí sl. Í sömu upplýsingaskýrslu sé haft eftir brotaþola að hún hafi tjáð sakborningi að henni hafi verið nauðgað fyrir einu og hálfu ári. Hún hafi ekki verið með neina áverka er hún fór með sakborningi inn í herbergi umrætt sinn.
Í NM-gögnum komi fram að brotaþoli hafi verið með áverka á höfði og líkama, rispur framan á bringu sem taldar eru geta verið eftir klór, sár á vinstri öxl, hálsi og kinn sem séu talin geta verið eftir handtak á hálsi, hún hafi verið stokkbólgin á vörum og með húðblæðingar innan á efri og neðri vör sem taldar séu samrýmast því að munnmök hafi átt sér stað, þ.e. að getnaðarlimi hafi verið troðið upp í hana, hún hafi verið með rispur og marbletti á hálsi bak við vinstra eyra, framan á öxlum beggja vegna og neðst við hársvörð aftan á hálsi sem gætu verið eftir handtak. Ljósmyndir af áverkum brotaþola, sem teknar hafi verið á Neyðarmóttöku, sýni glöggt að um ferska áverka sé að ræða.
Kærði hafi neitað sök í skýrslutöku. Hann hafi sagt að þau hafi haft samfarir og hann hafi sett fingur í leggöng hennar. Hann hafi tekið fram að hann hafi verið svo ölvaður að hann hafi ekki getað fengið sáðlát. Svo hafi gerst eitthvað dramatískt, hún hafi hlaupið út úr herberginu nakin og hann hlaupið út í sjó og ætlað að fremja sjálfsvíg. Kærði neiti að hafa beitt ofbeldi. Varðandi áverka hennar kveði kærði þá geta verið vegna nauðgunar sem hún hafi orðið fyrir í síðustu viku af hendi annars stráks. Kærði hafi ekki getað skýrt það frekar. Hann fullyrði að brotaþoli hafi veitt samþykki sitt og sagt já að hún vildi ríða.
Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 2. ágúst sl. hafi A lýst því að sakborningur og brotaþoli hafi komið heim til hans í partý. Hafi sakborningur beðið hann um lykla að „útiherbergi“ því þau hafi ætlað að „ríða“. Það hafi verið samþykkt og honum jafnframt verið gefnir smokkar. Hann hafi beðið þá um að banka upp á ef hann væri ekki kominn út eftir 20 mínútur. Þeir hafi ekkert fylgt því eftir, en á einhverjum tímapunkti hafi þeir heyrt svakalegt öskur og fleiri öskur hafi fylgt í kjölfarið. Hann og félagi hans hafi farið að herberginu og reynt að opna en hurðin hafi verið læst. Þeir hafi bankað og spurt hvort allt væri í lagi, sakborningur hafi sagt já en brotaþoli hafi öskrað nei. Sakborningur hafi þá sagt að þetta væri bara „kinky“ kynlíf. Hafi hann sagst lítið vita hvað hafi gerst, en á framburði hans megi skilja að mikið uppnám hafi verið. Svo hafi brotaþoli komið hlaupandi úr herberginu, hún hafi verið hvít í framan, grátandi og nakin og hnigið í gólfið. Hann hafi í framhaldinu náð í föt brotaþola og skömmu síðar reynt að róa hana því hún hafi grátið mikið og verið í svakalegu ástandi. Hún hafi tjáð honum að sakborningur hefði lamið hana, hent henni í gólfið og sagt henni að gráta, það gerði hann graðari. Varir hennar hafi verið sprungnar og blóðugar og klórfar á henni. Aðspurður hafi hann sagt að 5-10 mínútur hafi liðið frá fyrsta öskrinu og þar til brotaþoli hafi komist út.
C hafi borið um þetta á sama veg. Hafi brotaþoli hlaupið í fangið á C er hún kom hlaupandi inn í stofu. Hún hafi verið hvít í framan, grátandi, nakin og titrað af hræðslu. Er C hafi spurt hana hvað hefði gerst hafi hún svarað „mér var nauðgað“. Blætt hafi úr munni hennar og klórför verið á bringu hennar. Brotaþoli hafi sagt C að hún hefði samþykkt þetta fyrst en svo hefði sakborningur orðið grófari. C segðist hafa farið og rætt við sakborning sem hafi verið ólíkur sjálfum sér og sagt við hana „C dreptu mig“.
D hafi lýst því að hún hafi verið úti að reykja þegar strákar úr partýinu hafi hlaupið til þeirra og sagt þeim að koma strax inn. Er þangað hafi verið komið hafi hún heyrt „ógeðslegustu öskur“ sem hún hefði heyrt. Framburður hennar um það sem gerst hefði hafi verið í sömu veru og framburðir annarra vitna.
E hafi greint frá því að sakborningur hafi spurt A hvort hann mætti nota útiherbergið til að vera þar með brotaþola. A hafi gefið leyfi, en E taldi að um klukkutími hafi liðið þar til svo sakborningur fór með brotaþola inn í herbergið. Eftir um klukkutíma hafi hann heyrt öskur en hann var þá staddur inni á salerni. Er hann kom fram hafi brotaþoli setið allsnakin á stofugólfinu, niðurbrotin. Hún hafi varla getað talað en hafi þó sagt að sakborningur hafi nauðgað sér.
Framburður F hafi verið í sömu veru. Hann hafi heyrt öskur og er þeir hafi gætt að þessu og skipað sakborningi að opna hurðina hafi hann kallað „þetta er bara rough sex“. Hafi F þá sagt við sakborning að drullast til að opna hurðina annars myndi hann brjóta hana upp. Hafi brotaþoli svo komið hlaupandi inn í íbúðina, nakin, blóðug um munninn og öskrað „hjálp strákar“.
Mál nr. 008-2016-[...]
Í greinargerð lögreglu kemur fram um málsatvik að þann 25. júlí sl. hafi lögreglunni á Suðurnesjum borist tilkynning frá Neyðarmóttöku um að þangað hefði ung stúlka, G, leitað vegna nauðgunar. Í skýrslutöku sama dag og svo síðar þann 29. júlí hafi G lýst því að sakborningur hefði nauðgað henni tvisvar á heimil hans að [...],[...]. Hafi hann byrjað að kyrkja hana og er hún náði að hreyfa sig og datt í gólfið hafi hann byrjað að stappa á hálsi hennar eins og hann væri að reyna að hálsbrjóta hana. Hafi hann sparkað í hana er hún lá á gólfinu. Hún hafi beðið hann um að hætta og sagst ætla að gera það sem hann vildi. Hafi hann sagt að ef hún gerði það ekki myndi hann láta hana hverfa. Í kjölfarið hafi hann beðið hana um að fara úr fötunum, sem hún gerði, og síðan hafi hann haft samfarir við hana. Hann hafi síðan sagt henni að fara í sturtu og eftir það þá hafi hann aftur haft samfarir við hana. Hafi hún verið á blæðingum umrætt sinn. Meðan á kynmökum stóð hafi hann einnig slegið hana utan undir. Eftir þetta hafi hann hent laki og smokk í svartan ruslapoka og síðan skutlaði hann henni heim. Klukkan hafi þá verið um hálf ellefu, og hafi hann sagt henni að segja engum frá þessu, það myndi ekkert þýða fyrir hana að kæra. Hafi hún farið heim til vinkonu sinnar H, sem hafi ekki verið heima. Foreldrar H voru heima og hafi brotaþoli sagt þeim hvað gerst hefði. Í kjölfarið hafi hún farið á Neyðarmóttökuna.
Ljósmyndir hafi verið teknar af brotaþola á Neyðarmóttöku þann 25. júlí, og svo aftur 29. júlí. Fylgi þær gögnum málsins. Glögglega megi sjá áverka á brotaþola sem samræmist lýsingu hennar að mati lögreglu.
Við húsleit við heimili sakbornings hafi fundist svartur ruslapoki í ruslatunnu. Í ruslapokanum hafi fundist rúmföt, handklæði, smokkar og ýmsir smámunir. Smokkurinn hafi verið notaður og virtist blóðugur.
Í skýrslu lögreglu komi fram að við húsleit hafi sést að engin rúmföt voru utan um sæng, kodda og dýnu á rúmi sakbornings. Á vettvangi hafi sakborningur gefið þær skýringar að hann hafi brennt rúmfötin í steyptu húsi við [...] því þau hafi verið orðin götótt. Í yfirheyrslu hafi hann sagst hafa farið ásamt tilteknum félaga sínum út í móa hjá [...] og hellt kveikjarabensíni á rúmfötin og kveikt í þeim í steyptu skýli sem herinn hefði eitt sinn notað. Síðar í yfirheyrslunni hafi hann sagt að þessi félagi hafi ekki komið nálægt þessu, hann hafi verið einn. Hafi hann í fyrstu sagst kunna leiðina að þessu húsi, en svo hafi hann sagt að hann væri ekki viss um að rata þangað. Lögregla hafi kannað ýmis skýli eins og ljósmyndaskýrsla beri með sér, en engin ummerki hafi verið um að kveikt hafi verið í einhverju þar.
Í sömu yfirheyrslu hjá lögreglu hafi sakborningur kannast við að brotaþoli hefði komið heim til hans umrætt sinn en neitað því að kynmök hefðu átt sér stað. Hafi þau verið um hálftíma heima hjá honum en hann síðan skutlað henni heim um tíuleytið, tíu til hálfellefu. Í yfirheyrslunni sé hann spurður hvort hann sé skapmikill og hafi hann þá sagst vera með ofsareiði. Sé honum hótað eða fjölskyldunni þá geti hann misst allt vit, líkaminn taki við, geðklofinn taki við og síðan muni hann ekki hvað gerist. Síðar í skýrslutökunni lýsi hann því að vel geti verið að hann hafi haft samræði við brotaþola, hann muni það ekki. Af framburði hans megi skilja að hann sé að bera fyrir sig geðrænum veikindum. Þá komi fram að hann eigi pantaðan tíma á göngudeild geðdeildar þann 9. eða 10. ágúst.
Mat lögreglu um að skilyrði c og d-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. sml. séu uppfyllt.
Að mati lögreglu sé kærði undir sterkum grun um að hafa í máli nr. 007-2016-[...] með ofbeldi nauðgað brotaþola umrætt sinn. Brotaþoli hafi strax skýrt frá með þeim hætti og fái framburður hennar stoð í framburði vitna og skýrslu læknis á neyðarmóttöku svo sem að framan sé lýst, sem og af ljósmyndum sem fylgi gögnum málsins. Þá beri ástand hennar umrætt sinn, eins og lýst er í frumskýrslu lögreglu, þess skýr merki að hún hafi orðið fyrir skelfilegri lífsreynslu. Framburður kærða stangist í öllum atriðum á við framburð brotaþola og annarra vitna, en þau hafi lýst því að hafa heyrt mikil öskur frá brotaþola og að hún hafi verið með ferska áverka er hún hafi komið hlaupandi út úr herberginu allsnakin og í áfalli. Framburður sakbornings um að kynlíf hafi farið fram með samþykki hennar, að engu ofbeldi hafi verið beitt og að hún hafi verið með áverka fyrir þennan atburð, eigi sér ekki neina stoð í gögnum málsins að mati lögreglu.
Að mati lögreglu sé sakborningur undir rökstuddum grun í máli nr. 008-2016-[...] um að hafa með ofbeldi nauðgað brotaþola umrætt sinn. Framburður hennar fái stoð í vettvangsrannsókn, sem að framan sé lýst, og af ljósmyndum sem sýni áverka hennar. Sakborningur hafi ekki getað skýrt þessa áverka. Hann hafi ekki útilokað síðar í yfirheyrslunni að samræði hafi átt sér stað, en hafi borið fyrir sig geðrænum veikindum.
Stutt sé á milli meintra brota, en tæp vika hafi liðið frá því tilkynnt hafi verið um hin meintu kynferðisbrot. Með vísan til framangreinds ætli lögregla að sakborningur muni halda áfram brotum meðan málum hans sé ekki lokið. Þá sé það mat lögreglu að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings. Vísast til dóms Hæstaréttar í máli nr. 215/2005 þar um. Hvað varði mál nr. 007-2016-[...] þá sé það mat lögreglu, með hliðsjón af því sem að framan greini, að sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um verknað sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, þ.e. brot gagnvart 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varðandi skilyrðið um sterkan grun vísi lögreglustjóri til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 98/2016. Þá sé verknaðurinn, að mati lögreglustjóra, þess eðlis, að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c- og d-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Með vísan til þess sem rakið er í greinargerð sóknaraðila og fram kemur í rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um verknað sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi og rökstuddum grun um annað slíkt brot, þ.e. brot gagnvart 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er á það fallist að brot þessi séu þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Einnig er ekki óvarlegt að ætla að sú hætta sé fyrir hendi að kærði haldi áfram brotum ef hann losnar úr haldi. Er þá horft til þess skamma tíma sem líður á milli þessara tveggja nauðgunarbrota sem kærði er sakaður um. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og í úrskurðarorði greinir.
Eins og máli þessu er háttað koma önnur úrræði ekki að svo stöddu í stað gæsluvarðhaldsins. Dómari hefði talið æskilegt miðað við gögn málsins, að geðrannsókn hefði farið fram á kærða á meðan núverandi gæsluvarðhaldsvist stóð. Vísbendingar eru um að kærði gangi ekki heill til skógar og hefur hann sjálfur lýst því að hann telji sig geðveikan. Var hann enda við handtöku í síðara málinu búinn að sögn að panta tíma á göngudeild geðdeildar 9. eða 10. ágúst nk. Þar sem geðrannsókn hefur verið ákveðin og kærði hefur lýst sig samþykkan að undirgangast hana þykir dómnum rétt að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er, í því augnamiði að það gefist þá tækifæri fyrr en ella að meta hvort skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt í samræmi við þrautavarakröfu kærða.
Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. ágúst 2016, kl. 16.00.