Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2003


Lykilorð

  • Verksamningur


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. desember 2003.

Nr. 163/2003.

Nóntindur ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur.

N tók að sér að leggja aðveituæð fyrir H. Verkinu var ekki lokið á umsömdum tíma og jafnframt reis ágreiningur með aðilum um fjárhagslegt uppgjör fyrir ýmsa þætti verksins. Var ljóst að ágreininginn mátti að hluta rekja til þess að annmarkar voru á útboðsgögnum H. Kröfur N voru teknar til greina að nokkru leyti og var H dæmdur til greiðslu 6.638.700 kr. ásamt dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2003. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 14.550.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. apríl 2001 til 1. júlí sama árs og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 21. júlí 2003. Hann krefst þess að honum verði einungis gert að greiða aðaláfrýjanda 900.000 krónur. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Með verksamningi 16. maí 2000 tók aðaláfrýjandi að sér að leggja fyrir gagnáfrýjanda aðveituæð fyrir heitt vatn frá Reykjadal að Búðardal í Dalabyggð, en lengd lagnarinnar mun vera um 23 kílómetrar. Endurgjald til aðaláfrýjanda skyldi vera 49.910.054 krónur í samræmi við tilboð hans í verkið 19. apríl 2000 og átti því að vera að fullu lokið 25. ágúst sama árs. Í samningnum var tekið fram að verkið skyldi unnið í samræmi við ýmis þar tilgreind gögn, en meðal þeirra var útboðs- og verklýsing frá mars 2000, sem unnin var af Vélaverki ehf. fyrir gagnáfrýjanda.

Verkinu var ekki lokið á umsömdum tíma. Er í héraðsdómi greint nánar frá því, sem fram kemur í fundargerðum verkfunda aðilanna, en samkvæmt þeim var verkinu lokið í nóvember 2000 að undanskildum yfirborðsfrágangi eftir að hitaveitulögnin var lögð í jörð. Reis jafnframt ágreiningur með aðilunum um fjárhagslegt uppgjör fyrir ýmsa þætti verksins. Er ljóst að ágreininginn mátti að hluta rekja til þess að annmarkar voru á útboðsgögnum gagnáfrýjanda, svo sem um magntölur. Þannig kom fram fyrir dómi hjá eftirlitsmanni gagnáfrýjanda með framkvæmd verksins að útboðsgögnin hafi verið „mjög slæm“. Höfðaði aðaláfrýjandi síðan málið 11. desember 2001 og krafðist þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 39.122.767 krónur, sem var samtala sautján kröfuliða. Lækkaði hann eftir það kröfu sína í 35.972.680 krónur. Með úrskurði héraðsdóms 18. september 2002 var vísað frá dómi nokkrum kröfuliðum, samtals að fjárhæð 11.167.000 krónur, og eftir það féll aðaláfrýjandi frá einum kröfulið að fjárhæð 5.000.000 krónur. Við aðalmeðferð málsins í héraði voru teknar skýrslur af sjö vitnum og fyrirsvarsmönnum aðilanna. Eftir skýrslutökur en fyrir munnlegan málflutning samþykkti gagnáfrýjandi fjóra kröfuliði aðaláfrýjanda, samtals 900.000 krónur, eftir að aðaláfrýjandi hafði lækkað fjárhæð samkvæmt tveimur þeirra. Stóðu þá eftir þrír liðir af kröfu aðaláfrýjanda, sem dómur gekk um í héraði 5. febrúar 2003. Fyrir Hæstarétti krefst aðaláfrýjandi þess að niðurstöðu héraðsdóms um einn þeirra verði breytt, en gagnáfrýjandi krefst endurskoðunar á niðurstöðu um hina tvo. Eins og í héraði krefst hann þess að honum verði einungis gert að greiða 900.000 krónur. Hefur hann ekki innt af hendi þá greiðslu, sem hann þó viðurkennir.

II.

Í fyrsta kröfuliðnum, sem ágreiningur stendur enn um, krafðist aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða honum 2.000.000 krónur vegna viðbótarkostnaðar, sem hann þurfti að greiða undirverktaka sínum, Verkiðn ehf., sökum þess að vegslóði var ekki lagður með hitaveitulögninni, sem undirverktakinn vann við. Tók héraðsdómur kröfuna til greina. Fyrir Hæstarétti krefst gagnáfrýjandi sýknu af þessum lið í kröfu aðaláfrýjanda. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um þennan kröfulið staðfest.

Í annan stað krafðist aðaláfrýjandi þess fyrir héraðsdómi að fá greiddar 6.840.000 krónur vegna þess að legu hitaveitulagnarinnar hafi verið breytt frá því sem útboðsgögn sýndu á hluta leiðarinnar og honum gert að leggja hana þar sem erfiðara var um vik við framkvæmd verksins. Af þessu hafi hann haft viðbótarkostnað, sem hann krafðist að honum yrði bættur. Taldi aðaláfrýjandi verri aðstæður að þessu leyti vera fyrir hendi á 10,1 kílómetra löngum kafla þar sem lagnarstæðinu var breytt og krafðist 900 króna viðbótargreiðslu fyrir hvern metra á þeirri leið. Með endanlegri kröfu í þessum lið hafi hann tekið tillit til þess að gagnáfrýjandi kom á móts við sjónarmið hans og viðurkenndi rétt aðaláfrýjanda til 500 króna viðbótargreiðslu fyrir hvern metra á 4,5 kílómetra löngum kafla lagnarinnar. Var greiðslan, 2.250.000 krónur innt af hendi 9. júlí 2001. Féllst héraðsdómur á rétt aðaláfrýjanda til að fá 900 króna viðbótargreiðslu fyrir hvern metra á 6,5 kílómetra löngum kafla, þar sem lögnin var lögð í jörð. Að teknu tilliti til áðurnefndrar innborgunar gagnáfrýjanda var hann dæmdur til að greiða 3.600.000 krónur í þessum þætti málsins. Krefst hann sýknu að öðru leyti en hann hefur sjálfur viðurkennt og greitt.

Meðal gagna, sem vísað var til í verksamningi aðilanna, var ÍST-30. Í 32. gr. staðalsins segir að rísi ágreiningur milli verkkaupa og verktaka um verkið kveði umsjónarmaður verkkaupa upp skriflegan úrskurð innan mánaðar frá því annar hvor aðilanna bað um slíkt. Ef það leiðir ekki ágreininginn til lykta er síðan mælt fyrir um heimild til að skjóta honum til gerðardóms. Málsaðilar fóru ekki þá leið, sem þarna er mælt fyrir um, heldur öfluðu þeir hvor um sig álitsgerða frá verkfræðingum um ágreiningsefnið. Var þannig af hálfu gagnáfrýjanda fengin sameiginleg skýrsla tveggja verkfræðinga frá þeim, sem sáu um hönnun og eftirlit með verkinu, en í henni var krafa aðaláfrýjanda að hluta talin réttmæt, svo sem áður hefur verið getið um. Aðaláfrýjandi reisti kröfu sína hins vegar á áliti verkfræðings, sem hann leitaði til. Við úrlausn um ágreiningsefnið lagði héraðsdómur mat á gögn málsins, sem voru einkum umræddar álitsgerðir verkfræðinga og teikningar, auk þess að kanna vettvang sjálfur. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms um þennan kröfulið verður niðurstaða hans staðfest.

Þriðja ágreiningsefni aðilanna varðar yfirborðsfrágang eftir að hitaveitulögnin var lögð í jörð. Var tekið fram í útboðsgögnum gagnáfrýjanda að útboðið næði meðal annars til „yfirborðsfrágangs o.fl.“ Í skrá um magntölur var tekið fram að lagðar skyldu túnþökur og sáð í samtals 14.308 fermetra, en þar af yrðu þökur á 500 fermetrum. Í útboðsgögnunum var jafnframt tekið fram að magntölur, sem tilteknar væru í verkhlutaskrá, væru áætlaðar. Bauð aðaláfrýjandi 85 krónur í hvern fermetra þessa verkhluta, samtals 1.216.180 krónur. Í þessum þætti málsins krefst hann greiðslu á 8.050.000 krónum og miðar krafan við að sáð sé í eða lagðar þökur á samtals 132.100 fermetra svæði. Vísar aðaláfrýjandi til stuðnings kröfunni einkum til þess að hann hafi óskað eftir nánari skýringum á þessum lið útboðsins hjá hönnuði verksins áður en tilboði var skilað og fengið þau svör að reiknað væri með að verktaki skildi við yfirborð lagnarstæðisins í sambærilegu ástandi og það var fyrir framkvæmdir. Að fengnum þessum svörum hafi verið ljóst að umfang verkhlutans færi langt fram úr hinum áætluðu, uppgefnu magntölum, og væri þessi aukning á verkinu hluti af verksamningnum. Málsástæður aðilanna í þessum þætti eru nánar raktar í héraðsdómi, þar sem kröfu aðaláfrýjanda var hafnað og gagnáfrýjandi sýknaður.

Aðaláfrýjandi lauk verki sínu að yfirborðsfrágangi undanskildum í nóvember 2000 svo sem áður var getið. Hafði hann þá lokið og fengið greitt fyrir 12.032 fermetra, sem voru um 85% af áætluðu umfangi verksins. Á verkfundi aðilanna 30. nóvember 2000 var skráð að yfirborðsfrágangur verði látinn bíða til næsta vors og honum lokið strax og veður leyfði. Að loknum þeim frágangi verði lokaúttekt verksins. Undirrituðu báðir aðilar fundargerðina. Á verkfundi 19. desember 2000 var bókað og undirritað að vinna við frágang girðinga og yfirborðs lands á lagnarstæði verði látin bíða þar til veður leyfi að unnt verði að ljúka verkinu næsta vor. Næstu vikur og mánuði þar á eftir leitaði aðaláfrýjandi eftir því að fá skýr svör gagnáfrýjanda um það hvernig verklokum skyldi hagað, en fékk ekki. Með bréfi lögmanns gagnáfrýjanda 10. maí 2001 sagði hins vegar að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um hvort ráðist yrði í frekari aðgerðir við yfirborðsfrágang. Viðræður stæðu yfir við landeigendur vegna rasks á jörðum þeirra og ekki væri ljóst til hvers þær myndu leiða. Með öðru bréfi lögmannsins 31. maí 2000 var tilkynnt að það væri mat stjórnar gagnáfrýjanda að engin þörf væri á frekari yfirborðsfrágangi á vegum hitaveitunnar og að ekki væri þörf fyrir frekari vinnu af hálfu aðaláfrýjanda.

Í útboðsgögnum var tiltekin nákvæm tala þeirra fermetra, sem lagðir skyldu þökum eða sáð í, en jafnframt sagt að magntölur væru áætlaðar. Hafði aðaláfrýjandi í nóvember 2000 að miklu leyti lokið við að ganga frá þeim fjölda fermetra, sem tiltekinn var í útboðsgögnum. Áðurnefndar fundargerðir frá þeim tíma taka af allan vafa um að aðilarnir voru þá sammála um að verkinu væri ekki lokið og að aðaláfrýjandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að samkomulag væri um frekara verk af hans hendi að vori. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu að gagnáfrýjandi sé bundinn af samningi um frágang á þeim 14.308 fermetrum, sem tilteknir voru í útboðsgögnum. Verður gagnáfrýjanda gert að greiða fyrir þá 2.276 fermetra, sem enn eru ógreiddir með 138.700 krónum.  Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar, sem hann hefði haft af þeirri framkvæmd samkvæmt matsgerð 5. ágúst 2002. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjandi eigi ekki kröfu til frekari greiðslu í þessum þætti málsins.

Samkvæmt öllu framanröktu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda samtals 6.638.700 krónur með dráttarvöxtum, eins og nánar segir í dómsorði. Skal gagnáfrýjandi einnig greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Hitaveita Dalabyggðar ehf., greiði aðaláfrýjanda, Nóntindi ehf, 6.638.700 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. apríl 2001 til 1. júlí sama árs og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 5. febrúar 2003.

                Mál þetta var höfðað 11. desember 2001 og dómtekið 17. janúar 2003. Stefnandi er Nóntindur ehf., Ásum í Búðardal, en stefndu eru Hitaveita Dalabyggðar ehf. og Dalabyggð, bæði með starfsstöð að Miðbraut 11 í Búðardal.

                Stefnandi krefst þess að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., verði dæmd til að greiða sér 17.790.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. mars 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., krefst þess að henni verði eingöngu gert að greiða stefnanda 900.000 krónur, en verði að öðru leyti sýknuð af kröfum stefnanda. Jafnframt er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

                Þá gerir stefnda, Dalabyggð, kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

I.

                Hinn 2. apríl 2000 bauð stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., út verk sem fól í sér jarðvinnu, útlögn og samsuðu á nýjum foreinangruðum stálrörum fyrir flutning á hitaveituvatni frá borholusvæði við Grafarlaug í Reykjadal að byggð í Búðardal. Hönnuður verksins var Vélaverk ehf., sem einnig annaðist gerð útboðsgagna. Í heildina nemur lengd lagnarinnar liðlega 23 kílómetrum, en í verklýsingu er verkinu skipt í eftirtalda verkþætti: Aðstöðu og rekstur vinnusvæðis, jarðvinnu, hitaveitulagnir, byggingarvinnu, yfirborðsfrágang og tímavinnu. Samkvæmt útboðsgögnum bar verkkaupa að leggja til allt efni til verksins, en að öðru leyti átti framkvæmd verksins að vera á hendi verkkaupa. Verkið átti að hefjast tveimur vikum eftir samþykki tilboðs en innan fjögurra vikna frá opnun tilboða 19. apríl 2000 og áttu verklok að vera 25. ágúst sama ár.

Stefnandi átti lægsta tilboð í verkið samtals að fjárhæð 49.910.054 krónur. Tilboð þetta byggðist á tilboðsskrá í útboðsgögnum þar sem verkliðum er skipt niður í ákveðinn fjölda eininga eftir lengdarmetum, rúmmetrum, fermetrum, stykkjafjölda og vinnustundum. Í tilboðsskrá eru gefin upp einingarverð einstakra verkliða, en fram kemur í útboðslýsingu að magntölur séu áætlaðar. Tilboði stefnanda í verkið var tekið og á grundvelli þess og útboðsgagna var gerður verksamningur við stefnanda 16. maí 2000.

Stefnandi hófst handa við verkið 17. maí 2000 og stóð það yfir þá um sumarið og fram á haust. Stefnanda tókst ekki að skila verkinu í tæka tíð samkvæmt verksamningi, en látið var átölulaust af hálfu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., að verkið drægist fram eftir hausti. Á verkfundi 30. nóvember 2000, þar sem mættir voru fyrirsvarsmenn stefnanda og eftirlitsmaður verkkaupa, kom fram að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., hefði tekið við lögninni og búið væri að tengja hana við dreifikerfið í Búðardal. Einnig kom fram að stefnandi hefði lokið við verkið að frátöldum yfirborðsfrágangi, en ákveðið var að hann biði næsta vors.

Við framkvæmd verksins varð ágreiningur af ýmsu tagi með stefnanda og stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., en hann laut meðal annars að því að stefnandi taldi útboðsgögnum verulega áfátt, auk þess sem stefnandi gerði kröfu um greiðslu fyrir ýmiss aukaverk. Hluta af þeim kröfum greiddi stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., en stefnandi höfðaði síðan málið um önnur ágreiningsefni.

               

II.

                Í málinu krefst stefnandi greiðslu vegna yfirborðsfrágangs við slóðalagningu að fjárhæð 391.000 krónur, en einingarverð fyrir þennan lið er 100 krónur á lengdarmeter. Einnig krefst stefnandi greiðslu að fjárhæð 30.000 krónur vegna frágangs á lögninni þar sem krækja þurfti fyrir skurð. Þá krefst stefnandi greiðslu að fjárhæð 371.000 krónur fyrir fleygun á klöpp í landi Köldukinnar og greiðslu að fjárhæð 108.000 krónur fyrir viðgerðir á hlífðarkápum með rörum.

                Af hálfu stefnda, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., hefur verið fallist á þessa kröfuliði, en samtals nema þeir 900.000 krónum. Í samræmi við það verður stefnda dæmd til greiðslu þeirrar fjárhæðar, sbr. 98. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

                Að öðru leyti en hér hefur verið rakið standa eftir í málinu þrír kröfuliðir stefnanda og verður fjallað um hvern þeirra sérstaklega.

III.

1.

                Með samningi 4. maí 2000 tók Verkiðn ehf. að sér sem undirverktaki gagnvart stefnanda útkeyrslu lagnaefnis, útlagningu lagna, svo og samsuðu og frágang hitaveitulagnanna. Um verkið var vísað til verklýsingar stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

                Samkvæmt verklýsingu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., var gert ráð fyrir að lagður yrði slóði meðfram hitaveitulögninni eftir því sem nauðsynlegt væri vegna vinnu við verkið. Víðast hvar liggur hitaveitulögnin meðfram þjóðvegi, en frá Háafelli að Stóraskógi eða á svæði sem er um 6,4 kílómetrar að lengd liggur lögnin utan þjóðvegar um móa og tún jarða. Á þessu svæði annaðist Verkiðn ehf. útlagningu og suðu við lögnina.

                Á verkfundi 8. júní 2000 kom fram af hálfu stefnanda að ráða mætti af loftmyndum að lagnir í túnum gætu verið um 5 kílómetrar. Miðað við reynslu mætti gera ráð fyrir að kostnaður við slóða og söndum gæti samkvæmt einingarverðum numið alls 4.550.000 krónum. Vísaði stefnandi til þess að hvergi kæmi fram í útboðsgögnum að annar háttur yrði hafður á við framkvæmd verksins en að sanda alla lögnina og leggja slóða þar sem ekki væri unnið frá vegi. Stefnandi lagði hins vegar til að sparnaður sem næðist með því að sleppa slóðagerð yrði skipt jafnt milli hans og stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf. Því til viðbótar yrði greitt fyrir eina traktorsgröfu og verkamann við útlögn á rörum utan slóða þar sem ekki væri hægt að nota kranabíl við verkið. Á verkfundi 6. júlí 2000 hafnaði stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., þessari kröfu.

                Á umræddum verkfundi 6. júlí 2000 kom fram af hálfu Verkiðnar ehf. að gerð yrði krafa á hendur stefnanda um viðbótargreiðslu að fjárhæð 400 krónur fyrir lengdarmeter þar sem lögnin væri lengra en 10-15 metra frá vegi. Fjárhæðin var miðuð við að Verkiðn ehf. kæmi rörum fyrir og starfaði við lögnina án þess að gerðir yrðu slóðar eða aðrar ráðstafanir til að auðvelda aðkomu að lagnarstæði. Fyrir kröfunni voru færð þau rök að aðstæður á vinnusvæði væru í engu samræmi við útboðsgögn. Gengið hefði verið út frá því að unnt yrði að leggja rör frá vegi þar sem aðkoma með rafsuðuvélar og annan búnað yrði auðveld. Á löngum kafla væri lögnin hins vegar langt frá vegi og allur kostnaður því mun meiri en gera hefði mátt ráð fyrir.  

                Næst var fjallað um kröfur stefnanda og Verkiðnar ehf. fyrir aukaverk á verkfundi 20. júlí 2000. Samkvæmt fundargerð frá þeim fundi vísaði stefnandi til þess að fram kæmi í skriflegum svörum hönnuðar 14. apríl 2000 við fyrirspurnum bjóðenda í verkið að lögnin yrði að öllum líkindum að vera 15 metra frá miðlínu vegar. Jafnframt kæmi fram í svörum hönnuðar að frá borholu að Fellsenda væri slóði verulegan hluta leiðarinnar og slétt malaryfirborð. Með hliðsjón af þessum upplýsingum hönnuðar taldi stefnandi ljóst að gert væri ráð fyrir því að vinna við lögnina væri auðveld. Á fundinum lagði stefnandi einnig áherslu á að kröfur hans og Verkiðnar ehf. yrðu afgreiddar samhliða þannig að viðunandi niðurstaða fengist. 

                Á verkfundi 31. ágúst 2000 kom fram að stefnandi hafði rift samningi við Verkiðn ehf. Í kjölfarið höfðaði Verkiðn ehf. mál á hendur stefnanda og krafðist meðal annars greiðslu vegna viðbótarkostnaðar og óhagræðis við verkið þar sem vegarslóði var ekki lagður meðfram lagnarstæði. Fjárhæð kröfunnar nam 2.326.400 krónum vegna svæðis 5.816 metrar að lengd, en miðað var við sama einingarverð og þegar krafan kom upphaflega fram eða 400 krónur á lengdarmeter. Í dómi héraðsdóms 17. maí 2001 var vísað til þess að fram hefði komið hjá stefnanda (Nóntindi ehf.) að ekki væri þörf á að leggja slóða nema í mesta lagi á 4-5 kílómetra leið. Hann hefði því sjálfur staðfest að leggja þyrfti slóða í einhverjum mæli. Var einingarverð Verkiðnaðar ehf. talið hóflegt og því var krafan tekin til greina. Þó var lagt til grundvallar að slóði hefði ekki verið fyrir hendi á svæði 5.000 metrar að lengd, en ekki 5.816 metrar eins og Verkiðn ehf. miðaði við, og því nam dæmd fjárhæð 2.000.000 króna (5000 x 400 kr.). Með dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2002 í máli nr. 279/2001 var þessi niðurstaða staðfest. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ekki væru efni til annars, að virtum málatilbúnað stefnanda, en að miða við að hann hefði látið hjá líða að gera á verktíma vegarslóða, sem hann hefði sjálfur talið á þeim tíma um 5 kílómetrar að lengd.   

2.

                Í þessum lið gerir stefnandi kröfu um að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., verði dæmd til að greiða honum 2.000.000 króna vegna viðbótarkostnaðar, sem stefnandi þurfti að greiða undirverktaka, Verkiðn ehf., sökum þess að slóði var ekki lagður með lögninni. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til þeirrar meginreglu verktakaréttar að verktaki skuli hafa greiðan aðgang að þeim stað þar sem unnið sé hverju sinni. Einnig sé í verksamningi gert ráð fyrir lagningu vegarslóða meðfram lögninni.

                Stefnandi heldur því fram að yfir skurði og girðingar hafi verið að fara, þar sem lögnin lá yfir tún jarða og móa, en það hafi lengt mjög þann tíma sem tók að komast að lagnarstæðinu. Einnig hafi í sumum tilvikum verið lagt bann við því að fara yfir tún, svo gras yrði ekki troðið niður fyrir slátt. Á kaflanum frá Fellsenda að Snæfellsnesvegi hafi tilfæringar við að koma mönnum, vélum og tækjum að lagnarstæði verið mun meiri og erfiðari en ef unnið hefði verið frá þjóðvegi eða lögðum vegarslóða. Þótt slétt hafi verið á lagnarstæðinu á melum og túnum hafi þurft að leita að hliðum á girðingum, búa til hlið með tilheyrandi kostnaði og reka burt kýr og kindur.

                Stefnandi bendir á að þvermál röra í lögninni hafi verið um 25 cm, lengd 12 metrar og þyngd um 200 kíló. Í hverju búnti hafi verið sjö rör, en reiknað hafi verið með að unnt yrði að fara með hvert búnt að lagnarstæðinu eftir vegi. Með traktorsgröfu yrði síðan hvert rör tekið og raðað meðfram lagnarstæðinu. Þar sem vegur eða slóði hafi ekki verið fyrir hendi hafi ekki verið hægt að vinna verkið með þessu móti. Þess í stað hafi eitt til þrjú rör verið sótt frá vegi með traktorsgröfu og þræða hafi þurft með þau fyrir skurði og girðingar. Einnig hafi af sömu ástæðu verið erfitt fyrir þá sem önnuðust rafsuðu að athafna sig með vélar og tæki.

3.

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., telur að stefnandi eigi enga kröfu á hendur sér af þessu tilefni. Útboðsgögn hafi verið nægjanlega skýr og augljóst samkvæmt þeim að lögnin lá ekki við þjóðveg á kaflanum frá Fellsenda að Snæfellsnesafleggjara. Er því einnig haldið fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að vinna við þennan kafla hafi verið erfiðari en reikna hafi mátt með miðað við útboðsgögn.

                Við munnlegan flutning málsins var því einnig haldið fram af hálfu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., að fallist hafi verið á kröfu Verkiðnar ehf. með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar þar sem stefnandi hafi viðurkennt að nauðsynlegt hafi verið að leggja vegarslóða. Engin ágreiningur hafi hins vegar verið milli stefnanda og stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., um hvar ætti að leggja slóða og ekkert mat á slíku hefði verið lagt fram í málinu.

4.

                Samkvæmt útboðsgögnum stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., er gert ráð fyrir að leggja þurfi slóða til að verktaki geti athafnað sig við lögnina. Er tekið fram í verklýsingu að verktaka sé heimilt að taka fyllingarefni eins og notað er í undirbyggingu lagnarinnar þar sem nauðsynlegt sé að byggja slóða. Í tilboðsskrá er magn vegarslóða áætlað 1.000 lengdarmetrar og 1.000 rúmmetrar. Ágreiningslaust er með málsaðilum að nauðsynlegt reyndist að leggja mun meira af slóðum en gert var ráð fyrir. Þá er í útboðsgögnum ekki að finna neina lýsingu á því hvar gera megi ráð fyrir að leggja þurfi slóða. Að þessu leyti eru því annmarkar í útboðsgögnum, en á þeim ber stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., ábyrgð. 

                Svo sem áður getur liggur hitaveitan frá Háafelli að Stóraskógi á um 6,4 kílómetra kafla utan þjóðvegar um móa og tún jarðar, en á þeim kafla annaðist Verkiðn ehf. útlagningu og suðu við lögnina. Af vettvangsgöngu verður ráðið að nauðsynlegt var til að vinna verkið greiðlega á þessu svæði að leggja slóða ekki bara meðfram lögninni heldur einnig til og frá henni að þjóvegi á nokkrum stöðum. Að því slepptu var óhjákvæmilegt að verkið yrði bæði seinlegra og erfiðara í framkvæmd, meðal annars sökum þess að ekki var unnt að koma við þeim tækjum sem best hentuðu til verksins.

                Af dagskýrslum stefnanda um verkið, sem liggja fyrir í málinu, verður ráðið að hann hafi unnið við slóðagerð á tímabilinu 30. maí til 21. júní 2000, en þá hafði komið tillaga fram af hálfu stefnanda um að spara við slóðagerð og skipta þeim ávinningi milli hans og stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf. Slóðagerð á þessu tímabili var því lokið áður en stefnda hafði tekið afstöðu til þeirrar tillögu stefnanda, en henni var hafnað 6. júlí sama ár. Verður því að leggja til grundvallar að framkvæmdir stefnanda við gerð slóða á því tímaskeiði hljóti að mestu að hafa beinst að öðrum svæðum. Samkvæmt dagskýrslum stefnanda vann hann einnig við slóðagerð frá 17. til 28. ágúst 2000, en þá hafði Verkiðn ehf. horfið frá verkinu. Þeir slóðar voru aftur á móti lagðir á umræddu svæði utan þjóðvegar og því hefðu þeir getað komið að notum fyrir Verkiðn ehf. hefðu þeir verið fyrir hendi þegar undirverktakinn var að störfum. Hins vegar voru þessir slóðar ekki lengri en um 1.400 metrar af dagskýrslum að dæma og því hefðu þeir ekki getað breytt neinu verulegu í þessu tilliti.

                Að virtu því sem hér hefur verið rakið þykir stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., verða að standa straum af þeim aukakostnaði sem leiddi af þeirri verktilhögun að sleppt var í verulegum mæli slóðalögn um móa og tún jarða á umræddu svæði, sem aftur á móti leiddi til samsvarandi kostnaðar verktaka við pípulögnina. Verður einnig að líta til þess að fram hefur komið í málinu að samráð var haft við stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., um þessa verktilhögun, en einhugur var um eftir fremsta megni að komast hjá því að leggja slóða við verkið. Þessi niðurstaða verður jafnfram studd þeim rökum að verulegur sparnaður leiddi af því fyrir stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., að slóðar voru ekki lagðir á þessu svæði nema í takmörkuðum mæli. Sá sparnaður felst bæði í því að komist var hjá kostnaði við að leggja slóða og fjarlægja slóðaefni síðan að verki loknu. Getur stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., ekki notið þessa ávinnings samhliða því að synja fyrir að greiða kostnað, sem af þessu leiddi. Þessi kostnaður, sem nemur 400 krónum á lengdarmeter á 5 kílómetra svæði, er að áliti dómsins hóflegur og án nokkurs vafa minni en nemur sparnaði af þessari verktilhögun. Samkvæmt þessu verður fallist á þennan kröfulið og stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., dæmd til að greiða stefnanda 2.000.000 króna.                                   

IV.

1.

                Í verklýsingu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., er ekki gerð nánari grein fyrir legu lagnarinnar frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal. Í teikningum af lögninni er hins vegar að finna kennisnið fyrir legu lagnarinnar, en þar er gert ráð fyrir að hún verði lögð í slétt yfirborð. Í skriflegum svörum hönnuðar verksins 14. apríl 2000 við fyrirspurnum bjóðenda kemur fram að búið sé að útsetja lögnina með hælum staðsettum með GPS-hnitum og var bjóðendum látin í té hnitaskrá. Í málinu hefur hins vegar komið fram að hnit á þessum kafla lagnarinnar hafa misritast. Þá var tekið fram í svörum hönnuðar að lagnarstæðið þyrfti að öllum líkindum að vera 15 metrar frá miðju þjóðvegar.

                Eftir að verksamningur var gerður við stefnanda kom fram af hálfu Vegagerðarinnar að lögnin yrði í það minnsta að vera 8 metra frá miðlínu þjóðvegar. Í kjölfarið var síðan tekin sú endanlega ákvörðun af hálfu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., að lögnin yrði lögð í þeirri fjarlægð frá þjóðvegi í vegarfláann og að verkið yrði unnið frá veginum. Með því að leggja hitaveituna í vegarfláann var komist hjá kostnaði við að þvera skurði og leggja slóða, sem hefði verið óhjákvæmilegur ef lögnin hefði verið lögð fjær þjóðveginum. Á hinn bóginn er yfirborðið sléttara á því svæði þegar fláanum sleppir.

                Á verkfundi 28. september 2000 kom fram af hálfu stefnanda að vinna á þeim tíma færi fram í mjög erfiðu landi vestan við Brautarholt á leiðinni frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal og því hefðu afköst ekki verið sem skyldi. Benti stefnandi á að aðstæður á lagnarsvæðinu væru mjög mismunandi og í mörgum tilfellum í engu samræmi við það sem ætla mætti af útboðsgögnum, en þar kæmi aðeins fram eitt kennisnið, sem gilda ætti um allan skurðgröft.

                Næst var fjallað um aðstæður á umræddri leið á verkfundi 12. nóvember 2000. Þá kom fram af hálfu stefnanda að hann teldi að skurðgröftur með þjóðvegi frá Brautarholti að Hrútsstöðum væri talsvert frábrugðinn kennisniði, skurðurinn væri í miklum hliðarhalla og gröftur mun erfiðari en á sléttu landi. Af þessum sökum yrði því gerð krafa um viðbótargreiðslu. Eftirlitsmaður stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., benti hins vegar á að frá upphafi hefði verið ljóst að lagnarstæðið væri á þessum stað og allar aðstæður ljósar.

                Hinn 9. janúar 2001 sendi stefnandi eftirlitsmanni yfirlit yfir útistandandi kröfur um aukagreiðslur vegna verksins. Var meðal annars gerð krafa um viðbótargreiðslu vegna lagningu hitaveitunnar frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal að fjárhæð 9.090.000 krónur. Nánar var krafan sundurliðuð þannig að krafist var greiðslu að fjárhæð 900 krónur fyrir hvern lengdarmeter á þessum kafla, sem er 10,1 kílómeter að lengd. Þessari kröfu stefnanda var svarað með bréfi stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., og eftirlitsmanns 9. mars 2001. Í því bréfi segir að frá upphafi hafi legið ljóst fyrir að pípan lægi meðfram þjóðveginum. Þó svo nákvæm fjarlægð frá vegi sé ekki tilgreind í útboðsgögnum hafi þó verið ljóst við hvaða aðstæður þyrfti að vinna verkið. Samkvæmt þessu var kröfunni hafnað, en fram kemur í umræddu bréfið að sú niðurstaða sé einnig studd við álit hönnuðar verksins.

                Með bréfi lögmanns stefnanda 20. mars 2001 var þessi krafa ítrekuð og sjónarmiðum stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., andmælt. Því erindi var svarað með bréfi lögmanns stefndu 2. maí sama ár. Þar er vísað til úttektar eftirlitsmanns með verkinu og hönnuðar sama dag, en þar segir að aðstæður hafi verið frábrugðnar „normal“ kennisniði á 4,5 kílómetra kafla. Því sé það mat eftirlitsmanns og hönnuðar að réttlætanlegt sé af þessum sökum að greiða aukalega 500 krónur fyrir lengdarmeter á þessu svæði eða 2.250.000 krónur. Í samræmi við þetta var sú greiðsla innt af hendi til stefnanda 9. júlí 2001

                Undir rekstri málsins aflaði stefnandi matsgerðar 5. ágúst 2002, sem tekin var saman af Ásmundi Ingvarssyni, verkfræðingi. Í matsbeiðni er þeirri spurningu beint til matsmanns hvort verktilhögun stefnanda við lagningu hitaveitunnar frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal hafi verið breyting á verkinu miðað við útboðsgögn og teikningar. Um þetta segir svo í matsgerðinni:

 

„Í verklýsingu er þess getið í kafla „2.2.0 Almennt“ og í kafla „2.2.2 Uppgröftur fyrir lögn, almennt“ að grafið skuli samkvæmt kennisniði jarðvinnu. Einnig er lega lagnarinnar sýnd á teikningum sem eru í mjög litlum kvarða (1:~60.000 og 1:~20.000). Sú ákvörðun að leggja lögn án vegaslóða í mishæðóttu landi og hliðarhalla og eins að leggja lögnina það nærri miðlínu vegar að grafa þurfi í vegfláa fyrir lögninni telur matsmaður að sé breyting á verkinu sem sé ekki innan eðlilegra marka. Matsmaður telur að þeir röngu GPS hnitapunktar sem lagðir voru fram í verkinu hafi í raun enga þýðingu hvað varðar þennan lið þar sem um greinilega villu er að ræða sem kom í ljós áður en útsetning hófst og var ekki heldur í samræmi við útboðsgögn.“

 

2.

                Í þessum kröfulið krefst stefnandi viðbótargreiðslu að fjárhæð 6.840.000 krónur úr hendi stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf. Svo sem áður er getið er þessi krafa sundurliðuð þannig að krafist er 900 króna viðbótargreiðslu fyrir hvern lengdarmeter á 10,1 kílómetra leið frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal að frádreginni innborgun 9. júlí 2001 að fjárhæð 2.250.000 krónur. Miðar stefnandi við að um sé að ræða jafnaðarverð á þessu svæði án tillits til aðstæðna, en halli í vegarfláa er mis mikill frá einum stað til annars. 

                 Stefnandi heldur því fram að frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal hafi teikningar og útboðsgögn gert ráð fyrir að lagnarstæðið yrði um 15 metrar frá miðlínu þjóðvegar. Því til stuðnings vísar stefnandi til teikningaskrár og skriflegra svara hönnuðar verksins til bjóðenda. Einnig hafi uppgefið kennisnið samkvæmt teikningum ekki sýnt annað en að lögnin væri á sléttum fleti. Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., hafi hins vegar ákveðið undir framkvæmd verksins að lagnarstæðið yrði 8 metra frá miðlínu vegar eða 5 metra frá vegkanti í hliðarhalla í vegarfláanum. Með þessu hafi verið tryggt betra aðgengi að lögninni til framtíðar litið, auk þess sem slóðagerð var óþörf þar sem verkið var unnið frá þjóðveginum og þveranir skurða og girðinga í lágmarki. Telur stefnandi að slóðagerð á þessu svæði hefði orðið kostnaðarsöm þar sem mikill ofaníburður hefði verið nauðsynlegur, en það efni hefði síðan þurft að fjarlægja við yfirborðsfrágang.

                Stefnandi bendir á að nauðsynlegt hafi verið að grafa burt vegarfláann þar sem lagnarstæðið var þetta nærri veginum og gera láréttan flöt fyrir vinnuaðstöðu við lögnina. Þá fyrst hafi verið hægt að grafa lagnarskurðinn. Auk þess hafi víða verið nauðsynlegt að fylla upp í skurði sem fyrir voru og grafa síðan lagnarskurðinn við hliðina. Þá hafi aðstæður einnig verið á þann veg að gera varð undirstöðu undir lögnina og hylja hana síðan með jarðefnum. Loks hafi á þessum kafla verið 11 ræsi í gegnum veginn og þar hafi verið nauðsynlegt að dýpka lagnarskurðinn svo hægt væri að fara með lögnina undir vatnsfarveginn að ræsunum. Þessi vinna við ræsi hafi hins vegar ekki verið tilgreind í útboðsgögnum.

                Stefnandi tekur fram að mikið verk hafi falist í að ganga frá lagnarstæðinu eftir að búið var að leggja lögnina. Fyrst hafi þurft að setja yfir lögnina og síðan að lagfæra vegarfláann. Þetta hafi verið nauðsynlegt að vinna með gröfu af þjóveginum og ekki hafi verið unnt að nota traktorsgröfu eða ýtu við verkið. Þetta vinnulag hafi verið tafasamt vegna umferðar, en mun auðveldra væri að sjálfsögðu að ýta uppgreftri ofan í skurð.

                Með hliðsjón af þessum aðstæðum telur stefnandi augljóst að flutningur jarðefna og öll jarðvegsvinna hafi verið mun meiri en reikna mátti með miðað við að lögnin hefði verið á sléttu landi 15 metrum frá miðlínu vegar utan við mikinn hliðarhalla í vegarfláanum. Því hafi stefnandi litið svo á að um væri að ræða aukaverk samkvæmt beiðni verkkaupa. Fyrir það eigi stefnandi að fá sérstaka greiðslu, sbr. grein 16.2 í Íslenskum staðli (ÍST. 30), sem gildi um skipti aðila.

                Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til þess að hann hafi unnið svipað aukaverk fyrir stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., á 1.300 metra vegarkafla á leiðinni frá Svarfhóli að Háafelli. Þar hafi umsamið einingarverð verið 900 krónur á lengdarmeter, en þetta verk hafi þó á allan hátt verið mun auðveldara.

                Þá heldur stefnandi því fram að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., hafi ekki leitt í ljós að krafa um greiðslu að fjárhæð 900 krónur fyrir lengdarmeter á þessu svæði sé ósanngjörn. Stefnda hafi heldur ekki sýnt fram á að greiða eigi aðra fjárhæð fyrir þetta viðbótarverk, sem sannanlega var innt af hendi.

3.

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., byggir aðallega á því að í upphafi hafi legið fyrir fullnægjandi gögn um legu lagnarinnar frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal. Einnig hafi bjóðendur í verkið verið hvattir til að kynna sér rækilega staðsetningu lagnarinnar á þessum stað. Jafnframt hafi stefnanda mátt vera ljóst að lögnin ætti að vera 6-10 metra frá miðju þjóðvegar þar sem honum hafi verið send kennisnið 5. maí 2000 fyrir ræsi, en þar sé gert ráð fyrir 8 metra fjarlægð lagnarinnar frá miðju vegar.

                Þá heldur stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., því fram að aðstæður á þessum kafla lagnarinnar hefi ekki verið svo frábrugðnar því sem vænta mátti af gögnum í upphafi og bjóðendur í verkið máttu reikna með.

4.

                Svo sem áður er rakið kemur ekki fram í útboðsgögnum nákvæm lýsing á legu hitaveitulagnarinnar frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal. Í skriflegum svörum hönnuðar hitaveitunnar til bjóðenda 14. apríl 2000 kemur hins vegar fram að lögnin hafi verið útsett með hælum staðsettum með GPS-hnitum og var bjóðendum send hnitaskrá. Í þeirri skrá höfðu hnit hins vegar misritast og breytir hún því engu í skiptum aðila. Einnig verður ekki fallist á það með stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., að stefnandi hefði mátt ráða legu lagnarinnar af kennisniðum fyrir ræsi.

Að þessu gættu þykir verða að líta til þess að afstaða Vegagerðarinnar til legu hitaveitunnar lá fyrst fyrir eftir gerð verksamnings 16. maí 2000, en fyrr var að réttu lagi ekki hægt að ákveða endanlega legu lagnarinnar nær þjóðvegi en 15 metra frá miðlínu vegar, sbr. 1. mgr. 33. gr. vegalaga nr. 45/1994. Þá sagði einnig í umræddum svörum hönnuðar að lagnarstæðið þyrfti að öllum líkindum að vera 15 metra frá miðju þjóðvegar. Þykja þær upplýsingar benda eindregið til að lagnarstæðið hafi þá ekki verið endanlega ákveðið, enda kemur það heim og saman við að á þessum tíma hafði ekki verið aflað leyfis Vegagerðarinnar fyrir legu lagnarinnar við þjóðveginn.

                Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og með hliðsjón af því að kennisnið fyrir lögnina í útboðsgögnum gerir ekki ráð fyrir að hitaveitan verði lögð í hliðarhalla verður ekki talið að stefnandi hafi þegar hann bauð í verkið mátt gera ráð fyrir því verklagi sem varð raunin á kaflanum frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal. Verður því fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt á greiðslu fyrir aukaverk af þessu tilefni. Á þetta hefur stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., einnig fallist að nokkru leyti og greitt upp í kröfuna á grundvelli úttektar 2. maí 2001, sem tekin var saman af hönnuði og eftirlitsmanni með verkinu, en þar segir að aðstæður á hafi verið frábrugðnar „normal“ kennisniði á 4,5 kílómetra kafla. 

                Stefnandi gerir kröfu um 900 króna þóknun fyrir aukaverk á öllum vegarkaflanum frá Snæfellsnesafleggjara að Búðardal. Aftur á móti liggur fyrir að á nokkrum hluta leiðarinnar er ekki teljandi hliðarhalli frá vegi að lagnarstæðinu. Verður ekki fallist á það með stefnanda að hann geti hagað kröfugerð sinni þannig að einnig sé gert ráð fyrir þóknun fyrir aukaverk á svæði, sem í öllu verulegu er í samræmi við útboðsgögn.

Í málinu hefur ekki verið aflað matsgerðar um lengd þess vegarkafla þar sem hliðarhalli er það mikill að hann hafi haft áhrif á framkvæmd verksins. Þó hefur stefnandi lagt fram úttekt Njarðar Tryggvasonar, verkfræðings, frá 18. nóvember 2002, en þar kemur fram að halli á lagnarstæðinu hafi verið enginn eða óverulegur á vegarkafla 2.460 metrar að lengd. Á vegarkafla 7.150 metrar að lengd hafi hallinn aftur á móti verið þannig að grípa hafi þurft til sértækra verkaðgerða. Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., hefur vefengt þessa úttekt og í því ljósi verður að virða sönnunargildi hennar, enda hefði stefnanda verið í lófa lagið að afla sér matsgerðar eftir ákvæðum IX. kafla laga um meðferð einkamál, nr. 91/1991. Á hinn bóginn þykir ekki varhugavert í ljósi þessarar úttektar og á grunvelli vettvangsgöngu við aðalmeðferð málsins að miða við að aðstæður hafi verið verulega frábrugðnar útboðsgögnum á 6,5 kílómetra kafla. Að því marki verður fallist á þennan kröfulið stefnanda, en einingarverð sem hann leggur til grundvallað þykir að áliti dómsins hæfilegt. Samtals nemur fjárhæðin sem stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., verður dæmd til að greiða stefnanda 3.600.000 krónur að teknu tilliti til innborgunar stefndu 9. júlí 2001 (6.500 x 900 kr. – 2.250.000).  

V.

1.

                Í verklýsingu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., kemur fram að yfir útjafnað svæði eftir jarðvegsgarð skuli sá í jarðveg yfir hitaveitulagnir eða setja túnþökur. Ákvörðun um hvaða svæði skuli þökulögð skuli tekin í samráði við eftirlitsmann stefndu. Í tilboðsskrá er áætlað að vinna þurfi yfirborðsfrágang á svæði 14.308 fermetrar að stærð, en þar af verði lagðar þökur á 500 fermetra. Einingarverð fyrir þennan lið er 85 krónur á fermeter. Af þessum lið hefur stefnandi fengið greitt fyrir 12.032 fermetra.

Í skriflegum svörum hönnuðar verksins 14. apríl 2000 til bjóðenda er vikið nánar að yfirborðsfrágangi, en þar segir að reiknað sé með að verktaki skilji við yfirborð lagnarstæðis í sambærilegu ástandi og fyrir framkvæmdir. Þá er tekið fram að frá borholu að Fellsenda sé gróft malaryfirborð sem verktaki þurfi að jafna út. Loks segir að þegar grafið sé yfir tún milli Fellsenda og Skógskots sé ætlast til að frágangur á yfirborði túna verði góður og sama gildi með lagnarstað með þjóðvegi frá Skógskoti að Búðardal.

Á verkfundi 28. september 2000 var bókað að öll sáning verði látin bíða til vors. Næst var vikið að yfirborðsfrágangi á verkfundi 12. nóvember sama ár, en þá kom fram ágreiningur milli stefnanda og eftirlitsmanns með verkinu. Taldi stefnandi að sá skyldi á öllum svæðum þar sem einhver vottur væri af gróðri í eða við lögnina og byggði hann það álit sitt á fyrrgreindu svari hönnuðar verksins við fyrirspurn bjóðenda á tilboðsstigi. Af hálfu eftirlitsmanns kom hins vegar fram að jöfnun yfirborðs væri innifalin í verklið vegna uppgröfts fyrir lögn og aðeins ætti að sá þar sem farið væri í gegnum ræktað land og á öðrum svæðum eftir fyrirmælum eftirlitsmanns. Á verkfundum 30. nóvember og 19. desember 2000 var síðan bókað að yfirborðsfrágangur yrði látinn bíða til næsta vors.

Hinn 12. janúar 2001 var næst fjallað um yfirborðsfrágang á verkfundi. Fram kom hjá stefnanda að heildarmagn þessa liðar gæti aldrei numið minna en 90.000 fermetrum miðað við verklýsingu og svör hönnuðar. Á fundinum tókst ekki að jafna þennan ágreining, en kröfum stefnanda var svarað með bréfi stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., og eftirlitsmanns 9. mars sama ár. Þar segir að stefnda telji sig ekki bundna af að kaupa vinnu af stefnanda umfram það sem komi fram í verksamningi. Þá er tekið fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort leitað verði til verktaka um frekari vinnu við þennan verklið.

Með bréfi lögmanns stefnanda 20. mars 2001 var þessari afstöðu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., mótmælt og áréttað að aðilar væru samningsbundnir. Þá var einnig tekið fram að um ólögmæta riftun væri að ræða ef verkkaupi fengi einhvern annan til að framkvæma þetta verk. Lögmaður stefnanda ritaði stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., á ný bréf 8. maí sama ár og krafðist svara um hvenær og með hvaða hætti stefnandi ætti að hefja yfirborðsfrágang. Þessu erindi svaraði lögmaður stefndu með bréfi 10. sama mánaðar, en þar kom fram að ekki hefði verið tekin endanleg ákvörðun um hvort ráðist verði í frekari aðgerðir. Einnig var tekið fram að viðræður stæðu yfir við landeigendur vegna rasks á jörðum þeirra og ekki væri ljóst til hvers þær myndu leiða. Lögmaður stefnanda ritaði stefndu aftur bréf 21. maí sama ár og tilkynnti að stefnandi hygðist hefja framkvæmdir við yfirborðsfrágang 29. þess mánaðar. Með bréfi lögmanns stefndu 25. sama mánaðar var ítrekað að ekki hefði verið tekin endanleg ákvörðun um yfirborðsfrágang en mestar líkur væru á að til hans þyrfti ekki að koma. Með bréfi lögmannsins 31. maí 2001 var stefnanda síðan tilkynnt að ekki væri þörf á frekari yfirborðsfrágangi og vinnu stefnanda við verkið væri því lokið.

                Með skeyti 7. júní 2001 boðaði lögmaður stefnanda til úttektar 12. sama mánaðar til að mæla það svæði sem yfirborðsfrágangur hefði ekki verið unnin í samræmi við verksamning aðila. Í kjölfarið ritaði lögmaður stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., bréf 8. þess mánaðar þar sem einhliða úttekt verktaka var mótmælt. Einnig var tekið fram að þar sem úttekt yrði hvorki reist á verksamningi né öðrum þeim gögnum sem teldust hlut af honum teldi stefnda ekki ástæðu til að mæta við boðaða úttekt.

                Stefnandi fékk Valgeir Bergmann, byggingatæknifræðing, til að annast umbeðna úttekt. Í skýrslu hans 13. júní 2001 er nánar lýst hvernig mæling var framkvæmd, en síðan er yfirborðinu skipt niður og komist að eftirfarandi niðurstöðu um það magn sem ólokið er:

 

                a.             Útjafnað svæði eftir lögn í túni                                                                          18.000 m²

                b.             Yfirborð eftir vegslóða í túni                                                                                1.800 m²

                c.             Útjafnað svæði eftir lögn á gróðursvæði                                                        102.100 m²

                d.             Yfirborð eftir vegarslóða á gróðursvæði                                                          10.200 m²

                e.             Útjafnað svæði eftir lögn í gróft malaryfirborð                                                  5.500 m²

                                                                                                           Samtals                                     137.600 m²

 

                Í áðurgreindri matsgerð Ásmundar Ingvarssonar, verkfræðings, frá 5. ágúst 2002 er fjallað um hagnaðarmissi stefnanda af því að fá ekki að vinna þann yfirborðsfrágang, sem mældur var við úttekt Valgeirs Bergmann 12. júní sama ár. Var þess farið á leit að matsmaður gerði grein fyrir því hver hefði orðið raunkostnaður af verkinu án nokkurs innbyggs hagnaðar og að sá kostnaður yrði sundurliðaður eftir svæðum miðað við einingarverð. Um þetta segir svo í matsgerðinni:

 

„Matsmaður hefur kynnt sér [úttektina frá 12. júní 2002] og metið hver raunkostnaður er við framkvæmd þeirra verkþátta sem þar eru taldir upp að teknu tilliti til þeirra magntalna sem fram koma [í skýrslu um úttektina]. Varðandi liðinn „e) Útjafnað svæði eftir lögn í gróft malaryfirborð (gróðurlaust)“ telur matsmaður að sá yfirborðsfrágangur sem er innifalinn í fyllingu skurðar ætti að nægja til ásættanlegrar útjöfnunar. Matsmaður telur að raunkostnaður matsbeiðanda vegna þeirra verkþátta ef til framkvæmda þeirra kæmi sé kr. 3.178.500 skv. neðangreindri sundurliðun:

 

Verkþáttur                                                         Magn (m²)          Kostnaðarverð     [Kostnaður í kr.]

a.   Útjafna svæði eftir lögn í túni                             18.000                  65                      1.170.000

b.   Yfirborð yfir vegslóða í túni                                 1.800                180                         324.000

c.   Útjafnað svæði eftir lögn á gróðursv.             112.300                  15                      1.684.500

e.   Gróft malaryfirborð                                                 5.500                    0                                    0

 

Samtals                                                                                                                                3.178.500

Allar upphæðir eru með vsk. og á verðlagi í ágúst 2002.“

 

2.

                Í þessum kröfulið krefst stefnandi bóta úr hendi stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., vegna missi hagnaðar þar sem hann hafi ekki fengið að ljúka yfirborðsfrágangi í samræmi við verksamning aðila. Miðar krafan við samtals 132.100 fermetra svæði, en stefnandi krefst ekki bóta vegna 5.500 fermetra svæðis, sem er gróft gróðurlaust malaryfirborð. Samtals nemur krafan 8.050.000 krónum og hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar við verkið samkvæmt matsgerð 5. ágúst 2002 (132.100 m² x 85 kr. – 3.178.500 kr.).

                Til stuðnings þessum kröfulið vísar stefnandi til verksamnings við stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., og skriflegs svars hönnuðar verksins 14. apríl 2000, þar sem fram komi að gert sé ráð fyrir að verktaki skilji við yfirborð lagnarstæðis í sambærilegu ástandi og það var fyrir framkvæmdir. Einnig vísar stefnandi til þess að á verkfundum 23. og 30. nóvember 2000 og á verkfundi 12. janúar 2001 hafi komið fram að yfirborðsfrágangur væri verk sem að mestu leyti ætti eftir að vinna og að verkinu væri lokið að öðru leyti.

                Með hliðsjón af þessu telur stefnandi að hann hefði mátt gera ráð fyrir að vinna við yfirborðsfrágang vorið 2001. Með því að afþakka vinnuframlag stefnanda hafi þessum hluta verksamningsins verið rift ólöglega, en af því leiddi að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., hafi fellt á sig bótaábyrgð á tjóni stefnanda, sem rakið yrði til þessarar vanefndar á verksamningi.

                Stefndi bendir einnig á að sannanlega hafi verið boðað til úttektar á þessum verklið í samræmi við ÍST. 30 grein 30.1. Þar sem ekki hafi verið mætt af hálfu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., við úttekt sé stefnda bundin af niðurstöðum mælinga, sbr. grein 30.3 og grunnrökum 28. kafla ÍST. 30.

3.

                Af hálfu stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., er vísað til þess að vorið 2001 hafi verið tekin sú ákvörðun að yfirborðsfrágangi væri lokið og að ekki væri þörf á frekari vinnu stefnanda. Þessi ákvörðun hafi síðan verið tilkynnt stefnanda með bréfi 31. maí 2001.

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., bendir á að í tilboðsskrá sé yfirborðsfrágangur áætlaður 14.308 fermetrar og tilboð stefnanda miði við það. Útreikningum stefnanda um að nauðsynlegur og ólokinn yfirborðsfrágangur nemi 19.800 fermetrum á túnum og 112.300 fermetrum á grónum ræktuðum svæðum sé mótmælt sem þýðingarlausum og því breyti engu úttekt sem fór fram á vegum stefnanda 12. júní 2001. Þá telur stefnda fráleitt að stefnandi hafi orðið fyrir hagnaðarmissi að fjárhæð 8.050.000 króna vegna verkliðar að fjárhæð 1.216.180 krónur.

                Þá vísar stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., til þess að stefnandi sé bundinn af útboðsgögnum, tilboði sínu og verksamningi. Þó stefnandi kunni að hafa þá skoðun almennt að framkvæma eigi yfirborðsfrágang á annan, yfirgripsmeiri og mun dýrari hátt en greini í útboðsgögnum þá geti hann hvorki með úttektargerð né málssókn þvingað stefndu til að greiða sér bætur vegna ætlaðs hagnaðarmissis. Stefnandi eigi einfaldlega ekki lögvarðan rétt til aukaverks, sem stefnda telji ekki þörf á og vilji ekki láta vinna.

4.

                Í tilboðsskrá vegna verksins er gert ráð fyrir yfirborðsfrágangi á 14.308 fermetra svæði. Í verklýsingu kemur síðan fram að magntölur séu byggðar á áætlun. Í verksamningi aðila er tekið fram að þessi gögn séu hluti af samningnum. Á útboðsstigi var ýmsum fyrirspurnum beint til hönnuðar verksins og svarði hann þeim skriflega 14. apríl 2002. Verður verksamningurinn túlkaður í ljósi þeirra svara, enda má bæði verkkaupa og verktaka vera ljóst að gagnaðili verksamnings leggi til grundvallar það sem kemur fram í slíkum svörum, nema beinlínis sé samið á annan veg.

                Í umræddum svörum hönnuðar verksins er tekið fram að reiknað sé með að verktaki skilji við yfirborð lagnarstæðis í sambærilegu ástandi og það var í fyrir framkvæmdir. Einnig segir að gert sé ráð fyrir að frágangur túna á tilteknu svæði sé góður og sama eigi við um lagnarstað meðfram þjóðvegi. Með þessu var hönnuður að svara fyrirspurn um magntölu í tilboðsskrá varðandi yfirborðsfrágang og þykir svarið vera almenns eðlis um hvernig haga beri yfirborðsfrágangi. Var stefnanda ekki rétt að líta svo á að með því hefði sá verkliður sem fólst í yfirborðsfrágangi verið margfaldaður, enda var þessu ekki breytt þegar gerður var verksamningur aðila, en í honum er látið við það eitt sitja að vísa í tilboðsskrána án athugasemda. Verður því talið óraveg frá forsendum aðila við samningsgerð að umræddur verkliður rúmlega tífaldaðist að umfangi miðað við það sem beinlínis er getið í tilboðsskrá og lagt til grundvallar tilboðum í verkið. Mátti stefnanda einnig vera ljóst að stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., gerði ekki ráð fyrir verki af því umfangi, enda hefði þá legið beint við að áætlað magn tæki mið af því til að stuðla að hagstæðari boðum í verkið.

                Stefnandi hefur unnið yfirborðsfrágang á svæði 12.032 fermetrar að stærð eða rétt tæp 85 % af þeim yfirborðsfrágangi sem upphaflega var áætlaður. Verða þau frávik talin eðlileg miðað við það sem reikna mátti með af verki sem þessu. Þessi verkliður hefur því verið leystur af hendi innan þeirra marka sem stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., gat nánar mælt fyrir um verkið á grundvelli verksamnings aðila.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að hann eigi kröfu á stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., vegna missis hagnaðar þar sem honum var ekki falið að vinna að frekari yfirborðsfrágangi við lagningu hitaveitunnar.

VI.

Samkvæmt framansögðu verður stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., dæmd til að greiða stefnanda samtals 6.500.000 krónur.

Stefnandi miðar upphaf dráttarvaxtakröfu sinnar við 20. mars 2001, en þann dag ritaði lögmaður hans stefndu, Hitaveitu Dalabyggðar ehf., kröfubréf. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, verði dráttarvextir dæmdir frá 20. apríl sama ár.

                Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., dæmd til að greiða stefnanda málskostnað. Við ákvörðun hans verður litið til þess að stefnandi höfðaði málið og gerði kröfu um að sér yrðu dæmdar 39.122.767 krónur. Með úrskurði réttarins 18. september 2002 var kröfum stefnanda að fjárhæð 11.167.000 krónur vísað frá dómi. Þá hefur stefnandi fallið frá og lækkað kröfur sínar um samtals 10.165.767 krónur, auk þess sem hann hefur fallið frá öllum kröfum á hendur stefndu, Dalabyggð. Að öðru leyti hefur verið fjallað um kröfur stefnanda í dómi þessum. Að þessu gættu þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn, svo sem í dómsorði greinir.

                Engin efni eru til að fallast á kröfu stefndu, Dalabyggðar, um málskostnað úr hendi stefnanda.

                Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnari Ingimarssyni, verkfræðingi, og Vífli Oddsyni, verkfræðingi.

 

D Ó M S O R Ð:

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., greiði stefnanda 6.500.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 20. apríl 2001 til 1. júlí sama ár og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefnda, Hitaveita Dalabyggðar ehf., greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.