Hæstiréttur íslands

Mál nr. 176/1999


Lykilorð

  • Vöruflutningar
  • Skuldajöfnuður


           

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999.

Nr. 176/1999.

Sláturfélag Suðurlands svf.

(Ásgeir Thoroddsen hrl.)

gegn

Ármanni Leifssyni vöruflutningum ehf.

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

                                                                 

Vöruflutningar. Skuldajöfnuður.

Á ók vörum fyrir S frá Reykjavík til ýmissa smásala í öðrum landshlutum samkvæmt verksamningi. Þeirra á meðal var H, sem fékk vörurnar sendar ásamt gíróseðli, en samkvæmt skilmálum um svonefndar gírókröfur, sem ekki var deilt um að voru í gildi á þessum tíma, átti farmflytjandi ekki að afhenda smásölum vörur nema gegn staðgreiðslu að viðlagðri ábyrgð. H varð gjaldþrota og skuldajafnaði S kröfum, sem það taldi sig eiga á Á vegna þess að H hefði fengið vörur afhentar án greiðslu, á móti farmgjaldareikningum frá Á, en Á stefndi S til greiðslu reikninganna. Talið var, að S hefði sjálft ekki farið eftir skilmálum um gírókröfur í viðskiptum sínum við H, heldur haft verslunina í reikningsviðskiptum. Var skuldajafnaðarrétti S því hafnað og það dæmt til að greiða kröfu Á.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 1999. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefndi, sem hefur starfstöð á Bolungarvík, hefur annast vöruflutninga milli landshluta. Á þeim tíma, sem hér skiptir máli, munu sendendur varnings frá Reykjavík hafa afhent vörusendingar í afgreiðslu Vöruflutningamiðstöðvarinnar hf. í Reykjavík og stefndi flutt þær þaðan.

Málsaðilar gerðu með sér verksamning 11. maí 1994 þess efnis að stefndi tók að sér alla flutninga með bifreiðum fyrir áfrýjanda til sölustaða hans á Vestfjörðum. Í samningnum var kveðið á um tiltekið flutningsgjald og að gjaldagi þess væri á 20. degi eftir „úttektarmánuð“. Engin ákvæði voru í samningnum um skilmála, sem farið skyldi eftir þegar stefndi afhenti vöru á ákvörðunarstað. Hins vegar liggja fyrir ódagsettir og óundirritaðir „skilmálar um gírókröfur“, sem aðilar eru sammála um að hafi gilt almennt um slíkar kröfusendingar í viðskiptum sendenda, flytjenda og viðtakenda vara, er fluttar voru með milligöngu Vöruflutningamiðstöðvarinnar hf. Í 1. lið skilmála þessara segir meðal annars svo: “Sendandi vöru sem vill láta vöruflytjanda innheimta andvirði vörunnar hjá móttakanda skal láta reikning og útfylltan C-gíróseðil fylgja sendingu.” Í 3. lið skilmálanna kemur fram, að ábyrgð á gírókröfum og skilum kröfufjárhæðar sé að öllu leyti hjá flytjanda, sem skráður er á gíróseðil, en ekki vöruafgreiðslu þeirri, sem tekur á móti sendingu til flutnings. Um ábyrgð þessa er nánar kveðið á í 4. lið, sem hljóðar svo: „Vöruflytjandi skuldbindur sig til þess að viðlagðri persónulegri ábyrgð að hvorki hann né starfsmenn hans afhendi viðtakanda vörurnar nema gegn greiðslu gírókröfufjárhæðarinnar.“ Þá eru ákvæði í skilmálunum þess efnis, að flytjandi skuldbindi sig til að inna af hendi C-gírógreiðslur svo fljótt, sem verða má. Loks segir þar að varan verði endursend, ef viðtakandi greiðir ekki innan 15 daga frá því að hún kom á ákvörðunarstað.

II.

Verslunin Heimaval ehf. á Suðureyri var eitt af þeim fyrirtækjum, sem stefndi flutti vörur til fyrir áfrýjanda. Pantaði verslunin vörur ýmist beint frá áfrýjanda eða afgreiðslumanni hans á Ísafirði.

Að sögn stefnda flutti hann vörusendingar, sem ætlaðar voru félaginu, í flestum tilvikum frá Vöruflutningamiðstöðinni hf. í Reykjavík til afgreiðslumannsins á Ísafirði, sem flokkaði þær frá vörum, sem fara áttu til annarra viðtakenda. Síðan ók stefndi með einstakar sendingar frá Ísafirði til Heimavals ehf.

Óumdeilt er að ekki var farið eftir skilmálunum um gírókröfur frá upphafi viðskipta málsaðila þar til fram í október eða nóvember 1995. Fram að þeim tíma afhenti stefndi Heimavali ehf. vörur án greiðslu, en svonefndur A-gíróseðill mun hafa fylgt vörusendingum þessum. Færði áfrýjandi andvirði vörunnar versluninni til skuldar í viðskiptareikningi.  Mun hún hafa haft heimild til að skulda áfrýjanda andvirði vöru allt að tiltekinni fjárhæð.

Skuld verslunarinnar Heimavals ehf. vegna vöruúttektar hjá áfrýjanda nam samkvæmt viðskiptareikningi 1.025.792 krónum hinn 31. október 1995. Verslunin samþykkti um það leyti sjö víxla hvern að fjárhæð 100.000 krónur með gjalddögum á tímabilinu frá 13. nóvember 1995 til 12. febrúar 1996 til greiðslu á 700.000 krónum upp í viðskiptaskuldina. Færði áfrýjandi versluninni andvirði víxlanna að frádregnum vöxtum til tekna 2. nóvember 1995. Ekki liggur fyrir hvort verslunin og áfrýjandi sömdu um fyrirkomulag greiðslu á því, sem stóð eftir af skuldinni. Hins vegar kveðst áfrýjandi við þetta tækifæri hafa ákveðið að breyta greiðsluskilmálum þannig að framvegis fengi verslunin aðeins afhentar vörur gegn greiðslu C-gíróseðils. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda ætlaðist hann til að frá þessum tíma yrði um afhendingu og greiðslur farið eftir umræddum skilmálum um gírókröfur.

Áfrýjandi hefur lagt fram 12 vörureikninga stílaða á Heimaval ehf., alls að fjárhæð 642.182 krónur, sem hann heldur fram að lúti að vörusendingum, er stefndi hafi afhent Heimavali ehf. án greiðslu, þrátt fyrir ákvæði skilmálanna. Eru þeir dagsettir á tímabilinu frá 21. nóvember 1995 til 30. janúar 1996. Á þeim öllum er ritað nafn Vöruflutningamiðstöðvarinnar hf. og stefnda. Einnig lagði áfrýjandi fram útskrift af viðskiptareikningi, sem sýnir úttektir og innborganir Heimavals ehf. hjá honum fyrir tímabilið frá 1. ágúst 1995 til 31. janúar 1997. Í viðskiptareikningnum eru Heimavali ehf. frá 2. nóvember 1995 til 29. maí 1996 færðir til skuldar 33 reikningar auk áðurgreindra 12 reikninga, sem fram voru lagðir. Upplýsingar liggja ekki fyrir um hvar þessar vörusendingar voru afhentar Heimavali ehf. eða hver það gerði. Á sama tímabili eru færðar margar greiðslur án þess að séð verði hvort þær stafi beint frá Heimavali ehf. eða stefnda.

III.

Heimaval ehf. hætti starfsemi í maí 1996 og mun bú félagsins síðar hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt viðskiptareikningi félagsins hjá áfrýjanda skuldaði það honum 1.095.842 krónur í maílok 1996. Viðskiptareikningurinn sýnir innborganir í júní og júlí 1996 samtals að fjárhæð 425.250 krónur. Af reikningnum verður ekki séð hver innti af hendi þessar greiðslur. Í september, október og desember sama árs eru færðar sem innborganir á viðskiptareikninginn nokkrar fjárhæðir, sem nema alls 642.182 krónum. Er nafn stefnda skráð við síðastgreindar færslur og er ekki deilt um að þar er um að ræða skuldajöfnuð áfrýjanda á reikningum stefnda vegna flutningsgjalda.

Um þennan skuldajöfnuð vísar áfrýjandi til svohljóðandi bréfs, sem hann ritaði stefnda 4. febrúar 1997: „Það staðfestist hér með að Ármann Leifsson, vörufl. ..., hefur greitt til Sláturfélags Suðurlands svf. kr. 642.182,oo vegna ógreiddra gíró-krafna á Heimaval hf. ..., þar sem flutningsaðilinn afhenti viðtakanda vörurnar án þess að móttaka greiðslu. Þar sem flutningsaðilinn er í ábyrgð fyrir greiðslu á framangreindum gíró-kröfum hefur Sláturfélags Suðurlands svf. skuldfært fyrrnefnda upphæð af mánaðarreikningum Ármanns Leifssonar, vörufl. hf.“.

Stefndi krafðist þess í bréfi til áfrýjanda 11. nóvember 1997 að hann greiddi sér 642.182 krónur ásamt vöxtum og innheimtukostnaði lögmanns. Áfrýjandi neitaði greiðslu og höfðaði stefndi því mál þetta 25. ágúst 1998. Áfrýjandi hefur ekki vefengt að stefnufjárhæðin, 643.743 krónur, verði lögð til grundvallar, ef fallist verði á skuldajafnaðarrétt hans.

IV.

Innheimtustjóri áfrýjanda gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Hann skýrði svo frá að hann hefði tekið við starfi innheimtustjóra í október 1995. Þá hafi vanskil Heimavals ehf. verið um 700.000 krónur „í formi A-gíróviðskipta, það er hann fékk vöruna afhenta og fékk svo að greiða gíróseðilinn í banka og eftir að ég byrjaði ... fórum við að setja svona yfirdráttarþök á viðskipti viðskiptamanna og þau hámörk eru miðuð við ... cirka tveggja mánaða veltu fyrirtækja þannig að menn hefðu þarna tveggja mánaða úttektarheimild.“ Kvaðst innheimtustjórinn hafa haft samband við framkvæmdastjóra Heimavals ehf. og skuld félagsins um 700.000 krónur þá verið komið á víxla. Síðar segir í framburði innheimtustjórans að „heimildin 700.000 krónur hélt áfram bara að vera á fyrirtækinu, við vorum ekkert að keyra það neitt niður ...”. Þá bar hann fyrir dómi að Heimaval ehf. hefði verið „áfram með þessa ... tveggja mánaða yfirdráttarheimild hjá okkur“. Hafi framkvæmdastjóri félagsins oft hringt suður til þess að spyrja hvort tilteknar greiðslur hafi borist áfrýjanda þannig að greiðslustaða félagsins væri innan umsamins hámarks yfirdráttar. Ef svo var hafi söludeild áfrýjanda afgreitt nýja pöntun frá félaginu.

Framburður framkvæmdastjóra Heimavals ehf. um þetta er í samræmi við frásögn innheimtustjórans. Kvað framkvæmdastjórinn það hafa komið fyrir að reikningur verslunarinnar hafi verið lokaður. Hafi hann þá hringt í skrifstofumenn áfrýjanda „til að fá opnun“.

Skýrsla bifreiðarstjóra, sem ók vörum til Heimavals ehf. með bifreið stefnda á árunum 1995 til 1996, er á svipaða lund. Bifreiðarstjórinn sagði forráðamann stefnda hafa brýnt fyrir sér að innheimta andvirði gíróseðla við afhendingu vöru, en framkvæmdastjóri Heimavals ehf. hafi skýrt sér frá að félagið væri í skuldareikningi hjá áfrýjanda. Bifreiðarstjórinn kvaðst þá hafa hringt suður til áfrýjanda og hafi sér verið tjáð þar að „þessi seðill í sjálfu sér skipti engu máli því að hann hafi skuldaheimild upp á rúm 200.000 krónur sem að þá átti að fara að hækka“.

Telja verður nægilega leitt í ljós af framansögðu að þrátt fyrir þá breytingu, sem áfrýjandi heldur fram að hafi verið gerð á afhendingarskilmálum til Heimavals ehf. síðla árs 1995, hafi hann ekki sjálfur hagað gerðum sínum til samræmis við þá, heldur beitt samsvarandi háttum í viðskiptum sínum og tíðkuðust fyrir þann tíma. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á að hann geti gagnvart stefnda borið fyrir sig ákvæði í áðurnefndum skilmálum um gírókröfur um að flytjandi beri ábyrgð á vanskilum viðtakanda vöru, ef flytjandinn afhendir vörusendingar án þess að krefja viðtakandann um greiðslu.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sláturfélag Suðurlands svf., greiði stefnda, Ármanni Leifssyni vöruflutningum ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 25. ágúst 1998 af Ármanni Leifssyni, vöruflutningum ehf., kt. 701294-5219, Búðarkanti 2, Bolungarvík, á hendur Sláturfélagi Suðurlands svf., kt. 600269-2089, Fosshálsi 1, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði skuld að fjárhæð 643.743 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 1997 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

 

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi hefur rekið vöruflutningaþjónustu í Bolungarvík. Hann flutti matvörur frá stefnda til sölustaða á Vestfjörðum en samningur um flutningana er dagsettur 11. maí 1994. Stefnandi flutti m.a. vörur til verslunarinnar Heimavals ehf. á Suðureyri. Í málinu hefur komið fram að upphaflega var verslunin í reikningi hjá stefnda en síðar var tekinn upp sá háttur að sendar voru gírókröfur með vörunum og mátti ekki afhenda vörurnar nema gegn greiðslu. Lagðir hafa verið fram skilmálar sem giltu í þessu sambandi en í 4. lið þeirra segir að vöruflytjandi skuldbindi sig að viðlagðri persónulegri ábyrgð að afhenda viðtakanda ekki vörurnar nema gegn greiðslu gírókröfufjárhæðarinnar. Skilmálarnir eru ódagsettir og óundirritaðir en hvorki er deilt um efni þeirra né að þeir hafi almennt átt við þegar um gírókröfur var að ræða. Af hálfu stefnanda er því hins vegar haldið fram að sérstök atvik valdi því að stefnandi beri ekki ábyrgð á skuldum Heimavals ehf. eins og stefndi heldur fram. Þegar gírókröfufyrirkomulagið var tekið upp, sem var í nóvember 1995, hafði safnast upp skuld hjá versluninni við stefnda.

Á árinu 1996 hætti Heimaval ehf. rekstri verslunarinnar vegna fjárhagsörðugleika. Með bréfi stefnda dagsettu 4. febrúar 1997 tilkynnti hann stefnanda að skuldfærðar hefðu verið 642.182 krónur af reikningi stefnanda vegna ógreiddra gírókrafna Heimavals ehf. sem stefnandi væri í ábyrgð fyrir. Með bréfi lögmanns stefnanda 11. nóvember sama ár var krafist endurgreiðslu á því sem stefnanda hafði þannig verið gert að greiða stefnda. Var í því sambandi vísað til þess að vörurnar hefðu verið afhentar Heimavali án greiðslu á gírókröfum með vitneskju umboðsmanns stefnda. Einnig kemur þar fram að fyrirsvarsmanni stefnanda hafi verið tjáð að útilokað væri að upp gæti safnast nokkur skuld að ráði þar sem stefndi hefði ákveðið þak á útistandandi skuld á hverjum tíma og viðskiptin stöðvuðust ef ekki yrði greitt. Þá hefði fyrirsvarsmaður stefnanda mætt á fundi hjá sölustjóra stefnda ásamt öðrum þann 6. mars 1996. Þar hafi honum verið tjáð að búið væri að gera samninga við Heimaval um greiðslu skuldarinnar og málið væri þar með úr höndum stefnanda. Beinir samningar stefnda við Heimaval hafi leitt til þess að reglur um gírókröfur hafi ekki átt lengur við. Stefnandi hafi ekki átt að bera ábyrgð á greiðslu skuldar Heimavals eftir að stefndi hafði tekið málið í sínar hendur enda hafi stefnanda verið fyrirmunað að ganga að Heimavali á sama tíma um greiðslu krafna. Með bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 19. nóvember 1997, er því haldið fram að engir samningar hafi verið gerðir af hálfu stefnda, hvorki við stefnanda né Heimaval, um að falla frá ábyrgðum stefnanda, sem hér um ræðir, og að stefndi hafi því verið í fullum rétti að skuldfæra á viðskiptareikning stefnanda þær gírókröfur sem hann bæri ábyrgð á vegna Heimavals.

Stefnandi hefur höfðað málið til innheimtu á reikningum fyrir flutningana sem hér að framan hefur verið greint frá. Eru reikningarnir og fjárhæðir í því sambandi óumdeildar. Stefndi telur reikningana hins vegar greidda með skuldfærslunni sem lýst er hér að framan. 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi rekið vöruflutningaþjónustu á Bolungarvík um árabil og hafi hann flutt varning frá stefnda með vöruflutningabifreiðum sínum vestur á firði til sölustaða stefnda. Milli aðila hafi verið skriflegur samningur um flutningana en allar pantanir á vörum hafi farið í gegnum umboðsmann. Einhver hluti flutnings fyrir stefnda hafi verið með þeim hætti að viðtakendur hafi orðið að framvísa greiddum gíróseðlum til að fá flutta vöru afhenta. Þó hafi komið fyrir að frá þessu væri brugðið af sérstökum ástæðum og þegar samþykki stefnda hafi legið fyrir. Þannig hafi einum vörumóttakanda, Heimavali ehf. á Suðureyri, með vitneskju umboðsmanns stefnda, Hafsteins Vilhjálmssonar á Ísafirði og jafnvel af honum sjálfum, verið afhentar sendingar þrátt fyrir að gírókröfur er sendingunum hafi fylgt væru ekki greiddar samtímis. Stefnanda hafi verið tjáð af umboðsmanni að útilokað væri að upp gæti safnast nokkur skuld að ráði þar sem stefndi hefði ákveðið þak á útistandandi skuld á hverjum tíma og að viðskiptin stöðvuðust ef ekki yrði greitt. Er halla hafi tekið undir fæti hjá Heimavali ehf. hafi komið í ljós að upp hefði safnast veruleg skuld við stefnda en stefnanda hafi ekki verið um það kunnugt þar sem greiðslur höfðu farið fram beint milli Heimavals ehf. og stefnda. Á þessu tímabili hafi því verið haldið fram af stefnda að stefnandi bæri ábyrgð á skuldum Heimavals ehf. við stefnda en því hafi verið hafnað af stefnanda.

Ármann Leifsson, framkvæmdastjóri stefnanda, hafi mætt ásamt fleirum á fund hjá sölustjóra stefnda þann 6. mars 1996 vegna skuldamála Heimavals ehf. Honum hafi þá verið tjáð að stefndi væri búinn að gera samninga við Heimaval ehf. um greiðslu skuldarinnar með veðskuldabréfi og málið væri þar með úr höndum stefnanda. Eftir að skuldabréfið hafi verið gefið út hafi viðskipti stefnda og Heimavals ehf. haldið áfram en þá gegn staðgreiðslu. Haustið 1996 hafi Heimaval ehf. hætt rekstri vegna fjárhagsörðugleika og þann 4. febrúar 1997 hafi stefndi tilkynnt bréflega að hann væri búinn að skuldfæra á viðskiptareikning stefnanda alls 642.182 krónur vegna skuldar Heimavals ehf. Stefnandi hafi ekki fallist á slíka skuldajöfnun og hafi hann gert kröfur á stefnda um greiðslu en án árangurs. Stefndi hafi borið fyrir sig að stefnandi væri bundinn af skilmálum Landvara um gírókröfur, þ.e. að flutningsaðilar séu ábyrgir gagnvart vörusendara, hafi vörur verið afhentar án greiðslu gíróseðils.

Skuldabréfið, sem eigendur Heimavals ehf. hafi afhent stefnda vegna skuldarinnar, hafi verið útgefið 20. febrúar 1996 að fjárhæð 610.136 krónur og tryggt með 3. veðrétti í Aðalgötu 15 á Suðureyri. Skuldabréfið hafi verið greitt upp af þeim aðilum sem hafi yfirtekið verslunarreksturinn en samkvæmt áritun stefnda hafi það verið að fullu greitt og afhent til aflýsingar 21. október 1996.

Stefnandi byggir málssóknina á því að hann hafi flutt varning fyrir stefnda gegn ákveðnu gjaldi, sem samningar hafi verið um, og sé stefndi skuldbundinn til greiðslu samkvæmt meginreglu samningalaga um að samningar skuli standa. Reikningar stefnanda séu óumdeildir svo og viðskiptayfirlit hans sem sýni skuld stefnda að fjárhæð 643.743 krónur. Ágreiningur sé um réttmæti þeirrar ákvörðunar stefnda að hafna greiðslu vegna skuldar Heimavals ehf. við stefnda að fjárhæð 642.182 krónur. Stefnandi telur þá skuld sér óviðkomandi. Beinir samningar stefnda við Heimaval ehf. hafi leitt til þess að stefnandi hafi verið laus undan ábyrgð vegna gírókrafna og gírókröfureglurnar hafi ekki lengur átt við. Slíkir samningar án samráðs við stefnanda séu jafngildi yfirlýsingar um að fallið hafi verið frá kröfum á hendur stefnanda. Stefnandi hafi ekki getað borið nokkra ábyrgð á greiðslu skuldar Heimavals ehf. við stefnda eftir að stefndi hafi tekið málið í sínar hendur enda hafi stefnanda verið fyrirmunað á sama tíma að ganga að Heimavali ehf. með greiðslu krafna. Þar að auki hafi talsmaður stefnda lýst því yfir í viðurvist vitna að málið væri úr höndum stefnanda en af hálfu stefnanda er því haldið fram að það hafi þýtt að stefnandi væri laus undan ábyrgð. Því er haldið fram af hálfu stefnanda að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi ekki gert sér grein fyrir því, í ljósi atvika málsins, að stefndi teldi stefnanda ábyrgan fyrir kröfunni á Heimaval ehf. enda hafi honum ekkert verið gert viðvart um það fyrr en stefndi beitti skuldajöfnuði gagnvart honum eftir að Heimaval ehf. var komið í greiðsluþrot. Í þessu tilliti sé óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig reglurnar um gírókröfusendingar. Vísar stefnandi í því sambandi til 33. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

Af hálfu stefnanda er enn fremur talið að ætla megi að viðskiptaskuld Heimavals ehf. við stefnda, frá þeim tíma sem gírókröfuviðskipin fóru fram, sé þegar greidd. Því er mótmælt af hálfu stefnda sem heldur því fram að þar hafi verið um að ræða eldri skuld.

Stefnandi telur að stefndi verði samkvæmt framansögðu að greiða skuld sína við hann.

 

Málsástæður og lagarök stefnda     

Stefndi kveður stefnanda hafa tekið að sér alla vöruflutninga með bifreiðum sínum til sölustaða stefnda á Vestfjörðum, m.a til Heimavals ehf. á Suðureyri. Vörurnar hafi verið sendar og afhentar Heimavali ehf. í reikning allt til nóvembermánaðar ársins 1995. Þá hafi safnast upp veruleg skuld Heimavals ehf. við stefnda eða 1.025.792 krónur. Stefndi hafi þá tekið ákvörðun um að loka reikningnum og hætta frekari viðskiptum við Heimaval ehf. Hafi Heimaval ehf. þá samþykkt samtals 7 víxla, 100.000 krónur hver, vegna skuldarinnar, með gjalddögum frá 13. nóvember 1995 til 12. febrúar 1996. Um leið og þetta samkomulag hafi náðst við Heimaval ehf. eða frá byrjun nóvember 1995 hafi verið ákveðið að aðeins yrðu sendar vörur til Heimavals ehf. í gírókröfu og var það gert en vörurnar hafi stefnanda borið að fá staðgreiddar áður en þær væru afhentar. Stefndi vísar í því sambandi til skilmálanna sem hér að framan er getið. Reikningar, sem síðar hafi verið notaðir til skuldajafnaðar gagnvart stefnanda, beri það skýrt með sér með áritun að um gírókröfur hafi verið að ræða og væru þeir merktir stefnanda.

Víxlarnir hafi ekki verið greiddir á gjalddaga, að einum frátöldum, og hafi þá orðið samkomulag milli stefnda og Heimavals ehf. um að Heimaval ehf. greiddi þá ásamt áföllnum vöxtum með veðskuldabréfi með veði í Aðalgötu 15 sem hafi verið starfsstöð Heimavals ehf. Samið hafi verið um skuldabréf vegna þess að hinar eldri víxilskuldir, sem hafi átt að vera greiðsla á skuld Heimavals ehf. samkvæmt reikningi fyrir eldri skuldir, þ.e. fyrir 2. nóvember 1995, hafi ekki fengist greiddar en upp frá því hafi verið teknar upp gírókröfur, sem öllum aðilum málsins hafi verið kunnugt um. Víxlarnir hafi verið bakfærðir og skuldabréfið fært sem innborgun á skuld Heimavals ehf. þann 28. mars 1996. Skuldabréfið sé nú að fullu greitt.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi í mörgum tilfellum krafist greiðslu fyrir gírókröfurnar og greitt stefnda eins og fram komi í gögnum málsins. Stefnandi hafi hins vegar afhent Heimavali ehf. ýmsar vörusendingar, sem sendar hafi verið sem gírókröfur, án þess að fá gírókröfufjárhæðina greidda eins og skilmálar um gírókröfur kveði skýrt á um. Sé tekið fram í 4. grein skilmálanna að vöruflytjandi skuldbindi sig til, að viðlagðri persónulegri ábyrgð, að hvorki hann né starfsmaður hans afhendi vörurnar nema gegn greiðslu gírókröfufjárhæðarinnar. Þessu hafi stefnandi augljóslega ekki farið eftir þrátt fyrir að skilmálarnir kveði skýrt á um það og beri stefnandi því persónulega ábyrgð á greiðslu þeirra gírófjárhæða, sem eigi hafi fengist greiddar. Stefndi hafi því skuldfært ógreiddar gírókröfur á Heimaval ehf. hinn 4. febrúar 1997.

Stefndi byggir sýknukröfuna á því að stefnandi beri ábyrgð á þeim gírófjárhæðum sem ekki hafi fengist greiddar af Heimavali ehf. Samkvæmt þeim skilmálum, sem hafi gilt um gírósendingar, hafi afhending á vörum verið óheimil nema gegn greiðslu að viðlagðri persónulegri ábyrgð. Stefnda hafi því verið heimilt að skuldajafna við stefnanda þeim gírófjárhæðum, sem ekki hafi fengist greiddar.

Engir samningar hafi verið gerðir, hvorki við stefnanda né Heimaval ehf., um að falla frá ábyrgðum gagnvart stefnanda sem flutningsaðila á þeim vörusendingum sem sendar hafi verið sem gírókröfur. Hafi öllum aðilum verið ljóst að stefnandi bæri ábyrgð á þeim gírókröfum sem ekki fengjust greiddar af Heimavali ehf. Því er enn fremur mótmælt af hálfu stefnda að óheiðarlegt sé af honum að bera ábyrgðarreglurnar fyrir sig eins og stefnandi haldi fram.

Sú skuld, sem Heimaval ehf. hafi borgað með víxlum og síðar veðskuldabréfi, vegna þess að víxlarnir hafi eigi fengist greiddir, hafi verið skuld vegna krafna, sem Heimaval ehf. hafi fengið út í reikning áður en gírókröfureglurnar hafi verið teknar upp, og geti stefnandi því af þeim sökum aldrei verið laus undan ábyrgð. Þótt Heimaval ehf. hafi greitt inn á skuld sína með víxlum og síðar veðskuldabréfi án samráðs við stefnanda sé það ekki jafngildi yfirlýsingar um að fallið hafi verið frá ábyrgð á hendur stefnanda og að gírókröfureglurnar ættu þá ekki við stefnanda vegna þessara viðskipta. Stefndi hafi aðeins tekið við viðskiptabréfum þessum vegna eldri skulda Heimavals ehf. og hafi aldrei gefið út neina yfirlýsingu um að stefndi væri laus undan ábyrgð samkvæmt hinum almennu gírókröfureglum.

Kröfu um skuldajöfnuð byggir stefndi á reglum kröfuréttar um skilyrði skuldajafnaðar og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988.

 

Niðurstöður.

Í málinu hefur komið fram að starfsmenn stefnanda afhentu versluninni Heimavali ehf. vörur frá stefnda án þess að þær væru greiddar við afhendingu þótt greiða skyldi fyrir þær samkvæmt því sem að framan segir um gírókröfur. Það var þó gert með vitneskju starfsmanna stefnda og án þess að gerðar væru athugasemdir af hálfu stefnda af þessu tilefni. Við vitnaleiðslur kom fram að starfsmaður stefnanda hafði í einu tilfelli neitað að afhenda Heimavali ehf. vörur nema gíróseðill væri greiddur. Starfsmaðurinn, sem ekki er lengur starfsmaður stefnanda, upplýsti fyrir dóminum að framkvæmdastjóri Heimavals ehf. hafi fullyrt að heimilt væri að afhenda vörurnar þótt gíróreikningur væri ekki greiddur. Af því tilefni hafði starfsmaðurinn, að eigin sögn, samband við stefnda og fékk staðfestingu á því að heimilt væri að afhenda vörurnar og ekki skipti máli í því sambandi þótt um gírókröfu væri að ræða. Þá kom einnig fram við vitnaleiðslur að starfsmenn Heimavals ehf. sóttu vörur í sumum tilfellum sjálfir til umboðsmanns stefnda á Ísafirði og fengu þær afhentar þar án þess að greiða gírókröfurnar. Umboðsmaður stefnda á Ísafirði skýrði frá því atriði fyrir dóminum þannig að vörur hafi þó ekki verið afhentar nema fyrir lægi samþykki stefnanda.

Á fundi, sem framkvæmdastjóri stefnanda ásamt öðrum starfsmanni stefnanda og framkvæmdastjóra Vöruflutningamiðstöðvarinnar átti þann 6. mars 1996 hjá innheimtustjóra stefnda í starfsstöð hans í Reykjavík, kom fram að innheimtustjórinn hafði samið við fyrirsvarsmann Heimavals ehf. um skuldir félagsins. Töldu þau þrjú fyrst töldu að niðurstaða fundarins væri sú að stefndi hefði tekið að sér að innheimta skuldir Heimavals ehf. og þar með væri skuldamál þess úr höndum stefnanda. Þá hefur einnig komið fram í málinu að stefndi gerði ekki kröfu á hendur stefnanda vegna ábyrgðar hans samkvæmt skilmálunum, sem stefndi vísar til, fyrr en eftir að hlutafélagið, sem fékk vörurnar afhentar, hafði hætt rekstri vegna fjárhagsörðugleika.

Þegar framangreint er virt verður að telja ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera skilmálana, sem um ræðir varðandi ábyrgð stefnanda á skuldum Heimavals ehf., fyrir sig. Þykir því rétt að beita reglunni í 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, og telja skilmálana óskuldbindandi fyrir stefnanda. Samkvæmt því voru ekki skilyrði til að beita skuldajöfnuði vegna reikninganna, sem stefnandi krefst í máli þessu að fá greidda, eins og stefndi hefur gert. Þar sem kröfum stefnanda er ómótmælt að öðru leyti og þær eru studdar fullnægjandi gögnum og rökum verða þær teknar til greina.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Dómur:

Stefndi, Sláturfélag Suðurlands svf., greiði stefnanda, Ármanni Leifssyni vöruflutningum ehf., 643.743 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 1997 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.