Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2002
Lykilorð
- Skaðabætur
- Endurkrafa
- Vátryggingarsamningur
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 6. júní 2002. |
|
Nr. 7/2002. |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Ólafur Gústafsson hrl.) gegn Fiskþurrkun ehf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur. Endurkrafa. Vátryggingarsamningur. Aðild.
Sprenging varð í húsnæði F vegna gasleka frá lyftara. Í sama húsi var M með starfsemi sína og fékk M tjón sitt bætt hjá S, sem síðan krafði F á grundvelli 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1993 um þá fjárhæð sem innt var af hendi til M. F hafði ábyrgðartryggingu hjá V, sem gerðist aðili að málinu samkvæmt samkomulagi málsaðila þar um. Stjórnandi lyftarans var talinn hafa sýnt gáleysi með því að skrúfa ekki fyrir gaskútinn eftir að hafa lagt tækinu í lok vinnudags og bar F skaðabótaábyrgð gagnvart S, sem öðlast hafði stöðu tjónþola, á þessari háttsemi starfsmanns F. Með vísan til 2. töluliðar 2. mgr. 19. gr. laga nr. 50/1993 var F ekki talið komast undan bótaskyldu á grundvelli 1. mgr. sömu greinar. Í samningi F við V um kaup á vátryggingu undanskildi V sig ábyrgð á tjóni sem hlytist af eldsvoða. Ljóst þótti að tjón M varð ekki vegna eldsvoða, svo sem það hugtak er skýrt í lögskýringargögnum, heldur við sprengingu. V hafði ekki undanþegið sig ábyrgð vegna tjóns af völdum sprengingar, sem F bar skaðabótaábyrgð á. Samkvæmt því var V skylt að bæta tjón M og í samræmi við það var krafa S á hendur F og V tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2002. Hann krefst þess, að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 1.700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að um klukkan 6 að morgni mánudags 7. júní 1999 varð mikil sprenging í húsnæði stefnda Fiskþurrkunar ehf. í Gerðahreppi. Var félagið með starfsemi sína í sama húsi og Marvík ehf., þar sem skilrúm greindi húshlutana að. Urðu miklar skemmdir við sprenginguna á húsinu og vélbúnaði, sem þar var. Er óumdeilt í málinu að sprengingin hafi orðið vegna gasleka frá lyftara, sem var í húsnæði Fiskþurrkunar ehf. Málsatvikum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í héraðsdómi.
Marvík ehf. hafði skaðatryggingu hjá áfrýjanda, sem bætti félaginu tjónið með samtals 1.700.000 krónum í nokkrum áföngum á árunum 1999 og 2000. Telur áfrýjandi að Fiskþurrkun ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóninu og krefur hann þennan stefnda á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um þá fjárhæð, sem hann innti af hendi til Marvíkur ehf. Fiskþurrkun ehf. hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og gerðu málsaðilar samkomulag 16. maí 2001 þess efnis að hið stefnda vátryggingafélag yrði beinn aðili að málinu við hlið Fiskþurrkunar ehf. með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgja að lögum. Segir meðal annars í samkomulaginu að stefnda Fiskþurrkun ehf. telji sig ekki bera skaðabótaábyrgð á tjóni Marvíkur ehf. og að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. álíti tjónið falla utan gildissviðs ábyrgðartryggingar Fiskþurrkunar ehf. hjá honum. Er því síðan lýst að aðilarnir telji heppilegt að fá jafnframt dæmt um síðastnefnda álitaefnið í málinu og sé það tilgangurinn með beinni aðild Vátryggingafélags Íslands hf. að því. Krefst áfrýjandi samkvæmt þessu greiðslu óskipt úr hendi stefndu.
II.
Vinnueftirlit ríkisins rannsakaði verksummerki í starfstöð Fiskþurrkunar ehf. eftir sprenginguna og gerði um það ódagsetta skýrslu, sem mun hafa verið lokið 8. júní 1999. Kom þar meðal annars fram að sprengingin hafi sýnilega orðið í herbergi þar sem þrír lyftarar voru geymdir. Voru tveir þeirra knúnir með rafmagni, en hinn þriðji með gasi. Hafði honum verið lagt þarna þegar vinnu lauk hjá þessum stefnda föstudaginn 4. júní 1999. Hleðslutæki voru tengd tveim fyrrnefndu lyfturunum yfir helgina, en auk þess var rafmótor í loftdælu stöðugt í gangi og kæliskápar staðsettir í herberginu, en á þeim var stjórntafla, sem kveikti og slökkti á þeim. Taldi vinnueftirlitið að neisti geti hafa myndast frá rafbúnaði. Líklegustu skýringuna á sprengingunni taldi stofnunin vera þá að festing slöngu á gaskút á lyftaranum, sem áður var nefndur, hafi verið farin að gefa sig af hristingi og öðru hnjaski við notkun tækisins. Þegar þrýstingur jókst í slöngunni við að bruni í vél lyftarans hætti hafi hún skroppið af tengibúnaði gaskútsins og gasið þar með streymt óhindrað út úr opnum kútnum. Neisti frá rafbúnaði hafi síðan kveikt í gasinu og sprenging orðið. Í skýrslunni kom loks fram að sá maður, sem síðastur ók gaslyftaranum 4. júní 1999, hafi verið nokkuð viss um að hann hafi ekki lokað fyrir gaskútinn þegar hann lagði lyftaranum. Var lyftarinn með „fulla skoðun“ frá 27. janúar 1999, en ekkert liggur fyrir í málinu um aldur tækisins.
Fallist verður á með áfrýjanda að stjórnandi lyftarans sýndi gáleysi með því að skrúfa ekki fyrir gaskútinn eftir að hafa lagt tækinu í lok vinnudags. Var þeim mun brýnna að sinna þessari einföldu og sjálfsögðu öryggisráðstöfun þar sem tækið skyldi geymt í húsnæði þar sem margs kyns rafmagnstæki voru í gangi. Ber stefndi Fiskþurrkun ehf. skaðabótaábyrgð gagnvart tjónþola á þessari háttsemi starfsmanns síns og reynir þá ekki sérstaklega á aðrar ástæður, sem áfrýjandi teflir fram til stuðnings kröfum sínum. Áfrýjandi hefur bætt Marvík ehf. tjónið og öðlast rétt tjónþolans á hendur stefnda Fiskþurrkun ehf. samkvæmt 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga. Verður ekki fallist á með þessum stefnda að hann komist undan bótaskyldu á grundvelli reglu 1. mgr. 19. gr. sömu laga, enda var tjóninu valdið í einkaatvinnurekstri og leiðir af 2. tölulið 2. mgr. sömu greinar að regla 1. mgr. hennar á hér ekki við.
III.
Meðal málsgagna eru skilmálar stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. fyrir ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar, sem áttu við í samningssambandi stefndu. Er tekið fram í 2. gr. skilmálanna að vátryggingin taki til skaðabótaábyrgðar, sem falli á vátryggðan meðal annars vegna skemmda á munum vegna starfsemi hans. Í 6. gr. þeirra er síðan kveðið á um almennar undantekningar frá ábyrgð vátryggingarfélagsins, en í 2. tölulið greinarinnar segir að vátryggingin nái ekki til tjóns „sem hlýst af eldsvoða, kjarnorku eða geislavirkum efnum.“ Ber stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. þetta ákvæði fyrir sig í málinu og telur að tjón Marvíkur ehf. hafi hlotist af eldsvoða í merkingu skilmálanna. Verði með réttu litið svo á að sprengingin hafi orðið af völdum eldsvoða þegar kviknaði í gasinu. Áfrýjandi telur hins vegar sýnt að enginn eldsvoði hafi orðið í umrætt sinn, heldur hafi tjónið orðið við sprengingu og geti hið stefnda vátryggingarfélag ekki komist undan ábyrgð með því að bera fyrir sig undantekningu í vátryggingarskilmálum, sem lúti að eldsvoða.
Í lögum nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga er að finna ákvæði um brunatryggingu í 79. gr. til 88. gr. Í athugasemdum, sem fylgdu 79. gr. í frumvarpi til þessara laga, koma fram skýringar á hugtakinu „eldsvoða“ í merkingu frumvarpsins. Segir þar að ábyrgðin sé takmörkuð við tjón, sem hljótist af eldsvoða, og sé þetta gert til að undanskilja smábruna ábyrgðinni. Ábyrgðin taki ekki aðeins til tjóns, sem verður beinlínis af völdum elds, heldur og skaða, sem hlýst til dæmis af reyk og vatni við eldsvoða. Því aðeins sé um eldsvoða í merkinu frumvarpsins að ræða að eldur sé „laus“ sem kallað sé, það er að honum séu ekki sett tiltekin mörk af mönnum. Auk þess verði eldurinn að hafa náð nokkru magni. Með því að trygging samkvæmt framangreindu taki aðeins til tjóns af eldsvoða taki hún ekki til tjóns, sem verði við sprengingu, nema svo sé sérstaklega um samið, eða sprengingin stafi af eldsvoða.
Í samningi stefndu um kaup á vátryggingu undanskildi Vátryggingafélag Íslands hf. sig ábyrgð á tjóni, sem hlytist af eldsvoða. Ljóst er að tjón Marvíkur ehf. varð ekki vegna eldsvoða, svo sem það hugtak er skýrt í áðurröktum lögskýringargögnum, heldur við sprengingu. Hið stefnda vátryggingarfélag hefur ekki undanþegið sig ábyrgð vegna tjóns af völdum sprengingar, sem Fiskþurrkun ehf. ber skaðabótaábyrgð á. Er Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt því skylt að bæta tjón Marvíkur ehf. samkvæmt samningi sínum við Fiskþurrkun ehf. Verður niðurstaða málsins samkvæmt öllu framanröktu sú að krafa áfrýjanda á hendur báðum stefndu verður tekin til greina með vöxtum eins og krafist er. Skulu stefndu jafnframt greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, Fiskþurrkun ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 1.700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 30. nóvember 2000.
Stefnandi er Sjóvá - Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1738, Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefndu eru Fiskþurrkun ehf., kt. 570887-1149, Skólabraut 11, Garði og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda kr. 1.700.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. nóvember 2000 til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að mánudaginn 7. júní 1999 kl. 07:42 var lögreglunni í Keflavík tilkynnt um sprengingu sem orðið hefði í fyrirtækinu Fiskþurrkun ehf. við Skagabraut í Garði. Mun stefndi Fiskþurrkun ehf. vera í norðurhluta húsnæðisins en fyrirtækið Marvík ehf. í syðri hlutanum. Lögreglumenn fóru á vettvang ásamt starfsmanni Vinnueftirlits ríkisins. Segir í lögregluskýrslu að norðurveggur hússins hafi allur verið úr lagi genginn og þá hafi stór hluti þaksins verið horfinn að vestanverðu. Inni í húsinu höfðu járnklæddir timburveggir fallið á vinnslutæki svo og milliveggur sem skildi fyrirtækin að. Í lyftarageymslu voru þrír lyftarar, tveir rafmagnslyftarar og einn gaslyftari með skráningarnúmerinu JL-2988. Veittu lögreglumenn því athygli að gaskútur aftan á gaslyftaranum var hélaður að neðan og var gasslangan laus frá kútnum. Starfsmaður stefnda Fiskþurrkunar skrúfaði fyrir kútinn meðan lögreglan var á vettvangi.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir að af verksummerkjum megi ráða að sprengingin hafi orðið í lyftaraherberginu, en það var mjög illa farið, þaklaust, allir veggir meira og minna sprungnir út og aðliggjandi húsnæði verulega skemmt. Mun Jens S. Guðbergsson, starfsmaður stefnda Fiskþurrkunar ehf., síðast hafa ekið lyftaranum á föstudeginum og sagðist hann nokkuð viss um að hann hefði ekki skrúfað fyrir gaskútinn er hann lagði lyftaranum. Var um að ræða 11 kg gaskút og að mati Jens voru 7 til 9 kg eftir af gasi á kútnum þegar lyftaranum var lagt. Í skýrslunni segir enn fremur að ekki hafi orðið vart við ammoníakslykt á svæðinu og útiloki það ammoníakssprengingu. Þá segir að merki hafi verið um eld, þar sem timbur hafi sviðnað, plast bráðnað og kviknað hafi í pappírsrusli. Eldur hafi þó ekki gosið upp, enda hafi úðast vatn yfir sprengistaðinn úr vatnslögn sem hafi rofnað. Við skoðun á gaskútnum kom í ljós að slanga, sem liggur frá kútnum að brennslurými lyftarans, virðist hafa losnað af stút á tengibúnaði gaskútsins. Á slöngunni mun hafa verið pressaður málmhólkur til að festa hana í stað hosuklemmu. Segir í skýrslunni að þrýstingur í slöngunni hafi aukist við það að lyftarinn var ekki í notkun. Loftræsting hafi verið í herberginu, bæði op með rafknúinni viftu niður undir gólfi og loftop ofar á sama vegg, en loftdæling hafi ekki nægt til að soga gasið burt jafnóðum, en það bendi til þess að mati starfsmanns Vinnueftirlitsins að gasið hafi tæmst mjög ört úr kútnum. Þá segir í skýrslunni að hleðslutæki fyrir rafmagnslyftara og rafmótor í loftdælingu hafi verið í gangi. Þá hafi kæliskápar verið í herberginu, en stjórntafla sjái um að kveikja og slökkva á þeim rafrænt. Sé neistamyndun frá rafbúnaði því möguleg.
Það var því mat starfsmanna Vinnueftirlits ríkisins að líklegasta skýring sprengingarinnar hafi verið sú að festing slöngunnar við tengibúnað gaskútsins hafi verið farin að gefa sig af hristingi og öðru hnjaski við notkun tækisins. Þegar þrýstingur hafi aukist í slöngunni við að bruni hætti í mótor lyftarans hafi hún skroppið af tengibúnaði gaskútsins og þar með hafi gasið streymt óhindrað út úr opnum kútnum. Neisti frá rafbúnaði hafi síðan kveikt í gasinu með framangreindum afleiðingum.
Fyrirtækið Marvík ehf. hafði vátryggingu hjá stefnanda sem bætti fyrirtækinu tjón þess með kr. 1.700.000. Er ekki ágreiningur um þá fjárhæð, en stefndu mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að umrædd sprenging hafi orðið vegna vítaverðs gáleysis hjá stefnda og/eða starfsmanni hans. Hafi búnaður á gaskútnum verið ófullnægjandi, auk þess sem starfsmaður stefnda hafi gleymt að skrúfa fyrir gasið þegar hann gekk frá lyftaranum á föstudeginum. Hafi þetta leitt til þess að sprenging hafi orðið með þeim afleiðingum að Marvík ehf. hafi orðið fyrir verulegu eignatjóni á tækjum og búnaði. Beri stefndi Fiskþurrkun ehf. skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennu skaðabótareglunni og reglum um húsbóndaábyrgð. Þá er einnig byggt á því að bótaskylda stefnda byggi á hlutlægum ábyrgðarreglum, en búnaður sá er tjóninu olli hafi verið hættulegur og til þess fallinn að valda tjóni væri fyllstu aðgæslu ekki gætt.
Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar, reglna um húsbóndaábyrgð atvinnurekanda á starfsmönnum sínum og hlutlægrar ábyrgðarreglu skaðabótaréttar. Stefnandi segist krefja stefndu um greiðslu á skaðabótum sem svari til þeirrar fjárhæðar sem tjónþola hafi verið greidd á grundvelli skaðatryggingar og vísar í þeim efnum til 22. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndu byggja á því að skilyrði réttar stefnanda til endurkröfu á hendur stefnda Fiskþurrkun ehf. samkvæmt 22. gr. skaðabótalaga sé að hið stefnda fyrirtæki beri skaðabótaábyrgð á tjóni Marvíkur ehf. Er sýknukrafa stefnda Fiskþurrkunar ehf. á því byggð að rekja megi tjónið til óhappatilviljunar en ekki til saknæms atferlis stefnda og/eða starfsmanns hans. Þá beri stefndi ekki bótaábyrgð eftir hlutlægum ábyrgðarreglum vegna hættulegs búnaðar eða hættulegrar starfsemi.
Stefndi Fiskþurrkun ehf. byggir á því að í sjálfu sér hafi verið ósaknæmt af starfsmanni stefnda að loka ekki fyrir gaskút lyftarans þegar hann gekk frá honum á föstudeginum, þar sem hann gat ekki vitað né mátti vita að slangan milli gaskúts og brennsluhólfs myndi losna af stút gaskútsins og gasið streyma úr kútnum. Þvert á móti hafi starfsmaðurinn mátt treysta því að slangan héldist föst eins og áður og ekkert gas gæti lekið úr kútnum, þó ekki væri lokað sérstaklega fyrir hann. Sé því ekki við starfsmanninn að sakast og þá hafi hann ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eins og stefnandi haldi fram. Þá verði tjónið ekki rakið til saknæms atferlis annarra starfsmanna stefnda, en ekkert bendi til þess að þeim megi kenna um að slangan losnaði af tengibúnaði gaskútsins eða þeir hafi mátt varast það. Þá hafi búnaðurinn eða lyftarinn ekki verið hættulegur í skilningi skaðabótaréttar eða rekstur stefnda Fiskþurrkunar ehf. yfirleitt. Því eigi regla um hlutlæga bótaábyrgð ekki við.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. byggir sýknukröfu sína á því að tjónstilvikið falli ekki undir ábyrgðartryggingu stefnda Fiskþurrkunar ehf. hjá félaginu með vísan til 6. gr. almennra skilmála tryggingarinnar. Segi berum orðum í 6. gr., sbr. 2. tl. skilmálanna, að vátryggingin taki ekki til tjóns sem hljótist af eldsvoða, en stefndi byggir á því að tjónið hafi hlotist af því að neisti kveikti í gasinu sem logaði þá upp og sprakk með fyrrgreindum afleiðingum. Varð laus eldur eða eldsvoði því orsakavaldur tjónsins, en með eldsvoða í skilningi vátryggingaréttar sé átt við það að eldur verði laus. Þar sem tjónið hafi hlotist af eldsvoða beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Niðurstaða.
Í máli þessu er ekki ágreiningur milli aðila um örsök þess að umrætt tjón varð. Verður á því byggt að starfsmanni stefnda Fiskþurrkunar ehf. hafi láðst að skrúfa fyrir gaskút lyftara eftir notkun föstudeginum áður en tjónið varð. Upplýst er og óumdeilt að slanga sem lá frá gaskútnum að brennslurými lyftarans losnaði af stút á tengibúnaði kútsins, en slangan var fest með pressuðum málmhólki, en ekki hosuklemmu. Málsaðilar fallast á það álit starfsmanna Vinnueftirlits ríkisins að líklegasta skýring sprengingarinnar hafi verið sú að festing slöngunnar við tengibúnað gaskútsins hafi verið farin að gefa sig af hristingi og öðru hnjaski við notkun tækisins. Þegar þrýstingur hafi aukist í slöngunni við að bruni hætti í mótor lyftarans hafi hún skroppið af tengibúnaði gaskútsins og þar með hafi gasið streymt óhindrað út úr opnum kútnum. Neisti frá rafbúnaði hafi síðan kveikt í gasinu með framangreindum afleiðingum.
Ágreiningur aðila málsins snýst um það hvort stefnandi eigi endurkröfu á hendur stefnda Fiskþurrkun ehf. á grundvelli 22. gr. skaðabótalaga, en stefndi hafði frjálsa ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Er ágreiningur um það hvort rekja megi sprenginguna til ófullnægjandi búnaðar og vítaverðs gáleysis stefnda Fiskþurrkunar ehf. og/eða starfsmanns hans og stefndi beri því skaðabótaábyrgð á tjóninu eftir almennu skaðabótareglunni og reglum um húsbóndaábyrgð. Þá er ágreiningur um það hvort stefnda Fiskþurrkun ehf. beri hlutlæga ábyrgð á tjóninu, þar sem búnaðurinn sem tjóninu olli hafi verið hættulegur og til þess fallinn að valda tjóni.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skaðabótalaga stofnast skaðabótaréttur ekki vegna tjóns sem munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til nema hinn skaðabótaskyldi hafi valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Samkvæmt 22. gr. sömu laga öðlast vátryggingafélag rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda, að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur, stofnist skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem skaðatrygging tekur til.
Verði talið að stefnda Fiskþurrkun ehf. beri skaðabótaábyrgð á umræddu tjóni deila aðilar málsins um það hvort tjónstilvikið falli undir ábyrgðartryggingu stefnda hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Telur stefndi tjónið hafa hlotist af eldsvoða en samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar tekur hún ekki til slíkra tilvika. Stefnandi byggði hins vegar á því við munnlegan flutning málsins að tjónið hafi hlotist af sprengingu en ekki eldsvoða, en tjón af völdum sprengingar sé ekki undanskilið í skilmálum hins stefnda vátryggingafélags.
Ekki er annað í ljós leitt í máli þessu en umræddur lyftari, sem knúinn var gasi, hafi starfað eðlilega fram að þeim tíma er tjónið varð. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að starfsmönnum stefnda Fiskþurrkunar ehf. hafi verið ljóst að búnaði á gaskútnum hafi verið þannig háttað að hætta væri á gasleka ef ekki væri skrúfað fyrir gasið að notkun lokinni. Verður að telja að við eðlilega notkun og fullnægjandi umbúnað slöngu hafi ekki borið nauðsyn til að skrúfa fyrir gasið. Hins vegar verður að telja varlegra að hafa þann hátt á, enda virðist ekki hafa verið gert ráð fyrir að lyftarinn yrði notaður fyrr en eftir helgina. Samkvæmt framansögðu verður því ekki fallist á að starfsmaður stefnda Fiskþurrkunar ehf. hafi sýnt af sér stórfellt eða vítavert gáleysi með því að láta undir höfuð leggjast að skrúfa fyrir gasið. Verður skaðabótaábyrgð stefnda því ekki byggð á þessari málsástæðu.
Eins og að framan var rakið var slangan fest við stút gaskútsins með pressuðum málmhólki en ekki með hosuklemmu. Ekki verður ráðið af skýrslu Vinnueftirlits ríkisins að um ófullnægjandi búnað að þessu leyti hafi verið að ræða. Virðist röð tilviljana hafa leitt til þess að afleiðingarnar urðu þær sem hér er fjallað um, þ.e.a.s. að festing slöngunnar hafi verið farin að gefa sig af hristingi og öðru hnjaski við notkun tækisins. Hafi þrýstingur aukist í slöngunni þegar bruni hætti í vél lyftarans og slangan þá skroppið af tengibúnaði sínum. Hafi gasið þá streymt óhindrað úr opnum kútnum og neisti frá rafbúnaði kveikt í því með fyrrgreindum afleiðingum. Það er mat dómsins að tjónið hafi orðið fyrir óhappatilviljun og ber stefndi Fiskþurrkun ehf. því ekki skaðabótaábyrgð á þeirri atburðarás er leiddi til tjónsins. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Fiskþurrkun ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sjóvá Almennra trygginga hf. í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.