Hæstiréttur íslands

Mál nr. 373/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 373/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Árna Jens Valgarðssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Skaðabætur.

Á var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið X í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur í munni hans brotnuðu, sbr. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Enda þótt háttsemi X hafi ekki verið vítalaus umrætt sinn var ekki fallist á að skilyrði væru til að beita lokamálslið 3. mgr. 218. gr. a. sömu laga við ákvörðun refsingar. Var refsing Á ákveðin tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu. Þá krefst ákæruvaldið þess að bótakrafa X beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2003 til 23. apríl 2004, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu X verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 17. október 2003 á skemmtistaðnum Góða Dátanum á Akureyri, slegið X í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur í munni hans brotnuðu.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður Y, föðurbróður X, við yfirheyrslu hjá lögreglu 6. nóvember 2003. Kemur þar meðal annars fram að Y hafi séð X og ákærða togast á um fána og síðar hafi hann séð ákærða slá X skyndilega á munninn. Framburður hans um þetta atriði var hins vegar á annan veg fyrir dómi. Þar bar Y að hann hafi ekki séð ákærða slá X á munninn og var framburður hans um samskipti þeirra að öðru leyti óskýr. Kvaðst hann hafa litið við og „þá var höggið búið og þá var X að labba í burtu, þannig að ég sá alveg að það var hann sem kýldi hann sko.“ Aðspurður um framangreindan framburð sinn hjá lögreglu kvaðst hann ekki muna hvers vegna hann bar á þennan veg. Framburður þessa vitnis, sem er náskyldur ákærða, er reikull og misvísandi og verður ekki á honum byggt við úrlausn málsins.

Í héraðsdómi er lýst framburði ákærða og vitnanna A, B, C og D auk framburðar X. Eins og fram kemur í niðurstöðu dómsins er ljóst af framburði þessara vitna að upphaf orðahnippinga milli ákærða og X voru þau að X reyndi að ná af ákærða fána, sem hann var með inni á skemmtistaðnum. Vitnin B, C og D báru staðfastlega við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi í kjölfar orðahnippinga þeirra X slegið hann fyrirvaralaust í andlitið. Með framburði þessara vitna, sem fær stoð í vottorðum tannlækna og framburði tveggja tannlækna fyrir dómi, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða fyrir þann verknað, sem honum er að sök gefinn í ákæru og þar er rétt heimfærður til refsiákvæðis. Þótt háttsemi brotaþola hafi ekki verið vítalaus umrætt sinn er ekki á það fallist með ákærða að skilyrði séu til að beita lokamálslið 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, við ákvörðun refsingar hans. Er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða staðfest.

Með bréfi lögmanns brotaþola 29. desember 2003 til lögreglunnar á Akureyri gerði hann fyrir hönd skjólstæðings síns kröfu um skaðabætur á hendur ákærða að fjárhæð 518.750 krónur „með vöxtum samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 38,2003 frá 16. október 2003 til greiðsludags og kr. 108.937.- í lögmannskostnað. Byggðist krafan á áætlun nafngreinds tannlæknis um kostnað við að koma fyrir í munn brotaþola tveimur gervitönnum. Ekki er ljóst hvort krafan var birt ákærða við rannsókn málsins en hún er tekin upp í ákæru. Málið var þingfest í héraði 23. mars 2004. Í næsta þinghaldi 18. maí sama árs lagði áðurnefndur lögmaður hins vegar fram leiðrétta kröfugerð, sem send var sýslumanninum á Akureyri með bréfi daginn áður að fjárhæð 520.110 krónur. Var hún studd framlögðum reikningum vegna endanlegs kostnaðar þeirrar tannlæknaþjónustu, sem brotaþoli naut hjá nafngreindum tannlækni. Krafist var vaxta af höfuðstólnum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. október 2003 þar til mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar, en samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi. Í málinu er ekki ágreiningur um að miða eigi við að ákærða hafi verið birt krafan við þingfestingu þess 23. mars 2004.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því haldið fram af hálfu ákærða að óljóst væri hvort brotaþoli hefði fengið endurgreiddan úr ríkissjóði einhvern hluta kostnaðar áðurnefndrar tannlæknaþjónustu. Ekkert liggur fyrir um það í málinu. Er krafan því tekin til greina með þeim höfuðstól sem um getur í ákæru, 518.750 krónum, ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

 Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola kostnað, sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Mál þetta var dómtekið í héraði 18. maí 2004, en héraðsdómur var ekki kveðinn upp fyrr en 30. júní sama árs. Liðu því rúmar sex vikur frá dómtöku málsins til uppsögu dóms. Er það í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Verður að átelja þennan drátt á málinu.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Árna Jens Valgarðssonar, og sakarkostnað.

Ákærði greiði X 578.750 krónur með vöxtum af 518.750 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um og vexti og verðtryggingu frá 17. október 2003 til 18. júní 2004, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. júní 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí s.l., hefur lögreglustjórinn á Akureyri höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, með ákæru, útgefinni 10. febrúar 2004, á hendur Árna Jens Valgarðssyni, kt. [...], [...];

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 17. október 2003 á skemmtistaðnum Góða Dátanum, Geislagötu 14, Akureyri, slegið X, kt. [...], í andlitið, með þeim afleiðingum að tvær tennur í munni hans brotnuðu úr neðri gómi, þ.e. tennur nr. 31. og 32.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu gerir Árni Pálsson, f.h. X, skaðabótakröfu úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 518.750, með vöxtum samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 38, 2003 frá 16. október 2003 til greiðsludags og kr. 108.937 í lögmannskostnað.“

Skipaður verjandi ákærða, Sigmundur Guðmundsson hdl., krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann þess að ákærða verði ekki gerð refsing og til þrautavara að ákærða verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að bótakrafan verði þá verulega lækkuð.  Þá krefst hann þess að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

I.

Samkvæmt lögregluskýrslu eru málsatvik þau að kl. 00:31 17. október 2003 var óskað aðstoðar lögreglu að veitingastaðnum Dátanum vegna átaka þar innan dyra.  Fóru lögreglumenn á vettvang og hittu þar fyrir ákærða og X.  Voru þeir báðir rólegir er lögregluna bar að, en í lögregluskýrslu segir að sjá hafi mátt að tvær framtennur vantaði í neðri góm X og hann hafi verið talsvert blóðugur í munnholi.  Voru þeir sammála um að komið hefði til átaka á milli þeirra.  Segir í lögregluskýrslu að þeir hafi báðir verið lítilsháttar undir áhrifum áfengis, en að viðtali loknu hafi báðum verið leyft að fara frjálsum ferða sinna.

Þriðjudaginn 28. október 2003 kom X á lögreglustöðina á Akureyri til að kæra árás ákærða á hann í framangreint skipti og gaf hann þá skýrslu hjá lögreglunni.

II.

Ákærði skýrir svo frá að hann hafi verið á veitingastaðnum Dátanum umrætt kvöld og hafi hann komið þangað með vinum sínum og vinkonu og kveðst hann ekki hafa verið ölvaður.  Kveðst ákærði hafa haldið á auglýsingafána sem hann hafi fundið í miðbænum og gripið með sér í greint sinn.  Á veitingastaðnum Dátanum hafi strákur komið að honum og farið að rífa í fánann og heimta að fá hann.  Kveðst hann hafa sagt stráknum að hætta þessu og láta hann í friði, en hann hafi ekki orðið við því.  Kveðst ákærði ekki hafa þekkt þennan strák.  Kveður hann þetta hafa gengið um smástund að strákurinn hafi haldið í fánann og togað í hann og þeir hafi togast á um hann en ekki verið að slást.  Kveður ákærði síðan fjóra félaga stráksins hafa komið að og hafi þeir staðið í kringum hann og farið að ýta í hann, kveðst hann þá hafa bakkað að barborðinu.  Strákarnir hafi verið alveg komnir ofan í hann og með hendur á lofti, kveðst ákærði þá hafa sveiflað hægri hendinni til að ýta strákunum frá sér og varna þess að fá högg.  Kveður ákærði það ekki hafa verið ætlun sína að slá nokkurn mann eða skaða og þetta hafi ekki verið fast, þegar hann sveiflaði hendinni.  Segir ákærði að hann hafi síðan verið tekinn hálstaki og litlu munað að hann missti meðvitund.  Honum hafi síðan verið hrint niður stiga framan við barinn og hann fallið í gólfið.  Þar hafi einhver stigið á andlit hans, en þá hafi dyraverðir komið þar að og stöðvað átökin.  Segir ákærði að farið hafi verið með sig niður í anddyri Dátans og hringt á lögreglu, sem hafi komið á vettvang.  Lögreglan hafi rætt við sig, en síðan látið sig fara frjálsan ferða sinna.  Kveðst ákærði hafa fengið að vita þarna í anddyrinu að hann hefði barið tvær tennur úr stráknum sem hafi verið að heimta fánann.  Strákurinn hafi komið í anddyrið og hafi hann séð áverkann.  Kveðst ákærði hafa farið á sjúkrahús því hann hafi fundið til í andlitinu, en ekkert sérstakt hafi komið í ljós við skoðun.

III.

Vitnið X skýrir svo frá, að hann hafi umrætt kvöld verið á Dátanum, kveðst hann hafa verið búinn að drekka tvo stjóra bjóra þegar atvik þetta gerðist.  Með honum hafi verið B, sem hafi séð atburðinn, en auk hans hafi þeir C og Y verið nálægt og séð hvað gerðist.  Vitnið kveður ákærða hafa komið inn á Dátann, en kveðst ekki hafa þekkt hann.  Hann hafi verið með auglýsingafána sem hann hafi gengið með.  Vitnið kveðst hafa langað til að skoða fánann og gripið í hann.  Ákærði hafi þá spurt hvað hann væri eiginlega að gera og kveðst vitnið þá hafa svarað ákærða því til að hann vildi bara skoða fánann.  Byrjað hafi smárifrildi á milli þeirra sem hafi staðið í u.þ.b. korter, hafi þetta síðan endað með því að ákærði hafi skyndilega kýlt sig og hafi höggði lent beint á munni vitnisins.  Við höggið hafi tvær tennur í neðri gómi brotnað.

Kveður vitnið D hafa komið að og ráðist að ákærða og hafi orðið átök á milli ákærða og D, en vitnið kveðst ekki hafa séð það nákvæmlega því hann hafi farið á næsta bar til að fá bréf til að stoppa blóðrennsli.

Kveður vitnið dyraverði hafa komið þarna að og stöðvað átökin og hringt í lögregluna.

Kveðst vitnið daginn eftir hafa farið til tannlæknis, sem hafi sagt honum að hann þyrfti að fá tvær nýjar tennur.

Vitnið A skýrir svo frá að hann hafi verið staddur á Dátanum umrætt kvöld og verið ölvaður.  Kveðst vitnið hafa séð ákærða koma inn á Dátann og hafi hann verið með fána í hendinni.  Vitnið kveðst kannast við ákærða og hafa farið til hans að spjalla aðeins við hann, en farið síðan aftur að borði sínu, sem hafi verið nokkuð frá barnum.  Hann kvaðst þó hafa séð til barsins frá borðinu og kveðst hafa heyrt skarkala og séð að ákærði var í einhverjum vandræðum.  Hafi fjórir strákar verið hjá ákærða og togað í fánann og ýtt við honum.  Vitnið kveðst hafa labbað til þeirra til að reyna að hjálpa ákærða og hann hafi farið að spjalla við hann og róa hann niður, þegar strákur hafi komið að Árna og tekið hann hálstaki og dregið hann niður í gólf.  Telur vitnið að á meðan að á þessu stóð hafi einhver barið ákærða í andlitið, en hann hafi ekki sáð hver það var.

Kveðst vitnið hafa reynt að toga í ákærða og síðan í hendi stráksins, sem hafi verið utan um hálsinn á Árna.  Þá hafi allt orðið vitlaust og dyraverðir komið og stillt til friðar.  Ákærði hafi farið út úr húsinu, en seinna um nóttina segir hann að ákærði hafa sagt sér að hann hafi farið á slysadeild.

Vitnið kveðst ekki hafa séð ákærða slá strákinn, hann hafi einungis séð þegar hann var tekinn hálstaki, en það hafi sennilega gerst eftir að tennurnar brotnuðu.

Vitnið B skýrir svo frá að hann hafi verið á veitingastaðnum Dátanum þetta umrædda kvöld og hafi hann farið þangað með X, Y og C.  Kveðst vitnið ekki hafa verið búinn að drekka neitt.  Kveður hann þá félaga hafa sest við borð nálægt barnum og hafi þeir þá séð ákærða sem haldið hafi á fána.  X hafi farið til hans og farið að tala við hann, en ekki kveðst vitnið vita hvað þeim fór í milli.  Segir vitni að X og ákærði hafi verið búnir að tala saman í um tíu mínútur eða lengur þegar ákærði hafi skyndilega barið X.

Kveður vitnið höggið hafa komið beint á munn X og það hafi strax blætt nokkuð úr munni hans.  Kveður vitnið X síðan hafa komið að borðinu til þeirra og kveðst vitnið hafa séð að tvær tennur í neðri góm X voru brotnar.  Kveður hann þá hafa farið að svipast um eftir tönnunum, en ekki fundið þær.

Vitnið kveðst ekki hafa fylgst með þeim átökum sem urðu á eftir milli ákærða og D og því ekkert geta um það borið.  Vitnið kveður X ekki hafa ögrað ákærða neitt áður en hann fékk höggið, þeir hafi verið þarna tveir saman X og ákærði.

Kveður vitnið engan hafa verið að ýta við ákærða áður en höggið kom.  Það hafi þó einhverjir verið nálægt, en ekki amast neitt við ákærða.  Vitnið kveður sig og félaga sína ekkert hafa blandað sér í átökin eftir að X var veitt höggið.

Vitnið Y skýrir svo frá að hann hafi verið á Dátanum þetta umrædda kvöld ásamt þeim X, C og B.  Kveður vitnið X hafa verið eitthvað ölvaðan, en hinir hafi verið edrú.  Segir vitnið að þeir hafi setið við borð þarna inni nálægt barnum.  Kveður vitnið ákærða hafa komið inn á Dátann og haldið á fána og hafi X farið til hans, en vitnið kveðst ekki þekkja ákærða.

Kveður vitnið þá X og ákærða hafa farið að rífast um fánann, en vitnið kveðst þó ekki hafa heyrt orðaskil, en þeir hafi farið að togast á um fánann.  Kveðst vitnið hafa séð að ákærði sló X skyndilega og hafi höggið lent á munni X.  Hafi þá strákar komið að sem hafi tekið ákærða, væntanlega til að afstýra því að hann réðist aftur á X.  Kveðst vitnið hafa farið til X og séð að það blæddi úr munni hans og einnig séð að tvær tennur í munni hans hefðu brotnað við höggið.  Vitnið segir að þeir félagar X hafi ekki verið nærri þegar ákærði hafi slegið X en séð þetta allt.

Kveður vitnið árás ákærða á X hafa verið tilefnislausa.

Vitnið C skýrir svo frá að hann hafi setið við borð á Dátanum umrætt kvöld ásamt X, Y og B.  Kveðst vitnið hafa verið edrú.  Segir vitnið að X hafi farið að rífast við ákærða sem hafi verið með fána, kveður hann þá félagana ekki hafa skipt sér af þessu, en þó fylgst með því sem að fram fór.

Kveðst vitnið hafa séð að einhver læti byrjuðu og kveðst hafa séð ákærða berja X á munninn.  Síðan hafi D komið og gripið í ákærða og dregið hann frá.  Einhver átök hafi orðið milli D og ákærða, en þau átök hafi verið stöðvuð af dyraverði.

Vitnið segir að X hafi síðan komið með sér í burtu, kveðst vitnið hafa séð að það blæddi úr munni X og seinna hafi hann svo séð að tvær tennur höfðu brotnað við höggið.

Vitnið segir að það hafi ekki verið nein ástæða fyrir ákærða að berja X.  Það hafi enginn verið að ýta við honum eða ógna honum á neinn hátt.

Vitnið D skýrir svo frá að hann hafi verið á veitingastaðnum Dátanum greint kvöld, kveðst vitnið kannast við X og hafa séð hann á veitingastaðnum.  Kveðst hann hafa séð X vera á tali við ákærða en ekki heyrt hvað þeim fór í milli.  Kveður hann X einan hafa verið að tala við ákærða.

Vitnið segir að skyndilega hafi ákærði slegið X og hafi höggið lent beint á munni X, þetta hafi verið fyrirvaralaust högg, það hafi ekki verið neinar snertingar áður.  Vitnið kveðst síðan hafa farið að ákærða og snúið hann niður, þar sem hann taldi að ákærði myndi ráðast á X.

Kveður vitnið barþjón hafa komið að og hafi hann þá sleppt ákærða, síðan hafi dyraverðir komið og farið með hann.  Vitnið kveðst hafa séð að tvær tennur brotnuðu í munni X.

Vitnið kveður árás ákærða á X hafa verið tilefnislausa og segir að ákærði hafi verið mjög æstur.

Vitnið E skýrir svo frá að hann hafi verið við dyravörslu á Dátanum umrætt kvöld.  Kveðst vitnið ekki hafa séð er ákærði og X voru að kljást, eða þegar X fékk högg á munninn.  Vitnið segir að þegar það kom að hafi ákærði og D verið að slást.  Hafi þeir legið í gólfinu og annar verið ofan á hinum.  Kveðst vitnið hafa skilið þá í sundur.  Kveðst vitnið hafa farið með ákærða út úr salnum, þá hafi komið til þeirra X og spurt ákærða hvort hann væri ekki sá sem hefði lamið sig.  Ákærði hafi sagt svo vera og hafi X þá spurt hvort þeir væru ekki vinir og því hafi ákærði játað.

Vitnið segir að ákærði hafi verið hræddur við félaga X og talið að þeir myndu ráðast á sig.  Hann kveðst því hafa farið með ákærða í eldhúsið og rétt á eftir hafi X komið, en þá hafi lögreglan verið komin og verið farin að ræða við ákærða.  Segir vitnið síðan þá báða, ákærða og X, hafa farið út úr húsinu.

IV.

Í málinu hefur verið lagt fram vottorð Einars Þórs Rafnssonar tannlæknis svohljóðandi:

„X, kt. [...], hefur komið reglulega til okkar frá ungum aldri og var tannheilsa hans því almennt góð.  Þann 17. október s.l. kom hann á stofuna og var skoðaður af undirrituðum, kom þá í ljós að tvær tennur vantaði, eða tennur nr. 31 eða 32.  Þessar tennur höfðu samkvæmt upplýsingum X verið slegnar úr honum kvöldið áður.  Samkvæmt mínu mati er augljóst að hann var sleginn í andlitið, hann var lemstraður, varirnar bólgnar og sárar, tennurnar tvær höfðu fallið úr stæði sínu í heilu lagi, sem er óhugsandi öðru vísi en við þungt högg.“

Vitnið Einar Þór Rafnsson hefur hér fyrir dóminum staðfest vottorð þetta og skýrir svo frá að tennurnar hafi farið í heilu lagi með rótum, en það geti ekki gerst nema við þungt högg.  Vitnið kveðst telja áverkan stóran af tannáverka að vera.

V.

Af framburði vitna má ráða að X hóf afskipti af  ákærða með því að reyna að ná af honum fána er hann var með í greint sinn.  Út af þessu urðu orðahnippingar milli hans og ákærða sem enduðu með því að ákærði veitti honum högg á munninn með þeim afleiðingum að tvær tennur nr. 31. og 32. brotnuðu í heilu lagi úr honum ásamt rótum.  Þykir því brot ákærða nægjanlega sannað eins og því er lýst í ákæru og með vísan til þess að tennurnar duttu úr í heilu lagi með rótum og hversu áverkinn var stór, þykir brotið réttilega vera heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsinu sem hefur áhrif á ákvörðun refsingar í þessu máli.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að 3 árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Svo sem að framan greinir hefur Árni Pálsson hrl. gert skaðabótakröfu úr hendi ákærða fyrir hönd X að fjárhæð kr. 518.750, auk vaxta og lögmannskostnðar.  Af hálfu ákærða er krafist lækkunar á kröfu þessari.

Bótakrafan er byggð á skýrslu F tannlæknis, sem fyrir liggur í málinu og hefur hann staðfest þessa skýrslu og skýrir svo frá hér fyrir dóminum að viðgerð tannanna sé lokið og liggja fyrir reikningar sem eru í samræmi við skýrslu þessa.  Þykir því mega við þessa skýrslu miða og reikningur vegna lögmannsþóknunar þykir hæfilegur eins og krafist er.  Er þá niðurstaða dómsins sú að dæma ber ákærða til greiðslu skaðabóta eins og krafist er.

Að lokum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Guðmundssonar hdl. kr. 90.000.

Uppkvaðning dóms þessa hefur tafist vegna anna dómara.

Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Árni Jens Valgarðsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að 3 árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.

Ákærði greiði X kr. 518.750 með vöxtum samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 38, 2003 frá 16. október 2003 til greiðsludags og kr. 108.937 í lögmannskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl. kr. 90.000.