Hæstiréttur íslands
Mál nr. 566/2014
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Samningur
- Sameignarfélag
- Erlend réttarregla
- Erlendur dómur
- Réttaráhrif dóms
- Vanreifun
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2015. |
|
Nr. 566/2014.
|
Rupal Patel (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunni Gunnarsson (Ólafur Garðarsson hrl.) |
Skaðabótamál. Samningur. Sameignarfélag. Erlend réttarregla. Erlendur dómur. Réttindaáhrif dóms. Vanreifun.
R og H höfðuðu skaðabótamál á hendur G og C fyrir dómstól í Georgíuríki í Bandaríkjunum vegna ætlaðra vanefnda G og C á persónulegum skuldbindingum þeirra samkvæmt munnlegu samkomulagi um þarlent sameignarfélag. Bandaríski dómstóllinn tók kröfur R og H til greina með dómi að undangenginni einfaldri málsmeðferð. Höfðuðu R og H síðar mál á hendur G og C á Íslandi til heimtu dómkrafna þeirra samkvæmt hinum erlenda dómi, eftir að innheimtutilraunir þeirra höfðu ekki borið árangur. Undir meðferð málsins í héraði féll H frá kröfum sínum á hendur G og C sem að virtum atvikum málsins var ekki talið koma að sök. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sú meginregla gilti samkvæmt íslenskum rétti að erlendir dómar hefðu ekki réttaráhrif hér á landi nema svo væri fyrir mælt í lögum. Þar sem svo væri ekki varðandi dóma sem kveðnir væru upp af dómstólum í Bandaríkjunum væru áhrif þeirra takmörkuð þegar leyst væri úr málum sem rekin væru fyrir íslenskum dómstólum. Í dómaframkvæmd hefði einkum verið horft til slíkra dóma við skýringu á bandarískum réttarreglum þegar ljóst væri að þeim reglum bæri að beita um lögskipti aðila sem til úrlausnar væru auk þess sem þeir gætu haft visst sönnunargildi um málsatvik sem um væri deilt. Hæstiréttur dró þá ályktun af 2. tölul. 34. gr. Lúganósamningsins, sbr. lög nr. 7/2011, að erlendur dómur hefði enn takmarkaðri þýðingu en ella væri ef stefnda í málinu hefði ekki gefist kostur á að taka til varna áður en dómurinn var kveðinn upp. Taldi rétturinn að virtri málsmeðferðinni fyrir hinum bandaríska dómstóli umrætt sinn að aðstaðan hefði verið hliðstæð þeirri sem vísað væri til í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn málsins lagði Hæstiréttur til grundvallar tilgreindar niðurstöður bandaríska dómstólsins, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, og taldi að þau G og C hefðu ekki hnekkt þeirri niðurstöðu hans að komist hefði á samkomulag milli R og þeirra um stofnun sameignarfélags um rekstur annars félags og að G og C hefðu þar með skuldbundið sig persónulega til að bera 51% af tapi sameignarfélagsins. Á hinn bóginn taldi rétturinn að niðurstaða bandaríska dómstólsins um skaðabótakröfu R hefði ekki sönnunargildi hér á landi. Um þá kröfu vísaði Hæstiréttur til þess að heildarskuldbindingar bandaríska sameignarfélagsins væru í héraðsstefnu taldar upp í ellefu nánar tilgreindum kröfuliðum og að R héldi því fram að G og C bæru ábyrgð á 51% þeirra. Var þessi málatilbúnaður R talinn svo vanreifaður að ekki yrði dómur á hann lagður og vísaði Hæstiréttur málinu frá héraðsdómi með skírskotun til meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og skýran málatilbúnað af hálfu stefnanda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2014. Hún krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.069.398 bandaríkjadali með vöxtum samkvæmt vaxtalögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum frá 17. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en að því frágengnu að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndu gerðu þá kröfu við meðferð málsins í héraði að því yrði vísað frá dómi. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 22. nóvember 2013, var kröfunni hafnað. Þar sem stefndu hafa ekki gagnáfrýjað málinu fyrir sitt leyti kemur frávísunarkrafa þeirra ekki til álita við úrlausn þess hér fyrir dómi, sbr. 1. og 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það stendur þó ekki í vegi fyrir að málinu verði vísað frá héraðsdómi án kröfu ef málatilbúnaður áfrýjanda gefur tilefni til.
II
Tildrög þessa máls eru þau að stefndu hófu viðskipti við áfrýjanda og eiginmann hennar, Harish Mamtani, öðrum hvorum megin við síðustu aldamót. Árið 2002 hafði Austur-Indíafélagið ehf., sem var í eigu beggja stefndu, eignast 51% hlut og áfrýjandi 49% hlut í Bluefish Trading LLC sem var félag með takmarkaðri ábyrgð eigenda með aðsetur í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Snemma árs 2006 sammæltust stefndu, áfrýjandi og Harish Mamtani um að sækjast eftir láni þar vestra til rekstrar Bluefish Trading LLC, en óumdeilt er að skilyrði fyrir veitingu lánsins hafi verið að fyrirtækið væri eingöngu í eigu bandarískra ríkisborgara.
Að sögn stefndu lagði Harish Mamtani til, í því augnamiði að gera lántökuna mögulega, að áfrýjandi og Bluefish Trading LLC myndu kaupa hlut Austur-Indíafélagins ehf. í félaginu með lánsfénu, en það síðan renna strax aftur til félagsins. Samkvæmt þessu myndi eignarhald á Bluefish Trading LLC eftir sem áður haldast óbreytt. Eftir að hafa ráðfært sig við lögmann sinn í Bandaríkjunum kváðust stefndu hafa hafnað þessari tillögu. Áfrýjandi segir hins vegar að þau Harish Mamtani hafi gert munnlegt samkomulag við stefndu um myndun sameignarfélags sem tæki til rekstrar Bluefish Trading LLC. Skyldu stefndu persónulega fara með 51% hlut í sameignarfélaginu og áfrýjandi 49% hlut. Hvað sem líður þessum ágreiningi aðila liggur fyrir að áfrýjandi keypti formlega 51% hlut Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish Trading LLC, en eftir kaupin var heiti þess breytt í Bluefish Home LLC.
Áfrýjandi heldur því fram að stefndu hafi vanefnt skuldbindingar sínar samkvæmt áðurgreindu samkomulagi um sameignarfélagið, meðal annars með því að leggja ekki fram nægilegt fé af sinni hálfu til rekstrar Blue Home LLC. Í september 2010 höfðuðu áfrýjandi og Harish Mamtani mál gegn stefndu fyrir yfirrétti Cobbsýslu í Georgíuríki og kröfðust skaðabóta úr þeirra hendi vegna vanefndanna. Í kjölfarið var stefndu gefinn kostur á að taka til varna í málinu og lögðu þau fram greinargerð af sinni hálfu í nóvember sama ár þar sem þau mótmæltu kröfum stefnenda, meðal annars með þeim rökum að stefnendur hefðu ekki orðið fyrir neinu tjóni. Í samræmi við réttarfarsreglur Georgíuríkis kröfðust stefndu þess í febrúar 2011 að yfirrétturinn kvæði upp dóm þeim í vil að undangenginni einfaldri málsmeðferð. Því mótmæltu stefnendur í greinargerð sem þau lögðu fram. Þegar fyrir lá, að sögn áfrýjanda, að krafa stefndu um dóm að undangenginni einfaldri málsmeðferð yrði ekki tekin til greina kröfðust stefnendur þess í júní 2011 að dæmt yrði um kröfur sínar, sér í vil, á sama einfalda hátt, auk þess sem þau lögðu fram í málinu greinargerð þar sem því var meðal annars lýst yfir að málsatvik væru í raun óumdeild. Lögmaður stefndu hafði lýst því yfir í tilkynningu til yfirréttarins 1. apríl 2011 að hann hefði hætt afskiptum af málinu, en þrátt fyrir það tilkynntu stefndu réttinum að mætt yrði af þeirra hálfu við fyrirtöku málsins 1. ágúst sama ár. Í þinghaldi þann dag var lögð fram greinargerð stefndu þar sem þau ítrekuðu fyrri kröfu sína um dóm, sér í vil, að undangenginni einfaldri málsmeðferð og tilkynntu jafnframt að þau hefðu ákveðið að láta málið ekki frekar til sín taka af fjárhagslegum ástæðum. Áður höfðu stefnendur, á grundvelli réttarfarsreglna Georgíuríkis, gert kröfu um að stefndu veittu aðgang að nánar tilgreindum gögnum og svöruðu tilteknum spurningum. Féllst yfirrétturinn á þessa kröfu stefnenda með úrskurði 16. ágúst 2011, en stefndu munu ekki hafa orðið við kröfunni.
Yfirréttur í Cobbsýslu kvað upp dóm í málinu 16. ágúst 2011. Í dóminum er gerð grein fyrir helstu málsatvikum og síðan raktar reglur Georgíuríkis um „Summary Judgement“ sem að framan var nefndur dómur að undangenginni einfaldri málsmeðferð. Þar er meðal annars tekið fram að til þess að unnt sé að kveða upp slíkan dóm þurfi sá, sem þess krefst, að sýna fram á að ekki sé eiginlegur ágreiningur um atvik máls. Því næst er tekin afstaða til þess hvort fallist verði á kröfur stefnenda, áfrýjanda og Harish Mamtani, um dóm að undangenginni einfaldri málsmeðferð. Í því sambandi er tekið fram að samkvæmt lögum Georgíuríkis sé ekki áskilið að samningur sé skriflegur, heldur sé munnlegur samningur gildur og megi framfylgja honum að lögum. Eftir lögum Georgíuríkis sé sameignarfélag samkomulag á milli tveggja eða fleiri einstaklinga („persons“) sem leggja af mörkum fé, eignir eða kunnáttu sína til sameiginlegs rekstrar eða framtaks til sameiginlegra hagsbóta þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu og deila hagnaði og bera tap í ákveðnum hlutföllum. Til sameignarfélags megi stofna hvort sem er með skriflegum eða munnlegum samningi. Vilji samningsaðila sé hinn sanni prófsteinn á hvort um sameignarfélag sé að ræða, en einnig þurfi að líta til annarra atriða við úrlausn um það. Í dóminum er því síðan slegið föstu að ótvírætt sé sannað að í apríl 2006 hafi áfrýjandi og stefndu komist að samkomulagi um stofnun sameignarfélags sem myndi fást við heildsöluverslun með húsgögn og að sameignarfélagið stundaði viðskipti sín gegnum Bluefish Home LLC. Hafi stefndu átt 51% hlutdeild í sameignarfélaginu á móti 49% hlutdeild áfrýjanda og hafi aðilar samið svo um að þeir tækju þátt í hagnaði og tapi í sömu hlutföllum. Það sé ótvírætt sannað að stefndu hafi brotið gegn samkomulaginu um sameignarfélagið með því að leggja ekki fram fé til félagsins á móti fjárframlögum áfrýjanda og eiginmanns hennar og því brugðist þeirri skyldu sinni að standa undir 51% af tapi félagsins. Þegar stefndu hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar hafi áfrýjandi orðið að standa skil á hlutdeild þeirra í tapinu og þar með orðið fyrir tjóni sem nemi 1.234.066 bandaríkjadölum og svari til 51% af heildartapi á rekstri sameignarfélagins. Í samræmi við þessa niðurstöðu var stefndu gert að greiða áfrýjanda skaðabætur sem námu sömu fjárhæð og að framan greinir að viðbættum vöxtum. Jafnframt var þeim gert að greiða Harish Mamtani 679.081 dal í skaðabætur auk vaxta. Loks voru stefndu dæmd til að greiða stefnendum 25.195,44 dali í málskostnað.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi leituðu áfrýjandi og eiginmaður hennar atbeina lögmanns til að innheimta dómkröfurnar hér á landi. Eftir að innheimtubréf hafði verið sent fóru þau fram á að eignir stefndu yrðu kyrrsettar, til tryggingar kröfunum, en féllu síðar frá þeirri beiðni. Í framhaldinu freistuðu þau hjónin þess að fá bú stefndu tekin til gjaldþrotaskipta. Þegar það bar ekki árangur höfðuðu áfrýjandi og Harish Mamtani mál þetta á hendur stefndu 23. nóvember 2012 og kröfðust þess að þau greiddu sér 1.069.398 bandaríkjadali auk vaxta frá 17. ágúst 2011 til greiðsludags. Í þinghaldi 27. september 2013 lýsti lögmaður stefnenda því yfir að Harish Mamtani hefði fallið frá kröfum sínum á hendur stefndu.
III
Krafa áfrýjanda á hendur stefndu er sem áður greinir reist á því að á árinu 2006 hafi hún og stefndu stofnað sameignarfélag um viðskipti, sem þau höfðu áður stundað gegnum Bluefish Trading LLC, síðar Bluefish Home LLC. Með stofnun sameignarfélagsins hafi málsaðilar tekið á sig persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað hafi verið til í viðskiptum Bluefish Home LLC og þeirri starfsemi sem fólst í sameignarfélaginu. Krafa áfrýjanda er byggð á því að stefndu eigi að standa henni skil á 51% af þeim skuldbindingum sem sameignarfélagið hafi tekið á sig og stofnað til og ekki hafi verið unnt að greiða með eignum Bluefish Home LLC eða gera upp með öðrum hætti. Krafa áfrýjanda sé skaðabótakrafa vegna brota stefndu á þeim skuldbindingum sem þau hafi tekist á hendur með stofnun sameignarfélagsins.
Áfrýjandi vísar til þess að skaðabótakrafa sín á hendur stefndu hafi verið staðfest með fyrrgreindum dómi yfirréttar Cobbsýslu í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Samkvæmt íslenskum rétti beri að leggja hinn bandaríska dóm til grundvallar um sönnun á þarlendum réttarreglum og hvernig þær verði skýrðar. Einnig sé íslenskum dómstólum almennt skylt að taka mið af niðurstöðum erlendra dómstóla um sönnun á atvikum máls og grundvöll krafna sem þeir hafi staðfest með dómum sínum.
Sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að erlendir dómar hafa ekki réttaráhrif hér á landi nema svo sé fyrir mælt í lögum, svo sem lögum nr. 30/1932 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra, og lögum nr. 7/2011 um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Þar sem íslensk lög kveða ekki á um að dómar, sem kveðnir eru upp af dómstólum í Bandaríkjunum, skuli hafa tiltekin réttaráhrif hér á landi eru áhrif þeirra takmörkuð þegar leyst er úr málum sem hér eru rekin. Í dómaframkvæmd hefur einkum verið horft til slíkra dóma við skýringu á bandarískum réttarreglum þegar ljóst er að þeim reglum beri að beita um lögskipti aðila, sem til úrlausnar eru, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 25. október 1977 í máli nr. 111/1975 sem birtur er í dómasafni 1977, bls. 1048, auk þess sem þeir geta haft visst sönnunargildi um málsatvik sem um er deilt.
Samkvæmt 2. tölulið 34. gr. áðurgreinds Lúganósamnings skal dómur ekki viðurkenndur ef hann er útivistardómur og varnaraðila var ekki birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega og með þeim hætti að hann gæti undirbúið vörn sína. Af þessu ákvæði verður dregin sú ályktun að erlendur dómur hafi enn takmarkaðri þýðingu en ella væri ef stefnda hefur ekki gefist kostur á að taka til varna áður en dómurinn var upp kveðinn. Í máli því sem áfrýjandi og eiginmaður hennar höfðuðu gegn stefndu fyrir yfirrétti Cobbsýslu tóku þau síðarnefndu til varna í upphafi þótt þingsókn hafi síðar fallið niður af þeirra hendi. Aðstaðan var því hliðstæð þeirri, sem vísað er til í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, en samkvæmt síðari málslið þeirrar málsgreinar skal þegar svo háttar til dæma mál eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn stefnanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
Ekki verður séð að málsaðila greini á um að hinn bandaríski dómstóll hafi haft lögsögu til að dæma í máli því sem hér um ræðir. Þá verður heldur ekki um það deilt að um starfsemi félagsins Bluefish Trading LLC, síðar Bluefish Home LLC, giltu bandarísk lög, þar á meðal lög Georgíuríkis, og sama átti við um stofnun og starfsemi sameignarfélags þess sem áfrýjandi kveður að sammæli hafi orðið um með aðilum að setja á stofn og starfrækja um rekstur fyrrnefnda félagsins. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar við úrlausn þessa máls sú niðurstaða bandaríska dómstólsins að samkvæmt lögum Georgíuríkis sé sameignarfélag samkomulag á milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem deila hagnaði af rekstri félagsins og bera tap þess í ákveðnum hlutföllum. Einnig að til slíks félags megi stofna hvort sem er með skriflegum eða munnlegum samningi. Þar sem „person“ merkir í bandarísku lagamáli maður af holdi og blóði, nema annað sé tekið fram, verður að líta svo á þar til annað hefur sannast, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, að með því að vísað er til þess í dóminum að sameignarfélag sé samkomulag tveggja eða fleiri „persons“ geti lögaðilar á borð við hlutafélög eða einkahlutafélög ekki átt aðild að slíku félagi samkvæmt lögum Georgíuríkis.
Eins og áður greinir taldi bandaríski dómstóllinn sannað með skírskotun til þeirra sönnunargagna, sem fyrir hann höfðu verið lögð, að komist hafi á bindandi samkomulag milli áfrýjanda og stefndu um sameignarfélag um rekstur Bluefish Home LLC þar sem hlutdeild stefndu hafi verið 51% og áfrýjanda 49%. Af hálfu stefndu var því lýst yfir hér fyrir dómi að eftir að áfrýjandi keypti hlut Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish Trading LLC, síðar Bluefish Home LLC, hafi ætlun stefndu verið að reka félagið áfram í samstarfi við áfrýjanda og eiginmann hennar án þess þó að þau tækjust á hendur persónulega ábyrgð á skuldbindingum þess. Á hinn bóginn hafi slitnað upp úr því samstarfi. Þegar þetta er virt og í ljósi þess sem áður sagði að ganga verður út frá því að einstaklingar einir geti átt aðild að sameignarfélagi samkvæmt lögum Georgíuríkis verður talið að stefndu hafi ekki hnekkt fyrrgreindri niðurstöðu hins bandaríska dómstóls um að komist hafi á samkomulag milli áfrýjanda og stefndu um stofnun sameignarfélags um rekstur Bluefish Home LLC og hin síðarnefndu þar með skuldbundið sig persónulega til að bera 51% af tapi sameignarfélagsins.
Við meðferð málsins fyrir yfirrétti Cobbsýslu mótmæltu stefndu sem fyrr segir skaðabótakröfu áfrýjanda, meðal annars með þeim rökum að hún hefði ekki orðið fyrir neinu fjárhagstjóni vegna samstarfs síns eða viðskipta við stefndu. Þrátt fyrir þetta tók dómstóllinn skaðabótakröfu áfrýjanda til greina, að því er virðist á grundvelli staðhæfinga hennar um umfang þess tjóns sem hún kvaðst hafa beðið, án þess að eiginleg sönnunarfærsla ætti sér stað fyrir dómi. Samkvæmt því sem áður sagði um réttaráhrif erlendra dóma hér landi hefur hinn bandaríski dómur af þeim sökum ekkert sönnunargildi um þetta atriði.
IV
Eins og áður greinir kröfðust áfrýjandi og eiginmaður hennar þess í stefnu til héraðsdóms að stefndu greiddu þeim 1.069.398 bandaríkjadali ásamt vöxtum. Var krafan reist á dómkröfum beggja stefnenda samkvæmt dómi yfirréttar Cobbsýslu, en krafa eiginmannsins gegn stefndu var í raun 51% af þeirri kröfu sem hann taldi sig eiga á hendur sameignarfélagi þeirra og áfrýjanda og því innifalin í þeirri kröfu sem áfrýjandi hafði uppi á hendur þeim. Að teknu tilliti til þessa kemur það ekki að sök við úrlausn þessa máls þótt eiginmaðurinn hafi fallið frá kröfu á hendur stefndu fyrir sitt leyti.
Samkvæmt framansögðu er krafa áfrýjanda byggð á því að stefndu sé skylt að standa henni skil á 51% af skuldbindingum sameignarfélagsins er hún verði að öðrum kosti að greiða sem eini skráði eigandi þess. Í héraðsdómsstefnu eru heildarskuldbindingar félagsins sagðar vera 2.431.771 bandaríkjadalur og hlutur stefndu af þeim, 51%, 1.444.203 dalir. Frá þeirri upphæð eru dregnir 400.000 dalir, sem hafi verið framlag stefndu til rekstrar Bluefish Home LLC, án þess að frekari grein sé gerð fyrir því. Við upphæðina er bætt 25.195 dölum, sem var dæmdur málskostnaður samkvæmt dómi yfirréttar Cobbsýslu, og er þannig fundin stefnufjárhæðin, 1.069.398 dalir.
Heildarskuldbindingar sameignarfélagsins eru taldar upp í stefnunni í ellefu kröfuliðum. Fyrsti liðurinn er sögð vera skuld að fjárhæð 303.530 bandaríkjadalir vegna áðurnefnds láns sem tekið var árið 2006 til rekstrar Bluefish Home LLC. Samkvæmt samningi 16. apríl 2010, sem lagður hefur verið fram í málinu, er heimilt að greiða umrætt lán upp með fjárhæð sem er miklum mun lægri en framangreind skuld. Áfrýjandi heldur því fram að verði skuldin gerð upp á þann hátt muni lánstraust hennar skerðast verulega vegna skráningar í vanskilaskrá. Sú staðhæfing styðst þó ekki við neitt af því sem fram er komið í málinu. Annar kröfuliðurinn er sögð skuld að fjárhæð 250.000 dalir samkvæmt skuldabréfi og hefur ljósrit af því verið lagt fram hér fyrir dómi, undirritað af eiginmanni áfrýjanda fyrir hönd lántakans, Bluefish Capital LLC. Skuldabréfið er tryggt með veði í eignum Bluefish Home LLC og hefur áfrýjandi jafnframt ritað undir bréfið fyrir hönd þess félags. Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram um að andvirði láns samkvæmt þessu bréfi hafi gengið til síðarnefnda félagsins eða verið greitt af því eða áfrýjanda. Þriðja kröfuliðnum að fjárhæð 94.596 dalir er lýst sem yfirdrætti sem Bluefish Home LLC hafi haft hjá Bank of America og áfrýjandi og eiginmaður hennar hafi borið persónulega ábyrgð á. Þessi liður hefur ekki verið skýrður frekar og engin gögn lögð fram honum til stuðnings. Sama á við um fimmta kröfuliðinn, 265.024 dali, sem sögð eru framlög áfrýjanda til Bluefish Home LLC sem skuldfærð hafi verið á greiðslukort hennar.
Fjórða kröfuliðnum, 711.879 bandaríkjadölum, og þeim sjötta, 104.574 dölum, er lýst sem framlögum til Bluefish Home LLC frá félagi í eigu eiginmanns áfrýjanda, Bluefish Capital LLC, án þess að frekari skýringar séu gefnar á þeim, aðrar en þær að síðarnefnda upphæðin hafi verið skuldfærð á greiðslukort umrædds félags. Engin gögn hafa heldur verið lögð fram um þessi framlög. Sama á við um sjöunda kröfuliðinn, 199.428 dali, sem sögð eru framlög frá öðru fyrirtæki í eigu eiginmannsins, Link Capital Partners. Sú skýring er gefin á áttunda kröfuliðnum, 17.961 dal, að um hafi verið að ræða kostnað við opnun heildsölunnar Global Living, sem verið hafi í eigu Bluefish Home LLC, og hafi hann verið greiddur af Link Capital Partners. Engin gögn hafa verið lögð fram um þessi útgjöld.
Níundi kröfuliðurinn, 149.658 bandaríkjadalir, eru sögð vera ógreidd laun eiginmanns áfrýjanda fyrir vinnu í þágu Bluefish Home LLC, án þess að því sé frekar lýst í hverju vinnan hafi verið fólgin, hvenær hún hafi verið af hendi leyst og hvort launanna sé krafist á grundvelli framlagðra vinnustunda og þá hver launataxtinn hafi verið. Sama á við um tíunda kröfuliðinn, 480.518 dali, sem eru sögð ógreidd laun áfrýjanda fyrir vinnu í þágu félagsins. Loks er ellefta liðnum, 70.603 dölum, lýst sem kostnaði við rekstur bifreiðar í þágu Bluefish Home LLC, en eina skýringin sem gefin er á honum er að samkomulag hafi verið milli málsaðila að áfrýjandi fengi greidda 400 dali á mánuði fyrir rekstur bifreiðarinnar. Það dugar þó skammt til að skýra þá fjárhæð sem krafist er samkvæmt þessum lið.
Stefndu halda því fram að eignir Bluefish Home LLC, þar með taldar vörubirgðir þess, hafi verið seldar til fyrirtækisins Four Hands í Austin í Texasríki 19. maí 2010 og því beri að draga söluandvirðið frá kröfu áfrýjanda á hendur þeim. Við flutning málsins hér fyrir dómi var viðurkennt af hálfu áfrýjanda að eignirnar hafi verið seldar, en sagt að andvirðið hafi aðeins nægt til að greiða áhvílandi veðskuldir á þeim. Áfrýjandi hefur hins vegar hvorki upplýst hvert söluverðið hafi verið né hvaða fjárhæðum umræddar skuldir hafi numið.
Þegar allt framangreint er virt er krafa áfrýjanda á hendur stefndu svo vanreifuð að ekki verður dómur á hana lagður. Með skírskotun til meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og skýran málatilbúnað af hendi stefnanda, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, verður af þeim sökum að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, Rupal Patel, greiði stefndu, Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunni Gunnarsson, hvoru um sig 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Rupal Patel og Harish Mamtani, 1357 Woodcutt Place, Marietta, GA 30062, Bandaríkjunum, á hendur Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunni Gunnarsson, báðum til heimilis að Vatnsstíg 15, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 23. nóvember 2012.
Við aðalmeðferð málsins féll Harish Mamtani frá kröfum sínum á hendur stefndu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd til greiðslu 1.069.398 Bandaríkjadala að viðbættum vöxtum frá 17. ágúst 2011 til greiðsludags, samkvæmt vaxtalögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir, að málsaðilar voru í viðskiptasambandi allt frá árinu 2000. Árið 2002 urðu upphaflegir stefnendur, Rupal Patel og Harish Mamtani, og Austur-Indíafélagið ehf., þá í eigu stefndu, eigendur bandaríska félagsins Bluefish Home LLC (áður East India Distributing LLC og Bluefish Trading LLC). Austur-Indíafélagið ehf. fór með 51% eignarhlut en stefnendur 49% eignarhlut. Frá árinu 2000 hafa stefnandi, Rupal, og Harish fjárfest í og gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir félagið.
Snemma árs 2006 ákváðu stefnandi, Rupal, ásamt Harish og stefndu, að sækja um lán í Bandaríkjunum, svokallað „Small Business Administration“ lán, til að fjármagna rekstur Bluefish. Stefnandi kveður reglur Georgíuríkis um slík lán kveða á um vissar takmarkanir sem varði eignarhald erlendra aðila og slíkar takmarkanir hafi tekið til eignarhluta Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish. Stefnandi, ásamt Harish, og stefndu hafi því gert með sér munnlegt samkomulag um að stefndu myndu tímabundið afsala sér eignarrétti sínum í Bluefish á meðan skilmálar lánsins væru í gildi, en eignarhald stefndu hafi staðið í vegi fyrir umræddu láni til Bluefish. Samkomulagið hafi þó gert ráð fyrir að stefndu myndu þrátt fyrir allt halda áfram að eiga fjárhagslega hagsmuni í rekstri Bluefish og bera ábyrgð á skuldbindingum þess. Nánar tiltekið hafi munnlegt samkomulag orðið með aðilum í apríl 2006 um myndun sameignarfélags sem tæki til rekstrar Bluefish, þar sem stefndu skyldu persónulega fara saman með 51% hlutdeild og stefnandi, ásamt Harish, með 49% hlutdeild. Jafnframt hafi aðilar samþykkt að sameignarfélagið myndi reka starfsemi sína í gegnum rekstur Bluefish. Í samræmi við samkomulagið hafi stefnandi síðan eignast eignarhlut Austur-Indíafélagsins ehf. í Bluefish, í þeim tilgangi að mögulegt væri að fá lánveitinguna. Í kjölfarið hafi Bluefish fengið lánið.
Samkvæmt munnlegum skilmálum sameignarfélagsins skyldu aðilar eiga tilkall til hagnaðar og bera ábyrgð á tapi sameignarfélagsins í hlutfalli við framangreinda eignarhlutdeild. Stefnandi kveður að jafnframt hafi verið samið svo um að aðilar skyldu endurgreiða hvor öðrum það viðbótarfjármagn sem þeir myndu leggja fram til sameignarfélagsins, allt í hlutfalli við eignarhlut hvers um sig. Tilgangur sameignarfélagsins hafi verið að auka sameiginlega hagsmuni jafnt stefnanda og Harish Mamtami, sem og stefndu. Aðilar myndu jafnframt leggja sitt af mörkum til stuðnings rekstri Bluefish. Samkvæmt stefnanda málsins hafi þeir Harish í kjölfarið lagt út verulegt fjármagn til sameignarfélagsins vegna rekstrar Bluefish í góðri trú um að stefndu myndu standa við skuldbindingar sínar um að endurgreiða viðbótarfjárframlög í samræmi við hlutfallslega eign sína. Þrátt fyrir áskoranir stefnanda um að stefndu legðu fjármuni til rekstursins, líkt og skilmálar sameignarfélagsins hafi gert ráð fyrir, vegna taprekstrar og fjárframlags stefnanda, hafi stefndu ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart honum og Harish.
Vegna þessa hafi stefnandi, ásamt Harish, neyðst til að höfða mál fyrir dómstólum Georgíuríkis í Bandaríkjunum til innheimtu á kröfum sínum. Felldi yfirréttur Cobb-sýslu í Georgíuríki dóm í málinu 16. ágúst 2011, og var stefndu gert að greiða stefnendum málsins skaðabætur að fjárhæð 1.234.066 Bandaríkjadali, auk lögfræðikostnaðar að fjárhæð 25.195 Bandaríkjadali, ásamt vöxtum samkvæmt lögum Georgíuríkis. Þessi fjárhæð hafi síðan lækkað töluvert, meðal annars vegna þess að stefnandi, ásamt Harish, hafi samið við kröfuhafa um ákveðna kröfuliði til lækkunar.
Í kjölfarið leitaði stefnandi atbeina lögmanns við innheimtu framangreindrar dómkröfu á Íslandi og var bréf þess efnis sent stefndu 27. október 2011, þar sem skorað var á stefndu að greiða kröfuna. Stefndu greiddu ekki kröfuna og í framhaldi af því lagði stefnandi fram beiðni um kyrrsetningu hjá sýslumanninum í Reykjavík, 29. nóvember 2011, en féllu síðan frá þeirri beiðni.
Hinn 31. desember 2011 sendi stefnandi áskorun til stefndu þess efnis að þau lýstu því skriflega yfir, innan þriggja vikna frá móttöku áskorunar, að þeim væri fært innan skamms tíma að greiða kröfuna. Með bréfi stefndu, 30. desember 2001, var kröfunni hafnað. Í kjölfarið kröfðust stefnandi og Harish gjaldþrotaskipta á búum stefndu, með vísan til 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, en með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur var þeim kröfum hafnað.
III
Stefnandi, Rupal Patel, byggir kröfu sína á sönnunargildi hins erlenda dóms. Stefnandi eigi lögmæta og gilda kröfu á hendur stefndu samkvæmt erlendum dómi, sem kveði á um greiðsluskyldu stefndu. Um sé að ræða lögvarða kröfu samkvæmt lögum Georgíuríkis, Bandaríkjunum, sem stefnandi hafi lögmætar væntingar til að verði greidd. Sú lögvarða krafa, sem styðjist við erlendan dóm, komi til vegna þess að í gildi hafi verið munnlegur samningur milli aðila um að stefndu gæfu eftir eignarhlutdeild sína í Bluefish. Bluefish hafi í kjölfarið verið rekið í gegnum sameignarfélag í eigu aðila. Hafi það verið munnlegir skilmálar sameignarfélagsins að aðilar skyldu eiga tilkall til hagnaðar og bera ábyrgð á tapi sameignarfélagsins í hlutfalli við eignarhlutdeild þeirra. Jafnframt hafi verið munnlegt samkomulag milli aðila samkvæmt skilmálum sameignarfélagsins að aðilar skyldu endurgreiða hver öðrum það viðbótarfjármagn sem þeir myndu leggja fram til sameignarfélagsins vegna reksturs Bluefish, allt í hlutfalli við eignarhlut hvers um sig. Stefnandi hafi síðan lagt fram verulegt fjármagn til rekstrar Bluefish, vegna erfiðra rekstraraðstæðna í kjölfar alþjóðlegrar efnahagskreppu síðari hluta árs 2008, í góðri trú um að stefndu myndu standa við skuldbindingar sínar. Stefndu hafi hins vegar ekki staðið við skuldbindingar um endurgreiðslu á viðbótarfjárframlagi í samræmi við hlutfallslega eign sína. Í rökstuddri niðurstöðu hins erlenda dóms megi sjá að um sé að ræða brot á samkomulagi samkvæmt lögum Georgíuríkis, sem síðan hafi leitt til niðurstöðu dómsins um greiðsluskyldu stefndu.
Í skjölum málsins megi sjá að málsaðilar hafi árið 2006 rætt áform sín um eftirgjöf eignarhluta stefndu í Bluefish vegna bandaríska lánsins, sem og að stefndi Gunnar hafi sérstaklega óskað eftir því við Harish Mamtani að hlutföllum í drögum að skriflegu samþykki um sameignarfélag vegna reksturs Bluefish yrði breytt í 51% á móti 49% í stað helmingaskipta. Þá megi og sjá af skjölum málsins að stefndu hafi árið 2008 viðurkennt að aðilar gerðu með sér samkomulag um að báðir væru helmings eigendur sameignarfélags um rekstur Bluefish. Þessi samskipti aðila árið 2008 sýni með óyggjandi hætti að munnlegt samkomulag hafi verið í gildi milli aðila málsins um fyrrgreint sameignarfélag. Það mikla traust sem stefnandi og Harish hafi borið til stefndu, sem og munnlegar yfirlýsingar stefndu á tímabilinu, hafi leitt til þess að skriflegt samkomulag hafi aldrei verið undirritað.
Ljóst sé, að sú leið sem hafi verið farin, að gefa eftir eignarhlutdeild stefndu, hafi verið gerð í því augnamiði að geta tekið bandarískt lán árið 2006. Stefndu hafi í kjölfarið verið mjög virk í rekstri Bluefish. Hafi aðilar rætt hin ýmsu smáatriði varðandi rekstur Bluefish ásamt því að skipta með sér verkum. Stefndu hafi verið eins virk í rekstri félagsins og ætla megi af eigendum félags, sem þau hafi og verið samkvæmt hinu munnlega samkomulagi um sameignarfélagið. Hafi það fyrirkomulag eignarhalds félagsins verið forsenda rekstrar þess á nefndu tímabili og aðilar gert sér grein fyrir því. Þá megi og sjá af gögnum málsins að stefndu hafi komið fram gagnvart þriðja aðila eins og eigendur Bluefish á umræddu tímabili. Til að mynda megi sjá í blaðagrein að stefnda, Chandrika, hafi verið titluð eigandi Bluefish og sögð skipuleggja kynningu fyrir mögulega fjárfesta. Jafnframt sé stefndi, Gunnar, sagður ræða við mögulega fjárfesta fyrir hönd Bluefish. Þá sé í skjölum málsins yfirlýsing starfsmanns auglýsingaskrifstofu hér á landi, sem stefndi, Gunnar, hafi haft samskipti við sem eigandi Bluefish árin 2006 til 2008. Á grundvelli þessara sönnunargagna hafi hinn bandaríski dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að í gildi væri munnlegt samkomulag milli aðila um sameignarfélag vegna reksturs Bluefish, sem ekki hafi verið virt af stefndu og leiddi til greiðsluskyldu þeirra.
Stefnandi telur að líta verði til forsendna og niðurstöðu hins bandaríska dómstóls við sönnun á lögmæti kröfunnar og viðeigandi beitingu erlendra laga. Það sé almenn meginregla íslensks réttar að dómstólar hér á landi leggi til grundvallar úrlausnum sínum, í málum sem varði erlenda dóma, að hinn erlendi dómstóll hafi beitt viðeigandi réttarreglum sem beita beri samkvæmt íslenskum lagaskilareglum, að réttarreglum hafi verið réttilega beitt og að sönnunarmat erlenda dómstólsins sé rétt. Þannig fari endurskoðun ekki fram á framangreindum atriðum nema því aðeins að málsaðilar beri verulegar brigður á hinn erlenda dóm að þessu leyti ásamt því að sanna staðhæfingar þess efnis. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skuli sá sem beri fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist hennar í ljós. Hinn erlendi dómur sé að mati stefnanda ítarlegt sönnunargang um staðreyndir, efni erlendra réttarreglna og viðeigandi beitingu þeirra. Enn fremur sé ljóst að dómurinn kveði á um réttindi og skyldur aðila máls samkvæmt lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum. Sönnunarbyrði fyrir annarri niðurstöðu en fram komi í hinum erlenda dómi hvíli alfarið á herðum stefndu.
Stefnandi kveður fjárhæð dómkröfu sinnar á hendur stefndu grundvallast á því að stefndu hafi verið gert að greiða stefnanda tilteknar skaðabætur samkvæmt dómi yfirréttar Cobb-sýslu í Georgíuríki vegna samningsbrota stefndu á samkomulagi aðila, auk lögfræðikostnaðar, ásamt vöxtum. Krafa samkvæmt dómsorði hins erlenda dóms hafi lækkað töluvert, meðal annars vegna þess að stefnendur hafi samið við kröfuhafa um ákveðna kröfuliði til lækkunar. Því sé stuðst við lægri fjárhæð í kröfugerð þessari en dæmd hafi verið í hinum erlenda dómi.
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi annars vegar brotið gegn fyrrgreindu samkomulagi sínu við stefnendur með því að standa ekki skil á skuldbindingum Bluefish í samræmi við hlutfallslega eign sína. Stefnandi, ásamt Harish, hafi því orðið að standa skil á hlut stefndu sem valdið hafi þeim tjóni að verðmæti 51% af fjárhæð þessara tilteknu krafna.
Hins vegar hafi stefndu brotið gegn samkomulagi sínu við stefnanda og Harish með því að endurgreiða þeim ekki það viðbótarfjármagn sem þeir hafi lagt til rekstrar Bluefish, í þeirri trú að stefndu myndu virða samkomulagið og endurgreiða framlagið í hlutfalli við eign sína. Af gögnum málsins megi sjá þær fjárhæðir þeirra skuldbindingar sem stefnandi og Harish hafi gengist undir fyrir hönd Bluefish, fjárhæðir þeirra greiðslna sem þeir hafi innt af hendi, sem og fullyrðingar stefndu um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulagi aðila.
Stefndu hafi neitað að endurgreiða stefnanda og Harish það fjármagn sem þeir hafi lagt af mörkum, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, og innheimta kröfunnar á Íslandi, í kjölfar hins bandaríska dóms, hafi ekki tekist.
Stefnandi kveður tjón sitt vegna ótvíræðs brots stefndu á skuldbindingum sínum vera að fjárhæð 1.044.203 Bandaríkjadalir og er fjárhæðin sundurliðuð svo í stefnu:
|
1. |
CIT rekstrarlán |
303.530 Bandaríkjadalir |
|
2. |
Skuldabréf útgefið til Deepak Raghavan |
34.000 Bandaríkjadalir |
|
3. |
Persónulegar ábyrgðir stefnenda vegna yfirdráttarláns í Bank of America |
94.596 Bandaríkjadalir |
|
4. |
Framlög Harish Mamtani úr sjóðum Bluefish Capital til Bluefish |
711.879 Bandaríkjadalir |
|
5. |
Framlög skuldfærð á greiðslukort Rupal Patel |
265.024 Bandaríkjadalir |
|
6. |
Útgjöld Bluefish skuldfærð á greiðslukort Bluefish Capital |
104.574 Bandaríkjadalir |
|
7. |
Færsla fjármagns frá Link Capital Partners til Bluefish |
199.428 Bandaríkjadalir |
|
8. |
Kostnaður við opnun Global Living skuldfærð á Link Capital Partners |
17.961 Bandaríkjadalur
|
|
9. |
Ógreidd laun Harish Mamtani eftir að stefndu yfirgáfu rekstur Bluefish |
149.658 Bandaríkjadalir |
|
10. |
Ógreidd laun til Rupal Patel samkvæmt samkomulagi aðila |
480.518 Bandaríkjadalir |
|
11. |
Kostnaður við rekstur bifreiðar í eigu Rupal í þágu reksturs Bluefish samkvæmt samkomulagi aðila |
70.603 Bandaríkjadalir |
Kröfu stefnanda vegna 1. liðar í sundurliðun kveður hann vera vegna rekstrarláns sem Bluefish hafi fengið í kringum 1. apríl 2006. Vegna rekstrarerfiðleika Bluefish hafi stefnandi, ásamt Harish, komist að samkomulagi um uppgjör lánsins við kröfuhafa vegna persónulegra ábyrgða þeirra. Þetta hafi verið gert í kringum 10. apríl 2010. Höfuðstóll lánsins hafi á þeim tíma verið 303.529 Bandaríkjadalir og krafan í fullu gildi. Hins vegar hafi verið gert það samkomulag milli kröfuhafans og stefnanda að ef þau Harish greiddu 74.580 Bandaríkjadali ásamt vöxtum fyrir 1. maí 2015 myndi kröfuhafinn ekki nýta sér vanefndarúrræði lánasamkomulagsins. Þessu samkomulagi fylgi hins vegar persónulegar takmarkanir á lánveitingu frá hinu opinbera ásamt því að stefnandi og Harish séu báðir á vanskilaskrá. Með því að greiða lánið að fullu losni þeir undan þeim takmörkunum. Þar sem krafan sé að fullu greidd gagnvart stefnanda, og því fylgi verulegar persónulegar takmarkanir að greiða aðeins uppgjörsfjárhæð, sé krafist nefndrar fjárhæðar svo honum sé mögulegt að efna skuldbindingar sínar gagnvart kröfuhafa að fullu og losna undan nefndum takmörkunum.
Kröfu vegna 2. liðs í sundurliðun kveður stefnandi vera vegna rekstrarláns frá Deepak Raghaven sem Bluefish hafi fengið í kringum 1. ágúst 2006 og þau Harish hafi verið í persónulegum ábyrgðum fyrir.
Krafa samkvæmt 3. lið sundurliðunar sé vegna yfirdráttar sem Bluefish hafi haft hjá Bank of America sem þau Harish hafi verið í persónulegum ábyrgðum fyrir.
Liður 4 sé vegna greiðslna frá ráðgjafafyrirtækinu, Bluefish Capital, sem sé í eigu Harish Mamtani, til Bluefish vegna skorts Bluefish á lausafé. Nánar tiltekið sé um að ræða greiðslur frá viðskiptavinum ráðgjafafyrirtækisins fyrir vinnu þess en stílaðar á Bluefish í þeim tilgangi að mögulegt væri fyrir Bluefish að nýta fjármagnið til eigin nota. Stefndu hafi samþykkt þessa tilhögun.
Liður 5 sé vegna fjárframlaga stefnanda af persónulegu greiðslukorti hans vegna skorts Bluefish á lausafé frá árinu 2000 allt þar til Bluefish hafi verið selt.
Liður 6 sé vegna greiðslu ráðgjafafyrirtækis Harish á útgjöldum Bluefish með greiðslukortum hans, vegna skorts á lausafé, frá 19. nóvember 2005 allt til sölu félagsins. Stefndu hafi samþykkt þessa tilhögun.
Liður 7 sé vegna fjárframlaga Link Capital Partners, fjárfestingarfyrirtæki í eigu Harish, sem lagt hafi fé til Bluefish vegna skorts á lausafé.
Liður 8 sé vegna kostnaðar við opnun heildsölunnar Global Living, sem hafi verið í eigu Bluefish. Kostnaður þessi hafi verið greiddur af fjárfestingarfyrirtæki Harish og hafi tilgangur heildsölunnar verið að útvega lausafé með því að selja vörulager.
Liður 9 sé vegna ógreiddra launa Harish fyrir vinnu hans í þágu Bluefish frá mars 2008 þar til félagið hafi verið selt. Þetta komi til vegna þess að stefndu hafi dregið sig út úr rekstrinum og vinnuframlag Harish þá orðið meira en ella.
Liður 10 sé vegna ógreiddra launa stefnanda sem framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 2002 til 2010. Aðilar hafi samið um að bíða með launagreiðslur til stefnanda vegna skorts Bluefish á lausafé.
Liður 11 sé vegna kostnaðar við notkun á persónulegri bifreið stefnanda og Harish í þágu Bluefish. Aðilar hafi samið um að stefnandi fengi 400 Bandaríkjadali greidda á mánuði fyrir rekstur bifreiðarinnar.
Framangreindar fjárhæðir séu samtals 2.431.771 Bandaríkjadalur sem sé heildartala skuldbindingar félagsins sem stefnandi, ásamt Harish, hafi greitt fyrir, sem og fjármagn og/eða vinna sem þau hafi lagt fram til félagsins. Stefndu hafi á fyrrgreindu tímabili lagt fram 400.000 Bandaríkjadali til reksturs félagsins. Heildarframlag aðila hafi því verið 2.831.771 Bandaríkjadalur.
Í stefnu er gerð eftirfarandi grein fyrir útreikningi á heildarskuld stefndu. Miðað er við samkomulag um að þau beri ábyrgð á 51% af framangreindri heildarfjárhæð og framlag þeirra dregið frá:
|
|
Framlag: |
Framlag í samræmi við eignarhlutdeild: |
|
Stefnandi, ásamt Harish: |
2.431.771 Bandaríkjadalur |
1.387.568 Bandaríkjadalir (49%) |
|
|
Ofgreitt af stefnanda, ásamt Harish: |
2.431.771 1.387.568 = 1.044.203 Bandaríkjadalir |
|
Stefndu: |
400.000 Bandaríkjadalir |
1.444.203 Bandaríkjadalir (51%) |
|
|
Skuld stefndu: |
400.000 1.444.203 = - 1.044.203 Bandaríkjadalir |
Skuld stefndu við stefnanda og Harish sé því 1.044.203 Bandaríkjadalir. Við þessa fjárhæð bætist síðan 25.195 Bandaríkjadalir sem sé sá málskostnaður sem yfirréttur Cobb-sýslu í Georgíuríki hafi dæmt stefnendum í vil.
Þá krefst stefnandi áfallinna vaxta af höfuðstól kröfunnar sem séu 1.069.398 Bandaríkjadalir. Vaxtanna sé krafist frá uppkvaðningu dómsins í yfirrétti Cobb-sýslu, 17. ágúst 2011, til greiðsludags, samkvæmt lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum. Vaxtahlutfall á dómkröfum þar hafi verið óbreytt, 6,25% á ársgrundvelli miðað við 360 daga frá því dómur gekk í því máli sem varðar umræddar kröfur á hendur stefndu, sbr. framlögð skjöl um vexti sem gildi um dómkröfuna og vaxtastig sem notast sé við, útgefið af Seðlabanka Bandaríkjanna.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 2. mgr. 44. gr. laganna. Stefnandi byggir kröfur sínar jafnframt á lögum Georgíuríkis í Bandaríkjunum.
IV
Stefndu byggja kröfu sína um sýknu, sem og kröfu um verulega lækkun á fjárhæð dómkrafna, í fyrsta lagi á því að Bluefish LLC hafi verið hlutafélag sem eigendur hafi borið takmarkaða ábyrgð á. Skráð heiti félagsins hafi verið Bluefish LLC og standi LLC fyrir „Limited Liability Company“, sem á íslensku þýði félag með takmarkaðri ábyrgð. Félagið hafi ávallt verið hlutafélag sem hluthafar hafi ekki borið persónulega ábyrgð á. Fjárhagsleg ábyrgð eigenda Bluefish vegna reksturs félagsins hafi takmarkast við hlutafé hvers og eins hluthafa. Fullyrðingum stefnanda um að Bluefish hafi verið rekið í gegnum sameignarfélag í eigu aðila sé því mótmælt sem tilhæfulausum. Rekstur félagsins hafi verið í samræmi við samþykktir Bluefish LLC og opinbera skráningu. Af fullyrðingum stefnanda verði það helst ráðið að hið meinta sameignarfélag hafi í raun verið sama félag og Bluefish LLC.
Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnandi, ásamt Harish, hafi ekki samþykkt persónulega ábyrgð vegna skuldbindinga. Stefndu hafna öllum fullyrðingum stefnanda um að aðilar hafi gert munnlegt eða skriflegt samkomulag þar að lútandi. Þvert á móti hafi stefndu hafnað öllum slíkum umleitunum stefnanda í maí 2006. Lögmaður stefnanda hafi lagt það formlega til, 4. maí 2006, að stefndu undirrituðu ýmis skjöl, sem hafi meðal annars falið í sér persónulega ábyrgðaryfirlýsingu stefndu vegna allra útgjalda í þágu Bluefish, sbr. framlagðan tölvupóst lögmannsins ásamt viðhengjum. Stefndi, Gunnar, hafi svarað þessum umleitunum sex dögum síðar á þann veg að hann skyldi lesa yfir gögnin og reyna að skilja þau. Í kjölfarið hafi borist svar frá Harish, sem kvaðst samþykkja tillögur eigin lögmanns. Stuttu síðar hafi stefndu neitað, munnlega, að rita undir persónulega yfirlýsingu um ábyrgð enda hefðu þau með því tekið á sig mun þyngri byrðar en áður vegna reksturs Bluefish. Stefndi, Gunnari, hafi ritað lögmanni sínum tölvupóst stuttu síðar og lýst áhyggjum sínum vegna þess hve tillögurnar hafi verið hagstæðar stefnendum á kostnað stefndu. Lögmaður stefndu hafi sent bréf 21. júlí 2006 og hafnað tillögum stefnanda. Þess í stað hafi verið stungið upp á því að Austur Indíafélagið ehf. gæti borið ábyrgð með þeim hætti sem lagt hafi verið til að stefndu skyldu gera. Gögn málsins sanni það að stefndu hafi beinlínis neitað umleitunum stefnenda um persónulegar ábyrgðir, bæði formlega og munnlega, sem og með athöfnum sínum. Fjölmörg atriði renni stoðum undir framangreint, til að mynda framlögð tölvupóstsamskipti frá 24. mars 2008. Í þeim segi Mike Harmon, fjármálaráðgjafi stefnanda og Bluefish, að Harish gæti viljað nýta sér gildandi lánalínu til nýrra viðskipta en hann vilji ekki vera eini aðilinn sem ábyrgist þágildandi lán, sér í lagi, hafi staðið til að hækka yfirdráttinn til að auka viðskiptin. Framangreind samskipti, frá því um tveimur árum eftir meint samkomulag aðila um sameiginlega fjárhagslega ábyrgð, gefi það ótvírætt til kynna að Harish hafi litið svo á að hann væri sá sem ábyrgðin á þágildandi lánum lenti á. Framlögð tölvupóstsamskipti frá 26. mars 2008 bendi til hins sama enda höfðu stefndu þá þegar hafnað því formlega, með skriflegum og munnlegum hætti, að semja um sameiginlegar ábyrgðir vegna skuldbindinga og fjárfestinga í þágu Bluefish. Þá hafi stefndu enga ástæðu haft til þess að gangast í persónulegar ábyrgðir vegna reksturs Bluefish. Aðkoma þeirra að rekstri félagsins hafi ávallt verið í gegnum Austur Indíafélagið ehf. Ábyrgð þeirra vegna rekstrarins hafi því verið takmörkuð, bæði sökum þess að Bluefish hafi verið hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð og vegna þess að eigandi þess hafi ávallt verið Austur Indíafélagið ehf. en ekki stefndu persónulega. Staðhæfingar stefnanda um persónulegar ábyrgðir stefndu séu því ósennilegri fyrir vikið. Því sé jafnframt mótmælt að eignarhlutur í fyrirtæki bendi til þess að eigandi hlutarins vilji að sama skapi vera í fjárhagslegum ábyrgðum vegna félagsins í réttu hlutfalli við eign sína. Slíkar fullyrðingar séu órökréttar. Eðli málsins samkvæmt kjósi eigendur félags með takmarkaða ábyrgð slíkt rekstrarfyrirkomulag einmitt vegna takmarkaðrar ábyrgðar vegna rekstursins. Ekkert samhengi eða samræmi sé á milli þess að eiga helmingshlut í fyrirtæki og bera helming allra skulda sem rekstur þess kunni að leiða af sér.
Í þriðja lagi byggja stefndu á því að fullyrðingar stefnanda um persónulega ábyrgð stefndu séu ósannar og ósannaðar. Sem fyrr greini hafi stefndu hafnað umleitunum stefnanda um persónulega ábyrgð stefndu á skuldbindingum félagsins Bluefish. Fullyrðingar stefnanda um hið gagnstæða séu ósannar og stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á réttmæti fullyrðinga stefnanda. Þvert á móti sýni gögn málsins það að stefndu hafi hafnað formlegri beiðni stefnanda um persónulega ábyrgð. Ólíklegt sé að svo miklir hagsmunir, sem deilt sé um í þessu máli, hefðu verið tryggðir með munnlegu samkomulagi einu saman, enda hafi það ekki verið raunin, sbr. framangreinda umfjöllun. Það sé enn fremur ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki í það minnsta kannað hvort stefndu hafi verið gjaldfær um greiðslu tæplega 1.1 milljóna Bandaríkjadala. Málatilbúnaður stefnanda bendi eindregið til þess að stefnandi reyni nú að takmarka eigið tjón vegna óarðbærra fjárfestinga sinna. Staðreyndin sé sú að stefnandi hafi aldrei reynt að krefja stefndu um fé vegna Bluefish fyrr en þeim hafi verið ljóst að fjárfestingar þeirra í félaginu myndu ekki skila hagnaði. Útskýringar og fullyrðingar stefnanda á samskiptum málsaðila virðist því alfarið fundnar til eftir á. Dómurinn sem hafi gengið í yfirrétti Cobb-sýslu árið 2011 hafi ekkert gildi og sé ekki aðfararhæfur hér á landi. Stefndu hafi ekki haldið uppi vörnum fyrir dómstólnum og því hafi verið kveðinn upp útivistardómur á grundvelli einhliða framburðar stefnanda. Dómurinn hafi því heldur ekkert gildi sem sönnunargagn um samskipti aðila eða skuldbindingar þeirra. Þar sem dómurinn sé aðeins byggður á málatilbúnaði stefnanda geti hann aðeins haft þýðingu sem sönnunargagn í málinu, að því leyti sem yfirlýsingar stefnanda, sem gefnar hafi verið fyrir dómstólnum, séu stefnanda sjálfum í óhag.
Vildi svo til að fallist yrði á það með stefnanda að munnlegt samkomulag hefði komist á, beri stefnandi eftir sem áður sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þeim toga sem greini í stefnu. Gögn málsins sýni ekki fram á að stefnandi eigi þær kröfur á hendur stefndu sem hann fullyrðir. Jafnframt megi benda á að í framlögðu bréfi frá Mike Harmon, fjármálaráðgjafa sem hafi starfað fyrir Bluefish og stefnanda, til allra aðila málsins, dagsett 24. mars 2008, segi meðal annars að Harish telji að hann geti komið birgðum í verð á einhverjum tíma í gegnum smásöluverslun til að greiða til baka allar bankaskuldir, skuldir vina hans og eiga einhvern afgang til að greiða eigendum hluta af þeirra fjárfestingu. Af bréfinu sé ljóst að á svipuðum tíma og stefndu hafi horfið frá rekstri félagsins hafi nægar eignir verið á lager til þess að greiða allar skuldbindingar félagsins við banka, auk afgangs. Stefndu hafi aldrei fengið í sinn hlut neina fjármuni vegna sölu lagersins. Ágóði sölunnar hafi því runnið til stefnanda og Harish. Ljóst sé því að stefnandi geti ekki haldið því fram að hann eigi kröfu á hendur stefndu um greiðslu skaðabóta vegna samningsrofs um sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum, enda hafi stefnandi sjálfur tekið til sín næga fjármuni úr félaginu til að gera upp slíkar skuldbindingar sínar. Þvert á móti beri gögn málsins með sér að stefndu eigi kröfu á hendur stefnanda. Loks skuli bent á að stefnandi sé ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna upphæða sem koma fram í kröfuliðum 4, 6, 7 og 8, enda sé þar tiltekinn kostnaður sem hafi verið borinn af öðrum en stefnanda. Stefnandi sé því ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna nefndra kröfuliða og því ber að sýkna stefndu um greiðslur þeirra.
Í fjórða lagi byggja stefndu á því að samkvæmt stefnu séu kröfur stefnanda, að hans eigin sögn, að rekja til ábyrgða sem hafi fallið á stefnanda árið 2006, til útlagðs kostnaðar í þágu Bluefish, allt frá árinu 2000, greiðslukortagreiðslna allt frá 2005, fjárfestinga þriðja aðila í félaginu, sem frekari upplýsingar skorti um, fjárframlaga stefnanda til félagsins og yfirdráttarláns, sem einnig skorti upplýsingar um, og til launakostnaðar frá 2008. Óljóst sé hvenær þorri þeirra krafna, sem myndi dómkröfu stefnanda, hafi fallið á gjalddaga. Þó sé ljóst að meiri hluti þeirra hafi fallið til fyrir mun lengri tíman fjórum árum áður en málshöfðun hafi hafist á hendur stefndu. Með vísan til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem og til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, byggi stefndu á því að þær kröfur sem stefnandi gæti mögulega átt á hendur þeim hafi fyrnst áður en fyrningarfrestur hafi verið rofinn með málshöfðun. Erfitt sé fyrir stefndu að byggja varnir sínar með nákvæmari hætti, á grundvelli þessarar málsástæðu, enda engar upplýsingar að finna í stefnu málsins um gjalddaga krafnanna.
Stefndu byggja í fimmta lagi á því að kröfur stefnanda séu niður fallnar sökum tómlætis, sem hann hafi sýnt af sér við að halda fram kröfum sínum. Sem fyrr greini standi dómkrafa stefnanda saman af kröfuliðum sem nái allt aftur til ársins 2000. Stefnanda hafi borið ótvíræð skylda til þess að halda uppi kröfum sínum fyrr en raun hafi verið enda ljóst að stefndu hafi hafnað með öllu umleitunum um persónulegar ábyrgðir strax árið 2006.
Í sjötta lagi byggja stefndu á því að kröfur stefnanda eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og að upphæðir þeirra séu rangar. Stefnanda beri að sýna fram á réttmæti upphæða krafna sinna. Til að mynda megi benda á að launakröfur og kröfur um rekstrarkostnað bifreiða séu í engu samræmi við raunveruleikann og virðist algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þá hafi nær engar upplýsingar verið veittar um aðra kröfuliði stefnanda og sé þeim öllum mótmælt sem röngum og of háum. Í þessu samhengi sé ítrekuð sú málsástæða stefndu að stefnandi sé ekki réttur aðili til að krefjast greiðslu vegna kostnaðar sem að hans eigin sögn sé kominn til vegna kröfuliða 4, 6, 7 og 8 í stefnu. Að auki sé vísað til þess að sönnun skorti fyrir upphæð krafna stefnanda. Eignir Bluefish hafi verið seldar en engir fjármunir greiddir stefndu í kjölfar sölunnar. Ljóst sé að kröfur stefnanda munu ávallt þurfa að miðast við ágóða hans af sölu þeirra eigna og kröfur á hendur stefndu lækka til samræmis við gagnkröfur stefndu. Kröfur stefnanda sem kæmu til skuldajafnaðar hafi verið tilgreindar í framlögðu bréfi, sendu Bluefish 11. apríl 2008, og hafi á þeim tíma numið 847.766 Bandaríkjadölum, auk áfallinna dráttarvaxta. Í fyrrgreindum tölvupósti frá Harish hafi það verið staðfest að stefndu hafi lagt félaginu til 400.000 Bandaríkjadali. Til viðbótar framangreindri fjárhæð eigi stefndu kröfu um skuldajöfnuð vegna vinnu sinnar í þágu Bluefish áður en Harish hafi tekið við rekstri félagsins. Í ljósi þess að stefnandi og Harish virðist reikna sér laun sem nemi um 630.000 Bandaríkjadölum fyrir tveggja til þriggja ára vinnu, áskilji stefndu sér rétt til sams konar launa og krefjast skuldajafnaðar launakrafna sinna við kröfur stefnanda.
Til viðbótar við allt sem að framan greinir mótmæla stefndu öllum fullyrðingum stefnanda, sem ekki hafi verið sérstaklega vikið að, sem röngum og ósönnuðum.
Um lagarök vísa stefndu einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, meðal annars um samþykki og höfnun tilboða og skuldbindingargildi samninga. Einnig er byggt á almennum reglum íslensks réttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Byggt er á ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, meginreglum kröfuréttarins og ákvæðum laga um lausafjárkaup sem varða skuldajöfnuð. Einnig byggja stefndu á reglum kröfuréttarins um brottfall krafna vegna tómlætis.
V
Í máli þessu er deilt um fjárkröfu stefnanda, Rupal Patel, á hendur stefndu, Gunnari Gunnarssyni og Chandriku Gunnarsson, sem nánar er sundurliðuð í stefnu málsins. Upphaflega var fyrrgreindur Harish Mamtani einnig stefnandi í málinu en hann féll frá kröfum sínum í þinghaldi 27. september 2013. Kröfugerðin var áður óskipt og standa dómkröfur stefnanda eftir óbreyttar á hendur stefndu.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sker dómari úr því hverju sinni, eftir mati á þeim gögnum sem fram hafi komið í máli, hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þeim efnum. Líta verður svo á að þrátt fyrir að hinn erlendi dómur geti verið til sönnunar um erlenda réttarreglu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, þá verði dómari að meta það sjálfstætt hvort sýnt hafi verið fram á það í þessu máli, með fullnægjandi hætti, að atvik þau sem stefnandi tefli fram, teljist sönnuð.
Krafa stefnanda er sundurliðuð í 11 liði í stefnu. Stefnandi virðist byggja á því að stefndu séu greiðsluskyld vegna sameignarfélags aðila, samkvæmt lögum Georgíufylkis í Bandaríkjunum. Í málinu er hins vegar ekkert það fram komið sem sýnir fram á að stefndu hafi samþykkt að taka á sig persónulega ábyrgð á ofangreindum skuldbindingum, sem stefnandi ásamt áðurnefndum Harish Mamtani kveða vera skuldir sameignarfélagsins, en ekki liggur fyrir í málinu hverjar eru nettóskuldir hins meinta sameignarfélags aðila.
Sé tekið mið af framangreindri sundurliðun fjárkröfu stefnanda, eins og hún kemur fram í stefnu málsins, má sjá að kröfuliðir 4 og 6-9 eru vegna fjárframlaga Harish úr sjóðum Bluefish Capital, skuldfærslu af greiðslukorti Bluefish Capital, færslu fjármagns og skuldfærslu frá Link Capital Partners og vinnuframlags Harish. Af sundurliðun stefnanda sjálfs á fjárkröfum sínum verður ekki annað ráðið en að hann sé ekki réttur kröfuhafi hvað varðar kröfuliði 4 og 6-9. Þvert á móti má ætla að réttir kröfuhafar séu ýmist Harish Mamtani, Bluefish Capital, sem er í eigu Harish, eða Link Capital Partners, einnig í eigu Harish. Þá er hvergi vikið að því í stefnu málsins á hvaða grundvelli stefnandi telji sig eiga aðild hvað framangreinda kröfuliði varðar og ekki færð fyrir því rök eða sýnt fram á með öðrum hætti að sameignarfélagið eigi kröfurnar. Virðist málatilbúnaður stefnanda reyndar byggjast á því að hinn erlendi dómur Georgíufylkis í Bandaríkjunum sé fullnægjandi sönnun um greiðsluskyldu stefndu. Það mál var höfðað á hendur stefndu af stefnanda þessa máls og Harish Mamtani sameiginlega en eins og fram hefur komið hefur Harish fallið frá kröfum sínum í þessu máli.
Kröfuliður 1, að fjárhæð 303.530 Bandaríkjadalir, er vegna CIT rekstrarláns. Fram kemur að fjárhæð kröfunnar sé miðuð við stöðu lánsins við samkomulag um uppgjör þess 16. apríl 2010, sem þá var 303.529 Bandaríkjadalir. Framlagt samkomulag er milli Bluefish Homes, LLC, Harish Mamtani og stefnanda, Rupal Patel, annars vegar og CIT Small Business Lending Corporation annars vegar. Kemur þar fram að eftirstöðvar skuldar samkvæmt lánssamningi milli þeirra aðila séu 303.529,88 Bandaríkjadalir og áfallnir vextir 6.891,05 Bandaríkjadalir. Stefndu eru ekki aðilar að þessu samkomulagi. Stefnandi byggir greiðsluskyldu stefndu á því að munnlegt samkomulag hafi komist á milli hans og Harish annars vegar og stefndu hins vegar um að stefndu færu með 51% eignarhlut í Bluefish Homes, LLC, og að stefndu bæru persónulega fjárhagslega ábyrgð í samræmi við þau hlutföll. Krafan um greiðslu 303.530 Bandaríkjadala á grundvelli CIT lánsins virðist hins vegar ekki vera krafa um endurgreiðslu fjárhæðar sem stefnandi hafi þegar lagt út eða skaðabætur í samræmi við fjárútlát hans heldur krafa um að stefndu greiði fyrirfram eftirstöðvar lánsins sem þó hefur ekki fallið í gjalddaga, samkvæmt framlögðu samkomulagi.
Þá tekst stefnanda ekki, hvorki með umfjöllun í stefnu né framlögðum gögnum, að sýna fram á kröfur sínar samkvæmt kröfuliðum 2, 3, 5, 10 og 11. Undirritað frumrit skuldabréfs, samkvæmt kröfulið 2, er ekki lagt fram en samkvæmt framlögðu skjali var lán veitt til Bluefish Capital, LLC, að fjárhæð 250.000 Bandaríkjadalir. Stefnandi leggur ekkert frekar fram um stöðu lánsins samkvæmt skuldabréfinu eða hvað hann sjálfur hafi greitt af láni samkvæmt því. Þá eru engin gögn lögð fram um yfirdráttarlánið eða persónulega ábyrgð stefnanda samkvæmt kröfulið 3 né heldur um skuldfærslur af greiðslukorti samkvæmt kröfulið 5. Engin gögn eru heldur lögð fram um ógreidd laun til stefnanda, unna tíma eða um samkomulag aðila um launagreiðslur til hans, sbr. kröfulið 10. Sama á við um kröfulið 11 en stefnandi leggur ekkert fram því til sönnunar að samkomulag hafi verið með aðilum um að hann fengi greidda 400 Bandaríkjadali á mánuði fyrir rekstur bifreiðar sinnar. Hvað varðar kröfuliði nr. 2,3,5,10 og 11 kemur hinn erlendi dómur Georgíufylkis ekki heldur að gagni þar sem í honum er ekki fjallað um sönnun fyrir einstökum kröfuliðum.
Í ljósi alls framangreinds hefur stefnanda ekki tekist að sanna að hann eigi hinar umdeildu kröfur og verða stefndu því sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefndu in solidum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Gunnar Gunnarsson og Chandrika Gunnarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Rupal Patel.
Stefnandi greiði stefndu in solidum 600.000 krónur í málskostnað.