Hæstiréttur íslands
Mál nr. 458/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Öryggisgæsla
|
|
Þriðjudaginn 16. desember 2003. |
|
Nr. 458/2003. |
Dómsmálaráðherra (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn A (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Öryggisgæsla.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta breyttri öryggisgæslu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar fyrir hönd sóknaraðila með kæru 14. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. nóvember 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila, skipaðs tilsjónarmanns X, um að hann sætti breyttri öryggisgæslu, en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2002 var honum gert að sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðila um lausn X úr öryggisgæslu að hluta verði hafnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. nóvember 2003.
Sóknaraðili í máli þessu, X, gerir þær kröfur að honum verði veitt lausn að hluta úr öryggisgæslu þeirri sem hann var dæmdur til að sæta með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2002, þannig að honum verið heimiluð dvöl utan sjúkrastofnana án fylgdar tvo daga tvisvar sinnum í mánuði í þrjá mánuði. Að þeim tíma liðnum verði sóknaraðila heimiluð dvöl utan sjúkrastofnana án fylgdar í eina viku í senn, tvisvar sinnum í mánuði, teljist hann hæfur til þess að mati yfirlæknis Réttargeðdeildarinnar að Sogni.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og að málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili, dómsmálaráðherra, krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila. Framkominni málskostnaðarkröfu er hins vegar ekki mótmælt.
Dómsformaður tók við máli þessu 2. september sl. Krafa sóknaraðila barst dóminum með bréfi lögmanns hans, dagsettu 11. júní 2003. Með bréfi þáverandi dómsformanns, dagsettu 1. júlí sl., var þess óskað að Magnús Skúlason, yfirlæknir á Réttargeðdeildinni að Sogni, skilaði skriflegri umsögn til dómsins í samræmi við ákvæði 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sú ósk var ítrekuð með bréfi dagsettu 7. október sl. Umsögn yfirlæknis barst dóminum með bréfi dagsettu 20. október sl. Með bréfi yfirlæknisins fylgdi einnig umsögn Drífu Eysteinsdóttur deildarstjóra og Hrafnhildar Guðmundsdóttur aðstoðardeildarstjóra. Þá hefur dómnum borist umsögn Víðis Hafbergs Kristinssonar sálfræðings, dagsett 10. ágúst 2003. Málið var þingfest 15. ágúst sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. október sl.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 17. maí 2003 var sóknaraðila gert að sæta öryggisgæslu. Samkvæmt dóminum var talið sannað að sóknaraðili hefði banað B [..]
[...]
Álit dómsins
[...]
Fagaðilar á réttargeðdeildinni hafa eindregið og með rökstuddum hætti mælt með því að sóknaraðili hljóti rýmkun á öryggisgæslu þeirri er hann sætir. Þeir eru samdóma um að umhverfinu stafi ekki hætta af sóknaraðila þótt létt verði nokkuð á gæslunni og nefna sérstaklega í því sambandi að hann hafi verið einkennalaus og sé meðferðarfús. Sóknaraðili hefur alloft meðan hann hefur sætt öryggisgæslu heimsótt fjölskyldu sína í fylgd gæslumanns. Það er samdóma álit sérfræðinga á Sogni að þær heimsóknir hafi gengið mjög vel og samstarf við foreldra og fjölskyldu hans hafi gengið vel.
Í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að ákveða megi í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til varnar því að háski verði að manni sem hefur verið sýknaður samkvæmt ákvæðum 16 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákvæðinu segir að ef ætla má að vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, komi ekki að notum megi ákveða að honum sé komið fyrir á viðeigandi hæli. Dómstólar geta samkvæmt framangreindu ákveðið vægari úrræði en algjöra öryggisgæslu, þótt þau úrræði séu ekki tæmandi talin í 62. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Slík úrræði eða rýmkun á öryggisgæslu ber að ákveða svo skýrt sem verða má, þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja úrræðunum sem kostur er og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta.
Af því sem rakið hefur verið þykir mega ákveða að sóknaraðili skuli sæta breyttri öryggisgæslu. Skal öryggisgæslan verða í höndum Réttargeðdeildarinnar að Sogni og á ábyrgð yfirlæknis deildarinnar. Öryggisgæslunni skal hagað þannig að sóknaraðili dveljist áfram að Sogni og hljóti þar áframhaldandi meðferð, en að honum verði heimilt næstu þrjá mánuði að dvelja hjá fjölskyldu sinni utan Sogns án fylgdar tvo daga í senn tvisvar sinnum í mánuði. Að þeim tíma liðnum er yfirlækni að Sogni, eftir mat á geðhöfn og stöðugleika sóknaraðila, heimilt að ákveða að sóknaraðili megi dvelji hjá fjölskyldu sinni utan Sogns án fylgdar eina viku í senn tvisvar sinnum í mánuði, þó þannig að sóknaraðili dvelji ávallt á réttargeðdeildinni hið minnsta 10 daga í senn á milli leyfa. Um jól og áramót er yfirlækni þó heimilt að hafa þann tíma skemmri enda gæti hann sérstakrar aðgæslu í mati sínu. Af hálfu réttargeðdeildarinnar skulu aðstæður á þeim stað sem sóknaraðili dvelst á hverju sinni kannaðar áður en hann yfirgefur Sogn. Starfsfólk réttargeðdeildarinnar skal hafa daglega (sím)samband við sóknaraðila meðan hann dvelur utan stofnunarinnar. Noti sóknaraðili áfengi eða önnur vímuefni í leyfum sínum frá Sogni ber tafarlaust að afturkalla þau.
Málskostnaður skal falla niður.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 6. október 2003, fékk sóknaraðili gjafsóknarleyfi vegna máls þessa. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði þar með talinn þóknun lögmanns sóknaraðila sem er ákveðin 150.000 krónur og 11.683 krónur í útlagðan kostnað.
Úrskurðinn kveður upp Ragnheiður Thorlacius, settur héraðsdómari, ásamt Ingveldi Einarsdóttur, settum dómstjóra og Kristni Tómassyni, geðlækni.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðili, X, sæti breyttri öryggisgæslu samkvæmt framansögðu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, 150.000 krónur og 11.683 krónur í útlagðan kostnað, greiðist úr ríkissjóði.