Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


                 

Föstudaginn 29. febrúar 2008.

Nr. 87/2008.

Anna Kandler Pálsson

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

Hildi Helgu Sigurðardóttur og

Ólafi Páli Sigurðssyni

(Ragnar H. Hall hrl.)

 

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Málið var að ósk A fellt niður fyrir Hæstarétti og H og Ó dæmdur kærumálskostnaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2008, en hann gekk í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt V. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að fá hnekkt þeirri ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2007 að synja beiðni varnaraðila um að leggja lögbann við nánar tilgreindum athöfnum sóknaraðila. Með úrskurðinum var hafnað kröfu sóknaraðila um að henni yrði heimilað að leiða nafngreint vitni fyrir dóm í málinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Upphaflega krafðist sóknaraðili þess að skýrslutaka af vitninu yrði heimiluð. Þá krafðist hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar kröfðust staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með bréfi 28. febrúar 2008 óskaði sóknaraðili eftir að málið yrði fellt niður en varnaraðilar ítrekuðu kröfu sína um kærumálskostnað með bréfi sama dag.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. og 4. mgr. 150. gr., er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Í samræmi við 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað sem ákveðinn verður til hvors þeirra um sig eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Sóknaraðili, Anna Kandler Pálsson, greiði varnaraðilum, Hildi Helgu Sigurðardóttur og Ólafi Páli Sigurðssyni, hvoru um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2008.

  Í máli þessu krefjast sóknaraðilar, Hildur Helga Sigurðardóttir og Ólafur Páll Sigurðs­son þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2007 í lög­banns­gerð nr. L-23/2007 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann verði felld úr gildi, og að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík, gegn tryggingu sem hann metur nægi­lega úr hendi sóknaraðila, að leggja lögbann við því að varnaraðili ráðstafi með samn­ingum efri hæð fasteignarinnar nr. 13 við Hólavallagötu í Reykjavík (eignarhluta 0201). Þá er krafist málskostnaðar.

  Varnaraðili, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara, að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2007 í lögbannsgerð nr. L-23/2007 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann, verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar.

  Af hálfu varnaraðila er þess krafist að vitnið Jón Ólafsson hrl. gefi skýrslu við aðal­meðferð málsins. Þá er krafist málskostnaðar. Lögmaður sóknaraðila mótmælir kröf­unni. Krafan var tekin til úrskurðar 21. janúar sl.

  Mál þetta varðar þá ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2007 að synja kröfu sóknaraðila um lögbann við því að varnaraðili ráðstafi með samningum efri hæð fasteignarinnar nr. 13 við Hólavallagötu.

  Kröfuna um lögbann byggja sóknaraðilar á erfðaskrá hjónanna Jens Ólafs Páls Péturssonar, sem lést 17. apríl 2002, og Önnu Elisabeth Antonia Kandler, varnaraðila máls þessa. Í erfðaskránni er kveðið á um að eftir andlát þess hjónanna sem lengur lifir skuli  fasteignin að Hólavallagötu 13 í Reykjavík, ásamt innbúi, skiptast jafnt á milli systkin­anna Hildar Helgu Sigurðardóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar, sóknaraðila máls þessa. Telja sóknaraðilar að fyrirætlan Önnu Elisabeth um sölu eignarinnar fari í bága við rétt þeirra samkvæmt erfðaskránni.

  Varnaraðili byggir á að bann 1. mgr. 90. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, sem hér gildir, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., sé ekki fortakslaust. Meta þurfi hverju sinni hvort vitnaskýrslur séu nauð­syn­legar. Mál þetta varði þau mikilvægu réttindi varnaraðila að geta ráðstafað eignum sínum með samningum. Það sé varnaraðila því afar mikilvægt að vitnið Jón Ólafsson hrl., sem samdi erfðaskrána, gefi skýrslu í málinu. Vitnisburður hans sé nauðsynlegur í því skyni að sanna að fyrirætlan hjónanna með erfðaskránni hafi fyrst og fremst verið að tryggja hag þess langlífara. En einnig til að sanna að það hafi ekki verið ætlan hjón­anna að svipta hið langlífara ráðstöfunarrétti yfir eignum sínum búsins. Aldrei hafi staðið til að sóknaraðilar gætu byggt traust á erfðaskránni. Hvað þá að þau gætu komið í veg fyrir að eigninni yrði ráðstafað. Varnaraðila beri því nauðsyn til að fá notið undanþágu 1. mgr. 90. gr. aðfararlaga til að leiða vitnið í málinu.

  Sóknaraðili byggir á að mál þetta snúist um hvort skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni séu uppfyllt. Það hvað vitni kunna að geta upplýst skipti ekki máli í því sambandi. Mál þetta snúist ekki um arfleiðsluviljann heldur hvort sókn­ar­aðilar eigi rétt á að fá sett lögbann það sem þau krefjast.

  Bann 1. mgr. 90. gr. aðfararlaga við öflun vitnaskýrslna eigi stoð í því viðhorfi, að ætlast sé til þess að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar, að þær þarfnist ekki stuðnings af slíkum sönnunargögnum. Ef vafi sé á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda beri að hafna henni. Undanþága ákvæðisins geti ekki átt við í máli þessu.

Niðurstaða

  Samkvæmt 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann taka ákvæði 86-91. gr. laga um aðför nr. 90/1989 til meðferðar mála fyrir Héraðsdómi til úrlausnar ágrein­ings um undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er kveðið á um að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt 14. kafla laganna.

  Lýtur ágreiningur aðila að því hvort að skilyrði séu fyrir hendi til að varnaraðili geti fengið notið undanþágu 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 94. gr. sömu laga, til að leiða í málinu vitni.

  Samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 má leggja lögbann við byrjaðri eða yfir­vofandi athöfn, sem raskar eða raska myndi rétti gerðarbeiðanda með ólögmætum hætti. Það er þannig skilyrði lögbanns að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að at­höfn gerðarþola brjóti eða muni brjóta gegn rétti hans.

  Bann 1. mgr. 90. gr. aðfararlaga, sem svarar efnislega til fyrirmæla í niðurlagi 1. mgr. 83. gr. laganna, við öflun vitnaskýrslna og matsgerða, á stoð í því viðhorfi, að við aðför eigi málsstaður gerðarbeiðanda að vera svo skýr og afdráttarlaus, að hann þarfn­ist ekki stuðnings slíkra gagna. Ef vafi er um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda verður héraðsdómari að telja varhugavert að láta gerð ná fram að ganga og hafna kröfum gerðarbeiðanda eins og beinlínis er kveðið á um í 1. mgr. 83. gr.

  Heimild tilvitnaðra ákvæða til að víkja frá banni við sönnunarfærslu ber eftir venju að skýra þröngt. Telja verður að slíkt gæti til dæmis átt við ef miklir hagsmunir eru í húfi eða stórfelld réttarspjöll geta hlotist af því ef neitað er um gerð, vegna þess að vitneskju vantar sem afla má með vitnaskýrslum.

  Samkvæmt því, og þar sem varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á að ástæður þær er hún færir fram fyrir sönnunarfærslunni geti réttlætt að vikið verði frá þeirri almennu reglu sem fram kemur í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, sbr. 34. gr. laga nr. 31/1990, um að vitni verði ekki leidd í málinu, verður ekki hjá því komist að hafna kröfu varnaraðila.

  Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                                               Úrskurðarorð:

   Hafnað er kröfu varnaraðila, Önnu Elisabeth Antonia Kandler, um að Jón Ólafs­son hrl. gefi skýrslu fyrir dóminum sem vitni við aðalmeðferð málsins.