Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Gagnkrafa
  • Ómerking
  • Heimvísun


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 437/2011.

Landsbanki Íslands hf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

gegn

Rekstrarlausnum ehf.

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gagnkrafa. Ómerking. Heimvísun.

L hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem gagnkröfum hans á hendur R ehf. var vísað frá dómi vegna vanreifunar. R ehf. hafði lýst kröfum við slit L hf. um að viðurkennd yrði skaðabótakrafa hans á hendur L hf. auk þess sem hann krafðist þess að fá ótakmarkaðan aðgang að tilgreindum bankareikningi með tiltekinni innstæðu. Fyrri kröfunni lýsti hann sem almennri kröfu en þeirri seinni sem sértökukröfu. L hf. lagði fram greinargerð í þinghaldi 25. febrúar 2011 og hafði m.a. uppi gagnkröfu um að R ehf. greiddi honum tiltekna fjárhæð með dráttarvöxtum. Kvað hann gagnkröfuna vera tilkomna vegna skuldar R ehf. við sig samkvæmt afleiðusamningi sem í gildi hefði verið milli þeirra. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að héraðsdómi hefði borið samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 að gefa R ehf. kost á að skila stuttu skriflegu svari við gagnkröfum L hf. Þetta hefði héraðsdómur látið undir höfuð leggjast og ekki kæmi fram í endurritum þinghalda í málinu að bókað hefðu verið andsvör R ehf. við kröfunni. Ómerkti því Hæstiréttur hinn kærða úrskurð og málsmeðferðina frá þinghaldi 25. febrúar 2011 og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2011, þar sem gagnkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst ómerkingar þess hluta hins kærða úrskurðar þar sem vísað var frá dómi gagnkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila, og að ,,þeim hluta málsins [verði] vísað heim í hérað til efnismeðferðar.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili lýsti kröfum við slit sóknaraðila um að viðurkennd yrði skaðabótakrafa sín á hendur sóknaraðila að fjárhæð 1.139.085 krónur, auk þess sem hann krafðist þess að fá ,,ótakmarkaðan aðgang að“ tilgreindum bankareikningi sínum ,,með innstæðu kr. 2.511.830,- hinn 28. október 2008.“ Fyrri kröfunni lýsti hann sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, en seinni kröfunni sem sértökukröfu, sbr. 109. gr. sömu laga. Skaðabótakrafa varnaraðila er að hans sögn til orðin vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir við rýrnun á því fé, er hann átti í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK. Sértökukrafan sé á hinn bóginn vegna innstæðu, sem hann eigi á bankareikningi en á þann reikning hafi andvirði hlutdeildarskírteina sem hann hafi átt í Peningamarkaðssjóðnum verið lagt.

Sóknaraðili lagði fram greinargerð í þinghaldi 25. febrúar 2011. Þar krafðist hann þess að hafnað yrði ,,öllum kröfum“ varnaraðila. Auk þess hafði hann uppi gagnkröfu, aðallega þá að varnaraðili greiddi honum 2.645.693 krónur auk dráttarvaxta frá 24. nóvember 2008 en til vara 1.095.295 krónur auk dráttarvaxta frá 21. maí 2008. Heimild sína til að hafa uppi gagnkröfur reisti sóknaraðili á 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 173. gr. sömu laga. Hann kvað gagnkröfuna til komna vegna skuldar varnaraðila við sig samkvæmt afleiðusamningi sem í gildi hafi verið þeirra í milli.

Í úrskurði héraðsdóms var kröfum varnaraðila hafnað þar sem ,,bankareikningur sá er krafa [hans] lýtur að, er ekki í vörslum [sóknaraðila] heldur í vörslum NBI hf. [Landsbankinn hf.] sem ekki á aðild að máli þessu“. Var niðurstaðan reist á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í forsendum héraðsdóms kemur einnig fram að dómurinn telur að varnaraðili eigi þess kost að fá úrlausn um þá hagsmuni, sem um ræðir, með því að verjast kröfu Landsbankans hf. um greiðslu gagnkröfunnar.

Þessi niðurstaða hefur ekki sætt kæru til Hæstaréttar.

Héraðsdómur vísaði gagnkröfum sóknaraðila sjálfkrafa frá dómi með þeim rökum að fyrir lægi ,,að [Landsbankinn hf.] yfirtók réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningi þeim sem mál þetta lýtur að, og ekki er gerð fullnægjandi grein fyrir grundvelli þeim er gagnkröfur eru reistar á, [...] sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.“

Eins og fram er komið reisti sóknaraðili rétt sinn til þess að hafa uppi gagnkröfu á 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 173. gr. sömu laga. Þegar sóknaraðili hafði lagt fram greinargerð sína í þinghaldi 25. febrúar 2011, ásamt þeim afleiðusamningum sem hann taldi að aðilar hefðu gert, og útreikning á ætlaðri lokastöðu, bar héraðsdómi samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 að gefa varnaraðila kost á að skila stuttu skriflegu svari við gagnkröfum sóknaraðila. Þetta lét héraðsdómur undir höfuð leggjast og ekki kemur fram í endurritum þinghalda í málinu að bókuð hafi verið andsvör varnaraðila við gagnkröfunum.

Samkvæmt framansögðu verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og málsmeðferðina frá þinghaldi 25. febrúar 2011 og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur sem og meðferð málsins frá 25. febrúar 2011 og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2011.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 31. maí sl., var þingfest 9. september 2010.

Sóknaraðili er Rekstrarlausnir ehf., Reykjavík.

Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf.

Sóknaraðili krefst þess ,,að honum verði heimilaður ótakmarkaður aðgangur að bankareikningi sínum nr. 101-05-194579 með innistæðu kr. 2.511.830, hinn 28. okt. 2008“ og að sú krafa hans verði samþykkt sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða  ,,pr. analogiam í búi varnaraðila“.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Þá gerir varnaraðili aðallega þá gagnkröfu að sóknaraðili greiði honum 2.645.693 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. nóvember 2008 til greiðsludags.

Til vara gerir varnaraðili þá gagnkröfu að sóknaraðili greiði honum 1.095.295 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2008 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málsatvik

Sóknaraðili átti inni fé á Peningamarkaðsreikningi Landsvaka hf. að nafnverði 140.240,77 krónur hinn 11. maí 2007. Hann handveðsetti varnaraðila inneign sína þann dag, til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sínum við varnaraðila, Landsbanka Íslands. Hinn 13. maí 2007 undirritaði sóknaraðili almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila og í kjölfarið gerði sóknaraðili þrjá framvirka samninga um hlutabréf við varnaraðila. Þar á meðal var samningur sem sóknaraðili gerði við varnaraðila 15. maí 2007, nr. 8848-0 um kaup á 75.000 hlutum í Glitni banka, en það er sá samningur sem mál þetta snýst um.

 Ekki er ágreiningur um að sá samningur var framlengdur í eitt skipti, 21. ágúst 2007 og var í gildi til 21. nóvember 2007. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að eftir það hafi hann ekki verið framlengdur og ekki hafi verið gerðir frekari samningar við varnaraðila. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að samningurinn hafi verið framlengdur í alls fimm skipti, síðast 21. ágúst 2008 og hafi þeim samningi verið lokað í tapi fyrir sóknaraðila 24. nóvember 2008.

Ágreiningur málsins snýst um það hvort samningur þessi hafi verið framlengdur án heimildar sóknaraðila, en eins og áður greinir var samningnum ekki lokað fyrr en meint skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna afleiðuviðskipta hans var orðin  hærri en innstæðan á hinum handveðsetta reikningi.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Bryndís Björk Guðjónsdóttir og Gunnar Þór Gunnarsson.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður að hann hafi ekki getað fengið innstæðu sína í Peningamarkaðssjóðnum greidda. Því hafi verið borið við að fyrir liggi samþykki hans á framlengingu samnings um framvirk kaup á hlutabréfum í Glitni banka hf., en sóknaraðili neitar því að hafa samþykkt að framlengja samninginn.

Sóknaraðili krefst þess að fá óheftan aðgang að reikningi sínum nr. 101-05-194579 í nýja Landsbanka, en á þann reikning hafi verið lagt andvirði Peningamarkaðssjóðs inneignar hans, hinn 28. október 2008. Sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið neinar viðhlítandi skýringar á því að hvers vegna hann fái ekki aðgang að fjármunum sínum þar.

Sóknaraðili kveður að þrotabú varnaraðila komi í veg fyrir aðgang sóknaraðila að nefndum reikningi. Ef þrotabúið telji sig eiga haldsrétt eða veðrétt eða önnur réttindi yfir fjármunum þessum eða reikningi þessum, kveður sóknaraðili nauðsynlegt að þeim réttindum verði aflétt. Sóknaraðili telji sig einnig hafa sjálfstæðan rétt til þess að krefja nýja Landsbankann um aðgang að reikningi þessum.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt iii lið B kafla samnings aðila frá 13. maí 2007, komi skýrt fram að óski viðskiptamaður eftir því að framlengja samningi, skuli aðilar semja um það sérstaklega og þá með tveggja daga fyrirvara. Þannig hafi varnaraðili ekki haft heimild sóknaraðila til frekari viðskipta, nema samþykki beggja lægi fyrir. Svo hafi ekki verið. Sóknaraðili hafi ekki gefið samþykki sitt eða heimild af nokkrum toga umfram það sem fram komi í nefndum samningi. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili haldið áfram viðskiptum fyrir sóknaraðila, án heimildar hans. Varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að honum hafi verið heimilt að stunda þau viðskipti fyrir sóknaraðila sem varnaraðili byggi mál sitt á. Telur sóknaraðili að ekkert hafi komið fram í málinu sem sýni að varnaraðila hafi verið þetta heimilt. Með þessari óheimilu og löglausu iðju hafi varnaraðila tekist að skuldsetja sóknaraðila í bókum sínum og meinað sóknaraðila aðgang að fjármunum sínum.

Það sé augljóslega varnaraðili máls þessa sem sé fagaðilinn í samskiptum aðila. Sóknaraðili geti ekki með neinu móti talist fagfjárfestir. Fjármálasamningar sem lagðir hafa verið fram í málinu séu þeir einu sem sóknaraðili hafi gert. Varnaraðili hljóti að hafa flokkað sóknaraðila sem almennan fjárfesti samkvæmt gildandi reglum og hljóti að vera spurning hvort varnaraðili hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart honum. Varnaraðili hafi framlengt samningana án réttmætra undirskrifta. Í samningunum komi fram að þeir falli úr gildi og séu gerðir upp, ef þeim er ekki framlengt skriflega. Það sé því eðlilegt af hálfu sóknaraðila að líta svo á að sú regla gildi undanbragðalaust.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki eiga lögvarða kröfu í búið og í raun sé það varnaraðili sem eigi kröfu á hendur sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að fyrir hendi sé gildur samningur milli aðila. Aðilar hafi gert með sér samning 15. maí 2007 um kaup á hlutabréfum í Glitni banka. Sá samningur hafi verið framlengdur 21. ágúst 2007 og sé það óumdeilt meðal aðila að samningurinn hafi verið í gildi til 21. nóvember 2008 (sic). Málatilbúnaður sóknaraðila sé á því reistur að hann hafi ekki beðið um framlengingu eftir þann tíma, en í símtali milli Gunnars Gunnarssonar stjórnarmanns sóknaraðila, og Ólafs J. Hanssonar, þáverandi starfsmanns varnaraðila, 4. desember 2007, biðji sóknaraðili um að láta framlengja samningnum. Endurrit þess símtals liggi fyrir og sýni glöggt að samningurinn sé í gildi til 21. maí 2008. Þá sé einnig ljóst af símtali milli sömu aðila frá 27. ágúst 2008, að Gunnari sé kunnugt um að framvirki samningurinn um hlutabréf í Glitni sé enn opinn.

Sóknaraðili hafi undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Í 3. mgr. 2. gr. skilmálanna komi fram að viðskiptamaður skuli senda Fjárfestingabanka LÍ beiðni um viðskipti með símbréfi, tölvupósti eða í gegnum síma. Sé þessi háttur á framlengingum samninga því í samræmi við skilmálana sem sóknaraðili hafi undirritað.

Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili sé allt að einu bundinn af viðskiptunum sökum athafnaleysis eftir að til þeirra hafi verið stofnað. Ljóst sé að sóknaraðili hafi fengið tölvuskeyti með upplýsingum um stöðu samningsins, sem og framlengingar. Sóknaraðili hafi aldrei gert athugasemdir við þá framkvæmd sem verið hafi á framlengingu samninganna. Þá hafi sóknaraðili sérstaklega haft samband símleiðis við varnaraðila áður en hann hugðist loka öðrum sambærilegum samningum, en hafi hins vegar ekki gert það varðandi þann samning sem hér er til úrlausnar. Hafi starfsmönnum varnaraðila því ekki verið ljóst að sóknaraðili kysi að hafa annan hátt á framkvæmdinni um þann samning sem mál þetta snýst um.

Í greinargerð sóknaraðila komi fram að samningurinn hafi ekki verið í gildi síðan 21. nóvember 2007. Sóknaraðili viðurkenni hins vegar að hafa fengið tölvupósta á þriggja mánaða fresti, þar sem fram hafi komið upplýsingar um stöðu samnings og framlengingar. Hann ákveði hins vegar að bregðast fyrst við rúmu ári seinna, eða 27. ágúst 2008. Verði því að telja að hann hafi með tómlæti sínu orðið skuldbundinn af framlengingum samningsins.

Jafnframt er á því byggt að sóknaraðili sé bundinn af viðskiptunum á grundvelli þess að venja hafi skapast um þessa framkvæmd á framlengingu samninganna. Í iii lið B. kafla upphaflega framvirka samningsins, komi fram að óski viðskiptamaður eftir því að framlengja samningi á gjalddaga þurfi aðilar að semja um það sérstaklega með tveggja daga fyrirvara. Sé ekki tekið fram að um skriflegan samning þurfi að vera að ræða. Sé hér ekki um að ræða nýjan samning, heldur einungis framlengingu á gildandi samningi.

Varnaraðili bendir á að sama dag og upphaflegi framvirki samningurinn um hlutabréf í Glitni banka hafi verið gerður, þ.e. 15. maí 2007, hafi sóknaraðili gert tvo aðra framvirka samninga. Þeir hafi báðir verið framlengdir 21. ágúst 2007 og síðan aftur 21. nóvember 2007. Skjöl sem kveði á um þá framlengingu séu ekki undirrituð. Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili engar athugasemdir gert þar um og hafi hann lokað  báðum samningunum 15. janúar 2008, án athugasemda um seinni framlengingu þeirra. Af þessu megi ráða að sóknaraðila hafi verið kunnugt um þá samninga sem hann hafi verið með opna gagnvart varnaraðila, sem og það hvernig til háttaði með framlengingu þeirra.

Sé því sóknaraðili bundinn af þeim samningum sem hann hafi gert við varnaraðila og beri að taka aðalkröfu varnaraðila í gagnsök til greina.

Varðandi þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi framlengt samningnum án réttmætra undirskrifa, bendir varnaraðili á að í hlutafélagaskrá komi fram að stjórnarmaður riti firma félagsins. Gunnar Gunnarsson sé stjórnarmaður í félaginu og hafi því heimild til að skuldbinda það. Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila geri ráð fyrir því að viðskipti geti verið samþykkt munnlega. Að íslenskum rétti sé munnlegt samkomulag jafngilt skriflegu.

Þá sé því einnig haldið fram af hálfu sóknaraðila að rétt hefði verið að hafa samband við Bryndísi Björk Guðjónsdóttur, sem einnig sé stjórnarmaður í félaginu, en hún hafi skrifað undir öll gögn varðandi viðskipti aðila. Varnaraðili bendir á, varðandi þessa málsástæðu, að ljóst sé af gögnum málsins að Gunnar Gunnarsson hafi verið tengiliður sóknaraðila hjá varnaraðila og hafi það ávallt verið hann sem hefði verið í símasambandi og tölvupóstsambandi við starfsmenn bankans. Hafi starfsmenn bankans því ekki haft ástæðu til að ætla annað en að Gunnar færi með framkvæmd viðskiptanna gagnvart bankanum.

Varðandi  málsástæðu sóknaraðila, sem lýtur að ófullnægjandi upplýsingaskyldu varnaraðila, tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi verið flokkaður sem almennur fjárfestir. Sóknaraðili hafi undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Í 1. mgr. 8. gr. skilmálanna segi að með undirritun sinni á skilmála þessa lýsi viðskiptamaður því yfir að honum sé ljóst að þau viðskipti sem hann kunni að eiga við Fjárfestingabanka LÍ geti verið sérstaklega áhættusöm. Þá segi enn fremur að viðskiptamanni beri að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga telji hann þess þörf. Þá hafi stjórnarmanni félagsins verið bent á, í símtali við varnaraðila, að viðskipti með íslensk bréf gætu verið áhættusöm.

Sé af öllu framangreindu ljóst að upplýsingaskylda samkvæmt 14. gr. laga nr. 108/2007 hafi ekki verið vanrækt af hálfu varnaraðila.

Varnaraðili kveður aðalkröfu sína í gagnsök reista á því að uppgjör samningsins miðist við síðustu framlengingu hans, þ.e. með lokadag 24. nóvember 2008. Sé höfuðstóll kröfunnar 2.645.693 krónur.

Varnaraðili kveður varakröfu sína í gagnsök byggja á því að uppgjör samningsins miðist við þriðju framlengingu samningsins með lokadag 21. maí 2008. Sé höfuðstóll kröfunnar 1.095.295 krónur.

Innistæðan á hinum handveðsetta reikningi sóknaraðila hafi verið 3.003.713 krónur 24. febrúar 2011, auk áunninna vaxta að fjárhæð 15.820 kr., samtals 3.019.533 krónur. Aðalkrafa varnaraðila í gagnsök hafi þá staðið í 4.069.590 krónum

Af framangreindu megi ráða, að ef aðalkrafa í gagnsök verði tekin til greina, dugi hin handveðsetta innistæða sóknaraðila ekki til greiðslu kröfunnar.

Verði fallist á að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila, er aðalkröfu sóknaraðila um greiðslu utan skuldaraðar á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991, mótmælt. Bent er á að ágreiningslaust sé að hinn handveðsetti umdeildi reikningur sé í vörslu NBI hf., en ekki í vörslum varnaraðila. Sé kröfunni því beint að röngum aðila og beri að hafna henni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Í öðru lagi bendir varnaraðili á að krafa sóknaraðila sé um að fá ótakmarkaðan aðgang að handveðsettum reikningi. Þannig sé ekki verið að krefjast neinnar sérgreindrar eignar, heldur aðgangs að réttindum. Kveður varnaraðili að kröfugerð sóknaraðila sé með þeim hætti að hún geti ekki átt undir 109. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess skorti mikið á að sóknaraðila hafi lánast að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991. Beri því að hafna kröfunni.

Þá bendir varnaraðili á að hinn handveðsetti reikningur sé í vörslu þriðja aðila, sem ekki er aðili að þessu máli og sé því ekki um að ræða sérgreinda eign í vörslum varnaraðila.

Í samræmi við allt framangreint kveður sóknaraðili að krafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 og beri því að hafna kröfu sóknaraðila um rétthæð kröfunnar.

Niðurstaða

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. til að taka yfir starfsemi varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins yfirtók NBI hf. réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum. Liggur því fyrir að krafa samkvæmt samningi þeim sem mál þetta lýtur að fluttist yfir til NBI hf. með fyrrgreindri ákvörðun Fjármáleftirlitsins.

Eins og fram kemur í bréfi slitastjórnar varnaraðila til lögmanns sóknaraðila frá 13. nóvember 2009, var reikningur sóknaraðila nr. 101-05-194579 stofnaður í framhaldi af slitum á peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. og er reikningurinn í vörslum nýja Landsbankans, NBI hf. Í bréfi þessu er jafnframt bent á að afleiðuskuld sóknaraðila sé hærri en innstæðan á reikningnum.

Í greinargerð sóknaraðila segir að hann krefjist óhefts aðgangs að reikningi sínum nr. 101-05-194579 ,,í nýja Landsbanka“.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framvirkur samningur um hlutabréfakaup í Glitni banka hf., hafi verið framlengdur með skuldbindandi hætti fyrir sóknaraðila. Niðurstaða dómsins um það ágreiningsefni felur í sér úrlausn um það hvor aðila eigi kröfu á hendur hinum, en varnaraðili hefur í máli þessu gert gagnkröfur á hendur sóknaraðila. Þar sem bankareikningur sá sem krafa sóknaraðila lýtur að, er ekki í vörslum varnaraðila, heldur í vörslum NBI hf., sem ekki á aðild að máli þessu verður kröfu sóknaraðila hafnað, þegar af þessum ástæðum, sbr. 2. mgr. 16. gr., en sóknaraðili á þess kost að fá úrlausn um þá hagsmuni sem hér um ræðir með því að verjast kröfu NBI hf. um greiðslu gagnkröfunnar.

Varnaraðili hefur í máli þessu gert gagnkröfu til sjálfstæðrar dómsúrlausnar. Þar sem fyrir liggur að NBI hf. yfirtók réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningi þeim sem mál þetta lýtur að, og ekki er gerð fullnægjandi grein fyrir grundvelli þeim er gagnkröfur eru reistar á, verður þeim vísað sjálfkrafa frá dómi vegna vanreifunar, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Tryggvi Agnarsson héraðsdómslögmaður og af hálfu varnaraðila flutti málið Kristrún Elsa Harðardóttir héraðsdómslögmaður.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Rekstrarlausna ehf. á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað.

Gagnkröfum varnaraðila er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður milli aðila.