Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. september 2009.

Nr. 510/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 13. ágúst 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 4. september 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...] til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kvöldi miðvikudagsins 12 ágúst sl. hafi kærði verið handtekinn, ásamt meðkærðu A og B, þar sem þeir hafi verið staðnir að verki við innbrot að Y í Reykjavík. Kærði hafi sagst við yfirheyrslu ekkert hafa um þetta mál að segja.  Hann hafi hins vegar viðurkennt að hafa brotist inn í húsnæði að Z í Reykjavík, í félagi við meðkærðu B og A.

Kærði sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, sjá nánar dóma Hæstaréttar Íslands nr. 474/2009, 476/2009, 477/2009 og 491/2009.

Frá upphafi rannsóknar hafi kærði villt um fyrir lögreglu um raunverulegan dvalarstað sinn og  það ekki verið fyrr en við skýrslutöku yfir einum meðkærða þann 20. ágúst sl. að réttur dvalarstaður kom fram, þ.e. Þ í Kópavogi. Hafi þá komið í ljós að meðkærði B búi þar einnig. Í kjölfarið hafi verið farið í húsleit á dvalarstað þeirra að Þ og fundist  mikið magn af þýfi.

Lögreglan hafi þegar rakið hluta þess þýfis til innbrots að Æ í Reykjavík (sjá mál nr. 007-2009-48170), innbrots í Ö í Garðabæ (sjá mál nr. 007-2009-46547) og innbrots í R í Reykjavík (sjá mál nr. 007-2009-47917). Munir úr þessum þremur innbrotum hafi einnig fundist á dvalarstað meðkærða C og sé því ljóst að tengsl séu á milli kærða og meðkærðu C ogA. Við yfirheyrslur hafi kærði sagst ekkert kannast við þrjú ofangreind innbrot.

Af þessu megi sjá að kærði liggi undir sterkum grun um að eiga aðild a.m.k. 5 innbrotsmálum, sem framin hafi verið á tímabilinu 31. júlí til 12. ágúst  Þá séu uppi augljós tengsl milli kærða og meðkærða C, sem tengist a.m.k. 10 innbrotsmálum á sama tímabili. 

Auk þessara mála sé kærði sterklega grunaður um aðild að neðangreindum brotum, framin á árinu 2009:

007-2009-8737

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 12. febrúar,  í félagi við annan mann, brotist inn í bifreiðina S, þar sem hún stóð við Bergstaðastræti í Reykjavík, og stolið farsíma af gerðinni Nokia. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-8737

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 12. febrúar, í félagi við annan mann, brotist inn í bifreiðina T og stolið tónlistarspilara af gerðinni Ipod, útvarpssendi og svörtum bílstandi fyrir ipodinn. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-012557

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa  mánudaginn 2. mars, í versluninni Melabúðin að Hagamel 39 í Reykjavík, stolið matvöru samtals að verðmæti kr. 5.124. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-16590

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa föstudaginn 20. mars, í versluninni Klukkan að Hamraborg 10 í Kópavogi, stolið skartgripum samtals að verðmæti kr. 866.000. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-16590

Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 23. mars, á dvalarstað sínum við U í Reykjavík, haft í vörslum sínum 15,74 g af kannabisefni, sem lögregla fann við leit. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-28555

Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 13. maí, við gatnamót Barónsstígar og Bergþórugötu í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,62 g af kannabisefni, sem lögregla fann við leit. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-34082

Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 5. júní, á Flókagötu í Reykjavík, haft í vörslum sínum 2,28 g af amfetamíni, sem lögregla hafi fundið við leit. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-35595

Kærði sé grunaður um umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 15. júní ekið bifreiðinni Ú, án þess að hafa öðlast ökuréttindi og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, á 112 km/klst norður Reykjanesbraut í Hafnarfirði þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök.

007-2009-36973

Kærði sé grunaður um fjársvik, með því að hafa miðvikudaginn 17. júní, svikið út vörur í nokkrum verslunum 10-11, með því að framvísa greiðslukorti S.J. Schubert og þannig látið skuldfæra andvirði varanna heimildarlaust á greiðslukortareikning hans. Við yfirheyrslu hafi kærði játað sök að hluta.

007-2009-36973

Kærði sé grunaður um tilraun til fjársvika, með því að hafa miðvikudaginn 17. júní, reynt að svíkja út vörur í verslun 10-11 við Melbraut í Reykjavík fyrir samtals 46.424 krónur, með því að framvísa greiðslukorti S.J. Schubert. Við yfirheyrslu hafi kærði sagst ekki muna eftir atvikinu sökum ölvunar.

007-2009-037866

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa mánudaginn 22. júní, í félagi við annan mann, brotist inn í bifreiðina V, þar sem hún stóð við Garðastræti í Reykjavík, með því að brjóta rúðu, og stolið þaðan GPS tæki af gerðinni Garmin og tveimur svörtum buddum sem innihéldu smámynt. Vitni hafi séð tvo menn brjótast inn í bifreiðina og aka á brott á bifreiðinni H. Kærði sé svo skömmu síðar stöðvaður, ásamt samverkamanni sínum, meðkærða B á bifreiðinni H og finnist svarta buddan á þeim. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök.

007-2009-037842

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa  mánudaginn 22. júní, á bifreiðastæði við Háskólabíó í Reykjavík, í félagi við annan mann, brotist inn í bifreiðina I, með því að brjóta rúðu, og stolið þaðan stafrænni myndavél af gerðinni Kodak, farsíma af gerðinni Sony Ericson og tveimur barnatöskum. Þegar kærði hafi verið handtekinn var hann í gulri úlpu, en vitnið í máli 007-2009-37866  hafi lýst öðrum geranda m.a. sem manni í gulri úlpu. Auk þess sem myndavélin úr innbrotinu hafi fundist á kærða. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök.

007-2009-43138

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 14. júlí, í félagi við tvo menn, brotist inn í tvö leiguherbergi að J í Reykjavík og stolið þaðan tónlistarspilara af gerðinni iPod, fartölvu af gerðinni Zepto, hleðslutæki fyrir fartölvu, netpung frá Nova, farsíma, snyrtivörum, dart keppnispílum og 3 skyrtubolum, samtals að verðmæti kr. 224.200. Við handtöku hafi megnið af þýfinu fundist á og hjá kærða og samverkamönnum hans skammt frá innbrotsvettvangi. Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök.

Með vísan til samfellds brotaferils kærða sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Með vísan til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins er það mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fjölmörgum innbrotsmálum sem framin voru á tímabilinu 31. júlí til 12. ágúst 2009.  Þá er hann undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fjölmörgum auðgunarbrotum, brotum á fíkniefnalöggjöfinni auk umferðarlagabrots, sem framin voru á tímabilinu 12. febrúar til 14. júlí 2009. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Með hliðsjón af framangreindu þykja vægari úrræði ekki koma til greina og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.