Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2008. |
|
Nr. 212/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari) gegn Páli Rúnari Geirdal (Björn Þorri Viktorsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
P var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Með brotinu rauf hann skilorð dóms frá 3. desember 2004 þar sem hann hlaut sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga var sá dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu var refsing P ákveðin fangelsi í 15 mánuði en ekki þóttu efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
Ákærði hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Krafa hans um breytingu á niðurstöðu dómsins getur því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem leiðir af 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 4. desember 2007 er ákærði borinn sökum um að hafa brotið gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft 12. október 2006 í vörslum sínum á fimm hörðum diskum í tölvu af nánar tiltekinni gerð samtals 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir, sem sýni börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við þessu broti og var farið með málið eftir 125. gr. laga nr. 19/1991. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir brotið og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann tvívegis undir lögreglustjórasátt á árinu 2002 vegna umferðarlagabrota, sem engu skipta við ákvörðun refsingar nú. Á hinn bóginn var ákærða með dómi Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2004 gert að sæta fangelsi í sjö mánuði, skilorðsbundið í fimm ár, fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 5. júlí sama ár haft önnur kynferðismök en samræði við fimm ára stúlku. Með brotinu, sem mál þetta varðar, rauf ákærði skilorð samkvæmt þeim dómi og ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að ákveða refsingu fyrir bæði brotin í einu lagi eftir fyrirmælum 77. gr. sömu laga. Að þessu virtu er sú refsing hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði, en ekki eru efni til að skilorðsbinda hana að hluta eða öllu leyti.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða látin standa óröskuð.
Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Páll Rúnar Geirdal, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 340.911 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008.
Mál þetta er dómtekið var 18. febrúar s.l. er höfðað með ákæru dagsettri 4. desember 2007 á hendur Páli Rúnari Geirdal, kennitala 100483-4329, Lyngbergi 23, Hafnarfirði, "fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, þann 12. október 2006 haft í vörslu sinni á þáverandi dvalarstað sínum að Grófarsmára 18, Kópavogi, á fimm hörðum diskum í Fujitsu Siemens turntölvu, 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 74/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Jafnframt er þess krafist með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindri turntölvu og fimm hörðum diskum."
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Sakaferill ákærða er þannig að á árinu 2002 var tvívegis gerð við hann lögreglustjórasátt og honum gert að greiða sektir fyrir brot á umferðarlögum og sviptur ökurétti í 1 mánuð í annað skiptið, en ennfremur var hann 3. september 2004 dæmdur til að sæta fangelsi í 7 mánuði skilorðsbundið í 5 ár fyrir brot gegn 202. gr. almennra hegningarlaga.
Með því broti sem ákærður er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð þessa dóms og verður með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp refsinguna samkvæmt framangreindum dómi og dæma bæði málin í einu lagi og ákvarða refsinguna með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.
Við refsiákvörðun í málinu verður að líta til þess, að um er að ræða mikinn fjölda ljósmynda og hreyfimynda, sem ákærður geymdi í tölvu sinni og meginhluti þeirra sýna grófa misnotkun á börnum og teljast brotin því stórfelld, en á hinn bóginn verður litið til tiltölulega ungs aldurs ákærða og að hann hefur játað brot sitt greiðlega. Þá er töluverður tími liðinn frá því að hann framdi brotin og samkvæmt því, sem fram kemur hjá verjanda er hann er nú í góðri vinnu og á unnustu. Þá er fram komið að ákærður leitaði sér sálfræðilegrar aðstoðar vegna fyrra málsins og leitaði sér aftur af sjálfsdáðum aðstoðar vegna síðara málsins og hefur verið í sálfræðilegri meðferð vegna þess með viðtölum hjá Birni Harðarsyni sálfræðingi frá því í janúar 2007 og kemur fram í vottorði Björns að hann hafi komið reglulega í viðtöl í samtals 29 tíma vegna barnahneigðar sinnar og er það álit sálfræðingsins að ákærði hafi nýtt sér tímann mjög vel og með því dregið úr hættu á að hann viðhaldi barnahneigð sinni áfram og sé þar af leiðandi ólíklegri til að brjóta af sér aftur. Sálfræðingur telur samkvæmt því mikilvægt að hann haldi áfram reglubundnum viðtölum, svo sem hann hafi í hyggju.
Af öllu þessu virtu þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 13 mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu á 10 mánuðum af fangelsisrefsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955 og hlíti hann jafnframt sérstöku skilorði samkvæmt 2. og 3. tölulið greinarinnar, þar sem umsjónarmaður gæti þess m.a. að hann haldi áfram viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, svo lengi sem það er til nausynlegt að mati sálfræðings til að vinna bug á hneygð sinni til barna. Rétt er að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi eftirlit með framkvæmd umsjónarinnar.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga ber ákærða að hlíta upptöku á haldlagðri turntölvu í málinu og 5 hörðum diskum.
Dæma ber ákærða til greiðslu þóknunar til skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hdl. vegna starfa hans á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi sem ákveðst 323.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en annan kostnað leiddi ekki sökinni.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
Af hálfu ákæruvaldisns fór með málið Ragna Bjarnadóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
DÓMSORÐ
Ákærður, Páll Rúnar Geirdal sæti fangelsi í 13 mánuði, en fresta skal fullnustu á 10 mánuðum af refsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955 og hlíti hann jafnframt sérstöku skilorði samkvæmt 2. og 3. tölulið greinarinnar, þar sem umsjónarmaður gæti þess m.a. að hann haldi áfram viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, svo lengi sem það er til nauðsynlegt að mati sálfræðings til að vinna bug á hneigð hans til barna. Rétt er að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi eftirlit með framkvæmd umsjónarinnar.
Ákærður sæti upptöku á turntölvu og 5 hörðum diskum, sem haldlagðir voru í málinu.
Ákærður greiði skipuðum verjanda sínum Guðbjarna Eggertssyni héraðsdómslögmanni í þóknun vegna verjandastarfs hans á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi 323.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.