Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni
  • Meðlag


Þriðjudaginn 14

 

Þriðjudaginn 14. desember 2004.

Nr. 480/2004.

M

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

gegn

K

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni. Meðlag.

K og M deildu um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða og umgengni við hann og greiðslu meðlags. Fyrir Hæstarétti krafðist M að staðfest yrði ákvæði úrskurðar héraðsdóms um að aðilarnir færu sameiginlega með forsjá barnsins en hafnað yrði kröfu K um að lögheimili þess yrði hjá henni, svo og kröfum hennar varðandi umgengni og meðlag. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms um að lögheimili barnsins væri hjá K meðan á rekstri málsins stæði. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við barnið og greiðslu meðlags.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 2004, þar sem skorið var úr ágreiningi aðilanna um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða, umgengni við hann og greiðslu meðlags með honum. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um að aðilarnir fari sameiginlega með forsjá sonar síns, en hafnað verði kröfu varnaraðila um að lögheimili hans verði hjá henni, svo og kröfum hennar varðandi umgengni og meðlag. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­ness 17. nóvember 2004.

I.

             Þetta mál sem þingfest var 11. nóvember 2004, var tekið til úrskurðar 12. sama mánaðar að afloknum munnlegum málflutningi.

             Sóknaraðili er K.

             Varnaraðili er M.

             Sóknaraðili krefst þess að henni verði til bráðabirgða falin forsjá sonar hennar og varnaraðila, X, sem er fæddur [...] febrúar 2003, þar til endanlegur dómur gengur um hvorum málsaðila verður falin forsjá hans til frambúðar.

             Til vara krefst sóknaraðili þess, hafni dómurinn kröfu um niðurfellingu sameigin­legrar forsjár, að úrskurðað verði að lögheimili barnsins verði hjá sóknaraðila.

             Í báðum tilvikum er þess krafist að úrskurðað verði um umgengni við drenginn, svo og að varnar­aðili greiði sóknaraðila, mánaðarlega, einfalt meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar og fram að dómsuppsögu forsjármálsins.

             Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurðað verði að honum verði falin forsjá drengsins, X, til bráðabirgða eða þar til endanlegur dómur gengur um varanlega forsjá hans og að sóknaraðili greiði einfalt meðlag með barninu.

             Til vara krefst varnaraðili þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. 

Hvor málsaðili um sig krefst málskostnaðar úr hendi hins.

             Málið var tekið til úrskurðar að lokinni skýrslugjöf aðila og munnlegum málflutningi.  Í þinghaldi var bókað eftir sóknaraðila að hún færi fram á að í úrskurði yrði tekin afstaða til umgengni barns málsaðila við það foreldri sitt sem ekki fái forsjá þess til bráðabirgða.  Dómari aflaði engra gagna af sjálfsdáðum.  Þar sem barn málsaðila er mjög ungt var ekki leitað eftir afstöðu þess.

II.

             Að sögn sóknaraðila hófu málsaðilar sambúð á árinu 1999 en eignuðust drenginn X [...] febrúar 2003.  Fyrir átti sóknaraðili þrjú börn af fyrra sambandi sem eru nú 14, 11, og 10 ára og dvelja öll hjá sóknaraðila og hefur hún forsjá þeirra.  Varnaraðili átti einnig fósturdóttur og son sem nú er 12 ára.  Varnaraðili fer ásamt móður drengsins með forsjá hans en bæði dveljast börnin hjá móður sinni.

             Að sögn sóknaraðila slitnaði endanlega upp úr sambúð málsaðila þegar vika var liðin af júní 2004 en formleg samvistaslit hafi orðið 1. júlí sl. þegar varnaraðili hafi flutt af heimili sóknaraðila.  Þann 22. júní sl. undirrituðu þau samkomulag hjá sýslu­manninum í [...] þess efnis að þau færu sameiginlega með forsjá drengsins X og að hann skyldi hafa lögheimili hjá sóknaraðila.  Þá var ennfremur ákveðið að varnaraðili greiddi sóknaraðila einfalt meðlag með barninu.  Í reynd munu engar meðlagsgreiðslur hafa verið inntar af hendi þar sem sóknaraðili gekk aldrei eftir þeim hjá Tryggingastofnun.  Ástæðu þess að lögheimili barnsins, sem upphaflega var hjá sóknaraðila, hafi verið fært yfir á varnaraðila sagði sóknaraðili þá að varnaraðili hafi sótt það stíft að fá lögheimili barnsins skráð hjá sér og hafi hún á endanum gefið það eftir í júlí sl.  Varnaraðili sagði að aldrei hefði annað komið til af hans hálfu en að hann fengi drenginn og hefði hann krafist forsjár hans þegar ljóst var að samband málsaðila héldi ekki.  Niðurstaðan hefði því orðið sameiginleg forsjá með lögheimili hjá honum.

             Um miðjan september sl. mun varnaraðili hafa sent sóknaraðila SMS skilaboð þess efnis að hann hefði fengið vinnu, húsnæði og leikskólapláss fyrir drenginn á Q og væri að flytja þangað.  Um miðjan október sl. flutti varnaraðili svo til Q.  Þar sem lögheimili drengsins fylgdi varnaraðila, samkvæmt breyttu sam­komu­lagi málsaðila, fluttist lögheimili drengsins einnig þangað.  Þar hefur varnaraðili fengið fasta vinnu sem [...].  Hann leigir rúmlega 70 fm. íbúð í eigu sveitar­félagsins og sonur málsaðila er skráður í heilsdagsvistun á leikskólanum [...].

             Varnaraðili kvað sig hafa langað til um nokkurn tíma að flytja út á land og hafi ástæða þess sér í lagi verið ofurhá leiga fyrir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.  Hann hafi svo farið á [...]austur á Q í haust og hafi litist vel á staðinn.  Upp úr því hafi hann spurst fyrir um vinnu, íbúðarhúsnæði og leikskólapláss. Hann hafi á skömmum tíma verið kominn með þetta allt þrennt og hafi þá tekið þá ákvörðun að flytja austur.  Hann sagði þó að vel gæti komið til greina að flytja suður aftur, sæi hann fram á að geta búið þar við sómasamlegar aðstæður.

III.

             Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá barnsins til bráðabirgða á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Þrátt fyrir að málsaðilar færu sameiginlega með forsjá barnsins hafi varnaraðili ákveðið upp á sitt einsdæmi að flytja austur á Q með barnið og hafi auk þess sagt upp plássi þess hjá dagmóðurinni upp á sitt einsdæmi og skráð það á leikskóla fyrir austan. Varnaraðili hafi því hundsað grundvallarskilyrði sam­eiginlegrar forsjár, þ.e.a.s. samráð foreldra um mikilvægustu þætti í uppeldi barnsins.  Sóknaraðili hafi reynt að leita sátta með aðstoð lögmanns en varnaraðili hafi ekki viljað taka þátt í því.  Hefði varnaraðili haft hagsmuni drengsins að leiðarljósi hefði hann frestað flutningi sínum út á land þar til forsjárdeilan væri til lykta leidd því sóknar­aðili hafi tilkynnt honum bréflega, í kjölfar tilkynningar hans um flutninginn, að hún myndi krefjast fullrar forsjár en hafi þó lýst sig tilbúna til að leita samkomu­lags.  Auk þess hafi varnaraðila verið stefnt fyrir dóm áður en hann hafi verið fluttur austur.

             Sóknaraðili telur drengnum ótvírætt fyrir bestu að henni verði falin forsjá hans til bráðabirgða.  Hagsmunir drengsins krefjist þess að högum hans sé raskað sem minnst á meðan deila málsaðila sé útkljáð og því sé rétt að drengurinn fái að búa á því heimili sem hann hefur lengst af búið og verði áfram hjá sömu dagmóðurinni.  Sóknar­aðili sé í vel launuðu starfi og búi í eigin íbúð.  Hún sé fullfær um að fara með forsjá þessa drengs eins og hún er fullfær um að fara með forsjá eldri barna sinna.  Sóknaraðili telur hinar nýju aðstæður varnaraðila óljósar, hann eigi hvorki ættingja né vini fyrir austan.  Ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að hann verði búsettur í þessu sveitarfélagi varanlega þó hann geti lagt fram gögn um fasta vinnu og búsetu.  Taka verði tillit til þess að barnið sé mjög ungt og hafi sóknaraðili tekið sér árslangt fæðingarorlof til að annast barnið.  Ennfremur verði að taka tillit til þess að barnið eigi fjögur systkini, þar af þrjú á heimili sóknaraðila og hafi það lengst af lífi sínu alist upp með þeim.

             Varakröfu sína byggir sóknaraðili á 2. mgr. 35. gr. barnalaga og vísar til þess að með breytingu á lögheimili barnsins megi einnig koma í veg fyrir röskun á högum barnsins á meðan forsjárdeilan er til lykta leidd.

             Krafa sóknaraðila um umgengni miðast við lágmarksumgengni aðra hverja helgi.  Krafan byggir aðallega á því að viku-viku fyrirkomulag á umgengni, svo og tveggja vikna dvöl hjá hvoru foreldri í senn, sé barninu ekki holl, því verði að útfæra annað fyrirkomulag sem raski barninu ekki um of.

             Sóknaraðili vísar til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða barnalaga nr. 76/2003 varðandi málsmeðferð.  Vegna varnarþings vísar hún til 37. gr. barnalaga, en 130. gr. laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðarkröfu og laga nr. 50/1988 vegna kröfu um virðisaukaskatt á lögmannsþóknun.

 

             Varnaraðili byggir á því að högum og þörfum barns málsaðila sé best borgið með því að forsjáin sé hjá varnaraðila einum.  Næstbesta kostinn telur hann þá skipan sem nú er á forsjá barnsins og hafnar því alfarið að það sé barninu fyrir bestu að sóknaraðili fari ein með forsjána.  Varnaraðili vísar til þess að málsaðilar hafi gert með sér samkomulag um sameiginlega forsjá og lögheimili hjá sóknaraðila en því samkomulagi hafi síðar verið breytt og lögheimilið fært til varnaraðila.  Hann mótmælir því að forsendur af hálfu sóknaraðila fyrir þessu samkomulagi séu brostnar og hafnar því að sóknaraðili geti byggt mál sitt á því.  Sama telur hann að gildi um aðrar málsástæður hennar.  Samkvæmt samkomulaginu hafi sóknaraðili sama umgengnis­rétt við drenginn og varnaraðili.  Með því fyrirkomulagi séu hagur og þarfir drengsins fyrst og fremst höfð að leiðarljósi.  Sóknaraðili vilji breyta þessu með kröfugerð sinni og þá greinilega til að þjóna eigin hagsmunum en ekki hagsmunum barnsins.  Varnaraðili bendir á að hann hafi bæði fasta atvinnu og samastað á Q og þetta hvort tveggja hafi legið fyrir áður en hann flutti þangað.  Þess vegna verði því vart haldið fram að flutningur hans þangað hafi verið gerræðislegur.

             Varnaraðili telur að geta hans og hæfni sem forsjárforeldri komi skýrt fram í umsögn barnaverndarnefndar um heimsókn á heimili málsaðila.  Upplýsingar um varnaraðila sem þar komi fram séu meðal annars fengnar frá sóknaraðila.  Eiginleikar hans hafi ekkert breyst, og því geti sóknaraðili ekki borið á hann nú að hún hafi miklar efasemdir um uppeldisaðferðir hans.

             Varnaraðili byggir kröfur sínar á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Málskostnaðarkrafa hans byggir á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV.

             Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild, í máli um forsjá barns, til að úrskurða til bráðabirgða, eftir kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barninu er fyrir bestu.  Ákvæðinu er ætlað að gera dómara kleift að koma á stöðugleika í lífi þeirra barna sem forsjárdeilan snýst um þar til endanleg lausn hefur fundist í deilunni.  Áhersla hefur verið lögð á að hin tímabundna skipan forsjárinnar valdi sem minnstri röskun á högum þess barns sem forsjárdeilan varðar.

             Sérstakt ágreiningsmál um forsjá málsaðila yfir barni sínu var þingfest 20. október sl. en stefnan var birt á þáverandi lögheimili stefnda 14. október sl. áður en hann flutti lögheimili sitt formlega austur á Q.  Í því máli verður án vafa leitað sérfræðiálits um forsjárhæfni málsaðila, tengsl þeirra við barn sitt og aðra þætti sem þýðingu hafa við ákvörðun um skipan forsjár.  Enn sem komið er liggur því ekki annað fyrir en að málsaðilar séu bæði hæf til að fara með forsjá drengsins.  Þau hafa bæði lýst því að þau teldu hag barnsins vel borgið hjá gagnaðila sínum og bæði telja að barnið sé tengt hinu foreldri sínu þó hvort um sig telji barnið mun hændara að sér en hinu foreldrinu.  Nokkur ágreiningur er með aðilum um það hvort þeirra hafi sinnt barninu mest.  Þó er ljóst að sóknaraðili tók árs barnsburðar­leyfi í framhaldi af fæðingu barnsins en varnaraðili aðeins tvær vikur.  Varnaraðili kveður umönnun barnsins að mestu hafa hvílt á sínum herðum.  Á því ári sem sóknaraðili hafi verið í barns­burðarleyfi hafi varnaraðili yfirtekið umönnun barnsins þegar hann kom heim frá vinnu, því þá hafi sóknaraðili viljað fara í leikfimi og á námskeið. Frá sambúðar­slitum hafa málsaðilar haft barnið hjá sér til skiptis en þó segir varnaraðili að hann hafi oft gert sóknaraðila kleift að sinna félagsstörfum á kvöldin.  Í sumarfríi sínu hafi hann alfarið verið með barnið því engin dagmóðir hafi geta bætt við sig barni í pössun. 

Ekki er annað komið fram en að barnið sé heilbrigt og því þarf ekki að taka sérstakt tillit til sérþarfa þess umfram þær þarfir sem svo ungt barn hefur.  Hvað varðar skilning á þörfum barnsins þá kom fram í aðila­skýrslu að sóknaraðili kvaðst hafa fallist á viku-viku fyrirkomulag umgengni til þess að litli drengurinn hefði jöfn tengsl við báða foreldra sína.  Hún kvaðst þó hafa gert sér ljóst nokkru eftir að málsaðilar tóku upp þetta fyrirkomulag umgengni að drengurinn væri ekki í fullu jafnvægi og að þetta hentaði honum ekki.  Hún hafi því verið komin á fremsta hlunn með að bjóða varnaraðila að fast heimili drengsins yrði hjá honum, þar sem hann bjó þá í Kópavogi en að hún, sóknaraðili, fengi barnið í umgengni aðra hverja helgi.  Í þeirri viku sem hún var að hugleiða þetta úrræði, til að koma mætti á festu í líf barnsins, hafi varnaraðili sent henni skilaboð um að hann væri að flytja út á land og hygðist taka barnið með sér.  Við þau tíðindi hafi hún vent kvæði sínu í kross og ákveðið að krefjast fullrar forsjár barnsins. 

Sú ákvörðun varnaraðila að flytja, og taka barnið með, út á land var síður til þess fallin að koma á festu og stöðugleika í lífi barnsins.  Með flutningnum var barnið hrifið úr þekktu og kæru umhverfi og flutt í umhverfi, sem var því ókunnugt.  Að auki gekk varnaraðili út frá því að fyrirkomulag forsjár og umgengni yrði, þrátt fyrir flutninginn, líkt því og áður var, þó þannig að dvöl barnsins hjá hvoru foreldri skyldi vara í tvær vikur.  Með þessu voru barninu búnar aðstæður sem voru líklegar til að valda því óöryggi, því ekki er hægt að gera ráð fyrir að barn þoli þá röskun sem felst í að búa til skiptis á tveimur ólíkum heimilum og að auki við tvenns­konar fyrirkomulag á daggæslu, hvort sem að umskiptin verða vikulega eða með tveggja vikna millibili.

Ágreiningur er með málsaðilum um uppeldisaðferðir. Varnaraðili telur sóknar­aðila ekki sýna eldri börnum sínum nægilegan aga og segir þau komist meðal annars upp með að mæta illa í skólann, vera í slæmum félagsskap og fleira í þeim dúr.  Sóknar­aðili kvað varnaraðila mjög góðan við son þeirra en hinsvegar óttist hún strangar uppeldisaðferðir varnaraðila, sem hún segir að hann sýni ekki syni þeirra, enn sem komið er, en borið hafi á þeim gagnvart eldri börnum hennar.  Barnaverndar­nefnd  [...]  hefur tvisvar fengið tilkynningu þess efnis að grunur beindist að því að varnaraðili legði hendur á eldri börn sóknaraðila, fyrst í janúar 2003 og aftur í desember 2003.  Í gögnum málsins liggur einungis greinargerð fulltrúa barna­verndarnefndar vegna athugunar sem gerð var í janúar 2003 og þar ber sóknar­aðili allar sakir af varnaraðila.  Sóknaraðili segir að ásakanir sem bornar hafi verið á varnaraðila í seinna skiptið, desember 2003, hafi verið mun alvarlegri en hið fyrra, en barnaverndar­nefnd hafi þrátt fyrir það rannsakað síðara tilvikið mun minna en það fyrra og ekki lokið sambærilegri skýrslu og liggur í málinu vegna fyrri tilkynningarinnar. 

Báðir málsaðilar virðast búa við heimilisaðstæður sem eru boðlegar barninu og bæði eru þau í fullri vinnu og hvorugt virðist hafa tekið upp sambúð að nýju.  Varðandi heimilisaðstæður er þess þó að geta á heimili sóknar­aðila búa þrjú önnur börn.  Varnaraðili vísaði á bug þeirri fullyrðingu að eldri börn sóknaraðila væru hænd að litla bróður sínum, aðeins eitt þeirra skipti sér eitthvað af honum en hin létu hann eiga sig.  Sóknaraðili fullyrti hinsvegar að drengurinn hefði ætíð haft mikil og góð samskipti við öll systkini sín, líka son varnaraðila.  Hvað sem þessum gagnstæðu fullyrðingum líður þá er þó á heimili sóknaraðila fjölskylda og þrátt fyrir fullyrðingar varnaraðila er óvarlegt að ætla að ekki séu gagnkvæmar, hlýjar tilfinningar milli litla drengsins og eldri systkina hans.  Varnaraðili á, hinsvegar, enga fjölskyldu fyrir austan.  Á höfuðborgarsvæðinu búa sonur hans og fósturdóttir frá fyrra sambandi, systkini hans og fjölskyldur þeirra svo og móðir.  Hann getur því ekki notið liðsinnis vanda­manna sinna við umönnun barnsins, á meðan hann býr á Q, ef til þess kæmi að hann gæti ekki sinnt barninu um einhvern tíma.  Að sögn sóknaraðila sagði varnaraðili upp plássi barnsins hjá dagmóður þess í [...] þegar hann ákvað að flytja austur.  Málsaðilar skiptust á gagnstæðum fullyrðingum um það hvort sóknar­aðili héldi plássi fyrir barnið hjá dagmóðurinni.  Þrátt fyrir fullyrðingu varnaraðila þess efnis að sóknaraðili myndi missa plássið um áramótin þykir verða að miða við einarða yfir­lýsingu sóknaraðila, sem hún ítrekaði fyrir dómi, um að hún hefði loforð dagmóðurinnar fyrir því að hún haldi plássinu.

 

             Sonur málsaðila er í dag eins árs og níu mánaða.  Málsaðilar hafa sameigin­lega forsjá yfir honum en lögheimili hans er hjá varnaraðila.  Samkvæmt munnlegu samkomulagi þeirra varir umgengni hvors um sig við barnið tvær vikur í senn en umgengninni breyttu þau í tilefni af flutningi varnaraðila út á land.  Standi þetta fyrir­komulag óbreytt mun barnið verða á ferðalagi milli Z og Q á tveggja vikna fresti.  Líf þess mun verða kaflaskipt, helming mánaðarins mun það búa á heimili sóknaraðila [...] í Z  ásamt systkinum sínum og njóta gæslu dag­móður, en hinn helming mánaðarins mun það búa á heimili varnaraðila á Q og sækja leikskóla og eru þetta þó einungis stærstu þættir þeirra aðstæðna sem barninu eru búnar.  Það er vandséð að þetta fyrirkomulag henti nokkru barni, hvað þá barni sem einungis er eins árs og níu mánaða, enda voru málsaðilar sammála um að barninu kæmi betur að eiga fasta búsetu á einum stað og verður því að ákvarða drengnum fasta búsetu hjá öðrum hvorum málsaðila.

Frá fæðingu og fram í júlí sl. bjó drengurinn á því heimili þar sem sóknaraðili býr enn í dag, svo og systkini barnsins móðurmegin.  Frá júlí dvaldist drengurinn síðan á þessu heimili aðra hverja viku.  Frá sama tíma dvaldist barnið aðra hverja viku á heimili varnaraðila í [...] en um miðjan október sl. flutti varnaðili heimili sitt til Q.  Þrátt fyrir að drengurinn kunni að hafa þar fína aðstöðu úti sem inni þá hefur hann aðeins dvalist þar síðastliðnar tvær vikur og er ekki aðlagaður að því heimili eins og heimili sóknaraðila, þar sem hann er hagvanur og hefur fjölskyldu í kringum sig.  Drengurinn fór fyrst í daggæslu í lok janúar síðastliðins hjá dagmæðrum í Z, sem hættu starfsemi, en hefur frá því í ágúst síðastliðnum verið hjá dagmóður í [...].  Hinsvegar, hefur drengurinn einungis verið í aðlögun á leik­skólanum á Q frá 5. nóvember síðastliðnum eða tæpar tvær vikur.  Þessu til viðbótar kemur að stór­fjölskylda barnsins bæði föður- og móðurmegin er búsett hér á höfuðborgarsvæðinu og getur hún hlaupið undir bagga með sóknaraðila ef til þess kemur að sóknaraðili geti ekki sinnt barninu um einhvern tíma.

Með vísan til þessa er það talið raska högum sonar málsaðila sem minnst og vera honum fyrir bestu að varanleg búseta hans sé hjá sóknaraðila þar til endanleg niðurstaða er fengin í forsjárdeilu málsaðila.

Við aðilaskýrslu kom fram hjá báðum málsaðilum að þau vildu ná sátt um forsjá barnsins og virðist að fyrir hálfgerð mistök eða handvömm hafi ekki verið gerð nógu öflug tilraun til sátta milli þeirra.  Inn í það kann að spila óánægja varnaraðila með fjárskipti milli málsaðila, en varnaraðili telur sóknaraðila skulda sér talsverðar fjárhæðir.  Kvaðst hann hafa reynt að fá sóknaraðila til að greiða sér þær, þannig að honum væri kleift að búa fyrir sunnan, en sóknaraðili hafi ekki verið tilbúin til þess.

Þrátt fyrir yfirlýsingar varnaraðila þess efnis að á Q yrði hans fram­tíðar­heimili þá gaf hann það einnig upp að sæi hann sé fært að búa á höfuð­borgar­svæðinu, við sómasamlegar aðstæður, gæti hann vel hugsað sér að flytja til baka en blöskranlega há leiga hér hafi verið ástæða hans fyrir því að flytja austur.  Varnaraðili flutti fyrir rúmum fimm vikum og það sveitar­félag sem hann flutti til er fjarlægt og þar á hann enga ættingja eða aðra rótfestu.  Ekki er víst að það leggist jafnvel í hann að búa þar að afliðnum komandi vetri því af hans eigin orðum má ráða að höfuð­borgar­svæðið togar í hann en hér fyrir sunnan búa börn hans frá fyrra sambandi, systkini og þeirra fjölskyldur, móðir og vinir.  Sóknaraðili kvað forsendu sína fyrir sameiginlegri forsjá hafa verið þá að málsaðilar byggju hvor nálægt öðrum.  Þar sem málsaðilar hafa lýst yfir sátta­vilja, og þar sem ekki er fast í hendi að framtíðarheimili varnaraðila muni verða á Q, þykir rétt að hagga ekki nú sameiginlegri forsjá málsaðila yfir syni þeirra, enda má færa rök fyrir því að það geti komið börnum betur að foreldrar þeirra nái sátt heldur en að dómstólar séu látnir höggva á hnútinn.

Samkvæmt þessu og með vísan til heimildar í 2. mgr. 35. gr. er það niður­staðan að málsaðilar skuli hafa sameiginlega forsjá yfir barninu X á meðan forsjárdeila þeirra er til meðferðar, en lögheimili hans skuli vera hjá sóknaraðila.

             Þegar umgengni er ákvörðuð er önnur hver helgi algengt lágmarksviðmið.  Vegna ungs aldurs barnsins þykir það fyrirkomulag henta barninu betur að hitta varnaraðila oftar og skemur í senn, en sjaldnar og lengur með langt tímabil milli heimsókna.  Ef langt líður milli heimsókna, eins og til dæmis þrjár vikur, er erfiðara fyrir barnið að aðlagast í hvert sinn að varnaraðila og aðstæðum hans og nokkurra daga dvöl hjá honum leiðir einnig til þess að barnið þarf tíma til að aðlagast heimili sínu aftur.  Þar sem varnar­aðili hefur annast barnið mikið, og tengsl hans og barnsins virðast góð, þykir rétt að umgengnin sé rýmri heldur en lágmarsksumgengni.  Einnig þykir rétt að gefa barninu að minnsta kosti tvo fulla sólarhringa milli flugferðanna, austur og suður.  Eins og hér stendur á þykir rétt að umgengni sonar málsaðila við varnaraðila í hvert skipti sé frá fimmtudags­eftirmiðdegi til sunnudags­síðdegis.  Barnið er ekki komið á skólaaldur og ætti það ekki að raska því um of að stytta dvöl þess hjá dagmóður eitthvað tvisvar í mánuði og samkvæmt yfirlýsingu frá vinnuveitanda varnar­aðila hefur varnaraðili þann sveigjan­leika í vinnutíma sem hann þarf til að annast um barn sitt.  Það er óraunhæft að tímasetja umgengnina nákvæm­lega þar sem veður, og áhrif þess á færð og samgöngur til og frá austfjörðum, getur gert varnaraðila ókleift að halda nákvæmar tímasetningar.  Þó skal miður eftirmiðdagur, það er um það bil frá kl. þrjú til kl. fjögur, vera viðmiðunartími á fimmtudögum til þess að barnið verði komið á heimili varnaraðila á Q á kvöld­matartíma.  Einnig skal sunnudagssíðdegi, það er um það bil frá kl. sex til kl. sjö, vera viðmiðunar­tími á sunnudögum til þess að barnið verði komið til sóknaraðila á kvöldmatartíma þá daga.  Barnið skal því, þar til endanleg niðurstaða er komin í forsjár­deilu málsaðila, dveljast með varnaraðila frá fimmtu­dags­eftirmiðdegi til sunnudagssíðdegis aðra hverja viku.  Miðað við núgildandi samkomulag málsaðila á barnið að vera hjá sóknaraðila frá 18. nóvember til 2. desember.  Rétt þykir að hin reglulega helgarumgengni varnaraðila við barnið hefjist þann dag, 2. desember næst­komandi, og endurtaki sig svo á tveggja vikna fresti þaðan í frá.  Með því fyrirkomu­lagi verður barnið jólahelgina hjá sóknaraðila en um áramótin hjá varnaraðila.

             Það er barni málsaðila fyrir bestu að útkljá megi forsjárdeilu þeirra sem fyrst.  Margar ástæður geta þó leitt til þess að málið dragist og þykir því rétt að kveða nú þegar á um sumarumgengni.  Rétt þykir að barnið dvelji fjórar vikur í sumarleyfi með varnaraðila og skal varnaraðili tilkynna sóknaraðila fyrir 1. maí nk. á hvaða tímabilum hann hyggst taka sumarleyfi með drengnum.

             Með vísan til 53. gr., 56. gr., og 3. mgr. 57. gr. barnalaga skal varnaraðili greiða sóknaraðila meðlag með barni þeirra að sömu fjárhæð og barnalífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar er ákvarðaður á hverjum tíma frá uppkvaðningu úrskurðarins.

             Eftir þessum úrslitum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

             Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

             Sóknaraðili, K, og varnaraðili, M, skulu áfram fara sameiginlega með forsjá sonar sín X.

Lögheimili drengsins skal vera hjá sóknaraðila.

Drengurinn skal dveljast hjá varnaraðila aðra hverja helgi frá eftirmiðdegi á fimmtudegi til síðdegis næsta sunnudag á eftir, í fyrsta skipti frá 2. desember næstkomandi til 5. desember.  Drengurinn skal dvelja í fjórar vikur í sumarleyfi með varnaraðila.  Varnaraðili skal tilkynna sóknaraðila fyrir 1. maí nk. á hvaða tímabilum sumarsins hann hyggst taka sumarleyfi með drengnum.

Varnaraðili greiði meðlag til sóknaraðila með drengnum að sömu fjárhæð og barna­lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar er ákvarðaður á hverjum tíma frá uppkvaðningu úrskurðarins þar til forsjárdeila málsaðila er útkljáð.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.