Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Kröfulýsingarfrestur
- Vanlýsing
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2011. |
|
Nr. 14/2011. |
H (Kristján B. Thorlacius hrl.) gegn B (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Kröfulýsingarfrestur. Vanlýsing.
Dánarbú A, föður B, var tekið til gjaldþrotaskipta 16. júní 2009. A átti lögheimili erlendis en hafði fasta búsetu á Í er hann lést. Meðal lýstra krafna í búið var krafa H sem var tilkomin vegna lánasamnings við félagið G en A var einn eigandi þess og hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu vegna skuldbindinga G samkvæmt lánasamningnum. Krafan barst skiptastjóra 29. október 2009, tæpur tveimur mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Skiptastjóri taldi kröfuna ekki niður fallna vegna vanlýsingar og samþykkti hana inn á kröfulýsingarskrá. Í dómi Hæstaréttar var talið að H hefði ekki mátt vera kunnugt um að bú A hefði verið tekið til opinberra skipta og fallist á að ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 ættu við. Fyrir lægi að íslensk lögmannsstofa á vegum H hóf innheimtuaðgerðir 27. ágúst 2009 vegna skuldbindinga A og miða bæri við að H yrði samsamaður lögmannsstofunni þegar metið væri hvort hann ætti að glata þeim rétti sem hann hefði samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Talið var að H yrði að bera hallann af því að hafa freistað þess að nýta hagræði leitarvélar á vefsvæði Lögbirtingablaðsins sem ekki skilaði árangri. Kröfulýsing H í dánarbúið var ekki móttekin fyrr en 29. október 2010 þótt krafan hafi verið send til innheimtu í ágústmánuði. Yrði að fallast á með B að H hefði ekki lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa frá því að honum mátti vera kunnugt um að bú hins látna hafi verið tekið til opinberra skipta. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila og hrundið ákvörðun skiptastjóra 4. febrúar 2010 í dánarbúi A um að krafa sóknaraðila að fjárhæð 472.616.289 krónur skuli komast að við skipti á dánarbúinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á kröfu hans um staðfestingu á framangreindri ákvörðun skiptastjóra. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
A, sem lést 12. apríl 2009, átti lögheimili í [...] í [...], en hafði einnig dvalarstað hér á landi, þar sem hann átti heimili með sambúðarkonu sinni. A átti [...] börn og varnaraðili er eitt þeirra. Hann var einn af eigendum félagsins G sem skráð var í [...]. Sóknaraðili og G gerðu með sér lánssamning 22. maí 2007, en samkvæmt honum veitti sóknaraðili félaginu lán að fjárhæð 8.400.000 evrur. Gerður var viðbótarlánssamningur sömu aðila 11. október 2007 þar sem sóknaraðili veitti lán að fjárhæð 3.300.000 evrur. Þá var gerður lánssamningur 2. júní 2008, en samkvæmt honum veitti sóknaraðili G lán að fjárhæð 2.500.000 evrur. Sama dag tókst A ásamt tveimur öðrum mönnum á herðar óskipta ábyrgð á láninu samkvæmt samningnum, en gjalddagi þess var 27. júní 2008.
Með ákvörðun dómstóls í [...] 12. desember 2008 var sóknaraðili tekinn til slita og félaginu skipuð slitastjórn. Hún sendi G bréf 21. janúar 2009 þar sem krafist var aukinna trygginga fyrir láni því, sem veitt var 22. maí 2007. Var veittur frestur til að skila viðbótartryggingu til 6. febrúar 2009. Þessari kröfu mun ekki hafa verið sinnt. Í héraðsgreinargerð sóknaraðila kemur fram að starfsmaður hans hafi verið í sambandi við A um innheimtu skuldarinnar og uppgjör skulda hans við bankann, en þær viðræður hafi ekki leitt til niðurstöðu þegar A lést.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2009 var fallist á kröfu um að dánarbú hins látna yrði tekið til opinberra skipta. Helgi Birgisson hæstaréttarlögmaður, var skipaður skiptastjóri í búinu sama dag. Á skiptafundi 25. júní 2009 lýstu erfingjar hins látna yfir því, að þeir tækju ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins. Á fundinum leitað skiptastjóri einnig upplýsinga hjá erfingjum um efnahag dánarbúsins og er bókað að erfingjum sé ekki kunnugt um eignir þess í [...]. Þá eru tilgreindar í nokkrum liðum eignir hins látna en meðal þeirra er sagður hlutur í ,,I, sem síðan á hlut í G ehf. (56%).“ Jafnframt er bókað ,,Þá mun A vera í 30 mkr. sjálfskuldarábyrgð við I vegna G. ... Skiptastjóri upplýsir umboðsmenn erfingja að hann hafi átt fund með starfsmanni skilanefndar Landsbanka um málefni G ehf. og þar hafi komið fram ósk nefndarinnar um að dánarbúið setti fulltrúa sinn í stjórn félagsins.“ Hvorki kemur fram að hinn látni hafi verið í ábyrgð fyrir skuldbindingu G né að hann hafi verið í ábyrgð vegna skuldbindinga sem stofnað hafi verið til hjá sóknaraðila.
Skiptastjóri gaf út innköllun til skuldheimtumanna 26. júní 2009, sem birt var í Lögbirtingablaði fyrra sinni 2. júlí sama ár. Kröfulýsingafresti lauk 2. september 2009.
Í gögnum málsins kemur ekki fram hvenær í ágústmánuði 2009 sóknaraðili fól lögmannsstofu hér á landi að innheimta kröfu sína vegna ábyrgðarinnar á hendur hinum látna. Lögmannsstofan sendi út innheimtubréf 27. ágúst 2009, sem stílað var á dánarbú hins látna, og var því beint til síðasta dvalarstaðar hans á Íslandi og á skrifstofu sem hann mun hafa haft í Reykjavík. Kröfu sóknaraðila um greiðslu ábyrgðarfjárhæðarinnar var lýst í dánarbúið og móttekin af skiptastjóra 29. október 2009, tæpum tveimur mánuðum eftir að kröfulýsingafresti lauk. Hefur sóknaraðili skýrt síðbúna kröfulýsingu sína svo, að það sé erlent félag, sem hvorki hafi vitað né mátt vera kunnugt um að fram færu opinber skipti á dánarbúi hins látna og sér hafi ekki verið um það kunnugt fyrr en í þann mund er kröfulýsing var send. Hafi rafræn leit í Lögbirtingarblaði ekki gefið til kynna að innköllun hefði verið birt.
Á skiptafundi í dánarbúinu 4. febrúar 2010 lagði skiptastjóri meðal annars fram kröfuskrá þar sem fram kom að krafa sóknaraðila væri samþykkt af hans hálfu. Rökstuddi skiptastjóri það með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 þar sem kröfuhafi væri erlendur og bæri því við að sér hefði ekki verið kunnugt um hin opinberu skipti á dánarbúinu. Varnaraðili andmælti þessari afstöðu. Haldinn var sérstakur skiptafundur 28. apríl 2010 til að fjalla um ágreininginn og þar sem ekki tókst að jafna hann, ákvað skiptastjóri að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms, sbr. 3 mgr. 71. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991.
II
Sóknaraðili reisir kröfu sína einkum á því að skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 sé fullnægt. Félagið leggur áherslu á að það sé með lögheimili og starfsemi í [...], en hafi aldrei haft starfsemi á Íslandi. Tengsl þess við móðurfélagið, I hf., hafi rofnað þegar félagið fékk greiðslustöðvun 8. október 2008 og var síðar tekið til slita 12. desember sama ár, eins og fyrr segir. Þeir sem farið hafi með málefni félagsins eftir þetta hafi verið til þess skipaðir af dómstól í [...] og ekki haft þekkingu á íslenskum málefnum. Þá telur sóknaraðili að skiptastjóra hafi borið að kanna sérstaklega eignir og skuldir hins látna og í því skyni hafi hann átt að kanna skuldbindingar sem hann kynni að hafa stofnað til í útlöndum, en alkunna hafi verið að þar hefði hinn látni verið með umfangsmikil viðskipti. Vísar sóknaraðili til þess að í 55. gr. laga nr. 20/1991 sé mælt fyrir um að skiptastjóri skuli leita vitneskju um skuldbindingar búsins meðal annars hjá þeim sem vitað er, eða telja má líklegt, að hafi átt í viðskiptum við hinn látna. Telur sóknaraðili að af þessu leiði að skiptastjóra hafi borið að leita vitneskju um skuldbindingar búsins erlendis eftir atvikum með því að auglýsa skiptin í löndum þar sem vitað var að hinn látni hafði viðskipti.
Varnaraðili telur að staðfesta beri hinn kærða úrskurð þar sem kröfu sóknaraðila hafi verið lýst alltof seint. Ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 sé undantekningarregla, sem skýra verði þrengjandi lögskýringu. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili sé fjármálafyrirtæki sem gera megi þær kröfur til að það gæti sérstaklega að hagsmunum sínum að þessu leyti. Ábyrgðarskuldbinding hins látna hafi verið há og í vanskilum fyrir andlátið. Að auki hafi sóknaraðili tengsl við atvinnulíf á Íslandi. Mestu skipti þó að innheimtuaðgerðir sóknaraðila hér á landi hafi verið hafnar af íslenskri lögmannsstofu áður en kröfulýsingarfresti lauk. Lögmannsstofunni hafi verið í lófa lagið að lýsa kröfunni innan kröfulýsingafrests. Eigi því ekki að koma til álita að beita undantekningarreglu þeirri, sem sé að finna í síðastgreindu ákvæði laga nr. 20/1991. Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu, sem sóknaraðili hefur einnig teflt fram, að gallar á leitarvél á vef Lögbirtingablaðs hafi þýðingu. Kveður varnaraðili að almennt sé ekki unnt að leita eftir kennitölu á vef blaðsins. Loks áréttar varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að staða hans sé slík að beita beri framangreindri undantekningarreglu.
III
Atvik máls þessa eru óumdeild að því leyti sem þýðingu hefur. Sóknaraðili var í sambandi við A fyrir andlát hans vegna skuldbindinga hans við bankann. Sóknaraðili sendi kröfu þá, sem mál þetta varðar, til innheimtu hjá íslenskri lögmannsstofu í ágúst 2009 og var innheimtubréf sent 27. þess mánaðar. Þá þegar var fyrir hendi vitneskja um andlát A, en ekki um að bú hans hefði verið tekið til opinberra skipta og innköllun þegar birt. Kröfulýsingarfresti lauk nokkrum dögum síðar, 2. september sama ár.
Ekki kemur fram í gögnum málsins að hvaða marki skiptastjóri í dánarbúinu leitaði vitneskju um skuldbindingar hins látna erlendis. Innköllun til þeirra, sem töldu til réttinda á hendur dánarbúinu, sbr. 56. gr. laga nr. 20/1991, var aðeins birt á Íslandi, enda stóð ekki skylda til annars, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Í 56. gr. laganna er ekki að finna fyrirmæli til skiptastjóra um að honum beri að tilkynna þekktum lánardrottnum um innköllun og kröfulýsingarfrest. Tilgangur innköllunar er að afla á skömmum tíma tæmandi upplýsinga um skuldbindingar dánarbúsins. Til þess að vanlýsing hafi þau réttaráhrif að krafa á búið falli niður, sé henni ekki lýst innan kröfulýsingarfrests, verður kröfuhafi að hafa átt þess raunahæfan kost að lýsa kröfu sinni. Innköllun var ekki birt í [...] þar sem sóknaraðili hefur starfstöð og aðsetur og ekki er um það deilt að hann fékk ekki sérstaka tilkynningu um að bú hins látna hefði verið tekið til opinberra skipta og hvaða réttarárhrif það hefði. Honum mátti því ekki vera um það kunnugt. Á því við ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991. Fyrir liggur að íslensk lögmannsstofa á vegum sóknaraðila hóf innheimtuaðgerðir 27. ágúst 2009, sex dögum áður en kröfulýsingarfrestur rann út, en af gögnum málsins verður ekki ráðið hvenær lögmannsstofan fékk kröfuna til innheimtu. Miða ber við að sóknaraðili verði samsamaður lögmannsstofunni þegar metið er hvort hann eigi að glata þeim rétti, sem framangreint lagaákvæði getur veitt honum, þar sem hann hafi vitað eða mátt vita um opinberu skiptin, þegar lögmannsstofan hóf innheimtuna, en ekki lýst kröfunni án ástæðulausra tafa.
Samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laga nr. 20/1991 ber að birta innköllun til skuldheimtumanna í dánarbú í Lögbirtingablaði. Með reglugerð nr. 623/2005 um útgáfu Lögbirtingablaðs var ákveðið að útgáfan skyldi vera rafræn og eru réttaráhrif auglýsinga í því miðuð við rafræna birtingu þeirra á vefsvæði þess, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Sóknaraðili hefur lýst viðleitni sinni til þess að nýta hagræði leitarvélar og leita með rafrænum hætti á vefsvæði blaðsins eftir því hvort gefin hafi verið út innköllun til skuldheimtumanna dánarbúsins. Sú leit hafi ekki skilað árangri. Kveður hann það hafa verið gert bæði eftir kennitölu hins látna og nafni hans. Af hálfu sýslumannsins í Vík, sem hefur samkvæmt reglugerðinni umsjón með útgáfu blaðsins, hefur verið upplýst að ekki sé unnt að leita eftir kennitölu á vefsvæðinu. Á hinn bóginn sé unnt að ,,leita eftir nafni.“ Því andmælir sóknaraðili og hefur til staðfestingar lagt fram útprentanir um svör á vefnum við einstökum þrepum í slíkri leit. Þótt útgáfa Lögbirtingablaðs sé samkvæmt framasögðu rafræn, er unnt að leita í hverju eintaki þess síðu fyrir síðu með sama hætti og áður. Sóknaraðili verður að bera hallann af því í þessu máli að hafa freistað þess að nýta hagræði leitarvélar, sem ekki skilaði árangri. Eins og áður segir var kröfulýsing hans í dánarbúið ekki móttekin fyrr en 29. október 2010 þótt krafan hafi verið send til innheimtu í ágústmánuði. Verður fallist á með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa frá því að honum mátti vera kunnugt um að bú hins látna hafði verið tekið til opinberra skipta.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, H, greiði varnaraðila, B, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2010.
I.
Mál þetta, sem barst til dómsins með bréfi héraðsdóms Reykjavíkur dagsettu 20. september 2010 eftir að í ljós kom að beiðni um úrlausn ágreiningsins var ekki send réttum héraðsdómi. Héraðsdómur Reykjaness skipaði skiptastjóra í db. A en varnaraðili B er dóttir A. Var beiðni skiptastjórans, Helga Birgissonar hrl., um að héraðsdómur leysti úr ágreiningi um kröfur í db. A móttekin í Héraðsdómi Reykjaness þann 21. september 2010 og var málið tekið til úrskurðar 1. desember 2010.
Sóknaraðili er H, [...], [...], [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði með úrskurði ákvörðun skiptastjóra í db A frá 4. febrúar 2010 um að krafa sóknaraðila komist að við skiptin. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila í db. A verði hafnað eða með öðrum orðum að ákvörðun skiptastjóra frá 4. febrúar 2010,um að krafa sóknaraðila komist að við skiptin, verði hrundið. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II.
Um málavexti vísa báðir málsaðilar til bréfs skiptastjóra frá 28. apríl 2010 til héraðsdóms.
Er lýsing hans í meginatriðum á þessa leið:
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 16. júní 2009 var dánarbú A tekið til gjaldþrotaskipta. Helgi Birgisson hæstaréttarlögmaður var skipaður skiptastjóri þrotabúsins á úrskurðardegi.
A heitinn átti lögheimili í [...] í [...], en hafði fasta búsetu á Íslandi er hann lést. Sambýliskona hans var C og áttu þau tvö börn, D, kt. [...] og E, kt. [...]. Varnaraðili, B, er dóttir hins látna og F. Framangreind börn eru erfingjar hins látna.
Á skiptafundi í dánarbúinu föstudaginn 25. júní 2009 lýstu erfingjar því yfir að þeir tækju ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins. Um meðferð krafna á hendur búinu fer því samkvæmt VII. kafla laga nr. 20/1991.
Innköllun hin fyrri birtist í Lögbirtingarblaði 2. júlí 2009. Kröfulýsingarfresti lauk því 2. september 2009.
Meðal lýstra krafna í búið var krafa þrotabús H að fjárhæð 472.616.289 krónur. Krafan barst skiptastjóra 29. október 2009, tæpum tveimur mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Í kröfulýsingunni segir m.a. að kröfuhafa, sem er erlent félag með starfsemi í [...], hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um að opinber skipti færu fram á dánarbúi A og ekki orðið það ljóst fyrr raun bar vitni.
Að teknu tilliti til framangreindra skýringa kröfuhafans og með vísan til 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laga 20/1991 taldi skiptastjóri kröfuna ekki niður fallna vegna vanlýsingar og samþykkti hana í kröfuskrá.
Á skiptafundi um kröfuskrá 4. febrúar 2010 andmælti lögmaður varnaraðila því að krafa H kæmist að við skiptin vegna vanlýsingar. Lögmaður sóknaraðila, mótmælti þessari afstöðu og krafðist þess að krafan kæmist að.
Miðvikudaginn 28. apríl 2010 var haldinn skiptafundur í dánarbúinu til að fjalla um framangreindan ágreining um viðurkenningu á kröfu sóknaraðila. Þar kemur fram í fundargerð ítrekun á kröfu varnaraðila vegna vanlýsingar kröfunnar vegna þess
að ekki sé afsakanlegt að henni hafi verið lýst eftir kröfulýsingarfrest, enda hafi H/I, bæði hér á landi og í [...], verið fullkunnugt um stöðu allra mála hér á landi, þ.m.t. töku dánarbúsins til opinberra skipta. Lögmaður sóknaraðila mótmælti þessu og sérstaklega þeirri fullyrðingu að H/I hér á landi eða í [...] hafi verið eða mátt vera kunnugt um hin opinberu skipti. Hann áréttaði að I væri ekki aðili að málinu.
Ekki tókst að jafna ágreininginn og ákvað skiptastjóri að vísa honum til Héraðsdóms til úrlausnar samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991.
Í atvikalýsingu sóknaraðila kemur m.a. fram að í kröfulýsingu hans í dánarbúið dags 29. október 2009 þá sé skuld sú sem málið snýst um tilkomin vegna lánasamnings H sem lánveitanda og kröfuhafa við G, en A var einn eiganda þess félags. Félagið hafi tekið að láni með lánasamningum dags 22. maí 2007, 8.400.000 evrur, með viðauka við lánasamninginn dags 11. október 2007, 3.300.000 evrur og með lánasamningi dags 2. júní 2008, 2.500.000 evrur.
Með samningi dags 2. júní 2008 hafi A tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu á 2.500.000 evra vegna skuldbindinga G gagnvart H samkvæmt lánasamningi dags 2. júní 2008 að fjárhæð 2.500.000 evrur. Gjalddagi lánasamningsins var þann 27. júní 2008. Með bréfi dags 21. janúar 2009 var G sent bréf með yfirlýsingu um veðkall þar sem tilkynnt var að H gerði kröfu um að lagðar yrðu fram frekari tryggingar fyrir greiðslu lánsins. Í bréfinu kom fram félaginu væri veittur frestur til 6. febrúar 2009 til að leggja fram frekari veð sem H mæti fullnægjandi. Sérstaklega var tekið fram að yrði ekki orðið við þessari áskorun þá yrði ekki hjá því komist að krefjast endurgreiðslu lánanna þegar í stað í samræmi við ákvæði lánasamninganna. Starfsmaður H hafi verið í samskiptum við A eða fulltrúa hans varðandi innheimtu skuldarinnar og frágang mála hans gagnvart H. Niðurstaða hafi hins vegar hins ekki verið fengin þegar A lést.
Daginn áður en kröfunni var lýst hafði komið í ljós að búið var að taka dánarbú A til opinberra skipta þegar leitað var upplýsinga hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði um hver væri skráður fyrirsvarsmaður dánarbúsins hjá embættinu. Kröfulýsing vegna kröfu sóknaraðila hafi tafarlaust verið send skiptastjóra og kröfunni þannig lýst í dánarbúið.
Um forsögu málsins vísar varnaraðili auk þess sem áður segir til þess sem fram kemur í málsatvikakafla greinargerðar sóknaraðila. Til viðbótar þessu lætur hann þess getið að við þinghald í máli þessu þann 11. júní 2010 hafi hann skorað sérstaklega á lögmann sóknaraðila að upplýsa í greinargerð hvenær sóknaraðili hafi hafið innheimtuaðgerðir á kröfu þeirri sem málið snýst um. Vissulega sé að einhverju leyti frá því greint í greinargerðinni, en það sem mestu skiptir kemur ekki fram þar en það sé að innheimtuaðgerðir hér á landi voru hafnar nokkru áður en kröfulýsingarfresti lauk sbr. innheimtubréf á dómskjali nr. 14 sem sent var í ábyrgðarpósti til dánarbúsins, bæði á dvalarstað A heitins í [...] og á skrifstofu hans í [...]. Þá vekur varnaraðili athygli á fjölmiðlaumfjöllun um andlát A sem fram kemur á dómskjölum nr. 15-17, en af þeim ætti að vera ljóst að andlát hans hafi ekki getað farið framhjá lögmönnum sóknaraðila hér á landi.
III.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að staðfesta verði ákvörðun skiptastjóra og fallast á kröfu hans í dánarbú A á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 58. greinar skiptalaga nr. 20/1991. Sóknaraðili sé erlent félag, með lögheimili í [...], sem aldrei hefur haft starfssemi á Íslandi. Um sé að ræða sjálfstætt hlutafélag sem stofnað var í [...] og var fram til október 2008, rekið sem [...], í samræmi við þarlendar reglur. Í 58. gr. skiptalaga segi efnislega að sé kröfu á hendur búi ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 56. gr. þá fellur hún niður gagnvart búinu nema með undantekningum. Vitnar sóknaraðili til 2. tl. 1. mgr.58. gr. laganna en þar segir að til undantekninga heyri sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um opinberu skiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað var til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Á þessum sjónarmiðum hafi kröfulýsing sóknaraðila til skiptastjóra dags 29. október 2009 m.a. verið byggð. Engin tilkynning hafi borist sóknaraðila um skiptin. Þann 8. október 2008 var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar og með úrskurði héraðsdómsstóls í [...] þann 12. desember 2008 var félagið tekið til slita- og skiptameðferðar og umsjónarmenn skipaðir. Í þessu sambandi er á það bent að jafnvel þótt samband hafi verið á milli I og H í [...] fram til október mánaðar árið 2008 þá hafi það samband rofnað þegar H fékk greiðslustöðvun þann 8. október 2008 og síðan þegar H var settur í slita- og skiptameðferð þann 12. desember 2008 enda fóru mismunandi aðilar með stjórn frá þeim tíma. Þannig hafi skiptastjórar, sérstaklega skipaðir af dómstólum í [...], farið með málefni sóknaraðila og höfðu hvorki þeir, né starfsmenn sóknaraðila neinar forsendur eða heimildir til að vera í sambandi við starfsmenn eða stjórnendur I varðandi stöðu einstakra viðskiptamanna. Upplýsingar sem I hafði um stöðu mála A og síðar dánarbús hans bárust ekki til starfsmanna sóknaraðila og því hafi vitneskja starfsmanna hins íslenska I, enga þýðingu við úrlausn þessa máls.
Af hálfu sóknaraðila er einnig til þess vísað og á því byggt að í 55. grein skiptalaga komi fram að skiptastjóri skuli svo fljótt sem við verður komið leita vitneskju um skuldbindingar búsins, eftir atvikum með könnun á gögnum hins látna og þinglýstra heimilda og með fyrirspurnum til erfingja, innheimtumanna opinberra gjalda og þeirra sem er vitað eða má telja líklegt að hafi átt í viðskiptum við hinn látna. Í bréfi skiptastjóra á dómskjali nr. 1 komi fram að hinn látni átti lögheimili í [...] í [...] þegar hann lést. Auk þess sé ljóst að hinn látni átti og hafði átt í viðskiptum víða um heim og átti fyrirtæki, fasteignir og lausafé bæði hér á landi og erlendis. Af því leiðir að mati sóknaraðila að skiptastjóra hafi borið að afla sér upplýsinga um eignir og skuldbindingar dánarbúsins mun víðar en á Íslandi. Í þessu sambandi er vísað til þess að hinn látni hafi tvímælalaust talist vera í hópi þeirra sem átti í verulegum viðskiptum við dótturfélög íslenskra fjármálafyrirtækja í [...], þ.m.t. sóknaraðila. Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skiptastjóra hafi borið í samræmi við ákvæði 55. greinar skiptalaga að leita vitneskju um skuldbindingar búsins erlendis, annað hvort með því að hafa beint samband við þær lánastofnanir sem helst komu til greina eða með því að auglýsa skiptin í fjölmiðlum ytra og koma þannig á framfæri upplýsingum til hugsanlegra kröfuhafa hins látna. Þá hefði skiptastjóra átt að vera í lófa lagið að leita sér upplýsinga um skuldbindingar hins látna við sóknaraðila með því að ræða við starfsmenn eða samstarfsmenn hins látna hér á landi, en eins og gögn málsins bera með sér voru viðskiptafélagar hins látna samábyrgðarmenn hans vegna viðskipta G við sóknaraðila og hefðu því getað upplýst um skuldbindingar dánarbúsins við sóknaraðila. Þá er á það bent að starfsmenn sóknaraðila voru ítrekað í sambandi við hinn látna og fulltrúa hans vegna skuldbindinga hans við H. Með vísan til þessa telur sóknaraðili að skiptastjóra hafi borið að tilkynna H um hin opinberu skipti og gera honum þannig kleift að gæta réttar síns gagnvart dánarbúinu innan kröfulýsingarfrests. Þar sem H barst engin slík tilkynning var honum ekki kunnugt um hin opinberu skipti og því verður að fallast á að ákvæði 2. tl 1. mgr. 58. greinar skiptalaga eigi við í málinu.
Sóknaraðili vísar til
ákvæða VI. og
IV.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hafna beri kröfu sóknaraðila af þeim ástæðum að henni hafi verið lýst allt of seint og eigi því að falla niður skv. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991. Reglan í 2. tl 1. mgr. 58. gr. laganna sé undantekningarregla frá almennu reglunni um að allir verði að lýsa kröfum sínum innan kröfulýsingarfrests. Slíka undantekningarreglu beri að túlka þröngt samkvæmt hefðbundnum og viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum. Við mat á því hvort slík undantekningarregla eigi að gilda verði að líta til atvika málsins og hverjir málsaðilarnir eru. Í þessu tilviki sé það fjármálafyrirtæki sem eigi í hlut en ekki einstaklingur eða félag í ótengdum rekstri. Það hljóti að verða að gera þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þau gæti sérstaklega að hagsmunum sínum að þessu leyti og því ætti undantekningarreglan síður að gilda. Þá er sérstaklega bent á að fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar A heitins var mjög há og vanskil þegar orðin. Þetta hefði átt að kalla á enn vandaðri og varkárari vinnubrögð af hálfu sóknaraðila í því að gæta að hagsmunum sínum í málinu. Þá verði óneitanlega ekki hjá því vikist að benda á augljós tengsl sóknaraðila við Ísland (dótturfélag I) með fjöldann allan af íslendingum með tengsl inn í íslenskt atvinnulíf á launaskrá sinni, sem í raun geri sóknaraðila einungis að forminu til „erlendan aðila“ í þessu sambandi.
Það sem hins vegar mestu máli skiptir í þessu sambandi sé að innheimtuaðgerðir hér á landi af hálfu íslenskrar lögmannsstofu hafi verið hafnar áður en kröfulýsingarfresti lauk. Undantekningarreglan í 58. gr. laga nr. 20/1991 eigi því yfir höfuð ekkert að koma til skoðunar í máli þessu. Lögmannsstofu sóknaraðila hafi verið lófa lagið að lýsa kröfu innan kröfulýsingarfrests en það hafi hún ekki gert. Afleiðingar þeirrar handvammar hljóta að eiga að bitna á sóknaraðila, en ekki erfingjum A heitins, en fyrir liggur að ef krafa sóknaraðila verður samþykkt munu erfingjar A heitins (varnaraðili og tvö hálfsystkini hennar) ekki fá neinn arf eftir föður sinn. Af sömu ástæðum og að framan greinir skiptir það ekki máli í þessu sambandi þó skiptastjóri hafi ekki gert sérstakan reka að því að leita uppi kröfu sóknaraðila svo sem gagnrýnt er í greinargerð sóknaraðila. Krafan var til innheimtu hér á landi.
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram í kröfulýsingu að þegar leitað hafi verið í gagnasafni Lögbirtingablaðsins með leitarvél um A, þá hafi ekki komið fram auglýsing skiptastjóra um innköllun vegna búsins. Það sem skipti máli er að innköllun var birt svo sem lög gera ráð fyrir. Hún birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaðinu þann 2. júlí 2009 og kröfulýsingarfresti lauk því þann 2. september 2009 án þess að kröfu sóknaraðila væri lýst. Í engum tilfellum sé hægt að leita eftir upplýsingum um opinber skipti eftir kennitölu á vef Lögbirtingarblaðsins samanber staðfestingu þar að lútandi á dómskjali nr. 18. Sérstök athygli er vakin á því að óvenju mikið fór fyrir umfjöllun um andlát A í fjölmiðlum sbr. það sem m.a. kemur fram á dómskjölum nr. 14-17. Hefði það enn frekar átt að kalla á aðgerðir og aðgát af hálfu sóknaraðila og/eða lögmanna hans. Sóknaraðili hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir því að undantekningarreglan í 58. gr. laga nr. 20/1991 eigi við í máli þessu.
Fram komi í greinargerð sóknaraðila (bls. 2) að krafist var frekari trygginga (veðkall) vegna kröfunnar sem um ræðir í máli þessu þann 21. janúar 2009, að öðrum kosti yrði gengið að tryggingum, væntanlega þar með talið ábyrgð A. Síðan komi fram að ekki hafi verið brugðist við þessu. Hins vegar hafi starfsmaður H verið í samskiptum við A en niðurstaða ekki fengin þegar A andaðist. Svo segir í greinargerðinni: "Ekki hefur tekist að fá upplýsingar frá H um þessi samskipti, þar sem viðkomandi starfsmaður H hefur látið af störfum og þessi samskipti liggja ekki fyrir í gögnum málsins hjá H." Þetta sé óheppilegt fyrir sóknaraðila en hann verði að bera hallann af því að þetta liggi ekki fyrir. Þar fyrir utan feli þetta í sér staðfestingu á að sóknaraðili var að vinna í málinu um það leyti sem A deyr og í aðdraganda þess. Einnig blasi vitanlega við að G, á þessum tíma eftir hrun, var í mjög slæmum málum fjárhagslega, þar með talið A sjálfur. Hér hafa allar viðvörunarbjöllur sóknaraðila hringt. Á þessum tíma rétt fyrir og um það leyti sem A deyr voru allar kröfur fallnar í gjalddaga og í vanskilum og ábyrgð A orðin virk. Á því sé stór munur og þegar krafa er eftir efni sínu ekki fallin í gjalddaga við töku bús til opinberra skipta og jafnvel í skilum.
V.
Kröfulýsingarfresti í db. A lauk 2. september 2009.
Meðal lýstra krafna í búið var krafa þrotabús H að fjárhæð 472.616.289 krónur. Krafan barst skiptastjóra 29. október 2009, tæpum tveimur mánuðum eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Með tilliti til skýringa kröfuhafans og vísan til 2. tl. 1. mgr. 58. gr. skiptalaga nr. 20/1991 taldi skiptastjóri kröfuna ekki niður fallna vegna vanlýsingar og samþykkt hana á kröfuskrá.
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra og fallist á kröfu hans í dánarbú A á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 58. greinar skiptalaga nr. 20/1991. Sóknaraðili sé erlent félag, með lögheimili í [...], sem aldrei hefur haft starfssemi á Íslandi. Sóknaraðili sé sjálfstætt hlutafélag og hafi fram til október 2008 verið rekið sem [...] í samræmi við þarlendar reglur. Í 58. gr. skiptalaga segi efnislega að sé kröfu á hendur búi ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 56. gr. þá falli hún niður gagnvart búinu nema með undantekningum. Vitnar sóknaraðili til 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laganna en þar segir að til undantekninga heyri sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um opinberu skiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Á þessum sjónarmiðum hafi kröfulýsing sóknaraðila til skiptastjóra dags 29. október 2009 m.a. verið byggð enda engin tilkynning borist til hans um skiptin. Þann 8. október 2008 var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar og með úrskurði héraðsdómsstóls í [...] þann 12. desember 2008 var félagið tekið til slita- og skiptameðferðar og umsjónarmenn skipaðir. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að jafnvel þótt samband hafi verið á milli I og H í [...] fram til október mánaðar árið 2008 þá hafi það samband rofnað þegar H fékk greiðslustöðvun þann 8. október 2008 og síðan þegar H var settur í slita- og skiptameðferð þann 12. desember 2008 enda fóru mismunandi aðilar með stjórn frá þeim tíma. Þannig hafi skiptastjórar, sérstaklega skipaðir af dómstólum í [...], farið með málefni sóknaraðila og höfðu hvorki þeir, né starfsmenn sóknaraðila neinar forsendur eða heimildir til að vera í sambandi við starfsmenn eða stjórnendur I varðandi stöðu einstakra viðskiptamanna. Upplýsingar sem I hafði um stöðu mála A og síðar dánarbús hans bárust ekki til starfsmanna sóknaraðila og því hafi vitneskja starfsmanna I, enga þýðingu við úrlausn þessa máls.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hafna beri kröfu sóknaraðila af þeim ástæðum að henni hafi verið lýst allt of seint og eigi því að falla niður skv. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991. Reglan í 2. tl 1. mgr. 58. gr. laganna sé undantekningarregla frá almennu reglunni um að allir verði að lýsa kröfum sínum innan kröfulýsingarfrests. Slíka undantekningarreglu beri að túlka þröngt samkvæmt hefðbundnum og viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum. Við mat á því hvort slík undantekningarregla eigi að gilda verði að líta til atvika málsins og hverjir málsaðilarnir eru. Í þessu tilviki sé það fjármálafyrirtæki sem eigi í hlut en ekki einstaklingur eða félag í ótengdum rekstri. Það hljóti að verða að gera þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þau gæti sérstaklega að hagsmunum sínum að þessu leyti og því ætti undantekningarreglan síður að gilda.
Varnaraðili bendir á að fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar A heitins sé mjög há og vanskil þegar orðin. Þetta hefði átt að kalla á enn vandaðri og varkárari vinnubrögð af hálfu sóknaraðila í því að gæta að hagsmunum sínum í málinu. Þá verði óneitanlega ekki hjá því vikist að benda á augljós tengsl sóknaraðila við Ísland (dótturfélag I) með fjöldann allan af íslendingum með tengsl inn í íslenskt atvinnulíf á launaskrá sinni, sem í raun gerir sóknaraðila einungis að forminu til „erlendan aðila“ í þessu sambandi.
Varnaraðili telur hins vegar mestu máli skipta í þessu sambandi að innheimtuaðgerðir hér á landi af hálfu íslenskrar lögmannsstofu voru hafnar áður en kröfulýsingarfresti lauk sbr. innheimtubréf á dómskjali nr. 14. Undantekningarreglan í 58. gr. laga nr. 20/1991 eigi því yfir höfuð ekkert að koma til skoðunar í máli þessu. Lögmannsstofu sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að lýsa kröfu innan kröfulýsingarfrests en það gerði hún ekki. Afleiðingar þeirrar handvammar hljóti að eiga að bitna á sóknaraðila, en ekki erfingjum A heitins. Af sömu ástæðum og að framan greinir skipti það ekki máli í þessu sambandi þó skiptastjóri hafi ekki gert sérstakan reka að því að leita uppi kröfu sóknaraðila svo sem gagnrýnt er í greinargerð sóknaraðila. Krafan var til innheimtu hér á landi. Af hálfu sóknaraðila sé því haldið fram í kröfulýsingu að þegar leitað hafi verið í gagnasafni Lögbirtingablaðsins með leitarvél um A, þá hafi ekki komið fram auglýsing skiptastjóra um innköllun vegna búsins. Það sem skipti máli er að innköllun var birt svo sem lög gera ráð fyrir. Hún birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaðinu þann 2. júlí 2009 og kröfulýsingarfresti lauk því þann 2. september 2009 án þess að kröfu sóknaraðila væri lýst. Í engum tilfellum sé hægt að leita eftir upplýsingum um opinber skipti eftir kennitölu á vef Lögbirtingarblaðsins. Varnaraðili vekur sérstaka athygli á því að óvenju mikið fór fyrir umfjöllun um andlát A í fjölmiðlum sem hefði frekar en hitti átt að kalla á aðgerðir og aðgát af hálfu sóknaraðila og/eða lögmanna hans.
Niðurstaða:
Ljóst er að niðurstaða máls þessa ræðst af því hvort sóknaraðili fái nýtt sér undantekningarákvæði 2. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991 en þar segir að til undantekninga heyri sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um opinberu skiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað var til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Sönnunarbyrðin um þetta hvílir á sóknaraðila. Ekki er um það deilt að hann er aðili sem telst búsettur erlendis, kröfunni var lýst án ástæðilausra tafa og áður en boðað var til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Ekki þykir ástæða til þess að rengja sóknaraðila um að honum hafi ekki verið kunnugt um skiptin. Þá er eftir að taka afstöðu til þess hvort honum mátti vera um skiptin kunnugt fyrir lok kröfulýsingarfrestsins. Við mat á þessu verður ekki fram hjá því litið að innheimtuaðgerðir hér á landi af hálfu íslenskrar lögmannsstofu voru hafnar áður en kröfulýsingarfresti lauk sbr. innheimtubréf á dómskjali nr. 14 sem sent var í ábyrgðarpósti til dánarbúsins, bæði á dvalarstað A heitins í [...] og á skrifstofu hans í [...]. Lögmannsstofu sóknaraðila var í lófa lagið að lýsa kröfu innan kröfulýsingarfrests. Telur dómari að hin undirliggjandi hugsun að baki undantekningarinnar, sem hlýtur að vera að afsakanlegt sé vegna búsetu kröfuhafa í öðru landi að kröfulýsing dragist, eigi ekki við eins og á stendur í máli þessu. Hér er um fjármálafyrirtæki að ræða sem hefur fengið lögmannsstofu hérlenda í þjónustu sína til þess að annast innheimtu kröfunnar. Annmarkar á leitarvél Lögbirtingarblaðsins koma sóknaraðila ekki að haldi en 13 kröfulýsingar bárust innan kröfulýsingarfrests. Telur dómari að ekki verði með sanni sagt að það sé bersýnilega ósanngjarnt að ætlast til þess að sóknaraðili lýsti kröfu sinni eins og aðrir sem það gerðu innan kröfulýsingarfrestsins.
Af hálfu sóknaraðila er einnig til þess vísað og á því byggt að í 55. grein skiptalaga komi fram að skiptastjóri skuli svo fljótt sem við verður komið leita vitneskju um skuldbindingar búsins, eftir atvikum með könnun á gögnum hins látna og þinglýstra heimilda og með fyrirspurnum til erfingja, innheimtumanna opinberra gjalda og þeirra sem er vitað eða má telja líklegt að hafi átt í viðskiptum við hinn látna.
Ekki er að sjá að leitt sé í ljós að skiptastjóri hafi brugðist skyldum sínum við sóknaraðila og ekki gætt ákvæða 55. gr. skiptalaganna. Má í því sambandi benda á að um sjálfskuldarábyrgð A var að ræða sem ekki kemur fram í skattframtali hans. Þá verður ekki séð að þessi málsástæða geti lengt kröfulýsingarfrest með einhverjum hætti. Hvort afleiðingar vanlýsingarinnar bitna á erfingjum A heitins er málinu óviðkomandi.
Eins og nú hefur verið rakið er kröfu sóknaraðila hafnað í máli þess en krafa varnaraðila tekin til greina eins og segir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti Kristján B. Thorlacius hrl. málið en af hálfu varnaraðila Helgi Jóhannesson hrl.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, H, í máli þessu er hafnað en fallist á kröfu varnaraðila, B, og hrundið ákvörðun skiptastjóra frá 4. febrúar 2010,um að krafa sóknaraðila komist að við skiptin.
Sóknaraðila greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.