Hæstiréttur íslands
Mál nr. 471/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn
17. ágúst 2012. |
|
Nr.
471/2012. |
Ísmet ehf. (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Íslandsbanka
hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Í ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í hf. Til grundvallar beiðni Í hf. um gjaldþrotaskipti lá lánssamningur þar sem Í hf. lánaði Í ehf. jafnvirði 186.000.000 krónur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Í ehf. hefði ekki svarað áskorun Í hf. samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um að lýsa því yfir innan þriggja vikna að félagið væri fært um að greiða skuldina innan skamms tíma. Með því hefði Í hf. leitt líkur að ógjaldfærni Í ehf. en félagið hafði ekki varist kröfunni um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á gjaldfærni sína, sbr. upphafsorð 65. gr. sömu laga, og gæti engu breytt í þeim efnum umdeild fjárkrafa sem Í ehf. hafði uppi í dómsmáli á hendur öðrum aðila. Þá var ekki fallist á það með Í ehf. að fjárkrafa Í hf. væri nægjanlega tryggð með veði í eignum félagsins, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2012 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Kröfu sína um gjaldþrotaskipti reisir varnaraðili á lánssamningi 18. febrúar 2008 milli sóknaraðila, sem þá hét Svefn og heilsa ehf., og Glitnis banka hf. Kröfum samkvæmt þeim samningi mun með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 hafa verið ráðstafað til varnaraðila, sem þá bar heitið Nýi Glitnir banki hf. Samkvæmt samningnum var fjárhæð lánsins að jafnvirði 186.000.000 krónur og lántaka bar í beiðni um útborgun að tilgreina í hvaða myntum hann hygðist taka lánið. Lánið átti að endurgreiða með einni afborgun 20. febrúar 2009, en með viðauka við lánssamninginn 29. apríl 2009 var ákveðið að gjalddaginn yrði 20. ágúst sama ár, auk þriggja gjalddaga á vöxtum á mánaðar fresti í fyrsta sinn 20. maí það ár. Skilmálum lánsins er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
Varnaraðili heldur því fram að lánið hafi verið tekið að jöfnum hlut í svissneskum frönkum og japönskum yenum. Í kröfu hans um gjaldþrotaskipti er fjárhæð skuldarinnar talin nema samtals 588.810.319 krónum. Sóknaraðili telur aftur á móti að lánið hafi verið tekið í íslenskum krónum bundið við gengi nefndra gjaldmiðla og fari sú tilhögun í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili hefur lagt fram útreikning á dráttarvöxtum af upphaflegum höfuðstól lánsins í íslenskum krónum miðað við gjalddaga 20. maí 2009. Samkvæmt honum eru vextirnir 95.604.292 krónur, en að viðbættum höfuðstólnum nemur skuldin 281.604.292 krónum.
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði skoraði varnaraðila á sóknaraðila með bréfi 10. janúar 2012 að lýsa því yfir innan þriggja vikna að hann væri fær um að greiða skuldina innan skamms tíma, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Áskorun þessi var birt sóknaraðila 18. sama mánaðar og var henni ekki svarað. Með þessu hefur varnaraðili leitt líkur að ógjaldfærni sóknaraðila en hann getur varist kröfu um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á gjaldfærni sína, sbr. upphafsorð 2. mgr. 65. gr. fyrrgreindra laga. Það hefur sóknaraðili ekki gert og verður fallist á með héraðsdómi að engu breyti í þeim efnum umdeild fjárkrafa sem sóknaraðili hefur uppi í dómsmáli á hendur öðrum aðila.
Sóknaraðili heldur því einnig fram að varnaraðili geti ekki krafist gjaldþrotaskipta þar sem fjárkrafa hans sé nægjanlega tryggð með veði í eignum sóknaraðila, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Til stuðnings þessu bendir sóknaraðili á að krafan sé tryggð með veði í fasteign að Engjateig 17-19 í Reykjavík og Dalsbraut 1 á Akureyri. Sóknaraðili hefur í máli þessu ekki aflað matsgerðar dómkvaddra manna um söluverðmæti þeirra eigna. Matsgerð frá 22. desember 2008, sem aflað var af öðru tilefni, um verðmæti fasteignarinnar á Akureyri miðað við mars það ár getur ekki haft þýðingu um verðmæti eignarinnar nú. Þá hefur komið fram að fasteignamat þessara eigna nemi samtals 167.505.000 krónum. Ef lagt er til grundvallar að söluverð umræddra fasteigna sé með hliðsjón af 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna ekki lægra en fasteignamat þeirra hefur sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að fjárkrafa varnaraðila sé nægjanlega tryggð þótt miðað sé við að lánið hafi verið tekið í íslenskum krónum.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að taka bú sóknaraðila til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ísmet ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18.
júní 2012.
Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, krafðist þess
með bréfi sem barst dóminum 16. mars 2012, að bú varnaraðila, Ísmets ehf., kt. 420596-2869, Engjateigi 17-19, Reykjavík, yrði tekið
til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili krefst
einnig málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess að kröfu
sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða málskostnað.
Krafa sóknaraðila var tekin
fyrir í dómi 18. apríl sl. Mótmælti þá
varnaraðili kröfunni og lagði hann fram greinargerð og gögn af sinni hálfu 2.
maí. Var málið síðan flutt munnlega og
tekið til úrskurðar 21. maí sl.
Sóknaraðili kveðst eiga fjárkröfu
á hendur varnaraðila samkvæmt lánssamningi, dags. 18. febrúar 2008. Skilmálum lánsins var breytt með viðaukum
dags. 29. september 2008 og 29. apríl 2009.
Í upphaflega samningnum var samið um lán til eins árs á „jafnvirði ISK
186.000.000“, í íslenskum krónum og erlendum myntum, eins og segir í
samningnum. Sóknaraðili segir í beiðni
að krafa sín sé samtals að fjárhæð 588.810.319 krónur, en þar af nemur
höfuðstóll 393.538.061 krónu og dráttarvextir til 8. mars 2012 nema
180.649.153 krónum.
Sóknaraðili birti varnaraðila
áskorun að hætti 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga. Áskorunin var birt 18. janúar 2012. Í henni er skorað á fyrirsvarsmann varnaraðila
að lýsa því yfir innan 21 dags að félagið yrði fært um að greiða skuldina innan
skamms tíma.
Áskorun þessari var ekki
svarað.
Varnaraðili
kveðst ekki hafa greitt skuld sína á gjalddaga þar sem lánveitingin hafi verið
ólögmæt og að sóknaraðili hafi neitað að viðurkenna það og reikna kröfu sína
rétt út.
Varnaraðili
byggir á því að umrædd lánveiting sé ólögmæt og að skuld hans sé ekki sú sem
sóknaraðili haldi fram. Lánið hafi ekki
verið í erlendum gjaldmiðlum, heldur íslenskum krónum, verðtryggt miðað við
gengi erlendra gjaldmiðla. Það sé
óheimilt samkvæmt 13. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001. Þegar af þeirri ástæðu verði að hafna kröfu
sóknaraðila. Verði ekki á það fallist
byggir varnaraðili á því að ef skuld hans verður rétt reiknuð séu augljóslega
ekki skilyrði til töku bús hans til gjaldþrotaskipta.
Um þetta
atriði bendir varnaraðili nánar á að lánsfjárhæðin sé tilgreind í íslenskum
krónum, en ekki í hinum erlendu gjaldmiðlum.
Í lánsumsókn komi fjárhæð í hinum erlendu gjaldmiðlum fram. Fjárhæð í íslenskum krónum sé einnig
tilgreind svo og viðmiðunargengi hinna erlendu gjaldmiðla. Ef um raunverulega skuld í erlendum myntum
hefði verið að ræða, hefði hvorki þurft að tilgreina fjárhæð í íslenskum krónum
né viðmiðunargengi. Heimilt hafi verið
með ákveðnum skilyrðum að óska eftir myntbreytingu á láninu. Sjá megi af þessari heimild að hinir erlendu
gjaldmiðlar hafi einungis verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar.
Varnaraðili
staðhæfir að regla 2. gr. lánssamningsins um endurgreiðslu í viðkomandi
gjaldmiðlum hafi einungis verið sett til málamynda. Alltaf hafi verið gert ráð fyrir
endurgreiðslu í íslenskum krónum. Þannig
hafi sóknaraðili mátt skuldfæra tékkareikning varnaraðila, en hann sé í
íslenskum krónum. Þá komi einnig fram í
2. gr. að fjárhæð afborgunar skyldi umreiknuð í íslenskar krónur á tilteknum
degi.
Þá segir
varnaraðili að í viðauka við lánssamninginn, dags. 29. apríl 2009, hafi
fjárhæðir verið tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þær hafi hins vegar hækkað talsvert frá því
sem hafði verið í lánsumsókninni. Hafi
þó verið tekið fram að fjárhæðir þessar væru án vaxta. Kveðst varnaraðili telja að þetta staðfesti
að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum.
Loks hafi
lánið verið greitt út í íslenskum krónum.
Varnaraðili
byggir á því að hafna verði kröfu um gjaldþrotaskipti þegar af þeirri ástæðu að
um ólögmæta lánveitingu hafi verið að ræða.
Raunveruleg fjárhæð skuldarinnar komi hvergi fram, en sóknaraðili hafi
neitað að reikna hana. Bendir
varnaraðili hér einnig á að krafa sóknaraðila sé í andstöðu við 4. mgr. 7. gr.,
sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991.
Verði þrátt
fyrir framangreint talið að sóknaraðili geti krafist gjaldþrotaskipta, þá
byggir varnaraðili á því að ekki sé hægt að miða við að fjárhæð skuldarinnar sé
hærri en tilgreint er í lánssamningnum, 186.000.000 króna. Sóknaraðili verði að bera hallann af vafa um
þetta.
Varnaraðili
byggir því næst á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði, sbr. 1.
tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Hann eigi fasteignir bæði í Reykjavík og á
Akureyri, sem veðsettar hafi verið sóknaraðila.
Fyrst bendir
varnaraðili á eignarhluta sína í Engjateigi 17-19 í Reykjavík. Fasteignamat þeirra sé 71.345.000 krónur, en
brunabótamat 95.250.000 krónur.
Raunverulegt markaðsvirði sé mun hærra.
Þá eigi hann
eignarhluta að Dalsbraut 1 á Akureyri.
Fasteignamat þeirra nemi 96.160.000 krónum, en brunabótamat 263.650.000
krónum. Verðmæti þessara eignarhluta
hafi verið metið af dómkvöddum matsmönnum í mars 2008 og hafi þeir talið
markaðsvirði þeirra 177.514.000 krónur.
Telur varnaraðili að hafa megi matsverð þetta til viðmiðunar, en segir
að engu að síður sé óvarlegt að ætla að þessar eignir hafi hækkað talsvert í
verði síðan matið fór fram.
Varnaraðili
byggir síðan á því að hann sé ekki ógreiðslufær í skilningi 2. mgr. 65. gr.
laga nr. 21/1991. Hann hafi höfðað mál á
hendur Akureyrarbæ og krafist þess að bærinn taki eignirnar að Dalsbraut 1
eignarnámi og greiði sér 186.813.500 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta. Krafan sé byggð á áðurgreindri matsgerð.
Varnaraðili
skýrir þessa málshöfðun stuttlega í greinargerð sinni. Krafan sé vissulega ódæmd, en óvissuna verði
að meta sér í hag, enda sé það ekki síður sóknaraðila til hagsbóta. Að teknu tilliti til fjárhæðar kröfunnar sé
ljóst að hann verði fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum við
sóknaraðila innan skamms tíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Auk þeirra
lagaákvæða sem getið hefur verið vísar varnaraðili til almennra meginreglna
samninga- og kröfuréttar og meginreglna skaðabótaréttar.
Niðurstaða
Sóknaraðili
skoraði á varnaraðila að lýsa því yfir að hann yrði fær um að greiða skuld sína
innan skamms tíma. Varnaraðili svaraði
ekki þessari áskorun og með því er kominn grundvöllur til að krefjast
gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila, sbr. 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Þá hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að hann verði innan
skamms fær um að greiða skuld sína við sóknaraðila. Ekki er unnt að meta líkur á að dómur í
tilteknu dómsmáli, sem nú er rekið fyrir héraðsdómi, falli honum í hag og geri
honum kleift að greiða skuldina.
Hins vegar verður að leysa úr
þeirri málsástæðu varnaraðila að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með
veði.
Sóknaraðili segir að um sé að
ræða lán sem var upphaflega í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Af beiðni virðist mega ráða að hann hafi
gjaldfellt skuldina og umreiknað í íslenskar krónur 20. maí 2009. Telur hann að krafan sé samtals að fjárhæð
588.810.319 krónur, eins og áður segir.
Við úrlausn þess hvort skuld
varnaraðila sé í erlendum gjaldmiðlum eða ekki kemur fyrst til skoðunar að á
forsíðu lánssamningsins er talað um lán í erlendum myntum. Í inngangi meginmáls er rætt um „lánssamning
til 1 árs að fjárhæð jafnvirði ISK 186.000.000
í íslenskum krónum og erlendum
myntum“. Síðar kemur fram að lántakinn
skyldi tilkynna í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum. Þá voru vextir ákveðnir sem tilteknir LIBOR-
og EURIBOR-vextir.
Í 1. gr. lánssamningsins segir
að ráðstafa skuli láninu til að gera upp tap af framvirkum gjaldeyris- og
hlutabréfaviðskiptum hjá Markaðsviðskiptum Glitnis.
Í 2. gr. lánssamningsins segir
að lánið beri að endurgreiða í „þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“.
Með viðauka við lánssamninginn,
dags. 29. apríl 2009, var samið um frestun gjalddaga. Þar er fjárhæð tilgreind sem jafnvirði
tiltekinnar fjárhæðar íslenskra króna, svo og staða skuldarinnar í svissneskum
frönkum og japönskum jenum.
Í sams konar viðauka, dags. 29.
september 2009, var fjárhæðin einungis tilgreind sem jafnvirði tiltekinnar
fjárhæðar í íslenskum krónum.
Gögn um útborgun lánsins eru
ekki skýr. Af tveimur blöðum sem fylgja
lánssamningi í framlögðum skjölum má ráða að lánsféð var greitt varnaraðila
19. febrúar 2008. Á fyrra blaðinu er
fjallað um lánveitingu að fjárhæð JPY 150.266.602 og sú fjárhæð sögð til
útborgunar. Á síðara blaðinu fjallað um
lánveitingu að fjárhæð CHF 1.527.094, Segir að til útborgunar séu CHF
1.523.276,26, en síðan að 92.767.524 íslenskar krónur séu lagðar inn á
tiltekinn bankareikning með höfuðbókarnúmer 26.
Að öllum þessum atriðum virtum
verður að telja að samningsaðilar hafi viljað semja um lán í erlendum
gjaldmiðlum og gert það skýrlega. Verður
ekki fallist á það með varnaraðila að skuldin hafi verið í íslenskum krónum
bundin ólögmætri gengistryggingu.
Varnaraðili hefur ekki haft uppi
aðrar athugasemdir við útreikning kröfunnar.
Verður því að miða við að hún sé rétt reiknuð í beiðni.
Varnaraðili bendir á að
sóknaraðili eigi veð í fasteignum hans. Fasteignamat eignarhluta varnaraðila í Engjateigi 17-19 í
Reykjavík nemur 71.345.000 krónum. Hann
hefur höfðað mál þar sem hann metur eignir sínar á Akureyri á 177.514.000
krónur. Getgátur um að hér sé varlega
áætlað geta ekki leitt til þess að verðmæti eigna þessara dugi til að krafa
sóknaraðila teljist nægilega tryggð með veði.
Hindrar ákvæði 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991 því ekki að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Verður því að taka bú varnaraðila til
gjaldþrotaskipta. Honum verður einnig
gert að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað, en þá hefur verið
tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón
Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Að kröfu
sóknaraðila, Íslandsbanka hf., er bú varnaraðila, Ísmets ehf., kt. 420596-2869, tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili
greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.