Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og kröfum sóknaraðila um einangrun hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. maí 2017.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fædd [...], ríkisborgara [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði kærðu gert að sæta einangrun.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að borist hafi tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær, 19. maí, um að kærða hefði verið stöðvuð á tollhliði, vegna gruns um að hún kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum, í kjölfar komu hennar hingað til lands með flugi [...] frá [...].
Við líkamsleit á kærðu hafi tollverðir fundið pakkningar með meintum fíkniefnum faldar í hári kærðu, auk þess sem pakkningar með meintum fíkniefnum hafi fundist í brjóstahaldara hennar. Við leit í hliðarveski kærðu hafi einnig fundist pakkningar með meintum fíkniefnum sem hafi borið þess merki að hafa verið falin innvortis. Efnin sem hafi fundist í fórum kærðu hafi í framhaldinu verið rannsökuð í efnagreiningarvél tollstjóra sem hafi gefið jákvæða niðurstöðu á kókaín. Kærða hafi í framhaldinu verið handtekin.
Í viðræðum tollvarða við kærðu hafi hún m.a. greint frá því að hún væri að koma hingað til lands sem ferðamaður. Tilgangurinn með heimsókninni hingað til lands væri að hitta [...] vin sinn. Hún hafi einungis ætlað að dvelja hér í einn til tvo daga en ekki getað sýnt fram á að hún ætti bókað flug frá landinu.
Í framhaldinu hafi vaknað grunur um að kærða kynni að hafa fíkniefni falin innvortis og því verið í framhaldinu færð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem í ljós hafi komið að hún hafði sjö pakkningar faldar innvortis, neðarlega í kviði. Kærða hafi í framhaldinu verið færð á lögreglustöðina við Hringbraut 130, Reykjanesbæ, þar sem kærða hafi fjarlægt pakkningarnar að eigin ósk.
Að svo stöddu liggi endanleg staðfesting á tegund og magni hinna meintu fíkniefna ekki fyrir, en þau hafi verið send til frekari rannsóknar til tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsókn máls þessa sé á algeru frumstigi. Lögregla vinni nú að því að rannsaka aðdragandann að ferð kærðu hingað til lands og tengsl hennar við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis. Í því skyni muni lögregla m.a. afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálastofnunum, auk annarra atriða sem lögregla telur að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Þrátt fyrir að tegund eða magn hinna meintu fíkniefna liggi ekki fyrir að svo stöddu telur lögregla líkur til þess að um sé að ræða nokkurt magn fíkniefna sem hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau. Því kunni háttsemi kærðu að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur sig a.m.k. þurfa svigrúm til að rannsaka málið nánar áður en kærða verður látin laus úr haldi lögreglu, t.d. varðandi það hvort að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og hvort að hún eigi sér vitorðsmenn hér á landi eða erlendis. Þá telur lögregla að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Þá telur lögregla einnig hættu á að kærða verði beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana, af hendi samverkamanna hennar, gangi hún laus, á þessu stigi rannsóknar hjá lögreglu.
Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017 klukkan 16:00 og að kærðu verði gert að sæta einangrun á þeim tíma.
Eins og rakið hefur verið var kærða handtekin í gær vegna rökstudds gruns um innflutning fíkniefna og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti gæsluvarðhaldi. Þess er krafist að kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur þar sem annars sé ekki unnt að koma í veg fyrir að kærða torveldi rannsókn málsins, s.s. með því að komast í síma, tölvu eða koma skilaboðum áleiðis í gegnum aðra fanga. Að þessu virtu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á að kærða sæti einangrun.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2017, kl. 16:00.
Kærða skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.