Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2010


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Vextir
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 244/2010:

Landspítali – háskólasjúkrahús

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

A

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Ráðningarsamningur. Skaðabætur. Kröfugerð. Vextir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 430/2007 var fallist á kröfu A um að ógilt yrði ákvörðun sviðstjóra L frá því 17. október 2006 um að flytja hana úr starfi sem hjúkrunarfræðing milli deilda og L gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur. Samkvæmt læknisvottorði var A fyrst á eftir óvinnufær vegna veikinda, en fékk greidd veikindalaun í sex mánuði. Í þessu máli krafðist A bóta vegna fjártjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir við að fá ekki greidd full laun frá því í nóvember 2006 til og með september 2007, er hún hóf störf hjá öðrum vinnuveitanda. Talið var að ákvörðunin frá 17. október 2006 hefði verið saknæm og L bæri skaðabótaábyrgð á fjártjóni A sem af henni leiddi. Veikindi A ættu rót sína að rekja til hinnar ólögmætu og saknæmu ákvörðunar og því fallist á að L bæri að greiða  A 2.803.807 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Stefnda krefst í málinu skaðabóta vegna fjártjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir við að fá ekki greidd full laun frá áfrýjanda tímabilið frá nóvember 2006 til og með september 2007. Fyrri hluta þessa tímabils fékk hún greidd svonefnd veikindalaun eða allt til 18. mars 2007. Telur hún þær greiðslur hafa verið lægri en svo að jafngildi fullum launum sem hún hefði notið ef hún hefði sinnt óbreyttu starfi hjá áfrýjanda þennan tíma og krefst mismunarins. Þá krefst hún bóta fyrir tímabilið frá 18. mars 2007 til þess tíma er hún tók við nýju starfi hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í september 2007 og jafngildir sá hluti kröfunnar fullum launum sem hún telur sig hafa átt að njóta frá áfrýjanda þetta tímabil. Loks krefst stefnda bóta vegna óuppgerðra orlofslauna hjá áfrýjanda.

Við málflutning fyrir Hæstarétti voru aðilar málsins sammála um að ráðningarsamningur stefndu við áfrýjanda hafi áfram verið í gildi eftir að áfrýjandi hætti að greiða stefndu veikindalaun í mars 2007. Krafa stefndu er því um skaðabætur innan samninga. Telur hún tjón sitt stafa af ólögmætri og saknæmri ákvörðun áfrýjanda 17. október 2006 um að flytja hana úr starfi sínu á deild [...] á Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og á deild [...]. Hafi áfrýjandi með þessari ákvörðun, einkum með tilliti til forsendna hennar, valdið sér heilsutjóni sem hafi gert sér ómögulegt um sinn að sinna starfi sínu hjá áfrýjanda.

II

Með dómi Hæstaréttar 18. september 2008 í máli nr. 430/2007 var framangreind ákvörðun áfrýjanda dæmd ógild. Í forsendum dómsins var ákvörðunin talin óþörf og ólögmæt og hafi hún falið í sér brot gegn æru stefndu. Verður fallist á með stefndu að ákvörðun þessi hafi verið áfrýjanda saknæm og hann beri skaðabótaábyrgð á fjártjóni stefndu sem af henni leiddi.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu um heilsufar stefndu á því tímabili sem hér um ræðir. Af hálfu áfrýjanda var við málflutning fyrir Hæstarétti talið að gögn málsins bentu til þess að stefnda hafi alls ekki verið vinnufær eftir að greiðslu veikindalauna lauk 18. mars 2007. Áfrýjandi hefur í því sambandi bent á að samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs megi starfsmaður, sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í einn mánuð eða lengur, ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Stefnda hafi ekki framvísað slíku vottorði og verður málflutningur áfrýjanda um þetta skilinn svo að hann telji hana af þessum sökum hafa verið óvinnufæra allt til loka þess tímabils sem hún krefst bóta fyrir. Af hálfu stefndu hefur verið bent á að með bréfi lögmanns síns 31. maí 2007, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi, hafi hún óskað eftir viðræðum við áfrýjanda um störf sín. Var í bréfinu meðal annars tekið fram að stefndu væri mikið í mun að komast aftur til starfa. Fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti að fulltrúar málsaðila hafi átt einhver samtöl í framhaldi bréfsins og staðhæfir stefnda að áfrýjandi hafi ekki lagt neitt af mörkum sem hafi getað verið grundvöllur lausnar á deilu aðila. Þar sem áfrýjandi svaraði bréfinu ekki skriflega, eins og rétt hefði verið, verða fullyrðingar stefndu um þetta lagðar til grundvallar. Verður því fallist á sjónarmið hennar um að hún hafi mátt líta svo á að ekki hefði tilgang að framvísa læknisvottorði um starfshæfni á því tímabili sem í hönd fór, þar sem fyrirstaða af óskyldum ástæðum hafi verið á því að áfrýjandi vildi fá hana til vinnu á ný. Þarf þá ekki að leysa úr því frekar hvert heilsufar og vinnufærni stefndu var á nefndu tímabili.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að veikindi stefndu eigi rót sína að rekja til hinnar ólögmætu og saknæmu ákvörðunar áfrýjanda 17. október 2006, sérstaklega í ljósi þeirra ástæðna sem lágu þessari ákvörðun til grundvallar. Verður fallist á með stefndu að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð gagnvart henni á fjártjóni því sem hún varð fyrir af þessum sökum. Þá er með vísan til forsendna fallist á úrlausn hins áfrýjaða dóms um fjárhæð fjártjóns stefndu.

Stefnda hefur fram til 29. janúar 2009 gert kröfu um vexti „samkvæmt 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001“ frá þeim dögum er hún telur einstaka hluta kröfu sinnar hafa fallið í gjalddaga. Hundraðshluti vaxtanna er ekki nefndur við kröfugerðina. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2001 er heimild til að dæma vexti án þess að hundraðshluti þeirra sé tilgreindur í stefnu bundin við vexti samkvæmt 4. eða 8. gr. laganna eða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra. Samkvæmt þessu skortir lagaheimild fyrir því að hafa þann hátt á kröfugerð um vexti, sem stefnda hefur fram að upphafsdegi dráttarvaxtakröfu sinnar. Verður kröfunni fram að þeim degi því vísað frá héraðsdómi. Upphafsdagur kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 er einum mánuði eftir að stefnda sendi áfrýjanda bréf með kröfum sínum. Verður hún með vísan til 9. gr. sömu laga tekin til greina.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um skaðabætur til handa stefndu en með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu stefndu um vexti af kröfu sinni fram til 29. janúar 2009 er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Landspítali – háskólasjúkrahús, greiði stefndu, A, 2.803.807 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. janúar 2009 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefndu 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  22. janúar 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 1. desember 2009, að loknum munnlegum flutningi, var höfðað af A, [...], Reykjavík, á hendur Landspítala, Eiríksgötu 5, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 6. apríl 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 2.803.807 krónur auk vaxta samkvæmt 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 79.283 krónum frá 1. desember 2006, af 126.538 krónum frá 1. janúar 2007, af 26.247 krónum frá 1. febrúar 2007, af 86.606 krónum frá 1. mars 2007, af  194.707 krónum frá 1. apríl 2007, af 369.968 krónum frá 1. maí 2007, af 369.968 krónum frá 1. júní 2007, af 369.968 krónum frá 1. júlí 2007, af 369.968 krónum frá 1. ágúst 2007, af 369.968 krónum frá 1. september 2007 og af 441.741 krónu frá 1. október 2007, í hverju tilviki til 29. janúar 2009, en auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, í hverju tilviki frá 29. janúar 2009 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málið var þingfest 7. apríl 2009. Stefnda var veittur frestur til að skila greinargerð til 2. júní s.á. Í þinghaldi þann dag skilaði stefndi greinargerð og aðilum var veittur sameiginlegur frestur til gagnaöflunar. Undirritaður dómari tók við málinu 1. september sl. og boðaði til þinghalds 20. október. Þegar málið var tekið fyrir þann dag lýstu aðilar gagnöflun lokið og aðalmeðferð fór fram 1. desember s.á. Þá lækkaði stefnandi dómkröfur og lagði fram bókun um það.

I. Málsatvik

Stefnandi, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, starfaði hjá stefnda frá árinu 1999 til 17. október 2006 þegar henni var tilkynnt með bréfi sú ákvörðun stjórnenda [...]sviðs stefnda að flytja stefnanda á milli deilda á [...]sviði, þ.e. af [...]deild [...], þar sem stefnandi hafði starfað frá árinu 2001, á deild [...] á [...].  Samkvæmt bréfinu var ákvörðunin tekin í kjölfar atviks sem gerðist á milli tveggja hjúkrunarfræðinga á heimili annars þeirra aðfaranótt 30. september s.á. en lýsing beggja aðila á atvikinu leiði líkur að því að farsælast sé að hjúkrunarfræðingarnir vinni ekki náið saman á næstunni. Með bréfinu var stefnanda tilkynnt að deildarstjóri deildar [...] ætti von á henni til vinnu 23. október s.á.

Atvikið sem vísað er til átti sér stað á heimili stefnanda milli stefnanda og fyrrum samstarfsmanns hennar, Y hjúkrunarfræðings, eftir starfsmannaboð hjá hjúkrunardeildarstjóra [...]. Á mánudeginum 2. október leitaði Y til hjúkrunardeildarstjórans og skýrði frá því að stefnandi hefði sýnt honum kynferðislega áreitni heima hjá henni í áðurnefnt sinn. Hann lýsti því jafnframt yfir hann myndi ekki starfa með gagnáfrýjanda lengur. Hjúkrunardeildarstjórinn hafði símasamband við stefnanda og tilkynnti henni að til athugunar væri að færa hana á annan vinnustað. Þá var hún boðuð til fundar um málið 9. október. Stefnandi kom 9. október til fundar við hjúkrunardeildarstjóra og sviðsstjóra hjúkrunar á [...]sviði stefnda. Stefnanda var tilkynnt að hún yrði flutt af deild [...] á aðra starfsstöð hjá stefnda en síðar yrði ákveðið hvar það yrði og sú ákvörðun barst með fyrrgreindu bréfi frá 17. október s.á.

Daginn sem stefnandi átti að mæta til vinnu á deild [...], þ.e. 23. október 2006, skrifaði lögmaður hennar sviðsstjóra stefnda bréf þar sem fram kom að stefnandi myndi ekki una ákvörðuninni. Jafnframt var tilkynnt að stefnandi myndi ekki mæta til starfa á nýju deildina þann dag vegna veikinda sem hún rekti til ákvörðunarinnar og aðdraganda hennar. Einnig var krafist rökstuðnings ákvörðunarinnar um tilflutning stefnanda.  Í svarbréfi sviðsstjóra stefnda frá 24. október s.á. var vísað til alvarlegs ágreinings, trúnaðarbrests og fyrirsjáanlegra samstarfsörðugleika milli stefnanda og annars hjúkrunarfræðings á deild [...] vegna alvarlegs ágreinings þeirra á milli er hafi átt sér stað utan vinnustaðar og vinnutíma. Það væri mat sviðsstjórans að hjúkrunarfræðingarnir gætu ekki unnið saman, a.m.k. fyrst um sinn. Stefnandi hefði verið flutt á aðra deild á [...]sviði til þess að starfskraftar umræddra tveggja hjúkrunarfræðinga nýttust og til þess að ágreiningur þeirra á milli truflaði ekki starfsemina eins og að framan greinir. Það væri ábyrgðarleysi ef stjórnendur brygðust ekki við aðstæðum sem þessum til að lágmarka röskun á starfseminni. Þá kom fram í bréfinu að ákvörðunin væri tekin á grundvelli stjórnunarréttar vinnuveitanda. Ákvörðun stefnanda um að mæta ekki til starfa á nýrri deild yrði því að skoðast sem höfnun á að láta vinnuframlag í té. Með bréfi, dagsettu 27. október s.á., var þess krafist af hálfu stefnanda að ákvörðun um tilflutning hennar yrði dregin til baka. Því var hafnað af hálfu stefnda með bréfi 8. nóvember sama ár.

Stefnandi sætti sig ekki við þessi málalok og mætti hvorki tilsettan dag né síðar til vinnu á deild [...] á [...]. Samkvæmt læknisvottorði, sem var gefið út 25. október 2006 af heimilislækni hennar B, var hún óvinnufær með öllu frá 23. október 2006 um óvissan tíma vegna sjúkdóms. Stefnandi fékk greidd veikindalaun frá stefnda til 18. mars 2007.

Stefnandi höfðaði einkamál til ógildingar ákvörðuninni um tilfærslu á aðra deild hjá stefnda auk þess sem hún krafðist miskabóta og málskostnaðar. Jafnframt áskildi stefnandi sér rétt til að gera kröfu um skaðabætur vegna fjártjóns. Þann 25. maí 2007 féll dómur í héraði þar sem kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar var vísað frá dómi en stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í miskabætur. Með bréfi, dagsettu 31. maí 2007, lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnanda væri mikið í mun að komast aftur til starfa og spurði hvort, að fengnum dómi héraðsdóms, væri ekki ástæða til að taka þráðinn upp aftur. Fjárhagsleg, félagsleg og heilsufarsleg velferð hennar ylti á því. Óskaði lögmaðurinn eftir viðræðum við ríkislögmann og/eða eftir atvikum annan bæran fyrirsvarsmann stefnda um störf stefnanda..

Í vottorði B læknis, sem var gefið út 8. maí 2007, er að beiðni lögmanns stefnanda fjallað um heilsufar stefnanda fyrir og eftir að ákvörðun um flutning hennar á milli deilda hjá stefnda var tekin. Fram kemur að stefnandi hafi verið á skrá hjá lækninum frá því í desember 1990. M.a. segir að stefnandi hafi leitað til læknisins haustið 1997 þegar hún hafi verið á síðasta ári í hjúkrun samhliða því að vera ein með dóttur sína og búið við þröngan fjárhag. Hún hafi reynst vera með einkenni þunglyndis og verið búin að panta tíma hjá geðlækni til að vinna í sínum málum. Ákveðið hafi verið að hefja lyfjameðferð þar til hún kæmist í viðtalsmeðferð hjá geðlækninum. Þá segir einnig að 21. nóvember 2005 hafi stefnandi leitað til læknisins vegna þreytu. Hún hafi orðið fyrir endurteknum áföllum við m.a. ótímabær dauðsföll í nánustu fjölskyldu. Hún hafi þurft að beita sig hörðu til að mæta í vinnuna og fundist hún þurfa að fara í veikindaleyfi. Hún hafi hætt í vinnunni 1. nóvember þremur vikum áður. Hún hafi farið á sjúkradagpeninga. Önnur heilsufarsvandamál hafi verið minni háttar og varað tímabundið.

Þá greinir læknirinn frá því að stefnandi hafi leitað til hennar 25. október 2006. Stefnandi hafi lýst miklum kvíða, fundið fyrir depurð, grátið oftar en hún hafi átt að venjast, glímt við ógleði, uppköst og niðurgang. Stefnandi hafi sagt að deildarstjóri á [...]sviði stefnda hafi vikið henni af deildinni vegna þess að vinnufélagi hennar hafi ekki treyst sér til þess að vinna með henni. Hann hafi sakað hana um kynferðislega áreitni. Stefnandi hafi sagt að þessi ákvörðun hafi verið tekin eftir að vinnufélaginn hafi lýst fyrir deildarstjóranum samskiptum sem þau hafi átt utan vinnustaðarins. Hún sjálf hafi ekki fengið tækifæri til þess að greina frá sinni hlið málsins. Þá segir í vottorði læknisins: „Mat ég ástand hennar svo að hún væri óvinnufær vegna þessarar atburðarásar á vinnustað. “

Í vottorðinu er einnig greint frá því að við eftirlit í febrúar hafi líðan stefnanda verið heldur betri. Hún hafi þá tekið ákvörðun um að breyta til og sótt um [...]starf. Hafi hún náð inntökuprófi sem hafi verið lyftistöng fyrir hana og viðurkenning í erfiðleikum. Stefnandi hafi farið á námskeið fyrir verðandi [...]. Næst er því lýst að stefnandi hafi komið til læknisins 12. apríl og þá liðið mjög illa. Hún hafi sagt frá því að hún hefði verið borin rangri sök og vísað frá námskeiðinu. Hún hafi talið að þeir sem stóðu fyrir námskeiðinu hafi heyrt af því að hún stæði í málaferlum við fyrri vinnuveitanda og notað áfengislykt sem átyllu fyrir því að vísa henni frá námskeiðinu. Læknirinn áréttar að ekkert í samskiptum hennar og stefnanda hafi vakið hjá henni grun um áfengismisnotkun. Í samtalinu hafi einnig komið fram að þegar stefnandi hafi fengið launauppgjörið 1. apríl hafi hún séð að hún væri dottin út af launaskrá hjá stefnanda. Hún væri búin með veikindaréttinn. Hún hafi sagt að hún gæti ekki haldið íbúðinni, væri að safna skuldum og ætti ekki fyrir framfærslu. Henni hefði liðið mjög illa og legið mest fyrir í rúminu. Hefði hún haft sterk líkamleg einkenni þunglyndis og kvíða, þ.e. niðurgang og uppköst. Hún hafi átt erfitt með að fara út úr húsi og fundist hún lifa eingöngu fyrir dóttur sína. Fram kemur að læknirinn hafi spurt stefnanda hvort hún vildi leita sér hjálpar og fara í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða geðlækni. Stefnandi hafi sagst hafa leitað til sálfræðings sl. október en hann hafi vísað henni frá vegna hagsmunaárekstra við fyrrverandi vinnufélaga, þann sem hafði hrundið atburðarásinni af stað. Stefnandi hefði síðan borið við fjárskorti og að hún treysti engum lengur. Henni hefði þó helst verið hugsað til þess að leita til handleiðarans sem hún færi í viðtöl til í náminu í hugrænni atferlismeðferð. Læknirinn kveðst hafa hvatt hana til að leyfa handleiðaranum að vita hvernig staða hennar og líðan væri. Einnig hafi læknirinn bent henni á sálfræðing til þess að leita til og hvatt hana til að leita til stéttarfélagsins varðandi framfærslu.

Í niðurlagi vottorðsins segir: „Þessari lýsingu á okkar samskiptum er ætlað að varpa ljósi ekki bara á hennar fyrra heilsufar heldur líka hvernig sá atburður, að henni var vísað af vinnustað sínum, að því er hún telur fyrir rangar sakir, hefur ýtt henni útí kvíða, þunglyndi og mikla líkamlega vanlíðan. A hefur lagt mikið á sig til þess að mennta sig sem hjúkrunarfræðingur og áður en þessi atburður átti sér stað ákvað hún að sérhæfa sig sem [...]hjúkrunarfræðingur með þeim tilkostnaði sem því fylgir. Að henni séu skapaðar ásættanlegar aðstæður til þess að geta stundað þá vinnu sem hún hefur menntað sig til er mjög stór þáttur í hennar bataferli.“

Þá liggur fyrir í málinu vottorð Sjafnar Ágústsdóttur sálfræðings frá 16. maí 2007 þar sem fram kemur að stefnandi hafi komið til hennar í sálfræðiviðtöl síðan 23. apríl s.á. Hún hafi leitað sér sálfræðiaðstoðar vegna langvarandi vanlíðunar þar sem hún hafi orðið að takast á við verulega og óvænta röskun á sínum högum sem hafi sett líf hennar og líðan í uppnám. Það er mat sálfræðingsins að stefnandi sé með mikil álags- og þunglyndiseinkenni og áfallastreiturösku. Hún muni þurfa á langtíma sálfræðiaðstoð að halda.

Stefnandi réð sig í starf hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu 24. september 2007.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 430/2007, sem var kveðinn upp 18. september 2008, var ákvörðun stefnda um að flytja stefnanda úr starfi af deild [...] við Hringbraut á deild [...] á [...] dæmd ógild. Stefndi var dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í miskabætur.

Með bréfi dagsettu 29. desember 2008 krafðist stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna tekjutaps með því að henni hefði verið gert ókleift að sinna starfi sínu allt frá 17. október 2006. Krafðist hún þess að fá bættan tekjumissi tímabilið 1. nóvember 2006 til 1. október 2007 auk þess sem krafist var uppgjörs á orlofslaunum. Ríkislögmaður synjaði erindi stefnanda með bréfi, dagsettu 20. janúar 2009 og vísaði til bréfs fjármálaráðuneytisins, frá 14. janúar 2009, sem ritað var í tilefni af kröfubréfinu. Þar er á því byggt að frumkvæði að starfslokum hafi komið frá stefnanda. Ekkert í ákvörðun stefnda hafi gefið stefnanda tilefni til þess að hún mætti líta svo á að um uppsögn eða brottrekstur hennar úr starfi væri að ræða og því síður að stefnda hefði gert henni ókleift að sinna starfi sínu. Stefnandi hafi fengið greidd veikindalaun frá stefnda samkvæmt gildandi kjarasamningi þann tíma sem hún hafi verið óvinnufær til 18. mars 2007 og ekki yrði séð að hún ætti rétt til frekari greiðslna vegna þess tímabils sem hún hafi verið óvinnufær. Þá hafi henni borið að uppfylla vinnuskyldu samkvæmt 16. gr. starfsmannalaga og mæta til vinnu eftir að veikindum hafi lokið.

II. Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda er byggð á því að hún hafi orðið fyrir tekjumissi við að fá ekki að sinna starfi sínu allt frá 17. október 2006 vegna þeirrar ólögmætu stjórnvaldsákvörðunar stefnda að flytja hana af deild [...] yfir á deild [...] á [...]. Um hafi verið að ræða ólögmæta stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með dómi Hæstaréttar hafi ákvörðunin verið dæmd ógild og stefnanda einnig dæmdar háar miskabætur vegna ákvörðunarinnar. Með ákvörðun stefnda hafi verið freklega brotið gegn æru og persónu stefnanda og hennar helgustu mannréttindum. Í forsendum Hæstaréttar fyrir ákvörðun miskabóta segi orðrétt: „Áður var komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun aðaláfrýjanda, sem málið snýst um, hafi í senn verið óþörf og ólögmæt og falið í sér brot gegn æru gagnáfrýjanda. Fallist er á þær forsendur héraðsdóms 25. maí 2007 að þessi ákvörðun hafi verið til þess fallin að gefa alvarlegum ásökunum starfsfélaga gagnáfrýjanda byr undir báða vængi og valda henni miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan.“ Þá hafi öll málsmeðferð einkennst af fádæma hroka og virðingarleysi gagnvart gildandi reglum.

Stefnanda hafi ekki borið að hlíta stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið haldin jafn alvarlegum annmörkum og raun beri vitni, að teknu tilliti til aðstæðna. Ákvörðunin hafi leitt til þunglyndis á háu stigi hjá stefnanda sem hafi gert hana óvinnufæra. Hún hafi engan veginn verið reiðubúin að taka til starfa á deild [...] á [...] og samkvæmt framansögðu hafi henni ekki borið að gera það. Stefnandi byggir á meginreglu vinnuréttarins um að starfsmanni beri ekki skylda til að hlíða ólögmætum fyrirmælum vinnuveitanda.  Stefnanda hafi ekki verið gert kleift að sinna starfi sínu á deild [...] og orðið að höfða dómsmál til að fá hinni ólögmætu ákvörðun hnekkt. Kjarninn í læknisvottorði B sé að áður en hin umdeilda ákvörðun var tekin hafi stefnandi verið veil fyrir gagnvart andlegum áföllum. Mál þetta hafi snert hana mjög djúpt og valdið alvarlegu þunglyndi sem hafi gert hana óvinnufæra. Veikindi stefnanda hafi þannig verið afleiðing ákvörðunarinnar eins og forsvarsmönnum stefnda hafi verið, og mátti vera, ljóst.

Bótakrafa stefnanda er byggð á almennu skaðabótareglunni. Stefnandi telur að Hæstiréttur hafi, með því að dæma miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, skorið úr um að stefndi beri skaðabótaábyrgð á öllu fjártjóni stefnanda, sem rakið verður til ákvörðunarinnar afdrifaríku. Verði ekki fallist á að skilyrði skaðabóta séu uppfyllt er sama krafa í fjárhæðum talin sett fram sem launakrafa byggð á almennum reglum vinnuréttarins um efndir vinnusamninga. Stefnandi hafi átt rétt á að fá greidd laun við þær aðstæður þegar stefndi hélt henni frá vinnunni með ólögmætri stjórnvaldsákvörðun.

Því er sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi átt frumkvæði að starfslokum hjá stefnda. Hún hafi verið hrakin úr starfinu. Hún hafi ráðið sig í nýtt starf hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í september 2007 til að takmarka fjártjón sitt vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar. Hún hafi ekki getað verið aðgerðalaus og tekjulaus meðan málið hafi verið til meðferðar í Hæstarétti Íslands. Fyrst henni hafi boðist starf hafi henni verið rétt að taka það þó starfið hafi reyndar ekki hentað henni sérstaklega. Það hafi ekki verið á því sviði hjúkrunar sem hún hafði starfað við og nám hennar í hugrænni atferlismeðferð, sem hún hafi verið í á sama tíma, hafi ekki nýst beint.

Stefnandi segir að einu viðbrögð stefnda við dóminum hafi verið að standa skil á fjárhæðunum, sem hann hafði verið dæmdur til að greiða. Ekkert samband hafi verið haft við stefnanda, hvorki til að gera upp við hana laun né til að athuga hvort hún hygðist mæta aftur til vinnu. Raunar sé það þannig að eftir 17. október 2006 hafi forsvarsmenn stefnda ekki haft nokkurt samband við stefnanda og látið hana algerlega afskiptalausa.

Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir tekjumissi frá og með þeim degi sem umrædd ákvörðun var tekin. Hún hafi fengið greidd laun frá stefnda til 18. mars 2007, þ.e. veikindalaun sem hafi verið mun miklu lægri en meðallaun sem hún hafði haft í starfi. Frá og með 18. mars 2007 hafi hún ekki fengið nein laun greidd. Hún hafi ráðið sig í starf hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu 24. september 2007. Stefnandi gerir kröfu um að fá bættan tekjumissi á tímabilinu 1. nóvember 2006 til 1. október 2007. Til grundvallar útreikningi kröfunnar er miðað við meðallaun stefnanda síðustu sex mánuði í starfinu hjá stefnda, þ.e. frá maí til október 2006, sem hafi verið 358.968 krónur. Frá og með 1. janúar 2007 hafi laun hækkað um 3%. Til frádráttar komi launagreiðslur frá stefnda og frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Stefnandi hefur lagt fram launaseðla þessu til stuðnings.      

Krafa stefnanda eru sundurliðuð með svofelldum hætti:

mánuður

meðallaun

greidd laun til frádr.

tjón/tekjumissir

nóv. 2006

kr. 358.968

kr. 279.685

kr.      79.283

des. 2006

kr. 358.968

kr. 232.430

kr.    126.538

jan. 2007

kr. 369.968

kr. 343.490

kr.      26.247

feb. 2007

kr. 369.968

kr. 283.131

kr.      86.606

mars 2007

kr. 369.968

kr. 175.030

kr.    194.707

apríl 2007

kr. 369.968

kr.    369.968

maí 2007

kr. 369.968

kr.    369.968

júní 2007

kr. 369.968

kr.    369.968

júlí 2007 

kr. 369.968

kr.    369.968

ágúst 2007 

kr. 369.968

kr.    369.968

sept. 2007

kr. 369.968

kr. 59.153

kr.    310.584

Tjón samtals

kr. 2.672.650

Á tímabilinu hafi stefnandi fengið greiðslur frá styrktarsjóði BHM en forsenda greiðslnanna hafi verið að stefnandi skili þeim, auk vaxta, fái hún tekjumissinn bættan síðar.

Til viðbótar tekjumissinum byggir stefnandi á því að hún eigi óuppgerð orlofslaun vegna apríl 2007 til og með 24. september 2007, 131.157 krónur. Um rétt til uppgjörs orlofs vísar stefnandi til 8. gr. laga nr. 30/1987, sbr. 2. mgr. 7. gr. Nánari ákvæði um rétt til orlofs séu einnig í kjarasamningi stefnanda.

Stefnufjárhæð nemur samtölu fjártjóns stefnanda og óuppgerðra orlofslauna.

Krafist er vaxta samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga launanna hverju sinni, þ.e. stefnandi byggir á að tjón hennar hafi orðið samdægurs. Dráttarvaxtakrafa er gerð með stoð í III. og IV. kafla sömu laga en stefnandi krefst dráttarvaxta frá 29. janúar 2009, þ.e. mánuði eftir að stefnandi sendi stefnda kröfubréf.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt skaðleysiskrafa er reist á því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og eignast því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

III. Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir að Hæstiréttur hafi dæmt ákvörðunina ógilda en mótmælir því að öll málsmeðferð hafi einkennst af fádæma hroka og virðingarleysi gagnvart gildandi reglum. Stefnandi hafi verið ráðin sem hjúkrunarfræðingur á [...]deild [...] hjá stefnda. Henni hafi borið að hlíta löglegum fyrirmælum yfirmanna, þ.m.t. að starfa á fleiri en einni deild innan stefnda. Vegna kvörtunar hjúkrunarfræðings um kynferðislega áreitni stefnanda og þeirra afleiðinga sem atvikið olli hafi það verið mat stjórnenda stefnda að samstarfsgrundvöllur væri ekki lengur til staðar milli stefnanda og hjúkrunarfræðingsins.

Stefndi mótmælir því sem fram kemur í stefnu þar sem segir að stefnanda hafi ekki borið að hlíta stjórnvaldsákvörðun, sem haldin hafi verið jafn alvarlegum annmörkum og raun hafi borið vitni um, að teknu tilliti til aðstæðna. Það sé meginregla í vinnurétti að starfsmanni beri að vinna þau störf sem hann er ráðinn til. Hlýðni starfsmanna við lögleg fyrirmæli vinnuveitanda sé ein af meginskyldum starfsmanna, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmaðurinn verði að beygja sig undir húsbóndavald vinnuveitanda. Honum sé þó ekki skylt að hlýða hvaða fyrirskipunum sem er, til dæmis ef þær eru ólöglegar, brot á kjarasamningi eða utan verksviðs starfsmannsins. Öllum eðlilegum og venjulegum fyrirskipunum vinnuveitanda um framkvæmd og tilhögun vinnunnar verði starfsmaður að hlýða og eigi það á hættu að verða sagt upp starfi sínu ella.

Stefnandi hafi ekki sætt sig við þá ákvörðun að flytja hana af deild [...] á deild [...] á [...] og ekki mætt til vinnu á deild [...] á [...] þann 23. október 2006 eða síðar. Ekkert í athöfnum forsvarsmanna stefnda hafi getað gefið stefnanda tilefni til þess að hún mætti líta svo á að um uppsögn eða brottrekstur hennar úr störfum væri að ræða og því síður að líta mætti svo á að stjórnendur stefnda hafi viljað hrekja hana úr starfi. Frumkvæði að starfslokum stefnanda hafi komið frá henni sjálfri. Ef stefnandi hafi verið ósátt við ákvörðun stefnda hafi það gefið henni tilefni til að bera þá ákvörðun undir dómstóla, eins og hún og hafi gert, en henni hafi verið skylt að mæta til vinnu, sbr. 16. gr. laga nr. 70/1996. Ágreiningur um ólögmæti ákvörðunar stefnda hafi ekki gefið stefnanda tilefni til að líta svo á að henni hafi verið gert ókleift að sinna starfi sínu og gæti þar með hætt að mæta til vinnu hjá stefnda. Ágreiningur um ákvörðun stefnda hafi ekki leyst hana undan vinnuskyldu. Um hafi verið að ræða ágreining milli stefnanda og stefnda sem ekki hafi verið skorið úr fyrr en með framangreindum dómi Hæstaréttar frá 18. september 2008.

Stefndi bendir á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 597/2006 þar sem stefnanda var synjað um flýtimeðferð í dómsmáli sínu. Þar segi berum orðum að umrædd ákvörðun, þ.e. sú ákvörðun sem ógilt var í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 430/2007, „feli ekki í sér starfslok sóknaraðila á [...]sviði sjúkrahússins“, en síðan segi að það sé undir hennar viðbrögðum komið hvort tilfærslan geti leitt til þess að hún hætti þar störfum. Þetta telur stefndi mjög mikilvægt. Sú ákvörðun sem um hafi verið deilt í hinu fyrra máli hafi alls ekki þýtt starfslok stefnanda og hún hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að líta svo á að henni væri gert að hætta störfum eða að hún hefði ekki lengur starfsskyldur við stefnda. Þvert á móti hafi hún enn haft starfsskyldur og verið áfram fullgildur aðili ráðningarsamnings og borið vinnuskyldu samkvæmt honum. Sú ákvörðun sem um hafi verið deilt í fyrra málinu hafi ekki leyst stefnanda undan vinnuskyldu sinni og ekki bundið enda á ráðningarsambandið. Stefndi geti ekki borið á því skaðabótaábyrgð að stefnandi hafi, án tilefnis og lögmætrar ástæðu, talið ákvörðunina jafngilda uppsögn, og hunsað vinnuskyldu sína. Enn frekar hafi stefnanda mátt vera þetta ljóst eftir uppsögu umrædds dóms Hæstaréttar þar sem fjallað var um beiðni hennar um flýtimeðferð þess máls.

Stefnandi hafi hins vegar, samkvæmt læknisvottorði, verið óvinnufær vegna veikinda til 18. mars 2007 eða í sex mánuði. Stefnandi hafi fengið greidd veikindalaun frá stefnda samkvæmt gildandi kjarasamningi þann tíma sem hún hafi verið óvinnufær og réttur hennar hafi náð til, sbr. greinar 12.2.6 og 12.2.7 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Ekki verði séð að hún eigi rétt til frekari greiðslna á því tímabili sem hún var óvinnufær vegna veikinda. Um rétt hennar til launa í veikindum gildi almennar reglur um rétt ríkisstarfsmanna til launa í veikindum og mögulegar ástæður fyrir veikindum hennar breyta því ekki. Það fái þannig ekki staðist, að mati stefnda, að stefnandi geti átt rétt á að fá bættan mismuninn á tilteknum meðallaunum fyrir veikindin og það atvik sem varð áður en veikindi hennar hófust og þeim launum sem hún fékk í veikindum sínum. Á sama hátt standist það ekki, að mati stefnda, að stefnandi geti átt rétt á launum fyrir tímann eftir að hún hætti að fá laun í veikindum enda ekki komið fram að hún hafi verið orðin vinnufær á þeim tíma. Hafi hún verið óvinnufær þá gátu greiðslur til hennar ekki numið meiru en veikindalaunum.

Í máli stefnanda til ógildingar ákvörðunar stefnda fyrir héraðsdómi hafi komið fram hjá yfirmönnum stefnanda hjá stefnda að hún væri enn starfsmaður stefnda og að ekki hafi komið til uppsagnar, hvorki af stefnanda hálfu né stefnda. Stefnandi hafi því sýnt ákveðið tómlæti gagnvart stefnda. Stefnanda hafi borið að uppfylla vinnuskyldu samkvæmt 16. gr. laga nr. 70/1996 og mæta til vinnu eftir að veikindum lauk en það hafi hún ekki gert heldur ráðið sig í nýtt starf í september 2007. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að ekkert samband hafi verið haft við stefnanda, hvorki til að gera upp við hana laun né til að athuga hvort hún hygðist mæta aftur til vinnu. Þar sem stefnandi mætti ekki til vinnu eftir að veikindum hennar lauk hafi stefndi talið að það stæði stefnanda nær að eiga frumkvæði að því að hafa samband við stefnda um það hvort hún hygðist snúa aftur til vinnu. Það hafi verið stefnandi sem tók þá ákvörðun að mæta ekki til vinnu vegna ágreinings við stefnda. Ekki hafi verið skorið úr þeim ágreiningi fyrr en með dómi Hæstaréttar.

Þar sem tilefni starfsloka stefnanda megi rekja til frumkvæðis stefnanda sjálfrar verði ekki séð að nokkur grundvöllur sé fyrir skaðabóta- eða launakröfu hennar auk kröfu um greiðslu óuppgerðra orlofslauna vegna starfsloka hjá stefnda. Stefnandi hafi sjálf vanefnt vinnusamning sinn með því að mæta ekki til vinnu eftir veikindi og hún eigi því ekki kröfu á stefnda vegna vangoldinna launa. Afstaða stjórnenda stefnda hafi ekki miðað að því að stefnandi kæmi ekki aftur til starfa og því ekki um það að ræða að henni hafi verið gert ókleift að sinna starfi sínu eða að hún hafi með ólögmætum hætti verið flæmd úr opinberu starfi og við það orðið fyrir tekjumissi eða fjártjóni sem varði stefnda bótaábyrgð.

Stefndi mótmælir því að Hæstiréttur hafi, með því að dæma miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, skorið úr um það að stefndi beri skaðabótaábyrgð á öllu fjártjóni stefnanda, sem rakið verður til ákvörðunar stefnda. Dómkrafa stefnanda hafi einungis lotið að því að fá ákvörðun stefnda ógilta og til greiðslu miskabóta. Ekkert hafi verið fjallað um skaðabótaskyldu stefnda. Því sé afar hæpið að draga þá ályktun af dómi Hæstaréttar að hann hafi skorið úr um að stefndi beri skaðabótaábyrgð á öllu fjártjóni stefnanda.

Stefnandi hafi ekki fært að því rök að skilyrðum almennu skaðabótareglunnar sé fullnægt, m.a. um sök og ólögmæti. Ósannað sé m.a. að veikindi stefnanda séu sennileg afleiðing af þeirri ákvörðun stefnda að flytja hana til í starfi innan sjúkrahússins. Þá kveðst stefnandi til vara byggja á almennum reglum vinnuréttar og sé þá litið á kröfu stefnanda sem launakröfu. Þetta standist ekki að mati stefnda. Allur grundvöllur málsins verði óskýr við þessa framsetningu. Að auki bendir stefndi á að ef litið er þetta sem mál vegna vangreiddra launa þá sé ljóst að stefnandi hafi fengið greidd full laun samkvæmt kjarasamningi í veikindum. Áréttað er að stefnanda hafi ekki verið gert ókleift að sinna starfi sínu á sjúkrahúsinu og ákvörðunin hafi ekki þýtt starfslok hennar nema hún sjálf brygðist þannig við. Þau viðbrögð hennar séu þá á eigin ábyrgð. Vegna athugasemda um að starf á heilsugæslu hafi ekki verið stefnanda samboðið er bent á að það sé ósannað með öllu og ekkert liggi fyrir um að nám hennar hefði nýst henni síður þar en annars staðar.

Stefndi fellst ekki á þá aðferð stefnanda að miða meðallaun við síðustu 6 mánuði í starfi. Í kjarasamningum sé gert ráð fyrir að miða við 12 mánuði við útreikning meðallauna. Stefnandi hafi hins vegar ekki verið við vinnu samfellt í 12 mánuði áður en þeir atburðir áttu sér stað sem hefðu verið rótin að máli þessu. 

Þá fellst stefndi ekki á útreikning á meðallaunum að fjárhæð 358.968 krónur eins og gert er í stefnu. Meðallaun stefnanda síðustu 6 mánuði í starfi hafi verið 320.347 krónur samkvæmt útreikningi sem stefndi hafi lagt fram.

Þá komi ekki fram að stefnandi hafi haft tekjur frá apríl 2007 til september 2007. Hafi það verið vegna veikinda þá telji stefndi ljóst að stefnandi geti ekki átt rétt á að fá greidd laun frá stefnda á þeim tíma. Hafi stefnandi hins vegar ekki verið veik á þessum tíma verði að gera til hennar þá kröfu að á þeim tíma hafi hún reynt að takmarka tjón sitt eftir megni með launaðri vinnu. Það hafi hún hins vegar ekki sýnt fram á.

Verði niðurstaða dómsins sú að stefnandi teljist eiga rétt á skaðabótum eða launum vegna starfsloka sinna hjá stefnda þá sé skaðabóta-, launa- og orlofskrafa stefnanda allt of há að mati stefnda og því er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Við mat á bótum hljóti ákvörðun stefnanda að hætta að eigin frumkvæði að teljast til málsbóta fyrir stefnda og þar með til lækkunar. Aldur stefnanda við starfslok hefði ekki átt að verða henni fjötur um fót við atvinnuleit. Er til hliðsjónar vísað til 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/2006.

Þá er vaxtakröfum og dráttarvaxtakröfum stefnanda mótmælt, m.a. með vísun til niðurlagsákvæðis 9. gr. laga nr. 38/2001. Að öðru leyti er málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV. Skýrslur fyrir dómi.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi. Skýrsla var einnig tekin af vitninu B heimilislækni, í gegnum síma.

Stefnandi var spurð að því hver hefði verið orsök óvinnufærni hennar. Hún sagði að það hefði verið áfallastreita tengd ákveðnu máli. Þetta hefði lýst sér í stöðugum hugsunum um málið og líka miklum doða, hún hefði forðast aftur svona aðstæður. T.d. hefði hún mjög lengi á eftir átt erfitt með að keyra fram hjá Landspítalanum. Um hefði verið að ræða ofboðslega andlega spennu sem hefði leitt til þunglyndis og sjálfsvígshugsana. Stefnandi svaraði því játandi að orsökina væri eingöngu að rekja til ákvörðunar stefnda um að flytja hana milli deilda. Aðferðin að þessu öllu saman og þessar hrikalegu ásakanir sem hefðu verið bornar upp á hana. Hún hefði brotnað niður við þetta. Hún hefði átt við kvíða og þunglyndi að stríða áður en hefði þó alltaf verið í góðum farvegi. Hún hefði getað stundað nám og vinnu alla tíð. Kannski viðkvæmari fyrir. Bara áfallastreita í hnotskurn. Þá var stefnandi spurð hvort stefndi hefði einhvern tímann haft samband til að afla upplýsinga um veikindin eftir að hún skilaði vottorði í lok október 2006 eða beðið hana að endurnýja læknisvottorðið. Aldrei svaraði stefnandi. Enginn hjá stefnda hefði haft samband við hana eftir að henni hefði verið vísað á bug. Aðspurð um starfið sem hún hefði fengið í lok september við heimahjúkrun á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði stefnandi að hún væri einstæð móðir. Hún hefði verið komin í góða fjárhagslega stöðu áður en málið hefði komið upp. Hún hefði verið með styrk frá BHM, verið að kaupa sér íbúð og annað. Það hefði legið fyrir að annað hvort þyrfti hún að selja eða fara að vinna þar sem skuldir hlóðust upp. Hún hefði tekið lán í bönkum til framfærslu og ekki haft neinn fjárhagslega á bak við sig. Hún hefði orðið að fara að vinna. Aðspurð hvað hún hefði að segja um það sem stefndi hefði haldið fram, þ.e. að hún hefði getað takmarkað tjón sitt fyrr með því að fá sér vinnu fyrr, kvaðst stefnandi hafa reynt. Hún hefði komist í gegnum síuna hjá [...] að [...]starfi en það ekki gengið upp þar sem hún hefði verið sökuð um eitthvað ömurlegt. Henni hafi verið vísað á bug viku áður en hún átti að hefja störf. Varðandi vinnuna sem hún hefði fengið um haustið, sagði stefnandi að hún hefði orðið að bíta á jaxlinn og fara í vinnu. Annars hefði hún orðið gjaldþrota.

Vitnið B staðfesti fyrir dóminum í gegnum síma að hún hefði gefið út framangreind vottorð frá 23. október 2006 og 8. maí 2007. Hún kvaðst vera heimilislæknir stefnanda. Hún var beðin að gera grein fyrir tilurð vottorðsins frá 23. október 2006 og gera grein fyrir veikindum stefnanda. Vitnið sagði að í kjölfar atviks á vinnustað stefnanda hefði komið fram mikil vanlíðan hjá stefnanda. Hún hefði haft mikil líkamleg einkenni, miklar svefntruflanir og andleg líðan stefnanda hefði verið mjög slæm. Umrætt atvik hefði verið orsökin. Aðspurð hvort eitthvað annað hefði amað að stefnanda en afleiðingar af ákvörðuninni svaraði vitnið „ekki mér vitanlega“. Vitnið minntist þess ekki að nokkur frá stefnanda, s.s. trúnaðarlæknir hefði haft samband til að fá nánari skýringar á vottorðinu, og það væri ekki skráð hjá henni.

Þá var vitnið spurt að því hvort komið hefði til greina að hennar mati, á þeim tíma er hún gaf út vottorðið 8. maí 2007, að gefa stefnanda vottorð um að hún væri starfhæf, þ.e. í maí 2007. Vitnið svaraði því til að þegar manneskja verður fyrir áfalli, skipti miklu máli hvernig tekið er á málum hennar. Því fyrr sem það væri gert og að hún upplifði traust og trúnað og stuðning frá sínum samstarfsaðilum og annað. Það skipti rosalegu miklu  máli. Á hinn bóginn ef hún væri algerlega einangruð í sínu ferli og fyndist sér ítrekað vera hafnað þegar reyndi að koma sér áfram í lífinu þá upplifði hún mikið vantraust til síns umhverfis. Á þessu tímabili hefði stefnandi bara ekki verið komin lengra í sínu bataferli og vitnið hefði metið það að stefnandi væri óvinnufær á þessum tímapunkti. Vitnið var þá spurt hvort það hefði skipt máli hver afstaða stefnanda sjálfrar til starfshæfni hefði verið ef stefnandi hefði komið til hennar í maí 2007 og óskað eftir starfshæfnisvottorði. Vitnið sagði að þegar vottuð væru veikindi væru það tveir þættir sem spiluðu þar inn í. Annars vegar það sem læknirinn gæti metið með því að fylgjast með og skoða og hins vegar líðan viðkomandi, s.s. ef hann lýsir mikilli vanlíðan, svefntruflunum, liggur í rúmi langt niðri. Oft væri byggt á því sem viðkomandi lýsti.

Vitnið kvaðst ekki vita til að eitthvað annað en aðstæður á vinnustað stefnanda hefðu orsakað óvinnufærni hennar í svo langan tíma. Aðspurt hvenær stefnandi hefði komið til vitnisins eftir útgáfu vottorðsins í október 2006 sagði vitnið að stefnandi hefði verið í símasambandi 1. nóvember og síðan í janúar og mars 2007. Stefnandi hefði ekki komið til hennar fyrr en 12. apríl 2007. Vitnið var spurt hvort ekki væri erfitt að leggja mat á óvinnufærni á þessum tímabili á milli þegar vitnið hefði ekki hitt stefnanda. Vitnið svaraði því til að það hefði ekki séð manneskju sem hefði liðið eins illa vegna áfalls. Vitnið kvaðst hafa þekkt stefnanda frá 1990 og gengið með henni í gegnum ýmislegt, þekkti hana vel, upplifði að góður trúnaður væri fyrir hendi og ekki staðið stefnanda að neinu sem hefði vakið tortryggni vitnisins. Það hefði virkilega trúnað gagnvart stefnanda og fyndist það geta metið það sem hún segði. Vitnið kvaðst ekki þekkja atvikið hjá stefnda að af öðru en frásögn stefnanda.

Þá var vitnið spurt hvort það vissi hvenær stefnandi hefði hætt að vera óvinnufær.  Vitnið sagði að það væru svo margir þættir sem spiluðu inn í það hvenær maður verður vinnufær. Þegar maður yrði fyrir andlegu áfalli maður fyndi maður fyrir líkamlegum og andlegum einkennum maður treysti ekki umhverfinu vegna síendurtekinnar höfnunar. Þá skipti öllu máli eins og þegar talað sé um áfallahjálp, að gripið væri sem fyrst inn í og maður fengi trúnað og traust frá samstarfsfólki sínu og félögum en það lengdi ferlið væri viðkomandi hafnað alls staðar þar sem maður reynir að leita sér hjálpar það lengir ferli. Vitnið sagði að ferlið hjá stefnanda hefði verið nokkuð langt því að hún hefði orðið fyrir ítrekuðum höfnunum. Viðbrögð umhverfisins skipti öllu máli og hvenær hún fengi tækifæri til að reyna hvort hún stæði í lappirnar. Aðspurt hvor vitnið gæti nefnt dag eða mánuð varðandi það hvenær stefnandi hefði orðið vinnufær svaraði vitanið að í raun fyndist því skipta miklu máli hvernig umhverfið brygðist við, hvaða tækifæri stefnandi fengi til að ná sér. Loks var vitnið spurt hvort einhvern tímann hefði komið til tals að það gæfi út starfshæfnisvottorð, vottorð um að stefnandi væri orðin vinnufær. Vitnið svaraði því neitandi.

V. Forsendur og niðurstöður

Í máli þessu er deilt um hvort stefndi bera bótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna tekjumissis stefnanda í kjölfar veikinda hennar og síðar starfsloka hjá stefnda eftir ákvörðunina um tilfærslu stefnanda milli deilda á [...]sviði stefnda sem var dæmd ólögmæt með dómi Hæstaréttar 18. september 2008 í máli nr. 430/2007.

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir vottorðum heimilislæknis stefnda og framburði læknisins fyrir dómi um líðan stefndu í kjölfar ákvörðunar stefnda um að færa hana milli deilda hjá stefnda. Af þessum gögnum verður ráðið að stefnandi hafi orðið fyrir áfalli vegna ákvörðunarinnar sem leiddi til veikinda hennar og hún átti við að stríða a.m.k. fram á vor, eins og ráðið verður af læknisvottorðinu frá 8. maí 2007 og vottorði sálfræðings frá 16. maí 2007. Þá þykir sannað með vottorði og framburði heimilislæknis hennar að orsakatengsl séu milli ákvörðunar stefnda um tilfærslu og veikinda stefnanda. Þá verður að telja veikindi stefnanda sennilega afleiðingu af ákvörðuninni enda var hún til þess fallin að valda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan eins og segir í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.

Við mat á því hvort stefnanda hafi verið skylt að mæta til vinnu eftir að veikindum lauk samkvæmt 16. gr. laga nr. 70/1996 á grundvelli þeirrar meginskyldu starfsmanna samkvæmt 15. gr. sömu laga að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna, eins og stefndi heldur fram, verður ekki horft fram hjá því að fyrir liggur dómur Hæstaréttar um að ákvörðunin um tilfærslu stefnanda milli deilda á [...]sviði var ólögmæt. Stefndu bar því ekki að hlíta þeirri ákvörðun og mæta til vinnu á þeim forsendum.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær stefnandi varð vinnufær að nýju en veikindavottorð heimilislæknis hennar, útgefið 25. október 2006, sem lá til grundvallar því að stefndi greiddi henni veikindalaun til 18. mars 2007, er ótímabundið. Í vottorði læknisins frá 8. maí 2007 kemur fram að í febrúar 2007 hafi líðan stefnanda verið heldur betri og hún sótt um [...]starf, náð inntökuprófi og í framhaldinu farið á námskeið. Hins vegar þegar stefnandi hafi komið á stofu læknisins 12. apríl sama ár hafi henni liðið mjög illa og greint frá að því hún hefði verið borin rangri sök og vísað frá námskeiðinu. Stefnandi hafi haft sterk líkamleg einkenni þunglyndis og kvíða. Í framhaldinu leitaði stefnandi til sálfræðings 23. apríl eins og fram kemur í fyrrgreindu vottorði sálfræðingsins.

Með bréfi, dagsettu 31. maí 2007, óskaði lögmaður stefnanda eftir viðræðum við ríkislögmann eða eftir atvikum annan bæran fyrirsvarsmann stefnda um störf stefnanda. Fram kemur að stefnanda sé mikið í mun að komast aftur til starfa. Fjárhagsleg, félagsleg og heilsufarsleg velferð hennar velti á því. Þarna lýsti stefnandi ríkum vilja til að koma að nýju til starfa hjá stefnda eftir að veikindum hennar lauk. Með því að stefndi rétti ekki hlut stefnanda og gerði henni ekki kleift að mæta til starfa á sinn fyrri vinnustað hjá stefnda verður að líta svo á að forsendur ráðningarsamnings aðila hafi brostið. Lagt verður til grundvallar að mánuði eftir að stefnandi bauð fram vinnuframlag sitt með bréfinu frá 31. maí 2007 hafi henni verið rétt að líta svo á að aðgerðaleysi stefnda jafngilti uppsögn ráðningarsamnings þeirra.

Samkvæmt framanrituðu er fallist á það með stefnanda að hún eigi rétt til bóta úr hendi stefnda af þeim sökum vegna tekjumissis tímabilið 1. nóvember 2006 til 24. september 2007 er hún réð sig í nýtt starf. Þykir það hæfilegt þegar horft er til þess að stefnandi naut réttinda og bar skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996, hin ólögmæta ákvörðun stefnda var til þess fallin að skaða stöðu stefnanda við leit að nýju starfi og telja verður að stefnandi hafi, með því að ráða sig í nýtt starf í september 2007, sinnt þeirri skyldu sinni að takmarka tjón sitt eftir megni.

Stefndi hefur ekki andmælt því að meðallaun séu lögð til grundvallar ákvörðun bóta en mótmælt því að miðað sé við meðallaun síðustu sex mánuði stefnanda í starfi þar sem í kjarasamningum sé gert ráð fyrir að miða við 12 mánuði við útreikning meðallauna. Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi var ekki í vinnu hjá stefnda samfellt í 12 mánuði fyrir þá atburði sem eru undirrót þessa máls þykir rétt að miða við meðallaun síðustu sex mánuði. Stefndi hefur einnig andmælt útreikningi stefnanda á meðallaunum. Því til stuðnings hefur stefndi hins vegar látið við það sitja að vísa til framlagðs útreiknings á meðallaunum stefnanda án þess að gera frekari grein fyrir forsendum hans, hvorki í greinargerð né við aðalmeðferð. Stefndi hefur því hvorki með haldbærum gögnum né rökum tekist að hnekkja meðaltalsútreikningi stefnanda, sem byggir á samtölu launa og annarra greiðslna, samkvæmt framlögðum launaseðlum fyrir tímabilið maí 2006 til og með október 2006, og ber því að leggja hann til grundvallar. Einnig verður fallist á að stefnandi eigi rétt á að fá bætt það fjártjón sem hún varð fyrir vegna þess að launin sem henni voru greidd í veikindum voru nokkru lægri en meðallaun. Þá gerði stefndi ekki sérstakar athugasemdir við kröfu stefnanda um að bætur vegna vangreiddrar orlofskröfu stefnanda eftir að hún var lækkuð við aðalmeðferð í 131.157 krónur. Að þessu virtu er fallist á dómkröfur stefnanda og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.803.807 krónur með vöxtum eins og segir í dómsorði.

Í samræmi við niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda 600.000 krónur málskostnað.

Áslaug Björgvinsdóttir kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landspítali-háskólasjúkrahús, greiði stefnanda A, 2.803.807 krónur með vöxtum samkvæmt 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. af 79.283 krónum frá 1. desember 2006, af 126.538 krónum frá 1. janúar 2007, af 26.247 krónum frá 1. febrúar 2007, af 86.606 krónum frá 1. mars 2007, af  194.707 krónum frá 1. apríl 2007, af 369.968 krónum frá 1. maí 2007, af 369.968 krónum frá 1. júní 2007, af 369.968 krónum frá 1. júlí 2007, af 369.968 krónum frá 1. ágúst 2007, af 369.968 krónum frá 1. september 2007 og af 441.741 krónu frá 1. október 2007, í hverju tilviki til 29. janúar 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, í hverju tilviki frá 29. janúar 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.