Hæstiréttur íslands

Mál nr. 658/2016

Arnar Sigurðsson (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)
gegn
SPB hf. (Tómas Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kröfulýsing
  • Löggeymsla
  • Málshöfðunarfrestur
  • Lögjöfnun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna tvær kröfur sem A hafði lýst við slit S hf. Hvað varðaði aðra kröfuna, sem var til komin vegna þeirrar ráðstöfunar S hf. að leysa til sín innstæðu á handveðsettum innlánsreikningi A vegna uppgjörs aðilanna á samningum um afleiðuviðskipti, var talið að kröfulýsing A hefði verið svo óljós að henni bæri að hafna. Um hina kröfuna, sem reist var á því að S hf. hefði valdið A tjóni með óréttmætri löggeymslu í fasteign hans eftir að héraðsdómi í máli þeirra hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar, sagði hins vegar að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. mætti höfða sjálfstætt mál til heimtu skaðabóta samkvæmt 42. gr. laganna innan þriggja mánaða frá því þeim, sem bóta krefðist, hefði orðið kunnugt um niðurfellingu gerðar. Eðli máls samkvæmt yrði þessu ákvæði beitt með lögjöfnun þegar bú þess, sem fengið hefði fjármuni tryggða með gerð á borð við löggeymslu, væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda væri aðstaða kröfuhafa í báðum tilvikum sambærileg. Þar sem A hefði ekki lýst kröfu um skaðabætur vegna löggeymslunnar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar bæri einnig að hafna þeirri kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2016 þar sem því var hafnað að tvær kröfur sóknaraðila, sem hann lýsti við slit varnaraðila, skyldu njóta réttar sem búskröfur samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindum kröfum hans, annars vegar að fjárhæð 27.774.094 krónur og hins vegar að fjárhæð 25.610.744 krónur, verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila með áðurnefndum hætti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Við slit varnaraðila gilda almennt sömu reglur um kröfur á hendur honum og við gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfur, sem lýst er á hendur þrotabúi, tilteknar eins skýrt og verða má, svo sem fjárhæð kröfu í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Þegar kröfulýsingarfresti er lokið skal skiptastjóri gera skrá um þær kröfur sem komið hafa fram, þar sem hann lætur í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig, sbr. 1. mgr. 119. gr. laganna. Rísi ágreiningur um lýsta kröfu og ekki tekst að jafna hann skal skiptastjóri beina honum til héraðsdóms eftir 171. gr. sömu laga. Skal héraðsdómari gefa kröfuhafa sem sóknaraðila málsins kost á að skila greinargerð af sinni hálfu þar sem fram á að koma til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi fyrir dómi og á hverju þær séu byggðar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laganna. Á sama hátt skal þrotabúinu sem varnaraðila gefinn kostur á að leggja fram greinargerð af sinni hendi, þar sem fram komi kröfur hans um formhlið og efnishlið máls, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar.

Af framangreindum ákvæðum leiðir að kröfulýsing á hendur þrotabúi skal vera ákveðin og ljós, einkum um fjárhæð kröfu sé um peningakröfu að ræða. Einnig þarf að greina helstu málsástæður, sem búa að baki kröfunni, þar á meðal hvernig kröfufjárhæðin er reiknuð eða fundin út, en eftir atvikum má vísa um það til meðfylgjandi gagna, sbr. 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóra er í fyrstu einungis ætlað að taka afstöðu til þess hvort hann telji rétt að viðurkenna kröfu og þá hvernig, svo sem hvort hún skuli viðurkennd að öllu leyti eða hluta og hvar henni skuli skipað í réttindaröð. Sé ágreiningi um lýsta kröfu beint til héraðsdóms á hvor aðili um sig rétt á að skila greinargerð þar sem gert er ráð fyrir að þeir greini málsástæður sínar og vísi til gagna, málstað sínum til stuðnings. Er þetta í fyrsta sinn sem þrotabúinu gefst eftir lögunum kostur á að tefla fram málsástæðum af sinni hendi sem andsvör við kröfum og málsástæðum kröfuhafa í samræmi við meginreglu réttarfars um jafnræði aðila fyrir dómi. Samkvæmt þessu var héraðsdómi rétt að líta til þeirra málsástæðna, sem komu fram í greinargerð varnaraðila jafnt sem sóknaraðila, við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.

II

  Í upphaflegri kröfulýsingu sóknaraðila á hendur varnaraðila 3. nóvember 2009 var lýst kröfu að höfuðstól 19.968.169 krónur á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 og tekið fram að hún tæki til innstæðu sem væri sérgreind á tilteknum innlánsreikningi sóknaraðila hjá varnaraðila. Vísað var til meðfylgjandi yfirlits yfir stöðu reikningsins 9. september sama ár þótt ljóst væri samkvæmt gögnum málsins að 6.000.000 krónur hafi verið millifærðar af honum til sóknaraðila þremur dögum síðar. Í kröfulýsingu sóknaraðila 8. nóvember 2013, að gengnum dómi Hæstaréttar 24. janúar sama ár í máli nr. 253/2012, var upphaflega kröfulýsingin uppfærð og krafist „endurgreiðslu á oftekinni tryggingarfjárhæð“ af sama innlánsreikningi að höfuðstól 27.151.571 króna á grundvelli 3. töluliðs 110. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við dóm Hæstaréttar var í hinni nýju kröfulýsingu gengið út frá því að 8. október 2008 eða við lok svonefndra skiptasamninga, sem aðilar höfðu gert með sér, hafi varnaraðili eignast kröfu á hendur sóknaraðila að fjárhæð 13.656.392 krónur vegna hækkunar á markaðsvirði nánar greindra ríkisskuldabréfa, en inneign sóknaraðila á innlánsreikningnum verið nokkru hærri. Sóknaraðili hélt því jafnframt fram að svo hefði verið um samið milli hans og varnaraðila að hann „héldi skortsölustöðu“ ríkisskuldabréfanna til 12. desember 2008 þegar þau voru á gjalddaga, en það hefði haft þau áhrif, eftir því sem helst verður skilið af málatilbúnaði sóknaraðila, að krafa varnaraðila hefði þá átt að falla niður. Ekki var hins vegar að finna neina skýringu á því í kröfulýsingunni, sem sóknaraðili hefur ekki hvikað frá, hvers vegna varnaraðili hefði vegna þessa verið skylt að greiða, fyrir utan það að krafa hans félli niður, 13.656.392 krónur inn á umræddan innlánsreikning varnaraðila. Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna beri fyrri kröfu sóknaraðila vegna þess hversu óljós kröfulýsing hans var.

Í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segir að höfða megi sjálfstætt mál til heimtu skaðabóta samkvæmt 42. gr. laganna innan þriggja mánaða frá því þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, um niðurstöðu staðfestingarmáls eða um niðurfellingu gerðar af öðrum sökum. Eðli máls samkvæmt verður þessu ákvæði beitt með lögjöfnun um það tilvik þegar bú þess, sem hefur fengið fjármuni tryggða með gerð á borð við löggeymslu, er tekið til gjaldþrotaskipta, enda er aðstaða kröfuhafa í báðum tilvikum sambærileg, svo sem sjá má af því að lýsing kröfu í þrotabú slítur fyrningu kröfuréttinda á sama hátt og málssókn, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt því bar sóknaraðila að lýsa kröfu um skaðabætur vegna löggeymslu, sem gerð var hjá honum að kröfu varnaraðila 7. maí 2012, innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu fyrrgreinds dóms Hæstaréttar 24. janúar 2013. Þar sem sóknaraðili gerði það ekki verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þessi hluti af síðari kröfu hans á hendur varnaraðila skuli hafnað.

Að öðru leyti en að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Arnar Sigurðsson, greiði varnaraðila, SPB hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2016

I.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál um slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins 24. mars 2014 með bréfi slitastjórnar varnaraðila með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Málið var tekið til úrskurðar 24. ágúst 2016.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans í bú varnaraðila, auðkennd nr. 229 í kröfuskrá, eins og hún hefur verið uppfærð, samtals að höfuðstól 27.774.994 krónur, verði viðurkennd sem búskrafa í búið, samkvæmt 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Auk þess krefst sóknaraðili viðurkenningar á kröfu til dráttarvaxta úr hendi varnaraðila, samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af höfuðstól kröfunnar, frá 12. desember 2013 til greiðsludags og að hún njóti einnig stöðu búskröfu.

Til vara krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að krafa hans í bú varnaraðila, auðkennd nr. 229 í kröfuskrá, auk sömu dráttarvaxtakröfu og í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem skaðabótakrafa á hendur varnaraðila er njóti stöðu búskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili krefst þess enn fremur að krafa hans í bú varnaraðila, auðkennd nr. 251 í kröfuskrá, samtals að höfuðstól 25.610.744 krónur, verði viðurkennd sem búskrafa í búið, samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað en til vara að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega.

Jafnframt er þess krafist til vara að krafa sóknaraðila auðkennd nr. 229 í kröfuskrá varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þess er í öllum tilvikum krafist að sóknaraðili verði dæmdur til þess að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, að teknu tilliti til skyldu varnaraðila til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

II.

Upphaf þessa máls má rekja til þess að sóknaraðili gerði 13. júní 2008 tvo samninga við varnaraðila um afleiðuviðskipti. Um var að ræða svonefnda skiptasamninga sem fólu í sér að hvor aðili bar áhættu af þróun tiltekinna fjármálagerninga fram að ákveðnum uppgjörsdegi, 8. október sama ár. Annars vegar var miðað við ríkisskuldabréfaflokkinn RB 08 1212 og hins vegar skuldabréfaflokkinn EXIS 08 1008. Ábyrgð á hækkun markaðsverðs RB 08 1212 hvíldi á herðum sóknaraðila en varnaraðili bar samsvarandi ábyrgð á hækkun EXIS 08 1008.

Til tryggingar á skuldbindingum sínum samkvæmt samningunum hafði sóknaraðili lagt að handveði innlánsreikning sinn hjá varnaraðila, sbr. tryggingarbréf dagsett 24. júní 2007. Handveðréttur varnaraðila náði til allra skulda og skuldbindinga sóknaraðila við varnaraðila, þ.m.t. vegna skiptasamninganna. Þá var öll innstæða reikningsins, eins og hún var á hverjum tíma, lögð að handveði.

Á uppgjörsdegi samninganna, 8. október 2008, lá fyrir að markaðsvirði RB 08 1212, hafði hækkað um sem nam 13.656.392 kr. samkvæmt samningi aðila og var sú fjárhæð óumdeild. Aðila greindi aftur á móti á um hvort sóknaraðili bæri jafnframt ábyrgð á lækkun EXIS 08 1008 sem nam verulegri fjárhæð. Auk þess taldi sóknaraðili að varnaraðili hefði skuldbundið sig til að framlengja samning um svokallaða skortstöðu sóknaraðila með RB 08 1212, út líftíma þeirra, þ.e. til 12. desember 2008.

                Á grundvelli þágildandi 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið (FME) ákvörðun, dagsetta 21. mars 2009, þar sem meðal annars var lagt fyrir varnaraðila að leita heimildar til greiðslustöðvunar samkvæmt ákvæðum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.), sbr. kafla XII A í lögum nr. 161/2002. Í kjölfarið sótti varnaraðili um heimild til greiðslustöðvunar og var sú heimild veitt til 15. júní 2009 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009. Þann 27. mars 2009 var með sérstakri ákvörðun FME skipuð skilanefnd fyrir varnaraðila sem var falið að fara með öll málefni félagsins, þ.m.t. að hrinda í framkvæmd ákvörðunum FME, og hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast rekstur félagsins að öðru leyti.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2009 var varnaraðila, að beiðni skilanefndar, skipuð slitastjórn samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Störfum skilanefndar lauk frá og með 1. janúar 2012 þegar verk hennar féllu til slitastjórnar samkvæmt 3. ml. 3. tl. ákvæðis V til bráðabirgða við lög nr. 161/2002.

Sóknaraðili í máli þessu lýsti upphaflega kröfu til slitastjórnar varnaraðila með bréfi, dags. 3. nóvember 2009, að fjárhæð 23.186.150 krónur. Þar af nam höfuðstóll kröfunnar 19.968.169 kr., vextir 205.395 kr. en dráttarvextir 3.012.586 kr. Í kröfulýsingunni var vísað til 109. gr. laga nr. 21/1991, með vísan til þess að krafan tæki til innistæðu sem væri sérgreind á innlánsreikningi kröfuhafa nr. 0229597ICEBIDISK00I. Forsendum að baki kröfulýsingunni var síðan lýst með eftirfarandi hætti:

Krafan byggir á því að Sparisjóðabanki Íslands hf. hafi neitað að afhenda kröfuhafa inneign af handveðsettum reikning hans hjá bankanum, eftir að fyrir lá að kröfuhafi skuldaði bankanum ekki neitt eftir uppgjörsdag tveggja skiptasamninga sem handveðinu var ætlað að tryggja efndir á. Þvert á móti skuldi Sparisjóðabanki Íslands hf. honum talsverða fjárhæð á grundvelli nefndra skiptasamninga (ekki er gerð sjálfstæð krafa um þá greiðslu vegna þess mats að útilokað sé að hún komi til greiðslu úr búinu).

Síðasta yfirlit sem kröfuhafi fékk frá Sparisjóðabanka Íslands hf. um stöðu á reikningi sínum er dagsett þann 9. september 2009 en sýnir síðast stöðu reikningsins miðað við 19. ágúst það ár. Gerð er krafa um samningsvexti frá þeim tíma (sem byggjast á 1 mánaðar REIBOR þar sem vaxtatafla bankans er ekki lengur aðgengileg og ekki hægt að staðreyna vexti bankans á þeim tíma) til 11. september 2008, þegar kröfuhafi krafðist afhendingar á inneigninni á reikningi sínum. Þá er krafist dráttarvaxta skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands frá þeirri dagsetningu til 22. apríl 2009.

Verði ekki fallist á að krafan heyri undir 109 gr. laga nr. 21/1991 er því til vara haldið fram að hún heyri undir 112. gr. sömu laga.

Ekki náðist samkomulag milli aðila um uppgjör þeirra skiptasamninga aðila sem raktir eru hér að framan og leysti varnaraðili því til sín framlagt handveð, innstæðu að fjárhæð 15.593.711 kr., þann 17. desember 2009. Krafa varnaraðila vegna hækkunar RB 08 1212, að höfuðstól 13.656.392 kr., var þá að fjárhæð 17.414.161 kr. með áföllnum vöxtum. Í kjölfarið höfðaði varnaraðili mál gegn sóknaraðila til að knýja á um efndir sóknaraðila samkvæmt samningunum.

Með tölvubréfi, dags. 13. janúar 2010, hafnaði slitastjórn varnaraðila þeirri kröfu sem sóknaraðili lýsti 3. nóvember 2009. Sóknaraðili mótmælti höfnuninni samdægurs með tölvubréfi.

Á jöfnunarfundi um kröfuna 24. febrúar 2010 breytti slitastjórn afstöðu sinni í höfnun að svo stöddu og var ákveðið að bíða úrslita í dómsmáli SPB hf. gegn sóknaraðila sem laut að uppgjöri skiptasamninga, m.a. um réttmæti þess að skuldajafna inneign sóknaraðila á fyrrgreindum innlánsreikningi við skuld hans við varnaraðila. Á skiptafundinum var bókað að réttmæti kröfu 229 myndi ráðast af úrslitum dómsmálsins en í fundargerðinni sagði orðrétt:

Ljóst er að ef kröfulýsandi verður sýknaður af kröfu Sparisjóðabankans eða reynist krafan lægri en sem nemur tryggingunni, eignast kröfulýsandi búskröfu á hendur Sparisjóðabankanum, sem nemur eftirstöðvum þeirrar tryggingar sem var ráðstafað upp í kröfu Sparisjóðabankans.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012 var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 57.486.958 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. október 2008 til greiðsludags. 

Með dómi Hæstaréttar frá 24. janúar 2013 í máli nr. 253/2012 sýknaði Hæstiréttur hins vegar sóknaraðila af kröfum varnaraðila.

Í forsendum dóms Hæstaréttar kemur meðal annars fram að ljóst sé að sóknaraðili hafi í samningum aðila tekið á sig áhættu af hækkun, sem kynni að verða á markaðsvirði ríkisskuldabréfa fram til lokadags, og hið sama eigi við um varnaraðila að því er taki til hugsanlegrar hækkunar á virði víxla á hendur Exista hf. Féllst Hæstiréttur á að samningana bæri að skýra svo að áhætta hvors um sig hafi takmarkast við hækkun viðmiðunarbréfa hans en lækkun fallið þar utan við. Á lokadegi samninganna hafi jöfnuður þannig verið 13.656.392 krónur, varnaraðila í hag. Í dóminum segir síðan svo:

Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að á grundvelli skiptasamninganna hafi skuld aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda numið 13.656.392 krónum 8. október 2008. Ekki liggur fyrir hvenær gagnáfrýjandi gekk að hinni veðsettu innstæðu aðaláfrýjanda hjá honum. Að gættri greiðslu á 6.000.000 krónum til aðaláfrýjanda 12. september 2008 verður ráðið að inneign á umræddum reikningi hafi 8. október 2008 numið hærri fjárhæð en svaraði skuld hans vegna uppgjörs skiptasamninganna, en gagnáfrýjanda hefði verið í lófa lagið að taka af tvímæli um þetta ef svo var ekki. Verður því að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi þar með fengið kröfu sína á hendur aðaláfrýjanda greidda. Að þessu virtu verður krafa aðaláfrýjanda um sýknu tekin til greina.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2013, sendi sóknaraðili kröfulýsingu til slitastjórnar varnaraðila en í bréfinu kom fram að annars vegar væri um að ræða „uppfærða kröfulýsingu frá 3. nóvember 2009“ og hins vegar „nýja kröfu á grundvelli atvika sem orðið [hefðu] eftir að bú SPB hf. var tekið til slitameðferðar“. Um fyrra atriðið sagði svo í kröfulýsingunni:

Þann 3. nóvember 2009 lýsti [sóknaraðili] kröfu í slit SPB að fjárhæð 23.186.150. Var kröfunni lýst á grundvelli 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Kröfu [sóknaraðila] var hafnað með tölvupósti frá slitastjórn SPB þann 13. janúar 2010. Afstöðu slitastjórnarinnar var mótmælt með tölvupósti undirritaðs til slitastjórnarinnar þann sama dag.

Í fundargerð ágreiningsfundar aðila þann 24. febrúar 2010 segir m.a: „Upplýst var á fundinum að kröfulýsandi hefði tekið til varna gegn kröfu Sparisjóðabankans og mótmælt réttmæti kröfunnar. Það mál væri nú til meðferðar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Ljóst er að úrslit þessa máls munu ráða úrslitum um réttmæti kröfu kröfulýsanda og því þykir slitastjórn rétt að fresta endanlegri afstöðu sinni þar til þau liggja fyrir. Slitastjórn breytir því afstöðu sinni til kröfunnar til „höfnunar að svo stöddu“. Ljóst er að ef kröfulýsandi verður sýknaður af kröfu Sparisjóðabankans eða reynist krafan lægri en sem nemur tryggingunni, eignast kröfulýsandi búskröfu á hendur Sparisjóðabankanum, sem nemur eftirstöðvum þeirrar tryggingar sem var ráðstafað upp í kröfu Sparisjóðabankans.

Þann 24. janúar 2013 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli aðila vegna þess ágreinings sem að ofan greinir. Hafði SPB krafist þess að [sóknaraðili] greiddi sér aðallega kr. 175.429.497, til vara kr. 145.129.497 og til þrautavara kr. 91.184.826, allt auk dráttarvaxta að viðbættum málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti. Var niðurstaða Hæstaréttar sú að sýkna [sóknaraðila] af öllum kröfum SPB og dæma þann síðarnefnda til að greiða kr. 2 milljónir í málskostnað. Byggði niðurstaða Hæstaréttar á því að vegna markleysu og þversagnar í texta samninganna sem SPB bæri ábyrgð á, gæti [sóknaraðili] aldrei skuldað SPB hærri fjárhæð á grundvelli hinna umþrættu skiptasamninga en sem næmi innistæðu þeirri er SPB hafði til tryggingar frá [sóknaraðila] á gjalddaga skiptasamninganna – og sem SPB staðfesti að hafa leyst til sín í málflutningi fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar liggur ekki fyrir hvenær SPB gekk að tryggingunum. Dómurinn virðist hins vegar leggja það til grundvallar að SPB hafi verið í lófa lagið þegar þann 8. október 2008 að leysa tryggingarnar til sín og því sé það sú dagsetning sem skipti máli hvað varðar stöðuna á milli aðila á grundvelli niðurstöðu skiptasamninganna, annars vegar og stöðu hins handveðsetta innlánsreiknings, hins vegar. Á þeim tíma nam inneign [sóknaraðila] á hinum veðsetta innlánsreikningi hærri fjárhæð en sem nam skuld hans samkvæmt skiptasamningunum eins og Hæstiréttur sló henni fastri.

Það eina sem liggur fyrir um það hvenær gengið var að tryggingum [sóknaraðila] hjá SPB er að sú aðgerð var um garð gengin þann 13. janúar 2010 þegar slitastjórn SPB hafnaði kröfu [sóknaraðila] í slit félagsins. Í ljósi samskipta SPB og [sóknaraðila] í árslok 2008, þar sem því var lofað skriflega að ekki yrði gengið frá tryggingunum nema að undangenginni dómkvaðningu matsmanns sem aldrei fór fram, verður að teljast fast að því öruggt að hafi verið sú slitastjórn sem tók við 22. apríl 2009 sem tók ákvörðun um að leysa til sín tryggingarnar. Þannig er langlíklegast að gengið hafi verið að tryggingunum á tímabilinu 22. apríl 2009 til 13. janúar 2010.

Því skal til haga haldið að dómur Hæstaréttar fjallaði aðeins um niðurstöðu skiptasamninganna og stöðu trygginga, auk nettóniðurstöðu framangreindra tveggja þátta en ekki um mögulegar aðrar kröfur aðila hvors á hendur hinum. Þannig felast í dómi Hæstaréttar engar málalyktir hvað varðar samning [sóknaraðila] og SB um að skortsala þess fyrrnefnda á RIKB08 skyldi standa út líftíma bréfanna, þ.e. til 12. desember 2008. Eðli máls samkvæmt var markaðsverð/-gengi þeirra skuldabréfa á gjalddaga 100, þegar þau voru að fullu greidd af ríkissjóði.

Þann 12. desember 2008 bar SPB að greiða [sóknaraðila] kr. 13.656.392 inn á hinn veðsetta innlánsreikning nr. 0229597ICEBIDISK001, vegna samnings aðila um að [sóknaraðili] héldi skortsölustöðu þeirra RIKB 08 1212 sem skiptasamningarnir vörðuðu frá 8. október 2008 til 12. desember 2008 . Fyrir liggur í tölvupóstsamskiptum aðila samningur um áðurnefnda skortsölu og engin gögn liggja fyrir sem skotið geta stoðum undir lausn SPB frá skyldu sinni að þessu leyti.

Staða innlánsreiknings nr. 0229597ICEBIDISK001 var kr. 19.968.169 hinn 19. ágúst 2008, skv.  yfirliti bankans.

[Sóknaraðili] tók út af reikningnum kr. 6.000.000 þann 12. september 2010 (staða innlánsreiknings án vaxta 13.968.169).

Þann 8. október 2010 eignaðist SPB mótkröfu að fjárhæð kr. 13.656.392, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu 253/2012, án þess að leysa til sín tryggingar (staða innlánsreiknings án vaxta kr. 13.968.169).

Þann 12. desember bar SPB að greiða inn á innlánsreikninginn kr. 13.656.392, vegna skortsölusamnings RIKB 08 1212 (staða innlánsreiknings án vaxta kr. 27.624.561). Þar sem [sóknaraðili] hefur engin yfirlit fengið yfir stöðu reikningsins frá í ágúst 2008 getur hann ekki annað en gengið út frá því að það hafi verið gert).

Fyrir liggur að SPB leysti til sína alla innistæðu [sóknaraðila] á innlánsreikningi hans einhvern tíma eftir þann 22. apríl 2009 þegar slitastjórn tók yfir rekstur bankans og fyrir 13. janúar 2010 (staða á innlánsreikningi án vaxta kr. 0).

Þar sem SPB átti kröfu á [sóknaraðila] að fjárhæð kr. 13.565.392 var félaginu óheimilt á nokkrum tímapunkti að leysa til sín hærri fjárhæð.

Vextir á kröfurnar eru reiknaðir þannig að óverðtryggðir innlánsvextir Seðlabanka Íslands eru reiknaðir á innlánsfjárhæðina til 8. október 2008 þegar [sóknaraðili] átti rétt að fá greiddan mismun innistæðu sinnar og kröfu SPB á grundvelli dóms Hæstaréttar (engin vaxtatafla frá SPB aðgengileg fyrir það tímabil) og dráttarvextir reiknaðir eftir það á þá inneign sem var/átti að vera á innlánsreikningum og [sóknaraðili] átti rétt á að fá greidda.

Útreikningar kröfu þessarar koma nánar fram í EXCEL skjali sem fylgir kröfulýsingu þessari.

Á grundvelli ofangreinds lýsir [sóknaraðili] hér með kröfu skv. 3. tl. 110. gr. [laga] nr. 21/1991, um endurgreiðslu á oftekinni tryggingarfjárhæð af innlánsreikningi AS hjá SPB nr. 0229597ICEBIDISK001. Nemur kröfufjárhæðin kr. 27.151.571, auk dráttarvaxta af kr. 24.617.640 til greiðsludags, verði hann eigi síðar en 12. desember 2013 en á þeim degi leggjast vextir undanfarinna 12 mánaða við höfuðstól.

      Í sömu kröfulýsingu sóknaraðila er einnig lýst búskröfum á grundvelli 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991. Í kröfulýsingunni er vísað til þess að gerð hafi verið löggeymsla í fasteign sóknaraðila 7. maí 2012 að fjárhæð 100.069.104 krónur að kröfu varnaraðila. Var löggeymslubeiðni [varnaraðila] byggð á dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur [...] sem Hæstiréttur sneri síðan við. [Sóknaraðili] bar löggeymsluna undir Héraðsdóm Reykjavíkur í málinu K-2/2012 þar sem hún var staðfest. Í kröfulýsingunni er vísað til 42. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sem bótagrundvallar vegna tjóns sóknaraðila en um það atriði segir svo í kröfulýsingunni:

Lögmannskostnaður nam 1.019.100, auk VSK, sbr. málskostnaðaryfirliti sem lagt var fram sem dómskjal 5 í máli K-2/2012, eða kr. 1.278.971.

Annar lögmannskostnaður vegna löggeymslumálsins nam kr. 130.350, auk VSK, eða kr. 163.589.

Svo sem 42. gr. laga nr. 31/1990 gefur til kynna kann að vera erfitt að festa hendur á fjártjóni vegna tilefnislausrar löggeymslu. Svo er í tilviki [sóknaraðila] sem varð fyrir margvíslegu miska tjóni vegna löggeymslunnar á eignum hans. Hann varð þannig af tækifærum til að veðsetja eignina til þátttöku í viðskiptum, auk þess sem hann beið af umræddri löggeymslu umtalsverðan álitshnekki svo eitthvað sé nefnt. Heldur [sóknaraðili] því fram að miski hans verði metinn til eigi lægri fjárhæðar en kr. 14.000.000. Hjálögð eru tölvupóstsamskipti þar sem fram kemur að AS átti í erfiðleikum með að útvega yfirdrátt sem nota mætti sem tryggingu fyrir framvirkum samningnum, sem hann hefur atvinnu af að að gera, sem gagngert má rekja til framangreindrar löggeymslu. Dró þetta verulega úr þeim höfuðstólfjárhæðum sem [sóknaraðili] gat haft undir í slíkum samningum, en hann hefur (og getur sýnt fram á) ósjaldan notað veðrými fasteignar sinnar til að útvega sér fé til slíkra samninga. Til að varpa skýrara ljósi á það fjártjón sem [sóknaraðili] varð fyrir af þessum sökum fylgir kröfu hans einn framvirkur samningur sem hann gerði á meðan löggeymslan hvíldi á fasteign hans. Umræddur samningur var aðeins til eins mánaðar og hefði Arnar haft tök á að veðsetja fasteign sína hefði höfuðstólsfjárhæðin geta verið margföld sú sem raun bar vitni (tryggingarkrafa í samningum af þessu tagi er tiltölulega lágt hlutfall höfuðstóls). Hagnaður þessa eina samnings var kr. 3.559.365. [Sóknaraðili] gerði marga aðra slíka samninga á löggeymslutímanum sem skiluðu honum hagnaði og hefðu skilað honum mun meiri hagnaði hefði hann getað nýtt veðrými fasteignar sinnar til að hækka höfuðstólinn.

Heildarfjárhæð kröfu [sóknaraðila] vegna löggeymslunnar nemur þannig kr. 15.442.560.

B. Lögmannskostnaður [sóknaraðila] vegna þeirra krafna sem [varnaraðili] hefur haft uppi á hendur honum hefur numið verulegum fjárhæðum umfram tildæmdan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Lögmannskostnaður á dómsstigunum tveimur nam samtals kr. 4.147.5000, auk VSK, eða kr. 5.205.113. Dæmdur málskostnaður nam kr. 2.000.000 og eftir stendur því kostnaður að fjárhæð kr. 3.205.113 sem [sóknaraðili] gerir kröfu um. Þess ber að gæta að umrætt dómsmál tók ekki minna en tæp þrjú ár frá útgáfu stefnu til dóms í Hæstarétti, fyrst og fremst vegna ástæðna er varða [varnaraðila], með samsvarandi fjölda fyrirtekta o.s.frv.

Lögmannskostnaður vegna greiningar, samskipta við [varnaraðila] og eftirlitsaðila áður en dómsmál var höfðað var einnig umtalsverður. Nemur sá kostnaður kr. 1.564.200, auk VSK, eða kr. 1.963.071. Ber þess að gæta að frá því að [varnaraðili] krafði [sóknaraðila] fyrst um greiðslu og þar til að dómsmál var höfðað liðu 16 mánuðir, en á því tímabili voru bréfleg samskipti umfangsmikil, fundnir voru haldir, en mestur tími fór þó í rannsóknir á staðreyndum málsins til að reyna að sjá gegnum þann vef ósanninda sem SPB hafði spunnið í kringum mál [sóknaraðila].

Heildarfjárhæð kröfu [sóknaraðila] vegna lögmannskostnaðar (umfram tildæmdan kostnað) nemur þannig kr. 5.168.184.

C. Svo sem áður getið átti allur málatilbúnaður [varnaraðila] gegn [sóknaraðila] rætur sínar í leynimakki, sviksamlegum afflutningi staðreynda og langsóttum lögfræðitúlkunum sem leiddu til þess að [sóknaraðili] mátti í fjögur og hálft ár búa við ótta um að öllum fjárhagsgrundvelli yrði kippt undan honum og stórri fjölskyldu hans. Jafnframt mátti hann sæta því að heilindi hans og áreiðanleiki í viðskiptum væru á þessum tíma dregin í efa, en fyrir aðila sem er fjárfestir að atvinnu hefur slíkt gríðarlegt tjón í för með sér. Slíka nagandi óvissu og álitshnekki er erfitt að meta til fjár, en AS myndi una við miskabætur að fjárhæð 5.000.000 vegna þessa þáttar.

D. [Sóknaraðili] gerir kröfu til þess að [varnaraðili] greiði sér lögmannskostnað vegna kröfulýsingar þessar og eftirfylgni hennar, eftir atvikum fyrir dómstólum.

Heildarkröfur samkvæmt ofangreindu nema kr. 52.598.726, auk vaxta til greiðsludags skv. ákvæðum vaxtalaga og kostnaðar við kröfulýsingu þessa.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi hafnað kröfunni með tölvupósti 18. desember 2013. Í bréfi varnaraðila segir meðal annars svo um kröfu hans nr. 229:

Skv. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands nr. 253/2012 er staðfest að skuld kröfulýsanda við SPB á grundvelli skiptasamninga hafi numið kr. 13.656.392 þann 8. október 2008.

Niðurstaða Hæstaréttar grundvallast á því að kröfulýsandi skuldi þann legg skiptasamningsins er lýtur að RB 08 1212 á gjalddaga samningsins. Ekki var ágreiningur um þessa fjárhæð á milli aðila samningsins fyrir dómi. Til viðbótar liggur fyrir að Hæstiréttur Íslands segir að gættri greiðslu á 6.000.000 krónum til kröfulýsanda hinn 12. september 2008 verði ráðið að inneign á umræddum reikningi hafi 8. október 2008 numið hærri fjárhæð en svaraði skuld hans vegna uppgjörs skiptasamninganna og af þeim sökum var kröfulýsandi sýknaður af kröfum SPB.

Framangreind skuld kröfulýsanda var ekki greidd á gjalddaga samningsins og SPB gekk ekki að innstæðu á reikningi kröfulýsanda fyrr en 17.12.2009. Var ástæða þess m.a. sá ágreiningur sem grundvallaðist á afstöðu kröfulýsanda að hann skuldaði SPB ekkert í kjölfar gjalddaga samningsins. Skuld kröfulýsanda gagnvart SPB var því á dráttarvöxtum frá 08.10.2008 til 17.12.2009 en þá fór fram innlausn á veðandlagi samkvæmt handveðssamningunum. Fór sú innlausn fram á grundvelli ákvörðunar skilanefndar SPB hf. Þá nam skuld kröfulýsanda við SPB kr. 17.414.161, þar af dráttarvextir kr. 3.757.769.

Á sama tíma nam inneign kröfulýsanda á tryggingarreikningi kr. 15.593.711 að teknu tilliti til áfallinna vaxta og fjármagnstekjuskatts.

Skuld kröfulýsanda við SPB þann 17. desember 2009 nam því kr. 1.820.450 og með áföllnum dráttarvöxtum til dagsins í dag, 18. desember 2013, nemur skuld kröfulýsanda við SPB þann dag kr. 2.969.689.

Að auki telur slitastjórn óheimilt að hækka upphæð umræddrar kröfulýsingar og að krafa um dráttarvexti standist ekki, m.a. þar sem upphafsdagur er ekki tilgreindur.

Um kröfu 251:

Skv. kröfulýsingunni er lýst ýmsum skaðabótakröfum vegna löggeymsluaðgerðar, lögmannskostnaðar og miska, samtals að fjárhæð kr. 25.610.744. Auk þess er krafist lögmannskostnaðar vegna innheimtu kröfunnar.

Afstaða slitastjórnar SPB er sú að kröfunni er hafnað.

Ekki hefur verið sýnt fram á neitt tjón vegna tilgreindrar löggeymslugerðar. Þá er dómur Hæstaréttar í máli 253/2012 endanlegur hvað varðar lögmannskostnað í tengslum við það mál. Ekki hefur verið sýnt fram á neinn miska og því er miskabótakröfu hafnað. Af þessu leiðir að lögmannskostnaði við innheimtu krafnanna er jafnframt hafnað.     

Haldnir voru jöfnunarfundir um kröfur sóknaraðila 23. janúar 2014 og 11. mars 2014. Ekki tókst að leysa úr ágreiningi aðila á fundinum og var honum í kjölfarið vísað til héraðsdóms með bréfi slitastjórnar, dags. 24. mars 2014. 

III. Málsástæður og lagarök aðila

Málsástæður sóknaraðila

Krafa auðkennd 229 í kröfuskrá

Sóknaraðili krefur varnaraðila um endurgreiðslu á oftekinni tryggingarfjárhæð af innlánsreikningi hans hjá varnaraðila nr. 0229597ICEBIDISK001 á grundvelli 3. tl. 110. gr. 21/1991. Nemur kröfufjárhæðin 27.151.571 krónu, auk dráttarvaxta af 14.115.049 krónum frá 12. desember 2008 til 11. desember 2009; af 17.130.062 krónum frá 12. desember 2009 til 11.desember 2010; af 19.727.496 krónum frá 12. desember 2010 til 11. desember 2011; af 21.952.515 krónum frá 12. desember 2011 til 11. desember 2012; af 24.617.640 krónum frá 12. desember 2012 til 11. desember 2013 og af 27.774.994 krónum frá 12. desember 2013 til greiðsludags.

Vextir á kröfurnar eru reiknaðar þannig að óverðtryggðir innlánsvextir Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, eru reiknaðir á innlánsfjárhæðina til 8. október 2008, þegar sóknaraðili telur sig eiga rétt á að fá greiddan mismun innistæðu sinnar og kröfu varnaraðila á grundvelli dóms Hæstaréttar (engin vaxtatafla frá varnaraðila aðgengileg fyrir það tímabil). Dráttarvextir, sbr. 5. gr. laga nr. 38/2001, eru reiknaðir eftir það á þá inneign sem var/átti að vera á innlánsreikningnum og sóknaraðili átti rétt á að fá greidda.

Sóknaraðili vísar til þess að dómur Hæstaréttar í máli nr. 253/2012 þann 24. janúar 2013, hafi byggt á því að sóknaraðili skuldaði varnaraðila lægri fjárhæð á grundvelli þeirra skiptasamninga sem deilt var um í málinu, en sem nam þeirri innistæðu sem varnaraðili hafði til tryggingar frá sóknaraðila á gjalddaga skiptasamninganna. Varnaraðili hafi staðfest að hafa leyst tryggingarnar til sín í málflutningi fyrir Hæstarétti.

Af hálfu sóknaraðila er byggt á að í dómi Hæstaréttar komi fram að ekki liggi fyrir hvenær varnaraðili gekk að tryggingunum. Sóknaraðili telur hins vegar að leggja beri til grundvallar að varnaraðila hefði verið í lófa lagið þegar þann 8. október 2008 að leysa tryggingarnar til sín. Það sé því sú dagsetning sem skipti máli hvað varðar annars vegar nettóstöðuna á milli aðila vegna skiptasamninganna og hins vegar stöðu hins handveðssetta innlánsreiknings. Á þeim tíma hafi inneign sóknaraðila á hinum veðsetta innlánsreikningi numið hærri fjárhæð en skuld hans samkvæmt skiptasamningunum eins og Hæstiréttur sló henni fastri.

Það eina sem liggi fyrir um það hvenær gengið var að tryggingum sóknaraðila hjá varnaraðila er að sú aðgerð var um garð gengin þann 13. janúar 2010 þegar slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila í slit félagsins. Í ljósi samskipta sóknaraðila og varnaraðila í árslok 2008, þar sem því var lofað skriflega að ekki yrði gengið að tryggingunum nema að undangenginni dómkvaðningu matsmanns, sem aldrei fór fram, verði að teljast fast að því öruggt að það hafi verið sú slitastjórn sem tók við 22. apríl 2009 sem tók ákvörðun um að leysa til sín tryggingarnar. Þannig sé líklegast að gengið hafi verið að tryggingunum á tímabilinu 22. apríl 2009 til 13. janúar 2010.

Sóknaraðili óskar eftir að halda því til haga að dómur Hæstaréttar fjallaði aðeins um niðurstöðu skiptasamninganna og stöðu trygginga, auk nettóniðurstöðu framangreindra tveggja þátta, en ekki um mögulegar aðrar kröfur aðila hvors á hendur hinum. Þannig felast í dómi Hæstaréttar engar málalyktir hvað varðar samning sóknaraðila og varnaraðila um að skortsala þess fyrrnefnda á RIKB 08 1212 skyldi standa út líftíma bréfanna, þ.e. til 12. desember 2008.

Sóknaraðili telur að þann 12. desember 2008 hafi varnaraðila borið að greiða sóknaraðila 13.656.392 kr. inn á hinn veðsetta innlánsreikning nr. 0229597ICEBIDISK001, vegna samnings aðila um að sóknaraðili héldi skortsölustöðu þeirra RIKB 08 1212 sem skiptasamningarnir vörðuðu frá 8. október 2008 til 12. desember 2008. Í tölvupóstssamskiptum aðila liggi fyrir loforð varnaraðila um framlengingu umræddrar skortstöðu. Engin gögn liggi hins vegar fyrir sem skotið geta stoðum undir lausn varnaraðila frá skyldu sinni að þessu leyti. Sóknaraðili vísar til þess að staða handveðsetts innlánsreiknings sóknaraðila hjá varnaraðila nr. 0229597ICEBIDISK001var 19.968.169 kr. hinn 19. ágúst 2008, samkvæmt yfirliti bankans.

Sóknaraðili bendir á að hann hafi 12. september 2008 tekið 6.000.000 kr. út af reikningnum (staða innlánsreiknings án vaxta 13.968.169). Þann 8. október 2008 hafi varnaraðili eignast mótkröfu að fjárhæð 13.656.392 kr.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa borið að greiða 13.656.392 kr. inn á innlánsreikninginn 12. desember 2008 vegna skortsölusamnings RIKB 08 1212 (staða innlánsreiknings án vaxta 27.624.561 kr.). Þar sem sóknaraðili hafi engin yfirlit fengið yfir stöðu reikningsins frá því í ágúst 2008 geti hann ekki annað en byggt á því að það hafi verið gert.

Sóknaraðili telur að fyrir liggi að varnaraðili leysti til sín alla innistæðu sóknaraðila á innlánsreikningi hans einhvern tíma eftir þann 22. apríl 2009 þegar slitastjórn tók yfir rekstur bankans og fyrir 13. janúar 2010 (staða á innlánsreikningi 0 kr.). Telur sóknaraðili að þar sem varnaraðili átti kröfu á sóknaraðila að fjárhæð 13.656.392 kr. hafi félaginu verið óheimilt á nokkru tímamarki að leysa til sín hærri fjárhæð.

Varakröfu sína um skaðabætur er njóti stöðu búskröfu byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi, með saknæmum hætti og gegn bindandi loforði um annað, leyst til sín þá fjármuni sóknaraðila sem voru á innlánsreikningi hans hjá varnaraðila og sem hann hafði sett honum að handveði, auk þess að láta mögulega hjá líða að leggja þann 12. desember 2008 inn á sama innlánsreikning hagnað sóknaraðila af þeirri skortstöðu sem varnaraðili hafði lofað að framlengja til þess dags. Með þeim hætti hafi hann svipt sóknaraðila þeirri ábyrgð á innistæðum sem leidd verði af ákvæðum laga nr. 98/1999 og sérstakri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands þar um, sem tryggt hefðu honum fullar endurheimtur fjármuna á innlánsreikningnum.

2. Krafa nr. 251 í kröfuskrá

Krafa sóknaraðila um bætur vegna óréttmætrar löggeymslu að fjárhæð kr. 15.442.560

Að kröfu varnaraðila var gerð löggeymsla í fasteign sóknaraðila að Bergstaðastræti 84, Reykjavík, þann 7. maí 2012 að fjárhæð 100.069.104 kr. Löggeymslubeiðni varnaraðila var byggð á dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 875/2010 sem Hæstiréttur sneri síðan við. Sóknaraðili bar löggeymsluna undir Héraðsdóm Reykjavíkur í málinu K-2/2012 þar sem hún var staðfest.

Sóknaraðili vísar til ákvæðis 42. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., um að gerðarbeiðandi skuli bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, sem telja má að gerðin hafi valdið, þegar kyrrsetning, löggeymsla eða lögbann fellur niður vegna sýknu af þeirri kröfu sem gerðinni var ætlað að tryggja. Þá sé heimilt að dæma skaðabætur eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess.

Sóknaraðili telur engum blöðum um það að fletta að hann hafi verið sýknaður að öllu leyti af þeirri kröfu varnaraðila sem löggeymslunni var ætlað að tryggja og geti því byggt rétt á ákvæðinu eftir efni sínu.

Sóknaraðili telur tjón sitt vegna löggeymslunnar hafa verið margháttað og umfangsmikið. Þannig hafi lögmannskostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti numið 1.278.971 kr. samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem lagt var fyrir í máli K-2/2012. Annar lögmannskostnaður vegna löggeymslumálsins hafi numið 163.589 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sóknaraðili bendir á að eins og 42. gr. laga nr. 31/1990 gefi til kynna, kunni að vera erfitt að festa hendur á fjártjóni og miska sem verður vegna tilefnislausrar löggeymslu. Hann hafi hins vegar m.a. orðið af tækifærum til að nota hina löggeymdu fasteign sem tryggingu fyrir þátttöku í viðskiptum, auk þess sem hann hafi beðið umtalsverðan álitshnekki af umræddri löggeymslu. Heldur sóknaraðili því fram að miski hans verði metinn til eigi lægri fjárhæðar en 14.000.000 kr. Fyrir liggi að sóknaraðili átti í erfiðleikum með að útvega sér annars hefðbundinn yfirdrátt sem hann hugðist nota sem tryggingu fyrir framvirkum samningum sem hann hefur atvinnu af að gera en þá erfiðleika megi gagngert rekja til framangreindrar löggeymslu. Hefði sóknaraðili haft tök á að veðsetja fasteign sína hefði höfuðstólsfjárhæðin getað verið margföld sú sem raun bar vitni, en tryggingarkrafa í samningum af þessu tagi sé tiltölulega lágt hlutfall höfuðstóls. Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi hagnast um 3.559.365 kr. í einum samningi á löggeymslutímanum, auk þess sem hann hafi hagnast á gerð annarra slíkra samninga, en þeir hefðu skilað honum mun meiri hagnaði hefði hann getað nýtt veðrými fasteignar sinnar til að hækka höfuðstólinn.

Krafa sóknaraðila um lögmannskostnað, umfram tildæmdan kostnað málskostnað, að fjárhæð 5.168.184 kr.

Sóknaraðili vísar til þess að lögmannskostnaður hans vegna krafna sem varnaraðili hafi haft uppi á hendur honum hafi numið verulegum fjárhæðum umfram tildæmdan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Þannig hafi lögmannskostnaður á dómsstigunum tveimur numið samtals 5.205.113 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Dæmdur málskostnaður hafi hins vegar numið 2.000.000 kr. og eftir standi því kostnaður að fjárhæð 3.205.113 kr. sem sóknaraðili gerir kröfu um.

Sóknaraðili bendir enn fremur á að hann hafi borið umtalsverðan lögmannskostnað vegna greiningar, samskipta við varnaraðila og eftirlitsaðila, áður en dómsmál var höfðað. Nemi sá kostnaður 1.963.071 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Ber þess að gæta að frá því að varnaraðili krafði sóknaraðila fyrst um greiðslu og þar til dómsmál var höfðað liðu 16 mánuðir, en á því tímabili voru bréfleg samskipti umfangsmikil, fundir voru haldnir. Mestur tími hafi þó farið í rannsóknir á atvikum málsins til að reyna að sjá í gegnum þann vef ósanninda sem varnaraðili hafði spunnið í kringum mál sóknaraðila.

Krafa um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 kr.

Sóknaraðili telur að allur málatilbúnaður varnaraðila gegn honum eigi rætur sínar í leynimakki, sviksamlegum afflutningi staðreynda og langsóttum lögfræðitúlkunum sem leiddu til þess að sóknaraðili hafi mátt búa við ótta um að öllum fjárhagsgrundvelli yrði kippt undan honum og stórri fjölskyldu hans í fjögur og hálft ár. Jafnframt hafi hann mátt sæta því að heilindi hans og áreiðanleiki í viðskiptum væru um tíma dregin í efa, en fyrir aðila sem er fjárfestir að atvinnu hafi slíkt gríðarlegt tjón í för með sér.

Málsástæður varnaraðila

1. Krafa auðkennd nr. 229 í kröfuskrá

Almennt um lögskipti að baki kröfu sóknaraðila

Með dómi Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 253/2012 var endanlega skorið úr um uppgjör skiptasamninganna. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili bæri ábyrgð á áðurnefndri hækkun RB 08 1212, og hafi við uppgjör samninganna 8. október 2008 skuldað varnaraðila 13.656.392 kr. Aftur á móti yrði varnaraðili að bera hallann af óskýru orðalagi samninganna, að því er varðaði ábyrgð á lækkun EXIS 08 1008, og var sú ábyrgð þess vegna ekki felld á sóknaraðila. Hæstiréttur taldi enn fremur að þar sem fyrir lægi að innstæða hins handveðsetta reiknings hafi þann 8. október 2008 hrokkið fyrir skuldinni, yrði að sýkna sóknaraðila af kröfum varnaraðila.

Varnaraðili telur rétt til glöggvunar að hafa nokkur orð um þá breytingu sem varð á stöðu varnaraðila og eðli starfsemi hans um hálfu ári eftir uppgjörsdag skiptasamninganna. Sóknaraðili hafi 3. nóvember 2009 lýst kröfu þeirri sem hér er til umfjöllunar en þann dag lauk framlengdum kröfulýsingarfresti við slit varnaraðila. Fjárhæð kröfunnar var 23.186.150 kr. að meðtöldum dráttarvöxtum. Krafðist sóknaraðili þess að krafan nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Krafan var á því reist að varnaraðili hefði neitað að afhenda kröfuhafa innstæðu hins handveðsetta reiknings. Höfuðstóll kröfunnar miðaðist við yfirlit sem sóknaraðili hafði fengið í hendur og tók mið af stöðu reikningsins þann 19. ágúst 2008, þ.e. fyrir uppgjör skiptasamninganna. Enda taldi sóknaraðili þá að málum væri öfugt farið; varnaraðili skuldaði sér „umtalsverða fjárhæð á grundvelli nefndra skiptasamninga ...“. Ekki væri þó gerð krafa um þá fjárhæð þar sem útilokað væri að hún „kæmi til greiðslu úr búinu“.

Með tölvubréfi þann 13. janúar 2010 tilkynnti slitastjórn varnaraðila sóknaraðila að kröfu hans væri hafnað. Jafnframt benti slitastjórn á að sóknaraðili hefði fengið 6 millj. kr. greiddar af reikningnum þann 12. september 2008. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar.

Varnaraðili boðaði sóknaraðila síðan á fund 21. janúar 2010 samkvæmt 120. gr. laga nr. 21/1991. Á fundinum lá fyrir að varnaraðili hafði höfðað framangreint dómsmál gegn sóknaraðila til uppgjörs á skiptasamningunum og sóknaraðili tekið til varna. Af þeim sökum þótti ljóst að úrslit málsins kynnu að ráðast af réttmæti kröfu sóknaraðila og þótti slitastjórn rétt að fresta því að taka endanlega afstöðu til kröfu sóknaraðila. Jafnframt var bókað að ef kröfulýsandi yrði „sýknaður af kröfu Sparisjóðabankans eða [reyndist] krafa varnaraðila lægri en sem [næmi] tryggingunni, [eignaðist] kröfulýsandi búskröfu á hendur Sparisjóðabankanum, sem [næmi] eftirstöðvum þeirrar tryggingar sem var ráðstafað upp í kröfu Sparisjóðabankans“. Í þessu sambandi áréttar varnaraðili að afstaða hans tók aðeins til handveðsettrar innstæðu sóknaraðila, ekki kröfu á grundvelli annars konar uppgjörs skiptasamninganna, enda var slíkri kröfu ekki lýst. Jafnframt einskorðaðist afstaða varnaraðila við innlausn innstæðunnar 17. desember 2009 en ekki fyrra tímamark.

Eins og er komið fram kvað Hæstiréttur upp dóm í máli aðila nr. 253/2012 þann 24. janúar 2013. Gekk varnaraðili út frá því að með dóminum hefði Hæstiréttur með bindandi hætti skorið úr um uppgjör skiptasamninga aðila og að þeim lögskiptum væri lokið fyrir utan að varnaraðili ætti kröfu fyrir því sem upp á vantaði við innlausn á handveðsettri innstæðu þann 17. desember 2009. Sóknaraðili telur í þessu sambandi mikilvægt að árétta að fjárhæð innstæðunnar var lægri heldur en sú krafa sem Hæstiréttur sló föstu að varnaraðili ætti á hendur sóknaraðila vegna hækkunar sem hafði orðið á samningstímanum á skuldabréfum RB 08 1212 og fram að uppgjörsdegi 8. október 2008. Sóknaraðili átti þar af leiðandi enga kröfu á hendur varnaraðila.

Með kröfulýsingu, móttekinni 12. nóvember 2013, lýsti sóknaraðili svokallaðri „uppfærðri“ kröfu sem áður hafði hlotið auðkennið 229. Byggði sóknaraðili hina „uppfærðu“ kröfu á því að í niðurstöðu Hæstaréttar hefði aðeins verið fjallað um „niðurstöðu skiptasamninganna og stöðu trygginga, auk nettóniðurstöðu framangreindra tveggja þátta, en ekki um mögulegar aðrar kröfur aðila hvors á hendur hinum“. Þannig hefði dómur Hæstaréttar ekki tekið til ætlaðs samnings aðila, sem sóknaraðili taldi hafa stofnast, um skortstöðu. Varnaraðili vekur athygli á því að í upphaflegri kröfulýsingu 3. nóvember 2009 tók sóknaraðili sérstaklega fram að hann teldi varnaraðila standa í umtalsverðri skuld við sig vegna uppgjörs samninganna en hins vegar væri ekki gerð sjálfstæð krafa um greiðslu. Virðist því sem sóknaraðila hafi snúist hugur um fjórum árum síðar og hann ákveðið að lýsa slíkri kröfu í skjóli upphaflegrar kröfu. Kröfulýsing sóknaraðila var hins vegar gott betur en „uppfærð“ kröfulýsing. Bæði byggðist hún á öðrum grundvelli og var að hærri fjárhæð.

Að mati varnaraðila var útreikningur kröfunnar fremur ruglingslegur. Þannig hafi sóknaraðili miðað við að staðan á handveðsetta reikningnum, án vaxta, hefði verið 13.968.169 kr. þann 12. september 2010. Varnaraðili hefði síðan eignast kröfu að fjárhæð 13.656.293 kr. þann „8. október 2010 [sic]“ samkvæmt dómi Hæstaréttar en ekki leyst til sín tryggingar. Þann 12. desember, ótilgreint ár, hefði varnaraðili hins vegar átt að greiða nákvæmlega sömu fjárhæð inn á handveðsetta reikninginn. Samkvæmt útreikningum sóknaraðila átti hann kröfu á hendur varnaraðila að samtölu framangreindra fjárhæða, þ.e. að höfuðstólsfjárhæð 27.624.561 kr., sem skyldu bera vexti samkvæmt 10. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001. Í stað þess að krefjast þess að krafan nyti stöðu sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 krafðist sóknaraðili þess að hún nyti stöðu búskröfu samkvæmt 110. gr. sömu laga á grundvelli sjónarmiða um endurgreiðslu oftekins fjár.

Með tölvupósti slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 18. desember 2013 var kröfunni hafnað. Vísaði slitastjórn til áðurgreinds dóms Hæstaréttar sem sló fastri skuld sóknaraðila við varnaraðila. Þá reifaði slitastjórn jafnframt atvik að því er varðaði innlausn innstæðunnar. Var afstaða slitastjórnar sú að sóknaraðili skuldaði varnaraðila enn 1.820.450 kr. auk áfallinna dráttarvaxta. Enn fremur væri sóknaraðila ekki stætt á að hækka kröfu sína en jafnframt stæðist dráttarvaxtakrafa ekki.

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 253/2012 var endanlegur og bindandi um ágreining aðila um uppgjör skiptasamninganna

Varnaraðili byggir á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 253/2012 hafi verið endanlegur og bindandi fyrir aðila að því er varðar uppgjör skiptasamninganna, þ.e. hafi haft svokölluð res judicata áhrif. Um sé að ræða sama sakarefni, þ.e. réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt skiptasamningunum. Hvað viðvíkur fjárhæðum áréttar varnaraðili að hin handveðsetta innstæða var að lægri fjárhæð en sem nam kröfu varnaraðila en að öðru leyti er vísað til fyrri umfjöllunar að því er fjárhæðir varðar.

Jafnvel þótt sóknaraðili hafi uppi sjálfstæða kröfu á grundvelli meintrar skortstöðu í þessu máli, sem ekki var höfð uppi sem gagnkrafa til sjálfstæðs dóms eða skuldajafnaðar í Hrd. 253/2012, byggði sóknaraðili eigi að síður sýknukröfu sína í fyrra máli á sama atriði. Nánar tiltekið hélt sóknaraðili því þar fram að skilyrði skiptasamninganna hefði verið að jafnframt yrði gerður samningur um skortstöðu. Í forsendum niðurstöðu héraðsdóms var sú staðhæfing talin „með öllu ósönnuð“ og Hæstiréttur endurskoðaði ekki það mat héraðsdóms.

Varnaraðili telur jafnframt að einu megi gilda þótt sóknaraðili hafi með matsbeiðni falið matsmanni að meta uppgjör á grundvelli niðurstöðu Hæstaréttar um „inntak skuldbindinga sóknaraðila“ og að „teknu tillit til vaxtamunar og hækkunar á markaðsvirði viðmiðunarbréfa“. Sakarefnið sé það sama; uppgjör skiptasamninga aðila og kröfur aðila á grundvelli þess uppgjörs. Krafa sóknaraðila í þessu máli verði þess vegna ekki borin undir dóm og ber að hafna með vísan til res judicata.

Verði ekki fallist á að dómurinn hafi haft þessi réttaráhrif byggir varnaraðili á því til vara að dómurinn hafi afgerandi sönnunargildi um uppgjör skiptasamninganna, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Það leiði til þeirrar sömu niðurstöðu að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila. Hæstiréttur hafi slegið fastri skuldbindingu sóknaraðila samkvæmt skiptasamningunum þann 8. október 2008. Sóknaraðili geti ekki vikið sér undan þeirri skuldbindingu með því að miða við breyttar forsendur uppgjörs eða miða við önnur atriði en Hæstiréttur taldi að máli skiptu. Með því að taka til greina kröfur sóknaraðila væri gengið gegn niðurstöðu Hæstaréttar.

Krafa of seint fram komin, fyrnd, og breyttur grundvöllur kröfu

Varnaraðili telur einnig að í kröfulýsingu sem tekið var við 12. nóvember 2013, um kröfu auðkennda nr. 229 í kröfuskrá, hafi falist ný krafa sem var of seint fram komin, sé fyrnd og hafi byggst á öðrum grundvelli en upphafleg krafa.

Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að í kröfulýsingu 3. nóvember 2009 hafi einungis verið gerð krafa um að varnaraðili afhenti innstæðu á handveðsettum reikningi. Þá var beinlínis tekið fram að ekki væri gerð sjálfstæð krafa um greiðslu vegna uppgjörs skiptasamninganna. Fjórum árum síðar kveði hins vegar við annan tón. Lýsti sóknaraðili þá sem áður segir „uppfærðri“ kröfu og hækkaði fjárhæð hennar um 10 millj. kr. að teknu tilliti til 6 millj. kr. úttektar sem sóknaraðili hafði þá viðurkennt. Telur varnaraðili að um sé að ræða nýja kröfu sem sé of seint fram komin samkvæmt 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991, og beri að hafna sem slíkri. Ætluð krafa sóknaraðila njóti auk þess í besta falli stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laganna í réttindaröð, eins og vikið verði að síðar.

Þá verði einnig að telja að krafan sé fyrnd samkvæmt 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Hin ætlaða krafa stofnaðist, ef á hana er fallist, þann 12. desember 2008. Kröfunni hafi hins vegar ekki verið lýst fyrr en 12. nóvember 2013, eða tæplega fimm árum síðar. Ekki hafi verið gripið til neinna athafna til að rjúfa fyrningu en að mati varnaraðila nægir ekki að fjallað hafi verið um samning um skortstöðu í Hrd. 253/2012.

Krafa sóknaraðila er óskýr og vanreifuð

Samkvæmt athugasemdum við 117. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verða ákvæði greinarinnar skýrð svo að hún feli í sér sambærilegan áskilnað og 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 gerir til stefnu í einkamáli. Þannig verði kröfulýsing að geyma sambærileg atriði og verða að koma fram í stefnu og með henni verða að fylgja gögn með sama hætti og ef verið væri að höfða einkamál um þá kröfu sem er höfð uppi.

Í kröfulýsingunni 3. nóvember 2009 byggði sóknaraðili á því að hann ætti sérgreinda innstæðu inni á reikningi hjá varnaraðila. Í kröfulýsingunni 8. nóvember 2013 var krafa sóknaraðila aftur á móti reist á því að hann ætti kröfu um endurgreiðslu á „oftekinni tryggingarfjárhæð“ þrátt fyrir að hluti kröfunnar væri augljóslega ekki til komin vegna slíkrar athafnar. Nánar tiltekið fólst í meintum skuldbindingum varnaraðila vegna skortstöðu engin oftaka tryggingarfjár enda var það ekki fyrir hendi. Í greinargerð sóknaraðila byggir hann jafnframt til vara á því að hann eigi bótakröfu á hendur varnaraðila sem nemi hinni nýju kröfufjárhæð, en slíkar viðbárur hafði varnaraðili ekki áður heyrt.

Varnaraðili telur að þótt svigrúm til leiðréttinga og breytinga á kröfulýsingu kunni að vera rýmra en í tilviki stefnu þýði það ekki að kröfuhafi geti breytt grundvelli kröfu sinnar eins og sóknaraðili hefur leyft sér. Gerir það málatilbúnað sóknaraðila óskýran og varnaraðila erfiðara um vik að verjast kröfum hans. Er af þessari ástæðu ómögulegt að taka kröfur sóknaraðila til greina.

Fyrir utan að hafa breytt og aukið við grundvöll kröfu sinnar telur varnaraðili jafnframt, með vísan til sömu ákvæða og nefnd eru hér að ofan, að krafa sóknaraðila uppfylli ekki lágmarkskröfur réttarfarslaga um skýrleika. Á varnaraðili þá einkum við kröfufjárhæð sóknaraðila. Telur sóknaraðili ekki ganga upp að sóknaraðili viðurkenni kröfu varnaraðila án þess að reikna með henni við útreikning kröfu sinnar, sbr. 6. mgr. 2. bls. greinargerðar: „Þann 8. október [2008] eignaðist varnaraðili mótkröfu að fjárhæð 13.656.392 kr.“ Virðist eins og ekkert tillit sé tekið til þessarar kröfu varnaraðila sem sóknaraðili þó viðurkennir. Leiðir þessi óskýrleiki í framsetningu á kröfu sóknaraðila til þess að vísa ber kröfunni á bug.

Samningur um skortstöðu stofnaðist ekki

Fari svo ólíklega að héraðsdómur telji sig ekki bundinn af niðurstöðu Hæstaréttar um uppgjör skiptasamninganna er á því byggt að enginn samningur um svokallaða skortstöðu með RB 08 1212 hafi stofnast.

Varnaraðili telur að til þess að samningur stofnist þurfi að liggja fyrir samþykki óskilyrts tilboðs sem ekki sé háð neinum takmörkunum, viðbótum eða fyrirvörum. Óumdeilt sé að starfsmaður varnaraðila sendi sóknaraðila tölvupóst þann 21. júlí 2008 þar sem sagði: „Þú munt halda shortinu út líftíma RKB081212. Við munum leysa þetta þannig að við gerum short samning út líftímann við þig þegar Exista díllinn er á gjalddaga. Ertu ekki sáttur við það?“ Þessari viljayfirlýsingu varnaraðila var hins vegar aldrei svarað af hálfu sóknaraðila, hún féll niður og bakaði varnaraðila þar af leiðandi engar skuldbindingar. Þar fyrir utan var framlenging skiptasamningsins eða frestun á uppgjöri háð því skilyrði að undirliggjandi handveð nægðu til tryggingar á skuldbindingum sóknaraðila. Blasir við að svo var ekki þar sem handveðsett innstæða sóknaraðila dugði ekki fyrir skuldbindingum hans.

Varnaraðili vísar í þessu sambandi til umfjöllunar matsmanns um þetta atriði í svari við þriðju matsspurningu. Annars vegar telji matsmaðurinn að skiptasamningur sé almennt ekki framlengdur með beinum hætti heldur sé útbúinn nýr samningur sem taki við af hinum fyrri. Þá telur matsmaðurinn jafnframt að fjármálafyrirtæki horfi til tryggingarstöðu viðskiptavinar þegar beiðni um framlengingu er lögð fram og hvort undirliggjandi eign stendur til boða. Telur varnaraðili að hvorugt skilyrði hafi verið fyrir hendi í tilviki aðila. Samkvæmt því sem hér er rakið ber að hafna dómkröfum sóknaraðila.

Sóknaraðili getur engan rétt byggt á matsgerð dómkvadds matsmanns

Með vísan til þess sem að framan er rakið um bindandi niðurstöðu Hæstaréttar um uppgjör skiptasamninga aðila, breyttan kröfugrundvöll og vanreifaðan málatilbúnað, telur varnaraðili að matsgerð dómkvadds matsmanns megi einu gilda.

Komi hins vegar til þess að gerðinni verði veitt eitthvert vægi í málinu telur varnaraðili rétt að árétta efnislegar ábendingar og athugasemdir sínar sem lagðar voru fyrir matsmann með bréfi dagsettu 9. desember 2014. Varnaraðili telur jafnframt að matsgerðin auki enn á óskýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila. Snúið sé út úr annars skýrum dómi Hæstaréttar og matsmanni fyrirskipað að fylgja forsendum og fyrirvörum. Ítrekar varnaraðili þess vegna að líta ber fram hjá tilraunum sóknaraðila til undirbyggja kröfur sínar löngu eftir að atvik gerðust.

Varakrafa

Varnaraðili krefst þess til vara að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega og að krafa auðkennd nr. 229 í kröfuskrá varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varakrafa varnaraðila, um verulega lækkun fjárhæðar kröfu nr. 229, er á því byggð að sóknaraðili hafi að hámarki átt tilkall til mismunar á fjárhæð annars vegar handveðsettrar innstæðu, 9.239.422 kr. auk áfallinna vaxta en að frádregnum fjármagnstekjuskatti, 5.196.174, og hins vegar kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila að fjárhæð 13.656.392 kr. Mismunur þessi nemur 779.204 kr. Að öðru leyti vísar varnaraðili, til stuðnings þessari varakröfu, til framanrakinna málsástæðna fyrir höfnun kröfunnar.

Varnaraðili telur mikilvægt að halda til haga að staða handveðsetta reikningsins þann 8. október var 9.239.442 kr. án vaxta. Þann 3. október 2008 gerðu aðilar með sér samning um uppgjör skiptasamnings um bréf með auðkennið BGCA 07 1. Í 3. gr. samningsins var kveðið á um að sóknaraðili greiddi 4.728.747 kr. sem voru dregnar af handveðsetta reikningnum þann 6. október 2008. Sóknaraðili miðar þess vegna kröfu sína við ranga fjárhæð innstæðunnar.

Varnaraðili bendir á að kröfu sóknaraðila sé lýst samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telur hins vegar mjög skorta á að fullnægjandi grein sé gerð fyrir kröfu varnaraðila um stöðu kröfunnar í réttindaröð við slit varnaraðila. Ákvæði 3. tl. 110. gr. fjalli um kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir úrskurðardag vegna athafna skiptastjóra en varnaraðili fær ekki séð hvaða athafnir það eru sem þá eigi að hafa átt sér stað.

Í þessu sambandi vísar varnaraðili til þess að upphafsdagur kröfumeðferðar varnaraðila miðist við gildistöku laga nr. 44/2009 og er 22. apríl 2009, sbr. nánar 1. mgr. og 2. málslið 3. mgr. 102.gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Þá má einnig nefna að varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009. Atvik þau sem krafa nr. 229 varðar gerðust fyrir hvorn tveggja þessara viðmiðunardaga. Meint krafa sóknaraðila, sé hún yfirhöfuð yfir hendi, nýtur þess vegna ekki annarrar stöðu en almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili telur einnig mikilvægt að halda til haga að bókun í fundargerð frá 24. október 2010, um afleiðingar sýknudóms, var miðuð við innlausn varnaraðila á handveðsettri innstæðu sóknaraðila þann 17. desember 2009. M.ö.o. ef í ljós kæmi að slitastjórn varnaraðila hefði innleyst hærri fjárhæð en hún hafði heimild til eignaðist sóknaraðili búskröfu á hendur varnaraðila. Þetta hafi verið forsenda bókunarinnar. Aftur á móti fólst ekki í bókuninni ótakmörkuð heimild til handa sóknaraðila til að lýsa kröfum á grundvelli 110. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili mótmælir einnig dráttarvaxtakröfu sóknaraðila en í öllu falli teljast dráttarvextir til eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.

Krafa auðkennd nr. 251 í kröfuskrá

Almennt

Varnaraðili hafnar kröfunni þar sem hún er of seint fram komin, sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, þar sem henni hafi ekki verið lýst „án ástæðulausra tafa“. Kröfu sóknaraðila var ekki lýst fyrr en um níu og hálfum mánuði frá því dómur Hæstaréttar í máli aðila gekk og sóknaraðila mátti í síðasta lagi vera meint tjón sitt ljóst. Er það lengri tími en öllum öðrum kröfuhöfum var settur samkvæmt framlengdum kröfulýsingarfresti. Telur varnaraðili augljóst í því sambandi að slíkur framgangur geti varla talist „án ástæðulausra tafa“ og því beri að hafna kröfunni.

Varnaraðili telur jafnframt að krafan sé of seint fram komin samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Í 1. mgr. 43. gr. sé kveðið á um að hafa megi uppi bótakröfu í staðfestingarmáli til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms falli gerð niður með þeim hætti sem segir 1. mgr. 42 laganna. Í 2. mgr. 43. gr. laganna er hins vegar tekið fram að sjálfstætt mál til heimtu bóta megi höfða innan þriggja mánaða frá því þeim sem bóta krefst varð kunnugt um að gerðin væri niður fallin. Með Hrd. 253/2012 þann 24. janúar 2013 féll löggeymsla varnaraðila á fasteign sóknaraðila niður. Samkvæmt málshöfðunarfresti 2. mgr. 43. gr. bar varnaraðila að lýsa bótakröfu fyrir 24. apríl s.á. til þess að geta byggt bótakröfu sína á ákvæðum VII. kafla laga nr. 31/1990. Sá frestur sem sóknaraðili hafði til að gera kröfu á grundvelli 42. gr. var þess vegna liðinn þegar sóknaraðili lýsti kröfunni. Þessi kröfugrundvöllur komi þar af leiðandi ekki til greina. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili byggi kröfu sína um bætur eingöngu á VII. kafla laga nr. 31/1990 en hins vegar ekki á t.d. grundvelli sakarreglunnar.

Varnaraðili bendir einnig á að hvorki sé fyrir að fara ólögmætri né saknæmri háttsemi í málinu. Varnaraðili óskaði eftir löggeymslu af réttmætri ástæðu og á grundvelli lögvarinnar kröfu á hendur sóknaraðila og var gerðin staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. K-2/2012. Löggeymslan fól ekki í sér að sóknaraðili var sviptur eign sinni heldur einvörðungu almennum og tilteknum ráðstöfunarrétti. Ekki hefur verið sýnt fram á að slitastjórn varnaraðila hafi valdið hinu meinta tjóni af ásetningi eða gáleysi eða að orsakatengsl séu milli þess og löggeymslunnar. Sóknaraðili ber sönnunarbyrðina fyrir þessum atriðum en þá byrði hefur hann ekki axlað.

Krafa um bætur vegna löggeymslu

Auk framangreinds telur varnaraðili að meint ófjárhagslegt tjón sóknaraðila vegna löggeymslunnar sé ósannað og að svo virðist sem kröfufjárhæð sé úr lausu lofti gripin. Varnaraðili bendir á að þótt ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 − verði á annað borð byggt á því ákvæði −— heimili að dæmdar verði skaðabætur að álitum sé ekki unnt að sanna fjárhæð tjóns, veiti ákvæðið aftur á móti engan afslátt af því grundvallarskilyrði skaðabótaábyrgðar að sýnt sé fram á tjón. Sóknaraðili hafi aftur á móti ekki einu sinni gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni.

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi mátt gera sér grein fyrir því meðan á löggeymslunni stóð hvort hann teldi sig hafa orðið fyrir tjóni en að minnsta kosti um leið og Hrd. 253/2012 gekk. Það gerði hann hins vegar ekki heldur byggði á því þegar málshöfðunarfresturinn var löngu liðinn að hann hefði orðið fyrir miska, þ.e. ófjárhagslegu tjóni, sem byggist hins vegar á „margvíslegu öðru fjártjóni“. Virðist því sem sóknaraðili reyni að víkja sér undan sönnunarkröfum með því að setja meint fjártjón sitt í búning ófjárhagslegs tjóns. Miskabótakrafa sóknaraðila vegna löggeymslunnar sé annars reist á nokkrum atriðum sem eru hvert öðru óljósara.

Í fyrsta lagi haldi sóknaraðili því fram að hann hafi ekki getað nýtt hina löggeymdu fasteign sem tryggingu í viðskiptum og að hún hafi að öðru leyti staðið fjárfestingum sóknaraðila fyrir þrifum. Viðskipti þessi séu hvorki nánar tilgreind né fjallað um það hvort sóknaraðili átti þess kost að leggja fasteignina fram sem tryggingu né heldur að veðsetning hafi ekki verið takmörkuð með lögum, sbr. t.d. 60. gr. laga nr. 31/1993.

Í öðru lagi byggi sóknaraðili á því að það liggi fyrir að hann hafi ekki getað útvegað sér yfirdrátt til fjárfestinga og hafi þess vegna orðið af fjárfestingartækifærum. Samkvæmt sömu atriðum og nefnd eru hér að framan sé þessi staðhæfing með öllu órökstudd og ósönnuð.

Í þriðja lagi heldur sóknaraðili því fram að hann hafi beðið álitshnekki vegna löggeymslunnar. Þessu hafnar varnaraðili sem ósönnuðu og órökstuddu. Ekki liggi fyrir hvert var eða er almennt álit á stefnda eða hvernig það á að hafa beðið hnekki. Þá má gera ráð fyrir því að löggeymslan eða ummerki hennar hafi ekki komið fram annars staðar en í þinglýsingabókum sem illa verður séð að hafi verið grundvöllur álits á sóknaraðila eða á almannavitorði. Löggeymslan staðfesti að auki ekki annað en það sem fyrir lá; að gengið hafði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila og enginn álitshnekkir fólst í.

Krafa um lögmannskostnað umfram tildæmdan málskostnað

Varnaraðili hafnar þessari kröfu sóknaraðila með þeim rökum að dómur Hæstaréttar í máli aðila hafi verið bindandi um málskostnað vegna þess máls og að varnaraðili verði ekki krafinn um greiðslu frekari málskostnaðar. Samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, telst meðal annars til málskostnaðar kostnaður af flutningi máls og annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli. Samkvæmt áðurgreindum reglum um res judicata, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Enn fremur verður krafa sem hefur verið dæmd að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Á reglan jafnt við um málskostnaðarkröfur sem aðrar kröfur. Til frekari rökstuðnings vísar varnaraðili til Hrd. 291/1994 og Hrd. 495/2011, þar sem frekari málskostnaði vegna gerðar á grundvelli laga nr. 31/1990 var hafnað.

Krafa um miskabætur að fjárhæð 5.000.000 kr.

Varnaraðili hafnar kröfunni sem vanreifaðri og þeim dylgjum sem á varnaraðila eru bornar sem algjörlega röngum og órökstuddum. Meintur miski sóknaraðila sé jafnframt ósannaður en í öllu falli skortir alla sönnun fyrir því að varnaraðili hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og að orsakasamband sé milli þeirrar háttsemi og meints tjóns varnaraðila. Að öðru leyti vísar varnaraðili til fyrri umfjöllunar að því er varðar meint ófjárhagslegt tjón sóknaraðila að breyttu breytanda.

Varakrafa um lækkun

Varnaraðili krefst þess til vara að miskabætur til sóknaraðila verði lækkaðar verulega. Krafa sóknaraðila um lækkun er reist á öllum sömu málsástæðum og fyrir höfnun kröfunnar að breyttu breytanda. Sérstök áhersla er þó lögð á að fjárhæð miskabótakröfunnar er langtum hærri en gengur og gerist í réttarframkvæmd, þ.m.t. refsimálum, en varðar hins vegar fyrst og fremst meinta álitshnekki sóknaraðila.

IV. Niðurstaða

1. Krafa nr. 229 í kröfuskrá varnaraðila

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans í bú varnaraðila, auðkennd nr. 229 í kröfuskrá, eins og hún hefur verið uppfærð, samtals að höfuðstól kr. 27.774.994 krónur, verði viðurkennd sem búskrafa í búið, samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Auk þess krefst sóknaraðili viðurkenningar á kröfu til dráttarvaxta úr hendi varnaraðila samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af höfuðstól kröfunnar, frá 12. desember 2013 til greiðsludags og að hún njóti einnig stöðu búskröfu.

Samkvæmt þeim meginreglum, sem búa meðal annars að baki ákvæðum 116. gr. og 117. gr. laga nr. 21/1991, hefur lýsing kröfu fyrir skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, eftirfarandi meðferð hans á kröfunni og eftir atvikum úrlausn dómstóla um viðurkenningu hennar í máli samkvæmt 5. þætti laganna, samsvarandi áhrif og ef einkamál væri höfðað um kröfuna, það hlyti meðferð fyrir dómi og niðurstaða væri þar fengin eftir almennum reglum, eftir atvikum með dómsúrlausn.

Í 1. mgr. 117. gr. kemur fram að sá sem halda vill uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal kröfulýsing vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð. Er og mælt fyrir um það í ákvæðinu að í kröfulýsingu skuli tiltaka kröfur svo skýrt sem verða má, fjárhæð kröfu og vaxta og hverrar stöðu sé krafist að krafan njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðunar á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við búið, skyldu til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á gagnvart þrotabúinu og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna.

Af ákvæði 117. gr. verður ráðið að efni og forsendur kröfulýsingar sem beint er til þrotabús eða fjármálafyrirtækis í slitum verður að vera skýrt, í ljósi þess hversu veigamikil áhrif hún getur haft á réttarstöðu þeirra sem eiga í hlut. Í þessu sambandi er enn fremur rétt að hafa í huga að í lögskýringargögnum með ákvæði 2. mgr. 117. gr. er gengið út frá því að kröfulýsing verði í meginatriðum að vera gerð á þann hátt að hún geymi sambærileg atriði og verða að koma fram í stefnu í einkamáli. Þá er þar jafnframt gengið út frá því að gögn verði að fylgja kröfulýsingu með sama hætti og ef verið væri að höfða einkamál um þá kröfu sem er höfð uppi, sbr. 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.

Þó verður að leggja áherslu á að þær kröfur sem gerðar eru til efnis kröfulýsingar samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laganna eru ríkari en gerðar eru til efnis stefnu samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að því leyti að í kröfulýsingu verður ávallt að tilgreina fjárhæð peningakröfu í krónum með sundurliðuðum útreikningi hennar til fullnaðar.

Ekki verður séð að sú kröfulýsing sem sett var fram af hálfu sóknaraðila 8. nóvember 2013, en efni hennar er rakið í kafla II hér að framan, fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til kröfulýsingar samkvæmt ofangreindu. Þannig skortir alfarið á að í kröfulýsingunni sé gerð grein fyrir því hvernig fjárhæð kröfu hans nr. 229 í kröfuskrá sem nemur 27.151.571 kr. er fundin og hvaða útreikningar liggja henni til grundvallar.

Í kröfulýsingunni sem um ræðir er að vísu tekið fram að útreikningar kröfunnar komi fram í Excel-skjali sem fylgi kröfulýsingunni. Ljóst er þó að ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991 gerir ekki ráð fyrir, frekar en önnur ákvæði laganna, að unnt sé að setja fram slíkar forsendur að baki fjárhæð kröfu annars staðar en í kröfulýsingu, eða eftir atvikum í stefnu. Þar sem umrætt Excel-skjal hefur ekki verið lagt fram meðal málsgagna hefur dómurinn enn fremur engar forsendur til að taka afstöðu til þýðingar þess í þessu máli. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið, þar sem ekki er unnt að ráða forsendur kröfugerðarinnar að öðru leyti af þeim málsástæðum og rökum sem teflt er fram í kröfulýsingunni, verður að telja að kröfulýsing sóknaraðila frá 8. nóvember 2013 fullnægi ekki, að svo miklu leyti sem hún tekur til kröfu nr. 229 í kröfuskrá varnaraðila, áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað. Er þessari kröfu sóknaraðila því hafnað þegar af þessari ástæðu.

Að því er snertir varakröfu sóknaraðila um að krafa hans nr. 229 í kröfuskrá varnaraðila verði, auk sömu dráttarvaxtakröfu og greinir í aðalkröfu, viðurkennd sem skaðabótakrafa á hendur varnaraðila er njóti stöðu búskröfu, þá verður ekki heldur séð að sú krafa hafi verið höfð uppi í kröfulýsingu með þeim hætti sem fullnægir áskilnaði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Varakrafa sóknaraðila rúmast því ekki innan þeirra krafna sem hann hafði uppi í kröfulýsingu og er henni því hafnað þegar af þessum ástæðum.

2. Aðrar búskröfur

Í kröfulýsingu sóknaraðila er einnig gerð krafa um skaðabætur alls að fjárhæð 15.442.560 krónur á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þá gerði sóknaraðili þar einnig kröfu að fjárhæð 5.168.184 kr. vegna lögmannskostnaðar og 5.000.000 kr. vegna miska.  

Fjármálaeftirlitið neytti 21. mars 2009 heimildar samkvæmt 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Sparisjóðabanka Íslands hf., sem nú ber heiti varnaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem einnig breyttu ákvæðum laga nr. 161/2002 og tóku gildi 22. apríl 2009, var varnaraðili tekinn til slita.

Ágreiningslaust er að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila varð til eftir upphaf slitameðferðar og telst því búskrafa samkvæmt 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Hún fellur því sem slík þar með einnig undir þær kröfur sem taldar eru í 5. tölul. 118. gr. sömu laga.

Af hálfu varnaraðila er því hins vegar haldið fram að krafan sé fallin niður vegna vanlýsingar þar sem sóknaraðili hafi ekki gætt þess að lýsa henni „án ástæðulausra tafa“ í skilningi 5. tölul. 118. gr. Hefur varnaraðili þá vísað til þess að í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé kveðið á um að hafa megi uppi bótakröfu í staðfestingarmáli til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms ef gerð fellur niður með þeim hætti sem segir í 1. mgr. 42. gr. laganna. Í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé hins vegar tekið fram að höfða megi sjálfstætt mál til heimtu bóta innan þriggja mánaða frá því að þeim sem bóta krefst var kunnugt um að gerðin væri niður fallin. Varnaraðili telur að samkvæmt þessum málshöfðunarfresti hafi sóknaraðila borið að lýsa bótakröfu sinni fyrir 24. apríl 2013 þar sem löggeymslan á fasteign varnaraðila hafi fallið niður með dómi Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 253/2012. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki lýst kröfu sinni fyrr en 8. nóvember 2013.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort sóknaraðili hafi lýst bótakröfu sinni vegna löggeymslu án „ástæðulausra tafa“ samkvæmt 5. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 verður að hafa í huga þau sjónarmið sem lýst hefur verið hér að framan um markmið og áhrif kröfulýsingar samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, en þau svara að meginstefnu til þeirra áhrifa sem og ef einkamál væri höfðað um kröfu.            

Í ljósi þessa verður að telja eðlilegt að við afmörkun orðasambandsins „ástæðulausra tafa“ í skilningi 5. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 sé þá eftir atvikum litið til þeirra reglna sem við eiga um málshöfðunarfresti við höfðun einkamáls um sömu kröfu á grundvelli sömu atvika og laga nr. 31/1990, enda myndi að öðrum kosti blasa við sú sérkennilega staða að þeir sem eiga bótakröfu á hendur aðilum sem sæta gjaldþrotameðferð samkvæmt ákvæðum lögum nr. 21/1991 væru betur settir en þeir sem sækja þurfa skaðabótakröfu til annarra aðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 31/1990. Ekki verður séð að slíkur aðstöðumunur eigi sér stoð í lögum.

Með vísan til framangreinds verður að leggja til grundvallar að sóknaraðili hefði að réttu lagi átt að lýsa bótakröfu þeirra sem hann hefur sett fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 31/1990 fyrir 24. apríl 2013, enda rann þá út sá málshöfðunarfrestur sem settur var fyrir höfðun einkamáls samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna. Þar sem ákvæði 5. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 verður að þessu leyti skýrt til samræmis við ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 er kröfu sóknaraðila á grundvelli síðastnefndu laganna hafnað þar sem hún er of seint fram komin.

Sóknaraðili hefur einnig beint bótakröfu á hendur varnaraðila vegna fjártjóns sem hann rekur til þess að reikningur lögmanns hans vegna fyrrgreinds dómsmáls, sem lauk með dómi Hæstaréttar, hafi verið hærri en tildæmdur málskostnaður.

Samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, telst meðal annars til málskostnaðar kostnaður af flutningi máls og annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli. Með dómi Hæstaréttar frá 24. janúar 2013 í máli nr. 253/2012 var kveðið á um hvað teldist hæfilegur málskostnaður úr hendi varnaraðila til sóknaraðila vegna þess máls. Er sá dómur bindandi um úrslit þess sakarefnis samkvæmt 116. gr. nefndra laga og á áfrýjandi ekki frekari fjárkröfur á stefnda vegna þess, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 1. febrúar 1996 í máli nr. 291/1994, sem birtist á bls. 284 í dómasafni 1996 og dóm Hæstaréttar frá 1. mars 2012 í máli nr. 495/2011.

Að því er varðar þá málsástæðu sóknaraðila að umræddur kostnaður hafi fallið til vegna lögmannsaðstoðar sem hafi ekki beinlínis stafað af máli því sem dæmt var í Hæstarétti, þá verður ekki séð að sóknaraðili hafi á nokkru stigi málsins lagt fyrir gögn um af hvaða tagi þessi aðstoð var og hvernig hún verði rakin til málshöfðunar varnaraðila á hendur honum, án þess þó að falla undir 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Rétt er að taka fram að reikningar sem sóknaraðili lagði fyrst fram við aðalmeðferð málsins, eftir að gagnaöflun var lýst lokið og varnaraðili mótmælti réttilega sem of seint fram komnum, hafa ekki heldur að geyma upplýsingar um hvers kyns sú lögmannsaðstoð var sem sóknaraðili krefst nú bóta fyrir.

Af framangreindum sökum verður að telja að krafan sé of vanreifuð til að unnt sé að taka hana til efnislegrar úrlausnar. Er kröfunni því hafnað. 

Að því er snertir þá málsástæðu sóknaraðila að hann eigi rétt til skaðabóta á hendur varnaraðila þar sem upphaflegur málatilbúnaður varnaraðila á hendur honum hafi byggst á „leynimakki, sviksamlegum afflutningi staðreynda og langsóttum lögfræðitúlkunum“ þá er hvorki í kröfulýsingu hans né greinargerð hans til dómsins gerð grein fyrir þeim atvikum sem þessi málsástæða byggist á. Þá hefur sóknaraðili ekki rökstutt á hvaða lagagrundvelli ætti að hafa stofnast réttur til miskabóta honum til handa. Í ljósi þessarar vanreifunar og þegar horft til þess að hafa sóknaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að þær ávirðingar sem haldið er fram að þessu leyti eigi við rök að styðjast verður ekki fallist á að skilyrði séu til þess að fallast á kröfu hans um miskabætur

Í ljósi framangreinds er öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu hafnað. Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum sóknaraðila í máli þessu er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.100.000 krónur í málskostnað.