Hæstiréttur íslands
Mál nr. 499/1998
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Skip
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 1999. |
|
Nr. 499/1998. |
Norberg AS (Othar Örn Petersen hrl.) gegn K.G. hf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) og gagnsök |
Kaupsamningur. Skip. Aðfinnslur.
Félagið KG átti fiskiskipið E og áttu þrír menn sæti í stjórn félagsins. Skipið var auglýst til sölu og kom framkvæmdastjóri norska félagsins N hingað til lands til að skoða skipið. Milligöngumenn í viðskiptunum voru skipamiðlarinn J og verkfræðistofan F. N gerði nokkur kauptilboð í skipið með milligöngu J og F. Var tilboðunum hafnað, en N sent gagntilboð. Nokkrum dögum síðar sendi J símbréf til F með tilboði í skipið og voru skilmálar tilboðsins með ítarlegri hætti en í fyrri tilboðum. F framsendi bréfið til KG og um klukkustund síðar barst F eintak af tilboðinu með eiginhandarundirritunum tveggja stjórnarmanna KG. Risu deilur milli KG og N um hvort líta bæri á undirritanirnar sem samþykki tilboðs N, en KG taldi að ekki hefði komist á bindandi kaupsamningur, m.a. vegna þess að stjórnarmenn KG hefðu, vegna tungumálaerfiðleika, ekki skilið að um tilboð var að ræða. Talið var að símbréfið hefði greinilega borið með sér að vera tilboð og að N hefði ekki getað skilið áritanir stjórnarmanna KG öðru vísi en svo að með því væru þeir að taka tilboðinu. Var því talið að með undirritun meiri hluta stjórnar KG hafi komist á samningur um kaup á skipinu E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 1998. Hann krefst þess að staðfest verði með dómi að bindandi kaupsamningur um fiskiskipið Eldborg SH 22 hafi komist á með sér og gagnáfrýjanda með undirritun tveggja stjórnarmanna hans á kauptilboð aðaláfrýjanda 14. janúar 1997. Einnig er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 2. mars 1999. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Gagnáfrýjandi átti fiskiskipið Eldborg SH 22, en útgerðarmaður þess var Kristján Guðmundsson hf. á Hellissandi. Þegar atvik málsins gerðust var stjórn þess félags og gagnáfrýjanda skipuð sömu mönnum, þeim Kristjáni Guðmundssyni og sonum hans, Guðmundi og Hjálmari. Stjórnarformaður gagnáfrýjanda var Kristján Guðmundsson, en framkvæmdastjóri Guðmundur sonur hans. Samkvæmt hlutafélagaskrá rituðu tveir stjórnarmenn saman firma hvors félags.
Framkvæmdastjóri áfrýjanda var Jørgen Nordheim og sat hann í stjórn hlutafélagsins ásamt Pål Berg.
Milligöngumenn í viðskiptum málsaðila voru skipamiðlarinn J. Gran & Co. AS í Bergen og verkfræðistofan Fengur hf. í Hafnarfirði. Bergsteinn Gunnarsson, tæknifræðingur, framkvæmdastjóri síðastnefnds félags, hefur skýrt svo frá fyrir dómi að það hafi með höndum ráðgjöf, hönnun á fiskiskipum og verklýsingar vegna breytinga á fiskiskipum. Fram er komið, að J. Gran & Co. leitaði iðulega til Fengs hf. í tengslum við smíði og sölu skipa og að Fengur hf. hafði í nokkrum tilvikum milligöngu um skipakaup, sem J. Gran & Co. annaðist.
II.
Að sögn gagnáfrýjanda var Eldborg auglýst til sölu í norsku dagblaði í október 1996, en einnig hafði hann leitað eftir kaupanda, meðal annars í viðtölum við starfsmann J. Gran & Co., sem hafði síðar samband við Jørgen Nordheim. Leiddi það til þess að sá síðarnefndi gerði sér ferð til Íslands og skoðaði Eldborg í höfninni á Rifi 21. desember 1996. Þar voru viðstaddir feðgarnir Kristján og Hjálmar auk áðurnefnds Bergsteins og Birgis Sveinssonar, sem var samstarfsmaður Bergsteins í tengslum við skipasmíðar og sölu skipa. Að kvöldi sama dags átti Jørgen Nordheim fund með Guðmundi Kristjánssyni í Reykjavík að viðstöddum þeim Bergsteini og Birgi. Var þar rætt um kaupverð fyrir Eldborg og afhendingartíma.
J. Gran & Co. sendi 6. janúar 1997 fyrir hönd Jørgen Nordheim og Pål Berg kauptilboð í Eldborg til Fengs hf. Var þar getið nokkurra skilmála og kaupverðs að fjárhæð 10.000.000 norskar krónur. Auk þess var tekið fram að um önnur atriði skyldi fara eftir ákvæðum „Norsk Salgsform 1987“ með áorðnum breytingum, en það eru staðlaðir samningsskilmálar um skipakaup. Fengur hf. framsendi tilboðið til gagnáfrýjanda, sem hafnaði því. Fengur hf. sendi daginn eftir gagntilboð fyrir hönd gagnáfrýjanda til J. Gran & Co. þess efnis að gagnáfrýjandi samþykkti norska tilboðið með þeim breytingum að kaupverð yrði 12.500.000 norskar krónur og miðlaraþóknun nokkru lægri en var í hinu upphaflega tilboði. J. Gran & Co. svaraði 9. janúar 1997 með símbréfi til Fengs hf., sem fól í sér nýtt tilboð frá aðaláfrýjanda að fjárhæð 11.500.000 norskar krónur. Tilboð um þá fjárhæð var ítrekað 10. janúar 1997, en ekki er ljóst af málsgögnum hvort eða hvernig því var svarað.
III.
Síðdegis hinn 14. janúar 1997 sendi J. Gran & Co. Fengi hf. í símbréfi tilboð það að fjárhæð 11.500.000 norskar krónur, sem er aðaldeiluefni málsins. Í upphafi bréfsins var vísað til fyrri samtala málsaðila og eldri tilboða aðaláfrýjanda. Síðan voru greindir skilmálar tilboðsins, en með ítarlegri hætti en í fyrri tilboðum. Þar sagði meðal annars, að tilboðsgjafi samþykkti skipið eins og það hefði verið þegar hann skoðaði það. Skyldi það afhent í sama ástandi fyrir lok ágúst 1997. Allur búnaður, sem tilheyri skipinu um borð eða í landi, þar á meðal veiðarfæri og línur, skyldi fylgja með í kaupunum. Þá var kveðið meðal annars á um hreingerningu á skipinu að utan og innan, prófanir á vélum, vökvaknúnum búnaði og tækjum og könnun á botni skipsins. Einnig var vísað til ákvæða „Norsk Salgsform 1987“ eins og í tilboðinu frá 6. janúar 1997. Ákvæði var um 2% þóknun til miðlara. Loks sagði að tilboðið væri gert með þeim fyrirvara, að tilskilin leyfi norskra stjórnvalda fengjust og að aðaláfrýjanda auðnaðist að fá fé, sem nægði til kaupanna. Tekið var fram, að tilboðsgjafi skuldbyndi sig til að létta af fyrir 21. febrúar 1997 skilyrðum þeim, sem fælust í þessum tvíþætta fyrirvara.
Tilboðið var sent í símbréfi eins og hin fyrri. Fengur hf. framsendi það til gagnáfrýjanda. Guðmundur Kristjánsson var þá erlendis, en aðrir stjórnarmenn gagnáfrýjanda voru á Hellissandi. Eftir að Bergsteinn Gunnarsson og Kristján Guðmundsson höfðu rætt um tilboðið í síma barst Fengi hf. eintak af því með eiginhandarundirritunum þeirra Kristjáns og Hjálmars. Eru áritanirnar undir meginmáli síðari blaðsíðu tilboðsins, en feðgarnir rituðu upphafsstafi nafna sinna neðst á fyrri blaðsíðu þess.
IV.
Hinn 20. febrúar 1997 sendi J. Gran & Co. símbréf til gagnáfrýjanda. Er þar vísað til símtals við Guðmund Kristjánsson framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda og símbréfs til Fengs hf. deginum áður. Með fyrrnefnda símbréfinu fylgdi staðlað eyðublað, sem er ensk gerð „Norsk Salgsform 1987“. Ber eyðublaðið fyrirsögnina „Memorandum of Agreement“ og er auðkennt „Saleform 1987“. Það var að verulegu leyti útfyllt af J. Gran & Co. eða aðaláfrýjanda. Óskaði sá fyrrnefndi eftir í símbréfinu að gagnáfrýjandi ritaði á eyðublaðið nauðsynlegar upplýsingar að því leyti, sem það væri ekki annars útfyllt. Jafnframt gat J. Gran & Co. þess að aðaláfrýjandi hefði fengið tilskilið innflutningsleyfi og nægilegt fé til kaupanna, en tilboðið 14. janúar 1997 var eins og áður segir háð því skilyrði af hálfu tilboðsgjafa að þetta hvort tveggja fengist fyrir 21. febrúar 1997.
Ennfremur kom fram í símbréfinu og meðfylgjandi samningseyðublaði að aðaláfrýjandi myndi fyrir 14. mars 1997 greiða 10% kaupverðsins á bankareikning á Íslandi til tryggingar því að hann stæði við skuldbindingar sínar eftir samningi málsaðila.
Í stað þess að sinna tilmælum um að ljúka frágangi eyðublaðsins tjáði gagnáfrýjandi J. Gran & Co. 24. febrúar 1997 að hann teldi sig ekki skuldbundinn til að selja aðaláfrýjanda Eldborg. Samtímis bað hann skipamiðlarann um að bera aðaláfrýjanda þau boð, að gagnáfrýjandi óskaði eftir nýjum tilboðum í skipið fyrir 4. mars 1997.
Tilraunir af hálfu skipamiðlarans og aðaláfrýjanda til að fá gagnáfrýjanda til ganga formlega frá skjölum um kaupin tókust ekki. Kom því til máls þessa.
V.
Gagnáfrýjandi heldur fram, að ekki verði litið á undirritanir Kristjáns Guðmundssonar og Hjálmars Kristjánssonar sem samþykki tilboðs aðaláfrýjanda. Fyrir dómi kvaðst Kristján ekki hafa skilið símbréfið sem formlegt tilboð. Hann var spurður um aðdraganda þess að þeir feðgar skrifuðu undir tilboðið. Hann kvaðst hafa fengið það í símbréfi frá Fengi hf. og hafi framkvæmdastjóri þess félags hringt áður og beðið þá um að „skoða þetta“. Síðan segir í framburði Kristjáns: „Og ég sá þetta, sýndist þetta vera eitthvað vinnuplagg eða uppkast að því og ég sagði honum að ég vildi ekki skrifa undir þetta. Svo hringdi ég í hann aftur og sagði honum það. Og hann var nú ekki hress með það ... ég hafði ekkert komið neitt nálægt þessu máli neitt. Guðmundur hafði alveg séð um þetta og hann fór þá að tala um það ef að við skrifuðum undir þetta, settum bara nafnið okkar á þetta, þá ætlaði hann að ræða betur við þessa norsku aðila.“ Kristján tók einnig fram, að þeir feðgar hefðu ekki ritað samþykki eða annað við nöfn sín. Það hafi þeir ekki gert vegna þess að þeir hefðu ekki verið að samþykkja efni símbréfsins, en framkvæmdastjóri Fengs hf. hefði viljað þetta „til þess að hann gæti betur talað við þessa norsku aðila.“ Nánar aðspurður um þetta sagði Kristján, að þeir hefðu sett nöfn sín á símbréfið til þess að Fengur hf. gæti haldið áfram að vinna að málinu. Kristján var einnig spurður um hvort þeir feðgar hefðu talið að undirritanirnar hefðu eitthvað gildi. Hann svaraði því svo til, að þeir hefðu ekki verið að samþykkja neitt og bætti síðan við aðspurður: „Ja, hann bað um þetta og þetta var, maður kannski spáði ekkert í það ...“.
Hjálmar Kristjánsson skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi talið að undirritun á símbréfið hefði ekki neina þýðingu nema þá að með henni væri verið að gefa til kynna að unnt væri að vinna áfram að „einhverju máli“. Hjálmar bar einnig að í sínum huga hafi undirritunin aðeins þýtt að hann hefði fengið skjalið „og við kvittum fyrir að hafa móttekið þetta blað.“ Ennfremur segir svo í skýrslu Hjálmars fyrir dómi: „... það var ekkert mál að setja stafina sína á blað, þegar maður var hvorki að samþykkja né hafna einu eða neinu.”
VI.
Símbréf J. Gran & Co. 14. janúar 1997 bar samkvæmt orðum sínum greinilega með sér að vera tilboð. Samþykkisfrestur var um tveir sólarhringar. Hafi forráðamenn gagnáfrýjanda verið í vafa um hvernig ætti að skilja texta tilboðsins, sem var á norsku, gátu þeir leitað aðstoðar í því efni. Þeim var auk þess í lófa lagið að bera tilboðið undir sérfróðan mann áður en samþykkisfrestur rann út. Þess í stað sendu þeir tilboðið frá sér undirritað eins og áður greinir. Eru málsaðilar sammála um að það hafi gerst um einni klukkustund eftir að tilboðið barst gagnáfrýjanda.
Skýringar þeirra, sem undirrituðu skjalið 14. janúar 1997, á ástæðum þess að þeir skrifuðu nöfn sín á það eru fjarstæðukenndar. Þótt þeir hafi ekki berum orðum tekið fram, að með undirritunum sínum væru þeir að samþykkja kauptilboðið, gat aðaláfrýjandi ekki skilið áritanir þeirra öðru vísi en svo, að gagnáfrýjandi væri með þeim að taka tilboðinu. Verður því fallist á með aðaláfrýjanda að með undirritunum meiri hluta stjórnar gagnáfrýjanda hafi komist á samningur um kaup á Eldborg.
Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað. Í ljósi útlagðs kostnaðar aðaláfrýjanda af málinu og þess að sakarefni var skipt, eins og fram kemur í héraðsdómi, verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað vegna þess hluta málsins, sem nú er lokið. Verður hann ákveðinn í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi hefur héraðsdómari andstætt fyrirmælum d. og e. liða 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tekið upp orðrétt meginhluta stefnu og greinargerðar gagnáfrýjanda í héraði í stað þess að vinna úr þessum skjölum stutt yfirlit um málsatvik, ágreiningsefni aðila, helstu málsástæður þeirra og tilvísanir til réttarheimilda.
Dómsorð:
Viðurkennt er að kaupsamningur um skipið Eldborg SH 22 hafi komist á 14. janúar 1997 með aðaláfrýjanda, Norberg AS, og gagnáfrýjanda, K.G. hf.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 22. september 1998.
Ár 1998, þriðjudaginn 22. september, er dómþing Héraðsdóms Vesturlands háð á reglulegum þingstað í Borgarnesi. Dómari er Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 26. mars 1998. Það var þingfest sama dag; tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 11. þessa mánaðar.
Stefnandi málsins er Norberg A/S, Adjunkt Dörumsgata 35, 6400 Molde Noregi. Stefnt er K.G. hf., kt. 570795-2449, Hafnargötu 6 Rifi, Snæfellsbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfest verði með dómi að bindandi kaupsamningur um fiskiskipið Eldborgu SH-22 hafi komist á milli aðilja með undirritun tveggja stjórnarmanna stefnda á kauptilboð stefnanda, dags. 14. janúar 1997.
Stefnandi krefst þess einnig að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu, og hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Í stefnu er kröfugerð stefnanda ýtarlegri. Auk þess sem krafist er viðurkenningar á að komist hafi á bindandi kaupsamningur er þar krafist skaðabóta úr hendi stefnda. Þá var og óskað eftir því í stefnu „að sakarefni málsins verði skipt þannig að fyrst verði dæmt um skuldbindingargildi þess samnings sem stefnandi heldur fram að komist hafi á með aðilum og samhliða því bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda. Á meðan þessi þáttur máls[með]ferðarinnar standi yfir hvíli umfjöllun um bótafjárhæð og bíði þess að verða dæmd sérstaklega.”
Kröfugerð stefnda er einnig ýtarlegri í greinargerð hans. Aðallega er þar krafist frávísunar málsins, en til vara sýknu og til þrautavara lækkunar á bótakröfum. Í greinargerðinni segir um viðurkenningarkröfu stefnanda: „Af hálfu stefnda er ekki lagst gegn því að sakarefninu verði skipt með þessum hætti og myndi þá meðferð frávísunarkröfunnar hvíla á meðan fjallað væri um hvort komist hefði á bindandi samningur milli aðila.”
Í þinghaldi í málinu 16. júní sl. var bókað í þingbók, að dómari féllist á ósk lögmanns stefnanda um að skipta sakarefni, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991, „þannig að fyrst verði dæmt um skuldbindingargildi hins meinta kaupsamnings, enda hefur lögmaður stefnda fallist á það.”
Atvikum máls er svo lýst í stefnu:
„Þann 14. janúar 1997 gerði stefnandi, fyrir milligöngu norsks skipamiðlunarfyrirtækis, J. Gran & Co. A/S, kauptilboð að upphæð 11,5 milljónir NOK í Eldborgina SH-22 sem þá var í eigu stefnda. Í tilboðinu gaf að finna ákvæði um meginatriði samnings, auk verðs, meðal annars um afhendingarstað og tíma, greiðsluskilmála, ástand hins selda og fylgifé þess. Um nánari skilmála var vísað til ítarlegra ákvæða í stöðluðum norskum samningsskilmálum („Norsk Salgsform 1987”) með síðari viðbótum og breytingum auk hefðbundins ákvæðis um að kaupanda sé heimilt að skoða skipið og kanna ástand þess.
Tveir fyrirvarar voru í kauptilboðinu settir af hálfu stefnanda. Í fyrsta lagi var tilboðið háð því að samþykki norskra yfirvalda fengist fyrir flutningi skipsins og skráningu þess í Noregi og hins vegar að kaupanda tækist að útvega nægilegt fé til að fjármagna kaupin. Slíkir fyrirvarar eru algengir þegar skip eru seld. Kaupendur hafa gjarnan ákveðinn tíma til að útvega tilskilin leyfi og/eða fjármögnun en sjaldnast þykir ástæða til að greiða úr þessum atriðum fyrr en seljandi er bundinn við samning af sinni hálfu. Bæði þessi skilyrði skyldu uppfyllt fyrir 21. febrúar 1997.
Tveggja daga frestur var gefinn til að samþykkja tilboðið, nánar tiltekið til kl. 15:00 16. dags sama mánaðar að norskum tíma. Innan frestsins barst tilboðið aftur, þá undirritað nöfnum Kristjáns Guðmundssonar og Hjálmars Kristjánssonar, stjórnarmanna stefnda, og með því samþykkt af hálfu félagsins.
Þann 20. febrúar sendi J. Gran & Co. A/S símbréf til stefnda ásamt meðfylgjandi norskum samningsskilmálum með ítarlegri ákvæðum í samræmi við samninginn sem komist hafði á með aðilum. Jafnframt var þess getið að skilyrði þess að kauptilboðið yrði virkt væru uppfyllt, þ.e. tilskilin leyfi norskra yfirvalda um innflutning og skráningu skipsins hafði fengist þann 13. febrúar auk þess sem fjármögnun hafði tekist.
Þann 24. febrúar barst myndsending frá stefnda þar sem því var hafnað að komist hefði á bindandi samningur milli aðila. Var þess að auki getið að Eldborgin yrði boðin til sölu á ný og að stefnanda væri frjálst að gera tilboð í skipið. Hæsta tilboð sem vitað er um að hafi fengist nam 12,9 milljónum NOK. Afstöðu stefnda var þá þegar, og endurtekið þar á eftir, harðlega mótmælt af hálfu umboðsmanna stefnanda í Noregi.
Frekari samskiptum á milli aðila var haldið uppi og reyndi stefnandi ítrekað að fá stefnda til að breyta afstöðu sinni.
Með áðurnefndu símbréfi þann 20. febrúar staðfesti stefnandi að 10% kaupverðsins yrði fyrirfram greitt inn á sameiginlegan geymslureikning aðila annað hvort 13. eða 14. mars 1997 enda þótt í fyrsta lið samningsins sé einungis miðað við greiðslu kaupverðsins við afhendingu skipsins. Jafnframt bauðst stefnandi með símbréfinu frá 20. febrúar til að taka við skipinu þann 4. júní í stað loka ágústs eins og um hafði verið samið. Síðar bauðst hinn norski skipamiðlari til þess að reyna að fá stefnanda til að ganga enn lengra og taka við skipinu þann 17. apríl, sbr. símbréf frá 7. mars 1997. Þá lýsti stefnandi sig, í kjölfar tillögu stefnda um að leysa ágreininginn með peningagreiðslu, reiðubúinn til að taka við einni milljón norskra króna úr hendi félagsins og með því ráða ágreiningi aðila til lykta, sbr. símbréf stefnanda frá 11. mars 1997. Þar sem viðræður og sáttatilraunir báru engan árangur átti stefnandi að lokum þann kost einan að leita lögfræðilegrar aðstoðar til að ná fram réttindum sínum.
Þann 14. mars sendu lögfræðingar stefnanda í Noregi bréf til stefnda þar sem félaginu var tilkynnt að ef samningur aðila yrði ekki efndur af hálfu stefnda yrði gripið til lagalegra úrræða til að fá honum framfylgt. Svarbréf barst frá lögmanni stefnda þar sem sú afstaða var ítrekuð að samningur milli aðila hafi ekki komist á. Var því fram haldið að ofangreint tilboð hafi einungis verið undirritað til staðfestingar móttöku þess en ekki til samþykkis!
Stefnandi hugðist ávallt halda kaupunum fram gegn stefnda. Í því skyni að koma í veg fyrir sölu og flutning skipsins úr landi fékkst þann 28. apríl 1997 þinglýst yfirlýsingu á blað Eldborgarinnar í þinglýsingabók sýslumannsins í Stykkishólmi þar sem fram kemur m.a. að stefnandi líti svo á að komist hafi á bindandi kaupsamningur milli hans og stefnda um skipið. Þrátt fyrir þetta var skipið selt þriðja aðila og þann 8. maí sl. gaf stefndi út afsal fyrir Eldborginni til norsks kaupanda, Robofisk A/S, sem staðfest var af lögbókanda þann 9. maí. Daginn fyrir útgáfu afsalsins hafði öllum veðböndum sem hvílt höfðu á Eldborginni verið aflýst. Yfirlýsingin um afstöðu stefnanda og yfirvofandi réttarhöld var þó ekki afmáð úr þinglýsingabókum.
Að lokinni afskráningu Siglingastofnunar Íslands úr skipabók þann 9. maí var Eldborgin flutt til Noregs um miðjan mánuðinn til hins nýja kaupanda án þess að stefnanda eða umboðsmönnum hans væri gert viðvart eða þeir fengju nokkru um ráðið. Var þá endanlega ljóst að samningurinn yrði ekki efndur af hálfu stefnda. Stefnanda er því nauðugur sá kostur að leita réttar síns fyrir dómstólum.”
Um málsástæður stefnanda segir í stefnu:
„Stefnandi byggir á því að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli hans og stefnda með því að stefndi samþykkti kauptilboð stefnanda innan þess frests sem settur hafði verið. Hann krefst staðfestingar á þessu fyrir dómi. Jafnframt eigi hann val um að krefjast þess að samningurinn verði efndur eftir efni hans eða að byggja á þeim vanefndaúrræðum sem til boða standa að lögum svo sem hafa uppi kröfu um skaðabætur (efndabætur) eins og gert er í máli þessu.
Það er óumdeilt að símbréf stefnanda til stefnda dags. 14. janúar sl. fól í sér tilboð um kaup á Eldborginni SH-22. Þar kom skýrt fram að tilboðið hafði aðeins skamman gildistíma. Tekið var á öllum meginatriðum endanlegs samnings svo sem þeirra sem áður er getið auk þess sem vísað var til ítarlegri samningsskilmála sem einungis veita takmarkað svigrúm til frávika. Jafnframt er það óumdeilt að bréfið var undirritað og endursent innan þess frests sem settur var í tilboðinu. Þá er það óumdeilt að Kristján Guðmundsson og Hjálmar Kristjánsson hafi umboð til að binda félagið við löggerning eins og þann sem hér um ræðir. Þeir eru báðir stjórnarmenn félagsins, Kristján stjórnarformaður, og saman mynda þeir meirihluta stjórnar. Ágreiningurinn hvað varðar gildi samnings aðila snýst þannig eingöngu um það hvernig ber að túlka undirritun Kristjáns Guðmundssonar og Hjálmars Kristjánssonar á tilboð stefnanda frá 14. janúar s.l. um kaup á Eldborginni.
Stefnandi byggir á því að nefnd undirritun hafi falið í sér samþykki tilboðsins. Hér er til þess að líta að Kristján Guðmundsson og Hjálmar Kristjánsson skrifuðu báðir undir tilboðið með skýrum hætti. Þeir skrifuðu upphafsstafi sína á fyrra blað tilboðsins og fullt nafn á hið síðara en sá háttur er jafnan viðhafður þegar skrifað er undir kaupsamninga um verðmætar eignir svo sem fasteignir og skip. Hlýtur það að þykja óvenjulega vönduð og skilmerkileg undirritun ef einungis hefur staðið til að staðfesta móttöku tilboðsins. Að auki er fyllsta ástæða til að ætla að Kristján og Hjálmar hefðu getið þess sérstaklega ef vilji þeirra hefði einungis staðið til að staðfesta móttöku tilboðsins. Þessi háttur á ritun nafna mannanna tveggja, sem saman hafa umboð til að skuldbinda stefnda, veitir sterka vísbendingu í þá átt að ætlunin hafi verið að samþykkja tilboðið en ekki einungis staðfesta móttöku þess eins og haldið hefur verið fram.
Hér er einnig til þess að líta að þeir Kristján Guðmundsson og Hjálmar Kristjánsson eru ekki óvanir viðskiptum eins og þeim sem hér áttu sér stað. Þeir eru þvert á móti þaulvanir kaupsýslumenn og fyrirsvarsmenn félaga sem samkvæmt upplýsingum Siglingastofnunar hafa á undanförnum árum verið skráðir eigendur að fjölmörgum skipum. Er ekki nema eðlilegt að stefndi beri hallann af því að fyrirsvarsmenn félagsins skrifi undir pappíra eins og kauptilboð stefnanda án þess að gera ráð fyrir því að um skuldbindandi yfirlýsingu sé að ræða. Verði ekki fallist á þetta er gerður sérstakur áskilnaður um að höfða mál gegn þeim Kristjáni Guðmundssyni og Hjálmari Kristjánssyni persónulega til greiðslu þess tjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir.
Af hálfu stefnanda er því fram haldið að hvað sem líður vilja fyrirsvarsmanna stefnda eða ætlun verður að leggja þann skilning í undirritunina sem stefnandi mátti halda að í henni fælist. Með öðrum orðum beri við túlkun undirritunarinnar ekki að leggja höfuð áherslu á vilja þeirra sem rituðu undir kauptilboðið heldur fremur á það traust sem undirritun þeirra mátti skapa og skapaði hjá stefnanda. Í huga stefnanda lék aldrei neinn vafi á skuldbindingargildi undirritunarinnar. Stefnandi hafði enga ástæðu til að ætla annað en að hann ætti í viðskiptum við reynda menn sem væru í fyrirsvari fyrir vandað félag. Hann gerði tilboð í eign þess fyrir verulegar fjárhæðir sem síðan var samþykkt með undirritun meirihluta stjórnarmanna. Hann hafði enga ástæðu til að ætla að títtnefnda undirritun bæri að skilja á annan veg en þann að þar væri um að ræða samþykki á kauptilboðinu. Allan vafa um þetta ber að skýra stefnanda í hag enda var það á valdi fyrirsvarsmanna stefnda að gera skýra grein fyrir vilja sínum ef hann stóð ekki til samþykkis.
Af öllu ofangreindu telur stefnandi ljóst að bindandi kaupsamningur hafi komist á milli aðila málsins um Eldborgina SH-22 með undirritun stjórnarmanna stefnda á kauptilboð stefnanda frá 14. janúar 1997 og krefst hann staðfestingar á því. Þar sem stefndi hefur ekki efnt samninginn við stefnanda er stefnanda jafnframt rétt að krefjast skaðabóta vegna þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir og stafar af vanefndunum.”
Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til að leita viðurkenningardóms, og um heimild til skiptingar sakarefnis til 31. gr. sömu laga. Hann vísar og til almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndabætur og byggir einnig á settum ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, einkum 23. gr. Krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málavöxtum er svo lýst í greinargerð stefnda:
„Í október 1996 var fiskiskipið, Eldborgin SH-22, auglýst til sölu í norsku dagblaði.
Eldborgin var í eigu sérstaks eignarhaldsfélags KG hf., kt. 570795-2449, Hafnargötu 6, Hellissandi, stefnda í máli þessu. Útgerðaraðili skipsins var hins vegar Kristján Guðmundssona hf., kt. 490889-1169, Háarifi 89, Hellissandi. Framkvæmdastjóri beggja félaganna er Guðmundur Kristjánsson.
Í desember 1996 hafði Bergsteinn Gunnarsson hjá verkfræðistofunni Feng ehf. samband við Guðmund Kristjánsson og kvaðst vera með kaupanda að skipinu og í framhaldi af því skoðuðu Bergsteinn og Jörgen Nordberg [Svo: Á að vera Jörgen Nordheim. Innskot dómara] skipið þar sem það lá við bryggju á Rifi og funduðu ásamt Birgi Sveinssyni starfsmanni hjá Feng ehf. [Við skýrslutöku af Birgi Sveinssyni kom í ljós að hann var ekki starfsmaður Fengs, heldur kom að máli þessu á eigin vegum. Innskot dómara]
Í byrjun janúar áttu sér stað samningaviðræður milli annars vegar norska skipamiðlarans J. Gran & Co A/S og Fengs ehf. og hins vegar Guðmundar Kristjánssonar. Þær viðræður voru allar um síma eða með símbréfum og samskipti voru eingöngu á milli Bergsteins og Guðmundar.
Hinn 1. janúar [Á að vera 10. janúar] fór Guðmundur erlendis og kom aftur 23. janúar 1997.
Hinn 14. janúar 1997 sendi Bergsteinn símbréf til Kristjáns Guðmundssonar, föður Guðmundar, þar sem Guðmundur var staddur erlendis. Kristján hafði ekki tekið þátt í ofangreindum viðræðum áður. Með símbréfinu fylgdi bréf frá J. Gran & Co A/S, stílað á verkfræðistofuna Feng ehf., þar sem þeir staðfestu fyrir hönd Jörgen Nordberg [Rétt er Nordheim] og Pål Berg tilboð í Eldborgina.
Skv. beiðni Bergsteins þá rituðu Kristján og sonur hans Hjálmar á myndbréfið og sendu til baka á verkfræðistofuna. Með því vildu þeir staðfesta að þeir hefðu móttekið símbréfið. En eins og fram kemur á dskj. nr. 4 var símbréfið sent strax til baka enda var símbréfið eingöngu vinnuplagg að þeirra mati.
Kristján tjáði Bergsteini að Guðmundur framkvæmdastjóri fyrirtækisins væri erlendis og ekkert yrði ákveðið fyrr en hann kæmi til baka. Hvorki Kristján né Hjálmar lesa eða tala norsku. Ástæðan fyrir því að þeir rituðu báðir undir skjalið til þess að staðfesta móttöku þess var vegna beiðni Bergsteins um að svo yrði gert til þess að Norðmennirnir gætu haldið áfram að vinna að málinu.
Frá því að þetta gerðist voru engin samskipti á milli aðila þangað til hinn 20. febrúar 1997, rúmum 5 vikum eftir að símbréfssendingarnar áttu sér stað, að bréf kom frá J. Gran til Kristjáns Guðmundssonar hf., þar sem hann kvaðst vilja ganga frá kaupunum.
Guðmundur talaði við Atle Gundersen hjá J. Gran í síma og tjáði honum að hann væri reiðubúinn að semja við hann en gerði honum jafnframt ljóst að það væri ekki kominn á neinn bindandi samningur um kaupin. Eldborgin væri enn til sölu.
Þetta ítrekaði Guðmundur í símbréfum til Atle hinn 24. febrúar, á dskj. nr. 9 og 10.
Bréfaskipti sem áttu sér stað í framhaldi af þessu lutu öll að ágreiningi um hvort að með símbréfssendingunum hinn 14. janúar 1997 hefði komist á bindandi kaupsamningur eða ekki og verða þau ekki rakin hér.
Memorandum of Agreement, sbr. dskj. nr. 8, var ekki sent til stefnda fyrr en rúmum 5 vikum eftir að hinar umdeildu faxsendingar frá 14. janúar áttu sér stað eða hinn 20. febrúar. Þar var Kristján Guðmundsson hf. ranglega tilgreindur seljandi.
Þá innti kaupandi aldrei af hendi svokallaða deposit greiðslu sem venjulega er gert nokkrum dögum eftir að kauptilboð hefur verið samþykkt.
Við umfjöllun um málsástæður og lagarök verður vikið sérstaklega að þætti verkfræðistofunnar Fengs ehf. og hvaða hlutverki hún gegndi í málinu. Hún virtist í upphafi koma fram sem umboðsaðili stefnanda, þegar Eldborgin var skoðuð, en norski lögmaðurinn Öystein Horneland kallaði Feng ehf. umboðsaðila fyrir Kristján Guðmundsson hf., sjá dskj. nr. 23, og norski skipamiðlarinn Atle Gundersen hjá J.Gran & Co A/S kallaði þá skipamiðlara, sjá dskj. nr. 24.
Hinn 8. maí 1997 seldi KG hf. Eldborgina til Robofisk A/S í Noregi án þess að stefnandi gerði neina tilraun til að stöðva þá sölu aðra en að þinglýsa yfirlýsingu á skipið hjá Sýslumanninum í Stykkishólmi hinn 28. apríl 1997.”
Málsástæður og lagarök stefnda eru þessi skv. greinargerð:
„Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ekki hafi komist á bindandi samningur á milli stefnda og stefnanda um fiskiskipið Eldborgina SH-22 með áritun tveggja stjórnarmanna stefnda á símbréf dags. 14. janúar 1997, sjá dskj. nr. 3 og 4.
Við ofangreint símbréf er ýmislegt að athuga. Símbréfið var stílað á Feng ehf. en ekki á stefnda, eiganda skipsins. Tilboðið á dskj. nr. 3 var skilyrt en á endursenda tilboðinu, símbréfinu, á dskj. nr. 4, kom ekkert fram um samþykkt tilboðsins, hvorki við einstökum ákvæðum þess né við skilyrtum ákvæðum þess.
Starfsmaður Fengs hf., Bergsteinn Gunnarsson, hafði símsamband við Kristján Guðmundsson, og bað hann um að rita nafn sitt á símbréfið til þess að staðfesta móttöku þess því það væri nauðsynlegt til að halda samingaviðræðum áfram. Kristján tók það skýrt fram við Bergstein að ekki væri verið að samþykkja neitt tilboðið enda engin yfirlýsing gefin um slíkt fyrir hönd stefnda enda sendi Kristján símbréfið strax til baka eins og áður er rakið. Þá er þess að geta að hvorki Kristján né Hjálmar höfðu annast viðskiptatilraunir með Eldborgina heldur framkvæmdastjórinn Guðmundur Kristjánsson. Eins og áður er rakið þá lesa Kristján og Hjálmar ekki norsku og stóðu í þeirri trú að hér væri eingöngu um vinnuplagg að ræða.
Á því er byggt að án beins samþykkis verði ekki séð að nafnritun tveggja stjórnarmanna á símbréfið, sem segja ekkert berum orðum um samþykki, verði túlkað með þeim hætti að þeir hafi samþykkt að bindandi samningur hafi komist á. Enginn af forsvarsmönnum stefnda hefur lýst því yfir hvorki við stefnanda né verkfræðistofuna Feng ehf. eða J. Gran A/S að þeir samþykktu tilboð það sem kom fram á símbréfinu.
Til þess að bindandi kaupsamningur hafi komist á þarf seljandi að lýsa því yfir með skýrum og ótvíræðum hætti að hann samþykki framkomið kauptilboð. Þegar slík yfirlýsing liggur fyrir telst kominn á bindandi samningur. Í þessu sambandi er vísað til dóms Hæstaréttar 1948, bls. 343.
Skv. íslenskum rétti hefur sá sem heldur fram gildi samnings sönnunarbyrði um að samningur hafi komist á og þegar miklir hagsmunir eru í húfi eru gerðar enn strangari kröfur um sönnun en ella.
Sýknukrafa stefnda er einnig á því byggð að stefnandi innti ekki af hendi svokallaða „deposit” greiðslu sem honum hefði borið að gera strax og hann taldi að kauptilboð hefði verið samþykkt en „deposit” greiðsla er innborgun á 10% af kaupverði skips til þess að staðfesta kauptilboðið og tryggja réttar efndir væntanlegs samnings. Með því sýndi stefnandi tómlæti sem kemur í veg fyrir að um bindandi samning hafi verið að ræða í þessu tilviki. Stefnandi sýndi einnig tómlæti þegar hann í upphafi fylgdi ekki eftir meintu samþykki með undirritun Memorandum of Agreement, sbr. dskj. nr. 8 og „deposit” greiðslu strax í kjölfarið og einnig með því að reyna ekki að koma í veg fyrir sölu skipsins til þriðja aðila.
Þá er rétt að geta þess að nafn stefnda kemur aldrei fyrir í samningaviðræðunum, sem bendir til þess að samningaviðræður hafi ekki verið langt á veg komnar. Þá virðist hvorki stefnandi né verkfræðistofan Fengur ehf. hafa haft upplýsingar um hver væri réttur eigandi skipsins.
Víkjum þá að þætti verkfræðistofunnar Fengs ehf. í málinu. Í upphafi komu starfsmenn hennar fram sem fulltrúar og umboðsmenn stefnanda þegar þeir kynntu fulltrúa stefnanda Jörgen Nordberg fyrir Guðmundi Kristjánssyni. Þetta fær einnig stuðning í símbréfi á dskj. nr. 35 en þar talar Bergsteinn um „okkar mann” og á þar vafalaust við Jörgen Nordberg. Í bréfi Atle Gundersen hjá hinum norska skipamiðlara J.Gran & Co A/S til lögmanns stefnanda, sjá dskj. nr. 24, kom skýrt fram að hann leit á Feng ehf. sem skipamiðlara „broker”. En í bréfi hins norska lögmanns Öystein Horneland var talað um að Fengur hafi komið fram sem milliliður, „intermediaries” fyrir hönd Kristjáns Guðmundssonar hf. Skv. þessu virtist Fengur ehf. hafa leikið tveimur ef ekki þremur skjöldum í málinu.
Það er því mikilvægt að fá upplýst í málinu hvaða hlutverki Fengur ehf. raunverulega gegndi í þessu máli. Stefndi leitaði ekki eftir þjónustu Fengs ehf. og ljóst er að Fengur ehf. var ekki á nokkurn hátt á vegum stefnda. Hafi þeir hins vegar verið einhvers konar umboðsmenn stefnanda eða fulltrúar hans þá eru þeir í raun orðnir aðilar að málinu og hafa stöðu sem slíkir.
Til þess að starfa sem skipamiðlari hefur Fengur ehf. ekki löggildingu sem þeim ber að hafa til þess að geta haft þá milligöngu sem þeir virðast hafa haft í máli þessu, sbr. lög nr. 34/1986 sem giltu um fasteigna- og skipasölu í janúar 1997. Ástæðan fyrir þeim misskilningi sem kom upp í þessu máli var e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að samningaviðræður fóru fram fyrir milligöngu Fengs ehf., sem er ekki löggiltur skipamiðlari heldur verkfræðistofa sem hafði ekki leyfi til að stunda fasteigna- eða skipasölu. Tilgangurinn með því að löggilda aðila til slíkra starfa var sá að tryggja að saman færi þekking og fagmennska og koma þannig í veg fyrir að aðilar séu að fást við þessa hluti sem ekki hafa kunnáttu til þess.
Hafi stefnandi orðið fyrir einhverju tjóni í máli þessu var það ekki fyrir tilverknað stefnda heldur miklu fremur vegna óvandaðra vinnubragða og e.t.v. ólögmætrar starfsemi verkfræðistofunnar Fengs ehf. Verði stefndi hins vegar fyrir einhverju tjóni vegna þess máls þá áskilur hann sér allan rétt til að hafa uppi kröfur á hendur Feng ehf. eða krefjast opinberrar rannsóknar á þætti þeirra í málinu.
Þá er því haldið fram varðandi sýknukröfuna að stefnandi hafi í raun ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þess að ekki komst á samningur um Eldborgina.
Þá er kröfugerð stefnanda alfarið mótmælt bæði grundvelli hennar og fjárhæð........
Loks er af hálfu stefnda vísað til meginreglna samningaréttar um samningsfrelsi og efndaskyldu.”
Skýrslur fyrir dómi voru þessar: Af hálfu stefnanda gaf aðiljaskýrslu Jörgen Nordheim, stjórnarmaður stefnanda. Aðiljaskýrslur af hálfu stefnda gáfu Guðmundur Kristjánsson framkvæmdastjóri stefnda; faðir hans, Kristján Guðmundsson, og bróðir hans Hjálmar Kristjánsson. Þessir þrír menn eru stjórnarmenn stefnda, Kristján stjórnarformaður. Vitni báru Atle Gundersen starfsmaður skipasölunnar J. Gran & Co A/S, Bergsteinn Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri og einn aðaleigandi Fengs hf. og Birgir Sveinsson framkvæmdastjóri. Hinir tveir síðastnefndu voru milligönguaðiljar fyrir J. Gran & Co A/S í máli þessu.
Forsaga símbréfsins 14. janúar 1997.
Upplýst var við skýrslutökur að stefnandi hafði gert stefnda tilboð í skipið Eldborg áður en hann sendi símbréfið 14. janúar 1997. Jörgen Nordheim kom til Íslands skömmu fyrir jól 1996. Hann fór vestur á Rif 21. desember og skoðaði þar skipið ásamt Kristjáni Guðmundssyni og Hjálmari Kristjánssyni. Um kvöldið hittust þeir í Reykjavík hann og Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri stefnda, ásamt Bergsteini Gunnarssyni og Birgi Sveinssyni. Þar ræddu þeir hugsanlega sölu á skipinu.
Upphafleg verðhugmynd Guðmundar Kristjánssonar virðist hafa verið 13-14 milljónir norskra króna, en það þótti stefnda of hátt. Í skýrslum Jörgens Nordheim og Bergsteins Gunnarssonar kom fram að stefnandi gerði stefnda tvisvar tilboð í skipið áður en símbréfið 14. janúar var sent.
Samkvæmt skýrslu Jörgens Nordheim gerði stefnandi fyrst formlegt tilboð í Eldborgina 6. janúar upp á 10 milljónir NOK. Því hefði stefndi hafnað munnlega. Gagntilboð hefði komið frá stefnda upp á 12,5 milljónir NOK . Stefnandi hefði aftur gert formlegt tilboð 10. janúar upp á 11,5 milljónir NOK. Viðbrögð stefnda við því hefðu verið að honum hefði ekki litist illa á verðið, en umræður hefðu farið fram milli aðilja um afhendingartíma og um afléttingu þeirra skilyrða sem stefnandi setti um veiðileyfi og fjármögnun.
Vitnið Bergsteinn Örn Gunnarsson greindi á sama veg frá um tímasetningu tilboða. Vitnið starfaði á vegum verkfræðistofunnnar Fengs hf. sem milligönguaðili fyrir skipasöluna J. Gran & Co, en vitnið tók þó fram að Guðmundur Kristjánsson hefði beðið sig að vera í sambandi við starfsmann norsku skipasölunnar, Per Stensvåg, vegna samningumleitana í máli þessu. Vitnið sagði að Guðmundur hefði eftir fyrsta tilboðið beðið sig að senda skeyti til Per Stensvåg. Í því hefði átt að koma fram að stefndi gæti fallist á verðið 12,5 milljónir NOK. Fyrstu viðbrögð stefnanda við þessu hefðu verið að honum hefði þótt þetta of hátt, en verið tilbúinn að fara upp í u.þ.b. 11 milljónir, en nokkrum dögum síðar, eða 9. janúar hefði Per Stensvåg tilkynnt sér að honum hefði tekist að fá stefnanda til að hækka sig upp í 11,5 milljónir, og daginn eftir hefði komið formlegt tilboð frá stefnanda upp á 11,5 milljónir NOK. Vitnið sagði að Guðmundur Kristjánsson hefði ekki vitað hvort hann ætti að ansa því tilboði. Atle Gundersen hjá J. Gran &Co hefði haft samband við hann og niðurstaðan hefði orðið sú að Guðmundur ætlaði að ræða við föður sinn, Kristján, og bróður, Hjálmar, og athuga hvort þeir væru tilbúnir að selja skipið á þessu verði. Guðmundur hefði þá verið að fara til útlanda.
Í bréfi sem Atle Gundersen sendi lögmanni sínum á Íslandi, dags. 28. apríl 1997, rekur hann gang mála. Þar segir hann að hann og Guðmundur Kristjánsson hafi hist á fiskveiðisýningu í Þrándheimi í ágúst 1996. Guðmundur hafi þar sagt sér að ætlun stefnda væri að selja Eldborgina fyrir u.þ.b. 14. milljónir NOK. Atle segir í bréfinu að hann hafi kynnt Guðmund fyrir samstarfsmanni sínum hjá J. Gran & Co, Per Stensvåg, sem hafi haft með notuð skip að gera. Í janúar 1997 hafi Per beðið sig að hringja í Guðmund og segja honum frá hugsanlegum kaupanda, sem væri reiðubúinn að greiða 11,5 milljónir NOK, að frádregnum sölulaunum, fyrir Eldborg. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi skipið verið til sölu í meira en 6 mánuði, en enginn hefði virst reiðubúinn til að greiða hið uppsetta verð, 14 milljónir NOK. Síðan segir í bréfinu orðrétt:
„Ég hringdi í Guðmund og sagði honum frá þessum hugsanlega kaupanda og í lok samtalsins bað Guðmundur mig um að draga saman tilboðið og senda sér með símbréfi og hann mundi þá ræða tilboðið við föður sinn og bróður (Kristján Guðmundsson og Hjálmar Kristjánsson). Ef þeir samþykktu söluna mundi hann endursenda símbréfið með undirskriftum sínum til staðfestingar á að tilboðinu væri tekið. Guðmundur var á leiðinni til Falklandseyja um helgina, og því mundi faðir hans senda símbréfið til baka með undirskriftunum.”
Í vætti sínu fyrir dómi bar vitnið Atle Gundersen mjög á sama veg og segir í tilvitnuðu bréfi. Hann bar að samstarfsmaður hans, Per, hefði beðið sig að hringja í Guðmund [Per veiktist alvarlega skömmu síðar og er nú látinn]. Hann hefði hringt á föstudegi u.þ.b. 10. janúar [10. janúar 1997 var föstudagur. Aths. dómara]. Eftir símtal vitnisins, Atla, við Guðmund, áður en símbréfið með tilboðinu var sent 14. janúar, hefði legið fyrir að Guðmundur mundi samþykkja það.
Þegar frásögn þessi var borin undir Guðmund Kristjánsson fyrir dóminum, sagði hann að hún væri ekki rétt. Þeir Atle hefðu ekki haft samband fyrr en í febrúar.Hann hefði alltaf haft samskipti við Bergstein Gunnarsson sem millilið fram að því. Hann hefði aldrei talað við Atla í janúar 1997.
Samskipti Bergsteins Gunnarssonar og Kristjáns Guðmundssonar 14. janúar 1997. Nafnritun Kristjáns og Hjálmars Kristjánssonar á símbréf þann dag.
Í sambandi við framsendingu Fengs hf. á símbréfi J.Gran & Co með tilboði stefnanda til stefnda 14. janúar 1997 má telja víst af skýrslum þeirra Kristjáns Guðmundssonar og Bergsteins Gunnarssonar að þeir hafa talast tvisvar við í síma þann dag. Bergsteinn hringdi fyrst í Kristján áður en eða eftir að hann hafði sent símbréfið og síðan hringdi Kristján aftur í Bergstein. Þeir eru mjög ósammála um hvað þeim fór á milli í þessu símtölum.
Í aðiljaskýrslu sinni sagði Kristján Guðmundsson að Bergsteinn hefði beðið „okkur” að skoða þetta. Sér hefði sýnst þetta vera vinnuplagg eða uppkast að því. Hann hefði sagt Bergsteini að hann vildi ekki skrifa undir þetta. Bergsteinn hefði ekki verið ánægður með það. Bergsteinn hefði beðið um að þeir Hjálmar settu nöfn sín á símbréfið. Ef þeir gerðu það ætlaði hann að ræða betur við „þessa norsku aðila”. Aðilinn Kristján sagði að þeir Hjálmar hefðu ekki ritað neitt um að þeir samþykktu tilboðið, eins og þeir væru vanir að gera þegar þeir samþykktu tilboð. Þeir hefðu ekki gert það vegna þess að þeir hefðu ekki vilja samþykkja þetta, en Bergsteinn hefði viljað fá nöfnin þeirra til þess að geta talað betur við Norðmennina, til þess að geta haldið áfram að vinna að málinu. Aðspurður sagði aðilinn að vel mætti vera að það hefði verið fljótfærni af þeim Hjálmari að rita nöfn sín og upphafsstafi á símbréfið.
Ágreiningslaust er að skammur tími leið frá því að Kristján Guðmundsson fékk bréfið í hendur þangað til hann endursendi Feng það, eða um klukkustund.
Aðilinn Kristján kvaðst ekkert hafa komið nálægt þessu máli, Guðmundur hefði alveg séð um það. Hann kvaðst hafa litið svo á að Fengur hf. væri að vinna fyrir hinn norska skipasala.
Í aðiljaskýrslu Hjálmar Kristjánssonar, stjórnarmanns stefnda, kom fram að hann hefði verið að vinna þegar faðir hans hefði kallað á hann og sagt að Bergsteinn hefði faxað til þeirra eitthvert vinnublað og hann „vildi að við kvittuðum fyrir móttöku á því, að við hefðum séð þetta”. Aðilinn kvaðst hafa skotist upp á skrifstofu föður síns, litið aðeins yfir símbréfið og skrifað nafn sitt og upphafsstafi á það. Hann kvaðst ekki vera sleipur í norsku. Hann kvaðst ekki hafa talið að hann væri að samþykkja formlegt kauptilboð.
Í vætti Bergsteins Gunnarsson kom fram að það hefði ekki verið að hans beiðni að þeir Kristján og Hjálmar rituðu nöfn sín og upphafsstafi á tilboðið á símbréfinu 14. janúar 1997. Það væri af og frá. Hann hefði ekki beðið um að þeir staðfestu móttöku símbréfsins með þessum hætti. Hann kannaðist ekki við að Kristján hefði sagt við hann að með undirskift sinni væri hann ekki að samþykkja neitt. Vitnið var spurt hvort engin orð hefðu farið á milli hans og Kristjáns um það hvernig ætti að undirrita skjalið, ef ætti að samþykkja það. Vitnið svaraði þessu fyrst neitandi, en sagði síðan: „Ja, ég skal ekki segja um það, að hann hafi spurt um það og ég hafi svarað með því að best væri að þeir settu nöfn sín á báðar síður. Hann sagði mér að Hjálmar væri hjá sér.”
Vitnið Bergsteinn sagði að í símtölum þeirra Kristjáns hefði sá síðarnefndi spurt um tvennt, annars vegar um veiðarfæri, hvort afhenda ætti ný veiðarfæri, og hins vegar um það hvort skila ætti skipinu nýmáluðu.
Vitnið taldi engan vafa á að með ritun nafna sinna og upphafsstafa á tilboðið á símbréfinu hefðu Kristján og Hjálmar samþykkt tilboðið.
Aðspurður um kunnáttu þeirra feðga, Kristjáns og Hjálmars, í norsku sagði vitnið Bergsteinn, að hann vissi ekki um Hjálmar, en um Kristján vissi hann að hann væri „ekki of sterkur í henni”.
Hjá vitninu Atla Gundersen kom fram að þessi háttur á að samþykkja tilboð, þ.e. með nafnritun einni saman, væri ekki óvenjulegur. Tilboðið væri þannig orðað að með nafnrituninni sæist á því að það væri samþykkt.
Vitnið Atle var spurður um norskukunnáttu þeirra Kristjáns og Hjálmars. Hann svaraði að Hjálmar hefði helst talað íslensku, þegar þeir hefðu verið saman, og Kristján talaði lítið norsku.
Margumrætt símbréf frá 14. janúar 1997 er á tveimur síðum, og þannig var það lagt fram í réttinum, bæði óundirritað og með nöfnum og upphafsstöfum Kristjáns og Hjálmars. Við aðalmeðferð máls þessa lagði lögmaður stefnanda fram skjal, sem að formi til er símbréf, ritað á bréfsefni Fengs hf., frá Bergsteini Gunnarssyni til Kristjáns Guðmundssonar, dags. 14. janúar 1997. Af hálfu stefnanda er er því haldið fram að skjal þetta sé forsíða símbréfsins. Bréfið hljóðar svo:
„Sæll Kristján. Hjálagt sendi ég þér endurnýjað tilboð frá Norðmönnunum. Eins og þú sérð hafa þeir fallist á að þeir þurfi ekki lengri frest en til 21. feb. 1997 til að fá svör við fjármögnun og veiðileyfi fyrir skipið í Noregi. Þeim finnst reyndar fresturinn stuttur en ætla að reyna allt hvað þeir geta og munu okkar menn í Noregi aðstoða þá í að koma málum áfram. Kveðja Bergsteinn G.” Nafn Bergsteins er bæði vélritað og ritað eigin hendi.
Vitnið Bergsteinn Gunnarsson sagði að skjal þetta hefði verið forsíða símbréfsins 14. janúar, en hvorugur þeirra Kristjáns Guðmundssonar eða Hjálmars Kristjánssonar kannaðist við að hafa séð þetta skjal fyrr en í réttinum við aðalmeðferð. Ekkert er á skjalinu sjálfu sem sannar símbréfssendingu þess 14. janúar 1997.
Í vætti Birgis Sveinssonar fyrir dóminum kom fram að hann og Bergsteinn Gunnarsson hefðu unnið „þétt saman” í máli þessu. Hann hefði „fylgt ferlinu með Bergsteini allan tímann”. Hann kvaðst ekki vera í vafa um að tilboðið 14. janúar hefði verið samþykkt. Í vætti Birgis kom fram að hann hefði unnið að máli þessu á eigin vegum. J. Gran & Co A/S hefði átt að greiða þeim Bergsteini fyrir þá vinnu sem þeir hefðu innt af hendi fyrir það félag, en sölulaun vegna skipasölunnar hefðu átt að renna til félagsins.
Í vætti Bergsteins Gunnarssonar kom fram að J. Gran & Co hefði átt að fá greidd sölulaun, en félagið mundi síðan greiða „okkur” eitthvert hlutfall af þóknuninni, nálægt helmingi.
Samskipti aðilja eftir 14. janúar 1997.
Í aðiljaskýrslu Jörgens Nordheim og í vætti vitnanna Atle Gundersen, Bergsteins Gunnarssonar og Birgis Sveinssonar kemur fram að þeir hafi allir litið svo á að með nafnritun tveggja stjórnarmanna stefnda, Kristjáns og Hjálmars, á tilboðið á símbréfinu 14. janúar 1997 hafi komist á bindandi samningur milli aðilja.
Jörgen Nordheim skýrði svo frá í skýrslu sinni að hann hefði fengið tilkynningu frá Per Stensvåg um borð í skip sitt undan ströndum Argentínu, að tilboði stefnanda hefði verið tekið.
Meðal fram lagðra dómskjala er símbréf frá Atla Gundersen f.h. J. Gran & Co A/S til Kristjáns Guðmundssonar hf., stílað á Guðmund Kristjánsson. Það er dagsett 20. febrúar 1997. Þar er fyrst vísað til „vinsamlegs símafundar í morgun og símbréfs okkar frá því í gær til Fengs hf. varðandi sölusamninginn vegna Eldborgar dags. 14. janúar þessa árs milli þín og Nordberg A/S.” Síðan segir: „Okkur er það ánægja að staðfesta fyrir hönd kaupenda að 8. gr. samningsins frá 14. janúar er hér með aflétt. Þetta þýðir að kaupandinn hafi nú fengið innflutningsleyfið frá norskum yfirvöldum. Ennfremur er kaupandinn sáttur við fjárhagsstöðuna að því er varðar langtímafjármögnun kaupanna...” Því næst er fjallað um 10% „deposit”-greiðslu inn á sameiginlegan reikning á Íslandi fyrir 14. mars 1997 og sagt að kaupendur séu reiðubúnir til að fallast á að afhendingardagur skipsins verði 4. júní. Sama dag sendir J. Gran & Co stefnda svokallað „memmorandum of agreement”, óútfyllt um ýmis efnis- atriði samnings.
Í aðiljaskýrslu sinni fyrir dómi sagði Guðmundur Kristjánsson að hann hefði ekki séð símbréfið frá 14. janúar fyrr en í endaðan þann mánuð. Hann kvaðst og hafa verið búinn að segja Atla Gundersen frá því að hann liti svo á að samningur væri ekki kominn á, áður en Atli sendi honum framangreint símbréf 20. febrúar. Fram hefur verið lagt símbréf Guðmundar til Atla, dags. 24. febrúar 1997. Þar standa þessi orð: „Eins og ég sagði áður í símann held ég að þetta sé ekki bindandi samningur fyrir okkur.” Annað símbréf sendir Guðmundur til Atla sama dag. Þar segir: „Ég vísa til símbréfs dags. 14. janúar sl. frá J. Gran & CO A/S varðandi sölu m/s Eldborgar. Að okkar áliti er þetta ekki bindandi samningur. Ef viðskiptamaður þinn hefur enn áhuga á bátnum, þá er hann til sölu. Við tökum fram að við vildum fá tilboð fyrir 18.00 hinn 3. mars 1997. Eftir það mundum við taka því tilboði sem við teljum hagstæðast eða engu.”
Af símbréfum þessum og fleiri dómskjölum og af skýrslum má sjá að aðiljar hafa í febrúar 1997 leitast við að ná samkomulagi um kaup og sölu á skipinu Eldborg. Í því sambandi er upplýst að stefnandi bauð stefnda að afhendingartími skipsins yrði færður fram, fyrst til 4. júní, svo sem fram er komið, og síðar fram í apríl.
Forsendur og niðurstaða.
Líta verður svo á að skipasalan (skipamiðlunin) J. Gran & Co A/S hafi í máli þessu komið fram f.h. stefnanda í samningaumleitunum um kaup og sölu á fiskiskipinu Eldborgu SH-22. Jafnframt ber að líta svo á að Bergsteinn Gunnarsson sem starfsmaður Fengs hf. og Birgir Sveinsson hafi verið milligöngumenn fyrir J. Gran & Co í þeim umleitunum.
Upplýst er að bæði fyrir og eftir 14. janúar 1997 annaðist framkvæmdastjóri stefnda, Guðmundur Kristjánsson, samningaumleitanir við umboðsmenn stefnanda. Fóru þær umleitanir fyrst fram við Per Stensvåg hjá J. Gran & Co fyrir milligöngu Bergsteins Gunnarssonar, en síðar á milli Guðmundar og Atle Gundersen hjá J. Gran & Co.
Gegn neitun Guðmundar Kristjánssonar er ósannað að hann og Atle Gundersen hafi ræðst við um kaup og sölu á skipinu í janúar 1997, eins og vitnið Atle hefur borið. Jafnframt er og ósannað að legið hafi fyrir þegar 10. janúar að Guðmundur vildi samþykkja tilboðið sem barst Kristjáni Guðmundssyni og Hjálmari Kristjánssyni, stjórnarmönnum stefnda, 14. sama mánaðar.
Verulegar samningaumleitanir höfðu farið fram milli aðilja, og m.a. hafði stefnda borist tvö tilboð frá stefnanda, áður en tilboðið á símbréfinu 14. janúar barst tveimur stjórnarmönnum stefnda. Bendir þetta til þess að samningaumleitanir hafi verið langt komnar og samningur í nánd. Vísbendingar eru þó í málinu um að forsvarsmenn stefnda hafi gert sér vonir um hærra verð fyrir skipið en fólst í tilboði stefnanda, sbr. einkum vætti Bergsteins Gunnarssonar. Þá sýna gögn málsins að samningaumleitanir í febrúar 1997 snúast m.a um að færa fram afhendingartíma skipsins og þar með að flýta greiðslu.
Ágreiningslaust er að þeir Kristján Guðmundsson og Hjálmar Kristjánsson, stjórnarmenn stefnda, höfðu sameiginlega umboð til að skuldbinda stefnda.
Nafnritun og ritun upphafsstafa þeirra Kristjáns og Hjálmars á símbréfið 14. janúar fylgja engin orð um samþykki tilboðs. Ekki verður ráðið af gögnum máls hvað þeim Kristjáni og Bergsteini Gunnarssyni fór á milli um undirskriftir þeirra feðga, Kristjáns og Hjálmars. Þar stendur orð gegn orði.
Símbréfið var á norsku. Upplýst er að hvorugur þeirra feðga er vel að sér í því tungumáli. Ýtarleg skoðun virðist ekki hafa farið fram á tilboðinu af hálfu þeirra feðga, enda var símbréfið sent til baka til Fengs hf. að u.þ.b. klukkustund liðinni frá því að það barst til þeirra.
Í nafnritun og ritun upphafsstafa þeirra Kristjáns og Hjálmars á símbréfið felst ekki skýr og ótvíræð yfirlýsing um samþykki tilboðsins. Gegn neitun þeirra verður ekki talið að nafnritun þeirra hafi jafngilt samþykki þeirra á tilboðinu, og er ekki fram komin í málinu sönnun þess að stefnandi hafi mátt ætla að svo væri. Með nafnritununum komst því ekki á samningur milli aðilja máls um kaup og sölu á Eldborg SH-22. Verður því stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 þykir dómara rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, K. G. hf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Norberg A/S, í máli þessu.
Hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.