Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Fimmtudaginn 16. maí 2013. |
|
Nr. 307/2013.
|
Jörgen Þór Þráinsson (sjálfur) gegn Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi. Dómarar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J um að dómari málsins viki sæti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að víkja sæti í málinu.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jörgen Þór Þráinsson, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2013.
Stefndi hefur krafist þess að dómari víki sæti. Krafan er ekki reist á sérstökum tölulið í 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem hefur að geyma reglur um sérstakt hæfi dómara til að fara með mál hverju sinni. Af skriflegri beiðni stefnda um að dómari víki sæti, sem hann hefur vísað í til rökstuðnings kröfunni, má þó ætla að hann telji að fyrir hendi séu önnur atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, sbr. reglu g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Í beiðninni kemur m.a. fram að stefndi hafi verið ósáttur við nokkra þætti í réttarhöldum, þ. á m. að bókun hafi verið hafnað, annað dómsmál hafi ruglast saman við þetta, málið hafi tekið óvænta stefnu þegar stefndi hafi séð myndir af húsi merktu Íslandsbanka, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafi hafnað því að fjarlægja tvær myndi af göngum í húsi dómsins og einnig að þetta hefði áhrif á framgang dómara og dómstólsins í málinu. Steininn hafi tekið úr þegar dómari hafi íhugað að svipta stefnda lögvörðum rétti til að verja sig sjálfur. Stefndi spyr hvort geti verið að dómari sé undir einhverjum óeðlilegum þrýstingi, hugsanlega frá lögmannafélaginu sem sé í sama húnsæði, Íslandsbanka, yfirvöldum eða dómskerfinu um að keyra þurfi mál í gegn sama hvað segir. Stefndi spyr hvort dómari hafi áhyggjur af einhverju utan dómsals. Hvort verið geti að aðilar séu í viðskiptum við stefnanda eða einhverjir sem taki ákvarðanir við dóminn, s.s. dómstjóri. Séu einhver tengsl eða þrýstingur settur á dómara sé mikilvægt að hann víki sæti í málinu. Stefnda sé því nauðugur sá kostur að óska eftir að dómari víki þar sem hann geti ekki treyst á hlutlaust mat. Stefndi hafi fljótlega óskað eftir því að dómarinn bókaði að stefndi teldi að stefnandi hefði ekki reynt að semja um málið, heldur hefði málinu verið frestað án þess að raunverulegur sáttafundur hefði verið haldinn, í ljósi þess að dómari vilji ekki fresta málinu þrátt fyrir beiðni beggja aðila. Einnig að leiðbeiningarhlutverki dómara hafi verið áfátt sem og að málum hafi verið ruglað saman og að stefndi hafi orðið fyrir óeðlilegum þrýstingi við málflutning við frávísun málsins. Stefndi telji verulega hættu á að dómari hafi fyrir fram ákveðna skoðun og sé hún jafnvel búin að gera ráð fyrir öðrum málavöxtum. Stefndi sé einungis að fara fram á að réttarhöld séu sanngjörn og umfram allt heiðarleg og með því að fara fram á að dómari víki sæti sé verið að óska eftir mati dómara á því hvort það sé eitthvað sem hefur haft áhrif á þessi réttarhöld.
Framangreindar hugleiðingar stefnda um að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómarans í efa eiga við engin rök að styðjast. Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er því hafnað.
Úrskurðinn kveður upp Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er hafnað.