Hæstiréttur íslands
Mál nr. 390/2005
Lykilorð
- Rangar sakargiftir
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Hraðakstur
- Skilorð
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 390/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Karli Lilliendahl Viggóssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Rangar sakargiftir. Ölvunarakstur. Réttindaleysi við akstur. Hraðakstur. Skilorð. Hegningarauki.
K var fundinn sekur um að hafa ekið bifreið á 159 km/klst, þar sem leyfilegur hámarkshraði var 90 km/klst, ölvaður og sviptur ökurétti. Jafnframt var hann fundinn sekur um rangar sakargiftir með því að hafa gefið lögreglu upp nafn og kennitölu annars manns og þannig komið því til leiðar að sá maður varð ákærður fyrir umrædd brot. Var K dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en 30 daga skilorðsdómur var dæmdur með. Fyrir Hæstarétt voru lögð gögn um að hagir K hafi breyst mjög til hins betra frá því sem áður var, en K var ungur að árum er hann framdi brot sín. Þótti því mega skilorðsbinda dóminn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. ágúst 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um að hafa sunnudaginn 15. júní 2003 ekið bifreið ölvaður og sviptur ökurétti norður þjóðveg 1, Norðurlandsveg, á móts við Æsustaði í Austur-Húnavatnssýslu á 159 km/klst., þar sem leyfilegur hámarkshraði var 90 km/klst. Jafnframt var hann fundinn sekur um rangar sakargiftir með því að hafa gefið lögreglu upp nafn og kennitölu annars manns og þannig komið því til leiðar að sá maður var ákærður fyrir þau umferðarlagabrot sem að framan greinir. Brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin áður en dómur 7. ágúst 2003 var kveðinn upp. Var því ekki um rof á skilorði að ræða heldur hegningarauka. Sakarferill ákærða er að öðru leyti réttilega rakinn í héraðsdómi. Verður skilorð áðurnefnds dóms tekið upp og ákærða ákvörðuð refsing í einu lagi fyrir það brot sem þar var fjallað um og þau sem hér eru til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. og 78. gr. sömu laga. Auk framanritaðs og þeirra atriða sem tilgreind eru í 148. gr. almennra hegningarlaga verður við ákvörðun refsingar ákærða einkum litið til þess að hann hefur áður verið sakfelldur fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur eftir að hann náði 18 ára aldri. Er ákærði nú fundinn sekur um mjög vítaverðan akstur, auk þess að hafa uppi rangar sakargiftir varðandi þann akstur og játaði hann brot sín ekki fyrr en við þingfestingu málsins. Hins vegar ber að líta til þess að ákærði var einungis 18 ára gamall er hann framdi brot sín. Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Eins og áður segir var ákærði ungur að árum er hann framdi brot sín og hafa verið lögð fyrir Hæstarétt gögn um að hagir hans hafi breyst mjög til hins betra frá því sem áður var. Þykir því mega binda refsingu ákærða almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Af hálfu ákæruvalds er ekki krafist frekari sviptingar ökuréttar en ákærða var gerð í héraði og verður hún því staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Karl Lilliendahl Viggósson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 590.475 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 74.700 krónur, og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknar 18. apríl 2005 á hendur Karli Lilliendahl Viggóssyni, kennitala 030784-3329, Kóngsbakka 16, Reykjavík.
1.
Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa sunnudaginn 15. júní 2003, um kl. 12:09, ekið bifreiðinni DB-387 undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,63%) og sviptur ökurétti, norður þjóðveg 1, Norðurlandsveg, á móts við Æsustaði í Austur-Húnavatnssýslu, á hraðanum 159 km/klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði var 90 km/klst. uns lögregla stöðvaði akstur hans í nágrenni við ofangreindan stað.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
2.
Fyrir rangar sakargiftir með því að hafa, er lögregla hafði afskipti af akstri ákærða í því tilviki sem lýst er í 1. tölulið, gefið upp nafn og kennitölu A, kennitala [...], sem ökumanns bifreiðarinnar og ritað nafn hans undir form sem lögreglumenn fylltu út á vettvangi og undir lögregluskýrslu þar sem A var sakaður um framangreindan ölvunar- og hraðakstur og einnig undir upplýsingablað fyrir handtekna menn og þannig komið því til leiðar að A var, með ákæru lögreglustjórans á Blönduósi, útgefinni 19. nóvember 2003, ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. 48. gr. og 1. og 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Var málið þingfest í Héraðsdómi Norðurlands vestra 3. desember 2003.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar á ökurétti sbr. 1. mgr. 2. mgr. og 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.
Verjandi ákærða krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Sunnudaginn 15. júní 2003 kl. 12.09 stöðvaði lögreglan á Blönduósi akstur bifreiðarinnar DB-387 á Norðurlandsvegi á móts við Æsustaði í Austur-Húnavatnssýslu. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að hraði bifreiðarinnar hafi mælst með radar í lögreglubifreiðinni 163 km. m.v. klst. Akstur bifreiðarinnar hafi verið stöðvaður og tal haft af ökumanni. Er skráð að ökumaður, A, hafi komið yfir í lögreglubifreiðina og viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni á þessum hraða. Hafi hann framvísað útrunnu ökuskírteini. Þar sem megna áfengislykt hafi lagt frá honum hafi honum verið gert að gefa öndunarsýni. Þar sem öndunarsýnið hafi gefið til kynna að áfengismagn í blóði ökumanns væri yfir leyfilegum mörkum hafi A verið færður á lögreglustöð þar sem læknir hafi tekið honum blóðsýni. Að lokinni töku blóðsýnis hafi A verið frjáls ferða sinna. Á lögreglustöð var tekin framburðarskýrsla af ökumanni. Í skýrslunni viðurkennir ökumaður bifreiðarinnar DB-387 að hafa ekið bifreiðinni yfir leyfilegum hámarkshraða. Er hann var beðinn um að skýra ástæðu þess að ökuskírteinið hafi verið runnið út bar hann því við að um væri að ræða ,,leti og reyndar nísku líka”. Undir skýrsluna er ritað nafnið A. Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfjafræðum frá 24. júní 2003 mældist 1.63 o/oo alkóhóls í blóði ökumanns bifreiðarinnar DB-387.
Lögreglustjórinn á Blönduósi gaf 19. nóvember 2003 út ákæru á hendur A, [...] í Reykjavík. Var honum gefinn að sök akstur undir áhrifum áfengis, yfir leyfilegum hámarkshraða og án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Norðurlands Eystra 3. desember 2003 var þann dag tekið fyrir mál ákæruvaldsins gegn A. Að ósk ákærða var honum skipaður verjandi í málinu. Í þinghaldinu neitaði ákærði sök. Bar hann því við að annar maður hefði ekið bifreiðinni greint sinn en sá hafi villt á sér heimildir og gefið upp nafn ákærða og framvísað ökuskírteini hans er lögregla hafi haft afskipti af akstri hans. Bar ákærði því við að veski hans hafi verið stolið. Lagði hann fram í réttinum tilkynningu um glatað kort og viðveruskrá veitingastaðarins Caruso. Fært er til bókar að samkomulag hafi orðið með sækjanda og verjanda um að blóðsýni yrði tekið úr ákærða og það borið saman við blóðsýni úr ökumanni bifreiðarinnar DB-387. Var málinu í kjölfarið frestað og blóðsýni send Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði til DNA-rannsóknar. Gunnlaugur Geirsson prófessor hefur 12. febrúar 2004 ritað álitsgerð um blóðsýni þau er tekin voru til rannsóknar. Voru blóðsýnin send til Rettsmedisinsk Institutt í Osló í Noregi til rannsóknar. Er það niðurstaða úr þeirri rannsókn að blóðsýni úr ákærða A og ökumanni bifreiðarinnar DB-387 hafi ekki stafað frá sama manni.
Miðvikudaginn 24. mars 2004 var B boðaður á lögreglustöðina á Blönduósi, en hann var skráður eigandi bifreiðarinnar DB-387 15. júní 2003. Gerði hann þá grein fyrir atvikum 15. júní að hann hafi verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 15. júní. Undir morgun hafi hann hitt þrjá pilta og þeir tekið tal saman. Það hafi leitt til þess að þeir hafi ákveðið að ,,skella sér“ til Akureyrar. B hafi verið með bifreið sína í miðbænum en þar sem hann hafi verið að drekka áfengi um nóttina hafi hann ekki getað ekið bifreiðinni. Einn drengjanna hafi lýst yfir að hann gæti ekið bifreiðinni þar sem hann væri ,,edrú“. Með það hafi þeir ekið áleiðis norður. Kvaðst B ekkert hafa þekkt piltana og ekki þekkja þá á þeirri stundu er hann gaf skýrslu hjá lögreglu með öðrum hætti en að þeir hafi kallað sig ,,X, Y og Z“. X hafi ekið bifreiðinni. Eftir afskipti lögreglunnar á Blönduósi af akstri X hafi aksturinn endað á Akureyri. Þar hafi verið staldrað stutt við og síðan ekið aftur til Reykjavíkur. Eftir skýrslutökuna var blóðsýni tekið úr B til rannsóknar vegna málsins og það sent Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði til DNA-rannsóknar. Gunnlaugur Geirsson prófessor hefur 21. júní 2004 ritað álitsgerð um blóðsýni þau er tekin voru til rannsóknar. Voru blóðsýnin send til Rettsmedisinsk Institutt í Osló í Noregi til rannsóknar. Er það niðurstaða úr þeirri rannsókn að blóðsýni úr Róbert og ökumanni bifreiðarinnar DB-387 hafi ekki stafað frá sama manni.
Þriðjudaginn 7. september 2004 var A enn boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu. Var hann á ný inntur eftir því hver hafi getað framvísað ökuskírteini hans 15. júní 2003. Við það tilefni greindi hann frá því að hann hafi einhverju sinni verið í samkvæmi hjá vini sínum, Karli Lilliendahl og einhverju öðru fólki sem hann hafi ekkert kannast við. Nokkrir gestir úr samkvæminu hafi farið í bifreið sem Karl hafi ekið út á körfuboltavöll og kvaðst A telja að hann hafi tapað veskinu sínu í bifreiðinni hjá Karli. Kvaðst A hafa rætt þetta við Karl og beðið hann um að leita í bifreiðinni. Hafi Karl fundið veskið en í það hafi vantað debetkort og ökuskírteinið. Í bifreiðinni hafi verið tveir piltar og ein stúlka. Fimmtudaginn 16. september 2004 var skýrsla tekin af ákærða. Var hann í upphafi skýrslutökunnar spurður að því hvort hann hafi ekið bifreiðinni DB-387 sunnudaginn 15. júní 2003. Kvaðst ákærði ekki hafa verið ökumaður bifreiðarinnar. Er lögregla leitaði eftir samþykki hans fyrir að taka honum blóðsýni til rannsóknar í þágu málsins kvaðst hann vilja ræða við lögmann áður en málið yrði rannsakað frekar. Fimmtudaginn 14. október 2004 var ákærði á ný boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu. Kvaðst hann aðspurður ekki vilja tjá sig um þá spurningu lögreglu hvort hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar DB-387 greint sinn. Hann kvaðst heimila lögreglu að tekið yrði úr honum blóðsýni í þágu rannsóknar málsins. Blóðsýni úr ákærða var sent Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði til DNA-rannsóknar. Gunnlaugur Geirsson prófessor hefur 11. janúar 2005 enn ritað álitsgerð um blóðsýni þau er tekin voru til rannsóknar. Voru blóðsýnin send til Rettsmedisinsk Institutt í Osló í Noregi til rannsóknar. Er það niðurstaða úr þeirri rannsókn að blóðsýni úr ákærða og ökumanni bifreiðarinnar DB-387 hafi stafað frá sama manni.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði játa að hafa ekið bifreiðinni DB-387 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti norður þjóðveg nr. 1 á móts við Æsustaði í Austur-Húnavatnssýslu sunnudaginn 15. júní 2003. Kvaðst hann viðurkenna að hafa ekið bifreiðinni á 159 km. hraða m.v.klst. þar sem leyfilegur hámarkshraði hafi verið 90 km/klst., allt þar til lögregla hafi stöðvað akstur hans. Kvaðst hann hafa drukkið þessa nótt en lögregla hafi stöðvað akstur hans um hádegi næsta dag og þá verið liðnar 6 til 7 klukkustundir frá því hann hafi drukkið áfengi. Kvaðst hann hafa verið færður á lögreglustöð þar sem tekið hafi verið úr honum blóð til mælinga á áfengi. Í ,,hræðslu“ hafi hann sýnt ökuskírteini A og gefið upp nafn hans og kennitölu sem ökumanns bifreiðarinnar og ritað nafn hans undir form sem lögreglumenn hafi fyllt út á vettvangi, sem og undir lögregluskýrslu þar sem A hafi verið sakaður um ölvunar- og hraðakstur. Einnig hafi ákærði ritað nafn A undir upplýsingablað fyrir handtekna menn það sinnið. Kvaðst ákærði viðurkenna að með þessu hafi hann komið því til leiðar að A hafi með ákæru lögreglustjórans á Blönduósi verið ákærður fyrir hraðakstur, ölvunarakstur og akstur án ökuskírteinis. Kvaðst hann í raun ekki hafa skýringu á því af hverju hann hafi gripið til þessa ráðs eða velt fyrir sér afleiðingum gerða sinna.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt og er sannað er með játningu hans og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í júlí 1984. Gekkst hann undir viðurlagaákvörðun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur 20. nóvember 2002 fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra 7. febrúar 2003 fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá var hann með dómi héraðsdóms 7. ágúst 2003 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Loks gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra 9. júní 2004 fyrir hraðakstur. Með brotum sínum í þessu máli hefur ákærði rofið skilorð refsidómsins frá 7. ágúst 2003. Ber nú að taka skilorðsdóminn upp og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi fyrir það brot og þau sem hér eru til meðferðar eftir 60. gr., sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða í þessu máli eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir rangar sakargiftir með því að koma því til leiðar að annar maður yrði ákærður fyrir að hafa ekið bifreiðinni DB-387. Með framferði sínu stofnaði hann til umfangsmikillar lögreglurannsóknar sem leiddi m.a. til þess að Avar borinn röngum sökum og B var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu sem vitni í aðgerðum lögreglu við að hafa upp á ökumanni bifreiðarinnar DB-387. Hélt ákærði til streitu synjun á að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar og játaði ekki brot sitt fyrr en DNA-rannsókn staðfesti að blóðsýni úr ökumanni bifreiðarinnar væri úr ákærða. Með hliðsjón af þessu öllu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Í ljósi skilorðsrofa ákærða og sakarefnis máls þessa þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Ekki eru efni til að gera ákærða fjársekt samhliða fangelsisrefsingu þar sem ákærði hefur ekki aflað sér fjárvinnings með broti sínu.
Með vísan til 1., 2. og 4. mgr. 102 gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 skal ákærði sviptur ökurétti, sem telst hæfileg vera í 3 ár og miðast við birtingu dómsins.
Verulegan sakarkostnað hefur leitt af málinu. Kostnaður vegna blóðsýnatöku og DNA-rannsókna nemur alls 161.355 krónum og kemur hann fram á sakarkostnaðaryfirliti lögreglustjórans á Blönduósi 17. mars 2005. Allan þann sakarkostnað verður ákærði dæmdur til að greiða, en um er að ræða óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar og meðferðar málsins, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá leiddi ákæra lögreglustjórans á Blönduósi á hendur A til sakarkostnaðar að fjárhæð 121.622 krónur, er fram kemur á sakarkostnaðaryfirliti Héraðsdóms Norðurlands Eystra 6. júní 2005. Er um að ræða málsvarnarþóknun og aksturskostnað fyrir verjanda A og kostnað við ferð A á Blönduós 3. desember 2003 er ákæra var þingfest í héraðsdómi. Loks ber yfirlitið með sér kostnað vegna blóðrannsóknar að heildarfjárhæð 16.800 krónur. Gögn málsins bera með sér að um sé að ræða kostnað við töku blóðsýnis og beiðni um alkóhólrannsókn. Ekki verður annað séð en að sá kostnaður sé einnig á sakarkostnaðaryfirliti lögreglustjóra frá 17. mars. Kemur hann því til frádráttar hér og verður heildarfjárhæð sakarkostnaðaryfirlits héraðsdóms þá 104.822 krónur. Allan þennan sakarkostnað verður ákærði dæmdur til að greiða, en hér er einnig um að ræða óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar og meðferðar málsins, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991. Samanlagt nemur þessi sakarkostnaður því 266.177 krónum. Ákærði verður dæmdur til að greiða þennan sakarkostnað, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Karl Lilliendahl Viggósson, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði skal sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins.
Ákærði greiði 266.177 krónur í sakarkostnað, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.