Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-138

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Verði tryggingum hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 24. apríl 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 11. sama mánaðar í málinu nr. 189/2019: A gegn Verði tryggingum hf., á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörður tryggingar hf. taka ekki afstöðu til beiðninnar.

Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu leyfisbeiðanda um dómkvaðningu matsmanna. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni, er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um atriði varðandi matsgerðir. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.