Hæstiréttur íslands
Mál nr. 691/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 20. nóvember 2012. |
|
Nr. 691/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður
héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta
dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I.
Jónsson.
Varnaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2012, sem barst réttinum
ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms
Reykjaness 16. nóvember 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta
gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. nóvember klukkan 16 og einangrun meðan
á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður
verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verður markaður skemmri
tími.
Sóknaraðili
krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur.
Með vísan
til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði
úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness
föstudaginn 16. nóvember 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að
X, kt. [...], verði
með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt
til föstudagsins 23. nóvember 2011, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum
verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð með kröfunni segir að ávana- og fíkniefnadeild
lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar mál er varði
stórfelldan innflutning fíkniefna hingað til lands. Málið hafi verið rannsakað
í samstarfi við lögregluna í Danmörku.
Í greinargerðinni kemur fram að maður að nafni A hafi sætt
rannsókn lögreglu en hann sé grunaður um að hafa ásamt öðrum staðið að
skipulagningu innflutnings fíkniefna hingað til lands. Rannsókn lögreglu hér á
landi hafi leitt í ljós tengsl A við kærða X. Fram hafi komið við rannsóknina
að A og X hafi hist hér á landi í síðustu viku og náð í peninga. Þeir hafi
síðan farið út til Kaupmannahafnar föstudaginn 9. nóvember sl. og átt bókað far
heim í gær með sama flugi. Lögreglan hafi fengið upplýsingar um að þeir hafi
gist á sama hóteli í Kaupmannahöfn. Í gær hafi X verið handtekinn við komu
hingað til lands. A hafi verið handtekinn í Kaupmannahöfn í gær og við leit í
herbergi hans hafi fundist mikið magn fíkniefna, en X og A hafi deilt saman
herbergi á meðan þeir voru úti í Danmörku. A sé nú í haldi dönsku lögreglunnar.
Í tengslum við rannsókn málsins í Danmörku hafi lögreglan gert húsleit á fleiri
stöðum Kaupmannahöfn í gær og fundið þar umtalsvert magn fíkniefna.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað aðild að
málinu.
Í greinargerðinni segir að rannsókn lögreglu sé nú á
frumstigi en miði áfram og sé unnin í samstarfi við lögregluna í Danmörku.
Rannsaka þurfi þætti er snúi að skipulagningu og fjármögnun brotsins.
Nauðsynlegt sé að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga, vitni og
mögulega samseka sem kunni að tengjast málinu. Mikilvægt sé talið í þágu
rannsóknarinnar að unnt sé að bera upplýsingar undir kærða sjálfstætt á meðan
hann sætir gæsluvarðhaldi og að hann sæti einangrun á þessu stigi
rannsóknarinnar. Gangi kærði frjáls ferða sinna geti hann torveldað
rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem hafa sönnunargildi í málinu
eða haft áhrif á aðra samverkamenn.
Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að broti sem allt að
12 ára fangelsisrefsing sé lögð við. Um sé að ræða mikið magn fíkniefna sem
víst þyki að átt hafi að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Þyki þannig
brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að
kærði gangi laus.
Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að
lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra
gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess
krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins er fallist
á það með lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið
brot sem fangelsisrefsing liggur við. Fallist er á það með lögreglustjóra að
skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé
fullnægt. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og
nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Bragadóttir
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt
til föstudagsins 23. nóvember 2011, kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.