Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2004


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Haldlagning
  • Lögregla
  • Hreindýr
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 2004.

Nr. 234/2004.

Hafliði Hjarðar

(Logi Guðbrandsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Skaðabótamál. Haldlagning. Lögregla. Hreindýr. Sératkvæði.

Lögregla lagði hald á hreindýrakjöt, sem geymt var í skemmu á bænum S. Eftir haldlagninguna var kjötinu komið fyrir í frystigámi í skemmunni og gámurinn innsiglaður. Taldi lögregla að H, sem bjó á öðrum bæ, ætti hluta kjötsins og hefði hann skotið hreindýrin í óleyfi. Þegar lögregla vitjaði kjötsins nokkrum dögum síðar var það horfið. Ábúanda á bænum S var gerð refsing fyrir að hafa skotið tvö hreindýr í óleyfi, en fallið var frá kærumáli á hendur H vegna ólöglegra hreindýraveiða. Krafðist hann skaðabóta úr hendi ríkisins vegna kjötsins. Bótaábyrgð ríkisins varð ekki byggð á XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála, þar sem málshöfðunarfrestur samkvæmt þeim kafla var löngu liðinn. Talið var að vörslur þær sem hinu haldlagða kjöti voru búnar í skemmunni á bænum S hafi ekki hentað í þeim tilgangi og lögreglumönnum hafi mátt vera ljóst, að þær voru ekki tryggilegar eins og á stóð. Þá hafi átt að aflétta haldinu þegar H færði fram gögn um að hann væri réttilega að kjötinu kominn, og í síðasta lagi við niðurfellingu lögreglurannsóknar á hendur honum. Var bótaskylda ríkisins viðurkennd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 2004. Hann krefst þess „að bótaskylda stefnda á tjóni áfrýjanda verði viðurkennd. Verði bótaskylda stefnda viðurkennd krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda hæfilega fjárhæð upp í væntanlegar skaðabætur.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Í héraði krafðist áfrýjandi þess aðallega að stefndi greiddi honum skaðabætur að fjárhæð 282.976 krónur, en til vara að fjárhæð 246.000 krónur, með þar greindum ársvöxtum frá 11. september 2000 til 28. mars 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í þinghaldi 11. nóvember 2003 ákvað héraðsdómari að ósk lögmanns áfrýjanda og með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að skipta sakarefni málsins og dæma fyrst um bótaskyldu stefnda. Við aðalflutning málsins að lokinni skýrslutöku var enn breytt kröfu áfrýjanda og þá krafist að auk þess að dæmt væri um bótaskyldu yrði samkvæmt 2. mgr. 31. gr. sömu laga kveðið á um hæfilega fjárhæð sem varnaraðila bæri þegar að greiða upp í væntanlegar bætur. Af hálfu stefnda var gerð athugasemd við þessa framsetningu dómkröfunnar. Gegn mótmælum stefnda var þessi framsetning kröfunnar of seint fram komin. Fyrir Hæstarétti verður ekki fjallað um aðrar kröfur en sem voru réttilega til meðferðar í héraðsdómi. Kemur sá hluti kröfu áfrýjanda, sem lýtur að ákvörðun bótafjárhæðar, því ekki frekar til álita í málinu.

II.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Kemur þar fram að tildrög málsins eru þau að 8. september 2000 lagði lögregla hald á nokkurt magn hreindýrakjöts, sem geymt var í skemmu á bænum Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, en áfrýjandi býr að Hjarðarhaga í sömu sveit. Að lokinni eftirgrennslan um eigendur að kjötinu taldi lögregla að áfrýjandi ætti hluta þess og hefði hann skotið hreindýrin í óleyfi. Var tekin af honum skýrsla af þessu tilefni 13. sama mánaðar. Áfrýjandi kvaðst þá hafa átt í skemmunni þrjá heila skrokka. Bóg gæti þó hafa vantað á einn skrokkinn. Lýsti hann síðan hvernig búið hafði verið um kjöt hans. Kvaðst hann hafa skotið þessi dýr ári fyrr og skilað inn kortum til hreindýraráðs vegna þeirra. Á kortunum sjáist hvar dýrin séu skotin og hvaða eftirlitsmaður hafi verið viðstaddur. Með bréfi sýslumannsins á Seyðisfirði 30. nóvember 2000 var fallið frá kærumáli á hendur áfrýjanda vegna ólöglegra hreindýraveiða vegna þess að það sem fram væri komið teldist ekki líklegt til sakfellis, eins og segir í bréfinu. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en lögreglan hafi talið áfrýjanda hafa gert fullnægjandi grein fyrir eign sinni á kjöti í skemmunni á Skjöldólfsstöðum og hvernig hann var að því kominn.

Í héraðsdómi er því lýst að lögreglan hafði eftir að hún lagði hald á kjötið komið því fyrir í frystigámi í skemmunni á Skjöldólfsstöðum og sett innsigli á gáminn. Kjötið hafði fyrir haldlagninguna verið til geymslu í þessari sömu skemmu en í öðrum og nýrri frystigámi, sem fjölskyldan á bænum mun hafa haft til heimilisnota. Heldur lögreglan því fram að þá hafi ekki verið kostur annarrar vörslu fyrir kjötið. Þegar lögregla vitjaði kjötsins 11. september 2000 var það horfið. Hvorki hefur tekist að upplýsa hver rauf innsiglið á gáminum né hver tók kjötið.

Áfrýjandi krafðist skaðabóta vegna þessa úr hendi stefnda 28. febrúar 2002. Því var hafnað og var mál þá höfðað. Ekki er deilt um lögmæti haldlagningarinnar en áfrýjandi reisir bótakröfuna hins vegar meðal annars á því að lögreglan hafi ekki búið kjötinu tryggilegar vörslur. Stefndi heldur því aftur á móti fram að kjötið hafi horfið af ástæðum sem lögreglunni verði ekki um kennt og engin orsakatengsl séu milli þess að kjötið var haldlagt og hvarfs þess.

III.

Samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrnast bótakröfur samkvæmt XXI. kafla laganna á 6 mánuðum frá ákvörðun um niðurfall rannsóknar eða ákæru eða uppkvaðningu dóms. Hæstaréttardómur í máli því sem leiddi af rannsókn lögreglu, sem um getur í málinu, var kveðinn upp 23. maí 2001 og lauk með því að Vilhjálmi Snædal bónda á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal var gerð refsing fyrir að hafa skotið tvö hreindýr í óleyfi, sbr. hæstaréttarmál nr. 127/2001. Var málarekstri þeim, sem hófst með haldlagningunni 8. september 2000, þá endanlega lokið. Þá var löngu orðið ljóst að lögreglurannsóknin myndi ekki leiða til ákæru á hendur áfrýjanda og hafði verið fallið frá öllum málarekstri gegn honum, svo sem að framan getur. Var það miklu fyrr en hann fór fram á bætur vegna haldlagningar kjötsins og var málshöfðunarfrestur 181. gr. laga nr. 19/1991 þá löngu liðinn.  Verður bótaábyrgð stefnda ekki byggð á XXI. kafla þeirra laga.

IV.

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 19/1991 ber að varðveita haldlagða muni með tryggilegum hætti. Í 82. gr. laganna er mælt fyrir um að aflétta skuli haldi þegar þess er ekki lengur þörf og verður við það að miða að gagnvart áfrýjanda hafi það verið í síðasta lagi við niðurfellingu lögreglurannsóknar á hendur honum 30. nóvember 2000. Vörslur þær sem haldlögðum munum voru búnar í skemmunni á Skjöldólfsstöðum gátu ekki talist henta í þeim tilgangi. Mátti lögreglumönnunum vera ljóst að þær voru ekki tryggilegar eins og á stóð. Ósannað er að ekki hafi mátt búa kjötinu tryggari gæslu. Álíta verður að hefði það verið flutt af staðnum og komið fyrir í tryggilegri geymslu hefði ekki komið til þess að það tapaðist. Verður að gefa lögreglumönnunum sök á því hvernig fór og viðurkenna þegar af þessari ástæðu bótaskyldu stefnda, sem ber húsbóndaábyrgð á störfum þeirra. Af gögnum málsins verður ráðið að kjötið hafi ekki verið verðmætt. Miða verður þó við að meta hafi mátt það til einhvers verðs, en áfrýjandi kveðst hafa ætlað það til einkaneyslu og vöruskipta. Að framan er því lýst að héraðsdómur á eftir að fjalla um fjárhæð bóta áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndi, íslenska ríkið, sé bótaskylt vegna tjóns áfrýjanda, Hafliða Hjarðar, sem hlaust af því að hreindýrakjöt, sem hann átti, hvarf úr vörslu lögreglu eftir að það hafði verið haldlagt.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 400.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Gunnlaugs Claessen

Ég er sammála því, sem greinir í I. kafla dóms meirihluta dómenda í málinu. Að öðru leyti tel ég að staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með skírskotun til forsendna hans, en að aðilarnir eigi að bera hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

         

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 19. janúar 2004.

Mál þetta sem dómtekið var 27. nóvember s.l. var höfðað 13. maí 2003.

Stefnandi er Hafliði Hjarðar, kt. 120556-5849, Hjarðarhaga, Norður-Héraði.

Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 282.976,00 en til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 246.000,00 í báðum tilfellum ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá 11. september 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi og til 28. mars 2002. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 frá 28. mars 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 er höfuðstól færist á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

Í þinghaldi 11. nóvember 2003 ákvað dómari að ósk lögmanns stefnanda og með heimild í 1. mgr. 31. gr. l. nr. 91/1991 að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst verði dæmt um bótaskyldu stefnda.

Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru að bótaskylda stefnda á tjóni stefnanda verði viðurkennd. Verði bótaskylda stefnda viðurkennd krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda hæfilega fjárhæð upp í væntanlegar skaðabætur. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur stefnda í þessum þætti málsins eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

 

I

Málavextir eru þeir að hinn 5. september 2000 barst lögreglunni á Egilsstöðum kæra vegna ætlaðra ólöglegra hreindýraveiða á Jökuldalsheiði. Rannsókn málsins leiddi til þess að grunur féll á Vilhjálm Snædal á Skjöldólfsstöðum. Með dómsúrskurði uppkveðnum föstudaginn 8. sama mánaðar var heimiluð húsleit á Skjöldólfsstöðum. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar kom hún að Skjöldólfsstöðum kl. 18:00 sama dag. Vilhjálmur var ekki heima en lögregla hitti fyrir Ástu Sigurðardóttur eiginkonu hans sem ekki kvaðst vita um hreindýr á bænum. Við leit fundust hins vegar þrír heilir hreindýraskrokkar auk nokkurra skrokkhluta og hausa. Var hreindýrakjötið allt nema 2 læri og einn hryggur í hvítum frystigámi í vélaskemmu á bænum en lærin og hryggurinn voru í gömlum frystigámi í skemmunni. Var hreindýrakjötið og hausarnir haldlagt af lögreglu. Þegar Ásta var ítrekað spurð um kjötið kvaðst hún ekkert geta sagt um málið og vísaði á eiginmann sinn. Hún kvaðst hins vegar geta fullyrt að a.m.k. kjötið í gamla gámnum væri frá því í fyrra. Þá kvað hún algengt að bændur í sveitinni fengju að geyma kjöt í frystigámum á bænum. Fékk lögreglan leyfi Ástu til að koma hinu haldlagða kjöti fyrir í gamla frystigámnum sem síðan var innsiglaður.

Meðan lögreglan var enn á Skjöldólfsstöðum kom stefnandi akandi að bænum ásamt Þorsteini Snædal, syni Vilhjálms og Ástu, sem þar býr. Kom Þorsteinn út úr bifreiðinni en stefnandi ók á brott áður en lögregla náði að hafa tal af honum. Upplýsti Þorsteinn að faðir hans hefði skotið tvö dýr í óleyfi fyrr um haustið. Hann kvaðst hins vegar ekki vita um hin þrjú dýrin en hann teldi þó að stefnandi gæti átt þau. Við skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst Þorsteinn ekkert vita um dýrin í gámnum annað en að faðir hans hefðu skotið tvö dýr um haustið. Hin dýrin kvað hann stefnanda eiga. Í gámnum hafi örugglega verið þrjú heil dýr og eitt hlutað og ætti faðir hans heilu dýrin.

Lögregla ákvað að fara heim til stefnanda til að fá um það upplýsingar hvort hann ætti einhver hreindýr á Skjöldólfsstöðum. Stefnandi vildi hins vegar ekkert við lögreglu tala þegar hún kom heim til hans og fengust því engar upplýsingar frá honum um hvort hann ætti eitthvað af hinu haldlagða kjöti. Heldur stefnandi því fram að lögregla hafi ekki spurt hann hvort hann ætti kjöt á Skjöldólfsstöðum. Valur Magnússon lögreglufulltrúi hefur hins vegar borið að stefnandi hafi neitað því að hann ætti þar kjöt.

Vilhjálmur Snædal viðurkenndi við skýrslutöku hjá lögreglu næsta dag að eiga tvo skrokka af hreindýrakjöti, einn heilan en annan hlutaðan. Annað kjöt kvað hann aðra eiga en neitaði að greina frá hverjir það væru.

Hinn 11. september þegar lögregla hugðist sækja hið haldlagða kjöt í gáminn kom í ljós að innsigli hans hafði verið rofið og allt kjötið horfið. Er innbrotið í gáminn óupplýst.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda 13. september 2000, kvaðst hann hafa átt slaklega þrjár heila skrokka af kúm en bóg gæti vantað á einn skrokkinn. Fyrir dómi kvaðst stefnandi hafa átt um það bil þrjá og hálfan skrokk af hreindýrakjöti.

Með bréfi dagsettu 28. febrúar 2002 fór stefnandi fram á skaðabætur fyrir kjötið  sem hann kveðst hafa átt í gámnum. Með bréfi ríkislögmanns dagsettu 9. apríl s.á. var bótaskyldu hafnað. Hinn 22. s.m. höfðaði stefnandi skaðabótamál fyrir Héraðsdómi Austurlands á hendur íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna kjötsins. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 4. desember 2002 var málinu vísað frá dómi vegna þess hve skaðabótakrafan var vanreifuð. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að dómurinn telji nægjanlega sannað að stefnandi hafi átt hreindýrakjöt í geymslu á bænum og að lögreglan hafi lagt hald á það. Þá kemur þar fram að í framhaldi af því að kæra á hendur stefnanda vegna ætlaðra ólöglegra hreindýraveiða hafi verið felld niður hefði átt að aflétta haldi af hreindýrakjöti stefnanda og afhenda honum það. Það hafi ekki verið gert  af ástæðum, sem raktar hafi verið, og sé það niðurstaða dómsins að á því beri stefndi ábyrgð og sé því bótaskyldur gagnvart stefnanda.

 

II

Stefnandi byggir aðallega á að úrskurður Héraðsdóms Austurlands frá 4. desember 2002 í máli nr. E-154/2002, þar sem úrskurðað hafi verið að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda, bindi hliðsettan dómstól.

Til vara byggir stefnandi á að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á því að haldlagðir munir glatist eða fari forgörðum með öðrum hætti, sbr. grunnregla 16. kapítula þjófabálks Jónsbókar 1281, um ábyrgð á láni. Byggir stefnandi á því að við haldlagningu færist umráð hins haldlagða munar yfir til opinberra aðila. Þótt haldlagning sé þvingunaraðgerð en ekki samningsgerð, eins og ákvæði Jónsbókar geri ráð fyrir, standi engin rök til þess að vægari ábyrgð gildi um það þegar haldlagður hlutur glatast hjá lögreglu en þegar maður lánar öðrum manni hlut af fúsum og frjálsum vilja og lántaki síðan glatar honum. Ekki sé gert ráð fyrir endurgjaldi fyrir afnotamissi hins haldlagða hlutar og sé haldlagning að því leyti sambærileg við lán til afnota enda standi skylda hins opinbera til að skila hinum haldlagða mun þegar ekki er þörf fyrir hann lengur í þágu rannsóknar opinbers máls, sbr. 82. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi beri húsbóndaábyrgð á mistökum lögreglumannanna, er hafi leitt til þess að hið haldlagða glataðist. Ekki sé um það deilt að réttlætanlegt hafi verið eins og á stóð að leggja hald á kjötið. Það hafi hins vegar ekki verið geymt með tryggilegum hætti eins og kveðið sé á um að gera skuli í 81. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Beri stefndi ábyrgð á þeirri saknæmu vanrækslu lögreglumannanna að hið haldlagða kjöt skuli ekki hafa verið geymt  í tryggri geymslu og það því tapast og beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. 

 

Stefndi byggir á að forsendur úrskurðar Héraðsdóms Austurlands frá 4. desember 2002 séu ekki bindandi, þegar af þeirri ástæðu að ekki sé um að ræða dóm þar sem um kröfur sé dæmt að efni til, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá byggir stefndi á að ekkert réttarsamband hafi stofnast á milli málsaðila á grundvelli 16. kafla þjófabálks Jónsbókar. Enginn samningur um geymslu á kjöti eða lán hafi stofnast gagnvart stefnanda. Því geti ákvæði 16. kafla þjófabálks ekki átt við.

Stefndi byggir einnig á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann hafi átt eitthvað af kjöti því, sem lögreglan lagði hald á í umrætt sinn. Bendir stefndi á að stefnandi hafi á frumstigum ekki kannast við að hafa átt kjöt í gáminum eða viljað aðstoða lögreglu við að upplýsa þar um. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram við hina fyrri málssókn nákvæmar upplýsingar um hreindýraveiðar sínar en geri það nú sökum þess að stefndi hafi aflað veiðiskýrslna í fyrra málinu. Af þessu sjáist að málatilbúnaður stefnanda sé tilviljanakenndur og ómarkviss. Ekki sé hann síður ómarkviss varðandi kjöt það sem málið snúist um en stefnandi hafi í fyrstu byggt hugmyndir um þyngd kjötsins og magn á óraunhæfum hugmyndum, en byggi nú á gögnum sem stefndi hafi aflað. Séu einnig af þeim sökum hverfandi líkur á að hann hafi átt kjötið. Verði hins vegar talið sannað að stefnandi hafi átt hluta þess kjöts sem var í gámnum þá byggir stefnandi á að tjón  sé ósannað.

Verði talið að til réttarsambands hafi stofnast um lán, sbr. 16. kafli þjófabálks Jónsbókar, byggir stefndi á að það hafi verið á milli eiganda kjötsins annars vegar og eiganda frystigámsins hins vegar. Því beri að sýkna stefndu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi mótmælir því að hafa með aðgerðum lögreglunnar yfirtekið skyldur samkvæmt lánssamningi, enda ekki um slíkan samning að ræða af hálfu stefnda. Þá sé á það að líta að ábyrgð samkvæmt Jónsbókarákvæðinu nái ekki til þess ef lánshlut er stolið.

Þá byggir stefndi á að ekki hafi verið um að ræða eiginlega haldlagningu sem þvingunaraðgerð gagnvart stefnanda þar sem hann hafi ekki upplýst að hann ætti kjöt á bænum við upphaf rannsóknar. Kjötið hafi verið geymt með tryggilegum hætti í gámi sem innsiglaður hafi verið með opinberu innsigli en rof á slíku innsigli varði refsingu. Ráðstöfun lögreglunnar hafi því verið eðlileg og á engan hátt saknæm eða ólögmæt. Hafi haldlagningin verið í fullu samræmi við 78. gr., sbr. að öðru leyti ákvæði X. kafla laga nr. 19/1991. Engri saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa af hálfu starfsmanna stefnda. Þó lögreglumenn hafi ekki haft tök á að koma kjötinu annars staðar í geymslu liggi fyrir að í raun hafi engin breyting orðið á geymslu þess önnur en sú að innsigli var sett á gáminn. Að þessu leyti felist alger mótsögn í málatilbúnaði stefnanda sem bæði byggi á því að hann hafi komið kjötinu í “afbragðs aðstöðu”, en jafnframt á því að vanræksla lögreglumannanna hafi verið að koma kjötinu ekki í tryggilega geymslu. Hafi kjötið verið eign stefnanda hafi það verið í þeirri geymslu sem stefnandi hafði sjálfur kosið besta og tryggasta. Aðgerðir lögreglumannanna geti því ekki hafa verið orsakavaldar gagnvart stefnanda eða að því var stolið. Skilyrði fébótareglna um orsakasamband séu því ekki fyrir hendi.

Kjötið hafi verið í forsvaranlegri vörslu. Lögreglunni hafi verið ókleift að skila því vegna þess að því var stolið. Þar sem engin orsakatengsl séu á milli haldlagningarinnar og þjófnaðarins sé ætlað tjón stefnanda því ekki sennileg afleiðing af haldlagningunni. Þá hafi ekki verið fyrirsjáanlegt að kjötinu yrði stolið og engin ástæða til að ætla að svo yrði. Þar sem ráðstöfun lögreglunnar sé ekki um að kenna að kjötinu var stolið þá sé þjófnaðurinn á því ekki á ábyrgð eða áhættu stefnda.

Þá byggir stefndi á því að reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu sérreglur, sem víki til hliðar reglum úr Jónsbók og almennum reglum.  Ljóst sé samkvæmt 181. gr. laganna að krafa stefnanda til bóta sé fyrnd þar eð meira en sex mánuðir liðu frá því að stefnanda var tilkynnt um niðurfall rannsóknar gagnvart honum þar til hann höfðaði málið 22. apríl 2002. Þá byggir stefndi einnig á að ekki séu uppfyllt skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt greindum ákvæðum, einkum 175. og 176. gr. laganna, enda hafi verið um lögmætar aðgerðir að ræða og fullt tilefni til þeirra.

 

III

Svo sem að framan er rakið höfðaði stefnandi upphaflega mál á hendur stefnda hinn 22. apríl 2002 til heimtu skaðabóta vegna haldlagðs hreindýrakjöts sem hann kveðst hafa átt og stolið var úr gámnum á Skjöldólfsstöðum í umrætt sinn. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði dómsins uppkveðnum 4. nóvember 2002 vegna þess hve skaðabótakrafa stefnanda var vanreifuð.

Úrskurðurinn frá 4. nóvember 2002 er úrskurður um formsatriði máls. Þrátt fyrir að í forsendum úrskurðarins sé fjallað um eignarhald stefnanda að hreindýrakjötinu og bótaskyldu stefnda hefur með honum ekki verið felldur bindandi dómur um bótaskyldu stefnda að efni til í skilningi 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Lögreglufulltrúinn Valur Magnússon hefur borið að stefnandi hafi hinn 8. september 2000 neitað að eiga hreindýrakjöt á Skjöldólfsstöðum. Stefnandi kveðst hins vegar ekki hafa verið spurður um það þá. Það var ekki fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglu 13. september 2000, eftir að hreindýrakjötinu hafði verið stolið úr gámnum, að stefnandi kvaðst hafa átt þar kjöt. Heldur stefnandi því fram að hann hafi átt þrjá og hálfan hreindýraskrokk.

Ásta Sigurðardóttir á Skjöldólfsstöðum greindi lögreglu frá því eftir að hreindýrakjöt fannst á bænum að algengt væri að bændur í sveitinni fengju að geyma þar kjöt. Þá kom fram hjá Þorsteini Snædal syni hennar að stefnandi ætti annað hreindýrakjöt en þá tvo skrokka sem Vilhjálmur Snædal faðir hans ætti. Vilhjálmur neitaði að upplýsa lögreglu um hver ætti annað kjöt en þá tvo skrokka sem hann kvaðst sjálfur eiga, en bar síðan fyrir dómi að stefnandi hafi átt það. Framanrakinn framburður heimilsfólks á Skjöldólfsstöðum þykir styrkja svo staðhæfingar stefnanda um að hann hafi átt þar hreindýrakjöt, sem haldlagt var af lögreglu, að telja verði það sannað. Þykir verða að leggja til grundvallar að stefnandi hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna þess að ekki reyndist unnt að afhenda honum kjötið þegar kæra á hendur honum hafði verið felld niður.

Reglan um ábyrgð lántaka á tjóni sem fram kemur í 16. kapítula þjófabálks Jónsbókar er algerlega hlutlæg og felur í sér ríkari ábyrgð en gildir á skyldum samningssviðum. Ákvæði um algerlega hlutlæga ábyrgð eru undantekning frá almennum skaðabótareglum og ber að túlka þröngt. Algerlega hlutlæg ábyrgð verður almennt ekki lögð á menn án beinnar heimildar í settum lögum. Eru því ekki skilyrði til að byggja bótaskyldu stefnda á grunnreglu þeirri sem stefnandi kveður felast í 16. kapítula þjófabálks Jónsbókar.

Þegar lögregla fann hreindýrakjötið við húsleitina á Skjöldólfsstöðum í umrætt sinn fengust ekki upplýsingar um hver ætti annað kjöt en þá tvo skrokka sem bóndinn á bænum átti. Taldi lögregla því mögulegt að hluti af kjötinu væri löglega fenginn. Lögregla tók ákvörðun um að haldleggja kjötið og er ekki ágreiningur um lögmæti haldlagningarinnar. Haldlagningin fór fram á föstudagskvöldi og lögregla kveðst ekki hafa haft aðgang að frystigeymslu. Gamli frystigámurinn sem lögregla fékk leyfi til geyma kjötið í var staðsettur í sömu skemmu og nýi gámurinn sem megnið af því fannst í. Kveður lögregla gamla gáminn, sem stóð í dyrum skemmunnar, hafa verið valinn sem geymslu fyrir kjötið vegna þess að betra hafi verið að loka honum og innsigla. Þá hafi nýi gámurinn greinilega verið frystigeymsla fjölskyldunnar. Í ljósi allra aðstæðna verður að telja að sú ráðstöfun lögreglunnar að koma kjötinu fyrir í frystigámnum á bænum hafi ekki verið óeðlileg og að lögregla hafi mátt ætla að opinbert innsigli tryggði að ekki yrði farið inn í gáminn og að kjötið væri því varðveitt með tryggilegum hætti. Saknæmri háttsemi lögreglunnar sem stefndi ber ábyrgð á verður því ekki um kennt að kjötið hvarf.

Það að ekki reyndist unnt að afhenda stefnanda hreindýrakjötið þykir samkvæmt framanröktu ekki verða rakið til atvika sem stefndi ber bótaábyrgð á, heldur ófyrirsjáanlegra atvika sem stefndi ber ekki ábyrgð á. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna anna dómara en endurflutningur málsins var talinn óþarfur.

 

Dómsorð:

Stefndi, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, er sýkn af kröfum stefnanda, Hafliða Hjarðar.

Málskostnaður fellur niður.