Hæstiréttur íslands

Mál nr. 792/2017

Ragnar Guðmundur Gunnarsson (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
Ríkisútvarpinu ohf. (Jón R. Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Túlkun samnings
  • Laun

Reifun

Ágreiningur aðila snérist um tengsl á milli kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnarsambands Íslands hins vegar og svonefnds fyrirtækjasamnings sem gerður var á grundvelli kjarasamningsins. R krafðist þess að eftir gildistöku kjarasamningsins ætti hann að fá greidd laun í samræmi við launataxta þess samnings. Í dómi Hæstaréttar kom fram að á því tímabili sem dómkrafa R tæki til hefði hann fengið greidd laun frá R ohf. eftir fyrirtækjasamningnum. Hefðu þau laun verið hærri en hæsti launataxti rafiðnaðarmanna án sveinsprófs samkvæmt kjarasamningi en R hefði borið þau laun eftir þeim samningi. Var því ekki fallist á það með R að laun hans hefðu verið lægri en lágmarkskjör eftir kjarasamningi þannig að fyrirtækjasamningurinn hefði farið í bága við 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var kröfu R hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 216.120 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Á því tímabili sem dómkrafa áfrýjanda tekur til fékk hann greidd laun frá stefnda eftir svonefndum fyrirtækjasamningi 1. apríl 2015 milli stefnda og þeirra starfsmanna hans sem áttu aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands, en sá samningur var gerður á grunni gildandi kjarasamnings. Þessi laun voru hærri en hæsti launataxti rafiðnaðarmanna án sveinsprófs samkvæmt kjarasamningi, en áfrýjanda hefði borið þau laun eftir þeim samningi. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að laun hans hafi verið lægri en lágmarkskjör eftir kjarasamningi þannig að fyrirtækjasamningurinn hafi farið í bága við 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor málsaðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.   

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 2. október sl., er höfðað 9. mars sl. af Ragnari Guðmundi Gunnarssyni, Hnjúkaseli 15, Reykjavík gegn Ríkisútvarpinu ohf., Efstaleiti 1, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 216.120 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 15.437 krónum frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 30.874 krónum frá 1. mars 2016 til 1. apríl 2016, af 46.311 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016, af 61.749 krónum frá 1. maí 2016 til 1. júní 2016, af 77.186 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 92.623 krónum frá 1. júlí 2016 til 1. ágúst 2016, af 108.060 krónum frá 1. ágúst 2016 til 1. september 2016, af 123.497 krónum frá 1. september 2016 til 1. október 2016, af 138.934 krónum frá 1. október 2016 til 1. nóvember 2016, af 154.371 krónu frá 1. nóvember 2016 til 1. desember 2016, af 169.809 krónum frá 1. desember 2016 til 1. janúar 2017, af 185.246 krónum frá 1. janúar 2017 til 1. febrúar 2017, af 200.683 krónum frá 1. febrúar 2017 til 1. mars 2017 og af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar. 

I.                     

Rafiðnaðarsamband Íslands hafði um skeið haft uppi kröfu um að gerður yrði sérkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins f.h. Ríkisútvarpsins ohf. og Rafiðnaðarsambandsins vegna félagsmanna sambandsins sem starfa hjá stefnda. Samtök atvinnulífsins höfðu hafnað þessari kröfu. Þann 20. janúar 2015 vísaði Rafiðnaðarsambandið deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins og stefnda um sérkjarasamning til ríkissáttasemjara. Haldnir voru 13 fundir um málið hjá ríkissáttasemjara. Á endanum var ákveðið að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins, sem störfuðu hjá stefnda, og stefndi gengju frá 5. kafla samnings, eða svokölluðum fyrirtækjasamningi, þar sem tekið var á ýmsum þeim kröfum sem komið höfðu fram í viðræðum Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins við samningaborð ríkis-sáttasemjara. Samningurinn var unninn af fulltrúum starfsmanna og stjórnendum stefnda og var undirritaður 15. apríl 2015, með gildistíma frá 1. sama mánaðar. Aðalkjarasamningur á milli Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga hins vegar, var síðan undirritaður 22. júní 2015. Stefnandi er starfsmaður stefnda og félagi í Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Í málinu er ágreiningur um tengsl á milli ofangreinds aðalkjarasamnings og fyrirtækjasamningsins. Í fyrirtækjasamningi voru búnar til launatöflur fyrir starfsmenn. Til viðbótar áttu laun að hækka í samræmi við almennar launahækkanir samkvæmt aðalkjarasamningi. Stefnandi telur að reikna eigi laun stefnanda eftir launatöflum aðalkjarasamnings eftir að hann tók gildi. Því er stefndi ósammála. Telur hann að reikna eigi stefnanda laun eftir launatöflum í fyrirtækjasamningnum.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dóminum. Þá gáfu skýrslur vitni sem voru í samninganefndum um framangreindan fyrirtækjaþátt kjarasamningsins.

II.

Stefnandi byggir á því að við gerð fyrirtækjasamnings í apríl 2015 hafi verið búin til tenging á milli launataxta fyrirtækjasamnings og almenna kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins/Samtaka rafverktaka og að sú tenging eigi að halda til framtíðar. Þó hafi launhækkun verið takmörkuð við 9,3% vorið 2015 í samræmi við bókun þess efnis. Stefnandi byggi á því að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Krafa rafiðnarmanna hjá stefnda, áður en fyrirtækjasamningur hafi verið gerður, hafi verið sú að gerður yrði sérkjarasamningur milli Rafiðnaðarsambands Íslands og stefnda en deilur um þessi mál hafi staðið allt frá því að stefndi hafi verið gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Starfsmenn hafi áður verið á kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs en eftir að stefndi færðist yfir á almennan markað hafi Samtök atvinnulífsins og stefndi talið að rafiðnaðarmenn hjá stefnda féllu undir almenna kjarasamninginn en starfsmenn talið þann kjarasamning ekki ná vel utan um störf sín. Fyrst og fremst hafi það verið vegna þess að störf tæknimanna hafi ekki verið skilgreind í almenna samningnum og lítið verið fjallað um vaktavinnu. Almenni samningurinn miði við að menn hafi sveinspróf, en tæknimenn hjá stefnda séu með fjölbreytta menntun og reynslu sem falli ekki endilega undir iðnnám sem ljúki með sveinsprófi. Í bókun við kjarasamningagerð árið 2013 hafi verið fjallað um að viðræður um sérstakan kjarasamning milli Rafiðnaðarsambandsins og stefnda færu fram. Í kröfugerð með almennum kjarasamningi árið 2015 hafi verið gerð krafa um að gerður yrði sérstakur kjarasamningur við starfsmenn stefnda. Eins og áður segi hafi ekki verið orðið við þeirri kröfu, en lagt upp með að gera fyrirtækjasamning byggðan á 5. kafla almenna kjarasamningsins í staðinn. Þegar þær viðræður hafi farið af stað hafi starfsmenn í samninganefnd lagt áherslu á þrjú atriði; að skilgreina vaktavinnu, að afmarka og skilgreina störf tæknimanna og að búa til tengingu í aðalkjarasamningi um launataxta. Viðræður hafi farið af stað og samningur verið undirritaður 15. apríl 2015.

Fyrirtækjasamningurinn sé nokkuð viðamikill af fyrirtækjasamningi að vera og taki á ýmsum atriðum. Í fylgiskjali I séu störf tæknimanna og lágmarkslaun skilgreind. Þar segi: ,,Launatafla fyrir „Tæknimann I“ tekur mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heitir „Rafiðnaðarmaður að loknu þriggja ára starfsnámi“, fyrir „Tæknimann II“ er tekið mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heitir „Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“ og fyrir „Tæknimann III“ er tekið mið af launaflokki sem heitir „Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“ með 8,03% álagi.“ Launatölurnar sem séu í fyrirtækjasamningnum séu teknar úr kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins/Samtaka rafverktaka frá 2014. Síðan sé kveðið á um starfsaldurshækkanir tæknimanna II og III. Fyrirtækjasamningurinn hafi eins og áður segi verið undirritaður áður en almennur kjarasamningur hafi verið undirritaður. Stjórnendur stefnda hafi haft töluverðar áhyggjur af því að umtalsverðar launahækkanir yrðu í almennum kjarasamningi og myndu því tæknimenn hjá stefnda hækka umtalsvert í launum tvisvar það ár, fyrst vegna fyrirtækjasamningsins og svo vegna almennra launahækkana. Þess vegna hafi verið undirrituð bókun, sem sé á fylgiskjali II. Á þeim tíma þegar fyrirtækjasamningur hafi verið gerður hafi verið útlit fyrir að kjarasamningur yrði gerður til skamms tíma, eins og komi fram í kröfugerð Rafiðnaðarsambandsins vegna almenna kjarasamningsins frá apríl 2014. Bókunin hljóði svo: ,,RÚV tryggir að félagsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV fái þá almennu hækkun sem umsemst í kjarasamningi RSÍ og SA/SART til viðbótar við þá launatöflu sem nú er til grundvallar. Verði hækkun sem umsemst í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun mun RÚV tryggja heildarhækkun upp á 9,3% hækkun að hámarki.“

Þegar laun hafi hækkað 1. maí 2015 hafi stefnandi þannig fengið 9,3% hækkun á launum en ekki fylgt töxtum kjarasamnings eða almennum launahækkunum, svokallaðri launaþróunartryggingu sem fjallað sé um í grein 1.2.1 a. í kjarasamningi og í fylgiskjali með kjarasamningi. Stefnandi fylgi taxta tæknimanna III eftir 7 ár. Laun hans hafi, eftir gerð fyrirtækjasamnings 2015, verið 318.401 krónur. Eftir að almennur kjarasamningur hafi verið gerður hafi laun hans hækkað um 9,3% og verið eftir það 348.012 krónur. Eftir launahækkun 1. janúar 2016 hafi laun hans numið 369.589 krónum. Laun hans hafi átt að vera 362.548 krónur frá 1. maí 2015 og 385.026 krónur frá 1. janúar 2016. Krafan sé gerð fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2017 og sé það vegna þess að launahækkun 1. maí 2015 hafi takmarkast af bókun í fyrirtækjasamningi þótt taxtar samkvæmt kjarasamningi hafi hækkað umfram 9,3% á þeim tímapunkti. Stefnandi byggi á því að samið hafi verið um að laun tæknimanna I og II skyldu fylgja töxtum aðalkjarasamnings og laun tæknimanna III fylgja launum sveina í kjarasamningi með 8,03% álagi. Launin skyldu taka starfsaldurshækkunum eftir því sem nánar greini í fyrirtækjasamningi, eða 2% hækkun eftir 3 ár og 1,5% hækkun eftir 5 ár og 7 ár. Stefnandi telji að það leiði af orðalagi fylgiskjals I, þar sem segi að laun tilgreindra tæknimanna taki mið af tilteknum launaflokkum í aðalkjarasamningi. Stefnandi telji það einnig styrkja sinn málflutning að kröfur félagsmanna hans hafi verið að gera tengingu á milli fyrirtækjasamnings og aðalkjarasamnings. Þá veki athygli að laun hafi hækkað um 9,3% þann 1. maí 2015, en ef laun hefðu aðeins átt að taka almennum hækkunum hefðu þau átt að hækka samkvæmt launaþróunartryggingu, eða á bilinu 3,2-7,2%. Því telji stefnandi augljóst að taxtar tæknimanna hafi átt að fylgja töxtum aðalkjarasamnings. Orðalag í fylgiskjali I með fyrirtækjasamningi og Bókun I í fylgiskjali II bendi til þess.

Krafa stefnanda sundurliðist á þann hátt að gerð sé krafa um 15.437 krónur vegna launamunar í janúar 2016 til febrúar 2017 eða í 14 mánuði, sem nemi samtals 216.120 krónum.

Stefnandi byggir á meginreglu um skuldbindingagildi samninga og skuldbindingagildi kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938. Stefnandi kveðst byggja mál sitt á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. Jafnframt á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, einkum 1. gr. Dráttavaxtakrafa byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.                   

                Stefndi kveðst krefjast sýknu þar sem stefndi hafi að fullu uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kjarasamningi og laun stefnanda hafi hækkað eins og kjarasamningur kveði á um. Í máli þessu sé deilt um túlkun á fylgiskjali I og fylgiskjali II með fyrirtækjaþætti kjarasamnings sem gerður hafi verið á milli stefnda og félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfi hjá stefnda. Fyrirtækjaþátturinn sé gerður samkvæmt heimild í 5. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins um fyrirtækjaþátt kjarasamninga en þar segi m.a. í grein 5.1 um markmið fyrirtækjaþáttar: ,,Markmið fyrirtækjaþáttar kjarasamnings er að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni.“  Í fyrirtækjaþætti starfsmanna og stefnda hafi verið samið um sérstaka launatöflu tæknimanna. Eins og fram komi í stefnu þá hafi félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins hjá stefnda talið að almennur kjarasamningur Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins næði ekki nægilega vel utan um störf og vinnufyrirkomulag tæknimanna. Til skýringar á þessu megi þess geta að ekki sé gerð krafa um hefðbundna iðnmenntun í þau störf sem hér um ræði enda sé menntun starfsmannanna fjölbreytt og falli ekki vel að þeim viðmiðum sem gerð séu í hefðbundnu iðnnámi sem ljúki með sveinsprófi og/eða meistaraprófi í iðngrein. Til að koma til móts við sjónarmið starfsmanna hafi stefndi fallist á að gera sérstakan fyrirtækjaþátt í kjarasamninginn þar sem tekið yrði á þessum þáttum sem og öðrum sem varði t.a.m. vinnufyrirkomulag og vinnutíma. Við gerð launatöflu fyrir tæknimenn hjá stefnda hafi verið horft til upphæða í almenna kjarasamningnum og þær hafðar til viðmiðunar að því er varði launaupphæðir. Að öðru leyti hafi verið búin til alveg ný launatafla fyrir störf tæknimanna hjá stefnda. Bil milli starfsaldursþrepa séu þar frábrugðin því sem samið sé um í aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins og auk þess séu starfsaldursþrepin frábrugðin þar sem í fyrirtækjaþætti sé samið um 3, 5 og 7 ára þrep fyrir tæknimann III en ekkert 7 ára þrep sé í aðalkjarasamningi.

Eins og áður hafi komið fram hafi fyrirtækjaþátturinn, sem hér um ræðir, verið að því leyti óvenjulegur að gengið hafi verið frá honum áður en samningar hafi náðst, milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins, um aðalkjarasamning. Í viðræðum Rafiðnaðarsambandsins við Samtök atvinnulífsins um aðalkjarasamning hafi sú krafa Rafiðnaðarsambandsins verið áberandi að færa ætti taxta nær greiddum launum með því móti að hækka taxta í kjarasamningum meira en væntanleg almenn hækkun yrði. Í ljósi þess hafi verið settur ákveðinn fyrirvari um hækkun á töxtum tæknimanna hjá stefnda í fyrirtækjaþættinum sem kæmi til framkvæmda eftir að samningar næðust á almennum markaði. Þannig hafi verið sett ákvæði í fylgiskjal með samningnum þess efnis að ef taxtar rafiðnaðarmanna hækkuðu meira en almennar launahækkanir kvæðu á um þá væru tæknimönnum tryggð hækkun umfram almenna launahækkun, en þó að hámarki 9,3%. Þetta sé orðað svo í fylgiskjalinu: ,,RÚV tryggir að félagsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV fái þá almennu hækkun sem umsemst í kjarasamningi RSÍ og SA/SART til viðbótar við þá launatöflu sem nú er til grundvallar. Verði hækkun sem umsemst í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun mun RÚV tryggja heildarhækkun upp á 9,3% hækkun að hámarki.“ Þetta ákvæði hafi verið sett inn í ljósi þeirrar stöðu sem áður sé lýst, þ.e. fyrir hafi legið að ákveðinn vilji hafi verið til þess í samningum 2015 að hækka taxta rafiðnaðarmanna umfram þá almennu hækkun sem um semdist í aðalkjarasamningi með það að markmiði að færa taxta nær greiddum launum. Útfærslan á þessu hafi verið með sérstökum hætti sem skýrð sé í 3. gr. undirritaðs kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sem og í bókun á bls. 9 í sama kjarasamningi aðila frá 22. júní 2015.

Jafnframt hafi verið ljóst að til framtíðar skyldi við það miðað að launataxtar tæknimanna hjá stefnda tækju þeim almennu hækkunum sem samið yrði um á vettvangi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Taxtar í fyrirtækjasamningi hafi því hækkað um 6,2% frá 1. janúar sl. eins og um hafi verið samið milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins 21. janúar 2016. Það hafi verið frá upphafi ljóst að bókun 1 á fylgiskjali II með fyrirtækjaþættinum hafi verið sett til að tryggja starfsmönnum viðbótarhækkun sem fyrirsjáanlegt hafi verið að samið yrði um milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins. Til framtíðar hafi síðan verið horft til þess að launataxtar tækju almennum hækkunum. Sú staðhæfing í stefnu að laun stefnanda hefðu átt að vera 362.548 krónur frá 1. maí 2015, en hækkunin þann 1. maí hafi takmarkast af bókun í fyrirtækjaþættinum, sé villandi. Í samningi stefnda og starfsmanna sem gegni störfum tæknimanna sé samið um sérstaka launatöflu fyrir þau störf sem um ræði. Þar séu þau laun sem stefnandi hefði átt að fá og hafi fengið. Um þetta sé samningurinn alveg skýr. Á það skuli bent að taxtar í aðalkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins miði við ákveðnar forsendur, sem séu menntun á sviði rafiðnaðar. Sá launaflokkur sem stefnandi telji að miða skuli laun sín við í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sé launaflokkur fyrir þá sem hafi tekið sveinspróf í iðninni og vinni starf þar sem þeirrar menntunar sé krafist. Launataxtar fyrirtækjaþáttarins hafi verið búnir til með það fyrir augum að koma til móts við þá staðreynd að ekki sé gerð krafa um að tæknimenn hjá stefnda hafi lokið sveinsprófi enda sé starfið annars eðlis en hefðbundið starf rafiðnaðarmanns. Af þessum sökum sé það alveg ljóst að ekki sé farið á svig við ákvæði laga og kjarasamninga um lágmarkskjör og sé þeirri málsástæðu í stefnu mótmælt. Krafa stefnanda sé sú að launataxti hans sé hærri en taxti fyrir rafiðnaðarmann með 5 ára sveinspróf og meistararéttindi í starfi sem krefjist ekki sveinsprófs og enn síður meistararéttinda í rafiðnum.

Samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins séu tveir launataxtar sem eigi við um þá sem ekki hafi lokið sveinsprófi í iðn sinni.

1. Rafiðnaðarmaður með viðurkennd starfsréttindi en uppfyllir ekki skilyrði um sveinspróf, skv. íslenskum reglum, eða að loknu þriggja ára starfsnámi.

2. Rafiðnaðarmaður að loknu tveggja ára fagnámi og getur unnið sjálfstætt.

Launataxtar tæknimanna hjá stefnda sem sinni störfum sem geri kröfu um fagmenntun af einhverju tagi séu í öllum tilfellum hærri í launatöflu fyrirtækjaþáttarins heldur en launataxtar í kjarasamningnum fyrir þá sem ekki hafi lokið sveinsprófi. Launaflokkur fyrir tæknimenn I hjá stefnda liggi á milli þessara ofangreindu taxta í aðalkjarasamningi en eins og skýrt komi fram í fyrirtækjaþætti þá eigi sá taxti einvörðungu við aðstoðar- og afleysingastörf og engin krafa sé um fagmenntun eða reynslu. Þó krafa stefnanda lúti að launasetningu fyrir Tæknimann III þá sé rétt að fram komi að launaflokkur fyrir Tæknimann I sé eingöngu notaður fyrir afleysingastarfsmenn sem ekki hafi neina reynslu eða fagmenntun. Í dag taki einn tímavinnustarfsmaður laun samkvæmt þeim flokki. Engin leið sé að skilja ákvæði fyrirtækjaþáttarins þannig  að 1. janúar 2016 ættu taxtar að breytast með þeim hætti að launataxtar fyrir tæknimenn hjá stefnda yrðu þá annarsvegar jafnir töxtum rafiðnaðarmanna í aðalkjarasamningi og hinsvegar 8,03% hærri en taxti rafiðnaðarsveins (að því er varðar taxta fyrir tæknimann III) þó svo að tölur í launataxta aðalkjarasamnings hafi verið nýttir til viðmiðunar þegar launataxtar í fyrirtækjaþætti voru ákvarðaðir um vorið 2015. Ekki sé heldur ljóst með hvaða hætti þessi breyting hafi átt að verða og sé krafan því óljós og vanreifuð að þessu leyti. Þannig sé allsendis óljóst hvort launabil milli starfsaldursflokka eigi þá einnig að breytast og verða það sama og í aðalkjarasamningi eða hvort að fella hafi átt út 7 ára þrep fyrir tæknimann III til samræmingar við aðalkjarasamning og bæta 1 árs starfsaldursþrepi við launatöflu fyrir tæknimann I. Launatöflur aðalkjarasamnings og fyrirtækjaþáttar séu ekki samræmanlegar þannig að hægt sé að stökkva á milli þeirra með þessum hætti. Eins og fram komi í stefnu sé bil milli starfsaldursþrepa í launaflokki stefnanda í fyrirtækjaþætti 2% eftir 3ja ára starfsaldur en 1,5% eftir 5 og 7 ára starfsaldur. Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambandsins sé bil milli starfsaldursþrepa í launaflokki rafiðnaðarsveins 1,6% milli byrjunarlauna og 1 árs starfsaldurs og milli 1 árs og 3ja ára starfsaldursþreps sé 1,7% bil. Milli 3ja og 5 ára þreps sé 3,2% bil milli flokka. Ekki sé 7 ára starfsaldursþrep í kjarasamningnum. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda í þessu máli væri því um það að ræða að lágmarkstaxti hans væri samkvæmt 5 ára þrepi í kjarasamningi sem myndi leiða til lækkunar á launataxta stefnanda. Laun samkvæmt 5 ára þrepi séu, frá 1. janúar 2016, 362.109 krónur en taxti stefnanda samkvæmt launataxta fyrirtækjaþáttar sé frá sama tíma 369.589 krónur fyrir tæknimann III. Kröfu stefnanda sé samkvæmt framansögðu alfarið hafnað.

Stefndi byggir á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Einnig er byggt á  kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 22. júní 2015 og kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og félaga við Samtök atvinnulífsins frá 21. janúar 2016. Ennfremur er til grundvallar fyrirtækjaþáttur kjarasamnings Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins milli Ríkisútvarpsins ohf. og starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem starfa hjá fyrirtækinu. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr.

                                                                       IV.

Aðilar málsins deila um tengsl á milli aðalkjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar, sem undirritaður var 22. júní 2015, og fyrirtækjasamnings sem gerður var á grundvelli aðalkjarasamningsins, sem stefndi og Rafiðnaðarsambandið undirrituðu 15. apríl 2015 og gildir frá 1. sama mánaðar. Stefnandi reisir mál sitt á því að eftir að aðalkjarasamningurinn tók gildi eigi stefnandi að fá greidd laun í samræmi við launataxta samkvæmt þeim samningi, á meðan stefndi byggir á því að um laun stefnanda fari eftir launatöxtum í fyrirtækjasamningnum, að viðbættum almennum launahækkunum samkvæmt aðalkjarasamningi. Snýst ágreiningur einkum um túlkun á fylgiskjölum I og II í fyrirtækjasamningnum, sem ætlað er að tengja saman aðalkjarasamning og fyrirtækjasamninginn.

Samkvæmt fylgiskjali I með fyrirtækjasamningnum er tæknimönnum úr hópi Rafiðnaðarsambandsins, sem sinna störfum hjá stefnda þar sem ekki er krafist iðnmenntunar, raðað í þrjá flokka. Um er að ræða tæknimann I, tæknimann II og tæknimann III. Er tekið fram að flokkunin sé unnin með hliðsjón af núverandi starfsemi stefnda. Fram kemur að launatafla fyrir tæknimann I taki mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heiti ,,Rafiðnaðarmaður að loknu þriggja ára starfsnámi“. Fyrir tæknimann II sé tekið mið af launaflokki í aðalkjarasamningi sem heiti ,,Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“. Fyrir tæknimann III sé tekið mið af launaflokki sem heiti ,,Rafiðnaðarsveinn byrjunarlaun“. 

Að því er tæknimann I varðar, sem skilgreindur er sem byrjandi í tæknistörfum, er um að ræða ein byrjunarlaun. Hvað tæknimann II varðar þá gildir sá flokkur um þá sem lokið hafa að lágmarki tveggja ára sérhæfðu fagnámi, að teknu tilliti til þekkingar og reynslu í faginu. Felur samningurinn í sér tilgreind byrjunarlaun, sem hækka eftir 1 ár, 3 ár og síðan 5 ár. Að því er tæknimann III varðar gildir sá flokkur um þá sem lokið hafa að lágmarki þriggja ára sérhærðu fagnámi sem nýtist í starfi, að teknu tilliti til þekkingar og reynslu í faginu. Til viðbótar er gerð krafa um sjálfstæði í starfi og fleiri þætti varðandi störf. Fyrir tæknimann III felur samningurinn í sér tilgreind byrjunarlaun, sem hækka eftir 3 ár, 5 ár og síðan 7 ár. Í bókun I á fylgiskjali II er tekið fram að stefndi tryggi að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins, sem starfi hjá stefnda, fái þá almennu hækkun sem um semjist í kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins til viðbótar við þá launatöflu sem nú sé til grundvallar. Verði hækkun sem um semjist í aðalkjarasamningi á byrjunarlaunum rafiðnaðarsveins hærri en almenn hækkun muni stefndi tryggja heildarhækkun upp á 9,3% að hámarki.

Fyrirtækjasamningurinn er gerður á grundvelli 5. kafla áðurgreinds aðalkjarasamnings. Samkvæmt ákvæði 5.1. í aðalkjarasamningi er markmið fyrirtækjaþáttar kjarasamnings að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni. Jafnframt er markmiðið að þróa kjarasamninga þannig að þeir nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings. Um heimil frávik frá aðalkjarasamningi er kveðið á um í ákvæði 5.5. Þar er meðal annars kveðið á um heimilt sé að færa hluta af yfirvinnuálagi í dagvinnugrunn. Einnig er heimilt að þróa afkastahvetjandi launakerfi án formlegra vinnurannsókna þar sem það þyki henta. 

Af ákvæðum 5. kafla aðalkjarasamnings, sem gildir um fyrirtækjasamninginn, verður ráðið að vinnuveitanda og launþegum á vinnustað er heimilt að semja með nákvæmum hætti um kjör á vinnustað, sem mið taka af sérstöðu vinnustaðarins. Fyrirtækjasamningur á milli stefnda og starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem starfa hjá stefnda er ítarlegur, en hann er í 13. liðum og telur alls 19 blaðsíður. Eru þá ekki taldir þeir viðaukar er áður greinir. Af samningi þessum og viðaukum við hann verður ráðið að ætlun stefnda og fulltrúa starfsmanna Rafiðnaðarsambandsins hafi meðal annars verið að semja um sérstaka launatöflu er tók til starfsmanna stefnda, með gildistíma frá 1. apríl 2015. Við hana áttu síðan, samkvæmt fylgiskjölum, að bætast þær almennu hækkanir sem um semdist í aðalkjarasamningi. Er enginn fyrirvari í fyrirtækjasamningnum eða fylgiskjölum með honum í þá veruna að launatöflur samkvæmt samningnum falli úr gildi við gildistöku aðalkjarasamnings. Fer það gegn ákvæðum þessa samnings og tilgangi með honum, að víkja frá honum með þeim hætti er stefnandi krefst. Hefur stefndi við útreikning launa stefnanda bætt stefnanda þær almennu hækkanir sem aðalkjarasamningur kveður á um. Með vísan til þessa verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.      

Mál þetta er rekið sem prófmál um gildi fyrirtækjasamningsins sem ágreiningur er um. Í því ljósi þykir rétt að hvor aðili beri kostnað af sínum þætti málsins. 

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Ólafur Karl Eyjólfsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Kristín Þóra Harðardóttir héraðsdómslögmaður.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Ríkisútvarpið ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ragnars Guðmundar Gunnarssonar. 

Málskostnaður fellur niður.