Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-195
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsaleiga
- Leigusamningur
- Riftun
- Málsástæða
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 12. júlí 2021 leitar Útlendingastofnun leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. júní sama ár í málinu nr. 170/2020: Teiknir ehf. gegn Útlendingastofnun og Útlendingastofnun gegn Riverside ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili, Teiknir ehf., leggst gegn beiðninni. Gagnaðili, Riverside ehf., lét málið ekki til sín taka fyrir Landsrétti.
3. Leyfisbeiðandi og Riverside ehf. gerðu með sér leigusamning í júní 2017 til eins árs um fasteign og hugðist leyfisbeiðandi reka þar gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Afhending fasteignarinnar samkvæmt samningnum dróst sökum þess að tilskilinna leyfa hafði ekki verið aflað svo að hægt væri að reka þar gistiskýli. Afhending fór fram í byrjun nóvember 2017 en 24. sama mánaðar fékk hópur eigenda einstakra matshluta í sömu fasteign lagt lögbann við því að leyfisbeiðandi starfrækti gistiskýlið og var mál til staðfestingar lögbanninu þingfest 12. desember sama ár. Leyfisbeiðandi lýsti yfir riftun leigusamningsins 5. febrúar 2018 en með bréfi 12. sama mánaðar hafnaði Riverside ehf. riftuninni. Sá síðarnefndi höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda til heimtu leigugreiðslna samkvæmt samningnum en leyfisbeiðandi höfðaði gagnsök og krafðist viðurkenningar á heimild til riftunar samningsins, endurgreiðslu á þegar greiddri leigu og greiðslu á fjárhæð sem nam helmingi málskostnaðar sem honum og Riverside ehf. var gert að greiða gagnaðilum í lögbannsmálinu. Riverside ehf. féllst á síðastnefndu kröfuna í greinargerð sinni í gagnsök í héraði og var hún því tekin til greina á báðum dómstigum.
4. Héraðsdómur vísaði til þess að sökum andstöðu eigenda annarra matshluta að umræddri fasteign hefði leyfisbeiðandi aldrei getað nýtt sér eignina undir starfsemi sína. Samningurinn hefði ekki komist til framkvæmda að öllu leyti og því hefði ekki verið þörf á sérstakri riftun hans. Kröfum leyfisbeiðanda í gagnsök var jafnframt hafnað. Landsréttur tók kröfur Riverside ehf. á hinn bóginn til greina og dæmdi leyfisbeiðanda til greiðslu 26.614.580 króna ásamt vöxtum. Landsréttur vísaði til þess að leigusamningur aðila hefði tekið gildi samkvæmt efni sínu. Fallist var á að skilyrði 5. töluliðar 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 fyrir riftun hefðu verið uppfyllt þar sem réttur leyfisbeiðanda sem leigjanda hefði verið verulega skertur vegna opinberra fyrirmæla í síðasta lagi frá þeim tíma sem réttarstefna um fyrrnefnt lögbann hefði verið gefin út 30. nóvember 2017. Hins vegar hefði riftunaryfirlýsing leyfisbeiðanda ekki komið fram innan átta vikna frests samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins og hefði hann því ekki rift samningnum með löglegum hætti. Var leyfisbeiðanda því gert að greiða gagnaðila, sem hafði fengið kröfu Riverside ehf. framselda, fjárhæð sem samsvaraði umsaminni leigu fyrir tímabilið frá 1. febrúar 2018 til 30. júní sama ár.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að formi til og efni. Þá kunni þau atriði sem á reyni við úrlausn málsins að hafa verulegt almennt gildi um túlkun meginreglna réttarfars um málsforræði aðila og skýran og glöggan málatilbúnað þeirra, sbr. 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða húsaleigulaga sem og um rétt leigusala til óskertra leigugreiðslna þrátt fyrir verulegar vanefndir leigusamnings af hans hálfu. Vísar leyfisbeiðandi til þess að hvorki í stefnu í aðalsök né í greinargerð í gagnsök hafi verið byggt á því af hálfu Riverside ehf. að réttur leyfisbeiðanda til riftunar hafi verið niður fallinn fyrir tómlæti þegar riftun var lýst yfir 5. febrúar 2018. Þá hafi Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðanda hafi mátt vera kunnar vanefndir á leigusamningnum 30. nóvember 2017 en hvorki leyfisbeiðandi né gagnaðili, Teiknir ehf., hafi byggt á því. Síðastnefnd forsenda dómsins sé jafnframt bersýnilega röng þar sem lögbannið hafi verið háð þingfestingu staðfestingarmálsins 12. desember 2017 um áframhaldandi gildi. Loks sé dómur Landsréttar á því reistur að Riverside ehf. hafi átt rétt á efndum samningsins samkvæmt efni sínu út samningstíma en sú niðurstaða geti ekki fengist staðist enda samhliða lagt til grundvallar í dóminum að leigusali hafi fyrir sitt leyti vanefnt samninginn verulega í síðasta lagi frá 30. nóvember 2017.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að á dómi Landsréttar kunni að vera þeir ágallar að rétt er að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðnin samþykkt.