Hæstiréttur íslands
Mál nr. 47/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 8. febrúar 1999. |
|
Nr. 47/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Guðjón Magnússon fulltrúi) gegn X (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var grunaður um brot gegn 248. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga. Talið var að fullnægt væri skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við kröfu um gæsluvarðhald.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. sama mánaðar kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krefst varnaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var bifreiðinni [...] ekið fram í sjó af stórgrýtiskanti 28. janúar sl. Einkahlutafélag í eigu varnaraðila er skráður eigandi bifreiðarinnar. Sóknaraðili kveðst gruna varnaraðila um tilraun til brots gegn 248. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vegna rannsóknarhagsmuna sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi, þannig að hann fái ekki tækifæri til að spilla sakargögnum eða hafa samband við aðra, sem geti tengst málinu.
Í ljósi framangreinds og þess, sem liggur að öðru leyti fyrir í málinu, þykir mega fallast á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.