Hæstiréttur íslands
Mál nr. 480/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 14. desember 1999. |
|
Nr. 480/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn I (Steinar Guðgeirsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. B - liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. 110. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að I skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 1999, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi til þriðjudagsins 1. febrúar 2000. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að honum verði heimiluð för úr landi gegn tryggingu, en að því frágengnu, að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 1999.
I, [...], brasilískur ríkisborgari, sætir kæru vegna ætlaðs kynferðisbrots gegn nafngreindum manni aðfaranótt 28. febrúar síðastliðinn. Er kærði grunaður um að hafa sogið getnaðarlim kæranda, meðan hinn síðarnefndi var sofandi ölvunarsvefni. Fram er komið í málinu, að kærði er samkynhneigður, en kærandi gagnkynhneigður. Samkvæmt nýlegum niðurstöðum DNA rannsóknar eru yfirgnæfandi líkur á, að sýni, sem tekin voru af getnaðarlim kæranda, stafi frá kærða.
Kærði hyggst fara til Brasilíu 26. þessa mánaðar og koma til baka 30. janúar árið 2000. Af hálfu lögreglu er talin veruleg hætta á, að kærði ætli sér ekki að koma til baka til Íslands og þar með, að málið ónýtist af þeim sökum. Ekki sé til að dreifa samningi um gagnkvæma dómsmálaaðstoð milli Íslands og Brasílu og verði því að telja, að mikið óhagræði verði vegna mögulegra framsalsmála milli landanna. Rannsókn málsins sé lokið og verði það sent ríkissaksóknara annað hvort í dag eða strax eftir helgi.
Um lagarök vísar lögreglustjóri til þess, að verið sé að rannsaka ætluð brot kærða á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Myndu brotin varða fangelsisrefsingu, yrði sök talin sönnuð. Samkvæmt ofanröktu og með tilliti til rannsóknarhagsmuna sé þess farið á leit, að krafan nái fram að ganga, sbr. heimild í 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði er undir rökstöddum grun um brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga, sem varðar allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Samkvæmt því og með vísan til 110. gr. og hliðsjón af ákvæðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála ákveður dómari að verða við kröfu lögreglustjóra.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærða, I, er bönnuð för af landi brott til þriðjudagsins 1. febrúar árið 2000.