Hæstiréttur íslands

Mál nr. 855/2015

SPB hf. (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Lán
  • Handveð
  • Fyrning

Reifun

Í mars 2009 fékk S hf. lán hjá Seðlabanka Íslands til sjö daga gegn veði í nánar greindum skuldabréfum sem voru vistuð á sérstökum reikningi félagsins hjá bankanum sem var veðsettur honum. Tveimur dögum áður en lánið féll í gjalddaga var S hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar. Í nóvember 2009 lýsti Seðlabankinn kröfu á hendur S hf. við slit félagsins þar sem meðal annars var krafist greiðslu á láninu ásamt áföllnum dráttarvöxtum en að frádregnum tveimur innborgunum, samtals 13.890.010.109 krónur. Í kröfulýsingunni var tekið fram að til tryggingar láninu hefðu fyrrgreind skuldabréf verið sett Seðlabankanum að veði, auk þess sem skráð var að markaðsverðmæti skuldabréfanna næmi hærri fjárhæð en kröfufjárhæðin. Slitastjórn S hf. hafnaði fyrst um sinn kröfu Seðlabankans og í maí 2010 gekk E ehf., sem hafði fengið kröfuna framselda frá bankanum, að veðinu. Í janúar 2011 samþykkti slitastjórn S hf. að greiða E ehf. umrædda fjárkröfu gegn afhendingu skuldabréfanna. Þessu hafnaði E ehf. og eftir árangurslausar nauðasamningsumleitanir höfðaði S hf. mál þetta í maí 2014 til heimtu hins ætlaða mismunar á kröfu E ehf. og markaðsvirði skuldabréfanna miðað við gengi þeirra á nánar tilgreindum degi. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að Seðlabanki Íslands, sem E ehf. leiddi rétt sinn frá, hefði með samningi við S hf. og á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir öðlast handveðrétt yfir þeim skuldabréfum sem lögð höfðu verið fram til tryggingar umræddu láni. Í samræmi við það hefði Seðlabankanum verið heimilt, þegar lánið féll í gjalddaga án þess að það væri greitt, að slá eign sinni á hin veðsettu skuldabréf að því marki sem þyrfti til að greiða lánið upp. Samhliða hefði honum þá borið að standa S hf. skil á því sem eftir kynni að standa af verðmæti bréfanna miðað við markaðsvirði þeirra. Litið var svo á að S hf. hefði mátt vera ljóst, ekki síðar en við umrædda kröfulýsingu í nóvember 2009, að hann ætti kröfu á hendur Seðlabankanum til að fá greidda þá upphæð sem á milli bar. Með hliðsjón af þessu og að teknu tilliti til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda var talið að krafa S hf. hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað, sbr. 3. gr. og 1. mgr. 15. gr. sömu laga. Var E ehf. því sýknað af kröfu S hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2015. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 4.002.021.771 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. janúar 2011 til greiðsludags, til vara sömu fjárhæð með vöxtum samkvæmt 4. gr. sömu laga frá 10. janúar 2011 til 10. febrúar sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.887.228.537 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. maí 2010 til greiðsludags, að því frágengnu að stefnda verði gert að greiða sér sömu fjárhæð með vöxtum samkvæmt 4. gr. sömu laga frá 28. maí 2010 til 10. febrúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir á mál þetta rót sína að rekja til láns sem áfrýjandi fékk 18. mars 2009 hjá Seðlabanka Íslands til sjö daga gegn veði í nánar greindum skuldabréfum. Í lánsbeiðni áfrýjanda, sem þá hét Sparisjóðabanki Íslands hf., sagði meðal annars: „Verði ekki staðið í skilum með greiðslu láns þessa er Seðlabanka Íslands heimilt að ganga að tryggingunni til fullnustu vanefndanna án sérstaks fyrirvara, án atbeina yfirvalda og án þess að fylgt sé formlegri málsmeðferð, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.“ Samkvæmt því lagaákvæði geta þeir sem falla undir lögin, þar á meðal seðlabankar og fjármálafyrirtæki, samið um að heimilt sé að ganga að tryggingu til fullnustu vanefndra fjárskuldbindinga án sérstaks fyrirvara, án atbeina yfirvalda og án þess að fylgt sé formlegri málsmeðferð. Sams konar ákvæði var í 11. grein almennra skilmála um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann sem undirritaðir voru af honum og áfrýjanda 19. febrúar 2008. Þar var jafnframt tekið fram að heimilt væri að leita fullnustu „á hvern þann hátt sem Seðlabankinn kýs ... m.a. með því að taka verðbréf til eignar eða sölu þeirra án nauðungarsölu“ auk þess sem honum var „í sjálfsvald sett hvort leitað er fullnustu í öllum tryggingum sem hafa verið settar eða einungis hluta þeirra“. Umrædd skuldabréf voru vistuð á sérstökum reikningi áfrýjanda hjá Seðlabankanum sem var veðsettur þeim síðarnefnda samkvæmt yfirlýsingu áfrýjanda síðastnefndan dag „ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma er skráð á reikninginn.“

Samkvæmt framansögðu hafði Seðlabanki Íslands, sem stefndi leiðir rétt sinn frá, með samningi við áfrýjanda á grundvelli sérstakrar lagaheimildar öðlast handveðrétt yfir þeim skuldabréfum sem lögð höfðu verið fram til tryggingar umræddu láni. Í samræmi við það var Seðlabankanum heimilt, þegar lánið féll í gjalddaga án þess að það væri greitt, að slá eign sinni á hin veðsettu skuldabréf að því marki sem þurfti til að greiða lánið upp. Samhliða hefði honum þá borið að standa áfrýjanda skil á því sem eftir kynni að standa af verðmæti bréfanna miðað við markaðsvirði þeirra.

Eftir að áfrýjandi var tekinn til slita lýsti Seðlabanki Íslands kröfu á hendur honum 3. nóvember 2009 þar sem meðal annars var krafist greiðslu á láninu, sem fallið hafði í gjalddaga 25. mars 2009, ásamt áföllnum dráttarvöxtum en að frádregnum tveimur innborgunum, samtals 13.890.010.109 krónur. Í kröfulýsingunni var jafnframt tekið fram að til tryggingar láninu hafi nánar greind skuldabréf verið sett Seðlabankanum að veði. Þótt einungis hafi verið getið þar nafnverðs bréfanna liggur ljóst fyrir af gögnum málsins að markaðsvirði þeirra, miðað við skráð gengi í Kauphöll Íslands, var á þessum tíma umtalsvert meira en nam áðurgreindri kröfufjárhæð. Ekki síðar en á þessu tímamarki mátti áfrýjanda því vera ljóst að hann ætti kröfu á hendur Seðlabankanum til að fá greidda þá upphæð sem á milli bar. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda segir að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Með skírskotun til þess sem áður segir og að teknu tilliti lögskýringargagna, sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi, hófst fyrningarfrestur kröfu áfrýjanda í síðasta lagi 3. nóvember 2009 og var hún því fyrnd þegar mál þetta var höfðað 19. maí 2014, sbr. 3. gr. og 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007, en fjarri lagi er að fyrningu hafi áður verið slitið af hendi Seðlabankans eða stefnda samkvæmt 14. gr. laganna.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, SPB hf., greiði stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2015

Mál þetta, sem dómtekið var 28. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri þann 5. júní 2014 af SPB hf., Borgartúni 25, Reykjavík, á hendur Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavík.

I.

        Stefndi krefst þess aðallega að stefndi greiði stefnanda 4.002.021.771 kr. ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. janúar 2011 til greiðsludags.

        Til vara að stefndi greiði stefnanda 4.002.021.771 kr. ásamt vöxtum, samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 10. janúar 2011 til 10. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

       Til þrautavara að stefndi greiði stefnanda 2.887.228.537 kr. ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. maí 2010 til greiðsludags.

         Til þrautaþrautavara að stefndi greiði stefnanda 2.887.228.537 kr. ásamt vöxtum, samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. maí 2010 til 10. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

        Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu og tekið verði tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

        Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda á hendur honum verði stórlega lækkaðar.

        Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II.

Málsatvik

         Ágreiningur þessa máls lýtur að uppgjöri á kröfu stefnda við slitameðferð stefnanda, SPB hf. (áður Sparisjóðabanki Íslands). Áður en rakin verða atvik varðandi slitameðferðina er nauðsynlegt að víkja að þeim viðskiptum Seðlabanka Íslands og stefnanda sem voru undanfari þeirra ágreiningsefna sem hér eru til umfjöllunar. Stefnandi starfaði sem fjármálafyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði en fram til októbermánaðar 2008 átti stefnandi í miklum lánsviðskiptum við Seðlabanka Íslands og var þar ýmist um að ræða dag- eða veðlánaviðskipti. Þessi lánsviðskipti voru framlengd allt til upphafs greiðslustöðvunar stefnanda í mars 2009. Stefnandi átti jafnframt í beinum verðbréfalánaviðskiptum við fjármálaráðuneytið, en framkvæmd þeirra lána var í höndum Seðlabanka Íslands. Til tryggingar þessum lánsviðskiptum lagði stefnandi fram ýmis veð sem Seðlabanki Íslands mat hæf í samræmi við þágildandi reglur nr. 808/2008, um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.

          Seðlabanki Íslands veitir lánastofnunum sem geta átt innlánsviðskipti við bankann lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Þessi viðskipti eru reglubundinn þáttur í starfsemi Seðlabankans og má skipta slíkum lánum í tvo flokka; annars vegar er um að ræða daglán sem veitt eru til eins dags í senn, og hins vegar er um að ræða veðlán sem veitt eru til sjö daga í senn gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn metur hæf.

        Við mat á verðmæti verðbréfa sem fjárhagslegri tryggingarráðstöfun vegna viðskipta við Seðlabankann er þar beitt ákveðnu frádragi frá viðmiðunarverði verðbréfanna til þess að lánsfjárhæðin sé alltaf lægri en markaðsvirði veðanna. Seðlabankinn endurmetur svo reglulega verðmæti þessara trygginga og krefst eftir atvikum viðbótartryggingar ef markaðsverð bréfanna lækkar, til þess að tryggja að verðmæti trygginga sé ávallt yfir ákveðnu lágmarki. Lækki verðmæti trygginga niður fyrir tilgreint lágmark skal viðkomandi fjármálafyrirtæki leggja fram viðbótartryggingu þannig að tilgreint lágmark náist. Þetta er gert til að tryggja með sem bestum hætti endurheimtur allra lána.

        Vegna viðskipta sinna við Seðlabanka Íslands ritaði stefnandi undir Almenna skilmála um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands þann 19. febrúar 2008. Í 8. gr. almennu skilmálanna er mælt fyrir um að verðbréf sem lögð eru fram sem trygging vegna reglulegra viðskipta eða vegna dagláns, skuli færð á hlutlaust svæði í tölvukerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. og sótt þaðan af Seðlabankanum sem færi þau á verðbréfareikning (VS-reikning) viðkomandi fjármálafyrirtækis hjá Seðlabankanum. VS-reikningurinn skuli veðsettur Seðlabankanum samkvæmt sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi.

         Í 11. gr. almennu skilmálanna sem fjallar um vanefndir og heimildir Seðlabanka Íslands til að ganga að tryggingum er jafnframt mælt fyrir um að við vanefndir fjármálafyrirtækis sé Seðlabankanum heimilt að gjaldfella skuldbindingar þess að hluta til eða að öllu leyti, fyrirvaralaust og án sérstakrar uppsagnar. Þá segir að Seðlabankanum sé heimilt án frekari fyrirvara að leita fullnustu í þeim tryggingum sem fjármálafyrirtæki hefur sett, á hvern þann hátt sem Seðlabankinn kýs, án atbeina yfirvalda og án formlegrar málsmeðferðar, m.a. með því að taka verðbréf til eignar eða sölu þeirra án nauðungarsölu, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2005. Þá sé Seðlabankanum í sjálfsvald sett hvort leitað er fullnustu í öllum tryggingum sem hafa verið settar eða einungis hluta þeirra og í hvaða röð það er gert.

        Þann 19. febrúar 2008 undirritaði stefnandi einnig yfirlýsingu um veðsetningu VS-reiknings þar sem stefnandi veðsetti Seðlabanka Íslands „VS-reikning nr. 32290 við Seðlabanka Íslands ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma er skráð á reikninginn“. Þá segir að veðið sé sett „til tryggingar á öllum fjárskuldbindingum sem veðsali tekst á hendur gagnvart Seðlabankanum hvort sem er vegna viðskipta eða vegna trygginga í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands“. Einnig kemur fram að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi Seðlabankans. Þá segir að Seðlabankanum sé heimilt að taka hina veðsettu verðbréfaeign til eignar eða nota andvirði hins veðsetta, í heild eða hluta, til fullnustu þeirra skuldbindinga og kostnaðar sem veðið á að tryggja, án sérstaks fyrirvara, án atbeina yfirvalda og án þess að fylgt sé formlegri málsmeðferð, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2005.

        Þann 15. október 2008 óskaði stefnandi eftir láni að fjárhæð 147.153.239.312 kr. til 7 daga frá Seðlabankanum gegn veði í verðbréfum sem Seðlabankinn mæti hæf til tryggingar í samræmi við reglur 35/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Til tryggingar láninu lagði stefnandi fram tryggingar, samtals að nafnvirði 148.453.493.2010 kr., sbr. dómskjal 3, fylgiskjal 3 með kröfulýsingu stefnda vegna slitameðferðar stefnanda.

        Þann 31. desember 2008 óskaði stefnandi einnig eftir dagláni frá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 4.951.656.450 kr., sbr. dómskjal 3, fylgiskjal 4. Til tryggingar dagláninu lagði stefnandi fram verðbréf, samtals að nafnverði 4.565.000.000 kr., sbr. yfirlýsingu dags. sama dag:

        Sama dag, 31. desember 2008 óskaði stefnandi enn eftir dagláni frá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 10.000.000.000 kr. og lagði fram verðbréf, samtals að nafnverði 10.000.000.000 kr. til tryggingar, sbr. dómskjal 3, fylgiskjal 4, sbr. yfirlýsingu dags. sama dag:

        Við árslok 2008 voru heildarkröfur Seðlabanka Íslands á hendur stefnanda að fjárhæð 179,5 ma. kr. Öll verðbréf sem lögð voru fram til tryggingar skuldum stefnanda við Seðlabankann voru vörsluð á framangreindum VS-reikningi nr. 32290 og voru handveðsett til tryggingar öllum kröfum Seðlabanka Íslands á hendur stefnanda, sbr. m.a. ákvæði handveðsyfirlýsingarinnar.

        Þann 12. janúar 2009 var undirritað samkomulag um yfirtöku ríkissjóðs á hluta veðlána og daglána Seðlabanka Íslands. Með samkomulaginu framseldi Seðlabanki Íslands til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs kröfur vegna veðlána og daglána sem tryggðar voru með veði í verðbréfum útgefnum af gömlu bönkunum, eins og þeir eru nánar tilgreindir í samkomulaginu. Heildarfjárhæð framseldra krafna á hendur ýmsum fjármálafyrirtækjum var 345.005.388.153 kr. og var miðað við yfirtökudag þann 31. desember 2008. Í samkomulaginu er sérstaklega tekið fram að þau veð sem lögð voru fram til tryggingar hafi einnig verið framseld ríkissjóði.

        Þann 18. mars 2009 óskaði stefnandi eftir láni að fjárhæð 13.226.886.153 kr. til 7 daga frá Seðlabanka Íslands gegn veði í skuldabréfum, en hér var um að ræða framlengingu á hluta af eldri lánum Seðlabanka Íslands til stefnanda. Til tryggingar láninu lagði stefnandi fram eftirfarandi tryggingar, samtals að nafnverði 11.532.661.054 kr. og að markaðsverðmæti 13.957.283.046 kr., sbr.dómskjal 20:

Flokkur

Gjaldmiðill

Nafnverð

HFF150914

ISK

105.999.037

HFF150224

ISK

50.000.000

HFF150434

ISK

4.000.000.000

HFF150644

ISK

7.026.662.017

 

 

 

RIKB 09 0612

ISK

100.000.000

RIKB 10 0317

ISK

250.000.000

RIKB 13 0517

ISK

0

RIKB 19 0226

ISK

0

 

 

 

GLB 08 1103

ISK

0

KAUP 08 1015

ISK

0

KAUP 08 1114

ISK

0

KAUP 08 1215

ISK

0

 

 

 

KAU CB 2

ISK

0

KAUP var 02/24

ISK

0

Bundið innlán

ISK

0

 

Samtals:

11.532.661.054

 

        Þann 21. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar stefnanda, víkja stjórn bankans frá og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 og átti hún að standa til 15. júní sama ár. Áður en sá tími var á enda runninn var stefnanda skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. fyrrnefndra laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna, er birtist í vefriti Lögbirtingablaðsins fyrra sinni 3. júní 2009. Upphaflegur kröfulýsingarfrestur var ákveðinn fjórir mánuðir eða til 3. október 2009. Með auglýsingu, sem birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 29. september 2009, var kröfulýsingarfrestur lengdur um einn mánuð eða til 3. nóvember 2009.

        Þann 3. nóvember 2009 lýsti fjármálaráðuneytið kröfu í slitameðferðina vegna veðlána, daglána og verðbréfalána, auk lögfræðikostnaðar, að fjárhæð samtals 201.204.380.942 kr., sbr. dómskjal 21. Í kröfulýsingunni voru sérstaklega tilgreind eftirfarandi verðbréf sem tryggingar fyrir kröfunni, en einnig var vísað til framangreinds handveðssamnings og var hann lagður fram sem fylgiskjal með kröfulýsingunni:

Flokkur

Gjaldmiðill

Nafnverð

Veðlán

 

 

KAUP 08 1114

ISK

10.000.000.000

KAUP 08 1215

ISK

20.000.000.000

GLB 08 1103

ISK

4.900.000.000

GLB 09 1028

ISK

19.100.000.000

GLB 09 0618

ISK

2.165.000.000

GLBIRFLOAT 03/09

ISK

10.000.000.000

LAIS 09 0401

ISK

8.000.000.000

LANISL Float 06/09*

ISK

10.000.000.000

LANISL Float 04/09

ISK

47.000.000.000

 

 

 

Daglán

 

 

GLB 09 1028

ISK

525.000.000

GLB 09 0618

ISK

40.000.000

KAUP 08 1015

ISK

10.000.000.000

 

Samtals:

141.730.000.000

        Þann 3. nóvember 2009 lýsti Seðlabanki Íslands jafnframt kröfu í slitameðferð stefnanda vegna þess hluta krafna sinna sem ekki hafði verið framseldur ríkissjóði, en kröfulýsingin fékk númerið 189 í kröfuskrá stefnanda. Sá hluti kröfulýsingarinnar sem laut að lánsviðskiptum stefnanda var að fjárhæð 13.890.010.109 kr. Í kröfulýsingunni var sérstaklega vísað til nánar tilgreindra skuldabréfa sem trygginga fyrir kröfunni, en einnig var vísað til framangreinds handveðssamnings um verðbréf á VS-reikningi dags. 19. febrúar 2008 og var hann lagður fram sem fylgiskjal með kröfulýsingunni, dómskjal 3, fylgiskjal 2. Við kröfulýsinguna var skráð markaðsverðmæti tilgreindra skuldabréfa hærra en kröfufjárhæðin skv. kröfulýsingu nr. 189, dómskjal 20 og jafnframt dskj. 22. Umrædd skuldabréf sem vísað var til í kröfulýsingu nr. 189 eru þau sem ágreiningur máls þessa lýtur að:

Flokkur

Gjaldmiðill

Nafnverð

RIKB 10 0317

ISK

250.000.000

HFF150914

ISK

105.999.037

HFF150224

ISK

50.000.000

HFF150434

ISK

4.000.000.000

HFF150644

ISK

7.026.662.017

 

Samtals:

11.434.661.054

        Slitastjórn stefnanda tilkynnti Seðlabanka Íslands með bréfi dags. 19. nóvember 2009 að hún hefði hafnað kröfu nr. 189 að svo stöddu við slitameðferð stefnanda. Þessari afstöðu slitastjórnarinnar var mótmælt með tölvupósti lögmanns Seðlabanka Íslands þann sama dag.

        Með bréfi dags. 9. febrúar 2010 var tilkynnt að krafa nr. 189 hefði verið framseld til stefnda með öllum réttindum sem henni fylgdu. Þann 17. mars 2010 var skuldabréfið RIKB 10 0317, að nafnvirði 250.000.000 kr., á gjalddaga og tók stefndi við greiðslu vegna þess að fjárhæð 267.500.000 kr. sem ráðstafað var inn á skuld stefnanda skv. kröfu nr. 189.

        Með bréfi framkvæmdastjóra stefnda til slitastjórnar stefnanda, dags. 31. maí 2010, var tilkynnt að stefndi hefði fullnustað þau skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði (auðkennd HFF) sem tilgreind höfðu verið í kröfulýsingunni. Fullnustuverðið var tilgreint sem 15.914.839.586 kr. og var tekið fram að það miðaðist við 28. maí 2010. Stefnandi mótmælti fullnustunni með bréfi til stefnda þann 1. júní 2010 þar sem lýst var þeirri afstöðu slitastjórnar stefnanda að stefndi hefði ekki haft heimild til að fullnusta veðin einhliða. Vísað var til þess að í kröfulýsingunni hefði þess verið krafist að kröfufjárhæðin yrði greidd af eignum búsins. Jafnframt að kröfunni hefði verið hafnað að svo stöddu og önnur afstaða hefði ekki verið tekin. Þá hefði stefnandi verið í slitameðferð frá 22. apríl 2009 og hefði heimild til greiðslustöðvunar. Jafnframt var gerður fyrirvari við fullnustu fjárhæðarinnar.

        Með tölvupósti slitastjórnar stefnanda dags. 11. ágúst 2010 tilkynnti hún lögmanni stefnda að svofelld afstaða hefði verið tekin til kröfunnar og hún verið samþykkt: „krafa vegna veðlána að fjárhæð kr. 13.890.010.109, þ.m.t. dráttarvextir til 3. nóvember 2009, [væri] samþykkt sem veðkrafa skv. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti, að því leyti sem henni [yrði] fullnægt af andvirði viðkomandi veða eins og tilgreint [sé] í kröfulýsingu, en að öðru leyti [teljist] hún almenn krafa.“ Afstöðu slitastjórnarinnar til kröfu nr. 189 var ekki mótmælt á skiptafundi þann 26. ágúst 2010.

        Með bréfi slitastjórnar stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 10. janúar 2011, áréttaði slitastjórn stefnanda mótmæli sín þess efnis að ekki væri fallist á fullnustu veðanna sem tilkynnt hafði verið með bréfinu frá 31. maí 2010. Í bréfi slitastjórnarinnar var tilkynnt að greiðsla að fjárhæð 13.890.010.109 kr. yrði innt af hendi gegn afhendingu stefnda á umræddum skuldabréfum, en tekið var fram að skuldabréfin mætti afhenda inn á tilgreindan VS-reikning stefnanda (dómskjal 8). Framangreindu bréfi var svarað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 24. janúar 2011, þar sem sjónarmiðum slitastjórnar stefnanda var mótmælt og upplýst um að gengið hefði verið að veðunum og þau seld á markaði, en andvirðið hefði verið látið renna upp í kröfur stefnda.

        Í bréfi dags. 11. maí 2011 mótmælti slitastjórn stefnanda því enn að stefnda hefði verið heimil einhliða fullnusta veðanna og gerði stefnandi kröfu um greiðslu þess mismunar sem var á lýstri kröfufjárhæð stefnda skv. kröfu nr. 189, 13.890.010.109 kr., og virði skuldabréfanna m.v. 10. janúar 2011, en stefnandi taldi mismuninn vera 4.123.729.791 kr. Stefnandi gerði heildarkröfu á hendur stefnda að fjárhæð 4.281.118.811 kr. en stefnandi gerði þá ráð fyrir 157.389.020 kr. sem dráttarvöxtum á framangreindan mismun frá 10. janúar 2011 þegar hann hafði áður boðið greiðslu samþykktrar fjárhæðar kröfu nr. 189 gegn afhendingu skuldabréfanna.

       Nauðasamningsumleitanir fóru fram frá nóvember 2011 og fram á mitt ár 2013. Nauðasamningsumleitanir gengu ekki eftir.

        Þann 22. apríl 2014, eftir að ljóst var að fyrirhugaður nauðasamningur stefnanda næði ekki fram að ganga, ritaði slitastjórn stefnanda stefnda enn bréf þar sem gerð var krafa um greiðslu hins meinta mismunar kröfu stefnda á hendur stefnanda og þeirrar fjárhæðar sem stefnandi tilgreindi sem markaðsvirði veðanna þann 10. janúar 2011, 4.123.729.791 kr., auk dráttarvaxta frá 10. janúar 2011,1.882.103.327 kr., eða samtals 6.005.883.118 kr. Framangreindri kröfu stefnanda var hafnað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 28. apríl 2014.

         Mál þetta var síðan höfðað með stefnu þingfestri 5. júní 2014.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að afhenda slitastjórn stefnanda umráð þeirra skuldabréfa sem stefnandi lagði fram til tryggingar veðlánaviðskiptum við Seðlabankann og mál þetta lýtur að; bæði á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir gþl.) sem og á kröfulýsingu stefnda. Stefnandi hafi gert réttmæta kröfu um afhendingu bréfanna þann 10. janúar 2011 en við þeirri kröfu varð stefndi ekki. Þess í stað hafi stefndi leitað fullnustu í skuldabréfunum og ráðstafað þeim án nokkurs samráðs við stefnanda. Beri stefnda því að standa stefnanda skil á verðmæti bréfanna miðað við það tímamark er stefnandi krafðist afhendingar bréfanna, en að frádreginni kröfu stefnda.

        Stefnandi byggir á að samkvæmt 1. mgr. 72. gr. gþl. komi fram sú meginregla að við uppkvaðningu úrskurðar um að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta, þá taki þrotabú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann naut eða átti við uppkvaðningu úrskurðarins. Undantekning sé gerð ef annað megi leiða af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem ekki verður hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Í 2. mgr. sömu greinar sé að finna samsvarandi reglu að því er varðar fjárhagslegar skyldur þrotamanns. Reglum þessum sé einkum ætlað að tryggja jafnræði kröfuhafa og verði þess vegna allar undantekningar frá þeim að vera skýrar og ótvíræðar.

        Stefnandi vísaði til þess að skiptastjóra sé falið víðtækt ákvörðunarvald um það hvernig eignum og réttindum þrotabús verði ráðstafað, þar á meðal hvernig og hverjum þær verði seldar og gegn hvaða verði, sbr. 124. gr. gþl. Jafnframt hvort kröfu verði haldið uppi, mál verði höfðað um hana eða hún gefin eftir. Ákvæði 129. gr. laganna setji valdi skiptastjóra aftur á móti skorður að því er varðar eignir sem bundnar eru veðréttindum eða öðrum tryggingarréttindum og duga ekki til fullnægju þeirra krafna er þær eiga að tryggja. Í slíkum tilvikum sé gert ráð fyrir ríkari íhlutun þeirra er eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

        Samkvæmt framangreindum ákvæðum gþl. hafi stefnda borið að afhenda slitastjórn stefnanda skuldabréfin til umráða og jafnframt að fela stjórninni að ákveða ráðstöfun þeirra. Sérstakar ástæður og ótvíræðar heimildir þurfti til að víkja frá lögbundinni framkvæmd gþl. Stefnandi byggir á því að slíkum aðstæðum hafi ekki verið til að dreifa, enda hafi stefndi ekki borið það fyrir sig.

        Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi hafi með kröfulýsingu sinni bundið rétt sinn til einhliða ráðstöfunar skuldabréfanna ákveðnum takmörkunum. Í XVII. kafla laga um gþl. sé að finna reglur sem mæla fyrir um meðferð krafna á hendur þrotabúi. Stefnandi vísar í þessu sambandi til 117. gr. laganna, en þar sé meginregla um efni og framsetningu kröfulýsinga.

        Í kröfulýsingu Seðlabankans, sem stefndi leiði rétt sinn frá, dags. 3. nóvember 2009, hafi þess verið krafist að kröfufjárhæðin yrði greidd af eignum búsins til lögmannsstofu stefnda, í samræmi við úthlutun úr búinu og lýsta réttarstöðu kröfunnar. Enginn áskilnaður hafi þannig verið gerður um fullnustu á grundvelli handveðréttar eða vísað til annarra tryggingarráðstafana. Með kröfulýsingunni hafi slitastjórn stefnanda þvert á móti verið falin umsjá hinna veðsettu bréfa og krafist úthlutunar af verðmæti þeirra sem og annarra eigna stefnanda.

        Þótt stefndi hafi átt handveð í skuldabréfunum og jafnvel notið fullnustuheimilda samkvæmt lögum nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir hafi kröfulýsingin takmarkað rétt stefnda til að ganga að skuldabréfunum. Seðlabankinn hafi haft forræði á kröfunni og kaus að lýsa henni og réttindum sínum með ákveðnum hætti í bú stefnanda. Við það sé stefndi bundinn. Í 6. mgr. 117. gr. gþl. komi fram að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgi sömu réttaráhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún barst honum. Samkvæmt þeim meginreglum sem búi að baki 116. og 117. gr. gþl. og í samræmi við réttarframkvæmd hafi kröfulýsingin og meðferð skiptastjóra á kröfunni samsvarandi réttaráhrif og ef einkamál hefur verið rekið um kröfuna. Stefnandi byggir á því að með samþykki á kröfu stefnda á skiptafundi þann 26. ágúst 2010 hafi endanlega og með bindandi hætti fyrir aðila verið leyst úr kröfunni og meðferð hennar sömuleiðis slegið fastri.

       Stefnandi byggir á því að Seðlabankinn hafi kosið að lýsa kröfunni með þeim hætti að slitastjórn stefnanda væru falin umráð skuldabréfanna. Það endurspeglist í ótvíræðum texta kröfulýsingarinnar; að fjárhæð kröfunnar óskist „... greidd af eignum búsins ... í samræmi við úthlutun úr búinu og lýsta réttarstöðu kröfunnar.“ Stefnandi telur að sú tilhögun hafi verið nærtæk. Fyrir stefnanda starfi fólk sem hafi víðtæka þekkingu og reynslu af viðskiptum með skuldabréf á markaði. Auk þess hafi stefndi séð um að lýsa kröfum í bú viðskiptabankanna þriggja á grundvelli skuldabréfa sem stefnandi hafði lagt fram til tryggingar með sambærilegum hætti og þau skuldabréf sem eru til umfjöllunar í þessu máli. Stefnandi hafnar því framkomnum mótbárum stefnda í þá veru að texti kröfulýsingarinnar hafi verið staðlaður og ekki ætlað að ákvarða meðferð skuldabréfanna. Stefnandi bendir jafnframt á að í kröfulýsingunni var aðeins krafist dráttarvaxta af kröfunni frá gjalddaga og til og með dagsetningu hennar, 3. nóvember 2009. Engin áskilnaður hafi verið uppi um áfallandi dráttarvexti. Stefnandi hafnar því þess vegna alfarið, sem stefndi hefur haldið fram, að ráðstöfun skuldabréfanna hafi komið í veg fyrir uppsöfnun dráttarvaxta og þannig verið öðrum kröfuhöfum til hagsbóta.

        Stefnandi byggir á að slitameðferð stefnanda feli í sér sameiginlega fullnustugerð allra lánardrottna stefnanda og er meginreglan um jafnræði kröfuhafa grundvöllur hennar. Slitastjórn stefnanda telur sig hafa verið bundna af kröfulýsingu Seðlabankans eins og hún var sett fram af hans hálfu og staðfest á skiptafundi 26. ágúst 2010. Í henni hafi skilmerkilega verið tekið fram hver væri fjárhæð kröfunnar, hvaða veð stæðu til tryggingar henni og hvernig Seðlabankinn sem kröfuhafi óskaði eftir að krafan yrði greidd. Seðlabankanum hafi verið í lófa lagið að orða kröfulýsingu sína með öðrum hætti eða tilkynna stefnanda að bankinn áskildi sér rétt til að leita fullnustu í skuldabréfunum. Það hafi stefndi ekki gert og látið nægja að krefjast úthlutunar af eignum stefnanda í heild. Stefndi verði því að sæta þeirri tilhögun. Stefnandi bendir á þá meginreglu skuldaskilaréttar sem leiða má af framannefndum ákvæðum gþl. að kröfuhafi beri sjálfur ábyrgð á því að útbúa kröfulýsingu sína og þar af leiðandi þeim takmörkunum sem hann kann að setja réttindum sínum. Það væri enda andstætt meginreglunni um jafnræði kröfuhafa ef einn eða fleiri kröfuhafar gætu einhliða ákveðið að virða að vettugi þann farveg sem slitameðferð hefur markað réttindum þeirra.

        Ef fallist verður á heimild stefnda til einhliða ráðstöfunar skuldabréfanna upp í kröfu sína byggir stefnandi sjálfstætt á því að þeirri heimild hafi fylgt samsvarandi ábyrgð stefnda. Stefndi hafi ráðstafað skuldabréfunum á eigin áhættu og án samráðs við stefnanda. Því beri stefndi ábyrgð á því gagngjaldi sem hann áskildi sér fyrir bréfin. Stefnandi vísar til framangreindra meginreglna um að þrotabú taki við öllum fjárhagslegum réttindum skuldara og að skiptastjóri hafi ákvörðunarvald um hvernig eignum og réttindum þrotabús verði ráðstafað. Þá leiði það af eðli máls að kröfuhafi sem ákveður einhliða að leita fullnustu í eignum þrotabús beri ábyrgð á þeirri hagsmunaskerðingu sem það kann að valda öðrum kröfuhöfum.

        Eins og að framan er rakið krafðist slitastjórn í bréfi 10. janúar 2011 afhendingar skuldabréfanna gegn greiðslu á kröfu stefnanda að fjárhæð 13.890.010.109 kr. Með bréfi 24. s.m. hafnaði stefndi kröfunni og kvað bréfin ekki lengur í sinni vörslu.

        Krafa stefnanda er á því reist að stefnda beri, úr því skuldabréfin verða ekki afhent, að standa stefnanda skil á fjárhæð sem svarar til verðmætis skuldabréfanna auk greiðslna sem stefndi tók við á grundvelli þeirra en að frádreginni kröfu hans. Kröfur stefnanda sundurliðist með eftirfarandi hætti en stefnandi muni jafnframt leggja fram frekari útreikninga, byggða á gögnum.

        Aðalkrafa stefnanda byggist á markaðsverðmæti skuldabréfanna þann 10. janúar 2011, þ.e. á því tímamarki er stefnandi krafðist afhendingar bréfanna úr hendi stefnda. Verðmæti skuldabréfa útgefinna af Íbúðalánasjóði var 16.472.949.382 kr. en auk þess hafi stefndi fengið greiddar 267.500.000 kr. fyrir skuldabréf í flokki RIKB 10 0317. Stefndi fékk enn fremur greiðslur á grundvelli bréfanna að fjárhæð 1.151.582.498 kr. frá kröfulýsingu stefnda 3. nóvember 2009 til 10. janúar 2011. Ekki sé reiknað með frádrætti vegna kostnaðar þar sem bréfin voru inni á vörslureikningi Seðlabankans. Verðmætin sem stefndi fékk voru því samtals að fjárhæð 17.892.031.880 kr. Samþykkt krafa stefnda var, auk umkrafinna dráttarvaxta til 3. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 13.890.010.109. Mismunurinn er 4.002.021.771 kr. sem er stefnufjárhæðin.

        Vaxtakrafa stefnanda er á því byggð að stefnda beri að greiða stefnanda vexti af andvirði þeirra verðmæta sem hann tók til sín, að því leyti sem það var umfram kröfu stefnda og því oftekið. Stefnandi krefst dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu (hér eftir „vxl.“) frá því tímamarki er stefnandi krafðist afhendingar skuldabréfanna. Dráttarvextir séu lög­bundnar bætur vegna tjóns sem almennt má ætla að kröfuhafi verði fyrir vegna greiðsludráttar. Stefnandi byggir á því að sama gildi um oftekið fé, eins og hér er ástatt, og því beri krafan dráttarvexti frá kröfu stefnanda um afhendingu.

        Varakrafa stefnanda er studd öllum sömu forsendum og aðalkrafa að frátalinni vaxtakröfu sem gengur skemur. Verði ekki fallist á að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum allt frá því er hann gerði kröfu um afhendingu 10. janúar 2011 er á því byggt að stefnandi hefði í öllu falli getað ávaxtað kröfufjárhæðina með vöxtum samkvæmt 4. gr. vxl. Er þess vegna gerð krafa um að þeir leggist á fjárhæðina frá 10. janúar 2011 en aðeins í mánuð þar sem stefnandi á ótvíræðan rétt á dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vxl. frá því tímamarki, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

        Þrautavarakrafa stefnanda byggist á markaðsverðmæti skuldabréfanna þann 28. maí 2010 þegar stefndi leitaði fullnustu í skuldabréfunum. Verðmæti skuldabréfa útgefinna af Íbúðalánasjóði var 16.069.679.199 kr. en auk þess hafði stefndi fengið greiddar 267.500.000 kr. fyrir skuldabréf í flokki RIKB 10 0317 eins og áður greinir. Stefndi hafði þegið greiðslur á grundvelli bréfanna að fjárhæð 440.059.447 kr. frá kröfulýsingu stefnda 3. nóvember 2009 til 28. maí 2010. Verðmætin sem stefndi fékk voru því samtals að fjárhæð 16.777.238.646 kr. Samþykkt krafa stefnda var, auk umkrafinna dráttarvaxta til 3. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 13.890.010.109 kr. Mismunurinn er 2.887.228.537 kr. sem er þrautavarakrafa stefnanda.

        Vaxtakrafa stefnanda er á því byggð að stefnda beri að greiða stefnanda vexti af andvirði þeirra verðmæta sem hann tók til sín, að því leyti sem það var umfram kröfu stefnda og því oftekið. Stefnandi krefst dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vxl. frá því tímamarki er stefndi leitaði fullnustu í bréfunum 28. maí 2010. Vísað er til rökstuðnings fyrir dráttarvöxtum í aðalkröfu að breyttu breytanda.

        Þrautaþrautavarakrafa stefnanda er studd sömu forsendum og þrautavarakrafa að frátalinni vaxtakröfu sem gengur skemur. Stefnandi byggir á því að hann hefði a.m.k. getað ávaxtað kröfufjárhæðina með vöxtum samkvæmt 4. gr. vxl. ef hann hefði fengið hana afhenta þann 28. maí 2010. Er af þeim sökum gerð krafa um að þeir leggist á fjárhæðina frá 28. maí 2010 og fram til 11. febrúar 2011, þegar mánuður var liðinn frá því stefnandi sannanlega gerði kröfu um afhendingu bréfanna, en krafan beri dráttarvexti frá því tímamarki, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Að öðru leyti er byggt á sömu röksemdum og færðar eru fyrir vöxtum og dráttarvöxtum í varakröfu að breyttu breytanda. 

        Kröfur stefnanda eru byggðar á meginreglum gþl., m.a. um jafnræði kröfuhafa og bindandi réttaráhrif kröfulýsinga, sbr. einkum 72., 116., 117., 124. og 129. gr. laganna. Þá er vísað til XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum að því er varðar slit fjármálafyrirtækja. Jafnframt er vísað til meginreglu kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og efndir samninga.

        Kröfur stefnanda um vexti og dráttarvexti eru reistar á II. og III. kafla nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

        Krafa stefnanda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá er gerð krafa um 25,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað. Stefnandi þessa máls er ekki virðisaukaskattskyldur og er honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.    

        Málið er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og ákvæði handveðsyfirlýsingar, dags. 19. febrúar 2008.

Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi vísar til þess að í stefnu virðist stefnandi aðallega byggja á því að stefnda hafi borið að afhenda slitastjórn stefnanda umráð þeirra skuldabréfa sem mál þetta lýtur þegar stefnandi var tekinn til slitameðferðar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki („ffl.“), sbr. lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. („gjþl.“). Jafnframt byggi stefnandi á því að stefndi hafi borið sömu skyldu til afhendingar skuldabréfanna vegna orðalags kröfulýsingar stefnda. Þá byggi stefnandi á því að stefndi skuli bera ábyrgð á að hafa ráðstafað skuldabréfunum upp í kröfu sína á hendur stefnanda. Aðalkrafa, varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggi allar á framangreindum forsendum, en þó þannig að viðmiðunarverðmæti skuldabréfanna sé mismunandi, auk þess sem vaxta og dráttarvaxta er krafist frá mismunandi tímum.    

        Stefndi fellst ekki á framangreindar málsástæður stefnanda. Hann byggir aðallega á því að óháð því hvort stefnandi eigi réttmæta kröfu á hendur honum, þá sé slík krafa í öllum tilvikum fyrnd. Þá byggir stefndi á því að hann hafi notið handveðréttar í umræddum skuldabréfum og honum hafi því ekki borið nein skylda til að afhenda þau til stefnanda, óháð því hvort stefnandi hafi verið tekinn til slitameðferðar eða hvernig orðalagi kröfulýsingar Seðlabanka Íslands hafi verið háttað. Stefndi mótmælir jafnframt útreikningum stefnanda, bæði hvað varðar fjárhæð kröfu hans og verðmæti fullnustueignanna. Þá byggir stefndi á því að honum hafi ávallt verið heimilt að ráðstafa öllu verðmæti fullnustueignanna til greiðslu skulda stefnanda við sig, enda hafi fullnustueignirnar staðið til tryggingar öllum skuldum stefnanda við Seðlabanka Íslands og þeirra aðila sem leiða rétt sinn frá honum. Eignirnar hafi þannig ekki einungis staðið til tryggingar kröfu merktri nr. 189, heldur einnig kröfu merktri nr. 190 í kröfuskrá stefnanda. Stefndi telur að málatilbúnaður stefnda eigi ekki við rök að styðjast efnislega. Jafnframt bendir stefndi á að jafnvel þó svo að litið væri svo á að skylda hefði stofnast til afhendingar veðanna til slitastjórnar stefnda, hvort sem er á grundvelli laga eða vegna kröfulýsingar stefnda, þá væri hvers kyns fjárkrafa á grundvelli slíkrar skyldu þegar fyrnd.

        Í þessu sambandi bendir stefndi á að skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Skv. 2. gr. sömu laga reiknist fyrningarfrestur frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Upphaf slitameðferðar stefnanda miðast við þann 22. apríl 2009, sbr. lög nr. 44/2009, en slitastjórn stefnanda var skipuð þann 19. maí 2009. Þá lýsti Seðlabanki Íslands kröfu sinni í slitameðferðina með kröfulýsingu þann 3. nóvember 2009. Í báðum tilvikum er um að ræða atburði sem áttu sér stað meira en fjórum árum áður en stefna í máli þessu var birt þann 19. maí 2014. Fyrningarfrestur hverrar slíkrar kröfu hafi því þegar verið liðinn er mál þetta var höfðað.

        Stefndi mótmælir því sem virðist mega ráða af stefnu að upphafstími meintrar kröfu stefnanda miðist við það tímamark þegar hann hafi krafið stefnda um afhendingu skuldabréfanna þann 10. janúar 2011 eða við tilkynningu um fullnustu veðanna þann 28. maí 2010. Hefði stefnda á annað borð verið skylt að afhenda umrædd skuldabréf til stefnanda á þeim grundvelli sem vísað er til í stefnu telur stefndi ljóst að slík skylda, og meint fjárkrafa á grundvelli hennar, hefði þá stofnast mun fyrr, þ.e.a.s. við töku stefnanda til slitameðferðar eða í síðasta lagi við dagsetningu kröfulýsingar stefnda. Dráttur slitastjórnar stefnanda á að óska eftir afhendingu skuldabréfanna getur að áliti stefnda ekki leitt til þess að fyrningarfrestur meintrar kröfu stefnanda framlengist, enda reiknast fyrningarfrestur frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda.

        Að mati stefnda er óumdeilt að opinbert markaðsvirði þeirra skuldabréfa sem tilgreind voru í kröfulýsingu hafi ávallt verið meira virði en lýst kröfufjárhæð skv. kröfu nr. 189. Stefndi byggir á því að stefnanda hafi þannig strax mátt vera ljóst frá dagsetningu kröfulýsingar Seðlabanka Íslands þann 3. nóvember 2009 að hann kynni að eiga kröfu á hendur Seðlabanka Íslands vegna þess umframverðmætis veðanna m.v. lýsta kröfufjárhæð. Þannig hafi 3. nóvember 2009 verið sá dagur sem stefnandi gat fyrst átt rétt til efnda mismunar á kröfufjárhæð Seðlabanka Íslands og verðmætis veðanna sem deilt er um í þessu máli. Fyrningarfrestur skv. 3. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 150/2007, framlengist ekki þótt slitastjórn stefnanda hafi ekki gripið til neinna aðgerða til þess að innheimta umræddan mismun heldur beðið þess að stefndi lýsti einhliða yfir fullnustu skuldabréfanna á tímamarki sem hann taldi hagstætt.

        Með vísan til framangreinds, og í ljósi þess að ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að greiðsluskyldu stefnda megi rekja til meintrar skyldu hans til að afhenda umrædd skuldabréf til slitastjórnar stefnanda, byggir stefndi á því að hver sú fjárkrafa sem byggir á þeirri meintu skyldu sé óhjákvæmilega fyrnd á grundvelli framangreindra ákvæða laga nr. 150/2007. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

        Verði ekki fallist á að hverjar þær kröfur sem stefnandi kann að eiga á hendur stefnda séu fyrndar, sbr. umfjöllun að ofan, byggir stefndi á því að honum hafi ekki borið skylda til að afhenda skuldabréfin til stefnanda.

         Eins og greinir að ofan byggir málatilbúnaður stefnanda í stefnu öðrum þræði á því að reglur ffl. og gjþl. leiði til þess að stefnda hafi borið að afhenda slitastjórn stefnanda verðbréfin til umráða við töku stefnanda til slitameðferðar og jafnframt fela slitastjórninni að ákveða ráðstöfun þeirra.

        Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði stefnanda og bendir á að hann hafi notið handveðréttar yfir öllum verðbréfum skráðum á VS-reikningi nr. 32290 til tryggingar öllum skuldum stefnanda, sbr. yfirlýsingu um veðsetningu VS-reiknings, dags. 19. febrúar 2008. Óumdeilt sé í málinu að umrædd verðbréf voru skráð á framangreindum VS-reikningi og var veðréttur stefnda yfir þeim viðurkenndur af slitastjórn stefnanda, sbr. tilkynningu til kröfuhafa Sparisjóðabanka Íslands hf. dags. 10. ágúst 2010. Þá sé jafnframt óumdeilt að veðréttur stefnda hafi verið handveðréttur.

        Stefndi mótmælir því að taka stefnanda til slitameðferðar og skipan slitastjórnar hafi haft nokkur áhrif til breytingar á veðrétti hans eða hafi leitt til stofnunar skyldu hans til afhendingar skuldabréfanna til slitastjórnar enda breyti tilvísuð ákvæði ffl. og gjþl. í stefnu ekki þeirri réttarvernd sem handveðhafar njóta. Stefndi byggir á því að viðurkennt sé í íslenskum rétti, sem og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum, að gjaldþrot handveðsala, eða eftir atvikum taka til slitameðferðar, hafi engin áhrif á rétt handveðsala til að ganga að hinu veðsetta. Ástæður þessa séu m.a. hið sérstaka eðli réttarverndar handveðhafa, sem fæst við að svipta veðsala umráðum hins veðsetta. Þessa réttarvernd þurfi handveðhafi aldrei að gefa eftir, m.a. með því að afhenda hið veðsetta til skipaðs skiptastjóra eða slitastjórnar.

        Stefndi byggir á því að honum, sem handveðhafa, hafi þannig verið heimilt að fullnusta umrædd skuldabréf til greiðslu allra þeirra krafna sem þau stóðu til tryggingar fyrir, algjörlega óháð slitameðferð stefnanda. Seðlabanka Íslands, eða stefnda, hefði þannig raunverulega ekki verið nauðsynlegt að lýsa kröfu í slitameðferð stefnanda ef slíkar kröfur hefðu greiðst að fullu með fullnustu handveðsettra eigna. Með vísan til framangreinds telur stefndi ljóst að honum hafi ekki borið nein skylda að lögum til að afhenda umrædd skuldabréf og gefa þannig eftir handveðrétt sinn.

        Stefndi vísar til þess að málatilbúnaðar stefnanda um skyldu stefnda til afhendingar hinna veðsettu eigna byggi einnig á því að Seðlabanki Íslands hafi með kröfulýsingu sinni í slitameðferð stefnanda bundið rétt sinn til einhliða ráðstöfunar skuldabréfanna ákveðnum takmörkunum. Í þessu sambandi vísi stefnandi til þess að í kröfulýsingu Seðlabanka Íslands segi að kröfufjárhæðin óskist greidd af eignum búsins í samræmi við úthlutun úr búinu og lýsta réttarstöðu kröfunnar og það hafi falið í sér að slitastjórn stefnanda hafi verið falin umsjá hinna veðsettu skuldabréfa. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði stefnanda.

        Stefndi mótmælir því sem fram kemur í stefnu, að texti kröfulýsingarinnar sé ótvíræður um það að slitastjórn stefnanda hafi verið falin umráð skuldabréfanna, og bendir á að ekki sé með neinum hætti vísað til þess að Seðlabanki Íslands fæli, eða hygðist fela, slitastjórn stefnanda umsjá hinna veðsettu skuldabréfa.

        Afsal umráðaréttar yfir skuldabréfunum til slitastjórnar stefnanda hefði haft í för með sér að Seðlabanki Íslands hefði raunverulega afsalað sér handveðsrétti sínum með afhendingu verðmætanna til slitastjórnar stefnanda. Slíkt afsal réttinda hefði verið langt umfram skyldu Seðlabankans að lögum og hefði takmarkað verulega möguleika hans til fullnustu kröfu sinnar. Stefndi telur að slíkt afsal réttinda hefði þurft að koma fram með skýrum og ótvíræðum hætti ef sú hefði verið ætlunin.

        Stefndi mótmælir einnig því sem haldið er fram í stefnu að máli skipti að enginn áskilnaður hafi verið gerður um fullnustu á grundvelli handveðréttar eða vísað hafi verið til annarra tryggingarráðstafana. Í kröfulýsingu hafi skilmerkilega verið vísað til þeirra eigna sem stóðu til tryggingar kröfu Seðlabankans. Þannig var sérstaklega vísað til veða sem stefnandi hafði lagt fram til tryggingar í lánsviðskiptum við Seðlabanka Íslands, auk þess sem byggt var á yfirlýsingu um veðsetningu VS-reiknings sem sýndi fram á frekari veðrétt í öllum verðbréfum á VS-reikningi nr. 32290. Þá hafi verið lagðir fram almennir skilmálar um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands sem stefnandi hafði undirgengist. Í bæði yfirlýsingu um veðsetningu framangreinds VS-reiknings og almennum skilmálum um viðskipti fjármálafyrirtækja var að finna heimild til fullnustu veðsettra eigna, auk þess sem slík fullnusta hefði verið Seðlabanka Íslands, og síðar stefnda, heimil á grundvelli laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Stefndi hafnar því þannig alfarið að stefnandi hafi mátt ætla að Seðlabanki Íslands hefði falið honum umráð skuldabréfanna og hygðist ekki fullnusta þau. Hvergi sé í kröfulýsingu fallið frá rétti til fullnustu veðanna, en réttur veðhafa til fullnustu þeirra komi skýrlega fram í ýmsum fylgigögnum með kröfulýsingunni, þ.m.t. almennu skilmálunum og yfirlýsingunni um handveð.

        Þá bendir stefndi á að sá skilningur sem stefnandi vill leggja í kröfulýsingu stefnda sé ekki í neinu samræmi við þá atburði sem raunverulega áttu sér stað. Skuldabréfin voru, sem fyrr segir, vörsluð á VS-reikningi hjá Seðlabanka Íslands en ekki var gripið til neinna ráðstafana af hálfu Seðlabanka Íslands til að fela slitastjórn stefnanda umráð skuldabréfanna. Þá hafi slitastjórn stefnanda ekki gert skýra kröfu um afhendingu skuldabréfanna fyrr en með bréfi sínu þann 11. maí 2011, eða um átján mánuðum eftir dagsetningu umræddrar kröfulýsingar og fjórum mánuðum eftir að slitastjórn hafði tekið afstöðu til kröfunnar og samþykkt hana sem veðkröfu að því marki sem veðin dugðu til með endanlegum hætti. Verður þannig ekki séð að slitastjórn stefnanda hafi sjálf talið kröfulýsinguna fela í sér slíka yfirlýsingu um að hún skyldi fara með umráð skuldabréfanna, en ella hefði verið um stórkostlegt hirðuleysi af hálfu slitastjórnarinnar að ræða að hlutast ekki til um afhendingu eigna að verðmæti rúmlega 15 ma. kr. um svo langt skeið.

        Með vísan til alls framangreinds telur stefndi ljóst að honum hafi ekki borið nein skylda til að gefa eftir handveðrétt sinn í umræddum skuldabréfum á grundvelli orðalags kröfulýsingar Seðlabanka Íslands.

        Framangreindu til viðbótar bendir stefndi á að í bréfi stefnanda frá 10. janúar 2011 er boðin fram greiðsla að fjárhæð 13.890.010.109 kr. gegn afhendingu stefnda á umræddum skuldabréfum. Stefndi fær ekki skilið orðalag umrædds bréfs öðruvísi en svo að í því hafi falist loforð um greiðslu framangreindrar fjárhæðar þegar veðin yrðu afhent. Slíkt boð stefnanda virðist hins vegar vera í ósamræmi við þann rétt sem stefnandi taldi sig eiga til skilyrðislausrar afhendingar skuldabréfanna og haldið er fram í stefnu.

        Stefndi bendir hins vegar á að stefnanda hefði verið ómögulegt að standa við slíkt loforð um greiðslu því skv. yfirliti yfir fjárhag stefnanda í skýrslu til kröfuhafa í mars 2011 (dómskjal 23) átti stefnandi einungis tæplega kr. 7,5 ma. í reiðufé í innlendum gjaldeyri í árslok 2010. Stefnandi átti þannig ekki nægilegt reiðufé í innlendum gjaldeyri til að greiða kröfu stefnda eins og boðið var í bréfi stefnanda þann 10. janúar 2011. Fyrrgreind dagsetning hafi því enga réttarverkun í för með sér í máli þessu.

       Stefndi telur að af þeim sökum hafi honum enn síður borið skylda til afhendingar skuldabréfanna, enda hefði hann þá gefið eftir handveðrétt sinn án þess að fá greiðslu skuldar sinnar.

         Stefndi telur málatilbúnað stefnanda um að stefndi hafi borið ábyrgð á fullnustu handveðsettu eignanna vanreifaða. Stefnandi byggi sjálfstætt á því að heimild stefnda til einhliða ráðstöfunar skuldabréfanna upp í kröfu sína hafi fylgt samsvarandi ábyrgð stefnda. Í þessu sambandi byggi stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð á því gagngjaldi sem hann áskildi sér fyrir bréfin og að kröfuhafi sem einhliða ákveði að leita fullnustu í eignum þrotabús beri ábyrgð á þeirri hagsmunaskerðingu sem það kann að valda öðrum kröfuhöfum. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda að þessu leyti hvorki glöggan né skýran. Stefnandi vísi til þess að fullnustu stefnda á hinum veðsettu eignum fylgi samsvarandi ábyrgð, en lýsir ekki í hverju sú ábyrgð kann að felast. Í stefnu komi hvorki fram með hvaða hætti stefnandi varð fyrir tjóni vegna ráðstafana stefnda né leitast við að sanna slíkt tjón með nokkrum hætti.

        Án þess að gera sérstaka kröfu um frávísun málsins af þessum sökum leggur stefndi það heldur í hendur dómsins að meta hvort þetta varði frávísun málsins frá dómi án kröfu.

        Stefndi byggir á því að umrædd skuldabréf hafi staðið til tryggingar öllum kröfum stefnda á hendur stefnanda. Stefnandi átti margsinnis í lánsviðskiptum við Seðlabanka Íslands. Stefnandi lagði fram ýmis verðbréf til tryggingar kröfum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samkvæmt yfirlýsingu um handveð VS-reiknings veðsetti stefnandi Seðlabanka Íslands „VS-reikning nr. 32290 við Seðlabanka Íslands ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma er skráð á reikninginn [...] til tryggingar á öllum fjárskuldbindingum sem veðsali tekst á hendur gagnvart Seðlabankanum hvort sem er vegna viðskipta eða vegna trygginga í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.“ Óumdeilt sé í málinu að umrædd skuldabréf voru skráð á framangreindum VS-reikningi og stóðu þau þannig til tryggingar öllum skuldbindingum stefnanda við Seðlabanka Íslands.

        Eins og lýst hefur verið hafi kröfum Seðlabanka Íslands á hendur stefnanda verið skipt upp þannig að hluti þeirra var framseldur ríkissjóði Íslands m.v. 31. desember 2008. Þannig hafi ríkissjóður Íslands lýst kröfulýsingu í slitameðferð stefnanda vegna hins framselda hluta hinna upphaflegu krafna og hlaut sú krafa númerið 190 í kröfuskrá stefnanda. Seðlabanki Íslands lýsti þeim hluta upphaflegra krafna sem ekki höfðu verið framseldar til ríkissjóðs og hlaut sú kröfulýsing númerið 189 í kröfuskrá stefnanda. Báðar framangreindar kröfur, nr. 189 og 190 í kröfuskrá stefnanda, voru síðar framseldar til stefnda sem er einkahlutafélag í eigu Seðlabanka Íslands og hefur þann tilgang að meðhöndla og innheimta eignir og kröfur Seðlabanka Íslands vegna falls gömlu bankanna.

        Framangreind framsöl voru hluti af innri tilfæringum krafna ríkissjóðs Íslands sem ráðist var í til þess að rétta við efnahag Seðlabanka Íslands. Stefndi bendir sérstaklega á að við umrædd framsöl voru kröfurnar framseldar ásamt veðréttindum, en þetta eigi bæði við um upphaflegt framsal hluta krafna Seðlabanka Íslands til ríkissjóðs og síðari framsöl til stefnda. Hvað sem því líður bendir stefndi á að ekki skipti máli gagnvart stefnanda hvernig framsal krafnanna var en réttarstaða stefnanda gagnvart kröfuhöfum sínum var óbreytt þrátt fyrir framsalið. Ekki liggur neitt fyrir í málinu sem gefur til kynna að Seðlabanki Íslands, eða þeir aðilar sem leiða réttindi sín frá honum, hafi gefið eftir nein réttindi tengd kröfunum gagnvart stefnanda við framsal þeirra sín á milli

        Þau skuldabréf sem tilgreind eru í stefnu stóðu þannig ekki einungis til tryggingar kröfu nr. 189 í kröfuskrá stefnanda, heldur einnig kröfu nr. 190 í sömu kröfuskrá sem lýst var fyrir hönd ríkissjóðs Íslands, að fjárhæð 201.204.380.942 kr., og síðar framseld til stefnda þann 9. febrúar 2010. Framangreindu til stuðnings bendir stefndi á að í kröfulýsingu vegna kröfu nr. 190 í lánabeiðni stefnanda til Seðlabanka Íslands, sem var fylgiskjal 4 með kröfulýsingunni, var vísað til framlagðra trygginga vegna lánsins en meðal þeirra voru þau skuldabréf sem mál þetta snýst um.

        Allt umframverðmæti þeirra veða sem tilgreind eru í kröfulýsingu nr. 189 skuli þannig, skv. upphaflegum samningum Seðlabanka Íslands við stefnanda, ganga upp í kröfu nr. 190. Í þessu sambandi bendir stefndi sérstaklega á að ekki skipti máli hvernig veðin voru tilgreind í kröfulýsingum í slitameðferð stefnanda, en í báðum tilvikum var vísað til fyrrnefndrar yfirlýsingar um handveð yfir VS-reikningi sem er grundvöllur allsherjarveðs stefnda. Þá var stefnda heimilt að fullnusta veðin óháð slitameðferð stefnanda á grundvelli handveðréttarins.       

        Í ljósi þess að óumdeilt er að stefndi á gríðarlegar ógreiddar kröfur á hendur stefnanda telur stefndi fullljóst að stefnandi eigi enga kröfu á hendur honum vegna fullnustu veðanna. Stefndi bendir á að slíkt sé í samræmi við upphaflega skjalagerð vegna lánsviðskipta stefnanda við Seðlabanka Íslands. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem gefa til kynna að nokkurn tímann hafi verið ætlunin að breyta eða takmarka þann veðrétt og þær tryggingar sem stóðu að baki skuldum stefnanda og stefnanda hafi aldrei verið gefið tilefni til að ætla að sú hefði verið raunin.

        Með vísan til framangreinds telur stefndi liggja fyrir að enginn mismunur hafi verið á fullnustuverðmæti veðanna og skuldar stefnanda við stefnda sem stefnda bæri að standa stefnanda skil á. Þvert á móti skuldi stefnandi stefnda enn a.m.k. um 150–160 ma. kr. að teknu tilliti til veða. Dómkröfur stefnanda geri þannig ráð fyrir því að hann hagnist verulega á kostnað stefnda sem er eignarhaldsfélag í eigu ríkissjóðs og leiðir öll kröfuréttindi sín frá Seðlabanka Íslands sem var upphaflegur kröfuhafi allrar kröfufjárhæðarinnar og upphaflegur veðhafi. Með vísan til framangreinds verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.

        Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið stefnda um að honum hafi verið heimilt að fullnusta skuldabréfin til greiðslu annarra skulda stefnanda við hann byggir hann á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur honum, enda væri þá um óréttmæta auðgun stefnanda að ræða. Stefndi byggir á því að yrði niðurstaða máls þessa sú að stefnda, sem leiðir allan rétt sinn frá Seðlabanka Íslands og lánsviðskiptum hans við stefnanda, yrði gert að greiða stefnanda mismun fullnustuverðmætis veðanna og kröfufjárhæð kröfu nr. 189, meðan ljóst er að stefnandi skuldaði Seðlabanka Íslands, og síðar stefnda, engu að síður a.m.k. um 150–160 ma. kr., væri bersýnilega um að ræða óréttmæta auðgun stefnanda á kostnað stefnda.

        Stefndi byggir á því að stefnandi hafi aldrei getað átt von á öðru en að verðmæti þeirra veða sem hann lagði fram til tryggingar öllum skuldbindingum sínum við Seðlabanka Íslands yrði varið til uppgreiðslu þeirra skuldbindinga. Hvað þetta varðar geti ekki skipt máli þó svo að Seðlabanki Íslands og ríkissjóður hafi sammælst um framsal hluta krafnanna, ásamt veðum, sín á milli og kröfurnar hafi síðan verið framseldar til stefnda. Ef stefndi verði dæmdur til greiðslu dómkrafna stefnanda muni það hafa í för með sér að stefndi, einkafélag í einkaeigu Seðlabanka Íslands, sem hefur það eina hlutaverk að fara með eignir og kröfur sem áður tilheyrðu Seðlabanka Íslands og sem leiðir allan rétt sinn frá honum, verði greiðsluskyldur gagnvart aðila á grundvelli lánsviðskipta hans við Seðlabanka Íslands, þrátt fyrir og burt séð frá því að sá aðili hafi skuldað Seðlabanka Íslands, og skuldi nú stefnda a.m.k. 150–160 ma.kr.  

        Stefndi byggir á að ef honum verði gert að greiða stefnanda mismun kröfufjárhæðar kröfu nr. 189 og fullnustuverðmætis veðanna muni stefnandi, án réttmætrar ástæðu, auðgast sem nemur þeirri fjárhæð á kostnað stefnda. Þannig myndu aðrir kröfuhafar stefnanda hagnast á kostnað stefnda en slíkt færi gegn öllum meginreglum gjaldþrotaskiptalaga um jafnræði kröfuhafa. Sem fyrr segir gat stefnandi aldrei átt von á því að eiga rétt til greiðslu slíkra fjármuna úr hendi hvorki Seðlabanka Íslands né stefnda, enda skuldaði hann umtalsverðar fjárhæðir og framlögð veð stóðu til tryggingar öllum þeim skuldum. Hvorki Seðlabanki Íslands né stefndi hafi nokkurn tímann gefið til kynna að framlagðar tryggingar væru að einhverju leyti gefnar eftir gagnvart stefnanda. Auðgun stefnanda á kostnað stefnda væri þannig óréttmæt, en stefndi yrði fyrir samsvarandi tjóni og yrði að greiða dómkröfu stefnanda þrátt fyrir gríðarlegar kröfur hans á hendur honum.

          Með vísan til framangreinds telur stefndi að stefnandi geti ekki átt kröfu á hendur honum, enda byggðist nokkur sú krafa á óréttmætri auðgun stefnanda og samsvarandi tjóni stefnda.

         Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda og talið að stefnandi eigi kröfu á hendur honum, lýsir stefndi hér með yfir skuldajöfnuði gagnvart stefnanda með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

        Stefndi bendir á að hann sé kröfuhafi að umtalsverðum fjárhæðum í slitameðferð stefnanda eins og að framan hafi verið rakið. Kröfurnar megi rekja til lánsviðskipta stefnanda hjá Seðlabanka Íslands eins og nánar er lýst í málsatvikakafla að ofan. Kröfurnar séu samrættar, en þær megi allar rekja til sömu aðstöðu, þ.e. lánsviðskipta við Seðlabanka Íslands. Stefndi telur ljóst að alla jafna væru öll skilyrði skuldajafnaðar uppfyllt, en kröfurnar eru á milli sömu aðila, eru í sama gjaldmiðli og hæfar til að mætast hvað varðar gjalddaga. Hins vegar sé hér til þess að líta að stefnandi sé í slitameðferð og takmarkast réttur til skuldajafnaðar þannig af ákvæðum gjþl.

         Í þessu sambandi bendir stefndi á að 100. gr. gjþl. mælir fyrir um að hver sem skuldi þrotabúi geti dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið. 100. gr. gjþl. setur þó nánar tilgreind skilyrði fyrir skuldajöfnuði, þ.e. að lánardrottinn hafi eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hann hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaður átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfu til að skuldajafna. Stefndi telur að framangreind 100. gr. gjþl. standi þó ekki í vegi fyrir skuldajöfnuði eins og máli þessu er háttað.

        Frestdagur í slitameðferð stefnanda sé 15. desember 2008. Þann 15. desember 2008 var heildarskuld stefnanda við Seðlabanka Íslands a.m.k. 150 ma. kr. Á þeim tíma var þannig aðeins um að ræða einn kröfuhafa og stóðu öll framlögð veð til tryggingar skulda stefnanda við þann kröfuhafa. Það var síðan ekki fyrr en 31. desember 2008, eftir frestdag, sem Seðlabanki Íslands framseldi til ríkissjóðs hluta framangreindra krafna, ásamt öllum réttindum sem þeim fylgdu. Í slíkum framseldum réttindum fólst einnig réttur til skuldajafnaðar gagnvart skuldaranum ef til kæmi. Takmörkunum 100. gr. gjþl. er ætlað að koma í veg fyrir að skuldari þrotamanns fái framseldar kröfur í aðdraganda gjaldþrotaskipta og öðlist þannig rétt til skuldajafnaðar gagnvart þrotabúinu og njóti þannig betri réttar en aðrir kröfuhafar þrotamanns. Hér segir stefndi að ekki sé um slíka aðstöðu að ræða. Hér snúist málið um uppgjör skulda í samræmi við upphaflega skjalagerð aðila og þær tryggingar sem lagðar voru fram vegna skuldanna. Eins og áður greinir var Seðlabanki Íslands eini kröfuhafi að umræddum skuldum stefnanda, jafnt fyrir frestdag og eftir. Framsal hluta heildarskuldar stefnanda við Seðlabanka Íslands átti sér ekki stað fyrr en eftir frestdag í slitameðferð stefnanda.

        Stefndi byggir á því að 100. gr. gjþl. geti ekki tekið til aðstæðna þessara, enda hafi öll kröfuréttindi verið á einni hendi við frestdag og skuldajöfnuður ekki komið til álita með neinum hætti, enda þá verið ljóst að stefnandi átti enga kröfu á hendur Seðlabanka Íslands. Þá eignaðist stefndi ekki kröfu sína á hendur stefnanda á tímabilinu þremur mánuðum fyrir frestdag, eins og 100. gr. gjþl. gerir ráð fyrir. Með vísan til framangreinds og eðlisraka á bak við 100. gr. gjþl. telur stefndi ljóst að 100. gr. geti ekki staðið skuldajöfnuði í vegi í máli þessu.

         Þar sem ljóst sé að stefndi eigi kröfur á hendur stefnanda sem eru miklum mun hærri en dómkröfur stefnanda telur stefndi að beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í málinu.

        Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu gerir stefndi kröfu um lækkun á kröfufjárhæðinni. Varakröfu sína byggir stefndi á því að annars vegar sé fjárhæð kröfu hans á hendur stefnanda, nr. 189 í kröfuskrá, vanreiknuð í stefnu, og hins vegar að verðmæti fullnustueignanna sé ofmetið. Þá er öllum útreikningum á kröfufjárhæð stefnanda harðlega mótmælt sem ósönnuðum og röngum.

        Í stefnu sé vísað til þess að krafa stefnanda nr. 189 í slitameðferð stefnanda hafi verið að fjárhæð 13.890.010.109 kr. Framangreind fjárhæð byggi á þeirri fjárhæð sem tilgreind var í kröfulýsingu Seðlabankans, dags. 3. nóvember 2009 Þá kemur fram að í kröfulýsingunni hafi aðeins verið krafist dráttarvaxta frá gjalddaga og til og með dagsetningu kröfulýsingarinnar, 3. nóvember 2009, en enginn áskilnaður hafi verið uppi um áfallandi vexti eftir þann tíma. Virðist þannig sem stefnandi hafni því að stefndi eigi rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni eftir tímamark kröfulýsingarinnar, en slíkan skilning megi einnig ráða af útreikningum stefnufjárhæðar í stefnu. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði stefnanda og telur að krafa hans hafi notið dráttarvaxta frá kröfulýsingardegi, 3. nóvember 2009, og til fullnustudags, þann 28. maí 2010.

        Í þessu sambandi bendir stefndi á að skv. 5. gr. laga nr. 38/2001 leggjast dráttarvextir á ógreiddar peningakröfur frá og með gjalddaga og fram að fullnustudegi. Þá sé sérstaklega mælt fyrir um í 1. mgr. 15. gr. reglna 35/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands að standi fjármálafyrirtæki ekki í skilum með greiðslu á skuldbindingum sínum frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi skuli greiða dráttarvexti af vanskilaskuldinni sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá gjalddaga til greiðsludags. Stefndi telur þannig að hann hafi að lögum átt rétt til dráttarvaxta á kröfu sína án þess að sérstaklega hafi verið nauðsynlegt að gera áskilnað um slíka vexti í kröfulýsingu. Stefndi bendir á að í 1. tölul. 1. mgr. 114. gr. gjþl. sé mælt fyrir um að „kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu skv. 112. og 113. gr. sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta“ skuli standa að baki kröfum skv. 109.-113. gr. í réttindaröð. Með gagnályktun frá tilvísuðu ákvæði telur stefndi ljóst að vextir sem falla til eftir úrskurðardag njóti ekki rétthæðar skv. 114. gr., heldur falli þeir undir 111. gr., þó að því leyti sem þeim verður fullnægt af andvirði veðsins. Stefndi telur því ljóst að krafa hans, sem lýst var í réttindaröð skv. 111. gr., hafi notið dráttarvaxta allt til fullnustudags, án þess að sérstaklega hafi þurft að gera áskilnað um slíkt í kröfulýsingu, enda hafi andvirði hinna veðsettu skuldabréfa nægt til greiðslu slíkra dráttarvaxta.

        Framangreindu til viðbótar byggir stefndi á því að hann hafi notið handveðréttar í umræddum skuldabréfum til tryggingar öllum kröfum stefnanda við sig, þ.m.t. kröfum vegna dráttarvaxta. Eins og gerð hafi verið grein fyrir að framan stóð handveðréttur stefnda óhaggaður þrátt fyrir töku stefnanda til slitameðferðar og var stefnda heimilt að fullnusta veðin til greiðslu kröfu sinnar í heild sinni. Þar sem Seðlabankanum, eða stefnda, hefði ekki verið nauðsynlegt að lýsa kröfu í slitameðferð stefnanda yfirleitt, að því marki sem andvirði hinna handveðsettu eigna hrökk til, telur stefndi ekki fá staðist að Seðlabankinn verði talinn hafa fallið frá rétti til dráttarvaxta frá kröfulýsingardegi og til fullnustudags þar sem ekki var vikið sérstaklega að slíkum vöxtum í kröfulýsingunni.

        Við kröfulýsingu Seðlabankans þann 3. nóvember 2009 nam fjárhæð kröfu stefnda 13.890.010.109 kr. Dráttarvextir af þeirri fjárhæð til fullnustudags, 28. maí 2010, séu 1.292.556.304 kr. en til frádráttar koma innborganir á tímabilinu 3. nóvember 2009 til 28. maí 2010, samtals að fjárhæð 707.214.841 kr. Heildarkrafa stefnda, vegna veðlána sem hin handveðsettu skuldabréf stóðu m.a. til tryggingar á, hafi þannig verið14.475.351.572 kr. þegar gengið var að húsbréfunum þann 28. maí 2010. Stefndi byggir á því að framangreind fjárhæð, 14.475.351.572 kr. sé sú sem miða skuli við þegar meint krafa stefnanda er reiknuð, en ekki 13.890.010.109 kr. eins og haldið sé fram í stefnu.

        Varðandi viðmiðunarverðmæti hinna fullnustuðu veða sé í stefnu aðallega haldið fram að miða beri verðmæti þeirra trygginga sem stefndi gekk að til fullnustu kröfum sínum við þá dagsetningu þegar stefnandi gerði fyrst kröfu um afhendingu skuldabréfanna, eða þann 10. janúar 2014. Þessum málatilbúnaði stefnanda er mótmælt, en stefndi telur engin rök standa til þess að stefnandi geti með þessum hætti valið sér tímasetningu til verðmats á skuldabréfunum. Framangreindu til viðbótar bendir stefndi á að fullyrðingar stefnanda um markaðsverðmæti skuldabréfanna á umræddum degi séu algjörlega ósannaðar en engin gögn liggi fyrir í málinu um ætlað verðmæti skuldabréfanna á neinum tímapunkti.

        Í fyrsta lagi bendir stefndi á að hann telur óeðlilegt að ákvarða viðmiðunarverðmæti þeirra skuldabréfa sem gengið var að til fullnustu skulda stefnanda við opinberlega skráð gengi þeirra á hverjum tíma. Í þessu sambandi bendir stefndi á að um verulegt magn skuldabréfa var að ræða, eða rúmlega 15 ma. kr. Stefndi byggir á því að ekki sé hægt að selja svo mikið magn einsleitra skuldabréfa í einu án þess að slíkt hafi veruleg áhrif á opinbert verð skuldabréfanna til lækkunar. Í þessu sambandi telur stefndi mjög varlega áætlað að miða við að raunmarkaðsvirði skuldabréfanna geti aldrei talist meira en 99% af opinberlega skráðu virði, en þá sé tekið tillit til þeirra áhrifa sem sala svo margra skuldabréfa í einu hefði í för með sér á verðið.

        Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum stefnda að miða skuli verðmæti skuldabréfanna við þann dag er hann kveðst fyrst hafa krafist afhendingar skuldabréfanna, þann 10. janúar 2011. Í þessu sambandi bendir stefndi á að hann hafði lýst kröfu sinni í slitameðferð stefnanda rúmum fjórtán mánuðum áður, þann 3. nóvember 2009, þar sem skuldabréfin voru tilgreind sem tryggingar fyrir kröfu hans. Þá hafði stefndi jafnframt um átta mánuðum áður, þann 30. maí 2010, tilkynnt stefnanda að hann hefði fullnustað veðin til greiðslu skulda stefnanda við sig. Í ljósi framangreinds sé óskiljanlegt hvernig 10. janúar 2011, sá dagur er stefnandi loks kaus að aðhafast vegna hinna veðsettu skuldabréfa, geti talist rétt tímasetning til mats á verðmæti veðanna. Verði fallist á málatilbúnað stefnanda um að sá dagur er hann kveðst hafa krafist afhendingar skuldabréfanna skuli notaður til viðmiðunar um verðmæti þeirra, gefur það stefnanda í raun sjálfdæmi um við hvaða tímamark verðmæti trygginga skuli miðað, þrátt fyrir að umræddar tryggingar hafi þegar verið fullnustaðar og seldar þriðja aðila. Stefndi telur að slíkt fáist ekki staðist og engin rök standi til þess að miða skuli viðmiðunarverðmæti trygginganna við 10. janúar 2011.

        Varðandi það hvaða tímamark stefndi telur að miða skuli verðmæti skuldabréfanna við byggir hann aðallega á því að eðlilegt sé að miða við markaðsverðmæti skuldabréfanna við kröfulýsingu kröfu nr. 189 í kröfuskrá stefnanda, en þá þegar hafi mátt vera ljóst að verðmæti hinna tilgreindu veða var hærra en lýst kröfufjárhæð. Strax á því tímamarki hafi stefnanda því mátt vera ljóst að hann kynni að eiga kröfu á hendur stefnda. Stefndi byggir á því að hann eigi ekki að bera hallann af því að stefnandi hafi haldið að sér höndum um langt skeið og beðið þess að stefndi kæmi umræddum veðum í verð, í stað þess að hlutast sjálfur til um slíkar ráðstafanir og greiða kröfu stefnda. Stefndi telur þannig að miða eigi við markaðsverðmæti skuldabréfanna þegar stefnandi átti þess fyrst kost að hlutast til um sölu þeirra til fullnustu lýstri kröfu stefnda, eða þann 3. nóvember 2009. Opinberlega skráð markaðsverð umræddra húsbréfa þann dag var 15.256.966.034 kr. en 99% þeirrar fjárhæðar reiknast 15.104.396.373 kr. og er það sú fjárhæð sem stefndi telur eðlilegt að lögð sé til grundvallar sem viðmiðunarverðmæti veðanna.

        Verði ekki fallist á framangreindan málatilbúnað stefnda um að miða skuli við dagsetningu kröfulýsingar hans byggir stefndi á því að í öllu falli verði ekki miðað við síðara tímamark en þegar hann sannanlega gekk að veðunum, seldi þau til þriðja aðila og tilkynnti stefnanda fullnustuna. Eftir að stefndi hafði nýtt samningsbundna og lögákveðna heimild sína til að fullnusta veðin og hafði tilkynnt stefnanda fullnustuna voru veðin ekki lengur í hans vörslu og getur hann ekki borið ábyrgð á þróun verðmætis þeirra eftir það tímamark. Stefndi telur þannig að síðasta tímamark sem sem hægt sé að miða fullnustuverðmæti veðanna við sé sá dagur þegar veðin voru sannanlega fullnustuð og seld þriðja aðila, 28. maí 2010. Opinberlega skráð markaðsverð umræddra húsbréfa þann dag hafi verið 16.075.598.406 kr., en 99% þeirrar fjárhæðar er kr. 15.914.842.422, og er það hæsta fjárhæð sem stefndi telur að hægt sé að miða verðmæti veðanna við.

         Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um fjárhæð kröfu stefnda nr. 189 í kröfuskrá stefnanda og viðmiðunarverðmæti trygginganna telur stefndi ljóst að dómkröfur stefnanda séu of háar. Stefndi byggir aðallega á því að sé miðað við lýsta kröfufjárhæð hans, auk dráttarvaxta til 28. maí 2010, 14.475.351.572 kr., og viðmiðunarverðmæti trygginganna miðað við 99% af opinberu verðmæti þeirra við dagsetningu kröfulýsingar hans, 15.104.396.373 kr., sé ljóst að stefndi geti aldrei átt hærri kröfu á hendur stefnda en 629.044.801 kr.

         Verði ekki fallist á framangreint, heldur notast við lýsta kröfufjárhæð stefnda, auk dráttarvaxta til 28. maí 2010, 14.475.351.572 kr., og viðmiðunarverðmæti ákvarðað 99% af opinberu verðmæti trygginganna á fullnustudegi, þann 28. maí 2010, þ.e. 15.914.842.422 kr., sé hámarkskrafa stefnanda á hendur stefnda þrátt fyrir það aldrei hærri en 1.439.490.850 kr.

        Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, einkum 7. gr. þágildandi reglna nr. 808/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, einkum 13. gr., laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 3. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, einkum 6. og 8. gr., meginreglna veðréttar, einkum um réttarvernd handveðshafa, ólögfestra meginreglna um ólögmæta auðgun, og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

        Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Niðurstaða

        Stefnandi byggir aðallega á því að stefnda hafi borið að afhenda slitastjórn stefnanda umráð þeirra verðbréfa sem stefnandi lagði fram til tryggingar veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands og mál þetta lýtur að. Varðandi skyldu stefnda byggir stefnandi á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og orðalagi kröfulýsingar stefnda. Stefnandi hafi gert kröfu um afhendingu bréfanna þann 10. janúar 2011 en stefndi hafi ekki orðið við þeirri kröfu og hann hafi leitað fullnustu í skuldabréfunum og ráðstafað þeim án samráðs við stefnanda. Stefnda hafi því borið að standa stefnanda skil á verðmæti bréfanna, miðað við það tímamark er stefnandi krafðist afhendingar bréfanna, að frádreginni kröfu stefnda.

        Stefnandi hafði þann 19. febrúar 2008 vegna viðskipta sinna við Seðlabanka Íslands ritað undir Almenna skilmála um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Skuldabréfin voru vistuð í samræmi við 8. gr. almennu skilmálanna.

        Þann 19. febrúar 2008 undirritaði stefnandi yfirlýsingu um veðsetningu VS-reiknings þar sem stefnandi veðsetti Seðlabanka Íslands „VS-reikning nr. 32290 við Seðlabanka Íslands ásamt allri þeirri verðbréfaeign sem á hverjum tíma er skráð á reikninginn“. Þar segir jafnframt að veðið sé sett „til tryggingar á öllum fjárskuldbindingum sem veðsali tekst á hendur gagnvart Seðlabankanum hvort sem er vegna viðskipta eða vegna trygginga í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands“. Þá segir að Seðlabankanum sé heimilt að taka hina veðsettu verðbréfaeign til eignar eða nota andvirði hins veðsetta, í heild eða að hluta, til fullnustu þeirra skuldbindinga og kostnaðar sem veðið á að tryggja, án sérstaks fyrirvara, án atbeina yfirvalda og án þess að fylgt sé formlegri málsmeðferð, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2005.

        Til tryggingar láni að fjárhæð 13.226.886.153 kr. til 7 daga, sem stefnandi óskaði eftir frá Seðlabanka Íslands þann 18. mars 2009, lagði stefnandi fram þau verðbréf sem um er deilt í máli þessu, samtals að markaðsverðmæti 13.957.283.046 kr., og að nafnverði 11.532.661.054 kr., sbr. dómskjal 20.

       Það var síðan þann 3. nóvember 2009 að Seðlabanki Íslands lýsti kröfum í slitameðferð stefnanda vegna þess hluta krafna sinna sem ekki hafði verið framseldur ríkissjóði og fékk kröfulýsingin númerið 189 í kröfuskrá stefnanda. Í kröfulýsingunni er gerð grein fyrir kröfu vegna lánsviðskiptanna að fjárhæð 13.890.010.109 kr. og kröfunni lýst sem veðkröfu. Í kröfulýsingunni eru tilgreind skuldabréf sem sett höfðu verið til tryggingar kröfunni. Sem fylgiskjal með kröfulýsingunni fylgdi handveðssamningur yfir verðbréf á VS-reikningi. Nafnverð þessara skuldabréfa var samtals að fjárhæð 11.434.661.054 kr. Kröfunni var hafnað af slitastjórn stefnanda þann 19. nóvember 2009. Stefndi varð síðan kröfuhafi samkvæmt kröfu nr. 189 þann 9. febrúar 2010, en þá framseldi Seðlabanki Íslands kröfuna til stefnda með öllum réttindum sem henni fylgdi, þar með töldum veðréttindum. Krafan var síðan samþykkt sem veðkrafa skv. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti þann 11. ágúst 2010.

        Handveðsréttur yfir umræddum veðbréfum stofnaðist með gildum hætti og þó bú stefnanda hafi verið tekið til slitameðferðar breytir það ekki réttarstöðu aðila og handveðhafi hefur almennt heimild til að leita fullnustu í veðinu án tillits til skiptanna nema önnur atriði leiði til annarrar niðurstöðu.

        Þó litið yrði svo á að staðlað orðalag í kröfulýsingu Seðlabanka Íslands um að framangreind kröfufjárhæð óskaðist greidd af eignum búsins, í samræmi við úthlutun úr búinu og lýsta réttarstöðu kröfuhafa, hafi falið það í sér að fallið væri frá handveðsrétti sem kröfuhafi naut yfir verðbréfum skráðum á VS-reikningi nr. 32290 og slitastjórn stefnanda hafi þannig verið falin umsjá hinna veðsettu skuldabréfa, þá verður fyrst litið til þess hvort meintar kröfur stefnanda séu fyrndar eins og aðalkrafa stefnda byggir á.

         Eins og rakið var byggir stefnandi kröfur sínar aðallega á því að að stefnda hafi borið að afhenda stefnanda umrædd skuldabréf og fela slitastjórninni ráðstöfun þeirra þó dómkrafa stefnanda í máli þessu sé síðan krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem stefndi fékk í hendur við fullnustu bréfanna að frádreginni kröfu hans í bú stefnanda ásamt vaxtakröfum eins og greinir í stefnu.

         Dómurinn telur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins liggi fyrir að opinbert markaðsverð þeirra skuldabréfa sem tilgreind voru í kröfulýsingu hafi ávallt verið hærra en lýst kröfufjárhæð skv. kröfu nr. 189. Dómkröfur stefnanda í máli þessu styðja ótvírætt þessa niðurstöðu. Þannig verður að telja að stefnanda hafi mátt vera ljóst allt frá dagsetningu kröfulýsingar Seðlabanka Íslands þann 3. nóvember 2009 að hann kynni að eiga kröfu á hendur Seðlabanka Íslands vegna þeirrar fjárhæðar sem var umfram verðmæti veðanna miðað við lýsta kröfufjárhæð, en slitastjórn stefnanda var skipuð þann 19. maí 2009.

        Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er almennur fyrningafrestur kröfuréttinda fjögur ár og samkvæmt 2. gr. laganna reiknast fyrningarfrestur frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt til efnda. Ef kröfuhafi hefur öðlast rétt til efnda byrjar fyrningarfrestur að líða. Í athugasemdum við 2. gr. laganna í frumvarpi því er varð að lögum nr. 150/2007 kemur fram að reglur ákvæðisins um upphaf frestsins séu hlutlægar. Ef kröfuhafi hafi öðlast rétt til efnda byrji fyrningarfrestur að líða og breyti þá engu hvort hann hafði á því tímamarki tök á því að framfylgja kröfu sinni eða vissi um tilvist kröfunnar eða önnur atvik. Ekki verður fallist á að upphafstími fyrningarfrests kröfu stefnanda miðist við það tímamark þegar hann krafði stefnda um afhendingu skuldabréfanna eða við tilkynningu um fullnustu veðanna þann 19. maí 2014. Dráttur slitastjórnar stefnanda á að krefjast afhendingar skuldabréfanna getur ekki leitt til þess að fyrningarfrestur framlengist. Dómurinn telur að stefnandi hafi fyrst átt möguleika á að knýja fram afhendingu verðbréfanna eða umframverðmætis eftir móttöku kröfulýsingar 3. nóvember 2009 og á þeim tíma sé upphaf fyrningarfrests. Stefna var birt í málinu þann 19. maí 2014 og var þá fjögurra ára fyrningarfrestur slíkrar kröfu þegar liðinn og kröfur stefnanda fyrndar, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, sbr. 2. gr. sömu laga. Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

        Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og kveðið er á um í dómsorði.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Stefndi, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, SPB hf.

        Stefnandi greiði stefnda 2.000.000 kr. í málskostnað.