Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Þriðjudaginn 12. maí 2015.

Nr. 328/2015.

Háfell ehf.

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L hf. um að fá að leiða A, forstöðumann fyrirtækjasviðs L hf., og P, fyrrverandi yfirlögfræðing félagsins, sem vitni við aðalmeðferð í máli H ehf. gegn L hf., þar sem aðilarnir deildu um hvort nánar tilgreindir fjármögnunarleigusamningar hefðu verið í íslenskum krónum bundnir ólögmætri gengistryggingu eða erlendum myntum. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar, kom fram að A væri skráður höfundur tveggja af þeim fimmtán samningum sem málið varðaði, auk þess sem hann hefði undirritað annan samninginn fyrir hönd L hf. Þá hefði P setið fundi fyrir hönd L hf. með fyrirsvarsmönnum H ehf. vegna vanskila síðarnefnda félagsins á samningunum. Því mætti ætla að þeir gætu borið um atvik málsins og yrði ekki talið fyrirfram að vætti þeirra væri tilgangslaust fyrir úrslit þess, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að tveir nafngreindir menn yrðu leiddir sem vitni dóminn við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Af  1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður dregin sú ályktun að aðili að einkamáli megi færa sönnur fyrir umdeildum atvikum með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svari munnlega spurningum um slík atvik en ekki sérfræðileg atriði, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. nóvember 2013 í máli nr. 705/2013. Ekki verður ráðið af 44. gr. laganna, á sama hátt og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að unnt sé að leiða vitni í einkamáli til að bera um atriði sem varða ekki beinlínis það atvik er sanna skal en ályktanir má þó leiða af um það. Þó verður með vísan til dómvenju að líta svo á að slíkt sé heimilt, nema dómari telji bersýnilegt að framburður vitnisins sé tilgangslaus til sönnunar og muni því ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt gögnum málsins er Arnar Snær Kárason skráður höfundur að tveimur af þeim fimmtán fjármögnunarleigusamningum sem kröfur sóknaraðila lúta að, auk þess sem hann undirritaði annan samninginn fyrir hönd varnaraðila. Þá mun Pétur Bjarni Magnússon hafa setið fundi fyrir hönd varnaraðila með fyrirsvarsmönnum sóknaraðila vegna vanskila þess síðarnefnda á ofangreindum samningum. Samkvæmt þessu má ætla að þeir báðir geti borið um atvik málsins og verður ekki talið fyrirfram að vætti þeirra sé tilgangslaust fyrir úrslit þess, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Háfell ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2015.

Í aðdraganda aðalmeðferðar í máli þessu, sem fyrirhuguð var 9. apríl s.l., kom upp ágreiningur með aðilum um hvort stefnda væri, með hliðsjón af 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heimilt að leiða sem vitni við aðalmeðferðina þá Arnar Snæ Kárason, núverandi forstöðumann fyrirtækjaviðskiptasviðis stefnda og Pétur Bjarna Magnússon, fyrrverandi yfirlögfræðing stefnda. Í þinghaldi 9. apríl fór fram málflutningur um ágreiningsefni þetta og er það hér til úrskurðar.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að framangreindir tveir einstaklingar gefi vitnaskýrslur í málinu enda geti hvorugur þeirra borið um atvik málsins að eigin raun, líkt og áskilið sé, hvað vitni varði, í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu sé, með hliðsjón af þeirri réttarþróun sem að undanförnu hafi átt sér stað, m.a. með dómum Hæstaréttar í málunum nr. 638/2013 og nr. 717/2013, fyrst og fremst tekist á um hvort stefnanda hafi við gerð þeirra fimmtán „fjármögnunarleigusamninga“, sem fyrir ligggi í málinu og kröfugerð stefnanda sé byggð á, verið lofað að hann myndi eignast umsamda „leigumuni“ í lok „leigutíma“ gegn fyrirfram umsömdu lokagjaldi. Hvorki Arnar Snær Kárason né Pétur Bjarni Magnússson hafi í upphafi komið að samningagerðinni við stefnanda og geti því ekki upplýst um þau atvik, sem máli skipti samkvæmt framangreindu. Engu breyti í þessum efnum þótt Arnar Snær sé á tveimur samninganna tilgreindur sem höfundur, þar sem aðkoma hans að þeim samningum hafi eingöngu verið formleg. Nafn Péturs Bjarna komi hvergi fram á samningunum fimmtán og geti hann, þegar af þeirri ástæðu, ekkert borið um þau atvik sem máli skipti.     

Stefndi krefst þess að þeir Arnar Snær Kárason og Pétur Bjarni Magnússon fái að gefa vitnaskýrslur í málinu og stefnandi verði úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað í þessum þætti málsins. Á því sé byggt að framburður þeirra Arnars Snæs og Péturs Bjarna geti skipt máli hvað fjölmargar málsástæður stefnanda varði, sem snúi ekki eingöngu að upphaflegum samningum aðila. Þá liggi fyrir að Arnar Snær Kárason sé skráður höfundur tveggja þeirra samninga sem fyrir liggi í málinu og stefnandi byggi málatilbúnað sinn á þ.e. samninga nr. 142868-869 og 108658-59-60 auk þess sem hann hafi meðundirritað síðari samninginn. Þá geti hann sem forstöðumaður fyrirtækjaviðskiptasviðs stefnda, frá 2008, borið um þær reglur sem starfsmönnum stefnda hafi borið að fara eftir í samskiptum við viðskiptamenn stefnda. Hvað Pétur Bjarna Magnússon varði hafi hann, sem yfirlögfræðingur stefnda, átt fundi með fyrirsvarsmönnum stefnanda m.a. vegna vanskila stefnanda auk þess sem hann, sem yfirlögfræðingur félagsins frá 1990 – 2010, hafi haft yfirumsjón með allri skjalagerð félagsins og þá m.a. þeirri skjalagerð sem legið hafi til grundvallar viðskiptum stefnda og stefnanda. Þannig sé ljóst að bæði Arnar Snær Kárason og Pétur Bjarni Magnússon geti borið um atvik málsins í merkingu 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 og geti skýrslur þeirra fyrirfram ekki talist bersýnilega þýðingarlausar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga.

Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað, að aðili að einkamáli megi færa þar sönnur fyrir umdeildu atviki með því að leiða fyrir dóm vitni sem svari munnlega spurningum um slík atvik, að eigin raun., sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 21. maí 1996 í máli nr. 190/1996 og dóma réttarins 3. júní 2013 í máli nr. 321/2013, 28. október 2013 í máli nr. 631/2013 og 18. nóvember 2013 í máli nr. 705/2013. Þá verður með hliðsjón af dómvenju að telja að heimilt sé að leiða vitni í einkamáli til að bera um atriði, sem ekki varði beinlínis það atvik sem sanna skal, nema dómari telji bersýnilegt að framburður vitnisins sé tilgangslaus til sönnunar og muni því ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, sbr. áður tilgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 705/2013.

Í máli þessu er deilt um hvort tilteknir fimmtán samningar stefnanda og stefnda séu skv. formi sínu og efni leigusamningar eða lánssamningar og hvort ákvæði þeirra, sem tengja greiðslur stefnanda tilgreindum erlendum myntum, brjóti í bága við 13. sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og séu því ógild.

Fyrir liggur að nafn Arnars Snæs Kárasonar kemur fram á tveimur þeirra fimmtán samninga sem um er deilt í málinu. Er hann tilgreindur sem meðhöfundur þeirra beggja og meðundirritar annan samninginn f.h. stefnda. Þá liggur fyrir að Arnar Snær hefur verið forstöðumaður fyrirtækjaviðskiptasviðis stefnda frá 2008 og er því haldið fram af stefnda að hann geti vegna þeirrar stöðu sinnar upplýst hvaða reglum starfsmenn stefnda hafi átt að fylgja m.a. þegar viðskiptamönnum hafi verið gefinn kostur á að kaupa andlög fjármögnunarleigusamninga. Arnar Snær Kárason getur því af eigin raun borið um atvik málsins og verður ekki talið fyrirfram að framburður hans um önnur atriði en samningana tvo sé tilgangalaus og geti ekki skipt máli fyrir úrslit málsins.

Hvað Pétur Bjarna Magnússon varðar, verður ekki talið fyrirfram að framburður hans geti ekki skipt máli fyrir úrslit málsins með hliðsjón af stöðu hans hjá stefnda sem að sögn fól m.a. í sér yfirumsjón með allri skjalagerð félagsins. Þá er því haldið fram af stefnda að Pétur Bjarni hafi f.h. stefnda setið fundi með fyrirsvarsmönnum stefnanda vegna vanskila stefnanda skv. þeim samningum sem um er deilt i málinu.

Með vísan til framangeinds verður stefnda heimilað að leiða Arnar Snæ Kárason og Pétur Bjarna Magnússon sem vitni við aðalmeðferð máls þessa til að bera um atvik málsins og annað sem þýðihgu getur haft við úrlausn þess. Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíði efnisdóms.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Stefnda, Lýsingu hf., er heimilt að leiða Arnar Snæ Kárason og Pétur Bjarna Magnússon sem vitni. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.