Hæstiréttur íslands
Mál nr. 340/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Lögveð
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 340/2002. |
Búnaðarbanki Íslands hf. (Brynjólfur Kjartansson hrl.) gegn Vatnsorku ehf. og (enginn) Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Lögveð.
Nauðungarsala fór fram á fasteign sem hafði verið skipt með eignaskiptayfirlýsingu í tvo aðskilda eignarhluta. Í málinu var deilt um hvort greiða skyldi lögveðskröfu vegna gatnagerðargjalda að fullu af söluverði annars eignarhlutans eða að hálfu af söluverði hvors þeirra. Í dómi héraðsdóms var talið að veð hvíldi að fullu á þeirri eign sem væri upphaflega veðsett, en skiptist ekki sjálfkrafa niður þó henni væri síðar skipt upp. Niðurskiptingu veðs yrði þar af leiðandi ekki við komið nema lög heimiluðu slíkt eða samþykki viðkomandi veðhafa kæmi til. Þættu ekki standa rök til þess að aðrar reglur giltu að þessu leyti um lögveð. Var því fallist á að lögveðskrafan skyldi greidd að fullu af söluverði annars eignarhlutans í stað þess að greiðast að hálfu af söluverði hvors þeirra. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júlí 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðilans Sjóvá-Almennra trygginga hf. um nánar tilteknar breytingar á ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 6. mars 2002 um úthlutun söluverðs eignarhluta nr. 0101 og 0102 í fasteigninni Norðurtanga 5 á Akureyri, eign varnaraðilans Vatnsorku ehf. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði staðfest, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn Vatnsorka ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.
Varnaraðilinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað og sóknaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Getur hann því ekki komið að fyrir Hæstarétti kröfu um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 6. mars 2002 um úthlutun söluverðs eignarhluta nr. 0101 og 0102 í fasteigninni Norðurtanga 5 á Akureyri er breytt þannig að lögveðkrafa Akureyrarbæjar vegna gatnagerðargjalda, að fjárhæð 4.350.071 króna, skal greiðast að fullu af söluverði fyrrnefnda eignarhlutans í stað þess að greiðast að hálfu af söluverði hvors þeirra.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júlí 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. maí s.l. barst dómnum með bréfi Sveins Jónatanssonar hdl., dags. 26. mars 2002.
Sóknaraðili málsins er Sjóvá Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík. Varnaraðilar eru Vatnsorka ehf., kt. 510200-3650, Fannarfold 72, Reykjavík og Búnaðarbanki Íslands hf., kt. 490169-1219, Austurstræti 5, Reykjavík.Kröfur sóknaraðila, eru þær að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri frá 6. mars 2002, um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn frumvörpun til úthlutunar söluverðs fasteignanna Norðurtanga 5, Akureyri, hluta 0101 og Norðurtanga 5, Akureyri, hluta 0102, verði felld úr gildi og honum gert að ráðstafa uppboðsandvirði Norðurtanga 5, Akureyri, hluta 0101, mál nr. 181/2001, til greiðslu á lögveðskröfu Akureyrarbæjar vegna gatnagerðargjalda að fjárhæð kr. 4.350.071, þannig að hún greiðist að fullu af uppboðsandvirði þeirrar eignar í samræmi við stöðu hennar í veðröð og að teknu tilliti til hugsanlegra rétthærri lögveðsréttinda. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi vegna reksturs þessa máls auk virðisaukaskatts.
Kröfur varnaraðila, Búnaðarbanka Íslands hf., eru þær að sú niðurstaða sýslumannsins á Akureyri, að breyta ekki frumvörpum til úthlutunar á uppboðsandvirði fasteignanna Norðurtanga 5, eignarhluta 0101 og 0102, Akureyri, verði staðfest af héraðsdómi, þannig að söluandvirði eignanna verði úthlutað samkvæmt fyrirliggjandi frumvörpum. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ekki hafa komið fram kröfur af hendi annarra varnaraðila.
Í máli þessu er deilt um hvort lögveðsréttur hvíli að fullu á veðsettri eign, eða skiptist sjálfkrafa niður við síðari skiptingu eignarinnar. Ágreiningur aðila lýtur þannig að því hvort ráðstafa eigi uppboðsandvirði fasteignarinnar Norðurtanga 5, hluta 0101 og 0102, þannig að lögveðskrafa deilist niður á hluta eignarinnar eftir skiptingu hennar, eða hvort hún greiðist að fullu af uppboðsandvirði þess hluta sem fyrr var seldur.
Málavextir eru þeir að þann 12. desember 2001 voru fasteignirnar Norðurtangi 5, Akureyri, hlutar 0101 og 0102, seldar á nauðungaruppboði af sýslumanninum á Akureyri. Fyrra uppboðið, þ.e mál nr. 181/2001, vegna hluta 0101, fór fram kl. 11:45 en hið seinna þ.e mál nr. 182/2001 vegna hluta 0102, fór fram kl. 12:00. Á báðum uppboðunum var lögð fram kröfulýsing frá Akureyrarbæ vegna gatnagerðargjalda að fjárhæð 5.056.590, og var kröfunni lýst að fullu í báða eignarhlutana. Á báðum uppboðunum kom fram ósk frá varnaraðila Búnaðarbanka Íslands hf., um að framangreindum gatnagerðargjöldum yrði skipt hlutfallslega á báða eignarhluta fasteignarinnar. Þessu mótmælti sóknaraðili, Sjóvá-Almennar, sem taldi að engin lagaheimild væri til þess að skipta upp gatnagerðargjöldum með þessum hætti, þegar þeim væri lýst að fullu í tiltekin eignarhluta og því giltu sömu sjónarmið um þau og önnur krossveð sem næðu til fleiri en einnar eignar. Akureyrarbær lýsti því yfir að hann teldi að hvor eignarhluti um sig stæði að fullu fyrir gatnargerðargjöldum þeim sem lýst var og því væru kröfulýsingar réttmætar.
Þann 9. janúar 2002, gerði sýslumaðurinn á Akureyri frumvarp til úthlutunar söluverðs hvorrar fasteignar um sig, þar sem þeim hluta kröfu Akureyrarbæjar vegna gatnagerðargjalda sem tekin var til greina var skipt upp þannig að kr. 2.175.036, skyldu greiðast af uppboðsandvirði hluta 0101 og kr. 2.175.035, skyldi greiðast af uppboðsandvirði hluta 0102.
Þessari úthlutun var mótmælt af sóknaraðila með bréfi dags. 28. janúar 2002, og voru mótmælin tekin fyrir á fundi hjá sýslumanni þann 6. mars 2002. Einungis var mætt af hálfu sóknaraðila. Á fundinum hafnaði fulltrúi sýslumanns mótmælum sóknaraðila þar sem um væri að ræða lögveðskröfu vegna gatnagerðargjalda sem ekki væri sambærileg krafa og ef um væri að ræða samningsveð. Jafnframt byggði fulltrúi sýslumanns á því að gatnagerðargjöld væru gjöld sem lögð væru á fasteignir samkvæmt lögum og þau væru ákvörðuð út frá stærð fasteigna, og því yrði að skipta gjöldum sem lögð væru á eignina sem heild eftir þeim hlutföllum sem eigninni hefði verið skipt í samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, þannig að lögveðsréttur fylgi eingöngu þeirri álagningu sem tilheyri hvorum hluta samkvæmt stærð. Á fundinum lýsti sóknaraðili því yfir að hann myndi bera þessa ákvörðun sýslumanns undir Héraðsdóm Norðurlands eystra. Dómnum barst svo bréf Sveins Jónatanssonar hdl., dags. 26. mars 2002, þar sem hann krefst þess fyrir hönd sóknaraðila að ofangreind ákvörðun sýslumannsins á Akureyri verði felld úr gildi.
Sóknaraðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggir kröfur sínar á því að skv. 4. gr. laga nr. 17/1996 og 14. gr. reglugerðar nr. 543/1996 sé gatnagerðargjald tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði sem kann að vera til staðar í eigninni eða kemur til síðar. Lagaákvæðið verði ekki skýrt öðruvísi en að lögveð þetta nái til fasteignarinnar í heild og hvíli því á öllum hlutum hennar sé henni skipt upp síðar. Þetta sé í samræmi við almennar reglur veðréttar um þá aðstöðu þegar veði er þinglýst á eign og henni síðar skipt upp, en þá hvíli veðið að fullu á hverjum eignarhluta fyrir sig, en skiptist ekki sjálfkrafa niður á þá. Skv. þessu megi vera ljóst að atbeina og samþykki veðhafa þurfi til slíkrar niðurskiptingar veðsins. Það sé því ótvíræður réttur sveitarfélagsins að lýsa kröfu að fullu í hvorn eignarhluta fasteignarinnar við sölu hans og fá úthlutað af söluverði eignarhlutans að því marki sem þarf til að fá kröfu vegna gatnagerðargjalds greidda ásamt kostnaði og áföllnum vöxtum. Hafi sýslumanni því verið skylt að úthluta söluandvirði samkvæmt því.
Sóknaraðili mótmælir rökstuðningi fulltrúa sýslumannsins á Akureyri fyrir ákvörðun sinni. Telur hann þá túlkun sýslumanns að skipta verði gjöldum í samræmi við þau hlutföll sem eign hefur verið skipt í, ekki eiga sér lagastoð og vera í algerri andstöðu við fyrrnefndar meginreglur veðréttar. Verði þeirri skiptingu sem sýslumaður framkvæmdi því ekki beitt gegn skýlausum kröfum Akureyrarbæjar og sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir jafnframt á því að sýslumaður geti ekki skipt upp kröfu samkvæmt kröfulýsingu Akureyrarbæjar vegna gatnagerðargjalda þar sem ekki hafi komið fram krafa um það á veðhafafundi þeim sem haldinn var 6. mars 2002 og sérstaklega var boðað til vegna mótmæla sóknaraðila. Telur hann þetta ekki eiga sér lagastoð, enda óviðeigandi að sýslumaður taki að sér hagsmunagæslu fyrir tiltekna veðhafa í ágreiningi þeirra á milli þegar ekki er mætt af hálfu viðkomandi veðhafa.
Sóknaraðili telur að samkvæmt framasögðu hvíli umrædd gatnagerðargjöld á báðum eignarhlutum fasteignarinnar Norðurtanga 5, Akureyri. Veðþolar verði að una því í þessu tilviki, eins og veðþolar í krossveðstilvikum almennt, að miklu geti varðað hvor hinna krossveðsettu eigna sé seld á undan.
Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir sóknaraðili á því að hann sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Varnaraðili, Búnaðarbanki Íslands hf., tekur undir þau rök sýslumannsins á Akureyri að lögveðskrafa vegna gatnagerðargjalda sé ekki sambærileg samningsveðkröfu. Gatnagerðargjöld, sem samkvæmt lögum nr. 17/1996 eru lögð á fasteignir, séu samkvæmt 3. gr. þeirra laga ákvörðuð út frá lóðarstærð, rúmmáli og/eða flatarmáli húss. Því sé rökrétt að skipta gjöldunum sem lögð eru á eignina í heild eftir þeim hlutföllum sem eigninni hefur verið skipt í samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, þannig að lögveðsréttur fylgi eingöngu þeirri álagningu sem tilheyri hvorum hluta samkvæmt stærð. Varnaraðili telur þá niðurstöðu, að einungis annar hluti eignarinnar verði látinn bera gatnagerðargjöldin, óeðlilega og leiða til þess að hagsmunir samningsveðhafa verði fyrir borð bornir og tilviljunum háðir.
Varnaraðili heldur því jafnframt fram að þar sem gatnagerðargjöld séu opinber gjöld sem lögð séu á með lögboði verði að leita þeirrar niðurstöðu sem síst íþyngir þeim sem hlut eigi að máli.
Ofangreint telur varnaraðili eiga að leiða til þess að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri um fyrrnefnda úthlutun verði staðfest.
Af hálfu Vatnsorku ehf. hefur ekki verið sótt þing í málinu.
Álit dómsins:
Skv. 1. gr. laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 543/1996, sbr. 2. gr. og 9. gr. gjaldskrár um gatnagerðargjald á Akureyri frá 15. desember 1998, er gatnagerðargjald tengt veitingu byggingarleyfis og verður gjaldkræft við samþykkt aðalteikningu og/eða veitingu byggingarleyfis. Í 9. gr. gjaldskrárinnar er heimilað að gera greiðslusamning um gjaldið. Samkvæmt 4. gr laga nr. 17/1996, sbr. 14. gr reglugerðar nr. 543/1996 ber lóðarhafi ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds. Gjaldið er tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign og gengur sá réttur framar hvers konar samningsveði og aðfararveði.
Í máli þessu er um að ræða gatnagerðargjald sem lagt er á fasteignina Norðurtanga 5, Akureyri. Óumdeilt er að samningur um greiðslu gatnagerðargjalds komst á þann 29. maí 2000. Þá þegar stofnaðist til lögveðsréttar Akureyrarbæjar í heildarlóðinni Norðurtanga 5, Akureyri til tryggingar kröfu hans til heimtu umrædds gjalds. Fasteigninni var síðar skipt upp í tvo eignarhluta, Norðurtanga 5, hluta 0101 og 0102, með þinglýstri eignarskiptayfirlýsingu dags. 6. september 2000.
Varnaraðili, Búnaðarbanki Íslands hf., gerir hér þær kröfur, að gatnagerðargjald það sem upphaflega var lagt á eignina Norðurtanga 5, Akureyri, óskipta, skiptist eftir hlutföllum samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, og lögveðsréttur fylgi eingöngu þeirri álagningu sem tilheyri hvorum eignarhluta skv. stærð. Í lögum er hvergi að finna heimild til að skipta veði með þessum hætti án samþykkis veðhafa, en veðhafinn í máli þessu, Akureyrarbær, hefur ekki heimilað slíka skiptingu.
Samkvæmt almennum reglum veðréttarins hvílir veð að fullu á eign þeirri sem upphaflega er veðsett, en skiptist ekki sjálfkrafa niður þó að henni sé síðar skipt upp. Niðurskiptingu veðs verður þar af leiðandi ekki við komið nema lög heimili slíkt eða samþykki viðkomandi veðhafa komi til. Þykja ekki standa rök til þess að aðrar reglur gildi að þessu leyti um lögveð. Engu breytir í þessu sambandi að hér er um að ræða opinber gjöld sem lögð eru á fasteignaeigendur einhliða og með lagaboði.
Samkvæmt framansögðu hvílir lögveð fyrir margnefndu gatnagerðargjaldi á báðum eignarhlutum nefndrar fasteignar óskipt. Stendur eignin því í heild til tryggingar kröfu veðhafans Akureyrarbæjar um greiðslu gjaldsins og var Akureyrarbæ því heimilt að lýsa kröfu sinni að fullu í hvorn eignahluta. Ber því að taka til greina kröfu sóknaraðila.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á l y k t a r o r ð:
Lagt er fyrir sýslumanninn á Akureyri að ráðstafa uppboðsandvirði Norðurtanga 5, Akureyri, hluta 0101, mál nr. 181/2001, til greiðslu á lögveðskröfu Akureyrarbæjar vegna gatnagerðargjalda að fjárhæð kr. 4.350.071, þannig að hún greiðist að fullu af uppboðsandvirði þeirrar eignar í samræmi við stöðu hennar í veðröð og að teknu tilliti til hugsanlegra rétthærri lögveðsréttinda.
Málskostnaður fellur niður.