Hæstiréttur íslands

Mál nr. 710/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 22. desember 2010.

Nr. 710/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og b. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2010 sem barst réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. janúar 2011 klukkan 16.  Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur en þó þannig að gæsluvarðhaldinu verður markaður sá tími sem í dómorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. janúar 2011 kl. 16.00.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, fæddum [...], lettneskum ríkisborgara, verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. janúar 2011 kl. 16:00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður skemmri tími en til þrautavara að hann verði einungis úrskurðaður í farbann.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að kærði hafi komið til landsins laugardaginn 4. desember 2010 með flugi frá Kaupmannahöfn. Hann hafi að sögn verið að koma frá Riga í Lettlandi. Í farangri hans hafi fundist þrjár pakkningar með dufti sem gefið hafi svörun sem fíkniefni og því hafi efnin verið haldlögð af lögreglu. Í ljós hafi komið að um var að ræða 485,52 grömm af ávana- og fíkniefninu Mefedron. Samkvæmt matsgerð A, prófessors við Háskóla Íslands, sé efnið af umtalsverðum styrkleika. Sé styrkur mefedronbasa 69% sem samsvari 83% af mefedronklóríði. Samkvæmt reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sé efnið í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil séu á íslensku yfirráðasvæði, sbr. reglugerð nr. 789/2010 frá 4. október 2010. Lögregla hafi óskað eftir ítarlegri matsgerð frá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í  lyfja- og eiturefnafræði, þar sem nánari grein verði gerð fyrir hættueiginleikum efnisins. Þá sé óskað mats á því hvað búast megi við að hægt sé að búa til mikið magn efnis úr því, sem kærði kom með, miðað við  líklegan styrkleika efnisins þegar þess sé neytt. Lögð sé áhersla á að samkvæmt matsgerð, sem þegar liggi fyrir, virðist um mikinn styrkleika að ræða.

Kærði hafi skýrt frá því að efnið væri baðsalt og væri ætlunin að gefa þetta. Honum hafi í framhaldi af þessu verið sleppt. Kærði hafi svo verið handtekinn á lögreglustöðinni á Suðurnesjum 13. desember sl. er hann hafi komið ásamt tveimur öðrum mönnum þangað til að vitja um efnið.

Annar þeirra manna sem hafi komið á flugvöllinn að sækja kærða 4. desember sl. heiti Y, f. [...], búsettur að [...], Reykjavík. Hann hafi komið með kærða á lögreglustöðina 13. desember og hafi einnig verið handtekinn. Í skýrslu X hjá lögreglu hafi komið fram að sá maður, Y, hafi keypt farseðilinn fyrir X og einnig að Y hafi verið sá maður sem hafi átt að fá fíkniefnin. Skýrslum þessara manna beri ekki saman.

Y var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 14. desember sl. gert að sæta farbanni til 14. janúar nk.

Kærði, X, hafi skýrt frá því að hafa keypt efnin sem hann hafi flutt til landsins í Riga og talið að um baðsalt væri að ræða. Þyki þetta fjarstæðukennt. Kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna rökstudds gruns um að hann standi að innflutningi á umtalsverðu magni  af ávana- og fíkniefnum.

Fram kemur að rannsókn þessa máls sé nokkuð á veg komin. Kærði sé útlendingur sem ekki sé vitað til að hafi sérstök tengsl við landið og þykir mega ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér undan saksókn verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það magn fíkniefna, sem hafi fundist í fórum kærða þyki benda til að um stórfellt brot sé að ræða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en brot gegn þeirri grein varða fangelsi allt að 12 árum.

Þykir nauðsynlegt með vísan til framanritaðs, rannsóknarhagsmuna og að hætta þykir á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, að kærða verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. janúar 2011 kl. 16.00.

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. desember sl., sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 696/2010. Með vísan til framanritaðs og gagna málsins er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er ólokið og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsóknina, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því fyrir hendi í málinu. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur að því er virðist engin sérstök tengsl við Ísland. Eru því einnig uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. janúar  2011 kl. 16.00.