Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2015

Sigurjón Þorvaldur Árnason (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) og Yngvi Örn Kristinsson (Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)
gegn
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Hlutabréf
  • Skaðabætur
  • Vátrygging
  • Ábyrgðartrygging

Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort S og Y hefðu í störfum sínum hjá L hf. valdið honum skaðabótaskyldu fjártjóni með athöfnum sínum eða athafnaleysi í tengslum við nánar greind hlutabréfakaup á árunum 2007 til 2008 og þá hve hárri fjárhæð tjónið hafi numið. L hf. reisti skaðabótakröfu sína meðal annars á því að S og Y hefðu brotið áhættureglur bankans með því að fara fram úr leyfilegum áhættumörkum vegna viðskiptanna, ekki gert formlega samninga við viðskiptamenn um kaup á hlutabréfunum og að skort hefði tilskilið samþykki yfirmanna bankans. Þá taldi L hf. að kaupin hefðu brotið í bága við 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 134. gr. síðastgreindu laganna væru framkvæmdastjórar hlutafélags skyldir að bæta félaginu það tjón, er þeir hefðu valdið því í störfum sínum, hvort sem væri af ásetningi eða gáleysi. Með hliðsjón af samþykktum L hf. var talið að S, sem hafði verið bankastjóri L hf., hefði gegnt störfum framkvæmdastjóra samkvæmt fyrrgreindum lögum. Þá hefði Y verið skyldur á grundvelli sakarreglunnar til að bæta L hf. það tjón er rakið yrði til gáleysis hans eða ásetnings í starfi sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Samkvæmt ráðningarsamningum S og Y hafði L hf. skuldbundið sig til að taka vátryggingu, svonefnda hefðbundna stjórnendatryggingu, þeim til hagsbóta. Þá hafði L hf. árið 2012 áskilið sér rétt til að krefja vátryggjendur um greiðslu á þeim bótum og kostnaði sem S og Y yrðu dæmdir til að greiða í þessu máli. Að þessu hvoru tveggja virtu var talið að skort hefði á að viðhlítandi sönnur hefðu verið færðar fyrir því að tjónið, sem L hf. teldi að S og Y hefðu valdið sér og málssókn hans lyti að, væri þess eðlis að það hefði ekki fengist bætt úr stjórnendatryggingunni ef eftir því hefði verið leitað án ástæðulauss dráttar. Þar sem L hf. bæri eðli máls samkvæmt hallann af þeim sönnunarskorti hefði hann vegna fyrrnefndrar skuldbindingar sinnar um að halda S og Y skaðlausum vegna tjóns, sem þeir kynnu að valda í störfum sínum, firrt sig rétti til að krefja þá um bætur á framangreindum málsgrundvelli. Voru S og Y því sýknaðir af kröfu L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. september 2015. Þeir krefjast hvor um sig aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 4. desember 2015. Hann krefst þess að aðaláfrýjendum verði sameiginlega gert að greiða sér 1.208.244.352 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 7. nóvember 2007 til 18. október 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Ágreiningurinn sem til úrlausnar er í máli þessu lýtur að því hvort aðaláfrýjendur hafi í störfum sínum hjá gagnáfrýjanda valdið honum skaðabótaskyldu fjártjóni með athöfnum sínum eða athafnaleysi í tengslum við nánar greind hlutabréfakaup á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til 7. október 2008 og þá hve hárri fjárhæð tjónið hafi numið.

1

Samkvæmt málsgögnum voru aðaláfrýjendur ráðnir til starfa hjá gagnáfrýjanda, sem þá hét Landsbanki Íslands hf., í aprílmánuði 2003, Sigurjón sem bankastjóri og Yngvi Örn sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands 22. apríl 2003 sagði meðal annars: „Bankaráð Landsbanka Íslands hf. hefur ráðið Sigurjón Þ. Árnason sem bankastjóra við hlið Halldórs J. Kristjánssonar. Bankastjórarnir munu fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að Halldór fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál ... Skipulagsbreytingar bankans verða þær helstar að núverandi verðbréfasviði verður skipt í tvennt. Annars vegar eignastýringarsvið, sem annast eignastýringu, sérbankaþjónustu, lífeyris- og líftryggingarþjónustu og samræmda bakvinnslu allra verðbréfaviðskipta, og hins vegar verðbréfasvið sem mun annast alla verðbréfamiðlun samstæðunnar, gjaldeyrismiðlun, afleiðuviðskipti auk verkefna fjármálamarkaða og rannsókna og greininga, sem nú eru á alþjóða- og fjármálasviði. Sérstakt áhættustýringarsvið er lagt niður og áhættustýring og gæðamál verða á alþjóðasviði en sérstakt lögfræðisvið verður stofnað og yfirtekur það útlánaeftirlit og samræmda lögfræðiþjónustu.“ Í tilkynningunni kom fram að starfssvið bankans, átta talsins, heyrðu samkvæmt skipuriti hans beint undir bankastjórana tvo og lyti hvert þeirra stjórn sérstaks framkvæmdastjóra, þar á meðal stýrði aðaláfrýjandinn Yngvi Örn verðbréfasviðinu. Þá væri framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, Brynjólfur Helgason, staðgengill bankastjóra. Í minnisblaði til þáverandi bankaráðs gagnáfrýjanda frá formanni þess 16. apríl 2003 var meðal annars tekið fram að samfara áðurgreindum breytingum á skipulagi bankans yrði Halldór J. Kristjánsson „formaður bankastjórnar og talsmaður bankans“, en aðaláfrýjandinn Sigurjón varaformaður hennar.

Samþykktir gagnáfrýjanda hafa ekki verið lagðar fram í málinu. Í dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014, sem hefur samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir, er lýst efni samþykktanna sem giltu á þeim tíma er hér skiptir máli. Eftir 18. grein þeirra var stjórn félagsins, sem samkvæmt samþykktunum nefndist bankaráð, skipuð fimm mönnum. Í 20. grein samþykktanna var kveðið á um að bankaráð hefði „yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög sem um starfsemina gilda, reglur og samþykktir og hefur eftirlit með rekstri bankans.“ Ennfremur sagði þar: „Bankaráð annast ráðningu bankastjóra og ákveður fjölda þeirra og starfskjör. Bankaráð staðfestir ráðningu staðgengla bankastjóra samkvæmt tillögu þeirra. Bankaráð skal setja reglur um verkaskiptingu ráðsins og bankastjóra, sem taka skulu mið af ákvæðum laga um hlutafélög ... Bankaráð setur sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa þess.“ Svofelld ákvæði voru í 21. grein samþykktanna: „Framkvæmdastjórar félagsins, skv. lögum um fjármálafyrirtæki, nefnast bankastjórar. Bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum. Þeim ber að sjá um að bankareksturinn sé í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs. Bankastjórar sitja fundi bankaráðs nema bankaráð ákveði annað. Bankastjórar halda gerðabók þar sem þeir skrá helstu ákvarðanir sínar.“

Aðaláfrýjendur gegndu báðir störfum sínum hjá gagnáfrýjanda fram yfir 7. október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið ákvað á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, að taka yfir vald hluthafafundar í bankanum, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Með 3. tölulið ákvæðis til bráðabirgða II laga nr. 44/2009, sem breyttu ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002, tók skilanefndin við réttindum og skyldum hluthafafundar og stjórnar bankans. Þegar sú skipan féll úr gildi 1. janúar 2012, sbr. a. lið 8. gr. laga nr. 78/2011 um breyting á lögum nr. 161/2002, tók slitastjórn gagnáfrýjanda, sem skipuð hafði verið í apríl 2009, við þeim réttindum og skyldum samkvæmt 4. mgr. 101. gr. síðastnefndu laganna.

2

Meðal gagna málsins eru ódagsett drög að áhættureglum fyrir gagnáfrýjanda. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi er óumdeilt að drögin höfðu að geyma þær reglur, sem giltu á árunum 2007 og 2008, að minnsta kosti þær sem á reynir við úrlausn máls þessa, þó með einni undantekningu eins og vikið verður að hér á eftir. Upphaf greinar 9.2 í áhættureglunum var svohljóðandi: „Framkvæmdastjóri verðbréfasviðs ber ábyrgð á og stýrir markaðsáhættu móðurfélags Landsbankans.“ Þá sagði í grein 9.3: „Framkvæmdastjóri stýrir og ber ábyrgð á mótaðilaáhættu síns sviðs.“ Grein 16 hljóðaði svo: „Áhættustýring heldur utan um stöður deilda á Verðbréfasviði og ber saman stöður við þær heimildir sem hafa verið ákveðnar í stefnumörkun og settar fram í þessum áhættureglum. Dagleg skýrsla áhættustýringar tekur saman brot á heimildum vegna stöðu deilda. Heimildarbrot berast áskrifendum þeirrar skýrslu sem eru bankastjórar, framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs, forstöðumaður fjárstýringar auk starfsmanna áhættustýringar. Forstöðumenn deilda á Verðbréfasviði fá sent í tölvupósti tilkynningu um heimildarbrot.“ Í grein 21.4 í reglunum, sem fjallaði um verðbréfamiðlun, skammstöfuð VM, var svohljóðandi ákvæði samkvæmt framangreindum drögum: „Einnig fær VM allt að 900 mkr. heimild í miðlunarbók hlutabréfa II til að safna hlutabréfum fyrir viðskiptavini með samþykki forstöðumanns VM og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs. Heimildin miðast við að hvert verkefni taki ekki lengri tíma en einn mánuð í senn og að ekki sé um hærri fjárhæð að ræða en 300 mkr. fyrir hvern viðskiptamann. Sé um hærri fjárhæð að ræða skal leitað skriflegrar heimildar bankastjórnar, þar sem fram komi hversu lengi heimildin skal standa og heildarfjárhæð kaupanna.“ Þá sagði í grein 21.4.6: „Heimildir Verðbréfamiðlunar til stöðutöku eru bundnar við að fyrir liggi samningur um endanleg kaup viðskiptamanns á því sem tekin er staða í. Heimildin er því ætluð til söfnunar á bréfum fyrir viðskiptavini yfir lengra tímabil og er miðað við að viðskiptavinur hafi keypt bréfin innan 1 mánaðar. Notkun heimildarinnar er háð samþykki forstöðumanns Verðbréfamiðlunar og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs.“

Í fundargerð fjármálanefndar gagnáfrýjanda frá 29. ágúst 2007 var bókað að deild verðbréfamiðlunar bankans hafi „óskað eftir auknum heimildum fyrir miðlunarbók“ og rætt hafi verið hvernig heimildum yrði „best hagað, hvort sem litið er til heildarstöðu til að afgreiða pantanir eða til að liðka fyrir viðskiptum.“ Í samræmi við grein 16 í áhættureglum bankans tók deild áhættustýringar, sem tilheyrði eins og áður segir alþjóðasviði, reglulega saman svonefndar 4-15 skýrslur og sendi til þeirra, sem tilteknir voru í greininni, þar á meðal til aðaláfrýjenda. Í hverri slíkri skýrslu komu fram nýorðnar breytingar á eign eigin fjárfestinga í einstökum verðbréfaflokkum, miðað við nafnverð og markaðsverð bréfanna, svo og hagnaður eða tap vegna viðskipta með þau. Í skýrslu 27. ágúst 2007 sagði að heimild hjá „verðbréfamiðlun 2“ væri 900.000.000 krónur, en tekið fram að beðið væri ákvörðunar fjármálanefndar. Í skýrslu 4. september 2007 var heimild hjá „verðbréfamiðlun 2“ sögð vera 1.500.000.000 krónur, en þess jafnframt getið að sú heimild og reyndar fleiri heimildir væru brotnar. Í skýrslum, sem gerðar voru á tímabilinu frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008, sagði ávallt að heimild hjá „verðbréfamiðlun 2“ væri 1.500.000.000 krónur og ekki kom fram í neinni þeirra að sú heimild hefði verið brotin. Með vísan til þessa halda aðaláfrýjendur því fram að heimild í svonefndri miðlunarbók hlutabréfa II, sem samkvæmt upphafsákvæði greinar 21.4 í fyrrgreindum drögum að áhættureglum bankans nam 900.000.000 krónum, hafi verið hækkuð í 1.500.000.000 krónur í september 2007.

3

Lagt hefur verið fram í málinu skjal frá því í febrúar 2008 sem hefur að geyma verklagsreglur um gerð skýrslu með yfirskriftinni: „Yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161 um fjármálafyrirtæki“. Þar kom fram að dreifa átti slíkri skýrslu til bankastjóra, þar á meðal aðaláfrýjandans Sigurjóns, og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, auk þess sem hún skyldi kynnt á vikulegum fundum fjármálanefndar. Í skjalinu sagði meðal annars: „Verkferli þessu er ætlað að tryggja skilvirkt eftirlit yfir hlutabréfaeign bankans í sjálfum sér samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki ... Forstöðumaður útlánaáhættu og forstöðumaður áhættustýringar bera ábyrgð á að verkferli þessu sé framfylgt. Eftirlitsaðilar, starfsmenn í útlánaáhættu og áhættustýringu, sjá um daglegt eftirlit og gefa vikulega skýrslu yfir stöðuna sem kynnt verður í fjármálanefnd bankans ... Verkferlið nær yfir eign bankans á eigin hlutabréfum og veðtöku í eigin hlutabréfum á samstæðugrunni ... Starfsmaður í útlánaáhættu ... keyrir vikulega skýrslu (eða oftar ef þörf þykir) á lánum með veði í hlutabréfum Landsbanka Íslands hf. Í þeim tilvikum þar sem tryggingarþekja er yfir 130% má eyða út áhættu á hlutabréf bankans en þó aldrei þannig að tryggingarþekjan fari undir 130% mörkin. Dótturfélög beita sömu aðferðafræði hjá sér varðandi útlán með veði í hlutabréfum bankans (áréttað verður við dótturfélög að aðvara móðurfélag um stærri breytingar innan dagsins – sérstaklega ef bankinn er nálægt mörkum). Starfsmaður í áhættustýringu ... mun daglega útvega stöður sem endurspegla eign bankans í eigin hlutabréfum hjá eigin fjárfestingum, verðbréfamiðlun, í framvirkum samningum og vörn fyrir valréttum. Þessi gögn þ.e. (eign + handveð) verða birt daglega í tölvukerfum bankans þannig að hlutaðeigandi aðilar hafi ávallt aðgang að uppfærðri stöðu ... Ef staðan er við 10% mörkin þá er mikilvægt að beina því til viðeigandi aðila að óheimilt sé að auka stöðu í eigin hlutabréfum án sérstaks samþykkis bankastjórnar.“

Meðal málsgagna eru skýrslur, teknar saman af starfsmönnum í deildum áhættustýringar og útlánaeftirlits, sem heyrðu eins og áður greinir undir alþjóðasvið og lögfræðisvið, á tímabilinu frá 4. janúar 2008 til 30. september sama ár. Sérhver skýrsla hafði samkvæmt framansögðu að geyma sundurliðaðar upplýsingar um eign og handveð gagnáfrýjanda í eigin hlutabréfum, svo og eign og handveð dótturfélaga hans í þeim bréfum. Í skýrslunni kom einnig fram hver væri heildareign og heildarhandveð gagnáfrýjanda, þar með talinna dótturfélaga hans, í hlutabréfunum og hvert væri, miðað við tilteknar forsendur, hlutfall eignar gagnáfrýjanda á samstæðugrunni í eigin hlutabréfum samkvæmt 29. gr. laga nr. 161/2002. Eignarhald sumra dótturfélaga gagnáfrýjanda í hlutabréfum í honum, svonefndra aflandsfélaga, kom ekki fram í umræddum skýrslum. Miðað við að einungis væru talin með veðsett hlutabréf þar sem veðþekja var allt að 130% nam hlutfall eigin hlutabréfa gagnáfrýjanda af heildarhlutafé hans 9,8% í skýrslu 4. janúar 2008 og 11,1% í skýrslu 7. sama mánaðar. Ef öll veðsett hlutabréf voru talin með var hlutfallið 11,7% og 13,0% samkvæmt sömu skýrslum. Hlutfallið hélst nokkurn veginn það sama í þessum mánuði, en fór síðan hækkandi í febrúar. Það sem eftir var áðurnefnds tímabils hækkaði hlutfallið ýmist eða lækkaði, en fór þó aldrei undir 10% hvor aðferðin sem notuð var. Í skýrslu 29. júlí 2008 nam fyrrgreinda hlutfallið 14,54%, en það síðargreinda 16,12%. Hlutfallið var nánast óbreytt í skýrslu 30. september sama ár, 14,74% eða 16,48%. Samkvæmt útreikningum endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers ehf., sem lagðir hafa verið fram hér fyrir dómi, hefði hlutfallið verið miklum mun lægra ef einungis hefði verið talin með eign og handveð gagnáfrýjanda sjálfs í eigin hlutabréfum, án tillits til eignar og veðs dótturfélaga hans í þeim, og það þá aldrei komist nærri 10% á áðurnefndu tímabili.

Aðaláfrýjandinn Sigurjón var formaður fjármálanefndar gagnáfrýjanda á þeim tíma, er hann starfaði sem bankastjóri, og meðal annarra, sem sátu fundi nefndarinnar, voru Halldór J. Kristjánsson bankastjóri og framkvæmdastjórar alþjóðasviðs og fyrirtækjasviðs, svo og aðaláfrýjandinn Yngvi Örn sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Hlutverk nefndarinnar var meðal annars að hafa eftirlit með fjárfestingarbankastarfsemi og áhættuþáttum í starfsemi bankans, auk þess að setja reglur um áhættustýringu. Samkvæmt fundargerðum, sem lagðar hafa verið fram, var áðurgreindum yfirlitum um eign gagnáfrýjanda í eigin bréfum dreift á fundum fjármálanefndar 9. apríl, 16. apríl, 14. maí og 13. ágúst 2008. Aðaláfrýjendur sátu fundina, sem Sigurjón stjórnaði, að því undanskildu að Yngvi Örn var fjarverandi á þeim síðasttalda.

Dagskrá funda fjármálanefndar var yfirleitt þannig að forstöðumenn ýmissa deilda bankans kynntu starfsemi sinnar deildar og viku síðan af fundi, en áðurgreindum yfirlitum var dreift í lok fundar. Af vinnulýsingu ritara nefndarinnar frá árinu 2007, sem var endurskoðuð 2008, verður ráðið að bankastjórarnir og þeir framkvæmdastjórar, sem fundina sátu, þeirra á meðal Yngvi Örn, hafi verið viðstaddir þegar yfirlitunum var dreift. Í vitnisburði nefndarritarans fyrir héraðsdómi staðfesti hann að svo hafi verið, en aðspurður kvaðst hann ekki muna „til þess að þeim hafi verið dreift til allra sem voru eftir á fundinum ... Ég verð að viðurkenna að ég get ekki alveg svarið fyrir það en mig minnir eins og það hafi verið aðallega bankastjórarnir sem hafa fengið það“. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst Yngvi Örn ekki hafa verið „þátttakandi í þeim hluta fundarins þar sem þessi skýrsla ... var lögð fram.“ Spurður fyrir dómi hvort hann hefði gefið Yngva Erni fyrirmæli tvisvar eða þrisvar á árinu 2008 að draga úr eign bankans í eigin bréfum svaraði Sigurjón: „Ja ég held að það hafi ekki verið tvisvar eða þrisvar á árinu 2008 en það er rétt að einhvern tímann vorum við komin nálægt þessum 10% mörkum og þá held ég að ég hafi talað við hann um það að það væri æskilegt að minnka þá stöðu ... ég held að það sé alveg örugglega rétt, ég man að ég gerði það alla vega líka á árinu 2006.“ Fyrir dómi kvaðst Yngvi Örn ekki muna nákvæmlega hvenær þetta hafi gerst. Spurður hvernig fyrirmæli Sigurjóns hafi verið sett fram svaraði hann: „Hann talaði við mig af því að hann vildi að staðan á veltubók í eigin fjárstýringu væri lækkuð og ... það svona var ekkert óeðlilegt miðað við skipulag bankans að hann bæði mig um að hlutast til um það.“

4

Í 7. tölulið 3. greinar ráðningarsamnings, sem gerður var milli gagnáfrýjanda og aðaláfrýjandans Sigurjóns 21. apríl 2003, var samið svo um að sá fyrrnefndi skyldi taka „hefðbundna stjórnendatryggingu vegna starfa hans hjá bankanum“. Samhljóða ákvæði var að finna í 7. tölulið 2. greinar ráðningarsamnings sem gerður var sama dag milli gagnáfrýjanda og aðaláfrýjandans Yngva Arnar. Í samræmi við þessi ákvæði í ráðningarsamningunum tók gagnáfrýjandi í byrjun janúar 2008 ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur sína fyrir milligöngu vátryggingamiðlara og gilti hún frá 1. febrúar 2008 til 31. janúar 2009. Í vátryggingarskilmálum sagði meðal annars að vátryggjandi féllist á „að greiða fyrir hönd stjórnenda allt tjón sem stafar af kröfu vegna ólögmætrar athafnar ... sem nýtur tryggingarverndar og sem stjórnendur eiga ekki rétt á bótagreiðslum vegna“. Þessi víðtæka ábyrgð vátryggjanda var takmörkunum háð samkvæmt skilmálunum, þar á meðal tók hún ekki til „krafna sem tilkomnar eru vegna eða rekja má til óheiðarlegrar eða sviksamlegrar athafnar eða athafnaleysis eða persónulegs hagnaðar einhvers stjórnanda sem hann hafði ekki lagalegan rétt á, ef komist er að þeirri niðurstöðu í dómsmáli eða öðrum endanlegum úrskurði að slíkur óheiðarleiki eða svik hafi átt sér stað.“

Með bréfi 29. október 2012 tilkynnti gagnáfrýjandi vátryggingamiðlaranum fyrir hönd vátryggjenda að mál þetta hafi verið höfðað á hendur fyrrum starfsmönnum hans, aðaláfrýjendum og Steinþóri Gunnarssyni, og tók jafnframt fram að starfsmennirnir væru tryggðir gagnvart kröfum sem vátryggingin næði til. Málshöfðunin væri reist á gáleysi þeirra (ólögmætri athöfn) þegar hlutabréf í Hf. Eimskipafélagi Íslands, Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. og gagnáfrýjanda hafi verið keypt fyrir hans hönd á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til 25. júlí 2008 inn á svonefnda miðlunarbók hlutabréfa II. Í bréfinu kom einnig fram að gagnáfrýjandi teldi að umrædd viðskipti hefðu ekki verið réttilega samþykkt og brotið í bága við reglur bankans. Í lok bréfsins áskildi gagnáfrýjandi sér óskoraðan rétt gagnvart vátryggjendum til að krefja þá um greiðslu á þeim bótum og kostnaði sem starfsmennirnir yrðu dæmdir til að greiða.

Þessari skilyrtu kröfu gagnáfrýjanda höfðu vátryggjendur þegar hafnað. Í bréfi 31. desember 2010, sem ritað var af enskri lögmannsstofu fyrir þeirra hönd, sagði meðal annars: „Enda þótt skoðun okkar standi enn yfir er þegar ljóst að umbjóðendum okkar var ekki, áður en stofnað var til tryggingarinnar, sagt frá fjölda atriða sem verulega þýðingu höfðu fyrir áhættumat umbjóðenda okkar. Sérstaklega virðist sem vafi hafi ríkt um fjárhagslega stöðu Landsbankans frá haustinu 2007 a.m.k. þar sem yfirstjórninni (að stjórn bankans meðtalinni) hafi verið ljóst fyrir febrúar 2008 að sú hætta vofði yfir að bankinn félli. Ástæða þessara erfiðleika virðist hafa verið kerfisbundið og útbreitt misferli í rekstri bankans til dæmis (en ekki eingöngu) í tengslum við óeðlilega markaðsmyndun fyrir eigin hlutabréf bankans, vísvitandi brot á reglum um stórar áhættur, misnotkun peningamarkaðssjóða og óeðlilega auðveldan aðgang að lánafyrirgreiðslu fyrir eigendur bankans og tengda aðila og þannig hafi þeir sett eigin hagmuni ofar hagsmunum bankans. Tryggingin var gerð í trausti þeirra upplýsinga sem vátryggjendum voru veittar.“ Með hliðsjón af þessu taldi lögmannsstofan að umbjóðendur sínir væru ekki skuldbundnir samkvæmt vátryggingarsamningnum við gagnáfrýjanda þar sem „vátryggðu samkvæmt tryggingunni og/eða þeir sem komu fram fyrir þeirra hönd hafi brotið gegn meginreglum íslenskra laga og/eða 19. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga með því að hafa með sviksamlegum hætti látið hjá líða að upplýsa um atriði sem verulega þýðingu höfðu ... og/eða að þær upplýsingar hafi verið rangar sem veittar voru.“ Þá var tekið fram í bréfinu: „Vinsamlegast athugið að samkvæmt 51. gr. vátryggingarsamningalaganna glata allir vátryggðir samkvæmt tryggingunni rétti til bóta í tengslum við mál sem þeir hafa þegar tilkynnt um, nema mál sé höfðað eða krafist meðferðar fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum innan árs frá því að yður berst bréf þetta.“

II

Samkvæmt héraðsdómsstefnu var mál þetta höfðað á hendur aðaláfrýjendum og Steinþóri Gunnarssyni til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem þeir hefðu valdið stefnda „með athöfnum sínum eða athafnaleysi í tengslum við kaup bankans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, Hf. Eimskipafélagi Íslands ... og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. ... á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til og með 25. júlí 2008 inn á reikning í bankanum sem nefndur var miðlunarbók hlutabréfa II.“ Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi viðskipti: Kaup á hlutabréfum í gagnáfrýjanda fyrir 671.610.962 krónur 7. nóvember 2007, fyrir 129.600.000 krónur 28. desember sama ár og fyrir 237.678.000 krónur 25. júlí 2008. Ennfremur kaup á hlutabréfum í Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. fyrir 44.106.000 krónur 14. janúar 2008 og Hf. Eimskipafélagi Íslands fyrir 125.249.390 krónur 25. sama mánaðar. Heildarstaða á áðurnefndri miðlunarbók hlutabréfa vegna þessara viðskipta nam alls 1.208.244.352 krónum 7. október 2008.

Í stefnunni sagði að saknæmi beggja aðaláfrýjenda hefði falist „í því að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt [þeir] hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti.“ Þá hefðu þeir „sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög.“ Við mat á saknæmi aðaláfrýjenda bæri að taka tillit til þess að langur tími hafi liðið frá fyrstu kaupunum og fram að falli bankans.

Þau brot á áhættureglunum, sem gagnáfrýjandi heldur fram að leitt hafi til bótaskyldu aðaláfrýjenda gagnvart sér, lúta einkum að því að farið hafi verið fram úr leyfilegum áhættumörkum vegna viðskipta almennt og fyrir einstaka viðskiptavini um áðurnefnda miðlunarbók hlutabréfa. Einnig hafi önnur skilyrði reglnanna ekki verið uppfyllt, svo sem að fyrir lægi formlegur samningur við viðskiptamann um kaup á hlutabréfunum, að til staðar væri tilskilið samþykki yfirmanna og loks „að hlutabréfin hafi setið á bókum bankans lengur en áhættureglurnar mæltu fyrir um.“

Þá telur gagnáfrýjandi að framangreind kaup á hlutabréfum í honum hafi brotið í bága við 29. gr. laga nr. 161/2002 og 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

III

  Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 eru framkvæmdastjórar hlutafélags skyldir að bæta félaginu það tjón, er þeir hafa valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Eins og kveðið var á um í samþykktum gagnáfrýjanda gegndu bankastjórar, sem ráðnir voru af stjórn hans, svonefndu bankaráði, störfum framkvæmdastjóra samkvæmt lögum nr. 161/2002 og jafnframt lögum nr. 2/1995, sbr. 1. mgr. 65. gr. þeirra. Aðaláfrýjandanum Sigurjóni var því sem öðrum bankastjóranna skylt að bæta gagnáfrýjanda það tjón, sem hann kynni að valda honum í störfum sínum af ásetningi eða gáleysi, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995, að því tilskildu að ákvörðun um að hafa uppi slíka skaðabótakröfu á hendur honum væri tekin af hluthafafundi, sbr. 1. mgr. 135. gr. laganna. Aðaláfrýjandinn Yngvi Örn, sem þessi lagaákvæði tóku ekki til, var þó á sama hátt og Sigurjón skyldur á grundvelli sakarreglunnar til að bæta gagnáfrýjanda það tjón er rakið yrði til gáleysis hans eða ásetnings í starfi sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs.

Aðaláfrýjendur hafa auk annars til stuðnings kröfu sinni um sýknu af skaðabótakröfum gagnáfrýjanda vísað til ákvæðis í ráðningarsamningnum þeirra beggja 21. apríl 2003 þar sem svo var um samið að hann skyldi taka hefðbundna stjórnendatryggingu vegna starfa þeirra í bankanum. Halda aðaláfrýjendur því fram að með þessu hafi gagnáfrýjandi skuldbundið sig til þess að halda þeim skaðlausum ef þeir yllu honum tjóni, svo framarlega sem það yrði bætt úr umræddri tryggingu.

Héraðsdómur lét hjá líða að taka efnislega afstöðu til þessarar málsástæðu aðaláfrýjenda þótt hún væri skýr og vel rökstudd af þeirra hálfu. Þrátt fyrir það er ekki nægilegt tilefni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til efnisúrlausnar að nýju af þeirri ástæðu einni, enda hefur krafa þess efnis ekki verið höfð uppi hér fyrir dómi.

Með fyrrgreindum ákvæðum ráðningarsamninganna skuldbatt gagnáfrýjandi sig gagnvart aðaláfrýjendum til að taka vátryggingu, svonefnda hefðbundna stjórnendatryggingu, þeim til hagsbóta. Ákvæðin verða ekki túlkuð á annan veg en þann að með þessu hafi aðaláfrýjendur mátt treysta því að þurfa ekki að bæta gagnáfrýjanda tjón, sem þeir kynnu að valda honum í störfum sínum, að því tilskildu að tjónið yrði bætt samkvæmt skilmálum slíkrar tryggingar.

Áður hefur verið gerð grein fyrir skilmálum þeirrar stjórnendatryggingar, sem gagnáfrýjandi tók, meðal annars til að fullnægja umræddri samningsskyldu sinni við aðaláfrýjendur. Einnig hefur verið reifað efni bréfs gagnáfrýjanda 29. október 2012 þar sem hann áskildi sér rétt til að krefja vátryggjendur um greiðslu á þeim bótum og kostnaði sem aðaláfrýjendur yrðu dæmdir til að greiða honum í þessu máli. Að þessu hvoru tveggja virtu skortir á að viðhlítandi sönnur hafi verið færðar fyrir því að tjónið, sem gagnáfrýjandi telur að aðaláfrýjendur hafi valdið sér og málssókn hans lýtur að, sé þess eðlis að það hefði ekki fengist bætt úr stjórnendatryggingunni ef eftir því hefði verið leitað án ástæðulauss dráttar. Þar sem gagnáfrýjandi ber eðli máls samkvæmt hallann af þeim sönnunarskorti hefur hann vegna fyrrnefndrar skuldbindingar sinnar um að halda aðaláfrýjendum skaðlausum vegna tjóns, sem þeir kynnu að valda honum í störfum sínum, firrt sig rétti til að krefja þá um bætur á þeim málsgrundvelli sem að framan greinir. Verða þeir því sýknaðir af kröfum hans þegar af þeirri ástæðu.

Eftir þessum málsúrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjendum málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Sigurjón Þorvaldur Árnason og Yngvi Örn Kristinsson, eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda, LBI hf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum, hvorum um sig, samtals 5.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2015.

                                                                                     I.

Mál þetta var höfðað 4. október 2012 á hendur stefndu Yngva Erni og Steinþóri en 5. október 2012 á hendur Sigurjóni Þorvaldi, og dómtekið 9. júní 2015.

                Stefnandi er slitastjórn Landsbanka Íslands hf., Álfheimum 74, Reykjavík, en stefndu eru Yngvi Örn Kristinsson, Hvassaleiti 127, Reykjavík, Steinþór Gunnarsson, Bollagörðum 14, Seltjarnarnesi og Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega (in solidum) 1.208.244.352 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 671.610.962 krónum frá 7. nóvember 2007 til 28. desember 2007, af 801.210.962 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2008, af 845.316.962 krónum frá þeim degi til 25. janúar 2008, af 970.566.352 krónum frá þeim degi til 25. júlí 2008, af 1.208.244.352 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en dráttarvexti skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndu Yngvi Örn Kristinsson, Steinþór Gunnarsson og Sigurjón Þ. Árnason krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.

                                                                                     II.

Í máli þessu eru gerðar kröfur sameiginlega á hendur fyrrverandi framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbanka Íslands Yngva Erni Kristinssyni, fyrrverandi forstöðumanni verðbréfasviðs bankans, Steinþóri Gunnarssyni og fyrrverandi bankastjóra Sigurjóni Árnasyni.

                Mál þetta er höfðað á hendur stefndu til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir í tengslum við kaup bankans á  hlutabréfum í Landsbanka Íslands, Hf. Eimskipafélagi Íslands (Eimskip) og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. (Straumur) á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til og með 25. júlí 2008 inn á reikning í bankanum sem nefndur var miðlunarbók hlutabréfa II. Nánar tiltekið er krafist bóta vegna eftirfarandi viðskipta:

 

(i)            Kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, dags. 7. nóvember 2007                                               (15.930.807 hlutir, 671.610.962 krónur)

(ii)           Kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, dags. 28. desember 2007                                              (4.050.000 hlutir, 129.600.000 krónur)

(iii)          Kaupa á hlutabréfum í Straumi, dags. 14. janúar 2008 (um 2.000.000 hlutir,

(44.106.000 krónur)

(iv)          Kaupa á hlutabréfum í Eimskipi, dags. 25. janúar 2008

(4.430.000 hlutir, 125.249.390 krónur)

(v)           Kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, dags. 25. júlí 2008

(7.000.000 hlutir, 237.678.000 krónur).

 

                Heildarstaða á miðlunarbók hlutabréfa II vegna þessara viðskipta nam alls 1.208.244.352 krónum þann 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi Landsbanka Íslands.

                Samkvæmt ráðningarsamningi Steinþórs Gunnarssonar gegndi hann starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans á umræddu tímabili 7. nóvember 2007 til 7. október 2008. Samkvæmt ráðningarsamningnum bar hann ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins, framþróun þess og uppbyggingu. Auk þess var gert ráð fyrir að hann sinnti stjórnunarstörfum sem yfirmaður og öðrum þeim störfum sem honum kynnu að vera falin af bankastjórn hverju sinni. Yfirmaður Steinþórs var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, Yngvi Örn Kristinsson.

                Sigurjón Þorvaldur Árnason og Halldór J. Kristjánsson fóru sameiginlega með bankastjórn Landsbankans hf. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands, dags. 22. apríl 2003, kemur fram að Bankastjórarnir munu fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting er þannig að Halldór fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.

                Meðal gagna málsins eru ódagsett drög að áhættureglum Landsbanka Íslands merktrar útgáfa 2.0.3. Útgáfa 2.0.3. er samkvæmt því sem fram kemur á bls. 1 í reglunum frá 22. febrúar 2005. Á sömu blaðsíðu eru taldar upp eldri og yngri útgáfur af reglunum. Eldri útgáfur eru númer

                1. frá 7. janúar 2002,

                nr. 2.0.0 frá 28. janúar 2004,

                nr. 2.0.1 frá 30. apríl 2004,

                nr. 2.0.2 frá 5. nóvember 2004.

                Þá kemur fram að reglur hafi verið lagfærðar með útgáfu nr. 2.0.4 þann 3. október 2005 og aftur þann 1. mars 2009 af SÓ með tilliti til fyrri samþykkta Fjármálanefndar GLÍ. Það eru því tvær útgáfur með númerinu 2.0.4.

                Á bls. 1 eru einnig taldar upp Breytingar í þessari útgáfu. Um ástæður breytinga á útgáfu 2.0.4 sem eins og áður greinir eru bæði, dags. 3. október 2005 og 1. mars 2009 segir á bls. 2: Uppfærði heimildir til samræmis við samþykktir ALCO sem ekki höfðu verið færðar inn í áhættureglurnar.

                Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna er mælt fyrir um markmið áhættureglnanna. Þar kemur fram að bankastjórar beri ábyrgð á daglegri stjórnun bankans gagnvart bankaráði. Framkvæmdastjórar beri ábyrgð gagnvart bankastjórum á starfsemi hvers sviðs og að áhættan sé í samræmi við starfsreglur bankans. Fjármálanefnd hafi m.a. það hlutverk að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og ákveða áhættumörk. Um hlutverk millistjórnenda kemur fram að hlutverk þeirra sé að sjá til þess að stefnu varðandi áhættu sé framfylgt, verkferlar séu skráðir og þeim viðhaldið og að starfsmenn þeirra fari eftir reglum og verkferlum bankans.

                Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. er reglunum … ætlað að setja fram á skipulegan hátt þau skilgreindu áhættumörk sem Landsbankinn leyfir sér að taka fyrir stöður í eigin reikning og miðlun áhættu til viðskiptavina sinna. Markmiðið með áhættureglunum er að tryggja að til séu heimildir um leyfilega áhættutöku og þannig stýra áhrifum áhættuþátta á rekstrarreikning bankans.

                Í 2. mgr. 9. gr. áhættureglnanna er mælt fyrir um ábyrgðaraðila markaðsáhættu. Þar kemur m.a. fram að framkvæmdastjóri verðbréfasviðs beri ábyrgð á og stýri markaðsáhættu móðurfélags Landsbankans. Dagleg stjórn á markaðsáhættu móðurfélags sé á ábyrgð forstöðumanna eftirfarandi deilda innan Verðbréfasviðs: ... Verðbréfamiðlun: (gengisáhætta hlutabréfa) miðlunarbóka hlutabréfa ...

                Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. sem mælir fyrir um ábyrgðaraðila mótaðilaáhættu,  stýrir framkvæmdastjóri og ber ábyrgð á mótaðilaáhættu síns sviðs. Þá segir í 4. mgr. 9. gr. að framkvæmdastjóri stýri og beri ábyrgð á rekstraráhættu síns sviðs og að dagleg stjórn á rekstraráhættu sé á ábyrgð forstöðumanna deilda. Í 5. mgr. sömu greinar sem er með fyrirsögninni Ábyrgðaraðili samsetningu eigna og skuldaáhættu kemur fram að framkvæmdastjóri verðbréfasviðs beri ábyrgð á og stýri markaðsáhættu Landsbankans.

                Í kafla VII er mælt fyrir um áhættutakmarkanir verðbréfasviðs. Í 4. mgr. 21. gr. þar sem fjallað er um verkefni Verðbréfamiðlunar (VM) kemur m.a. fram að VM sjái um stöðu eigna miðlunarbókar hlutabréfa I þar sem VM fái svigrúm til sjö daga í senn til að liðka fyrir viðskiptum við stærstu viðskiptavini að fjárhæð 200 mkr. með samþykki fortöðumanns VM. Þá segir eftirfarandi: Einnig fær VM allt að 900 mkr. heimild í miðlunarbók hlutabréfa II til að safna hlutabréfum fyrir viðskiptavini með samþykki forstöðumanns og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs. Heimildin miðast við að hvert verkefni taki ekki lengri tíma en einn mánuð í senn og að ekki sé um hærri fjárhæð að ræða en 300 mkr. fyrir hvern viðskiptamann. Sé um hærri fjárhæð að ræða skal leitað skriflegrar heimildar bankastjórnar, þar sem fram komi hversu lengi heimildin skal standa og heildarfjárhæð kaupanna.

                Í grein 21.4.6 um áhættumörk gengisáhættu hlutabréfa – miðlunarbók verðbréfamiðlunar II segir eftirfarandi:

                Heimildir verðbréfamiðlunar til stöðutöku eru bundnar við að fyrir liggi samningur um endanleg kaup viðskiptamanns á því sem tekin er staða í. Heimildin er því ætluð til söfnunar á bréfum fyrir viðskiptavini yfir lengra tímabil og er miðað við að viðskiptavinur hafi keypt bréfin innan 1 mánaðar. Notkun heimildarinnar er háð samþykki forstöðumanns Verðbréfamiðlunar og framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs.

 

 

Flökt á gengi safna

Brúttóstaða

VaR(%)

VaR(ISK)

Heimild

20%

1500 mkr.

(25%)

(38,5mkr).

 

Undir tölul. 21.4.17 Færsluheimildir verðbréfamiðlunar segir eftirfarandi:

Í A-B-C-D reglum er viðskiptum skipt í A,B,C eða D mál eftir umfangi viðskiptanna. Skiptingin er eftirfarandi:

  • D mál: öll mál sem þarfnast starfsmanna verðbréfamiðlunar
  • C mál: D mál + samþykki forstöðumanns verðbréfamiðlunar
  • B mál: C mál + samþykki framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs
  • A mál: B mál + samþykki fjármálanefndar eða bankastjórnar

 

Tegund

D

C

B

A

Skorður á heildareign

Tímalengd stöðu vegna einstaks viðskiptavinar

Ekki heimilt

Ekki heimilt

1 mánuður

Öll önnur mál

 

Gnóttstaða miðlunarbókar hlutabréfa vegna einstaks viðskiptavinar

0

0

600 mkr.

Öll önnur mál

 

Gnóttstaða miðlunarbóka hlutabréfa I í 7 daga vegna miðlunar til einstak viðskiptavinar

0

200 mkr.

300 mkr.

Öll önnur mál

 

 

                Í kafla V um „BROT Á ÁHÆTTUREGLUM“ er mælt fyrir um viðbrögð áhættustýringar þegar um er að ræða heimildarbrot verðbréfasviðs:

                „Áhættustýring heldur utanum stöður deilda á Verðbréfasviði og ber saman stöður við þær heimildir sem hafa verið ákveðna í stefnumörkun og settar fram í þessum áhættureglum. Dagleg skýrsla áhættustýringar tekur saman brot á heimildum vegna stöðu deilda. Heimildarbrot berast áskrifendum þeirrar skýrslu sem eru bankastjórar, framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs, forstöðumaður fjárstýringar auk starfsmanna áhættustýringar. Forstöðumenn deilda á Verðbréfasviði fá sent í tölvupósti tilkynningu um heimildarbrot.“

                Í daglegum skýrslum áhættustýringar, svonefndum 4-15 skýrslum, dags. 27. ágúst 2007, kemur fram að heimild Verðbréfamiðlunar 1 hafi verið 200 mkr. og Verðbréfamiðlunar 2 hafi verið 900 mkr. og að beðið sé ákvörðunar fjármálanefndar.

                Í skýrslu sem dagsett er 4. september 2007 kemur fram að heimild fyrir verðbréfamiðlun 1 sé komin upp í 800 mkr. og heimild fyrir verðbréfamiðlun 2 sé komin upp 1.500 mkr. Segir einnig að heimildir hafi verið brotnar. Samkvæmt 4-15 skýrslum fyrir tímabilið frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008, kemur einnig fram að heimild Verðbréfamiðlunar 2, sé 1.500 mkr. Í skýrslunum er sérstaklega tilgreint ef heimild hefur verið brotin. Þannig kemur t.d. fram að heimild hafi verið brotin þegar farið hafi verið yfir 800 mkr. heimild í Verðbréfamiðlun 1. Að því er varðar Verðbréfamiðlun 2 kemur fram í framlögðum skýrslum að viðskiptin hafi ekki verið umfram heimildir á greindu tímabili, þ.e. 5. nóvember 2007 til 30. september 2008.

                Fram kemur í fundargerð fjármálanefndar, frá 29. ágúst 2007, að rætt hafi verið um heimildir fyrir verðbréfamiðlun. Segir eftirfarandi: Verðbréfamiðlun hefur óskað eftir auknum heimildum fyrir miðlunarbók. Rætt um hvernig heimildum verði best hagað, hvort sem litið er til heildarstöðu til að afgreiða pantanir eða til að liðka fyrir viðskiptum. Lagt fram yfirlit yfir afleiðuviðskipti bankans. Farið yfir heimildabrot og stærstu tapstöður.

                Fram kemur í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf., sbr. 1. gr. um gildissvið, að skilmálar gildi um öll markaðsviðskipti milli Landsbanka Íslands hf. og viðskiptamanns, svo sem um skammtímalánveitingar, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Þá segir að skilmálarnir gildi hvort heldur sem viðskiptin eigi sér stað í gegnum síma, veraldarvefinn eða á annan hátt. Um framkvæmd samninga, sbr. 2. gr. skilmálanna segir að um framkvæmd einstakra markaðsviðskipta, sem gerð eru á grundvelli skilmála þessara, skulu gerðir skriflegir samningar þar sem kveðið er nánar á um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. [...]

                LÍ sendir frumrit samninga til viðskiptamanns. Viðskiptamaður skuldbindur sig til að senda undirrituð frumrit samninga til LÍ innan 7 daga frá því samningar voru gerðir eða eftir atvikum fyrir gjalddaga/lokadag samnings þegar viðskipti fara fram innan þess tíma.

                Í verklagsreglum Landsbanka Íslands um eign bankans í sjálfum sér (Yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki LAIS-yfirlit) sem gefnar voru út í febrúar 2008, segir m.a. að starfsmaður í áhættustýringu muni daglega útvega stöður sem endurspegli eign bankans í eigin hlutabréfum hjá eigin fjárfestingum, verðbréfamiðlun, í framvirkum samningum og vörn fyrir valréttum. Þessi gögn þ.e. (eign + handveð) verða birt daglega í tölvukerfum bankans þannig að hlutaðeigandi aðilar hafi ávallt aðgang að uppfærðri stöðu. Ef staðan er undir 9% þá verður hún birt með grænum lit, ef hún er á bilinu 9-10% þá er hún gul en ef hún er yfir 10% þá verður hún rauð. Ef staðan er við 10% mörkin þá er mikilvægt að beina því til viðeigandi aðila að óheimilt sé að auka stöðu í eigin hlutabréfum án sérstaks samþykkis bankastjórnar. Vikulega er síðan tekin saman skýrsla (gögn unnin af starfsmanni í útlánaáhættu – AL) sem sýnir heildareign bankans í sjálfum sér. Skýrslan er síðan send til ábyrgðaraðila (forstöðumanns áhættustýringar – ÞÖI) á þriðjudagskvöldum sem kynnir hana í kjölfarið í fjármálanefnd bankans á vikulegum fundum nefndarinnar á miðvikudögum og dreifir til bankastjóra [...]. Jafnframt munu eftirtaldir aðilar (sjá töflu) hafa aðgang að daglega uppfærðri skýrslu í gegnum tölvukerfi bankans (Financial Markets) eða með tölvupóstsendingum. Kom fram í umræddri töflu að Steinþór Gunnarsson fengi daglega upplýsingar um heildarstöðu eigin bréfa en fjármálanefnd fengi upplýsingar um LAIS-skýrslu á miðvikudögum.

                Samkvæmt yfirlitum um eign Landsbanka Íslands hf. í sjálfum sér samkvæmt 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var eign á miðlunarreikningi 2 eftirfarandi á tilgreindum dagsetningum:

 

Dags.

Eign á miðlun 2

Heildareign

Heildareign+handveð

5.11.2007

0

6,2%

8,3%

12.11.2007

15.931

7,0%

9,3%

9.1. 2008

19.981

7,5%

10,95

6.5.2008

20.531

4,7%

11,34%

29.7.2008

27.531

6,1

14,54%

 

Eftirfarandi kemur fram í tölvupósti stefnda Steinþórs, dags. 30. janúar 2008: Vegna langvarandi endurtekinnar hlutabréfastöðu í miðlunarbók sem líklega verður til vegna þess að minni er að svíkja menn þá verða allir héðan í frá að skrifa daglega hvert einasta trade niður í bók þar sem fram kemur magn, verð og kaupandi/seljandi og haka það svo út í lok hvers dag. Þetta er einfalt fyrirkomulag og ég bið þig um að gera þitt til að þetta komist í lag.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu stefndu aðilaskýrslur. Einnig gáfu skýrslur Ívar Guðjónsson, Þórir Örn Ingólfsson og Hannes Júlíus Hafstein.

                                                                                     III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Saknæmi og ólögmæti:

Kröfur stefnanda eru reistar á því að stefndu Yngvi Örn, Steinþór og Sigurjón hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni vegna framangreindra kaupa á hlutabréfum í miðlunarbók II.

                Sök stefnda Steinþórs felist í því að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi keypt inn á miðlunarbók hlutabréfa II og/eða gefið fyrirmæli um kaup á hlutabréfunum án þess að uppfyllt væru skilyrði þeirra heimilda sem hann hafði til kaupanna skv. áhættureglum bankans. Kaupin hafi verið gerð án þess að fyrir lægi samningur um þau við viðskiptamenn bankans. Þá hafi kaupin verið framkvæmd án samþykkis framkvæmdastjóra verðbréfasviðs, fjármálanefndar og bankastjórnar. Saknæmið felist einnig í því að ítrekað hafi verið keypt eða gefin fyrirmæli um kaup á hlutbréfum í miðlunarbók II þótt bankinn ætti fyrir í bókinni hlutabréf langt umfram þær heimildir sem reglur bankans mæltu fyrir um.

                Hafi stefndi Steinþór brotið gegn 29. gr. þágildandi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, 55. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og samþykktum bankans með því að kaupa eigin hluti í bankanum þótt hann hefði upplýsingar um að bankinn ætti þegar hluti yfir þeim 10% mörkum sem reglurnar mæla fyrir um.

                Þá er einnig byggt á því að stefndi Steinþór hafi, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, brotið gegn starfskyldum sínum og þeim heimildum sem hann hafði, þar sem hann hlutaðist ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þótt bankinn hefði haldið á þeim í meira en einn mánuð og að ekki væri fyrir hendi heimild til kaupanna.

                Saknæmi stefnda Yngva Arnar felst í því að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt hann hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti. Þá hefur stefndi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög.

                Saknæmi stefnda Sigurjóns felst í því að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gefið samþykki fyrir umræddum kaupum þótt hann hafi vitað eða mátt vita að ekki væru uppfyllt skilyrði áhættureglna bankans fyrir kaupunum og reglunnar um að bankinn mætti ekki eiga nema 10% eigin hluti. Þá hefur stefndi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þegar fyrir lá að kaupin höfðu verið gerð án heimildar og í bága við reglur bankans og lög.

                Stefnandi leggur á það áherslu við mat á saknæmi allra stefndu að liðið hafi u.þ.b. 14 mánuðir frá fyrstu kaupunum fram að falli bankans og að auki hafi brotin verið ítrekuð.

Orsakatengsl og sennileg afleiðing:

Samkvæmt því sem að ofan er rakið liggur fyrir að hin saknæma og ólögmæta háttsemi leiddi til þess að hlutabréf í Landsbanka Íslands, Eimskipi og Straumi voru keypt inn á miðlunarbók hlutabréfa II og vistuð þar um margra mánaða skeið þrátt fyrir að legið hafi fyrir á þeim tíma að það fæli í sér brot á bæði lögum og reglum bankans. Einnig er sannað að bú Landsbanka Íslands hafi orðið fyrir tjóni þar sem umrædd hlutabréf urðu verðlaus við fall bankans. Hin saknæma háttsemi stefndu var því nauðsynlegt skilyrði fyrir því að tjónið varð og í öllu falli meðverkandi tjónsorsök.

                Þá sé tjónið augljóslega sennileg afleiðing af saknæmri háttsemi stefndu. Fyrir liggi að farið hafi verið út fyrir heimildir vegna miðlunarbókar II og viðskiptin framkvæmd í blóra við lög. Þá hafi umrædd hlutabréf verið vistuð um margra mánaða skeið á bókinni þrátt fyrir að það færi í blóra við lög og reglur bankans og að gengi umræddra hlutabréfa færi stöðugt lækkandi. Háttsemi stefndu hafi því verið til þess fallin að auka líkur á því að Landsbanki Íslands yrði fyrir tjóni.

Tjónið:

Fyrir liggi að Landsbanki Íslands hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra fjármuna sem greiddir voru út úr bankanum samkvæmt framansögðu, en enginn hluti af kaupverði umræddra hlutabréfa hafi fengist endurheimtur og byggir stefnandi á því að hlutabréfin hafi orðið verðlaus þann 7. október 2008. Leggja verði til grundvallar í máli þessu að ef umrædd hlutabréf hefðu ekki verið keypt og vistuð á miðlunarbók hlutabréfa II þá hefði andvirði þeirra á þeim tíma sem þau voru keypt inn á bókina ekki glatast. Heildarupphæð umræddra hlutabréfakaupa hafi numið alls 1.208.244.352 krónum en samkvæmt því sé ljóst að tjón stefnanda nemi þeirri fjárhæð.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Yngva Arnar Kristinssonar

Stefndi hafnar því að hann hafi í störfum sínum sem framkvæmdastjóri Verbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. af stórfelldu gáleysi eða af ásetningi staðið að brotum á áhættureglum bankans eða ákvæðum laga með því að hafa í fimm tilvikum samþykkt kaup á hlutum í sjálfum sér, Eimskipi hf. og Straumi, sem keypt hafi verið inn á reikning Verbréfamiðlunar II á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til 25. júlí 2008 fyrir samtals kr. 1.208.244.352.

                Stefndi hafnar því, að hámarksstaða á miðlunarbók II hafi verið bundin við 900 milljónir króna. Þó að heimildin sé tilgreind 900 mkr. í grein 21.4.6 sé í greininni tiltekið að svokölluð „brúttó“ staða geti verið 1500 milljónir. Þá sé í grein 21.4 einnig tilskilið að bankastjórar geti veitt hærri heimild. Umræddar áhættureglur taki því ekki af tvímæli um það hver staða verðbréfamiðlunar II hafi mest mátt vera. Það sé hins vegar gert í svonefndri 4-15 skýrslu, en þar sé með skýrum hætti tiltekið að heimild verðbréfamiðlunar II hafi verið 1500 milljónir króna. Hafi stefnda því verið rétt að leggja þau fjárhæðarmörk til grundvallar.

                Þá sé ósönnuð og röng sú fullyrðing að kaupin hafi ekki verið gerð að beiðni viðskiptamanna. Það geti ekki verið á ábyrgð stefnda þótt stefnandi finni ekki gögn. Þá geti beiðni um kaup farið fram með símtali, sbr. 3. mgr. 2. gr. í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskiptum hjá Landsbanka Íslands. Stefndi vísar til þess að heimild til kaupa í reikning verðbréfamiðlunar II hafi einmitt miðast við að þar væru vistuð hlutabréf sem keypt væru samkvæmt beiðni viðskiptamanns, þ.e. samkvæmt samningi við hann, um söfnun tiltekinna hlutabréfa í hans þágu en endanlegur samningur skyldi gerður síðar. Í þessu fólst að upphaflegur samningur um söfnun hluta gat legið í upptöku af símtali eða tölvupósti. Af hlutverki Verbréfamiðlunar II, sbr. það sem fram kemur í áhættureglum og skilmálum markaðsviðskipta, leiddi að þess hafi ekki verið að vænta að fyrir lægi endanlegur kaupsamningur milli bankans og viðskiptamanns þegar samþykkis framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs hafi verið  leitað. Hlaut hann þá að leggja til grundvallar yfirlýsingu forstöðumanns um samning um kaupin án þess að það verði virt honum til gáleysis. Síðari staðfestingar Áhættustýringar á því, að viðskiptin hafi verið innan heimilda, hafi verið eða mátt vera honum staðfesting á því að svo hafi verið, enda hafi Áhættustýring haft eftirlit með því að samningar væru til staðar vegna kaupa fyrir reikning Verðbréfamiðlunar II.

                Þá sé ósönnuð og röng sú fullyrðing að ekki hafi legið fyrir samþykki bankastjóra fyrir kaupum umfram 300 mkr. þann 7. nóvember 2007, þ.e. vegna kaupa á hlutum í Landsbanka Íslands fyrir 671.610.962 kr. hinn 7. nóvember 2007. Stefndi telur að ekki geti hafa komið til umræddra kaupa nema samþykki bankastjórnar hafi legið fyrir.

                Stefndi mótmælir því enn fremur að hann hafi samþykkt öll fimm viðskiptin. Samþykki hans hafi ekki verið nauðsynlegt ef bankastjóri hefði samþykkt kaupin, svo sem áskilið var um kaupin 7. nóvember 2007.

                Stefndi hafnar því að honum verði metið til sakar að hafa ekki hlutast til um sölu hlutabréfa út af reikningum Verðbréfamiðlunar II þótt tafir yrðu á fullnustu umsaminna kaupa viðskiptamanns. Staða miðlunarbókarinnar hafi reglubundið verið kynnt bankastjórum á fundum fjármálanefndar og þar hafi eftir atvikum verið ákveðið hvernig bregðast skyldi við vanefndum viðskiptamanna á fullnustu kaupa. Umrædd kaup verðbréfa hafi að mati bankans verið gerð í umboði viðskiptamanns, samkvæmt samningi við hann og bankanum ekki heimilt að selja verðbréfin nema með samþykki hans. Fullnustuaðgerðir til að knýja fram efndir viðskiptamanns á kaupum í hans þágu að hans beiðni hafi ekki verið á verksviði verðbréfasviðs bankans heldur fyrirtækjasviðs, enda hafi verið litið svo á að um vanskil á láni til kaupanna væri að ræða. Því hafi eftirlitið með fullnustu á skuldbindingum viðskiptanna einnig átt undir Útlánaeftirlit og lögfræðisviðs bankans og því ekki á ábyrgðarsviði stefnda að taka ákvörðun um innheimtu eða sölu hlutanna. 

                Stefndi telur rangt að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi heimilað kaup á hlutum í Landsbankanum umfram lögbundið hámark eigin hluta samkvæmt 29. gr. laga nr. 161/2002 og 55. gr. laga nr. 2/1995. Eign bankans í sjálfum sér geti myndast vegna kaupa hlutabréfa í veltubók bankans eða vegna töku trygginga fyrir lánum þar sem hlutabréf í bankanum eru sett til tryggingar. Það fyrra gerist fyrir tilstuðlan verðbréfasviðs, hið síðara fyrir tilstuðlan annarra sviða bankans. Stefndi hafnar því að hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi enda hafi hann hvorki haft aðgang að upplýsingum um heildarstöðu bankans í eigin bréfum né hafi það verið á ábyrgðarsviði hans að ákveða viðbrögð, kæmi í ljós að heildarstaða væri umfram lögboðin mörk. Gögn málsins staðfesti að staða eigin bréfa Landsbanka Íslands í reikningum verðbréfasviðs bankans hafi jafnan verið vel innan við lögboðin mörk, sbr. yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem liggja fyrir í gögnum málsins.

                Stefndi mótmælir því að á honum hafi hvílt sérstök skylda til athafna á sínu starfssviði, þótt honum hefðu borist upplýsingar um að samanlögð staða allra sviða bankans í eigin bréfum væri umfram lögboðin mörk. Ákvörðun um það efni, hafi legið hjá yfirstjórn bankans, þar sem viðbrögð kölluðu á val um áherslur í rekstri bankans í heild. Stefndi hafi tvisvar eða þrisvar á árinu 2008 fengið fyrirmæli frá bankastjóra um að selja eignarhluti bankans sem verðbréfasvið bankans átti tímabundið og hafi það þá jafnharðan verið gert. Ábyrgð hans hafi verið á rekstri eigin sviðs en ekki bankans alls.

                Stefndi telur efnislega rangt að 10% hámark eigin bréfa væri ófrávíkjanlegt, sbr. 29. gr. laga 161/2002. Ákvæðið geri þvert á móti ráð fyrir því að svo geti orðið tímabundið. Þá gefi ákvæðið til kynna að Fjármálaeftirlitið geti gefið undanþágu hér frá. Þá sé matskennt hvernig reikna skuli hlutdeild eigin bréfa í tryggingum sé um fjölþættari tryggingar að tefla. Þótt staða bankans kunni að hafa verið umfram 10% viðmiðið við fall hans í október 2008 hafi ekki endilega falist í því brot á umræddum lagafyrirmælum. Stefnandi hafi ekki lagt fram sannanir fyrir því að um brot á nefndum reglum hafi verið að ræða í starfsemi móðurfélags Landsbankans. Þá hafi stefndi ekki komið að starfsemi þeirra aflandsfélaga sem stefnandi vísi til.

                Stefndi bendir á að það hafi verið hlutverk áhættustýringar að fylgjast með því að viðskipti Verðbréfamiðlunar II væru í samræmi við heimildir, sbr. 16. kafla áhættureglna bankans.

                Í lok hvers vinnudags hafi áhættustýring gefið út 4-15 skýrslu þar sem birtist mat hennar á því hvort starfsemi einstakra rekstrareininga hafi verið innan heimilda. Í 49 dæmum fyrir tímabilið frá 7. nóvember til 30. september 2008 séu tilfærð ýmis brot á heimildarreglum í starfsemi einstakra deilda. Þó sé ekkert slíkt heimildarbrot tilfært þar vegna verðbréfamiðlunar II. Samkvæmt þessum úttektum, sem stefnda barst daglega mátti hann því í störfum sínum ganga út frá því að Áhættustýringin hefði gengið úr skugga um að fullnægt væri skilyrðum í áhættureglum. Í því fælist staðfesting á því að 1) samningar lægju fyrir vegna allra kaupa í reikning verðbréfamiðlunar II, 2) að bankastjóri hafi samþykkt kaupin 7.11.2007 og 3) að bankastjóri hafi samþykkt að bréfin lægju á reikningi svo lengi sem raun varð á. Loks hafi skýrslan verið staðfesting á því að heildarstaða miðlunarbókarinnar væri innan þar tilgreindrar heimildar.

                Stefndi hafnar því að lagaskilyrði séu fyrir því að þrotabúið fái krafið hann sem fyrrum starfsmann félagsins um bætur fyrir tjón sem leiddi af því að hlutir í félaginu urðu verðlausir við fall þess. Einnig er mótmælt kröfu um bætur fyrir tjón af því að hlutir í tveimur öðrum félögum urðu verðlausir eftir að bankinn féll.  

                Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði séu fyrir því að dæma umkrafðar skaðabætur vegna tjóns af viðskiptum sem voru innan heimilda fyrir umræddri starfsemi. Hafi stefnandi engar málsástæður fært fram til stuðnings því að stefndu ættu að bæta þann hluta af tjóni sem fólst í verðfalli hlutabréfanna, að því marki sem þau kaup hafi verið innan þeirra heimilda sem stefnandi segir hafa verið fyrir hendi, þ.e. 900 milljóna króna. Sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður að þessu leyti. Sama gildi um kröfur hans er lúti að kröfu um bætur vegna verðfalls á hlutum í Eimskipi hf. og Straumi; hafi heimild verðbréfamiðlunar II numið 1.500 milljónum, s.s. tiltekið er í vikulegum skýrslum (4-15 skýrslum), þá standi engar málsástæður eftir til stuðnings kröfu um bætur vegna þeirra kaupa. Loks liggi ekkert fyrir um það að hlutir í Eimskipi og Straumi hafi verið orðnir verðlausir við fall bankans 7. október 2008. 

                Í 7. gr. ráðningarsamnings stefnda komi fram að bankinn skuli sjá honum fyrir „hefðbundinni stjórnendatryggingu“. Þetta hafi bankinn efnt með töku starfsábyrgðartryggingar stjórnenda hjá hjá Howden Insurance Brokers Ltd. með gildistíma frá 8. janúar 2008 til 9. janúar 2009. Staðfesti gögnin að umfang trygginganna og skilmálar hafi verið slíkir að kröfur stefnanda á hendur stefndu ættu að greiðast af tryggingunni, kæmi til þess að krafan fengist dæmd. Stefnandi hafi eftir áskorun stefnda upplýst hinn 29.11.2012 að hann hafi tilkynnt tryggingarfélaginu um kröfugerð sína á hendur stefndu með áskilnaði um að bætur sem honum kunni að verða dæmdar verði sóttar til vátryggjandans. Stefndi hafi hins vegar ekki upplýst að hann hefði þá nær tveimur árum fyrr, hinn 31. desember 2010, móttekið bréf vátryggjandans, þar sem hann lýsir riftun á vátryggingarsamningnum og beinir því til stefnanda að tilkynna það þeim er tryggðir skyldu skv. skilmálum tryggingarinnar. Benti vátryggjandinn jafnframt á að skv. 51. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 glati allir vátryggðir skv. tryggingunni rétti til bóta í tengslum við mál sem þegar hafi verið tilkynnt um, nema að mál sé höfðað eða úrskurðar krafist skv. 141. gr. sömu laga. 

                Stefnandi tilkynnti stefnda allt að einu ekki um téða orðsendingu og hefur stefndi því engan kost átt á því að bregðast við efni hennar. Þá hefur stefnandi ekki kosið að stefna vátryggingafélaginu til að þola dóm og verða bundið um greiðslu bóta, færi svo að dómstóll féllist á bótakröfur stefnanda. Telur stefndi að stefnandi hafi með framangreindum hætti vanefnt skyldur sínar gagnvart honum í þeim mæli að stefnandi hafi fyrirgert rétti sem hann ella kynni að hafa átt til að hafa uppi bótakröfur gagnavart honum vegna meintra yfirsjóna í starfi.   

                Stefndi styður kröfu sína um sýknu af bótakröfu stefnanda enn fremur við ákvæði 1. sbr. 3. mgr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telur stefndi að ákvæðið feli í sér þá meginreglu, að það sé aðeins í undantekningartilvikum að vinnuveitandi fái sótt starfsmann sinn um bætur fyrir tjón sem starfsmaðurinn kunni að hafa bakað honum í starfi. Stefndi vísar til þess að hann hafi ekki í neinu tilviki verið beinn gerandi í þeim viðskiptum er stefnandi telur að hafi valdið sér tjóni og að hann hafi haft réttmætar ástæður til að ætla að umrædd viðskipti væru í fullu samræmi við heimildir og að framkvæmd þeirra væri eðlilegur þáttur í starfsemi bankans, sbr. umfjöllun þar um í gr. 21.4 í áhættureglum. Yrði talið að stefndi hafi í einhverju tilliti gerst sekur um gáleysi í störfum sínum hvað varðar umþrætt viðskipti og stöðu Verðbréfamiðlunar II, þá standi engin rök til þess að telja það stórfellt með hliðsjón af atvikum máls. 

3. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Steinþórs Gunnarssonar

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda sem röngum, enda séu þær hvorki í samræmi við atvikalýsingu í stefnu né þau skjöl sem stefnandi leggi fram.

                Öll gögn, sem stefndi ásamt meðstefndu hafi lagt fram sýni að staða miðlunarbókar II hafi verið innan heimilda og að eigin hlutabréfaeign stefnanda hafi verið undir þeim mörkum sem kveðið sé á um í 29. gr. laga 161/2002, nema 30. júlí 2008 þegar miðlarinn Guðmundur Víðir Guðmundsson keypti hluti að nafnverði 7.000.000 króna í stefnanda fyrir 237.678.300 króna. Gögn málsins beri ekki með sér að Guðmundur Víðir eða aðrir á verðbréfasviði stefnanda hafi fengið samþykki fyrir þessum kaupum hjá stefnda eða hann verið sérstaklega upplýstur um þau. Þá hafi slitastjórnin ekki beint kröfum að nefndum Guðmundi eða grennslast fyrir um það hjá honum hvers vegna hlutabréf þessi voru keypt. Allir miðlarar sem störfuðu við verðbréfamiðlun hjá stefnanda hefðu haft sínar eigin ,,Trading-bækur“ þar sem skráð var fyrir hvern verið væri að kaupa hlutabréf inn á miðlunarbók II. Allar ,,Trading-bækur“ sem notaðar voru meðan stefndi veitti verðbréfamiðlun stefnanda forstöðu hafi verið til hjá stefnanda eða áttu að vera til þegar skilanefnd stefnanda sagði stefnda upp störfum í október 2008.

                Öll þau hlutabréf, sem keypt voru inn á miðlunarbók II og mál þetta taki til, hafi verið keypt fyrir aðila sem óskað höfðu eftir því að viðkomandi hlutabréf yrðu keypt.

                Stefndi telur að hinar meintu bótakröfur séu fallnar niður vegna tómlætis. Þegar mál þetta hafi verið höfðað með stefnubirtingu þann 4. október 2012, hafi verið liðnir 1.455 dagar frá því að skilanefnd tók við daglegri stjórn stefnanda. Þá hafi skilanefndinni einnig, vegna ábyrgðartryggingar sem stefnandi hafði keypt vegna starfa stefnda í þágu stefnanda, borið að tilkynna meint tjón til vátryggingafélagsins eða -félaganna sem hlut áttu að máli. Það hafi ekki verið gert fyrr en 29. október 2012. Með þeim seinagangi hafi skilanefnd og slitastjórn svipt stefnda vátryggingavernd, sem hann hafi átt, vegna starfa sinna í þágu stefnanda. Gerir stefndi kröfu á móti til skuldajafnaðar án sjálfstæðs dóms verði hann dæmdur til greiðslu skaðabóta.

                Stefndi vísar til fundar fjármálanefndar 29. ágúst 2007, þar sem rætt hafi verið um heimildir verðbréfamiðlunar og aukningu þeirra fyrir miðlunarbók. Stefndi tekur fram að áhættureglur sem lagðar hafi verið fram af stefnanda í máli þessu, innihaldi áhættureglur stefnanda uppfærðar og útgefnar 1. mars 2009 með tilliti til samþykkta fjármálanefndar stefnanda (fjármálanefndar GLÍ sem er gamli Landsbanki Íslands hf.). Telur stefndi líklegt að skilanefnd stefnanda hafi unnið þessa uppfærslu. Við uppfærsluna hafi skilanefndin hins vegar gleymt að breyta texta efnisákvæðis greinar 21.4 í áhættureglunum, til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á undirgreinum hennar.

                Um ábyrgð sína tekur stefndi fram að á hverju starfssviði stefnanda hafi starfað forstöðumenn, sem báru ábyrgð á einstökum deildum innan viðkomandi sviðs eða þvert á svið. Stefndi hafi verið forstöðumaður verðbréfamiðlunar verðbréfasviðs frá maí 2003 til október 2008 og heyrði undir meðstefnda, Yngva Örn. Til nýtingar heimilda hafi hann þurfti samþykki Yngva, sbr. grein 21.4 í áhættureglunum. Varðandi miðlunarbók 2 þurfti skriflegt samþykki bankastjórnar ef fara átti fram úr fjárhæðarmörkum sem eftir 1. september 2007 voru 1.500 milljónir króna.

                Eftirlit með daglegri starfsemi verðbréfasvið hafi verið á ábyrgð áhættustýringar stefnanda. Áhættustýringin hafi tilheyrt alþjóðasviði stefnanda, sbr. 16. gr. í áhættureglum stefnanda. Áhættustýringu stefnanda bar að gera daglegar skýrslur um starfssemi verðbréfasviðs, þar sem væri að finna samantekt á heimildarbrotum starfsmanna verðbréfasviðs og senda þær til bankastjóra, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, forstöðumanns fjárstýringar auk starfsmanna áhættustýringar. Þá áttu forstöðumenn deilda á verðbréfasviði stefnanda að fá sendar tilkynningar um heimildarbrot. Jafnframt hafi áhættustýring verðbréfasviðs verið til umfjöllunar á vikulegum fundum fjármálanefndar. Á engum þeirra funda sem haldnir voru í fjármálanefnd frá 7. nóvember 2007 til 6. október 2008 komu fram upplýsingar eða athugasemdir frá áhættustýringu um heimildarbrot á miðlunarbók 2 (verðbréfamiðlunarbók II).

                Framangreindar skýrslur áhættustýringar hafi gengið undir heitinu 4-15 skýrslur. Stefnandi hafi ekki lagt skýrslur þessar fram með stefnu. Það hafi meðstefndu hins vegar gert. Í skýrslum þessum komi fram að engin dæmi séu um heimildabrot varðandi miðlunarbók II á verðbréfasviði, eins og málssókn þessi byggir þó á.

                Stefndi bendir á að samkvæmt stefnu séu þrenn viðskipti á miðlunarbók 2 með hluti í stefnanda sjálfum. Sé horft til þeirra skýrslna sem útbúnar voru um það leyti sem kaupin fóru fram sé ljóst að 7. nóvember 2007, þegar keyptir voru hlutir að nafnverði 15.930.807 hafi hlutfall eigin bréfa verið um 9,3%. Hlutfallið við önnur kaup þann 28. desember 2007 þegar keyptir voru 4.050.000 hlutir hafi verið 9,8%. Hlutfallið hafi hins vegar verið yfir viðmiðunarmörkum 25. júlí 2008 þegar keyptir voru 7.000.000 hluta af Guðmundi Víði Guðmundssyni. Öll hafi kaupin verið gerð fyrir aðila sem óskuðu eftir þeim. Að öðrum kosti hefði ekki verið farið út í þau. Slíkt hafi verið með öllu óþekkt, nema verið væri að greiða fyrir einhverjum viðskiptum.

                Stefndi telur með vísan til framangreinds sé ljóst að hann hafi hvorki af ásetningi né stórfelldu gáleysi brotið af sér í störfum sínum fyrir stefnanda. Hann hafi hagað allri starfsemi sinni í þágu stefnanda í samræmi við þær heimildir sem hann hafi haft á hverjum tíma frá yfirboðurum sínum, og hafi ekki fengið neinar athugasemdir um störf sín frá eftirlitsaðilum stefnanda. Hefði hann brotið gegn starfsskyldum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi verði að ætla að innri endurskoðun stefnanda hafi átt að leiða þau brot  í ljós. Hafa verði það jafnframt hugfast að það hafi verið hlutverk innri endurskoðunar að hafa eftirlit með því að innri eftirlitsdeildir stefnanda, eins og áhættustýring og útlánaeftirlit, störfuðu eins og til var ætlast og tilkynna bankaráði og bankastjórn, ef svo var ekki. Innri endurskoðun heyrði beint undir bankaráð stefnanda.

                Stefndi hafi hvorki fengið gögn né upplýsingar um það frá áhættustýringu stefnanda að hann hafi brotið gegn reglum sem giltu um starfsemi verðbréfasviðs. Þá hafi engar athugasemdir komið frá innri endurskoðun stefnanda um störf áhættustýringar um eftirlit með miðlunarbók II.

                Stefndi reisir sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Um bótarétt stefnanda fari samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í 1. mgr. 134. gr. sé sérregla um skaðabótaábyrgð stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, skoðunarmanna og mats- og rannsóknarmanna vegna tjóns, sem rekja má til þeirra í störfum sínum fyrir félagi, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Ákvæðið nefnir ekki forstöðumenn, en stefnandi telur að um bótaábyrgð stefnda fari eftir þessu ákvæði.

                Stefndi vísar til 135. gr. þar sem fram kkomi að hluthafafundur sé einn bær um að ákveða málshöfðun til heimtu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 134. gr. og það hafi hluthafafundur ekki gert. Fjármálaeftirlitið hafi á grundvelli 5. gr. neyðarlaganna tekið yfir allt vald hluthafafunda stefnanda 7. október 2008, vikið stjórn hans frá og skipað fimm manna skilanefnd til að stjórna stefnanda. Samkvæmt 5. gr. neyðarlaganna hafi skilanefndin farið með allar heimildir stjórnar stefnanda samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga og öll málefni stefnanda að öðru leyti, m.a. umsjón með allri meðferð eigna hans og rekstrar. Þá hafi skilanefndinni borið að fara eftir og framkvæma allar þær ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitið tók á grundvelli 5. gr. Fjármálaeftirlitið, sem handhafi alls hluthafavalds stefnanda, hafi ekki tekið ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnda vegna þeirra krafna sem hafðar séu uppi í máli þessu. Með lögum nr. 44/2009 hafi vald skilanefndar stefnanda verið aukið og hún tekið bæði við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafunda sbr. 3. tl. II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.

                Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni og sanni að skilanefnd stefnanda hafi tekið formlega ákvörðun samkvæmt 135. laga nr. 2/1995 um málshöfðun á hendur stefnda fyrir árslok 2010. Slitastjórnin hafi fengið fékk endanlegt forræði yfir stefnanda frá og með 1. janúar 2012. Hún hafi tekið við öllum verkum og valdheimildum skilanefndarinnar, sbr. a-lið 8. gr. laga nr. 78/2011. Lög þessi tóku gildi 21. júní 2011. Fyrst eftir 1. janúar 2012 hafi slitastjórnin verið bær til að taka ákvörðun um höfðun skaðabótamáls á hendur stefnda á grundvelli 135. gr. laga um hlutafélög. Stefndi hafi fyrst fengið upplýsingar um kröfu slitastjórnar með bréfi 30. ágúst 2012. Undirbúningur að höfðun máls þessa hafi því ekki verið í samræmi við 135. gr. sem leiði til þess að sýkna beri stefnda af skaðabótakröfu máls þessa.

                Stefndi vísar einnig til b-liðar 1. mgr. 136. gr. laga um hlutafélög. Reikningsár stefnanda hafi verið almanaksárið og byrjaði fyrningartími skaðabótakröfu stefnanda því að líða varðandi hluta krafnanna frá og með áramótum 2007/2008 og varðandi hluta krafnanna frá og með áramótum 2008/2009. Skaðabótakröfur stefnanda hafi því allar verið fyrndar í árslok 2010, nema hluthafafundur stefnanda, Fjármálaeftirlit og síðar skilanefnd, tækju ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnda og höfðað væri mál innan fyrningarfrestsins til að rjúfa fyrningu skaðabótakröfunnar. Stefna í máli þessu hafi verið birt 4. október 2012. Skaðabótakrafan hafi þá verið fyrnd.

                Stefndi telur að 31. gr. laga nr. 68/2010, um breyting á lögum um hlutafélög, sem sé íþyngjandi réttarregla, sem lengi fyrningarfrest skaðabótakrafna samkvæmt hlutafélagalögum og lögum um einkahlutafélög, geti ekki verið afturvirk frekar en íþyngjandi lög almennt. Þær sérstöku fyrningarreglur sem 136. gr. laga nr. 2/1995 og 110. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 geymdu, hafi verið í samræmi við reglur um fyrningu bótakrafna á hendur stjórnendum annarra félaga sem ætlað sé að stunda atvinnurekstur, sbr. m.a. skaðabóta- og refsiákvæði XIV. kafla laga nr. 22/1991 um samvinnufélög og ákvæði VII. kafla laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999. Þessar sérstöku fyrningarreglur félagaréttarins byggi á því að öll umgjörð einkahlutafélaga, hlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur, þ.e. ákvarðanataka stjórna og stjórnenda, byggi á ströngum formreglum og lúti eftirliti hluthafa, félagsmanna eða eiganda og óháðra endurskoðenda og/eða skoðunarmanna. Allt miði þetta að því að tryggja að upplýsingar um ólögmæta og saknæma háttsemi í starfsemi þessara aðila eigi ekki að geta dulist lengi þeim sem hagsmuna hafi að gæta. Ómögulegt sé fyrir félögin/stofnanirnar og stjórnendur þeirra að óvissa um málshöfðun vofi yfir svo árum skipti.

                Stefndi telur að breyting á fyrningarreglum skaðabótakrafna samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög með lögum nr. 68/2010 hafi verið ólögmæt, þar sem hún feli í sér mismunum varðandi skaðabótaábyrgð stjórnenda félaga og stofnana sem stundi atvinnurekstur og fari því í bága við jafnréttisákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Skaðabætur hafi í för með sér eignatilfærslu frá tjónvaldi til tjónþola. Afturvirk breyting á reglum um fyrningu bótakrafna innan samninga skerði eignarréttindi annars samningsaðilans til hagsbóta fyrir hinn. Slík eignatilfærsla með afturvirkum réttarreglum sé andstæð eignarréttarákvæði 72. gr. og hinu almenna banni við afturvirkni laga, sem eigi sé m.a. annars stoð í 27. gr. stjórnarskrárinnar, sem mælir fyrir um að lög skuli birta svo að þau öðlist gildi.

                Teljist krafan ekki fyrnd telur stefndi að hún sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefnandi keypti stjórnendatryggingu fyrir milligöngu vátryggingamiðlarans Howden Insurance Brokers Ltd. Um ábyrgðartryggingu gildi lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Gildistími ábyrgðartryggingarinnar hafi verið frá 1. febrúar 2008 til og með 31. janúar 2009 að íslenskum tíma. Stefnandi hafi tilkynnti félaginu í skilningi vátryggingaréttar um kröfu sína á hendur stefnda með bréfi til Landslaga 29. október 2012. Þegar tilkynning hafi verið send hafi stefnandi vitað að félagið hafði hafnað allri ábyrgð samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar 31. desember 2010. Stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um þessa afstöðu félagsins. Í bréfi Mayer-Brown komi fram að allir vátryggðu samkvæmt vátryggingunni missi rétt til bóta nema mál sé höfðað eða krafist meðferðar fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum innan árs frá því er bréf barst sbr. 51. gr. laga 30/2004. Stefnandi hafi ekkert gert til að fá meint tjón sitt bætt úr ábyrgðartryggingunni á gildistíma hennar eða síðar. Af þessari vanrækslu leiði að stefnandi geti ekki haft uppi bótakröfu á hendur stefnda. Sé bótaréttur stefnanda úr hendi vátryggingafélaganna fallinn niður eigi stefndi kröfu á stefnanda um skaðleysi af öllum bótakröfum sem vátryggingin hefði bætt. Stefndi geti haft þá bótakröfu uppi í máli þessu til skuldajafnaðar án sjálfstæðs dóms.

                Stefndi telur að starfsmaður verði ekki gerður skaðabótaskyldur vegna tjóns sem hann veldur af gáleysi í starfi sínu og ábyrgðartrygging vinnuveitandans taki til sbr. 3. mgr. 19. gr. laga 50/1993 um skaðabætur. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi sé bótaskyldur vegna gáleysis beri að sýkna hann vegna aðildarskorts. Stefndi geti ekki borið húsbóndaábyrgð á undirmönnum sínum á verðbréfasviði sem kunni að hafa brotið reglur stefnanda, sem ekkert liggi fyrir um í máli þessu. Stefndi verði ekki  ábyrgur fyrir tjóni sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefnanda sbr. m.a. 23. gr. laga nr. 50/1993. 

                Stefndi mótmælir fjárhæð bótakröfu og upphafstíma dráttarvaxtakröfu, sem sé ekki í samræmi við lög og krefst þess að dráttarvextir falli fyrst á kröfuna við dómsuppsögu verði hún á annað borð tekin til greina.

4. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda sem röngum, enda séu þær hvorki í samræmi við atvik málsins né gögn stefnanda. Gögnin sýni að staða miðlunarbókar 2 hafi verið innan heimilda og að eigin hlutabréf stefnanda hafi verið undir þeim mörkum sem mælt sé fyrir um í 29. gr. laga nr. 161/2002, nema þann 30. júlí 2008 þegar miðlarinn Guðmundur Víðir Guðmundsson hafi keypt hluti að nafnverði 7.000.000 króna fyrir 237.678.300 krónur. Gögn málsins beri ekki með sér að greindur Guðmundur eða aðrir á verðbréfasviði stefnanda hafi fengið samþykki fyrir þessum kaupum hjá bankastjórn stefnanda. Þá hafi slitastjórn ekki beint kröfum að Guðmundi eða grennslast fyrir um það hjá honum hvers vegna þessi hlutabréf hafi verið keypt. 

                Stefndi telur að vísa beri máli þessu sjálfkrafa frá dómi (ex officio) þar sem báðum bankastjórum hafi ekki verið stefnt. Stefnandi hafi litið fram hjá því að bankastjórarnir fóru sameiginlega með daglega stjórnun allra málefna stefnanda fram til 8. október 2008. Annar þeirra verði ekki sérstaklega valinn til að bera ábyrgð á störfum bankastjórnarinnar. Skyldur þeirra hafi verið óskiptar.

                Stefndi vísar til þess að í áhættureglum stefnanda sem lagðar hafi verið fram í málinu, komi fram að verðbréfamiðlun stefnanda hafi haft heimild til að víkja frá fjárhæðar- og tímamörkum greinar 21.4 í áhættureglunum að fengnu skriflegu samþykki bankastjórnar. Engin gögn hafi verið lögð fram um slíkt samþykki.

                Stefndi telur að skilanefnd stefnanda hafi borið að hlutast til um málsókn á hendur stefnda innan tveggja ára frá lokum reikningsárs 2008, hafi nefndin talið að bankastjórn stefnanda hafi brotið hátternisreglur á starfstíma sínum að því er varðar hin umdeildu hlutabréfakaup. Þá hafi skilanefndinni einnig borið, vegna ábyrgðartryggingar sem stefnandi hafði keypt í þágu stefnda, að tilkynna meint tjón félaganna. Það hafi ekki verið gert fyrr en 29. október 2012.

                Stefndi bendir á fund þann sem var í fjármálanefnd þann 29. ágúst 2007. Á þeim tíma hafi heimildir verðbréfamiðlunar varðandi hvort tveggja miðlunarbók 1 og 2 verið umfram heimildir. Eftir umræður í fjármálanefnd hafi heimildir miðlunarbóka verið auknar eins og gögn málsins beri með sér, sbr. t.d. 4-15 skýrslur frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008, þar sem fram komi að heimildin hafi verið komin upp í 1500 mkr. fyrir miðlunarbók 2.

                Samkvæmt 4-15 skýrslum sem spanni þann tíma sem atvik málsins taki til komi fram að engin dæmi séu um heimildarbrot varðandi miðlunarbók 2 á verðbréfasviði. Á meðan stefndi fái upplýsingar frá áhættustýringu stefnanda um að allt sé innan settra reglna á verðbréfasviði varðandi miðlunarbók 2, og á meðan innri endurskoðun, ytri endurskoðun og Fjármálaeftirlit geri engar athugasemdir, hafi stefndi orðið að treysta því að starfsemi hans væri í samræmi við lög og reglur.

                Stefndi telur einnig að krafa stefnanda um bótaábyrgð sé fyrnd. Bótakrafa stefnanda sé reist á XV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í 134. gr. laganna sé sérregla um skaðabótaábyrgð stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra o.fl. Þegar atvik máls þessa urðu hafi verið í gildi 135. gr. og 136. gr., en síðarnefnda greinin hafi verið felld út gildi með lögum nr. 68/2010.

                Stefndi vísar til 135. gr. laga nr. 2/1995, þar sem fram komi að hluthafafundur sé einn bær til að ákveða málshöfðun til heimtu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 134. gr. og það hafi hluthafafundur ekki gert. Fjármálaeftirlitið hafi á grundvelli 5. gr. neyðarlaganna tekið yfir allt vald hluthafafunda stefnanda 7. október 2008, vikið stjórn hans frá og skipað fimm manna skilanefnd til að stjórna stefnanda. Samkvæmt 5. gr. neyðarlaganna hafi skilanefndin farið með allar heimildir stjórnar stefnanda samkvæmt ákvæðum hlutafélaglaga og öll málefni stefnanda að öðru leyti, m.a. umsjón með allri meðferð eigna hans og rekstrar. Þá hafi skilanefndinni borið að fara eftir og framkvæma allar þær ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitið tók á grundvelli 5. gr. Fjármálaeftirlitið, sem handhafi alls hluthafavalds stefnanda, tók ekki ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnda vegna þeirra krafna sem hafðar eru uppi í máli þessu. Með lögum nr. 44/2009 hafi vald skilanefndar stefnanda verið aukið og tók hún bæði við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafunda sbr. 3. tl. II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.

                Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni og sanni að skilanefnd stefnanda hafi tekið formlega ákvörðun samkvæmt 135. gr. laga nr. 2/1995 um málshöfðun á hendur stefnda fyrir árslok 2010. Slitastjórnin hafi fengið endanlegt forræði yfir stefnanda frá og með 1. janúar 2012. Hún hafi tekið við öllum verkum og valdheimildum skilanefndarinnar, sbr. a-lið 8. gr. laga nr. 78/2011. Lög þessi tóku gildi 21. júní 2011. Fyrst eftir 1. janúar 2012 hafi slitastjórnin verið bær til að taka ákvörðun um höfðun skaðabótamáls á hendur stefnda á grundvelli 135. gr. laga um hlutafélög. Stefndi hafi fyrst fengið upplýsingar um kröfu slitastjórnar með bréfi 30. ágúst 2012. Undirbúningur að höfðun máls þessa hafi því ekki verið í samræmi við 135. gr. sem leiði til þess að sýkna beri stefnda af skaðabótakröfu máls þessa.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að samkvæmt b-lið 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995, hafi fyrningartími skaðabótakrafna samkvæmt 1. mgr. 134. gr. sömu laga á hendur framkvæmdastjórum hlutafélaga verið tvö ár. Fyrningarfrestur þessi byrjaði að líða við lok þess reikningsárs þegar ákvörðun var samþykkt eða athöfn framkvæmd.

                Reikningsár stefnanda hafi verið almanaksárið og byrjaði fyrningartími skaðabótakröfu stefnanda því að líða varðandi hluta krafnanna frá og með áramótum 2007/2008 og varðandi hluta krafnanna frá og með áramótum 2008/2009. Skaðabótakröfur stefnanda hafi því allar verið fyrndar í árslok 2010, nema hluthafafundur stefnanda, Fjármálaeftirlit og síðar skilanefnd, tæki ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnda og höfðað væri mál innan fyrningarfrestsins til að rjúfa fyrningu skaðabótakröfunnar. Stefna í máli þessu hafi verið gefin út föstudaginn 5. október 2012. Skaðabótakrafan hafi þá verið fyrnd.

                Stefndi telur það engu breyta þó að fyrningarfrestur skaðabótakrafna samkvæmt lögum um hlutafélög hafi verið færður til samræmis við fyrningarfrest skaðabótakrafna samkvæmt 9. gr. laga 150/2007 um fyrningu með afnámi 136. gr. hlutafélagalaga með lögum nr. 68/2010 um breytingu á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.). Samkvæmt 31. gr. laga nr. 68/2010 átti breyting fyrningarreglunnar að taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna jafnvel þótt málssóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku gildi. Alþingi hafi samkvæmt þessu litið svo á, að 136. gr. laga um hlutafélög væri formregla en ekki efnisregla. 136. gr. sé efnisregla og verði ekki lögð að jöfnu við formreglu 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem krafa um skaðabætur á hendur stjórnendum á grundvelli 134. gr. verður eftir fyrningu ekki höfð uppi með öðrum formerkjum líkt og hægt sé með bótakröfur af hálfu þrotabúa, þó að hlutlægur réttur til riftunar sé liðinn undir lok.

                Stefndi telur að 31. gr. laga nr. 68/2010, er sé íþyngjandi réttarregla, sem lengi fyrningarfrest skaðabótakrafna samkvæmt hlutafélagalögum og lögum um einkahlutafélög, geti ekki verið afturvirk frekar en íþyngjandi lög almennt. Reglur um skaðabætur og refsingar séu af sama meiði; lúti að réttarvörslunni í landinu, geymi viðbrögð við háttsemi sem talin sé óæskileg og sé ætlað að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif. Brot, hvort heldur gegn reglum refsi- eða skaðabótaréttar, fyrnist samkvæmt þeim reglum sem giltu þegar hin saknæma háttsemi átti sér stað en ekki samkvæmt síðar tilkomnum reglum.

                Skilanefnd stefnanda, sem hafi séð um daglega stjórnun stefnanda frá 7. október 2008, hafði tækifæri til þess allt frá 7. október 2008, að óska eftir því við Fjármálaeftirlitið, að ákvörðun yrði tekin um að gera stefnda ábyrgan fyrir tjóni því sem mál þetta snýst um. Það hafi hún ekki gert og ekki heldur tekið ákvörðun um málshöfðun á hendur stefnda eftir að hún fékk vald hluthafa. Aðgerðarleysi brotaþola og/eða tjónþola geti ekki réttlætt lagabreytingar, eins og þá sem 31. gr. laga nr. 68/2010 geymir. Þá geti pólitískur vilji þingmanna til að breyta reglum um liðna atburði ekki orðið grundvöllur þess að íþyngjandi lagareglum verði beitt með afturvirkum hætti.

                Réttarheimildir að baki lögum nr. 68/2010 geymi enga skýringu á nauðsyn þess að lengja fyrningartíma skaðabótakrafna í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Ákvæði um brottfellingu 136. gr. laga nr. 2/1995 hafi verið skotið inn í frumvarpið við umfjöllun þess í viðskiptanefnd 3. júní 2010.

                Þessar sérstöku fyrningarreglur félagaréttarins byggi á því að öll umgjörð einkahlutafélaga, hlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem stundi atvinnurekstur, þ.e. ákvörðunartaka stjórna og stjórnenda, byggi á ströngum formreglum og lúti eftirliti hluthafa, félagsmanna eða eiganda, og óháðra endurskoðenda og/eða skoðunarmanna. Allt miði þetta að því að tryggja að upplýsingar um ólögmæta og saknæma háttsemi í starfsemi þessara aðila eigi ekki að geta dulist lengi þeim sem hagsmuna hafi að gæta. Ómögulegt sé fyrir félögin/stofnanirnar og stjórnendur þeirra að óvissa um málshöfðun vofi yfir svo árum skipti. Stefndi hafi þessa sömu hagsmuni og eigi rétt til þess að þeir séu virtir af handhöfum ríkisvalds.

                Stefndi byggir á því að breyting á fyrningarreglum skaðabótakrafna samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög með lögum nr. 68/2010 hafi verið ólögmæt, þar sem hún hafi falið í sér mismunum varðandi skaðabótaábyrgð stjórnenda félaga og stofnana sem stunda atvinnurekstur og fari því í bága við jafnréttisákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Skaðabætur hafi í för með sér eignatilfærslu frá tjónvaldi til tjónþola. Afturvirk breyting á reglum um fyrningu bótakrafna innan samninga skerðir eignaréttindi annars samningsaðilans til hagsbóta fyrir hinn. Slík eignatilfærsla með afturvirkum réttarreglum sé andstæð eignarréttarákvæði 72. gr. og hinu almenna banni við afturvirkni laga, sem eigi sér m.a. annars stoð í 27. gr. stjórnarskrárinnar, sem býður að lög skuli birta svo að þau öðlist gildi.

                Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að fyrningartími kröfunnar sé fjögur ár þá sé hún engu að síður fyrnd, þar sem stefna máls þessa er sögð hafa verið birt á heimili stefnda klukkan 21:18 að kvöldi föstudagsins 5. október 2012 fyrir einhverjum Gunnari Birkissyni, sem er sagður hafa verið staddur þar. Stefndi kannast ekkert við Gunnar Birkisson. Gunnar Birkisson hafi ekki haft samband við stefnda eða reynt að koma stefnu máls þessa í hendur honum eða einhvers annars sem líklegur var til að geta komið stefnunni í hendur stefnda, eins og Gunnari Birkissyni bar þó að gera sbr. 3. mgr. 86. gr. laga 91/1991.

                Þegar stefnubirting eigi að hafa farið fram hafi stefndi verið staddur í Boston ásamt sambýliskonu sinni og enginn verið á heimili þeirra í Reykjavík. Af öryggismyndavél fyrir utan heimilið að dæma hafi enginn komið að húsinu á tilgreindum tíma.

                Stefnubirting sem fari á svig við reglur laga um meðferð einkamála geti ekki rofið fyrningarfrest. Beri því að sýkna stefnda af skaðabótakröfu stefnanda.

                Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd sé hún fallin niður vegna tómlætis. Stefnandi hafi fyrst haft kröfu þessa uppi á hendur stefnda í stefnu útgefinni 5. október 2012, rétt um þremur sólarhringum áður en krafan hafi verið fyrnd, ef um hana giltu almennar fyrningarreglur. Þær gildi hins vegar ekki.

                Þá telur stefndi að vegna vanrækslu stefnanda um að upplýsa stefnda um gildistíma ábyrgðartryggingar sem stefnandi hafði keypti fyrir stefnda eigi stefndi kröfu á hendur stefnanda um að hann haldi honum skaðlausum af öllum bótakröfum sem vátryggingin hefði bætt.

                Stefndi telur með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 50/1993 um skaðabætur að starfsmaður verði ekki gerður skaðabótaskyldur vegna tjóns sem hann veldur af gáleysi í starfi sínu og ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni af ásetningi eða með stórfelldu gáleysi. Þá beri stefndi ekki húsbóndaábyrgð á undirmönnum sínum, sem kunni að hafa brotið reglur stefnanda, sbr. m.a. 23. gr. sömu laga.

                Stefndi mótmælir fjárhæð bótakröfu sem ósannaðri. Auk þess sem hann mótmælir upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að dráttarvextir falli fyrst á kröfuna við dómsuppsögu verði hún á annað borð tekin til greina.

                Stefndi telur að kaup verðbréfasviðs stefnanda á þeim hlutabréfum sem mál þetta snúist um hafi verið innan þeirra marka sem sviðið hafði. Verðhrun þeirra löngu eftir að þau hafi verið keypt geti ekki leitt til bótaskyldu stefnda. Stefnandi hafi verið eins og hver annar hlutabréfakaupandi og verði að bera áhættu af þeim hlutabréfum sem hann keypti eftir að kaupin hafa átt sér stað. Hafi verðbréfasvið stefnanda verið að kaupa hlutabréf fyrir þriðja aðila sem ekki hafi verið tilbúinn að efna samning þegar á reyndi hafi verðbréfasviði borið að leita aðstoðar lögfræðisviðs til að knýja fram efndir eða heimtu skaðabóta reyndist nauðsynlegt að selja þau við lægra verði en þau höfðu verið keypt á. Í þessu sambandi verði að hafa hugfast að inni á miðlunarbók 2 áttu aldrei að vera nein hlutabréf, nema þau ein sem keypt höfðu verið fyrir ákveðinn viðskiptavin, verðbréfasvið. Úrvinnsla slíkra mála hafi ávallt fyrst í stað verið á sviði verðbréfasviðs og áhættustýringar. Næðu þessi svið ekki árangri varð að fá lögfræðisvið stefnanda að málinu til að tryggja hagsmuni stefnanda.

                Stefndi telur að vera megi að hlutir í stefnanda sjálfum hafi orðið verðlitlir eða verðlausir 7. október 2008. Ekkert liggi fyrir um það að hlutir í Eimskipi hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. hafði orðið verðlausir 7. október 2008. Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. hafi haldið áfram bankastarfsemi sinni til 9. mars 2009 og hafi viðskipti með hlutabréf félagsins verið allt til þess tíma. Eimskipafélagið hf. hafi starfað allt til júlí 2009 í óbreyttri mynd.

                                                                                     IV.

                                                                              Niðurstöður

                                                                                      1.

                Samkvæmt 135. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, er hluthafafundur einn bær um að ákveða málshöfðun til heimtu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna. Fjármálaeftirlitið tók á grundvelli 5. gr. neyðarlaganna yfir allt vald hluthafafundar stefnanda þann 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði fimm manna skilanefnd til að stjórna stefnanda. Frá og með 1. janúar 2012, hefur stefnandi verið undir slitastjórn, sbr. a-lið 8. gr. laga nr. 78/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

                                                                                     2.

                Mál þetta snýst um kröfu stefnanda til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna kaupa bankans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, Hf. Eimskipafélagi Íslands (Eimskip) og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. (Straumur) á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til og með 25. júlí 2008 inn á reikning í bankanum sem nefndur var miðlunarbók hlutabréfa II. Nánar tiltekið er krafist bóta vegna fimm tilgreindra viðskipta. Heildarstaða þessara viðskipta á miðlunarbók hlutabréfa II nam alls 1.208.244.352 krónur þann 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi Landsbanka Íslands samkvæmt framansögðu.

                                                                                     3.

                Kröfur stefnanda eru reistar á því að stefndu, Yngvi Örn Kristinsson, Steinþór Gunnarsson og Sigurjón Þorvaldur Árnason hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni vegna framangreindra viðskipta með hlutabréf sem færð voru í miðlunarbók hlutabréfa II. Sök stefnda Steinþórs felist einkum í því að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi keypt inn á miðlunarbók hlutabréfa II og/eða gefið fyrirmæli um kaup á hlutabréfunum án þess að uppfyllt væru skilyrði þeirra heimilda sem hann hafði til kaupanna samkvæmt áhættureglum bankans. Jafnframt er hann sakaður um kaup á eigin hlutum í bankanum þótt hann hafi haft upplýsingar um að bankinn ætti þegar hluti yfir þeim 10% mörkum sem reglur mæltu fyrir um. Loks fyrir að hlutast ekki til um að hlutabréfin yrðu seld þótt bankinn hafi haldið á þeim í meira en einn mánuð. Sök Yngva Arnars og Sigurjóns Þorvaldar er reist á svipuðum grunni. 

                                                                                     4.

                Steinþór Gunnarsson gegndi starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans á umræddu tímabili 7. nóvember 2007 til 7. október 2008. Samkvæmt ráðningarsamningi hans bar hann ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins, framþróun þess og uppbyggingu. Auk þess var gert ráð fyrir að hann sinnti stjórnunarstörfum sem yfirmaður og öðrum þeim störfum sem honum kynnu að verða falin af bankastjórn hverju sinni.

                Yfirmaður Steinþórs var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, Yngvi Örn Kristinsson. Hann var einn af nokkrum framkvæmdastjórum bankans. Hann var yfirmaður síns sviðs og bar samkvæmt gögnum málsins ábyrgð á daglegum rekstri, þróun og uppbyggingu þess. Hann taldist einn af lykilstarfsmönnum bankans næst á eftir bankastjórum.

                Sigurjón Þorvaldur Árnason og Halldór J. Kristjánsson fóru sameiginlega með bankastjórn Landsbankans hf. og þar með stjórnun allra málefna hans. Ákveðin verkaskipting var milli bankastjóranna og fór Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum.

                                                                                     5.

Sérstakar áhættureglur voru í gildi innan bankans sem settar voru með hliðsjón af samþykkt bankaráðs. Allar breytingar á þeim voru samþykktar af fjármálanefnd eða bankastjórn. Ef breytingarnar voru stórvægilegar skyldu þær kynntar bankaráði. Áhættureglunar eru óundirritaðar og hafa sætt tíðum breytingum á undafönum árum. Þessum reglum hefur ekki verið mótmælt efnislega sem röngum í máli þessu svo langt sem þær ná nema að því er varðar hinar umdeildu heimildir í tengslum við miðlunarbók hlutabréfa II. Reglunum var m.a. ætlað að setja fram á skipulegan hátt þau skilgreindu áhættumörk sem Landsbankinn leyfir sér að taka fyrir stöður í eigin reikning og miðlun áhættu til viðskiptavina sinna. Markmiðið var að tryggja að til væru heimildir um leyfilega áhættutöku. Fram kemur m.a. að framkvæmdastjóri verðbréfasviðs hafi borið ábyrgð á og stýrt markaðsáhættu móðurfélags Landsbankans og að dagleg stjórn á markaðsáhættu móðurfélags hafi verið á ábyrgð forstöðumanns verðbréfamiðlunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglnanna.

                Í reglunum er mælt fyrir um áhættutakmarkanir verðbréfasviðs. Þar kemur m.a. fram að verðbréfamiðlun bankans fái allt að 900 mkr. heimild í miðlunarbók hlutabréfa II til að safna hlutabréfum fyrir viðskiptavini með samþykki forstöðumanns og framkvæmdastjóra verðbréfasviðs. Heimildin miðast við að hvert verkefni taki ekki lengri tíma en einn mánuð í senn og að ekki sé um hærri fjárhæð að ræða en 300 mkr. fyrir hvern viðskiptamann. Á öðrum stað í reglunum (grein 21.4.6) segir að heimildir verðbréfamiðlunar til stöðutöku séu bundnar við að fyrir liggi samningur um endanleg kaup viðskiptamanns á því sem tekin er staða í. Heimildin sé því ætluð til söfnunar á bréfum fyrir viðskiptavini yfir lengra tímabil og sé miðað við að viðskiptavinur hafi keypt bréfin innan eins mánaðar. Þá kemur þarna fram að „brúttóstaða“ heimildar sé „1500 mkr.“.

                Í reglunum er mælt fyrir um sérstakan eftirlitshóp, svonefnda áhættustýringu, sem heldur utan um stöður deilda á verðbréfasviði og ber saman stöður við þær heimildir sem ákveðnar hafa verið í stefnumörkun og settar fram í áhættureglunum. Í daglegum skýrslum áhættustýringar, svonefndum 4-15 skýrslum, eru tekin saman hugsanleg brot á heimildum, þar á meðal þeirri heimild sem tengd var við miðlunarbók hlutabréfa II. Skýrslur þessar, þar með taldar upplýsingar um heimildarbrot, bárust áskrifendum þeirra skýrslna en þeir voru bankastjórar, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, forstöðumaður fjárstýringar auk starfsmanna áhættustýringar.

                Í skýrslu áhættustýringar, dags. 27. ágúst 2007 (4-15 skýrslum), kemur m.a. fram að heimild miðlunarbókar hlutabréfa II hafi verið 900 mkr. og að beðið sé ákvörðunar fjármálanefndar en sú nefnd var skipuð yfirmönnum bankans. Í skýrslu frá 4. september 2007 kemur fram að heimildin sé komin upp 1.500 mkr. Segir einnig í skýrslunni að heimildir hafi verið brotnar. Í skýrslum fyrir tímabilið frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008 kemur sömuleiðis fram að heimild miðlunarbókar hlutabréfa II sé 1.500 mkr. Í þessum skýrslum er ekki tilgreint um nein brot. 

                                                                                     6.

Meginreglan um bótaábyrgð ýmissa trúnaðarmanna hlutafélaga kemur fram í 1. mgr. 134. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Samkvæmt ákvæðinu er lagt til grundvallar að gerist þeir sekir um mistök eða vanrækslu í starfi sínu sem leiðir til fjártjóns fyrir félagið eða aðra skuli þeir bæta tjónþola tapið. Þessir trúnaðarmenn verða að gæta hagsmuna félagsins eftir bestu samvisku samkvæmt þeim starfsskyldum sem á þeim hvíla. Víki háttsemi þeirra frá því getur komið til skaðabótaábyrgðar. Við mat á brotum á starfsskyldum viðkomandi skiptir máli hvort lög eða samþykktir félaga hafi verið brotin eða aðrar skráðar reglur sem í gildi voru innan bankans. Fyrrgreindir trúnaðarmenn hlutafélags bera ekki ábyrgð nema fyrir liggi sá sérstaki bótagrundvöllur gagnvart hverjum og einum sem getið er um í ákvæðinu, þ.e. að viðkomandi hafi sjálfur valdið tjóni af ásetningi eða gáleysi.

                Fram er komið að einn hinna stefndu var bankastjóri á þeim tíma sem hér skiptir máli, annar var framkvæmdastjóri bankans varðandi verðbréfasvið og sá þriðji forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans. Telja verður að sömu eða svipuð sjónarmið gildi um bótaábyrgð þeirra Yngva Arnar og Sigurjóns Þorvaldar, samkvæmt 134. gr. laga nr. 2/1995, að því er varðar mál þetta en nánari útfærsla þeirra sjónarmiða fer þó eftir því valdsviði sem þeir raunverulega höfðu innan bankans. Almenna skaðabótareglan gildir hins vegar um Steinþór, en þar koma þó svipuð sjónarmið til álita.

                                                                                     7.

                Hér að framan hefur því kerfi verið lýst sem gilti um áhættutakmörkun innan bankans varðandi miðlunarbók hlutabréfa II og þeirri hámarksfjárhæð sem hún var miðuð við. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslum áhættustýringar var heimild komin upp í 1500 mkr. á þeim tíma sem hin umdeildu viðskipti fóru fram og ekki tilgreint um nein brot á reglum. Þessar skýrslur voru samkvæmt gögnum málsins kynntar helstu fyrirsvarsmönnum bankans og þær koma auk þess fram í þeim áhættureglum sem lagðar hafa verið fram í málinu.

                Stefnandi hefur hvorki andmælt þessum skýrslum né fært fram viðhlítandi rök fyrir því að þær hafi ekki tekið mið af gildandi áhættureglum bankans. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á eða tilgreint önnur brot í starfi stefndu í tengslum við fyrrgreinda áhættutakmörkun sem valdið geti bótaábyrgð stefndu. Skaðabótaábyrgð stefndu á þessum grundvelli kemur því ekki frekar til álita.

                                                                                     8.

                Í verklagsreglum Landsbanka Íslands um eign bankans í sjálfum sér sagði m.a. að starfsmaður í áhættustýringu myndi daglega útvega stöður sem endurspegluðu eign bankans í eigin hlutabréfum hjá eigin fjárfestingum, verðbréfamiðlun, í framvirkum samningum og vörn fyrir valréttum. Síðan var vikulega tekin saman skýrsla sem sýndi heildareign bankans í sjálfum sér og hún send eða gerð aðgengileg ýmsum trúnaðarmönnum bankans. Í yfirlitum um eign Landsbanka Íslands hf. í sjálfum sér kemur m.a. fram að heildareign á miðlunarbók hlutabréfa II sé yfir 10% mörkunum frá janúarbyrjun 2008 og hafi síðan farið hækkandi og sé alls 14,54% 29. júlí 2008.

                                                                                     9.

                Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er í 29. gr. að finna ákvæði sem taka til eignarhluta fjármálafyrirtækja og dótturfélaga þeirra. Um þau gildir að samanlagður eignarhluti þeirra má ekki nema hærri fjárhæð af nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár. Eignist viðkomandi meira af hlutafénu vegna lúkningar viðskipta samkvæmt 22. gr. (þ.e. vegna tímabundinnar starfsemi og yfirtöku eigna) beri að tilkynna slíkt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Að öðru leyti gilda reglur hlutafélagalaga um eigin hluti, sbr. VIII. kafli þeirra laga.

                Meginreglan um þetta kemur fram í 1. mgr. 55. gr. hlutafélagalaga. Þar segir að hlutafélag megi ekki gegn endurgjaldi eignast eigin hluti með kaupum, eða fá þá að veði, ef nafnverð samanlagðra hluta, sem félagið og dótturfélög þess eiga í félaginu, er meira eða mun verða meira en 10% af hlutafénu. Hér verður gengið út frá því að bankinn hafi á sínum tíma fullnægt ákvæðum laga til öflunar eigin hluta innan 10% markanna.

                Það fyrirkomulag ríkti innan bankans varðandi umdeild viðskipti að bankinn hafði heimild til að kaupa eigin hluti fyrir reikning viðskiptamanns að tilteknu marki og innan tiltekins tíma og að öðru leyti innan ramma laganna. Bar samkvæmt áhættureglunum að gera samninga um þetta við viðkomandi viðskiptamann og í framkvæmd voru munnleg samtöl látin nægja. Hvað sem öðru líður verður að líta svo á að um kaup bankans á eigin hlutum hafi verið að ræða þar til viðkomandi viðskiptamaður leysti hlutina til sín. Fyrir liggur að bankinn fór yfir fyrrgreind 10% mörk að þessu leyti frá byrjun janúar 2008.

                Ekki hefur verið sýnt fram á eða gert líklegt að stefndu hafi mátt sjá það fyrir að viðskiptin 7. nóvember og 28. desember 2007 gætu leitt til þess að kaup eigin hluta færu yfir 10% mörkin. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að bótaskylda vegna þessara viðskipta hafi geta stofnast á hendur stefndu.

                Þessi sjónarmið eiga þó ekki við varðandi kaup á hlutabréfum í bankanum 25. júlí 2008. Í janúarbyrjun 2008 var heildareign eigin bréfa auk handveða á miðlunarbók hlutabréfa II þegar orðin yfir 10% og fór stöðugt hækkandi eftir það. Bar stefndu Sigurjóni Þorvaldi og Yngva Erni, sem báðir höfðu sérstökum skyldum að gegna á umræddum vettvangi, að gæta þess sérstaklega að ekki væri farið yfir þau mörk eða þau hækkuð, enda ljóst að kaup á eigin hlutum fyrir umtalsverðar fjárhæðir geta verið til þess fallin að skapa sérstaka áhættu. Umrædd viðskipti með eigin bréf voru ekki heimil samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Hafa verður þó í huga að hafi hlutafélag eignast hluti andstætt ákvæðum 55.-58. gr. hlutafélagalaga skal það láta þá af hendi svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að það eignaðist þá, sbr. nánar 60. gr. sömu laga. Bréfin voru ekki seld þannig að 10% viðmiðunarmörkum væri náð og við hrun bankans urðu þau verðlaus. Af þessum sökum bera stefndu Sigurjón Þorvaldur og Yngvi Örn skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð vegna viðskipta bankans með hlutabréf þann 25. júlí 2008 og ber að telja að tjón stefnanda hafi numið fyrrgreindri fjárhæð viðskiptanna, þ.e. 237.678.000 kr. Ekki verður talið að ákvæði 23. gr. skaðabótalaga sem mæla fyrir um bótaábyrgð starfsmanns gagnvart vinnuveitanda eigi við um stefndu Sigurjón Þorvald og Yngva Örn. 

                Að því er varðar stefnda Steinþór ber þess að geta að hann sat ekki í framkvæmdastjórn bankans og ber hann því ekki skyldur gagnvart félaginu sem af því leiða. Þykir ekki nægjanlega hafa verið sýnt fram á í hverju sök hans var fólgin þannig að hann beri skaðabótaábyrgð vegna umræddra viðskipta þann 25. júlí 2008.

                Eins og áður segir gildir ákvæði 55. gr. laga nr. 2/1995 um kaup hlutafélags á eigin hlutum. Ábyrgð stefndu samkvæmt þessu ákvæði nær því ekki til viðskipta með hlutabréf í Straumi þann 14. janúar 2008 og Eimskipi þann 25. janúar 2008. Eru stefndu því sýknaðir af kröfum stefnanda vegna kaupa bankans á hlutabréfum í Straumi og Eimskipi í janúarmánuði 2008.

10.

                Samkvæmt b-lið 136. gr. hlutafélagalaga sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir var fyrningartími skaðabótakrafna tvö ár frá lokum reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin, sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð. Reikningsár bankans er almanaksárið. Með lögum nr. 68/2010, um breyting á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög og lögum um ársreikninga sem öðlaðist gildi þann 22. júní 2010, varð breyting á fyrrgreindu ákvæði og var innleiddur fjögurra ára fyrningarfrestur miðað við sama upphafstíma. Samkvæmt því lauk fyrningartíma vegna kaupa bankans á hlutabréfum á árinu 2008, í árslok 2012, en mál þetta er höfðað 4. október 2012. Lög þessi, sem voru í eðli sínu almenn, voru sett áður en fyrningarfrestur rann út vegna skaðabótakröfu stefnanda vegna viðskipta bankans með hlutabréf þann 25. júlí 2008. Voru því aðstæður þannig að skuldarar urðu að sætta sig við breytt tímabil. Þykja hvorki eignarréttarákvæði stjórnarskrár, jafnréttisákvæði hennar né sjónarmið um afturvirkni laga vera þessari niðurstöðu til fyrirstöðu. Er bótakrafa stefnanda vegna kaupa bankans á eigin bréfum þann 25. júlí 2008, því ófyrnd. Í þessu ljósi verður heldur ekki fallist á það með stefndu að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti.

                Enn fremur eru málsástæður stefnda Sigurjóns Þorvaldar um rof fyrningar í tengslum við stefnubirtingu órökstuddar.

                                                                                     11.

                Stefndu Sigurjón Þorvaldur og Yngvi Örn telja að stefnandi hafi vanrækt skyldur sem á honum hvíldu gagnvart tryggingarfélaginu Howen Insurance Brokers Ltd., sem hafi leitt til þess að vátryggingavernd þeirra hafi fallið niður. Stefnandi hafi með því fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi bótakröfur á hendur þeim. Leiði þetta til þess að þeir eigi kröfu á hendur stefnanda um að halda þeim skaðlausum af öllum bótakröfum sem vátryggingin hefði bætt.

                Dómurinn telur að umræddar varnarástæður séu óljósar og vanreifaðar varðandi réttindi og skyldur stefnanda samkvæmt umræddum vátryggingasamningi og þann rétt sem stefndu telja sér til handa samkvæmt honum. Af þeim ástæðum koma þær ekki til frekari skoðunar í máli þessu.

12.

                Samkvæmt framansögðu er stefndi Steinþór Gunnarsson, sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

                Stefndu, Yngva Erni Kristinssyni og Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni ber að greiða stefnanda, slitastjórn Landsbanka Íslands hf. 237.678.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. nóvember 2008 til þingfestingardags 18. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda, Steinþóri Gunnarssyni, 700.000 krónur málskostnað.

                Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að stefndu Yngvi Örn Kristinsson og Sigurjón Þorvaldur Árnason og stefnandi slitastjórn Landsbanka Íslands hf. beri hver sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                              DÓMSORÐ:

Stefndi, Steinþór Gunnarsson, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Stefndu, Yngva Erni Kristinssyni og Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, ber að greiða stefnanda, slitastjórn Landsbanka Íslands hf., 237.678.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. nóvember 2008 til þingfestingardags 18. október 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefnanda ber að greiða stefnda, Steinþóri Gunnarssyni, 700.000 krónur í málskostnað.

                Málskostnaður á milli stefnanda og stefndu, Yngva Arnar Kristinssonar og Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar, fellur niður.