Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 14. júní 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2016.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, kennitala [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. júní 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð Ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dags. 5. febrúar sl. hafi sakamál verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur dómfellda. Dómfellda sé gefið að sök að hafa framið rán í félagi við Y, kennitala [...], með því að hafa, miðvikudaginn 30. desember 2015, farið inn í [...] við [...] í Reykjavík, dómfelldi X klæddur svartri hettupeysu, með andlitið hulið og vopnaður eftirlíkingu af skammbyssu og dómfelldi Y í hettupeysu, með andlitið hulið og vopnaður hníf, stokkið yfir afgreiðsluborð þar sem fyrir hafi verið 5 starfsmenn bankans og dómfelldi X ógnað gjaldkera bankans með byssunni m.a. með því að halda byssunni upp við höfuð gjaldkerans meðan hann hafi skipað gjaldkeranum að opna 3 sjóðsvélar bankans sem dómfelldi X hafi síðan tekið fjármuni úr, á meðan hafi dómfelldi Y tekið peningana sem hafi verið á afgreiðsluborði og sett í poka sem hann hafi haft meðferðis og ógnað starfsfólki og viðskiptavinum bankans með hníf sem hann hafi haldið á lofti. Þeir hafi haft 558.000 íslenskar krónur, 1.080 evrur, 10.000 japönsk jen, 500 danskar krónur og 20 pund á brott með sér af vettvangi. Teljist þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsóknargögn málsins liggi til grundvallar og hafi verið lögð fram. Dómfelldi hafi játað aðild sína að málinu fyrir héraðsdómi og hafi dómur verið kveðinn upp þann 24. febrúar sl. í málinu nr. S-[...]/2016 þar sem dómfelldi var dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár fyrir brot sitt. Dómurinn fylgi kröfunni.
Ákæruvaldið telji að fyrir liggi sterkur rökstuddur grunur um að dómfelldi hafi átt veigamikinn þátt í alvarlegu afbroti. Vegna alvarleika sakarefnis þyki nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans í Hæstarétti. Auk þess sé talið að með tilliti til hagsmuna almennings sé nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar sem talið sé að það valdi hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings ef sakborningur sem hafi orðið uppvís að jafn alvarlegu broti gangi laus. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 31. desember sl., í upphafi vegna rannsóknarhagsmuna skv. a- lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en síðar á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjaness nr. R- [...]/2015, [...] og [...]/2016 og dómi Hæstaréttar nr. [...]/2016
Sakarefnið sé talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 16 árum. Krafa um gæsluvarðhald sé byggð á 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008.
Niðurstaða
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. febrúar sl. var dómfelldi fundinn sekur um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í félagi við annan mann framið vopnað rán 30. desember 2015, og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Dómfelldi hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá því 11. janúar sl. þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að brot hans væri þess eðlis að telja yrði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sætti gæsluvarðhaldi. Þar samþykkti dómfelldi að sæta gæsluvarðhaldi á þessum grunni. Nú horfir svo við að dómfelldi mótmælir því að vera sviptur frelsi sínu þar sem því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna sé ekki fullnægt. Í ljósi þess með hvaða hætti brot dómfellda var framið þykir fullnægt því skilyrði ákvæðisins að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá hefur dómfelldi játað aðild sína að ráninu og því er öðrum skilyrðum ákvæðisins einnig fullnægt. Því þykir rétt að fallast á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. júní 2016, kl. 16:00.