Hæstiréttur íslands

Mál nr. 394/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit


Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 394/2012.

Saga Capital hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Fjármálaeftirlitinu

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit.

Fjármálaeftirlitið afturkallaði starfsleyfi fjármálafyrirtækisins S hf. en í kjölfarið var S hf. tekið til slita með úrskurði héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. tölul. 2. mgr. 101. gr., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til þeirrar meginreglu að málskot til dómstóla fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 30. maí 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði tekinn til slita. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að  áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var starfsleyfi sóknaraðila afturkallað með ákvörðun varnaraðila 28. september 2011, sem tilkynnt var sóknaraðila með bréfi 3. október sama ár. Sóknaraðili höfðaði mál til ógildingar þessari ákvörðun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember sama ár og féll dómur 5. mars 2012 þar sem kröfu hans var hafnað. Hann hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.

Af 60. gr. stjórnarskrárinnar er leidd sú meginregla að réttaráhrif stjórnvaldsákvörðunar frestist ekki þótt henni sé skotið til dómstóla. Ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er í samræmi við þessa meginreglu, en í lokamálslið greinarinnar er tekið fram að málshöfðun fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar varnaraðila.

Fjármálafyrirtæki skal slitið ef starfsleyfi þess er afturkallað, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tölulið 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þessu til samræmis hefur varnaraðili krafist slita sóknaraðila. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Saga Capital hf., greiði varnaraðila, Fjármálaeftirlitinu, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012.

Með bréfi sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, Höfðatúni 2, 105 Reykjavík, dagsettu 16. desember sl., var þess krafist að varnaraðili, Saga Capital hf., kt. 660906-1260, Hafnarstræti 53, Akureyri, yrði tekið til slitameðferðar. Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar.

Varnaraðili, Saga Capital hf., kt. 660906-1260, Hafnarstræti 53, Akureyri, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

Krafa sóknaraðila var fyrst tekin fyrir 19. janúar sl. Var henni mótmælt og í framhaldi af því þingfest ágreiningsmál þetta. Málsaðilar lögðu fram greinargerðir og önnur gögn, en málið var tekið til úrskurðar að loknum flutningi þann 18. apríl sl.

I.

Krafa sóknaraðila um slitameðferð varnaraðila er byggð á 1. tl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161, 2002 um fjármálafyrirtæki.

Sóknaraðili segir að forsendur fyrir kröfu hans megi rekja til þess að í ágúst 2011 hafi hann fengið reikningsuppgjör varnaraðila, Saga Fjárfestingarbanka hf., fyrir fyrrihluta ársins 2011, en þar hafi komið fram að eiginfjárgrunnur bankans nam í lok júní 257.000.000 króna.  Sóknaraðili vísar í kröfu sinni til þess að í ljósi lýstrar eiginfjárstöðu hafi varnaraðila verið veittur frestur til 7. september 2011 til að koma eiginfjárgrunni bankans yfir lögbundið lágmark, ellegar yrði lagt fyrir stjórn sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, að taka ákvörðun um afturköllun á starfsleyfi varnaraðila.  Fram kemur í gögnum að þann 7. september sama ár barst sóknaraðila bréf frá varnaraðila þar sem sagði m.a. að eiginfjárgrunnur bankans hefði enn lækkað, en í framhaldi af því upplýsti varnaraðili sóknaraðila, með tölvubréfi 26. september sama ár, að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði með úrskurði veitt honum heimild til nauðasamningsumleitana.  Samkvæmt gögnum tilkynnti fulltrúi eignasafns Seðlabanka Íslands varnaraðila með bréfi 8. september 2011 að framlagt nauðasamningsfrumvarp varnaraðila yrði ekki samþykkt.  Hætti varnaraðili þá frekari nauðasamningsumleitunum. 

Með bréfi varnaraðila til sóknaraðila, dagsettu 22. september 2011, óskaði varnaraðili eftir því að frestur hans til þess að koma fyrrnefndum eiginfjárgrunni yfir lögmælt lágmark yrði framlengdur til 31. janúar 2012 og eftir atvikum til 30. júní sama ár.

Samkvæmt gögnum tók sóknaraðili ákvörðun um afturköllun starfsleyfis varnaraðila á 263. fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins þann 28. september 2011.  Var ákvörðunin tilkynnt varnaraðila með bréfi dagsettu 3. október 2011, en um forsendur var m.a. vísað til þess að áætlanir varnaraðila um úrbætur væru háðar mikilli óvissu og óljóst hvenær gera mætti ráð fyrir, með raunhæfum hætti, að eiginfjárgrunnur bankans yrði kominn yfir lögbundið lágmark.  Um lagarök var vísað til 2. tl. 1. mgr. 9. gr., sbr. og 11. mgr. 14. gr., laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002.

Í nefndri kröfu um slitameðferð vísar sóknaraðili til þess að sé starfsleyfi fjármálafyrirtækis afturkallað skuli fyrirtækinu slitið og fari um slitin samkvæmt XII. kafla fyrrnefndra laga.  Þá segir í kröfunni að í 1. tl. 2. mgr. 101. gr. laganna segi að fjármálafyrirtæki skuli tekið til slita eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi þess eða synjað því um frest samkvæmt 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði sé á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið fé sitt fram yfir það lágmark sem mælt sé fyrir um í 84. gr.

Með stefnu útgefinni 14. nóvember 2011 og þingfestri 18. sama mánaðar höfðaði varnaraðili mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn sóknaraðila þar sem þess var krafist að fyrrgreind ákvörðun sóknaraðila, um að afturkalla starfsleyfi varnaraðila, væri ógilt með dómi.  Sætti málið flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.  Aðalmeðferð fór fram í málinu 6. febrúar sl.  Dómur féll 5. mars, sbr. mál nr. E-4450/2011, og var það niðurstaðan að öllum kröfum varnaraðila var hafnað.  Með áfrýjunarstefnu varnaraðila, útgefinni 14. mars sl., var þessum dómi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

II.

Af hálfu varnaraðila, Saga Capital hf., er til þess vísað að krafa sóknaraðila um slitameðferð sé reist á fyrrnefndri ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins frá 28. september 2011 um að afturkalla starfsleyfi varnaraðila sem lánafyrirtækis.  Er til þess vísað að með bréfi, sem fylgdi ákvörðuninni, dagsettu 3. október 2011, hafi varnaraðila sérstaklega verið á það bent að hann ætti lögbundinn rétt til að höfða mál til þess að fá ákvörðunina ógilta, vilji hann ekki una við hana.  Þá hafi þess verið óskað í bréfinu, að sóknaraðili yrði látinn vita þegar stjórn varnaraðila hefði tekið ákvörðum um slitameðferð.  Bendir varnaraðili á að hann hafi höfðað fyrrgreint mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn sóknaraðila í þeim tilgangi að fá fyrrgreinda ákvörðun stjórnar sóknaraðila um afturköllun starfsleyfis varnaraðila sem lánafyrirtækis ógilta með dómi.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn á því, að í 1. tl. 2. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002 segi að fjármálafyrirtæki skuli tekið til slita að kröfu Fjármálaeftirlits hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins og að um slitin skuli fara skv. XII. kafla laganna.  Kveðst varnaraðili byggja á því að ekki sé kveðið á um sérstaka fresti í nefndum lögum heldur sé sóknaraðila fært svigrúm til þess að meta hvenær þörf sé á að gera slíka kröfu.  Staðhæfir varnaraðili að við slíka kröfugerð beri Fjármálaeftirlitinu, sóknaraðila, að hafa hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga, einkum meðalhófsreglunni.  Þá verði við matið að taka tillit til eðlis og umfangs hinnar starfsleyfissviptu starfsemi, en einnig fjölda viðskiptamanna og fjölda kröfuhafa.  Varnaraðili vísar til þess að áður en starfsleyfi hans var afturkallað hafi hann m.a. látið tímabundið af leyfisbundinni starfsemi sinni og sagt upp flestu starfsfólki.  Í kjölfar starfsleyfissviptingarinnar hafi varnaraðili enn fremur breytt nafni sínu úr Saga Fjárfestingarbanki í Saga Capital og þannig tekið tilvísunina „fjárfestingarbanki“ úr nafni sínu og samskiptagögnum.

Varnaraðili byggir á því að engin knýjandi þörf sé á að taka hann til slitameðferðar eins og málum sé komið.  Ekki sé um neina sérstaka hagsmuni kröfuhafa né hugsanlegra viðskiptavina að ræða sem kalli á slíka meðferð meðan beðið sé endanlegrar úrlausnar í fyrrgreindu ógildingarmáli fyrir dómstólum.  Bendir varnaraðili á að nái ógildingin fram að ganga megi hann hefja starfsemi að nýju og kalla sig banka, verðbréfafyrirtæki eða annað sem vísi til starfsleyfis hans.

Varnaraðili kveðst líta svo á, að slitameðferð sé ekki „réttaráhrif“ sem ekki verði frestað þótt ógildingarmál sé höfðað skv. 8. gr. laga nr. 87, 1998.  Hann bendir og á að þótt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 161, 2002 geri ráð fyrir að óumflýjanlegur fylgifiskur afturköllunar starfsleyfis sé sá að fjármálafyrirtæki skuli tekin til slita sé ekki tekið fram hvenær það skuli gert og því sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir að það sé gert í beinu framhaldi afturköllunar.  Bein réttaráhrif afturköllunar starfsleyfis fjármálafyrirtækis séu að fyrirtækið megi ekki halda áfram að stunda starfsemina, sem það hafði áður starfsleyfi til þess að stunda, og fresti málshöfðun ekki þeim réttaráhrifum.  Telur varnaraðili að slitameðferð geti ekki talist vera slík bein réttaráhrif, enda geri lögin ráð fyrir að ákveðinn tími geti liðið frá því að starfsleyfi er afturkallað þar til slitameðferð fari fram og það sé undir stjórn sóknaraðila komið hvenær krafa um slíkt sé sett fram.  Bendir varnaraðili á að ef gera eigi ráð fyrir því að rétt sé að taka til greina kröfu um slitameðferð, þrátt fyrir að höfðað hafi verið ógildingarmál vegna ákvörðunar um afturköllun starfsleyfis, myndi það í raun þýða að ekkert hald væri í þeim varnagla laganna að geta fengið ákvörðun sóknaraðila endurskoðaða fyrir dómi.

Af hálfu varnaraðila er sérstaklega vísað til samskipta starfsmanna málsaðila eftir að sóknaraðili tók ákvörðun sína um afturköllun starfsleyfis á haustdögum 2011.  Bendir varnaraðili á að hann hafi á fundum með starfsmönnum sóknaraðila farið fram á að sóknaraðili afturkallaði margnefnda ákvörðun eða tæki nýja ákvörðun, sem gengi skemur og kvæði einungis á um afturköllun starfsleyfis að hluta, en án árangurs.  Bendir varnaraðili á að hann hafi vísað til þess að ákvörðun sóknaraðila væri miklum annmörkum háð, þ. á m. að ekki hefði verið gætt meðalhófs og andmælaréttar.  Þá staðhæfir varnaraðili að í nefndum samskiptum hefði m.a. komið fram að það væri ekki venja að sóknaraðili gerði kröfu um slitameðferð, þótt ákvæði laga nr. 161, 2002 gerðu ráð fyrir slíku, heldur væri því ávallt beint til stjórnar viðkomandi fjármálafyrirtækis að óska eftir slitum af sjálfsdáðum.  Engin krafa eða beiðni um slíkt hafi þó borist frá sóknaraðila til varnaraðila.  Þá hafi stjórn varnaraðila lýst þeirri skoðun sinni að á meðan fyrrnefnd ákvörðun sóknaraðila sætti endurskoðun dómstóla myndi stjórnin ekki taka ákvörðun um að setja félagið í slitameðferð.  Af þessum sökum hefði tölvurafbréf sóknaraðila, dagsett 14. desember sl., komið á óvart, en þar hefði verið tilkynnt að til stæði að senda beiðni um slitameðferð á varnaraðila til héraðsdóms, ekki síst í því ljósi að þetta hefði verið í andstöðu við vilyrði yfirlögfræðings sóknaraðila um að ekki yrði gripið til slíkra aðgerða fyrr en endanlega væri skorið úr um lögmæti margnefndrar ákvörðunar sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að ekki sé knýjandi þörf á því að setja félagið í slitameðferð.  Varnaraðili væri þannig ekki ógjaldfær og hefði, eins og áður er rakið, hætt allri leyfisskyldri starfsemi.

Varnaraðili bendir á að álitaefni sé hvort sóknaraðili hafi gætt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga áður en ákvörðun var tekin um að óska eftir slitameðferð varnaraðila, sbr. að því leyti 9. gr. laga nr. 161, 2002 að því er varðaði afturköllun starfsleyfis, og þá í því ljósi hvenær og hvort og á hvaða stigi sóknaraðila sé almennt rétt að gera kröfu um slitameðferð á þeim grundvelli að starfsleyfi hafi verið afturkallað.  Í ljósi fyrrnefndra samskipta er á því byggt af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi freklega brotið gegn umræddri meðalhófsreglu, en að auki hafi krafan verið í andstöðu við það sem sóknaraðili hafi haft að venju í samskiptum sínum við fjármálafyrirtæki undir slíkum kringumstæðum.  Um hið síðastnefnda vísar varnaraðili jafnframt til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Varnaraðili bendir á að ekki verði skorið úr um það efnislega í þessu máli hvort að margnefnd ákvörðun sóknaraðila um afturköllun starfsleyfis varnaraðila hafi verið annmörkum háð þannig að ógildingu varði.  Bendir hann á að í máli þessu verði einfaldlega tekin afstaða til þeirrar spurningar hvort rétt sé að taka varnaraðila til slitameðferðar á grundvelli ákvörðunar um sviptingu starfsleyfis, sem sæti endurskoðun dómstóla, og þar með að svipta varnaraðila þeim lögbundna rétti að fá ákvörðun endurskoðaða fyrir dómi.  Byggir varnaraðili á því að einsýnt sé að rétt sé að hafna kröfu sóknaraðila um slitameðferð á varnaraðila og bíða endanlegrar niðurstöðu nefnds ógildingarmáls.

Um lagarök er af hálfu varnaraðila vísað til stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, einkum 11., 12. og 13. gr. laganna.  Enn fremur vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002, einkum 9. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr., svo og XII. kafla laganna, einkum 1. tl. 2. mgr. 101. gr.  Þá vísar hann til 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87, 1998 og loks til XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 og um málskostnað, sbr. og 1. mgr. 130. gr. sömu laga.

III.

Í greinargerð sóknaraðila eru gerðar athugasemdir við málavaxtalýsingu og málsástæður varnaraðila.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki í rúmt ár.  Mikill taprekstur hafi verið á varnaraðila fyrstu mánuði ársins 2011 og hafi eiginfjárgrunnur félagsins þá þegar verið kominn niður fyrir lögleg mörk.  Sóknaraðili hafi þó ekki fengið upplýsingar um stöðu málsins fyrr en 7. júní 2011, en eftir það hafi hann veitt varnaraðila nokkur tækifæri til þess að koma eiginfjárgrunninum yfir lögmælt lágmark.  Hafi varnaraðila ekki tekist að uppfylla skilyrði laganna, þrátt fyrir mikil samskipti, ítrekanir og fresti.  Hafi varnaraðila verið veittur lokafrestur til 7. september 2011 til að koma eiginfjárgrunni félagsins yfir lögbundið lágmark og hafi honum jafnframt verið kunngert að eftir það tímamark yrði lagt fyrir stjórn sóknaraðila að taka ákvörðun um afturköllun starfsleyfis hans.  Bent er á að viðbrögð varnaraðila hafi á endanum verið þau að hann hafi með bréfi til sóknaraðila, dagsettu 22. september 2011, óskað eftir því að frestur, sem honum hafði verið veittur til að koma eiginfjárgrunni bankans yfir lögmælt lágmark, yrði framlengdur til 31. janúar 2012, en jafnframt að þrátt fyrir tilteknar ráðstafanir kynni hann að óska eftir viðbótarfresti til loka júnímánaðar 2012.

Sóknaraðili segir að eftir þessa forsögu hafi á stjórnarfundi sóknaraðila 28. september 2011 verið tekin ákvörðun um að afturkalla leyfi varnaraðila til að starfa sem lánafyrirtæki, enda hefði félagið þá notið andmælaréttar og fresta til að grípa til aðgerða svo lagfæra mætti eiginfjárgrunn félagsins, án fullnægjandi árangurs.  Ákvörðunin hafi verið tilkynnt varnaraðila með fyrrnefndu bréfi 3. október 2011. Varnaraðili hefði í kjölfar afturköllunarinnar höfðað fyrrnefnt dómsmál gegn sóknaraðila til ógildingar á ákvörðun um afturköllun starfsleyfis.  Héraðsdómur Reykjavíkur hafi, sbr. mál nr. 4450/2011, hafnað öllum rökum og kröfum varnaraðila og standi því ákvörðun sóknaraðila um afturköllun starfsleyfis sem lánafyrirtækis því óhögguð.

Sóknaraðili bendir á, að í kjölfar afturköllunar starfsleyfis varnaraðila hafi verið ljóst að varnaraðila skyldi slitið og hafi sóknaraðila borið lagaskylda til þess að krefjast slitanna.  Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili gefið varnaraðila færi á að óska sjálfur eftir slitum, en aldrei hafi verið gefið til kynna að honum væri heimilt að bíða með slíkt.  Þar sem varnaraðili hafi ekki brugðist við hafi sóknaraðila verið nauðugur einn kostur að bera sjálfur fram ósk um slit á varnaraðila undir dómstóla.

Sóknaraðili byggir á því að öll efnisleg skilyrði fyrir afturköllun starfsleyfis varnaraðila hafi verið til staðar þegar ákvörðun um að óska eftir slitameðferð var tekin.  Sóknaraðili staðhæfir og að réttra málsmeðferðarreglna hafi á öllum stigum verið gætt og hafi því ákvörðunin um fyrrnefnda afturköllun starfsleyfis hvorki verið ógildanleg af efnislegum né formlegum ástæðum, en þar um er vísað til fyrrnefnds dóms í máli nr. E-4450/2011 frá 5. mars sl.

Sóknaraðili bendir á að skilyrði um lágmarkseiginfjárgrunn sé grundvallarskilyrði fyrir starfrækslu fjármálafyrirtækis.  Líkt og nú sé komið hafi varnaraðili óumdeilanlega ekki uppfyllt þetta skilyrði, enda beri varnaraðili ekki á móti því.  Því sé ekki ágreiningur um það hvort skilyrði afturköllunar hafi verið fyrir hendi, sbr. ákvæði 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 161, 2002.  Þaðan af síður sé efnislegur ágreiningur til staðar í dag.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 161, 2002 skuli fjármálafyrirtæki slitið ef starfsleyfi þess sé afturkallað og fari um slitin eftir ákvæðum XII. kafla laganna.  Hann bendir og á að samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 101. gr. nefndra laga segi að taka skuli fjármálafyrirtæki til slita „eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða frestur skv. því ákvæði er á enda, án þess að fyrirtækið hafi aukið fé sitt fram yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í 84. gr.“

Sóknaraðili lætur þá skoðun í ljós að héraðsdómara beri með vísan til ofangreinds að taka afstöðu til þess hvort lagaskilyrði séu til staðar þannig að rétt sé að taka varnaraðila til slita, enda sé sóknaraðila skylt að bera slíka kröfu undir dómstóla.  Dómstólar geti ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði.  Mæli lögin þannig fyrir um að dómstólar taki afstöðu til slita á fjármálafyrirtæki strax í kjölfar afturköllunar starfsleyfis þess.  Sóknaraðili hafi enga heimild til að bíða með að bera slík mál undir dómstóla.

Með vísan til ofangreinds telur sóknaraðili að héraðsdómur þurfi í raun ekki að taka til skoðunar málsástæður varnaraðila er lúti að meintri málsmeðferð, sem varnaraðili telji að eigi að vera undanfari kröfu sóknaraðila um slit.  Engu að síður kveðst sóknaraðili andmæla öllum sjónarmiðum og málsástæðum varnaraðila að því leyti.

Sóknaraðili staðhæfir að krafa um slit sé ekki stjórnvaldsákvörðun.  Í ljósi ákvæða 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161, 2002 hafi sóknaraðila ekki verið nauðsyn á að viðhafa málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum, að því er varðar andmælarétt eða um að tilkynna varnaraðila sérstaklega um að gerð yrði krafa um slit.  Þá hafi varnaraðili engar réttmætar væntingar getað haft um annað en að krafist yrði slita á félaginu strax í kjölfar afturköllunar starfsleyfis.  Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðila verið gefinn kostur á að óska sjálfur eftir slitum.

Sóknaraðili bendir á, að jafnvel þótt ákvörðun sóknaraðila hefði verið stjórnvaldsákvörðun, þá hefði engu að síður verið óþarft að gefa varnaraðila færi á að koma að andmælum.  Bendir sóknaraðili á að afstaða hans hafi þegar legið fyrir og þegar svo standi á séu andmæli augljóslega óþörf, sbr. ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993. 

Af hálfu sóknaraðila er áréttað að ákvörðun hans hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun og þaðan af síður matskennd stjórnvaldsákvörðun, en þar um er vísað til áðurgreindra ákvæða 2. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161, 2002.  Nefnd ákvæði mæli skýrlega fyrir um skilyrði til slitameðferðar og þegar þau séu til staðar beri að óska eftir slitum.  Löggjafinn hafi sjálfur tekið afstöðu til þarfarinnar á slitum fjármálafyrirtækis með því að setja svo afdráttarlaus ákvæði í lögin.

Sóknaraðili andmælir því að venja hafi myndast fyrir annarri meðferð en viðhöfð var gagnvart varnaraðila í máli þessu, í kjölfar afturköllunar starfsleyfis hans, en um sönnunarbyrði þar um vísar hann til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91, 1991.  Að öðru leyti vísar sóknaraðili til þagnarskyldu, sbr. 13. gr. laga um opinbert eftirlit um fjármálastarfsemi nr. 87, 1998.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar hafi varnaraðili átt rétt á að bera margnefnda ákvörðun um afturköllun starfsleyfis undir dómstóla, en að sá réttur fresti hins vegar ekki réttaráhrifum og verði hann að sæta þeirri almennu reglu að ákvörðun sé bindandi frá birtingu, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þá andmælir sóknaraðili því að meðalhófsregla stjórnsýslulaga um nefnda ákvörðun eigi við, enda sé ætlast til þess að krafa um slit sé sett fram strax í kjölfar afturköllunar starfsleyfis, sbr. áðurgreind ákvæði 2. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 106. gr. laga nr. 161, 2002.  Hið sama eigi við um jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda geti fjármálafyrirtæki ekki neitað slitum og þannig komið í veg fyrir rétta og lögmæta framkvæmd á lögum nr. 161, 2002.

Um lagarök er af hálfu sóknaraðila vísað til almennra reglna stjórnsýsluréttarins, ákvæða laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87, 1998, og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002.  Um málskostnað er vísað til 129. – 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.

IV.

Í máli þessu hefur varnaraðili, Saga Capital hf., uppi þá kröfu að kröfu sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, um slitameðferð verði hafnað.

Eins og áður er rakið er forsaga þessa máls í aðalatriðum sú, að stjórn sóknaraðila tók, í kjölfar formlegra samskipta málsaðila síðsumars 2011, þá ákvörðun á stjórnarfundi 28. september 2011, að afturkalla starfsleyfi varnaraðila þar sem félagið fullnægði ekki ákvæðum 11. mgr. 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002 um lögbundinn eiginfjárgrunn, sbr. 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna.  Var ákvörðunin tilkynnt varnaraðila með bréfi dags. 3. október 2011.  Varnaraðili brást við og höfðaði dómsmál gegn sóknaraðila, sbr. mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4450/2011, til ógildingar á nefndri ákvörðun.  Var á því byggt að málsmeðferð sóknaraðila hefði verið óvönduð og ákvörðun tekin án nægjanlegs undirbúnings og þannig brotið gegn andmælarétti, rannsóknarreglu og meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.  Í ítarlegum rökstuðningi í nefndu héraðsdómsmáli var komist að niðurstöðu um að við töku umræddrar ákvörðunar hafi í hvívetna verið gætt ákvæða laga nr. 161, 2002 um fjármálafyrirtæki, en einnig stjórnsýslulaga og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar.  Var því ekki fallist á kröfu varnaraðila um að ógilda með dómi ákvörðun sóknaraðila, um afturköllun starfsleyfis varnaraðila sem lánafyrirtækis.

Í máli þessu er ekki ágreiningur um að starfsleyfi varnaraðila hafi verið afturkallað þar sem hann hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur um eiginfjárgrunn samkvæmt 11. mgr. 14. gr. laga nr. 161, 2002, sbr. ákvæði 2. tl. 9. gr. laganna.  Samkvæmt gögnum var varnaraðila veittur ítrekaður frestur til úrbóta áður en ákvörðun um afturköllunina var tekin og er það í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laganna.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur, sem dæmdar eru að efni til, og verða slíkar kröfur ekki bornar undir sama eða hliðsettan dómstól.  Að þessu virtu og með hliðsjón af fyrrgreindri niðurstöðu í máli nr. E-4450/2011 verður málsástæðum varnaraðila að því er varðar málsmeðferðarreglur hafnað.

Kveðið er á um í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 161, 2002 að fjármálafyrirtæki skuli slitið ef starfsleyfi þess er afturkallað og fer um slitin skv. ákvæðum XII. kafla laganna.  Þá segir í 1. tl. 2. mgr. 101. gr. laganna að taka skuli fjármálafyrirtæki til slita:  „Eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um fresti, skv. 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé sitt fram yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í 84. gr.“

Í máli þessu er ekki ágreiningur um að skilyrði laganna um slitameðferð séu uppfyllt.  Varnaraðili heldur því hins vegar fram að ekki sé knýjandi þörf fyrir slíkri meðferð, en að auki sé krafa sóknaraðila um slitameðferð í andstöðu við vilyrði starfsmanna sóknaraðila um að ekki yrði óskað eftir slíkri meðferð fyrr en endanlega væri skorið úr lögmæti ákvörðunar sóknaraðila um afturköllun starfsleyfis fyrir Hæstarétti Íslands.  Sóknaraðili heldur því jafnframt fram að venja hafi skapast af hálfu sóknaraðila í sambærilegum málum að gera kröfu á stjórnir fjármálafyrirtækja um að þær hlutuðust sjálfar til um slitameðferð, en því hafi ekki verið að heilsa í tilviki varnaraðila.

Það er álit dómsins að lýst lagaákvæði um skyldur sóknaraðila, sem eftirlitsaðila, séu ríkar þegar skilyrði eru fyrir hendi um slit á fjármálafyrirtækjum, líkt og í tilviki varnaraðila.  Er því fallist á málsástæðu sóknaraðila um að aðgerðir hans hafi verið byggðar á lögmætum grunni.  Þá eru staðhæfingar varnaraðila, að mati dómsins, um að málsmeðferð eða verklag sóknaraðila hafi verið andstæð venjum eða að ekki hafi verið knýjandi þörf til aðgerða, ósannaðar í ljósi eindreginna andmæla sóknaraðila, sbr. og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Að ofangreindu virtu og röksemdum sóknaraðila að öðru leyti er það niðurstaða dómsins að hafna beri dómkröfu varnaraðila í máli þessu.  Ber því samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161, 2002 um fjármálafyrirtæki að taka Sögu Capital hf. til slitameðferðar.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚR S K U R Ð A R O R Ð :

Saga Capital hf., kt. 660906-1260, er tekið til slitameðferðar.

Málskostnaður fellur niður.