- Ökutæki
- Ábyrgðartrygging
- Skaðabætur
- Matsgerð
|
Fimmtudaginn 22. október 2015. |
Nr. 166/2015.
|
Sigríður Bárðardóttir (Ingi Tryggvason hrl.) gegn Kaldólfi ehf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.) |
Ökutæki. Ábyrgðartrygging. Skaðabætur. Matsgerð.
Árið 2010 varð sinubruni á svæði á jörð S sem skipulagt hafði verið fyrir frístundabyggð. Óumdeilt var að kviknað hafði í undan hita af útblástursröri á fjórhjóli, sem starfsmenn K ehf. höfðu notað þar við lagningu vatnsleiðslu, en ökutækið, sem tryggt var hjá S hf., var látið standa kyrrt með ræstri vél milli þess sem því var beitt í þessu skyni. Deildu aðilar annars vegar um hvort tjón sem S taldi sig hafa orðið fyrir vegna tafa á sölu lóða, sem bruninn hafi leitt af sér, yrði talið sennileg afleiðing af háttsemi starfsmanna K ehf. og hins vegar hvort matsgerð dómkvaddra manna, sem S hafði aflað við rekstur málsins, gæfi rétta mynd af því tjóni hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að líta yrði svo á að mönnum mætti almennt vera ljóst að eldur gæti kviknað vegna hita af útblástursröri frá aflvél ökutækis við aðstæður sem þessar í þurrum gróðri. Að auki hefði K ehf. fengist í atvinnuskyni við framkvæmdir og mætti ætlast til að staðið yrði þannig að þeim að hætta stafaði ekki af verklaginu sem beitt væri. Að þessu virtu yrði að leggja til grundvallar að eldurinn hefði í skilningi skaðabótaréttar verið sennileg afleiðing þessarar háttsemi starfsmanna K ehf. Alkunna væri að sinueldur gæti undir kringumstæðum sem þessum orðið óviðráðanlegur. Mætti því hafa verið fyrirsjáanlegt að eldur gæti borist í kjarr og annan gróður á jörð S. Þá ætti starfsmönnum K ehf. ekki að hafa getað dulist að kæmi eldur upp í landi jarðarinnar, sem skipulagt hafði verið fyrir frístundabyggð, yrði hætta á að það myndi spillast þannig að tjón hlytist af. Afleiðingarnar, sem þessi háttsemi þeirra hafði, væru því ekki svo fjarlægar að K ehf. og S hf. gætu losnað undan bótaskyldu vegna þeirra á þeim grunni. Með vísan til niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar, sem K ehf. og S hf. voru ekki talin hafa hnekkt, var fallist á kröfu S um bætur vegna tafa á sölu lóða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2015. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 16.765.405 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til 1. apríl 2014 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, allt að frádreginni greiðslu á 5.731.525 krónum 12. maí 2015.
Stefndu krefjast sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að tveir starfsmenn stefnda Kaldólfs ehf. unnu 26. maí 2010 við lagningu vatnsleiðslu um sumarhúsasvæði á jörð áfrýjanda, Jarðlangsstöðum í Borgarbyggð. Við þetta verk notuðu þeir fjórhjól, sem tryggt var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., til að draga út rör í leiðsluna, en ökutækið var látið standa kyrrt með ræstri vél milli þess sem því var beitt í þessu skyni. Eitt skipti sem ökutækið var látið standa á þennan hátt veittu starfsmennirnir því athygli að eldur logaði undir því og er óumdeilt að þetta hafi komið þannig til að kviknað hafi í sinu sem lá að heitu útblástursröri þess. Starfsmennirnir fengu ekki ráðið við eldinn, sem breiddist út í sinu á miklum hraða og barst þaðan í annan gróður. Um umfang þessa bruna vísar áfrýjandi til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi birt frétt 28. maí 2010, þar sem komið hafi fram að alls hafi eldurinn farið um 13,2 hektara af algrónu landi innan Jarðlangsstaða, en þar af hafi allt að þriggja metra hátt birkikjarr verið á 8,6 hekturum, votlendi á 3,3 hekturum og graslendi á 1,3 hektara.
Áfrýjandi kveður svæðið, þar sem framangreindur bruni varð, hafa verið skipulagt fyrir frístundabyggð, sem hafi skipst í 25 lóðir og alls verið 212.200 m2 að flatarmáli. Tvær af þessum lóðum, sem hvor hafi verið 10.000 m2, hafi verið seldar á árunum 2009 og 2010, en áfrýjandi hafi þá átt eftir 23 lóðir, sem hafi samtals verið 192.200 m2 að stærð. Hafi áfrýjandi ráðgert að þessar lóðir myndu seljast jafnt og þétt yfir tíu ára tímabil, en vegna brunans hafi ekki orðið af því og hafi þurft að bíða með sölu þeirra þar til gróður kæmist aftur í fyrra horf.
Áfrýjandi fékk 5. júní 2012 dómkvadda tvo menn, annars vegar lögmann og löggiltan fasteignasala og hins vegar skógfræðing, til að meta tjón sitt af þessum sökum, en leysa þurfti síðarnefnda manninn frá matsstörfum og var annar með sömu menntun dómkvaddur í hans stað 20. nóvember 2013. Í matsgerð dagsettri 6. og 10. febrúar 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að tjón áfrýjanda vegna tafa á sölu lóða, sem bruninn hafi leitt af sér, næmi 13.537.405 krónum, en kostnaður af hreinsun landsins var metinn 3.228.000 krónur. Áfrýjandi höfðaði mál þetta á hendur stefndu 8. apríl 2014 til heimtu bóta sem námu samanlagðri fjárhæð þessara tveggja liða, 16.765.405 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndu gert að greiða áfrýjanda bætur vegna kostnaðar af hreinsun landsins, fyrrnefndar 3.228.000 krónur, með nánar tilteknum vöxtum og 1.400.000 krónur í málskostnað. Stefndu una niðurstöðu héraðsdóms og greiddi stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. áfrýjanda af því tilefni samtals 5.731.525 krónur 12. maí 2015. Fyrir Hæstarétti krefjast stefndu þessu til samræmis að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sýknu þeirra af dómkröfu áfrýjanda að öðru leyti. Á sama hátt og fyrir héraðsdómi reisa stefndu þá kröfu á því annars vegar að starfsmenn stefnda Kaldólfs ehf. hafi ekki átt að sjá fyrir að fyrrgreind háttsemi þeirra 26. maí 2010 myndi leiða til þess að áfrýjandi yrði fyrir tjóni af því að geta ekki í fjölda ára selt þær 23 sumarhúsalóðir, sem áður var getið, og hins vegar að matsgerðin frá febrúar 2014 gefi ekki rétta mynd af því tjóni áfrýjanda, hafi það þá nokkuð orðið.
II
Sem fyrr segir er ekki deilt um að eldur hafi brotist út í landi áfrýjanda 26. maí 2010 á þann hátt að kviknað hafi í sinu undan hita af útblástursröri á fjórhjóli, sem starfsmenn stefnda Kaldólfs ehf. notuðu þar við vinnu, á meðan það var látið standa kyrrt með aflvél í gangi. Líta verður svo á að mönnum megi almennt vera ljóst að eldur geti kviknað vegna hita af útblástursröri frá aflvél ökutækis við aðstæður sem þessar í þurrum gróðri, en atvik urðu í lok maí og var mikil sina á svæðinu. Starfsmennirnir sem áttu í hlut fengust hér að auki í atvinnuskyni við framkvæmdir og mátti ætlast til að staðið yrði þannig að þeim að hætta stafaði ekki af verklaginu sem beitt var. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að eldurinn, sem kom upp á þennan hátt, hafi í skilningi skaðabótaréttar verið sennileg afleiðing þessarar háttsemi starfsmanna stefnda Kaldólfs ehf. Sú var og niðurstaða héraðsdóms sem stefndu una samkvæmt áðursögðu. Alkunna er að sinueldur geti undir kringumstæðum sem þessum orðið óviðráðanlegur og breiðst út í öðrum gróðri eða því sem annars er eldfimt og á vegi hans verður. Mátti því vera fyrirsjáanlegt að eldur gæti hér borist í kjarr og annan gróður á jörð áfrýjanda. Starfsmenn stefnda Kaldólfs ehf. unnu að verki í landi innan jarðarinnar sem skipulagt hafði verið fyrir frístundabyggð. Þeim átti því ekki að geta dulist að kæmi eldur upp í gróðri yrði hætta á að slíkt land myndi spillast þannig að tjón hlytist af. Afleiðingarnar, sem þessi háttsemi þeirra hafði, voru því ekki svo fjarlægar að stefndu geti losnað undan bótaskyldu vegna þeirra á þeim grunni.
Krafa áfrýjanda um bætur vegna tjóns, sem hún telur megi rekja til tafa á sölu 23 sumarhúsalóða sökum landspjalla af völdum brunans 26. maí 2010, er sem fyrr greinir reist á matsgerð dómkvaddra manna. Í matsgerðinni var miðað við að söluverð þessara lóða hefði orðið það sama og meðalverð sem áfrýjandi fékk nokkru áður fyrir tvær lóðir á sama svæði eða 237 krónur fyrir hvern fermetra. Að teknu tilliti til kostnaðar, sem matsmenn töldu áfrýjanda mundu þurfa að bera af því að gera lóðirnar hæfar til sölu með vegagerð og vatnsveitu, 460.000 krónur vegna hverrar, var komist að þeirri niðurstöðu að samanlagt verðmæti lóðanna hafi verið 35.919.400 krónur. Lagt var til grundvallar að áfrýjanda hefði tekist að selja allar lóðirnar með jöfnu millibili á næstu tíu árum ef eldurinn hefði ekki komið upp, en vegna afleiðinga hans myndi sala lóðanna frestast í tíu ár á meðan landið kæmist aftur í fyrra horf. Yrði þannig að miða við að þær yrðu seldar að liðnum 11 til 20 árum eftir brunann. Með því að leggja til grundvallar meðaltal vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 á tímabilinu frá tjónsdegi til febrúar 2014 var talið að vaxtatap áfrýjanda, miðað við eingreiðslu í þeim mánuði, og þar með tjón hennar vegna þessara tafa á sölu lóðanna yrði samtals 13.537.405 krónur.
Eins og ráðið verður af framangreindum forsendum matsgerðarinnar, sem áfrýjandi reisir dómkröfu sína á, var gengið þar út frá því að ekkert yrði af sölu sumarhúsalóðanna á fyrstu tíu árunum eftir að eldur fór um land hennar. Þó svo að ráðið verði af gögnum málsins að lóðirnar hafi í einhverjum atriðum verið í misjöfnu ástandi eftir þennan bruna og að land innan nokkurra þeirra hafi ekki orðið fyrir beinum spjöllum vegna hans verður að fallast á að áfrýjanda hafi verið rétt að fresta að bjóða þær til sölu með tilliti til heildarmyndar landsins, sem skipulagt hafði verið undir þessa byggð, enda er ekki ástæða til annars en að ætla að sú mynd hefði dregið úr verðmæti allra lóðanna, hvort sem eldurinn náði að komast inn fyrir mörk þeirra eða ekki. Er því hvorki unnt að líta svo á að þessi forsenda matsgerðarinnar sé röng né að áfrýjandi hafi glatað rétti til bóta með því að hafa ekki leitast við að takmarka tjón sitt með ótímabærri sölu einstakra lóða. Stefndu hafa hvorki með yfirmatsgerð né á annan hátt hnekkt þeirri niðurstöðu matsmanna að hæfilegt sé að miða við að tíu ár taki fyrir landið að komast í horf sem svari til þess sem það var í fyrir brunann. Þá hafa stefndu heldur ekki hnekkt útreikningi á vaxtatapi, sem matsmenn töldu tjón áfrýjanda af þessum sökum svara til. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu áfrýjanda á þann hátt sem í dómsorði segir, en ekki er ágreiningur um að tjón hennar verði rakið til notkunar skráningarskylds vélknúins ökutækis, sem fellur innan ábyrgðartryggingar stefnda Kaldólfs ehf. hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sbr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, Kaldólfur ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt áfrýjanda, Sigríði Bárðardóttur, 16.765.405 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til 1. apríl 2014 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, allt að frádreginni innborgun á 5.731.525 krónum 12. maí 2015.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. nóvember sl., höfðaði stefnandi, Sigríður Bárðardóttir, Engihjalla 19, Kópavogi, hinn 8. apríl 2014, gegn stefndu, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og Kaldólfi ehf., Klapparholti, Borgarbyggð.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 16.765.405 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til 1. apríl 2014, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr. sömu laga. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda lægri fjárhæð en samkvæmt aðalkröfu, auk vaxta í samræmi við aðalkröfu. Þá krefst stefnandi þess enn fremur að stefndu verði dæmd óskipt til þess að greiða henni málskostnað.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I
Hinn 26. maí 2010 var á vegum stefnda Kaldólfs ehf. unnið að lagningu vatnslagnar í landi Jarðlangsstaða í Borgarbyggð, en jörðin er í eigu stefnanda. Við verkið notuðu starfsmenn stefnda fjórhjól með skráningarnúmerinu DU-Z27 sem tryggt var ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Í skýrslu lögreglu, dagsettri 22. september 2010, er haft eftir Brynjari Bergssyni, eiganda stefnda Kaldólfs ehf., að hann hafi ásamt öðrum starfsmanni félagsins notað fjórhjólið við að draga út lagnir. Fjórhjólið hafi verið í gangi milli þess sem það var notað. Skyndilega hafi tvímenningarnir veitt því athygli að eldur hafði kviknað undir hjólinu. Brynjar kvaðst hafa stokkið til og fært hjólið og strax hafist handa við að slökkva eldinn. Eldurinn hafi hins vegar breiðst út af miklum hraða, enda mikil sina á jörðinni. Brann meðal annars land sem hafði verið skipulagt undir frístundahús og stefnandi kveðst hafa ætlað að selja úr lóðir á næstu árum.
Lögum samkvæmt var fjórhjólið vátryggt hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Tilkynnti stefnandi tjónið til félagsins og fór fram á bætur. Í framhaldinu aflaði stefnandi skýrslu frá Samúel Guðmundssyni byggingatæknifræðingi varðandi umfang tjónsins og skilaði hann stefnanda skýrslu 20. júlí 2011. Niðurstaða Samúels var sú að virðisrýrnun óselds sumarbústaðalands úr landi Jarðlangsstaða næmi um 39.000.000 króna. Þá mat hann kostnað við hreinsun á 5.500.000 krónur.
Með bréfi 10. september 2011 krafði stefnandi stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu fjórhjólsins vegna brunans og var krafan byggð á áðurnefndri matsgerð Samúels Guðmundssonar. Tryggingafélagið féllst ekki á að greiða bætur á grundvelli skýrslu Samúels. Í bréfi félagsins 13. október 2011 sagði að stefnandi hefði „ekki sýnt nægjanlega fram á verðmætarýrnun landsins vegna sinubrunans, enda þykir ljóst að gróðurskemmdir af þessum völdum muni jafna sig á 5-10 árum og engin óháð matsgerð eða gögn liggja fyrir um að fjártjón hafi orðið í tengslum við sölu jarðarinnar eða hluta hennar.“ Hafnaði félagið því að greiða stefnanda bætur vegna „... meintrar verðmætarýrnunar jarðarinnar.“ Tryggingafélagið viðurkenndi hins vegar þörfina á að hreinsa landið eftir sinubrunann. Bauðst stefnda til þess að greiða stefnanda 3.000.000 króna í bætur til að hreinsa landið eftir brunann og byggðist það boð félagsins á mati sem það aflaði frá Lárusi Heiðarssyni skógfræðingi. Ítrekaði stefnda þessa afstöðu sína með bréfi 9. desember 2011. Í niðurlagi þess bréfs var sérstaklega tekið fram að boð þetta væri sett fram „... til sátta og án viðurkenningar á bótarétti vegna eldsvoðans.“ Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfu hennar um bætur úr hendi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. með bréfi 11. janúar 2012 og var félaginu gefinn frestur til 31. janúar 2012 til þess að viðurkenna bótaskyldu. Erindi stefnanda svaraði tryggingafélagið með bréfi 30. janúar 2012 þar sem fyrri afstaða félagsins var áréttuð .
Með erindi dagsettu 15. maí 2012 fór stefnandi þess á leit við Héraðsdóm Vesturlands að dómkvaddir yrðu tveir hæfir, sérfróðir og óvilhallir matsmenn „... til að skoða og meta tjón sem varð á hluta af landi jarðarinnar Jarðlangsstaða, Borgarbyggð, í sinubruna 26. maí 2010, og kostnað við nauðsynlega hreinsun á svæðinu ...“. Hafði matsbeiðni stefnanda að geyma spurningar í sex tölusettum liðum varðandi ætlað tjón hennar vegna sinubrunans. Hinn 5. júní 2012 voru Friðrik Aspelund skógfræðingur og Pétur Kristinsson, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Í nóvember 2013 var Friðrik leystur undan starfanum og í hans stað dómkvaddur Brynjar Skúlason skógfræðingur.
Matsmenn skiluðu niðurstöðum sínum 6. febrúar 2014. Samkvæmt matsgerð þeirra er tjón stefnanda vegna hreinsunar, sem fram þarf að fara á jörðinni, 3.228.000 krónur. Þá komust matsmenn að þeirri niðurstöðu, að gefnum ákveðnum forsendum sem tíundaðar eru í matsgerðinni, að tjón vegna seinkunar á sölu lóða úr landi jarðarinnar undir sumarhús í tíu ár næmi 13.537.405 krónum. Tjón stefnanda vegna brunans næmi því samtals 16.765.405 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins.
Með bréfi 21. febrúar 2014 krafði stefnandi stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um skaðabætur á grundvelli matsgerðarinnar. Stefndu urðu ekki við þeirri kröfu stefnanda og höfðaði hún því mál þetta.
II
Stefnandi vísar til þess að fjórhjólið DU-Z27 hafi valdið sinubruna á jörðinni Jarðlangsstöðum í Borgarbyggð í maí 2010. Í brunanum hafi orðið tjón á landi jarðarinnar. Þá sé nauðsynlegt að hreinsa landið eftir brunann. Stefnandi hafi aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna til sönnunar á tjóni sínu. Stefndu hafi hins vegar hafnað því að greiða bætur vegna tjónsins.
Af hálfu stefnanda er á það bent að fjórhjólið hafi verið í eigu stefnda Kaldólfs ehf. og þá hafi það verið tryggt lögboðinni vátryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Stefnandi kveður stefndu vera ábyrg fyrir því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir í sinubrunanum. Félögin hafi hins vegar hafnað bótaskyldu. Þá afstöðu segir stefnandi ekki styðjast við nein málefnaleg rök.
Stefnandi vísar sérstaklega til þess að alkunna sé að kviknað geti í ökutækjum og að sjálfsögðu geti sá eldur breiðst út, til dæmis í annað ökutæki, fasteign eða eitthvað allt annað. Fráleitt sé að halda því fram að tjón stefnanda sé svo fjarlæg og óvenjuleg afleiðing af notkun fjórhjóls að skilyrði skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu hinnar bótaskyldu háttsemi sé ekki uppfyllt. Einnig sé fráleitt að halda því fram að starfsmönnum stefnda Kaldólfs ehf. hafi ekki mátt vera ljóst að kviknað gæti í sinu út frá kyrrstæðu fjórhjóli, sem haft hafi verið í gangi, þannig að stórt landsvæði brynni. Þar sem hjólið hafi verið í notkun í atvinnustarfsemi verði að gera enn ríkari kröfur til stjórnanda hjólsins um að hann væri meðvitaður um þá hættu sem samfara væri notkun hjólsins.
Þá mótmælir stefnandi þeim málatilbúnaði stefndu að tjón hennar sé ósannað. Stefnandi hafi þvert á móti fært sönnur á tjón sitt eftir þeim leiðum sem lög bjóði. Það dugi ekki fyrir stefndu að mótmæla matsgerðinni einungis með almennum orðum og fullyrðingum. Stefndu hafi ákveðið að afla ekki yfirmatsgerðar og sú ákvörðun sé á þeirra áhættu.
Þar sem stefnda Kaldólfur ehf. hafi valdið stefnanda tjóni og félagið sé vátryggt hjá meðstefnda fyrir tjóninu beri stefndu að greiða stefnanda tjón það sem hún hafi orðið fyrir af völdum stefnda Kaldólfs ehf.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins um að sá sem valdi öðrum tjóni skuli bæta það. Sú regla fái meðal annars stoð í skaðabótalögum nr. 50/1993. Stefnandi kveðst einnig vísa til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum XIII. kafla laganna um fébætur og vátryggingar, sérstaklega ákvæða 1. mgr. 88. gr., 90. gr., 91. gr., 93. gr. og 95. gr.
III
Af hálfu stefndu er í fyrsta lagi á því byggt að ekki sé fyrir hendi í málinu það meginskilyrði skaðabótaskyldu að tjón geti talist vera sennileg afleiðing hinnar bótaskyldu háttsemi. Reglan um sennilega afleiðingu sé ein af grundvallarreglum skaðabótaréttar. Skaðabótaábyrgð takmarkist þannig við þær afleiðingar bótaskyldrar háttsemi sem telja megi fyrirsjáanlegar svo að eðlilegt og sanngjarnt verði talið að skaðabótaskylda stofnist.
Stefndu segja sýknukröfuna byggjast á því að tjón stefnanda sé svo fjarlæg og óvenjuleg afleiðing af notkun fjórhjóls að skilyrðið um að tjón sé sennileg afleiðing hinnar bótaskyldu háttsemi sé ekki uppfyllt. Ekki verði með nokkru móti litið svo á að starfsmönnum stefnda Kaldólfs ehf. hafi mátt vera ljóst að við það að hafa kyrrstætt fjórhjól í gangi gæti kviknað í sinu sem leitt gæti til þess að stórt landsvæði brynni. Í öllu falli sé ljóst að starfsmenn stefnda hefðu hvorki getað séð fyrir að svo stórt landssvæði brynni, sem raun hafi orðið á, né að háttsemin gæti haft neikvæð áhrif á sölumöguleika 23 sumarhúsalóða. Slíkar afleiðingar séu langt umfram það sem telja megi fyrirsjáanlegt eða venjulegt.
Samkvæmt framansögðu hafi stefnandi ekki fært sönnu á að meint tjón hans sé sennileg afleiðing þeirrar háttsemi að hafa fjórhjólið kyrrstætt í gangi. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Í öðru lagi segjast stefndu mótmæla umfangi tjóns stefnanda sem ósönnuðu. Stefnandi byggi kröfur sínar á matsgerð Péturs Kristinssonar, héraðsdómslögmanns og löggilts fasteigna- og skipasala, og Brynjars Skúlasonar skógfræðings. Stefnandi hafi engar sjálfstæðar málsástæður sett fram í stefnu til stuðnings umfangs tjóns síns heldur eingöngu rökstutt það með vísan til þeirrar niðurstöðu sem fram komi í matsgerðinni. Mótmæli stefndu matsgerðinni og þeim forsendum og niðurstöðum sem þar sé að finna og telji að ekki sé unnt að leggja matsgerðina til grundvallar sem sönnun umfangs tjóns stefnanda.
Nánar vísa stefndu til þess að matsmennirnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að tjón hafi orðið á 23 lóðum. Matsgerðin byggist á þeirri forsendu að endanlegt fjártjón stefnanda felist í tapaðri hagnaðarvon af sölu allra sumarbústaðalóðanna. Stefndu mótmæli því að orsakatengsl séu fyrir hendi milli brunans og meintrar seinkunar á sölu lóðanna. Ekkert liggi fyrir um að bindandi kaupsamningar hafi verið gerðir um hluta lóðanna eða að stefnandi hafi verið búinn að selja lóðirnar. Einnig liggi ekkert fyrir um meint söluverð lóðanna. Matsmenn gefi sér hins vegar þá forsendu að líklega hefði verið hægt að selja allar lóðirnar á næstu tíu árum frá brunanum, hefði brunninn ekki orðið. Þessi grundvallar forsenda matsmannanna fyrir niðurstöðu þeirra sé hins vegar algjörlega órökstudd og mótmæli stefndu henni harðlega. Matsmenn vísi til „þess fjölda lóða sem selst hafa á jörðinni á undangegnum áratugum“ án þess að nokkur gögn liggi fyrir um þá fullyrðingu. Þá taki matsmenn ekkert tillit til annarra þátta, eins og efnahagshrunsins og þjóðfélagsaðstæðna í kjölfar þess. Alkunna sé að efnahagshrunið hafi meðal annars haft í för með sér að verulega dró úr kaupum og sölu fasteigna, þ.m.t. lóða og það sérstaklega í frístundabyggðum. Ekkert bendi því til annars en að sumarbústaðaland stefnanda hefði orðið örðugara í sölu á þessum árum, enda þá orðið mun erfiðara fyrir hugsanlega kaupendur að nálgast lánsfé. Þá verði að telja einkennilegt að stefnandi hafi ætlað sér svo skamman tíma til sölu á sumarhúsalóðunum í ljósi þess að ekkert formlegt söluferli var hafið er bruninn varð. Þannig virðist stefnandi einungis hafa ætlað að reiða sig á það að hugsanlegir kaupendur myndu heyra sölu lóðanna getið af afspurn. Sú staðreynd að matsmenn gefi sér án nokkurs rökstuðnings grundvallar forsendu fyrir niðurstöðu sinni, þ.e. um sölumöguleika lóðanna, leiði til þess að á matsgerðinni sé svo verulegur annmarki að hún verði ekki lögð til grundvallar í málinu sem sönnun á umfangi tjóns stefnanda.
Þá mótmæla stefndu sem ósönnuðu að tjón hafi í raun orðið á landinu þar sem fyrir liggi að sá gróður sem brann muni jafna sig að mestu, eða þá annar gróður koma í hans stað. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að bruninn hafi í raun og veru haft nokkur áhrif á sölumöguleika lóðanna. Tímabundin minnkun gróðurs, hugsanleg útlitsbreyting landsins eða tafir á sölu lóðanna verði ekki lagðar að jöfnu við fjárhagslegt tjón í skilningi skaðabótaréttar. Stefndu benda einnig á að gróður sé ekki óendurnýjanleg auðlind í þeim skilningi að gróður kemur í stað gróðurs. Birkikjarrið sem orðið hafi eldinum að bráð hafi verið sjálfsprottið. Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem kannað hafi umfang og útbreiðslu sinubrunans í landi Jarðlangsstaða 26. maí 2010, hafi verið birt frétt um brunann, dagsett 28. maí 2010. Í fréttinni hafi verið greint frá því að af þeim 13,2 hekturum af grónu landi sem brunnið hafi eða sviðnað hafi birkikjarr verið að finna á 8,6 hekturum, 3,3 hektarar hafi verið þaktir votlendi, aðallega framræstum þýfðum klófífuflóa, og loks hafi 1,3 hektarar landsins verið graslendi. Samkvæmt fréttinni hafi því ⅓ hluti landsins verið þakinn votlendi eða grasi. Af hálfu stefndu sé á því byggt að land sem þakið sé slíkum gróðri verði fyrir engu varanlegu tjóni af völdum sinubruna. Hvað birkikjarrið varði, sem sé að finna á þeim 8,6 hekturum sem brunnið hafi eða sviðnað af landi Jarðlangsstaða, bendi stefndu á að samkvæmt mati Lárusar Heiðarssonar skógfræðings hafi meðalþekja birkis á landinu verið á bilinu 40-60%. Ekki sé ástæða til annars en að ganga út frá því að gróður muni á fáeinum árum jafna sig og verða jafnhár, þótt birkikjarrið verði ef til vill ekki jafn veglegt og það hafi verið fyrir brunann. Lítið sem ekkert varanlegt tjón hafi því hlotist af brunanum. Það tjón sem orðið hafi á gróðrinum sé því tímabundið og ætti af þeim sökum ekki að hafa varanleg áhrif á verðmæti landsins, enda muni gróðurinn endurnýja sig á tiltölulega skömmum tíma.
Samkvæmt öllu framansögðu telji stefndu ljóst að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Af því leiði að stefnandi hafi ekki fært sönnur á umfang tjóns síns. Því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefndu um sýknu krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Varakrafan byggist í fyrsta lagi á því að í öllu falli verði langstærsti hluti tjóns stefnanda ekki talinn vera sennilega afleiðing af háttsemi starfsmanns stefnda Kaldólfs ehf. umrætt sinn. Um nánari rökstuðning vísa stefndu að þessu leyti til rökstuðnings fyrir aðalkröfu.
Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnandi hafi ekki fært sönnur á umfang tjóns síns, nema að litlu leyti. Ljóst sé að matsgerðin verði ekki lögð til grundvallar sem sönnun á tjóni stefnanda vegna þeirra alvarlegu annmarka sem á henni eru samkvæmt framansögðu. Því beri að lækka kröfur stefnanda verulega.
Þá mótmæla stefndu því að fallist verði á kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu einkum til umferðarlaga nr. 50/1987 og almennra reglna skaðabótaréttar um orsakatengsl, sennilega afleiðingu og sönnunarbyrði.
IV
Samkvæmt málatilbúnaði aðila er ágreiningslaust í málinu að 26. maí 2010 hafi kviknaði í sinu í landi jarðarinnar Jarðlangsstaða í Borgarbyggð út frá fjórhjólinu DU-Z27. Jörðin er eign stefnanda en fjórhjólið eign stefnda Kaldólfs ehf. Fjórhjólið notuðu starfsmenn stefnda Kaldólfs ehf. umrætt sinn við að draga út vatnslagnir. Upplýst er að þegar eldurinn kviknaði var fjórhjólið í gangi, en kyrrstætt.
Fyrir liggur að fjórhjólið DU-Z27 var ábyrgðartryggt hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Þá er óumdeilt í málinu að sinubruninn í landi Jarðlangsstaða hafi orsakast af notkun fjórhjólsins í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Bótakrafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða kröfulið að fjárhæð 3.228.000 krónur vegna kostnaðar við nauðsynlega hreinsun á hinu brunna landsvæði. Hins vegar gerir stefnandi kröfu um bætur að fjárhæð 13.537.405 krónur. Sá kröfuliður grundvallast á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem þeirri fjárhæð nemi, þar sem sinubruninn hafi valdið því að sala 23 sumarhúsalóða úr landi Jarðlangsstaða hafi frestast í tíu ár.
Varnir stefndu í málinu byggjast að meginstefnu til á tveimur málsástæðum. Annars vegar þeirri að meint tjón stefnanda geti ekki talist vera sennileg afleiðing hinnar bótaskyldu háttsemi. Hins vegar byggja stefndu á því að umfang hins meinta tjóns sé með öllu ósannað.
Svo sem áður var rakið kviknaði í sinu í landi jarðarinnar Jarðlangsstaða í Borgarbyggð 26. maí 2010 út frá fjórhjólinu DU-Z27 og brann gróður á ríflega 13 hektara landsvæði. Ekki verður talið að sú afleiðing af notkun fjórhjólsins hafi verið svo fjarlæg og óvenjuleg að girði fyrir bótaskyldu stefndu vegna tjóns stefnanda er féll til vegna þeirrar nauðsynlegu hreinsunar sem fram þarf að fara á því landsvæði er varð eldinum að bráð.
Hvað varðar meint afleitt tjón stefnanda af sinubrunanum vegna seinkunar á sölu 23 sumarhúsalóða getur slíkt tjón ekki talist vera nægjanlega fyrirsjáanleg eða sennileg afleiðing þeirrar háttsemi starfsmanna stefnda Kaldólfs ehf. að hafa fjórhjólið í gangi á landi jarðarinnar. Verða stefndu því þegar af þeirri ástæðu sýknuð af umræddum hluta stefnukröfunnar. Að þeirri niðurstöðu fenginni er þarflaust að fjalla um það hvort stefnanda hafi tekist að leiða nægjanlega í ljós að sölu lóða hafi seinkað vegna sinubrunans og ef svo var hvort hún hafi sannanlega orðið fyrir tjóni vegna þess, og þá eftir atvikum hvert umfang tjónsins hafi verið.
Svo sem rakið er í kafla I aflaði stefnandi matsgerðar tveggja dómkvaddra matsmanna varðandi ætlað tjón hennar vegna sinubrunans. Í svari matsmannanna við matsspurningu númer þrjú er að finna rökstudda niðurstöðu þeirra varðandi nauðsynlega hreinsun á hinu brunna landi og kostnað við slíka hreinsun. Ekki verður séð að matsgerðin sé, hvað umrætt matsatriði varðar, haldin göllum og þá hafa stefndu ekki hnekkt niðurstöðu matsmanna hvað það varðar á nokkurn hátt. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kostnaður við nauðsynlega hreinsun á hinu brunna landsvæði nemi 3.228.000 krónum. Að þessu gættu og með vísan til þess sem áður var rakið verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda óskipt nefnda fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til 1. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefndu óskipt til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hennar, með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Kaldólfur ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Sigríði Bárðardóttur, óskipt 3.228.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2010 til 1. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.400.000 krónur í málskostnað.