Hæstiréttur íslands
Mál nr. 168/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Ábúð
- Kaupréttur
- Jarðalög
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Þriðjudaginn 27. maí 2003. |
|
|
Nr. 168/2003. |
Hrefna Kristjánsdóttir(Óskar Sigurðsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Ábúð. Kaupréttur. Jarðalög. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Í hafnaði beiðni H um að fá að kaupa ábúðarjörð sína, með bréfi 28. júní 2001. Tók Í málið upp á ný eftir aðfinnslur umboðsmanns Alþingis, án þess að fyrri ákvörðun væri þó afturkölluð. Þá tilkynnti Í með bréfi til H 15. október 2002 þá fyrirætlun sína að afgreiða erindi hennar með sama hætti og gert hafði verið áður, þ.e. með því að hafna beiðninni. H höfðaði mál í nóvember 2002, áður en endanlegt svar Í lá fyrir í málinu, og krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til að kaupa jörðina. Var málinu vísað frá með hinum kærða úrskurði. Eftir að málið hafði verið höfðað kom afstaða ráðuneytisins um að synja bæri erindi H, einnig skýrt fram í bréfi til ríkislögmanns 3. mars 2003. Með vísan til þess sem fram var komið um afstöðu ráðuneytisins til erindis H, var talið að hún hafi haft lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ætlaðan rétt sinn til að kaupa jörðina. Hafi henni verið heimilt að gera slíka viðurkenningarkröfu á hendur Í, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Með vísan til þessara sömu atriða stóð ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna því ekki í vegi að H fengi leyst úr fyrrnefndri kröfu sinni að efni til. Þá var málatilbúnaður H að öðru leyti ekki talinn með þeim hætti að varðað gæti frávísun og var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. apríl 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt við rekstur málsins fyrir héraðsdómi
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að hann verði látinn falla niður.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili við ábúðarrétti á jörðinni Stóra-Klofa í Rangárþingi ytra árið 1979, er eiginmaður hennar lést, en Sandgræðslustjóri Íslands hafði byggt honum jörðina til ábúðar og erfðaleigu með byggingarbréfi 8. janúar 1943 frá fardögum 1936 að telja. Með bréfi 31. maí 2001 tilkynnti sóknaraðili jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins að hún vildi neyta kaupréttar á grundvelli 1. mgr. 38. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með áorðnum breytingum og leysa til sín eignarhluta ríkisins í jörðinni. Bréfinu fylgdu meðmæli sveitarstjórnar Rangárþings ytra og jarðanefndar Rangárvallarsýslu. Erindi sóknaraðila var synjað með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 28. júní 2001, en í því kom fram að Landgræðsla ríkisins legðist gegn því að jörðin yrði seld. Eftir að umboðsmaður Alþingis hafði í kjölfar kvörtunar sóknaraðila beint þeim tilmælum til ráðuneytisins 11. mars 2002 að það tæki mál hennar aftur til meðferðar, tilkynnti ráðuneytið sóknaraðila 13. júní sama árs að fyrirhugað væri að fela tveimur sérfræðingum að meta land Stóra-Klofa með tilliti til beitarþols og uppgræðslu á jörðinni. Var það mat framkvæmt í september 2002 og tekin saman um það skýrsla. Með bréfi 15. október sama árs sendi ráðuneytið sóknaraðila skýrsluna og tók fram að með henni væri staðfest að áfram þyrfti að sinna uppgræðslu á stórum svæðum jarðarinnar og fyrirhugað væri að afgreiða erindi sóknaraðila á sama veg og gert hafði verið 28. júní 2001, þegar hafnað var beiðni hennar um kaup á jörðinni. Sóknaraðili andmælti fyrirhugaðri ákvörðun ráðuneytisins með bréfi 29. október 2002. Ráðuneytið svaraði bréfinu 12. nóvember sama árs og veitti sóknaraðila frekari frest til 6. desember 2002 til að tjá sig um málið, þar sem ráðuneytið leit svo á að formleg andmæli hefðu ekki borist. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 18. nóvember 2002, áður en endanlegt svar ráðuneytisins í málinu lá fyrir. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi.
II.
Sóknaraðili gerir þær kröfur í héraðsdómsstefnu að viðurkenndur verði réttur hennar til að kaupa ábúðarjörð sína, Stóra-Klofa í Rangárþingi ytra. Eins og fyrr segir hafnaði landbúnaðarráðuneytið beiðni sóknaraðila um að fá að kaupa umrædda jörð með bréfi 28. júní 2001, en tók málið upp á ný eftir aðfinnslur umboðsmanns Alþingis við málsmeðferð ráðuneytisins án þess að fyrri ákvörðun væri þó afturkölluð. Þá hefur ráðuneytið með fyrrnefndu bréfi 15. október 2002 tilkynnt sóknaraðila þá fyrirætlun sína að afgreiða erindi hennar með sama hætti og gert var 28. júní 2001, þ.e. með því að hafna beiðninni. Afstaða ráðuneytisins um að synja beri erindi sóknaraðila kom loks skýrt fram í bréfi til ríkislögmanns 3. mars 2003, eftir að mál þetta hafði verið höfðað. Með vísan til þess, sem að framan er rakið um afstöðu ráðuneytisins til erindis sóknaraðila, verður að telja að hún hafi haft lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ætlaðan rétt sinn til að kaupa jörðina. Var henni heimilt að gera slíka viðurkenningarkröfu á hendur varnaraðila, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til þessara sömu atriða stendur ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna því ekki í vegi að sóknaraðili fái leyst úr fyrrnefndri kröfu sinni að efni til.
Frávísunarkrafa varnaraðila er meðal annars á því reist að dómkrafa sóknaraðila sé svo óljós og ónákvæm að hún geti ekki talist dómtæk. Af umfjöllun í stefnu verði ráðið að sóknaraðili óski viðurkenningar á kauprétti sínum á allri jörðinni, sem sé nánar skilgreint í fyrrnefndri beiðni hennar til landbúnaðarráðuneytisins 31. maí 2001, en þetta verði ekki ráðið af dómkröfunni. Í héraðsdómsstefnu gerir sóknaraðili þá kröfu að viðurkenndur verði réttur hennar til að kaupa ábúðarjörð sína, Stóra-Klofa, og áréttar í kæru til Hæstaréttar að krafan nái til allrar jarðarinnar að engu undanskildu. Verður krafan ekki talin svo óskýr að þessu leyti að varðað geti frávísun málsins né heldur verður málatilbúnaður sóknaraðila að öðru leyti talinn með þeim hætti að varðað geti frávísun sökum vanreifunar.
Í 4. mgr. 38. gr. jarðalaga er gengið út frá því að kaupverð jarðar sé ákveðið með samkomulagi milli kaupanda ábúðarjarðar annars vegar og seljanda hins vegar. Náist ekki samkomulag um verð skal mat dómkvaddra manna ráða. Með vísan til þessa veldur það ekki frávísun málsins að ekki sé tekið fram í dómkröfu sóknaraðila gegn hvaða kaupverði eigi að viðurkenna kauprétt sóknaraðila. Verður krafa varnaraðila um frávísun málsins samkvæmt þessu ekki tekin til greina. Með vísan til alls framangreinds verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Sóknaraðili krefst ekki málskostnaðar í héraði og verður hann því ekki dæmdur. Varnaraðili skal greiða kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Hrefnu Kristjánsdóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. apríl 2003.
Mál þetta var höfðað 18. nóvember 2002 og tekið til úrskurðar 15. apríl 2003. Stefnandi er Hrefna Kristjánsdóttir, til heimilis að Stóra-Klofa í Rangárþingi ytra í Rangárvallarsýslu, en stefndu eru íslenska ríkið og Landgræðsla ríkisins, Gunnarsholti á Hellu.
Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkenndur verði réttur hennar til að kaupa ábúðarjörð sína Stóra-Klofa í Rangárþingi ytra í Rangárvallarsýslu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu gerir þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað, en til vara að ákvörðun hans bíði efnisdóms, verði verði málinu ekki vísað frá dómi.
Í þessum þætti málsins er kafa stefnda um frávísun tekin til úrlausnar, en stefnandi krefst þess að kröfunni verði hrundið.
I.
Með afsölum frá árunum 1924, 1936 og 1940 fékk Sandgræðsla Íslands eignarhald yfir jörðunum Stóra-Klofa og Borg í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að áfoksgeirar frá sandsvæðum í landi Klofa eyddu jörðum sunnan og suðvestan við Stóra-Klofa. Fyrr á öldum var jörðin Stóri-Klofi með hjáleigum sínum, þar á meðal Litla-Klofa og Borg, eitt af höfuðbýlum Landsveitar og kirkjustaður. Klofakirkja var lögð niður árið 1879, en þá var jörðin komin á heljarþröm sökum sandfoks, sem herjað hafði á landið um langa hríð. Um það leyti var bæjarstæðið flutt á skika, sem var eftir óblásinn vestur með klofalæk, en þar standa nú bæjarhúsin. Stóri-Klofi fór síðan í eyði á árunum 1918-1920.
Árið 1936 hóf Árni heitinn Árnason, eiginmaður stefnanda, búskap á Stóra-Klofa. Með byggingarbréfi 8. janúar 1943 byggði Sandgræðslustjóri Íslands Árna til ábúðar og erfðaleigu til stofnunar nýbýlis land úr jörðinni frá fardögum 1936 að telja. Stefnandi flutti á jörðina árið 1938 og kvæntist Árna árið 1947. Þar bjuggu þau síðan þar til Árni féll frá árið 1979, en þá tók stefnandi við ábúðarrétti á jörðinni. Kristján Árnason, sonur hjónanna, hóf að aðstoða við búskapinn árið 1970 og bjó á jörðinni eftir andlát föður síns.
Vegna búskapar Kristjáns á jörðinni hafa mannvirki og byggingar, sem hann hefur reist, verið skráð hjá Fasteignarmati ríkisins á nafn Kristjáns og eiginkonu hans, Inger Nielsen. Þá er helmings eignarhluti í refahúsi skráður á nafn Grétars Njáls Skarphéðinssonar, en hann stóð að slíkum búskap á jörðinni með Kristjáni fyrr á árum.
Á liðnum árum hafa Kristján og Inger átt í viðræðum við landbúnaðarráðuneytið um kaup Landgræðslu ríkisins á mannvirkjum þeirra á jörðinni. Með bréfi 18. janúar 2000 fóru hjónin þess á leit að ráðuneytið gerði við þau samkomulag, sem gerði þeim kleift að fara af jörðinni. Þessu erindi var svarað með bréfi 16. janúar 2001, þar sem fram kom að ráðuneytið leit á það sem forsendu fyrir uppgjöri við hjónin að stefnandi segði upp ábúð sinni á jörðinni. Stefnanda var sent afrit af bréfi ráðuneytisins, en hún var ekki reiðubúin til að fallast á þessar lyktir málsins, enda hafði hún ekki hug á að segja upp ábúð sinni og vildi eignast jörðina.
Með bréfi 31. maí 2001 tilkynnti stefnandi jarðardeild landbúnaðar-ráðuneytisins að hún vildi neyta kaupréttar á grundvelli 38. gr. jarðarlaga, nr. 65/1976, og leysa til sín eignarhlutdeild ríkisins í jörðinni. Við kaup á jörðinni taldi stefnandi rétt að höfð yrði hliðsjón af mati Ríkiskaupa frá 12. október 2000 í tilefni af sölu á eignarhluta ríkisins í jörðinni Pulu í Holta- og Landsveit til ábúanda. Einnig taldi stefnandi að koma ætti til frádráttar kaupverði ræktun Kristjáns, sonar hennar, sem fallið hefðu undir jörðina Litla-Klofa við landskipti. Meðfylgjandi erindi stefnanda var bréf Holta- og Landsveitar 22. maí sama ár, þar sem fram kom að sveitarstjórn mælti með að fallist yrði á málaleitan stefnanda, enda hefði hún setið jörðina vel um margra ára skeið. Einnig fylgdi bréf jarðarnefndar Ragnaárvallarsýslu 20. sama mánaðar, sem hafði að geyma meðmæli nefndarinnar með þessari ráðstöfun.
Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 28. júní 2001 var erindi stefnanda synjað. Í bréfinu var tekið fram að uppgræðslu jarðarinnar væri ekki lokið og talið væri að einungis afmörkuð svæði þyldu einhverja búfjárbeit. Miklum fjármunum hefði þó verið varið til uppgræðslustarfa, einkum síðustu ár. Í bréfi ráðuneytisins kom einnig fram að Landgræðslan legðist gegn því að jörðin yrði seld og var í því efni vísað til laga um landgræðslu, nr. 17/1965. Þá tók ráðuneytið fram að það teldi að ákvæði 38. gr. jarðarlaga ættu ekki við í þessu tilviki, sbr. einnig 2. mgr. sömu greinar.
Stefnandi vildi ekki una við þessa niðurstöðu og bar fram kvörtun 16. ágúst 2001 við umboðsmann Alþingis vegna málsmeðferðar og afgreiðslu ráðuneytisins. Í áliti umboðsmanns 11. mars 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hefði ekki virt andmælarétt stefnanda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, áður en það tók ákvörðun sína, auk þess sem rannsókn málsins málsins hefði verið áfátt, sbr. 10. gr. sömu laga. Af þessum sökum beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál stefnanda aftur til meðferðar, kæmi fram ósk um það frá henni, og leysti úr málinu að gættum þeim sjónarmiðum, sem fram komu í álitinu.
Með bréfi 22. maí 2002 fór stefnandi þess á leit við ráðuneytið að það tæki mál hennar á ný til meðferðar. Því erindi svaraði ráðuneytið með bréfi 13. júní sama ár, en þar var stefnanda kynnt að fyrirhugað væri að fela landnýtingarráðunaut Bændasamtakanna og sérfræðingi hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri að meta land Stóra-Klofa með tilliti til beitarþols og uppgræðslu á jörðinni. Í kjölfarið var síðan óskað eftir slíku mati með bréfi ráðuneytisins 19. júlí sama ár, eftir að stefnandi hafði með bréfi 5. sama mánaðar farið þess á leit að ráðuneytið hraðaði afgreiðslu málsins. Í því erindi lýsti stefnandi því yfir að fyrirhuguð nýting jarðarinnar færi ekki í bága við áætlanir Landgræðslunnar. Hér eftir sem hingað til yrði mikið og fórnfúst starf innt af hendi við landgræðslu og skógrækt og í þeim efnum væru ábúendur fúsir til samstarfs við Landgræðsluna, eins og þeir teldu sig hafa sýnt í verki undanfarin ár.
Hinn 18. september 2002 komu Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, og Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingar-ráðunautur Bændasamtaka Íslands, á jörðina til að meta landið. Þau tóku síðan saman skýrslu 25. sama mánaðar um ástand lands og uppgræðslu. Því næst sendi ráðuneytið stefnanda skýrsluna með bréfi 15. október sama ár. Í erindinu tók ráðuneytið fram að sérfræðingarnir teldu landið mjög misjafnt í gróðurfarslegu tilliti, allt frá því að vera með ágætum næst bæjarhúsum til þess að vera lítt sem ekkert gróið og með lausum sandi. Með þessu væri staðfest að áfram þyrfti að sinna uppgræðslu á stórum landsvæðum jarðarinnar og fyrirhugað væri að afgreiða erindi stefnanda á sama veg og gert var 28. júní 2001, þegar synjað var beiðni um kaup jarðarinnar. Var stefnanda veittur frestur til 1. nóvember 2002 til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun yrði tekin.
Með bréfi 29. október 2002 andmælti stefnandi fyrirhugaðri ákvörðun ráðuneytisins og færði rök fyrir máli sínu. Ráðuneytið svaraði bréfinu 12. nóvember sama ár og veitti stefnanda frekari frest til 6. desember það ár til að tjá sig um málið þar sem ráðuneytið leit svo á að formlegt andmæli hefðu ekki borist. Í kjölfarið var ráðuneytinu tilkynnt með bréfi 14. nóvember sama ár að stefna málsins hefði verið gefin út og að málið yrði þingfest 20. sama mánaðar.
II.
Stefndu vísa til þess að ráða megi af stefnu að með dómkröfu sinni leitist stefnandi við að fá viðurkenndan kauprétt sinn á allri jörðinni Stóra-Klofa, en í beiðni 31. maí 2001 til ráðuneytisins sé jörðin skilgreind sem 1400 hektara útjörð, 38 hektara land undir túnum og veiðihlunnindi. Þetta verði þó ekki ráðið af dómkröfunni, sem telja verði alltof óljósa og ónákvæma til að vera dómtæka þannig að varði frávísun málsins. Því til viðbótar sé hvorki vísað til lagaheimildar, sem stefnandi reisi á kauprétt sinn, né þeirra heimilda sem liggja eigi til grundvallar ábúð stefnanda á allri jörðinni og veitt geti kauprétt að lögum.
Stefndu benda einnig á að í dómkröfunni komi heldur ekki fram gegn hvaða kaupverði eigi að viðurkenna kauprétt eða um ákvörðun þess eða tilhögun greiðslu. Af fyrrgreindri beiðni til ráðuneytisins megi þó ráða að stefnandi telji að koma eigi til frádráttar kaupverði eignir sonar hennar, Kristjáns Árnasonar, sem hann hefði öðlast í skjóli stefnanda og eiginmanns hennar vegna fyrirhugaðra ættliðaskipta, sem ekki varð af. Þetta sé mikill misskilningur, svo og að unnt sé að leggja til grundvallar mat Ríkiskaupa við kaup á annarri jörð.
III.
Stefnandi heldur því fram að dómkrafan taki til jarðarinnar Stóra-Klofa eins og hún sé nánar skilgreind í gögnum málsins. Málið sé höfðað til viðurkenningar á kauprétti á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og því sé með öllu ástæðulaust að tilgreina jörðina nánar í dómkröfu. Samkvæmt þessu sé málatilbúnaðurinn í samræmi við d-lið 88. gr. sömu laga.
Stefnandi telur einnig að ekki sé nauðsynlegt að fram komi í dómkröfu á hvaða heimild krafan sé reist. Af málatilbúnaði í stefnu sé augljóst að byggt sé á því að stefnandi geti sem ábúandi jarðarinnar neytt kaupréttar síns á grundvelli 38. gr. jarðarlaga, nr. 65/1976.
Þá telur stefnandi engu breyta þótt ekki komi fram í dómkröfu gegn hvaða kaupverði hún telji sig eiga rétt á að leysa til sín jörðina. Að viðurkenndum kauprétti stefnanda beri að leita samkomulags um uppgjör, en ella ráði mat dómkvaddra manna, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 65/1976.
IV.
Hinn 28. júní 2001 synjaði landbúnaðarráðuneytið beiðni stefnanda á grundvelli 38. gr. jarðarlaga, nr. 65/1976, um að fá að kaupa ábúðarjörð sína, Stóra-Klofa í Landsveit. Stefnandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna þessarar afgreiðslu og gerði hann athugasemdir við málsmeðferðina hjá ráðuneytinu. Í kjölfarið tók ráðuneytið málið aftur til meðferðar og kynnti stefnanda að fyrirhugað væri á grundvelli nýrra gagna að taka ákvörðun sama efnis og fyrri ákvörðun. Áður var stefnanda þó gefið færi á að koma að andmælum. Stefnandi kaus að bíða ekki eftir nýrri ákvörðun ráðuneytisins heldur höfðaði málið til viðurkenningar á rétti sínum til að kaupa jörðina.
Samkvæmt 36. gr. jarðarlaga fer jarðardeild landbúnaðarráðuneytisins með málefni jarða í ríkiseign nema annað sé ákveðið í lögum. Á það einnig við um jarðir í eigu stefnda Landgræðslu ríkisins, en landbúnaðarráðherra fer jafnframt með yfirstjórn landgræðslumála, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965.
Í 1. mgr. 38. gr. jarðarlaga er mælt fyrir um rétt ábúenda ríkisjarða og jarða í eigu opinberra stofnana eða sjóða, sem fengið hafa erfða- eða lífstíðarábúð, til að fá jarðir sínar keyptar. Skilyrði þess eru að viðkomandi hafi búið á jörðinni minnst í 10 ár og að sveitarfélag og jarðarnefnd mæli með þeirri ráðstöfun. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á þetta þó ekki við um jarðir, sem þörf er á til opinberra nota eða skiptingar í náinni framtíð, og um jarðir, sem að dómi Bændasamtaka Íslands og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndar eru líklegar til að verða nýttar til annars en búrekstrar. Einnig eru undanþegnar kauprétti ábúenda jarðir, sem að dómi Náttúruverndar ríkisins hafa sérstök náttúrufyrirbæri innan sinna landamarka.
Ákvörðun um kauprétta ábúenda samkvæmt 38. gr. jarðarlaga er ekki að fullu lögbundin stjórnvaldsákvörðun þar sem beita verður mati við ákvörðun um hvort víkja beri frá kauprétti á grundvelli undantekningar í 2. mgr. sömu laga. Í málinu er því meðal annars haldið fram af hálfu stefndu að synjun ráðuneytisins hafi helgast af þeirri heimild. Þegar tekin er matskennd ákvörðun af því tagi verður stjórnvaldið meðal annars að gæta þess að ákvörðunin sé reist á málefnalegum sjónarmiðum með þau markmið að leiðarljósi sem viðkomandi stjórnvaldi ber að vinna að. Einnig verður að gæta meðalhófs og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá verður stjórnvaldið að hafa gætt rannsóknarskyldu sinnar áður en ákvörðun er tekin í máli.
Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um valdmörk stjórnvalda. Í því felst að leita má úrlausnar dómstóla um hvort stjórnvöld hafa tekið ákvörðun lögum samkvæmt og að gættum málefnalegum sjónarmiðum. Þessi endurskoðun dómstóla beinist því að þeim ákvörðunum sem stjórnvöld hafa þegar tekið. Eftir sem áður fara stjórnvöld með framkvæmdarvaldið, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Af því leiðir að dómstólar geta ekki án fyrirfarandi ákvörðunar viðurkennt rétt viðkomandi og samsvarandi skyldu stjórnvalds til að taka ákvörðun sem hvílir öðrum þræði á mati og felur í sér breytta réttarstöðu fyrir málsaðila.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að unnt sé að bera undir dóminn kröfu um viðurkenningu á kauprétti stefnanda á jörð hennar án þess að krafan beinist að tiltekinni ákvörðun, sem snertir þau réttindi. Þannig lýtur kröfugerðin ekki að fyrirliggjandi ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni stefnanda að fá jörðina keypta. Í annan stað er komið fram að ráðuneytið hefur ekki tekið nýja ákvörðun um beiðni stefnanda eftir að það tók málefnið til meðferðar á ný. Við töku þeirrar ákvörðunar ber að gæta þeirra lagasjónarmiða sem binda stjórnvöld og áður var vikið að, en að fenginni slíkri ákvörðun verður ágreiningur um hana borinn undir dómstóla eftir almennum reglum. Í því horfi sem málið er borið undir dóminn verður, eftir þeim ástæðum sem hér hafa verkið raktar, að vísa málinu frá dómi án þess að fjalla þurfi um þær ástæður sem stefndu hafa teflt fram fyrir frávísunarkröfu sinni.
Eftir atvikum þykja ekki efni til að úrskurða málskostnað.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.