Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Litis pendens áhrif
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 12. janúar 2012.

Nr. 660/2011.

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

gegn

Landsvaka hf. 

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Kærumál. Litis pendens áhrif. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli R á hendur L hf. var vísað frá dómi, með vísan til þess að ágreiningsmál milli R og LÍ hf. um sama efni hefði verið þingfest áður en mál þetta var höfðað. Málsatvik voru þau að L hf. og móðurfélag hans, bankinn LÍ hf., gerðu í október 2003 með sér samning um útvistun verkefna L hf. til bankans, þar sem L hf. fól bankanum það lögboðna hlutverk sitt að sjá um sölu og innlausn hlutdeildarskírteina í þeim sjóðum sem L hf. rak. Í júnímánuði 2008 gerðu R og LÍ hf. með sér samning um eignastýringu. Við uppgjör á hluta verðbréfaeignar R í sjóðum LÍ hf. fékk R greiddan hluta inneignar sinnar úr L hf. Við slit LÍ hf. lýsti R kröfu sem nam mismuni þeirrar greiðslu og markaðsverði verðbréfaeignar hans á tilteknum degi og var ágreiningi þar um beint til héraðsdóms lögum samkvæmt. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að í hinu eldra ágreiningsmáli, sem rekið væri eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., væri LÍ hf. til varnar. Á hinn bóginn væri L hf., sjálfstæð lögpersóna, stefndi í því máli sem hér væri til meðferðar. Í máli R gegn LÍ hf. væri gerð krafa um hlutdeild í eignum þrotabús bankans eftir því sem þær kæmu til uppgjörs á lýstum kröfum í búið. Þar sem hvorki væri um að ræða sömu aðila né kröfur í málunum tveimur, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, væri niðurstaða í máli R gegn LÍ hf. ekki bindandi fyrir aðila þessa máls samkvæmt 2. mgr. 116. gr. sömu laga, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 2. desember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað var frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili og móðurfélag hans, Landsbanki Íslands hf., gerðu 23. október 2003 með sér samning um útvistun verkefna varnaraðila til bankans, en varnaraðili er rekstrarfélag verðbréfasjóða sem starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fjárfestasjóði, sbr. áður lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Með samningnum  fól varnaraðili Landsbanka Íslands hf. það lögboðna hlutverk sitt að sjá um sölu og innlausn hlutdeildarskírteina í þeim sjóðum sem varnaraðili rak. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. beggja síðarnefndu laganna hefur það engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina þótt slíkt félag feli öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum samkvæmt 17. gr. sömu laga.

Sóknaraðili og Landsbanki Íslands hf. gerðu 3. júní 2008 með sér samning um eignastýringu og 3. október sama ár nam verðbréfainneign hins fyrrnefnda í sjóðum hins síðarnefnda 4.242.908.286 krónum, annars vegar Markaðsbréfum Landsbankans ISK að markaðsvirði 311.431.955 krónur og hins vegar Peningabréfum Landsbankans ISK að markaðsvirði 3.931.476.331 króna. Við uppgjör á Peningabréfum Landsbankans ISK fékk sóknaraðili greiddan hluta inneignar sinnar úr sjóðnum, 2.702.960.234 krónur,  og nam sú fjárhæð 68,8% af markaðsvirði bréfanna miðað við skráð gengi þeirra 3. október 2008. Samkvæmt því nam mismunur á þeirri fjárhæð sem sóknaraðili fékk greidda og eignar hans miðað við gengi bréfanna fyrrgreindan dag 1.228.516.007 krónum.

II

Sóknaraðili lýsti 30. október 2009 kröfu að fjárhæð 1.228.516.007 krónur á hendur Landsbanka Íslands hf. auk vaxta eftir innköllun slitastjórnar bankans. Kröfu sóknaraðila var hafnað með bréfi 16. febrúar 2010. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var honum beint til Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2010 í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í því máli er af hálfu sóknaraðila aðallega krafist að krafan verði samþykkt sem sértökukrafa, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara að hún verði samþykkt sem forgangskrafa í samræmi við 1. og 2. mgr. 112. gr. sömu laga og að því frágengnu að krafan verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Málið hlaut málsnúmerið X-48/2010 og er því ólokið.

III

Í 4. mgr. 102. gr. laga 161/2002 er kveðið á um að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Er ágreiningsmálum vegna slita fjármálafyrirtækja þannig markaður ákveðinn farvegur, meðal annars 120. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum var sóknaraðila ekki fært að höfða mál gegn varnaraðila og Landsbanka Íslands hf. til óskiptrar ábyrgðar í einu máli.

Í 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 segir að þegar mál hefur verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem gerðar eru í því í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi.

Í fyrrgreindu ágreiningsmáli, sem rekið er eftir ákvæðum laga nr. 21/1991, er  Landsbanki Íslands hf. til varnar. Á hinn bóginn er varnaraðili, Landsvaki hf., sem er sjálfstæð lögpersóna, stefndi í máli því sem hér er til meðferðar. Í máli sóknaraðila gegn Landsbanka Íslands hf. er gerð krafa um hlutdeild í eignum þrotabúsins eftir því sem þær koma til uppgjörs á lýstum kröfum í búið. Þar sem hvorki er um að ræða sömu aðila né kröfur í málunum í skilningi 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 er niðurstaða í máli sóknaraðila gegn Landsbanka Íslands hf. ekki bindandi fyrir aðila þessa máls samkvæmt 2. mgr. 116. gr. sömu laga, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Verður málinu því ekki vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að ágreiningsmálið milli sóknaraðila og Landsbanka Íslands hf. hafi verið þingfest áður en mál þetta var höfðað. Þá verður heldur ekki fallist á að aðrar ástæður, sem varnaraðili ber fyrir sig, leiði til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Landsvaki hf., greiði sóknaraðila, Reykjavíkurborg, 250.000 krónur í kærumálskostnað.       

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2011.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. nóvember sl., er höfðað af Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík, með stefnu birtri 27. maí sl. á hendur Landsvaka hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.228.516.097 krónur auk vaxta að fjárhæð 105.840.073 krónur skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. október 2008 til 18. júní 2009 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., frá 19. júní 2009 til greiðsludags, þar með talinna vaxtavaxta skv. 1. mgr. 12. gr. laganna.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda. Af hálfu stefnanda er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

II

Hinn 3. júní 2008 gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér samning um eignastýringu. Með samningnum tók bankinn að sér að veita stefnanda ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýringu. Tók bankinn við fjármunum frá stefnanda til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir eigin reikning stefnanda og stofnaði í því skyni sérstakan reikning á nafni stefnanda, vörslureikning, þar sem eign hans í fjármálagerningum skyldi varðveitt. Landsbanki Íslands hf. og stefndi höfðu áður, á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003, gert með sér samning um útvistun verkefna stefnda til Landsbanka Íslands hf. Með samningnum fól stefndi eignastýringarsviði bankans það lögboðna hlutverk sitt að sjá um sölu og innlausn hlutdeildarskírteina í þeim sjóðum sem stefndi rak.

Hinn 3. október 2008 átti stefnandi verðbréfaeign að fjárhæð 4.242.908.286 krónur í formi hlutdeildarskírteina í tveimur sjóðum stefnda, annars vegar Markaðsbréfum Landsbankans að markaðsvirði 311.431.955 krónur og hins vegar í Peningabréfum Landsbankans ISK að markaðsvirði 3.931.476.331 króna. Voru þessir fjármunir í eignastýringu hjá eignastýringarsviði Landsbanka Íslands hf. Að morgni sama dags óskaði stefnandi eftir því við eignastýringarsviðið að verðbréfaeign hans í áðurnefndum sjóðum yrði seld og keypt yrðu hlutdeildarskírteini í sjóði hjá stefnda sem nefndist Sparibréf og innihélt einungis ríkisverðbréf.

Hinn 6. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að lokað yrði fyrir viðskipti í Kauphöll Íslands með verðbréf útgefin af tilteknum fjármálafyrirtækjum, þ. á m. Landsbanka Íslands hf. Sama dag var sú ákvörðun tekin af hálfu stjórnar stefnda að loka fyrir innlausnir í öllum sjóðum hans. Segir stefndi að ekki hafi verið opnað fyrir innlausnir þann dag. Sama dag sendi eignastýringasvið bankans stefnanda kvittun fyrir innlausn á Markaðsbréfum og staðfestingu þess að andvirði bréfanna hefði verið lagt inn á reikning stefnanda. Þá var stefnanda send rafræn staðfesting á kaupum á Sparibréfum að andvirði 4.150.000.000 króna, en nafnverð bréfanna var 1.822.573.429,95 krónur. Daginn eftir barst stefnanda tilkynning í rafbréfi frá eignastýringarsviðinu þess efnis að kaupin á Sparibréfunum hefðu verið bakfærð. Stefnandi segist ítrekað hafa óskað eftir skýringum á því hverju það sætti að bakfærslan átti sér stað, enda hefði ekki verið haft samband við stefnanda. Ekki var orðið við kröfum hans um leiðréttingu.

Eftir setningu laga nr. 125/2008, hinn 7. október 2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., ákvað Fjármálaeftirlitið að nýta heimild í lögunum til að skipa skilanefnd sem tók við heimildum stjórnar Landsbanka Íslands hf. Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. á grundvelli heimildar í 5. gr. laganna. Hinn 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða að grípa til aðgerða sem leiddu til þess að peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið og sjóðfélögum greiddar út eignir þeirra í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins. Hinn 28. október 2008 sendi stefndi frá sér tilkynningu um slit og ósk um afskráningu á Peningabréfum Landsbankans ISK til Kauphallar Íslands. Við uppgjör á sjóðnum fékk stefnandi greiddan inn á bankareikning hluta inneignar sinnar, þ.e. 2.702.960.234 krónur. Nam þessi fjárhæð 68,8% hlutfalli af markaðsvirði Peningabréfa ISK hans miðað við skráð gengi þeirra við lokun sjóðsins. Samkvæmt því nam mismunurinn á fjárhæðinni sem stefnandi fékk greidda og eignar hans, miðað við gengi Peningabréfa Landsbankans ISK þann 3. október 2008, 1.228.516.007 krónum og er það stefnufjárhæð máls þessa.

Stefnandi hefur lýst kröfu að fjárhæð 1.228.516.007 krónur, auk vaxta að fjárhæð 174.056.843 krónur, á hendur Landsbanka Íslands hf. en henni var hafnað af slitastjórn bankans. Þar sem ekki náðist að jafna ágreining um kröfuna var honum því, í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Málið, sem hlaut númerið X-48/2010, og þingfest var 14. júní 2010, hefur enn ekki verið flutt. Hefur stefnandi fengið málinu frestað þar til niðurstaða liggur fyrir um frávísunarkröfu stefnda í máli þessu.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að starfsmenn Eignastýringarsviðs Landsbanka Íslands hf. hafi með saknæmum hætti látið hjá líða að framkvæma fyrirmæli hans um innlausn Peningabréfa ISK þann 3. október 2008 að verðmæti 3.931.476.331 krónur. Jafnframt hafi starfsmennirnir, með saknæmum hætti, bakfært kaup á Sparibréfum fyrir stefnanda að verðmæti 4.242.908.286 krónur þann 7. október 2008. Með háttsemi sinni hafi þeir valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á. Bótagrundvöll sé bæði að finna í reglum um skaðabótaábyrgð innan og utan samninga. Stefndi beri, auk Landsbanka Ísland hf., skaðabótaábyrgð utan samninga á saknæmri háttsemi starfsmanna Eignastýringarsviðs bankans á grundvelli 18. gr. laga nr. 30/2003. Auk þess beri stefndi skaðabótaábyrgð innan samninga á háttsemi starfsmanna Eignastýringarsviðs Landsbankans Íslands hf. á grundvelli 4. gr. útvistunarsamningsins sem slíks, sem feli í sér þriðjamannsloforð, en auk þess á grundvelli umboðsreglna samningaréttarins, sbr. ákvæði útvistunarsamningsins. Landsbanki Íslands hf. hafi verið umboðsmaður stefnda í skilningi samningaréttar.

Um lagarök til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi m.a. til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ. á m. um umboð, þriðjamannslöggerninga og skaðabætur innan samninga, sem og um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, einkum 18., 19. og 2. mgr. 54. gr. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr., auk 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

III

Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi hafi höfðað mál þetta á hendur stefnda þrátt fyrir að þingfest hafi verið mál um kröfu sömu fjárhæðar og vegna sömu atvika, í ágreiningsmáli stefnanda og slitastjórnar Landsbanka Ísland hf., sem ekki hafi enn verið flutt. Hafi stefnandi þar með höfðað tvö mál um sömu kröfu samtímis og beri þar af leiðandi að vísa máli þessu frá dómi með vísan til 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá byggir stefndi á því að málsgrundvöllur stefnanda sé óskýr. Óljóst sé hvort byggt sé á reglum um bótaskyldu innan eða utan samninga. Þá sé tjón stefnanda vanreifað. Stefnandi miði við að tjón borgarinnar sé mismunur á fjárhæð Peningabréfa samkvæmt gengi þeirra þann 3. október 2008 og þeirri fjárhæð sem borgin hafi fengið greidda eftir slit peningamarkaðssjóðanna. Engin viðleitni sé til að rökstyðja hvers vegna miðað sé við gengi bréfanna 3. október 2008 frekar en gengi annars dags. Með tilliti til þessara atriða sé krafan vanreifuð, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Stefnandi hafnar því að ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga um meðferð einkamála eigi við í málinu. Þar sem ágreiningsmálum við fjármálafyrirtæki í slitum sé markaður farvegur samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 120 og 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti, hafi ekki verið unnt að stefna Landsbanka Íslands hf. og stefnda til óskiptrar ábyrgðar í einu dómsmáli. Hafi stefnanda því verið sá kostur einn tækur að láta reyna á ábyrgð framangreindra aðila í tveimur málum. Það geti ekki hafa verið vilji löggjafans að haga málum með þeim hætti að stefnanda væri fyrirmunað að láta reyna á kröfu sína gagnvart stefnda þar sem jafnframt sé rekið mál á hendur bankanum á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Ekki sé um sömu kröfur að ræða heldur kröfur á hendur mismunandi aðilum og þá sé ábyrgðargrundvöllurinn ekki hinn sami. Stefnandi telur sig hafa lögvarða hagsmuni fyrir því að láta reyna á ábyrgð stefnda í málinu. Ef fallist yrði á frávísunarkröfu stefnda væri það brot á stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda samkvæmt 70. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Stefnandi hafnar því að málsgrundvöllur hans sé óskýr. Það liggi fyrir hvert tjón hans sé. Dagsetning viðskiptanna hafi verið 3. október 2008 og sé bótakrafa hans mismunur á því sem hann hefði fengið þá fyrir bréfin og því sem hann hafi fengið er sjóðurinn var leystur upp í lok sama mánaðar. Þá komi skýrt fram í stefnu að byggt sá bæði á skaðabótaábyrgð innan og utan samninga og sé það ítarlega rakið og reifað í stefnunni.

IV

Málið þetta á rætur að rekja til viðskipta stefnanda og Landsbanka Íslands hf. vegna samnings þeirra á milli um eignastýringu. Með samningum tók bankinn að sér að veita stefnanda ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýringu. Áður höfðu bankinn og stefndi, dótturfélag bankans, gert með sér samning um útvistun verkefna stefnda til bankans. Með þeim samningi fól stefndi eignastýringarsviði bankans að sjá um sölu og innlausn hlutdeildarskírteina í þeim fjárfestingasjóðum sem stefndi rak. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem eigandi hlutdeildarskírteinis í einum sjóðanna er bar heitið Peningabréf Landsbankans ISK. Lokað var fyrir innlausnir úr sjóðnum 6. október 2008. Sjóðnum var síðan slitið 28. október 2008 og sjóðfélögum, þ. á m. stefnanda, greiddar út eignir þeirra í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins. Fékk stefnandi 68,8% hlutfall af markaðsvirði Peningabréfa ISK hans miðað við skráð gengi þeirra við lokun sjóðsins.

Stefnandi lýsti, í október 2009, kröfu að fjárhæð 1.228.516.097 krónur, auk vaxta, á hendur Landsbanka Íslands hf. við slitameðferð hans. Aðallega krafðist stefnandi þess að krafan yrði viðurkennd sem sértökukrafa, til vara sem forgangskrafa en til þrautvara sem almenn krafa. Kröfu sína reiknaði stefnandi á sama hátt og í máli þessu, þ.e. sem mismun á skráðu gengi sjóðsins 3. október 2008 og þeirri fjárhæð sem goldin var fyrir hann eftir slit hans. Kröfunni var hafnað af slitastjórn bankans sem síðar vísaði ágreiningi um kröfuna til Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Er ágreiningsmálið rekið fyrir dóminum undir málsnúmerinu X-48/2010, en því hefur verið frestað ítrekað frá því það var þingfest í júní 2010. Í greinargerð stefnanda í máli nr. X-48/2010 kemur fram að hann byggi þrautavarakröfu sína, á hendur Landsbanka Íslands hf., á því að bankinn hafi með ólögmætum og saknæmum hætti komið í veg fyrir að stefnandi fengi umráð peninga sinna úr sjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK og þar með valdið stefnanda tjóni. Þá kemur fram að stefnandi telji bankann, á grundvelli húsbóndaábyrgðar, og stefnda bera óskipta ábyrgð á tjóninu. Í einkamáli því sem hér er til meðferðar krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að sömu fjárhæð. Byggir krafa stefnanda á sömu málsástæðu og krafan í framangreindu máli nr. X-48/2010, þ.e. að starfsmenn eignastýringarsviðs Landsbanka Íslands hf. hafi með saknæmum hætti valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á ásamt bankanum.

Í 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að þegar mál hafi verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur, sem séu gerðar í því, í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi. Eins og að framan er rakið er nú rekið fyrir dóminum ágreiningsmál milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf. en þar gerir stefnandi sömu kröfu og í máli þessu vegna sömu atvika. Þótt gagnaðili stefnanda sé ekki sá sami og í máli þessu verður að telja að framangreint ákvæði eigi við enda myndi gagnstæð niðurstaða hugsanlega leiða til þess að stefnandi eignaðist tvær aðfararhæfar kröfur, annars vegar á hendur stefnda en hins vegar á hendur Landsbanka Íslands hf., vegna sömu kröfu. Er því fallist á það með stefnda að vísa beri máli þessu frá dómi, þegar af þeirri ástæðu. Ekki verður talið að með þessari niðurstöðu sé brotið gegn stjórnskrárvörðum réttindum stefnanda um vernd eignarréttar eða á rétti hans til að fá úrlausn mála sinna fyrir dómstólum enda girðir niðurstaðan ekki fyrir að hann láti reyna á kröfur sínar á hendur stefnda síðar.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Reykjavíkurborg, greiði stefnda, Landsvaka hf., 400.000 krónur í málskostnað.