Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2012
Lykilorð
- Nálgunarbann
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
- Brottvísun af heimili
- Kærumál
|
|
Mánudaginn
21. maí 2012. |
|
Nr.
336/2012. |
Lögreglustjórinn á Selfossi (Margrét
Harpa Garðarsdóttir fulltrúi) gegn X (Sveinn
Guðmundsson hrl.) |
Kærumál.
Nálgunarbann. Brottvísun af heimili. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var
úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta brottvísun af heimili í
fjórar vikur og nálgunarbanni í sex mánuði, á grundvelli laga nr. 85/2011 um
nálgunarbann og brottvísun af heimili. Hæstiréttur taldi bresta heimild til
kæru úrskurðarins og vísaði málinu því frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta
Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí
2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að
sæta brottvísun af heimili sínu og nálgunarbanni eins og nánar greinir í
úrskurðarorði. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði
vísað frá héraðsdómi en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar
í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá
Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst
hann þess að kröfu varnaraðila um greiðslu málskostnaðar verði hafnað.
Lög nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili
hafa ekki að geyma heimild til að kæra til æðra dóms úrskurð héraðsdóms á
grundvelli laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 14. október 2011 í máli nr. 557/2011.
Brestur þannig heimild til kæru þessarar og verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8.
maí 2012.
Með bréfi, dagsettu 4. maí 2012 hefur lögreglustjórinn á
Selfossi krafist þess að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans sem tekin var
þann 3. maí sl. með vísan til 4. ogt 5. gr. laga um
nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 um að X, kt.
[...], sé gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar sem hann býr ásamt
eiginkonu sinni, A, kt. [...] , frá og með 3. maí
2012 til og með 31. maí 2012, og að honum verði jafnframt gert að sæta
nálgunarbanni, sbr. 4. gr. sömu laga, frá og með 3. maí 2012 í sex mánuði
þannig að lagt verði bann við því að hann komi í eða sé við [...], og jafnframt
verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í
sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum,
tölvupósti eða með öðrum hætti.
Krafan var tekin fyrir á dómþingi mánudaginn 7. maí 2012. Varnaraðili
sótti þing ásamt Gísla K. Björnssyni hdl. og óskaði eftir að hann yrði skipaður
verjandi sinn og var það gert. Þá sótti þing Grímur Hergeirsson hdl. vegna
brotaþola og óskaði eftir að verða skipaður réttargæslumaður brotaþola, að
hennar ósk, og var jafnframt orðið við því.
Af hálfu brotaþola er þess krafist að krafa lögreglustjóra nái fram að
ganga og er jafnframt krafist þóknunar til handa réttargæslumanni.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Málavextir:
Í greinargerð lögreglustjóra segir að krafan sé gerð þar sem
rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi beitt eiginkonu sína líkamlegu
ofbeldi og veruleg hætta sé á að hann muni brjóta á ný gegn henni verði hann
ekki fjarlægður af heimilinu og látinn sæta nálgunarbanni. Mat lögreglustjóra sé
það að vægari úrræði en brottvísun varnaraðila af heimili sínu og brotaþola og
að honum verði gert að sæta nálgunarbanni muni ekki vernda friðhelgi brotaþola
og tryggja öryggi hennar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um nálgunarbann og
brottvísun af heimili.
Lögð hafi verið fram kæra vegna líkamsmeiðinga varnaraðila gegn
eiginkonu sinni A, hér eftir brotaþoli, þann 29. apríl 2012 á heimili þeirra að
[...]. Brotaþoli sé með marbletti á vinstri upphandlegg utan- og aftanverðum á
nokkrum stöðum og sé það aumt. Þá hafi brotaþoli töluverð eymsli ofan við
vinstra brjóst þó ekki sjáist mar eða bólga á því svæði. Þá sé hún með mar,
bólgu og töluverð eymsli yfir svæði efst við rassaskoruna sem liggur frá
miðlínu og út á báðar rasskinnar.
Samkvæmt framburði brotaþola hafi varnaraðili í tvígang áður
veist að henni með líkamlegu ofbeldi og ásökunum. Í fyrra skiptið fyrir um sex
árum síðan og í seinna skiptið fyrir um tveimur árum síðan. Eftir seinna
skiptið hafi hún verið marin á eftir og flúið til mágkonu sinnar sem kallað
hafi til lögreglu. Ástandið hafi verið viðvarandi og ásakanir hafi oftast verið
þær sömu, að hún væri feit, ljót, duglaus, héldi fram hjá, væri hóra o.s.frv.
Þá hafi brotaþoli borið að varnaraðili eigi við erfiðleika að glíma sem hann
eigi að taka lyf gegn, en lyfin taki hann ekki núna.
Hafi brotaþoli borið að þann 28. apríl 2012 hafi varnaraðili
farið í fimmtugsafmæli en hún sjálf verið heima og farið að sofa. Um kl. 3:30
aðfararnótt 29. apríl 2012 hafi hann komið fullur heim og hún vaknað við það að
hann hafi staðið við rúmstokkinn yfir henni. Hann hafi ausið yfir hana ýmsum
ókvæðisorðum og hún þá svo staðið upp úr rúminu og farið inn í eldhús. Í
eldhúsinu hafi varnaraðili haldið áfram að rakka brotaþola niður og kalla öllum
illum nöfnum, slegið hana margsinnis með krepptum hnefa í vinstri upphandlegg
til áherslu á orð sín og hrint henni margsinnis til. Brotaþoli hafi séð símann
sinn álengdar og íhugað hver viðbrögð hans yrðu ef hún mundi hringja í
einhvern, en látið ógert að hringja því hún vildi ekki gera ástandið enn verra.
Varnaraðili hafi svo látið af ofbeldinu um kl. 5:30 og farið að sofa. Þá hafi
brotaþoli tekið saman hreinan þvott, klætt sig í föt og farið út úr húsinu og
til sonar síns. Í framburði brotaþola komi enn fremur fram á meðan á ofbeldinu
hafi staðið hafi hún nánast ekki sagt neitt því hún hafi ekki viljað gera
ástandið verra. Brotaþoli lýsi því að hún hafi verið hrædd á meðan á
framangreindu hafi staðið, en það hafi hún ekki verið áður þegar brotaþoli hafi
beitt hana ofbeldi.
Kemur fram að brotaþoli hafi látið lögreglunni á Selfossi í
té hljóðupptöku, sem hafi að geyma samskipti milli varnaraðila og brotaþola
þann 28. apríl 2012 sem eigi að varpa nokkru ljósi á skapsveiflur brotaþola. Þá
liggi fyrir dagbókarfærsla lögreglunnar á Selfossi, dags. 5. júlí 2009, sem að
öllum líkindum sé til komin í kjölfar seinni ofbeldisatviksins sem brotaþoli
hafi lýst í skýrslutöku hjá lögreglu, sbr. framangreint.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi varnaraðili komið á
lögreglustöðina á Selfossi þann 30. apríl 2012 og viljað tilkynna um
heimilisofbeldi sem hafi átt sér stað á heimili hans, við [...], helgina á
undan. Eiginkona hans hafi í kjölfarið flutt út af heimilinu og inn á heimili sonar
hennar, B. Í framburði varnaraðila hafi komið fram að aðfaranótt 30. apríl 2012
hafi hann fengið facebook skilaboð frá B, þar sem
fram hafi komið hótun af hans hálfu þess efnis að hann ætlaði að koma daginn
eftir og henda varnaraðila út úr húsnæðinu sem væri eign móður hans. Kveðist
varnaraðili taka fulla ábyrgð á gjörðum sínum umrætt sinn en deilur standi um
eignarhald á fasteigninni sem hann kveði að sé í hans eigu. Þá hafi varnaraðili
óskað eftir því að lögregla beitti sér fyrir því að B léti af hótunum í hans
garð þar sem varnaraðili sé heilsuveill og megi ekki við því að lenda í átökum.
Í framburði varnaraðila komi fram að B hafi handrukkara á sínum snærum.
Með vísan til alls framangreinds hafi lögreglustjórinn á
Selfossi talið uppfyllt skilyrði þau sem
sett eru fram í 4. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr.
85/2011 og því birt varnaraðila
ákvörðun þess efnis fimmtudaginn 3. maí 2012 að honum væri gert að yfirgefa
heimili sitt að [...], frá og með 3. maí 2012 til og með 31. maí 2012, sbr. 5.
gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Þá hafi varnaraðila
jafnframt verið gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. sömu laga, frá og með 3.
maí 2012 í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi í eða sé við [...]
og honum jafnframt bannað að veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í
sambandi við A, kt. [...] , svo sem með símtölum,
tölvupósti eða með öðrum hætti.
Í gögnum málsins kemur fram að þann 4. maí 2012 hafi
lögreglustjórinn á Selfossi lagt á framangreint nálgunarbann og brottvísun af
heimili.
Í rannsóknargögnum sem fylgdu beiðni lögreglustjóra kemur
fram að 30. apríl 2012 hafi brotaþoli komið til lögreglu til að kæra og
tilkynna um heimilisofbeldi og líkamsárás af hálfu eiginmanns hennar,
varnaraðila í málinu. Hafi hún fyrr um
daginn verið hjá sýslumanni vegna umsóknar um skilnað. Kvaðst brotaþoli vera með áverka af völdum
varnaraðila og sýndi hún lögreglumönnum hluta þeirra. Krafðist brotaþoli þess að varnaraðila yrði
refsað fyrir brot sitt og óskaði eftir aðstoð lögreglustjóra í samræmi við lög
nr. 85/2011 um að vísa varnaraðila af heimilinu sem og aðstoð vegna mögulegs
nálgunarbanns.
Í framburði brotaþola hjá lögreglu kom fram að varnaraðili
eigi við erfiðleika að stríða og eigi að vera á lyfjum sem hann taki þó
ekki. Hann hafi umrætt kvöld farið í
fimmtugsafmæli og komið heim um nóttina og verið mjög drukkinn. Lýsir brotaþoli í skýrslunni atburðum eins og
lýst er að ofan í greinargerð lögreglustjóra með kröfunni. Kemur fram að varnaraðili hafi áður veist að
henni með ofbeldi og eru lýsingar samskonar og lögreglustjóri hefur gert grein
fyrir sbr. það sem að ofan greinir.
Í gögnum málsins er læknisvottorð þar sem fram kemur að
brotaþoli hafi leitað á læknavakt 30. apríl 2012 og sagt að hún hafi orðið
fyrir áverkum af völdum eiginmanns umrætt sinn.
Hafi hann hrint henni ítrekað og hún ítrekað lent með bakið og rass á
eldhúsinnréttingu, skúffum og slíku.
Hafi hann slegið hana í handlegg og brjóst vinstra megin, tekið hálstaki
og rekið í hana hnéð. Hafi varnaraðili
slegið hana endurtekið í höfuð. Hafi
brotaþoli strax fundið til í vinstri upphandlegg og finni jafnframt fyrir verk
og stífleika neðarlega í baki. Er lýst
marblettum á vinstri upphandlegg utanvert á nokkuð mörgum stöðum og það aumt,
líka á aftanverðum upphandleggnum.
Eymsli ofan við vinstra brjóst en ekki mar og ekki sjáanleg bólga. Mar, bólga og talsverð eymsli yfir svæði efst
við rassaskoru sem liggur frá miðlínu og út á báðar rasskinnar. Þá er tekið fram að brotaþola líði greinilega
illa andlega.
Við fyrirtöku málsins kannaðist
varnaraðili við að honum og eiginkonu hans hefði lent saman umrætt sinn, en
hann hafi verið drukkinn. Kannaðist
varnaraðili við að hafa gripið í upphandlegg brotaþola, en kannaðist ekki við
að hafa veist að henni með ofbeldi á annan hátt. Þá kvað varnaraðili brotaþola hafa verið
sitjandi á stól á meðan. Ekki kvaðst varnaraðili
kunna skýringar á þeim áverkum sem lýst er í framangreindu læknisvottorði. Varnaraðili kvaðst vera heilsuveill og hefði
hann ekki líkamlega burði til þess sem á hann væri borið. Þá kvaðst varnaraðili ekki hafa önnur hús að
venda í en ofangreint heimili sitt, en þar þyrfti hann að sinna fyrirtæki sínu
og tveimur Labradorhundum. Kom fram hjá
varnaraðila að hann dvelst enn á heimilinu en brotaþoli hefur ekki verið þar
eftir ofanlýstan atburð. Ekki hefur
verið tekin formleg lögregluskýrsla af varnaraðila.
Niðurstaða:
Með hliðsjón af ofangreindu þykir
bera að fallast á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að háttsemi
varnaraðila gagnvart brotaþola umrætt sinn hafi verið á þann veg að um sé að
ræða brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot samkvæmt
því ákvæði getur varðað fangelsi allt að 6 mánuðum, en fangelsi allt að einu
ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð, en brotaþoli er eiginkona
varnaraðila. Fyrir liggur að brotaþoli
gerir refsikröfu í málinu. Það
refsiákvæði sem varnaraðili er grunaður um brot á er í XXIII. kafla almennra
hegningarlaga. Þá er fallist á það með
lögreglustjóra, að virtum atvikum málsins, að hætta sé á að varnaraðili muni á
ný brjóta gegn brotaþola, eiginkonu sinni, á sambærilegan hátt eða á annan hátt
raska friði hennar. Það að ekki hafi
verið tekin formleg lögregluskýrsla af varnaraðila getur ekki breytt þessu.
Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr.
85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita
nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert
brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni
fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola.
Samkvæmt a-lið 5. gr. nefndra laga
er heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að
sakborningur hafi framið refsivert brot, m.a. gegn ákvæðum XXIII. kafla
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verknaður hefur beinst að öðrum sem er
nákominn sakborningi og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika
verknaðarins, enda varði brotið fangelsi allt að 6 mánuðum, eða hætta sé á að
viðkomandi muni brjóta gegn brotaþola á þann hátt sem lýst er í ákvæðinu.
Brottvísun af heimili, sem og
nálgunarbann, er verulegt inngrip í einkalíf og persónulega hagi
varnaraðila. Að virtum
lögskýringargögnum þykja þó enn meiri verndarhagsmunir standa til þess að
tryggja brotaþola þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið
óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila, en fyrir liggur að hún
hefur farið af heimilinu en varnaraðili dvelst þar enn. Ber að líta til þess að hann er grunaður um
refsiverða háttsemi gagnvart henni en ekki hún gagnvart honum.
Er þannig fullnægt skilyrðum til að
varnaraðila verði vísað af heimilinu og að honum verði bannað að nálgast
brotaþola. Tímalengd kröfunnar þykir í hóf stillt, en hvorki hefur verið sýnt
fram á, né gert líklegt, að vægari úrræði geti komið að notum til að tryggja
lögverndaða hagsmuni brotaþola.
Verður þannig fallist á kröfu
lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ekki hefur verið gerð krafa um
þóknun skipaðs verjanda.
Þóknun
Gríms Hergeirssonar hdl., skipaðs réttargæslumanns brotaþola, ákveðst kr.
75.300, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr.
48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari
kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi um að varnaraðila, X, kt. [...], sé gert að yfirgefa heimili sitt að [...], þar
sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, A, kt. [...], frá
og með 3. maí 2012 til og með 31. maí 2012, og að honum verði jafnframt gert að
sæta nálgunarbanni frá og með 3. maí 2012 í sex mánuði þannig að lagt verði
bann við því að hann komi í eða sé við [...], og jafnframt verði honum bannað
að veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í sambandi við A, kt. [...] , svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum
hætti, er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gríms
Hergeirssonar hdl., kr. 75.300, greiðist úr ríkissjóði.