Hæstiréttur íslands

Mál nr. 317/1999


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamsárás
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2000.

Nr. 317/1999.

Ingunn G. Pétursdóttir

(Björn L. Bergsson hrl.

Sif Konráðsdóttir hdl.)

gegn

Gerði Yrju Ólafsdóttur

(Björgvin Þorsteinsson hrl.

Ásdís Rafnar hdl.)

Rakel Björk Gunnarsdóttur og

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Björgu Önnu Skúladóttur

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

                                              

Skaðabætur. Líkamsárás. Gjafsókn.

L, G, R og B voru í refsimáli dæmdar vegna líkamsárásar á I. Í refsimálinu var talið  að líkamstjón það sem I hlaut af árásinni stafaði eingöngu af atlögu L, en hún greiddi I höfuðhögg með hnésparki eftir að atlögu G, R og B að I lauk. Höfðaði I mál á hendur L,G, R og B til heimtu skaðabóta. Í dómi héraðsdóms var L dæmd til að greiða I bætur, en G, R og B voru sýknaðar af kröfum I. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest á grundvelli þess að ekki væri unnt að byggja á því að atlagan í heild teldist samverknaður L og G, R og B og var ekki talið að sérstakt samband hefði verið milli L og G, R og B á meðan á atburðum stóð. Var litið á framferði L sem sérstakan verknað og ekki talið að tjón það sem L olli I gæti talist sennileg afleiðing hegðunar G, R og B. Voru G, R og B því sýknaðar af kröfum I. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 1999 og krefst þess að stefndu verði, in solidum með Lindu Dögg Ragnarsdóttur, dæmdar til að greiða sér 3.589.740 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. febrúar 1998 til 11. mars sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að bótafjárhæð verði verulega lækkuð. Í báðum tilvikum krefjast þær málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit aðfarargerðar, er fram fór 28. september 1999 hjá Lindu Ragnarsdóttur vegna kröfu sýslumannsins á Akranesi, að fjárhæð 595.000 krónur. Var gerðarþoli viðstödd aðförina, sem lauk án árangurs.

I.

Í héraðsdómi er greint frá niðurstöðu í refsimáli, sem höfðað var gegn stefndu og Lindu Dögg Ragnarsdóttur vegna líkamsárásar á áfrýjanda aðfaranótt 20. janúar 1996, en málinu lauk með dómi Hæstaréttar 6. mars 1997, sbr. H.1997.904. Samkvæmt niðurstöðu þess máls ber við það að miða að áverki sá, sem örorka áfrýjanda er rakin til og bóta er nú krafist fyrir, stafi eingöngu frá atlögu Lindu Daggar Ragnarsdóttur, enda er það viðurkennt af hálfu áfrýjanda. Í máli þessu er því til úrlausnar, hvort atferli stefndu umrætt sinn geti talist með þeim hætti, að tjón áfrýjanda teljist sennileg afleiðing af því og að þær eigi að bera óskipta bótaábyrgð með Lindu Dögg. Heldur áfrýjandi því fram að þær hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið tjóninu og hafi verið um eina atlögu að ræða. Hafi stefndu og Linda Dögg staðið að henni í mismiklum mæli í einstökum þáttum hennar, meðal annars með hvatningu. Þáttur Lindu Daggar hafi verið tilviljanakenndur eins og hinna og bæði háttsemi hennar og þeirra haft hættueiginleika í för með sér. Tjónið hefði allt eins getað hlotist af höggum, spörkum og hrindingum stefndu eins og sparki Lindu Daggar.

Stefndu mótmæla því að áverkar þeir, sem áfrýjandi hlaut, hafi verið afleiðing verknaðar þeirra. Ekkert orsakasamband sé milli hegðunar þeirra og áverkanna. Þær hafi tuskast á við áfrýjanda og er því mótmælt að þær hafi beitt hliðstæðum aðferðum í samskiptum sínum við áfrýjanda og Linda Dögg gerði. Ekki hafi verið um samverknað þeirra og hennar að ræða.

II.

Í máli þessu hafa ekki farið fram yfirheyrslur aðila og vitna. Verður því að byggja á því, sem fram kemur í niðurstöðum og atvikalýsingum í dómum Héraðsdóms Vesturlands 8. október 1996 og Hæstaréttar 6. mars 1997 í fyrrnefndu refsimáli og dómskýrslum er lágu þeim til grundvallar. Talið var sannað að stefndu hefðu ráðist að áfrýjanda með hrindingum og spörkum umrædda nótt. Hefði þetta fyrst gerst bak við húsið nr. 8 við Kirkjubraut á Akranesi og hefðu stefndu allar átt þátt í þeirri aðför. Síðan hefðu stefndu Gerður Yrja og Björg Anna ráðist að áfrýjanda við verslun Guðmundar B. Hannah við Akratorg og slegið hana í andlitið með flötum lófa. Að lokum hefðu þær allar í félagi veist að henni með hrindingum  við húsin nr. 64 og 62 við Suðurgötu og meðal annars hrint henni utan í rafmagnstengikassa. Var þetta atferli þeirra allt talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar þetta átti sér stað var áfrýjandi nýorðin 16 ára, svo og stefnda Gerður Yrja, en stefndu Rakel Björk og Björg Anna voru 15 ára. Þekktust þær allar.

Linda Björg Ragnarsdóttir, sem var 18 ára á þessum tíma, var lengst af í hópi áhorfenda, sem safnast höfðu saman og fylgst með atlögu stefndu. Skarst hún í leikinn þegar síðustu atlögu stefndu lauk. ,,Gekk hún þá að Ingunni og greiddi henni höfuðhögg með svokölluðu hnésparki, þannig, að hún keyrði höfuð stúlkunnar niður með handtaki á móti krepptum fæti” eins og segir í dómi Hæstaréttar. Samkvæmt frásögnum vitna var högg þetta þungt og sjálf sagði Linda Dögg að það hafi orðið mun fastara en hún ætlaðist til. Var atferli hennar talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og sú heimfærsla talin eiga við bæði vegna afleiðinga verknaðarins og aðferðarinnar, sem beitt var gegn varnarlausum aðila.

Í ákæru refsimálsins voru allar ákærðu, þ.e. stefndu og Linda Dögg, ákærðar fyrir að hafa í félagi ráðist að áfrýjanda og var Lindu Dögg þar gefið að sök að hafa einnig átt þátt í fyrstu lotu atlögunnar við Kirkjubraut 8. Á þetta var ekki fallist í niðurstöðum málsins og var sakfelling Lindu Daggar eingöngu bundin við ofangreinda atlögu í lokin.

 Þegar litið er til þess, sem lagt var til grundvallar í refsimálinu þykir ekki hafa verið gert líklegt að Linda Dögg hafi verið með stefndu í umræddri aðför og er ekki unnt að byggja á því að atlagan í heild teljist samverknaður stefndu og hennar. Af gögnum verður ekki annað ráðið en að Linda Dögg hafi skorist í leikinn að eigin frumkvæði eftir að hafa fylgst ásamt öðrum með því, sem gerðist milli stefndu og áfrýjanda. Hefur ekki verið sýnt fram á að stefndu hafi haft áhrif þar á, hvatt hana eða óskað liðsinnis hennar. Eins og málið liggur fyrir þykir ekki unnt að byggja á því að sérstakt samband hafi verið milli þeirra á meðan á atburðum stóð og hafa ber í huga talsverðan aldursmun þeirra. Líta verður á framferði Lindu Daggar sem sérstakan verknað þótt telja verði að hugaræsingur í tengslum við atlögur stefndu að áfrýjanda hafi átt þátt í að til hans kom. Verður þó ekki á því byggt að það eitt geti leitt til bótaábyrgðar stefndu, enda voru viðbrögð hennar langt umfram það, sem við mátti búast. Verður á það fallist með héraðsdómara að tjón, sem Linda Dögg olli áfrýjanda, geti ekki talist sennileg afleiðing hegðunar stefndu.

Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta héraðsdóm.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ingunnar G. Pétursdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, Gerðar Yrjar Ólafsdóttur, Rakelar Bjarkar Gunnarsdóttur og Bjargar Önnu Skúladóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 200.000 krónur til hvers þeirra.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. maí 1999.

Stefnandi máls þessa er Ingunn Guðmunda Pétursdóttir, kt. 181279-4279, Fellsenda 13 Reykjavík. Stefnt er Gerði Yrju Ólafsdóttur, kt. 080180-3499, Höfðabraut 2 Akranesi; Rakel Björk Gunnarsdóttur, kt. 050380-3359, Esjubraut 24 Akranesi, og Björgu Önnu Skúladóttur, kt. 151180-3359, Deildartúni 3 Akranesi. Upphaflega var stefnt foreldrum Bjargar Önnu fyrir hennar hönd, en hún varð lögráða undir rekstri málsins og tók þá við aðild að því.

Málið var höfðað með birtingu stefnu á hendur stefndu Björgu Önnu 12. ágúst 1998, en á hendur hinum þremur stefndu 26. ágúst 1998. Það var þingfest 1. september s.á, tekið til dóm að lokinni aðalmeðferð 29. apríl sl.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

Þess er krafist að allar stefndu verði in solidum dæmdar til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 3.589.740 með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. febrúar 1998 til 11. mars sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu skv. málskostnaðarreikningi, auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Af hálfu stefndu Lindu Daggar Ragnarsdóttur hefur ekki verið sótt þing, ekki boðuð forföll og engin vörn uppi höfð.

 

Dómkröfur stefndu, annarra en Lindu Daggar eru þessar:

Stefnda Gerður Yrja Ólafsdóttir krefst þess aðallega, að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Hún krefst þess að henni verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins, hvernig sem málið fer, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda Rakel Björk Gunnarsdóttir krefst þess aðallega að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að þær verði lækkaðar að mati dómsins. Hún krefst þess að henni verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda Björg Anna Skúladóttir krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að bætur til stefnanda verði dæmdar mun lægri en stefnandi krefst. Þá krefst stefnda Björg Anna málskostnaðar úr hendi stefnanda, hvernig sem málið fer, og að málskostnaður verði tildæmdur henni eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

Málsatvik:

Með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 9. febrúar 1996, var höfðað opinbert mál á hendur öllum stefndu í máli þessu til refsingar fyrir líkamsárás á stefnanda 20. janúar 1996. Dómur var upp kveðinn í Héraðsdómi Vesturlands 15. mars s.á. Honum var áfrýjað til Hæstaréttar, og með dómi hans 3. júní 1996 var dómur héraðsdóms og málsmeðferð ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Dómur var lagður á málið að nýju í héraði 8. október 1996. Ákærðu Gerður Yrja, Rakel Björk og Björg Anna undu niðurstöðu hans, en af hálfu ákærðu Lindu Daggar var málinu áfrýjað til Hæstaréttar. Þar féll dómur 6. mars 1997 (Hrd. 1997:904).

Í nefndu ákærumáli voru allar fjórar stefndu í þessu máli ákærðar fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. janúar 1996 í miðbæ Akraness í félagi ráðist á stefnanda „og slegið hana oft með krepptum hnefa í andlit og búk og sparkað í hana, fyrst allar ákærðu bak við húsið nr. 8 við Kirkjubraut, þar sem ákærðu hrintu Ingunni Guðmundu, svo að hún féll við, og spörkuðu í hana liggjandi. Síðan réðust ákærðu Gerður Björg og Rakel á Ingunni með höggum og spörkum hjá verslun Guðmundar B. Hannah við Akratorg, og loks héldu þessar þrjár ákærðu áfram árásinni með höggum spörkum og hrindingum við húsin nr. 64 og 62 við Suðurgötu, þar sem ákærða Linda Dögg kom að, tók í hárið á Ingunni Guðmundu, beygði höfuð hennar niður og gaf henni hnéspark í andlitið, svo að mikill smellur heyrðist. Afleiðingar þessara árása voru þær, að Ingunn Guðmunda hlaut brot í höfuðkúpu á hægra gagnaugasvæði, mikla blæðingu milli ystu heilahimnu og höfuðkúpu með miklum þrýstingi á heila, sem olli djúpu meðvitundarleysi og bráðri lífshættu og marblettum á víð og dreif á fótleggjum og lærum. Var Ingunn Guðmunda flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur, þar sem hún gekkst undir bráðaaðgerð vegna mikillar blæðingar í höfði . . .” Háttsemi allra fjögurra ákærðu, stefndu í þessu máli, var í ákærunni talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Dómara þykir rétt að rekja í sem stystu máli niðurstöður Héraðsdóms Vesturlands í dóminum frá 8. október 1996 og Hæstréttardómsins frá 6. mars 1997.

Í héraðsdóminum segir að sannað sé „með framburði ákærðu Gerðar og Bjargar Önnu, sem er í sam­ræmi við framburð meðákærðu Lindu Daggar og Rakelar Bjarkar og fær jafnframt stoð í vætti ...[vitnis], að ákærðu Gerður og Björg Anna hafi aðfaranótt laugardagsins 20. janúar sl. í félagi ráðist á Ingunni Guðmundu Péturs­dóttur bak við húsið nr. 8 við Kirkjubraut og ákærða Gerður slegið hana a.m.k. eitt högg með flötum lófa í andlitið og ákærða Björg Anna greitt henni a.m.k. eitt hnefa­högg í andlitið, áður en þær hrintu Ingunni svo hún féll til jarðar. Með játningum ákærðu beggja og játningu meðákærðu Rakelar Bjarkar við rannsókn og meðferð málsins, sem eru í sam­ræmi við framburð meðákærðu Lindu Daggar og styðjast einnig við framburð ...[fjögurra vitna] ..., er einnig sannað, að ákærðu aðrar en Linda Dögg hafi, eftir að Ingunn Guðmunda féll til jarðar, í félagi sparkað margsinnis í fætur hennar og búk, og ákærða Rakel Björk jafnframt einu sinni laust aftan í höfuð, áður en Ingunni Guðmundu barst utan­að­komandi aðstoð og komst undan árásarmönnunum þremur. Með hliðsjón af fram­­burði sömu aðila og fyrirliggjandi niðurstöðum læknis­skoðunar á bol og útlimum Ingunnar Guðmundu, annars vegar á Akra­nesi og hins vegar í Reykja­vík, er ósannað að af­leiðingar greindrar árásar hafi verið aðrar og meiri en rúmast innan marka 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Ber því að færa framangreinda háttsemi ákærðu Gerðar, Bjargar Önnu og Rakelar Bjarkar undir téða lagagrein”.

Síðan segir í héraðsdóminum:

„Þá er sannað með játningum ákærðu Gerðar og Bjargar Önnu við rann­sókn og meðferð málsins, sem stoð fá í framburði meðákærðu Rakelar Bjarkar og vætti ...[þriggja vitna]..., að ákærðu Gerður og Björg Anna hafi, í framhaldi af atlögunni við Kirkjubraut 8, í félagi ráðist á Ingunni Guðmundu hjá verslun Guðmundar B. Hannah við Akratorg og slegið hana þar í andlitið með flötum lófa. Varðar sú háttsemi ákærðu beggja einnig við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.”

Enn segir í niðurstöðum héraðsdómsins:

„Einnig er sannað með játningum ákærðu Gerðar, Bjargar Önnu og Rakelar Bjarkar, sem eru í samræmi við framburð meðákærðu Lindu Daggar og studdar eru vætti ...[fjögurra vitna]..., að ákærðu Gerður, Björg Anna og Rakel Björk hafi, í beinu framhaldi af atlögunni við Verslun Guðmundar B. Hannah, þrjár í félagi veist að Ingunni Guðmundu með hrindingum við húsin nr. 64 og 62 við Suðurgötu og meðal annars hrint henni utan í rafmagnstengikassa, sem þar er á milli húsanna. Þykir þetta atferli ákærðu þriggja einnig varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.” 

Þá segir í héraðsdóminum:

„Ákærða Linda Dögg hefur játað fyrir dómi að hafa umrædda nótt, í beinu framhaldi af framangreindri atlögu meðákærðu að Ingunni Guðmundu fyrir framan húsin nr. 64 og 62 við Suðurgötu, tekið í hár Ingunnar Guðmundu, sveigt höfuð hennar fram og niður og slegið því í fót sér fyrir ofan hné. Segir ákærða, að enni Ingunnar Guðmundu hafi lent á fæti sér og ákærða við það heyrt smá ,,klikk” í höfði hennar. Hefur ákærða lýst ,,klikki” þessu með því að smella fingrum. Þá skýrði hún svo frá við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu, að viðstöddum réttargæslumanni, er borin var undir hana skýrsla meðákærðu Bjargar Önnu, þess efnis, að við höggið hefði heyrst ,,rosalega hár smellur” og Ingunn Guðmunda verið mjög ringluð á eftir, að þetta væri rétt lýsing hjá meðákærðu og gerði ákærða ekki athugasemdir við hana.”

Síðar segir í héraðsdóminum:

„Sannað er með ofangreindu trúverðugu vætti ...[6 vitna] ..., að ákærða Linda Dögg hafi greint sinn gefið Ingunni Guðmundu hnéspark í höfuðið með þeim hætti, sem í ákæru greinir. Fær sú niðurstaða jafnframt stoð í vætti ...[þriggja vitna] ..., svo og framburði ákærðu sjálfrar um ,,klikk” það, sem hún hefur líkt eftir með því að smella fingrum og segir hafa komið við höggið. “

Enn síðar í niðurstöðum héraðsdómsins segir:

„Þegar framangreint er virt heildstætt og sérstaklega er haft í huga, að hnéspark það, sem ákærða Linda Dögg veitti Ingunni Guðmundu umrætt sinn, var afar þungt, átta vitni, auk ákærðu sjálfrar og meðákærðu Bjargar Önnu, hafa greint frá smelli, sem heyrst hafi við höggið og Ingunn Guðmunda ber sjálf, að hún hafi dofnað mjög í höfðinu eftir það, og jafnframt er litið til þess, að fjögur vitni hafa á skilmerkilegan hátt skýrt frá því, að Ingunn Guðmunda hafi kvartað undan höfuðverk, allt frá því hún hlaut höfuðhöggið og þar til hún lagðist til svefns á heimavistinni, auk þess sem vitnið Þórir Ragnarsson [læknir. Innskot dómara] hefur borið, að langlíklegast sé, að umræddur áverki hafi komið við högg á hægra gagnaugasvæði Ingunnar Guðmundu, er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því, að umrætt hné­spark ákærðu Lindu Daggar hafi valdið þeim alvarlega höfuðáverka Ingunnar Guðmundu, sem lýst er í ákæru.

Fullyrt verður af framangreindum læknisvottorðum og dómsframburði vitnisins Þóris Ragnarssonar, að árás Lindu Daggar hefði leitt til dauða Ingunnar Guðmundu, hefði bráðaaðgerð ekki verið framkvæmd á höfði hennar umræddan morgun. Þá var árás ákærðu sérstaklega hættuleg vegna þeirrar aðferðar, er ákærða beitti. Varðar hátt­semi ákærðu samkvæmt framansögðu við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.”

Í Hæstaréttardóminum frá 6. mars 1997 segir að sakamálið sé „risið af atvikum, sem gerðust í miðbæ Akraneskaupstaðar aðfaranótt laugardagsins 20. janúar 1996, þegar fjöldi ungmenna var þar á ferli. Varð 16 ára skólastúlka, Ingunn Guðmunda Pétursdóttir, þar fyrir árás þriggja stúlkna á sama reki, sem veittust að henni með hrindingum, höggum og spörkum. Ákærða Linda Dögg Ragnarsdóttir, þá 18 ára að aldri, var lengst af í hópi áhorfenda að þessum atgangi, en skarst í leikinn, þegar hann hafði borist á þriðja staðinn, sem tilgreindur er í ákæruskjali. Gekk hún þá að Ingunni og greiddi henni höfuðhögg með svokölluðu hnésparki, þannig, að hún keyrði höfuð stúlkunnar niður með handtaki á móti krepptum fæti. Með þessari atlögu lauk aðförinni, og varð ein fyrrgreindu stúlknanna til þess að styðja Ingunni að nálægu húsi, þar sem hún hitti fyrir vinkonu sína, er hjálpaði henni að ná til læknis.

Samkvæmt gögnum málsins virðast árásir stúlknanna þriggja ekki hafa verið svo ofsafengnar, að líkur séu á því, að þangað megi rekja þá innri áverka á höfði Ingunnar, sem í ljós komu við aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hins vegar var höggið af hnésparki ákærðu greinilega til þess fallið að valda þessum áverkum. Frásagnir vitna eru mjög svo samhljóða um, að höggið hafi verið þungt, og sjálf segir hún það hafa orðið mun fastara en hún ætlaðist til.

Að áliti skurðlæknisins, sem gerði aðgerðina að morgni sama dags, er ekki vafi á því að þetta högg hafi tímans vegna getað verið orsök áverkanna. Við fyrri komu Ingunnar um nóttina á Sjúkrahús Akraness sýndi hún ekki merki um svo alvarlegt áfall, að ástæða þætti til að leggja hana þar inn. Eftir för sína þaðan var hún í fylgd vina sinna, þar til nokkru eftir að hún sofnaði í herbergi á jarðhæð í heimavist Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Um það bil klukkustund síðar var komið að henni meðvitundarlausri og liggjandi á grúfu frammi á dyrapalli heimavistarhússins. Ekki er vitað um sérstakar hindranir á leiðinni þangað, og stúlkan bar ekki heldur nein ytri áverkamerki við síðari komu sína á sjúkrahúsið. Að þessu og öðru athuguðu verður á það að fallast með dómendum í héraði, að fram sé komin nægileg sönnun þess, að umræddir áverkar stafi af högginu frá ákærðu.

Aðgerðin á Sjúkrahúsi Reykjavíkur tókst giftusamlega og virðist hafa komið í veg fyrir alvarlegan skaða af völdum áverkanna, þegar litið er til framtíðar. Eigi að síður liggur fyrir, að áverkarnir höfðu bráða lífshættu í för með sér.

Með skírskotun til alls þessa og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta þá niðurstöðu hans, að ákærða hafi orðið sek um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á heimfærslan við bæði vegna afleiðinga verknaðarins og aðferðarinnar, sem beitt var gegn varnarlausum aðila.”

Eins og fram kemur í tilvitnuðum kafla Hæstaréttardómsins hér að fram kom stefnandi þessa máls þrisvar á sjúkrahús aðfaranótt 20. janúar 1996 og að morgni þess dags. Samkvæmt héraðsdóminum frá 8. október 1996 kom hún fyrst á Sjúkrahús Akraness kl. 2:30 um nóttina í fylgd með vinkonu sinni. Læknisskoðun leiddi þá hvorki í ljós sýnilega áverka né þreifieymsli á höfði hennar. Blóðþrýstingur og púls mældist innan eðlilegra marka. Hún var útskrifuð um hálfri klukkustund frá komu.

Um kl. 06:50 að morgni sama dags var Ingunn færð meðvitundar­laus á sjúkra­húsið. Fljót­lega vaknaði þá grunur um blæðingu í höfði. Að höfðu samráði við Þóri Ragnars­son, sér­fræðing í heila- og taugaskurðlækningum, var ákveðið að senda stefnanda á Sjúkra­­­hús Reykja­víkur. Þangað kom hún í þyrlu Landhelgisgæslunnar um kl. 09:00. Að lokinni læknis­rannsókn og röntgen­mynda­töku var Ingunn færð á skurð­stofu til bráða­aðgerðar vegna mikillar blæðingar í höfði. Samkvæmt vottorði Þóris frá 20. janúar 1995, var Ingunn þá mjög hætt komin að hans mati og hefði látist ef aðgerð hefði ekki verið gerð.

 

Matsgerð:

Dómkröfur stefnanda voru upphaflega byggðar á örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis, sérfræðings í taugalækningum, dags. 2. nóvember 1997. Var það lagt fram við þingfestingu málsins.

Á dómþing 17. nóvember 1998 lögðu lögmenn stefndu fram matsbeiðni, og voru á því þingi dómkvaddir sem matsmenn dr. med. Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í heila og taugasjúkdómum, og Aron Björnsson læknir, sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum, til að meta eftirfarandi skv. matsbeiðni:

Hverjar eru afleiðingar áverka sem Ingunn G. Pétursdóttir hlaut aðfaranótt 20. janúar 1996?

Hver er tímabundinn starfsorkumissir, varanlegur miski og varanlega örorka Ingunnar G. Pétursdóttur sem beinlínis telst vera af völdum líkamsárásar 20. janúar 1996?

Í hve langan tíma telst hæfilegt að greiða þjáningabætur skv. 3. gr. laga nr. 50/1993?

Í tengslum við mat skv. 2. tl. er þess óskað að heilsufarssaga Ingunnar G. Pétursdóttur fyrir og eftir slys verði könnuð rækilega og lagt mat á það að hve miklu [svo] sjúkdómseinkenni, sem hún býr við nú, verða rakin til annarra atvika en líkamsárásarinnar, s.s. sjúkdóma eða slysa.

Matsgerð læknanna Arons og Sigurðar er dagsett 28. janúar 1999, og hún var lögð fram á dómþingi 3. mars. Í niðurstöðum í lok matsgerðar segja matsmenn: „Aðfaranótt þess 20. janúar 1996 hlaut IP alvarlegan höfuðáverka, sem varð til þess að hún hlaut blæðingu milli höfuðkúpu og ystu heilahimnu (utanbasts eða epidural blæðingu). Þessi áverki var lífshættulegur, en var lífi hennar bjargað með réttri meðferð, þ.e. þrýstingslækkandi meðferð á leið á Sjúkrahús Reykjavíkur og síðan skurðaðgerð á sjúkrahúsinu þar sem blæðingin var stöðvuð og blóðinu hleypt út og þar með létt á þrýstingi á heilanum. Afturbati eftir þetta var býsna góður, en ástandið virðist hafa verið óbreytt nú í rúmlega eitt ár.”

Svör matsmanna við spurningum matsbeiðanda í matsbeiðni eru þannig, í sömu töluröð og spurningarnar:

„IP hefur hlotið nokkurn varanlegan heilaskaða, sem einkennist einkum af minnistruflun og truflunum í hreyfikerfinu vinstra megin í líkamanum.”

„Tímabundinn starfsorkumissir IP, skv. 2. gr. skaðabótalaganna, telst hæfilega metinn 100% í 8 mánuði. Varanlegur miski IP, skv. 4. gr. skaðabótalaganna, telst hæfilega metinn 30% (þrjátíu af hundraði). Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaganna, þykir hæfilega metin 30% (þrjátíu af hundraði).”

„IP telst hafa verið rúmföst (inniliggjandi á sjúkrahúsi) í 45 (fjörutíu og fimm) daga og síðan veik án þess að vera rúmliggjandi í 5 (fimm) mánuði.”

„Á matsfundi þann 14. desember 1998 var farið yfir fyrra heilsufar IP með henni og móður hennar. Kom ekkert fram í heilsufarssögu hennar sem skýrt getur þau sjúkdómseinkenni sem hún býr við nú, annað en umrædd líkamsárás, þann 20. janúar 1996 og er það í samræmi við niðurstöðu Grétars Guðmundssonar læknis, í örorkumati hans frá 2. nóvember 1997. Einkenni hennar eru þess eðlis að undirritaðir töldu ekki ástæðu til að kanna fyrra heilsufar hennar frekar.”

 

Sundurliðun dómkröfu:

Af hálfu stefnanda hefur verið fallist á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, og eru endanlegar dómkröfur hennar á henni byggðar. Sundurliðun kröfunnar er þannig, með vísan til skaðabótalaga nr. 50/1993:

 

Þjáningabætur skv. 3. gr., 45 dagar x 1.440, rúmföst

kr.64.800

Þjáningarbætur skv. 3. gr., 150 dagar x 760, fótaferð

kr.114.000

Bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr.

 

30% af 4.373.000 (4000.000,00/3282x3601)

kr.1.311.900

Varanleg örorka skv. 4. mgr. 8. gr.,

 

160% af 1.311.900

kr.2.099040

Samtals

kr. 3.589.740

 

 

Málsástæður aðilja og lagarök:

Í stefnu segir að stefndu beri tvímælalausa bótaábyrgð á afleiðingum líkamsárásar þeirra á stefnanda. Sú ábyrgð styðjist við reglur skaðabótaréttar um sakarábyrgð. Ábyrgðin sé solidarisk. Í þessu sambandi breyti engu þótt dómstólar hafi metið hlut stefndu Lindu Daggar meiri en hinna að refsilögum. Stefndu hafi í sameiningu staðið að ólögmætri og refsiverðri árás á stefnanda, og ekki hefði komið til atlögu stefndu Lindu Daggar, ef meðstefndu hefðu ekki þegar veist að stefnanda með ítrekuðum árásum og eftirför. Þannig beri stefndu tvímælalaust fulla og óskipta sakarábyrgð að skaðabótarétti á þeim viðurhlutamiklu afleiðingum sem hin ólögmæta og refsiverða árás þeirra hafi haft í för með sér.

Um lagarök segir í stefnu að stefnandi styðji málsókn sína einkum við almennar reglur skaðabótaréttar um sakarábyrgð auk skaðabótalaga. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987; krafa um málskostnað við 130. gr einkamálalaga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988.

Í greinargerð stefndu Gerðar Yrju segir að krafa hennar um sýknu byggist á þeirri málsástæðu, að tjón stefnanda sé ekki unnt að rekja til verknaðar hennar. Það sem stefnda hafi unnið sér til sakar hafi ekki með nokkru móti getað leitt til þeirra afleiðinga sem í ljós hafi komið. Smávægilegar hrindingar og sláttur með flötum lófa til stefnanda hafi ekki getað leitt til höfuðkúpubrots og heilablæðingar. Allar líkur séu á því að stefnandi hafi orðið fyrir þessum áverkum við hnéspark meðstefndu Lindu Daggar eða við fall síðar um nóttina eftir að stefnandi yfirgaf sjúkrahúsið á Akranesi fyrra sinni. Héraðsdómur Vesturlands hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnda Gerður Yrja hafi einungis gerst sek um minniháttar líkamsmeiðingar gagnvart stefnanda og að brot hennar varðaði við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Hæstiréttur Íslands hafi staðfest þessa niðurstöðu í forsendum dómsins yfir Lindu Dögg þann 6. mars 1997.

Stefnda Gerður Yrja telur að lækka beri bætur til stefnanda, ef svo fer að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að hún beri ábyrgð á tjóni stefnanda. Um lagarök fyrir þessu vísar hún til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnda hafi einungis verið 16 ára þegar málsatvik urðu. Hún stundi nám við Fjölbrautarskóla Vesturlands og hyggi á framhaldsnám. Henni yrði það þungbært að verða dæmd til greiðslu hárra skaðabóta. Það stefndi í hættu framtíðarmöguleikum hennar.

Málskostnaðarkrafa stefndu Gerðar Yrju er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Í greinargerð stefndu Rakelar Bjarkar er því haldið fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að tjón hennar stafaði af verknaði stefndu, Rakelar. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefnda hafi veitt stefnanda nokkurn þann áverka sem leitt hafi getað til þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir.

Stefnda Rakel Björk mótmælir því, sem haldið er fram í stefnu, að ekki hefði komið til atlögu meðstefndu Lindu Daggar, ef meðstefndu hefðu ekki veist að stefnanda með ítrekuðum árásum og eftirför. Meðstefnda Linda Dögg hafi staðið ein og óstudd að aðförinni gegn stefnanda. Hvergi í gögnum málsins komi fram að stefnda Rakel Björk hafi á nokkurn hátt veitt aðstoð eða atbeina við árás meðstefndu Lindu Daggar, heldur virðist hún þvert á móti hafa verið hætt afskiptum af málinu þegar þar var komið. Engin skilyrði séu til að gera stefndu Rakel Björk samábyrga meðstefndu Lindu Dögg, hvorki skv. lögum né almennum skaðabótareglum.

Varakrafa stefndu Rakelar Bjarkar, segir í greinargerð hennar, byggist einkum á ungum aldri hennar er atburðir gerðust.

Krafa stefndu Rakelar Bjarkar um málskostnað er reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr., og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

Í greinargerð stefndu Bjargar Önnu segir að hún geti ekki talist bótaskyld gagnvart stefnanda þar sem tjón stefnanda verði ekki rakið til hennar. Af dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 8. október 1996 í máli ákæruvaldsins gegn Lindu Dögg Ragnarsdóttur o.fl. og jafnframt af dómi Hæstaréttar 6. mars 1997 í máli ákæruvaldsins gegn Lindu Dögg Ragnarsdóttur sé ljóst, að þeir alvarlegu líkamsáverkar sem stefnandi hlaut aðfaranótt 20. janúar 1996 verða raktir til barsmíðar Lindu Daggar, en ekki til athafna stefndu Bjargar Önnu eða Gerðar Yrju eða Rakelar Bjarkar. Héraðsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að afleiðingar árásar hinna þriggja síðastnefndu hafi verið aðrar og meiri en rúmast innan marka 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Er því næst í greinargerðinni vitnað orðrétt í héraðsdóminn frá 8. október 1996, þar sem segir að komin sé fram „lögfull sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því, að umrætt hnéspark ákærðu Lindu Daggar hafi valdið þeim alvarlega höfuðáverka Ingunnar Guðmundu, sem lýst er í ákæru.” Háttsemi meðstefndu í þessu máli hafi verið talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í greinargerð stefndu er einnig vitnað til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar, þar sem segir að „skv. gögnum málsins virðast árásir stúlknanna þriggja ekki hafa verið svo ofsafegnar, að líkur séu á því, að þangað megi rekja þá innri áverka á höfði Ingunnar, sem í ljós komu við aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hins vegar var höggið af hnésparki ákærðu [þ.e. meðstefndu Lindu Daggar. Innskot dómara] greinilega til þess fallið að valda þessum áverkum.” Og ennfremur er í greinargerðinni vitnað til þessara orða í Hæstaréttardóminum. „Af þessu og öðru athuguðu verður á það að fallast með dómendum í héraði, að fram sé komin nægileg sönnun þess, að umræddir áverkar stafi af högginu frá ákærðu.”

Stefnda Björg Anna heldur því fram að Hæstiréttur hafi skv. framanrituðu dæmt um sök og orskatengsl í máli þessu. Því sé afar langsótt að gera bótakröfur á hendur stefndu vegan örorku og miska sem hlotist hafi af hnésparki meðstefndu Lindu Daggar. Aðför hinnar síðarnefndu að stefnanda hafi verið sjálfstæð og stefnda Björg Anna hafi hvorki hvatt hana né léð henni atbeina til verknaðarins. Fullyrðingar í stefnu þess efnis að stefndu beri allar bótaábyrgð in solidum á afleiðingum líkamsárásar stefndu Lindar Daggar, séu rakalausar. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að tjón hennar megi rekja til athafna eða athafnaleysis stefndu Bjargar Önnu, en þá sönnun skorti algjörlega.

Þá segir í greinargerð stefndu Bjargar Önnu, að auk þess sem stefnandi vísi [í stefnu] til almennra skaðabótareglna vísi hann til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 almennt að því er varðar bótaábyrgð. Í þeim lögum séu ekki sjálfstæðar bótareglur utan ákvæða 26. gr. um miska. Stefnda Björg Anna heldur því fram að miskatjón stefnanda sé henni óviðkomandi, þar sem það megi rekja allt til stórfelldrar líkamsárásar stefndu Lindu Daggar, en ekki til þess „tusks” sem aðrar stefndu voru dæmdar fyrir. Í stefnukröfum sé ekki gerð krafa um bætur fyrir miska á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, þannig að slíkar bætur verði ekki dæmdar úr hendi stefndu Bjargar Önnu.

Stefnda Björg Anna krefst niðurfellingar bóta eða verulegrar lækkunar þeirra, ef hún verður dæmd bótaábyrg. Þessa kröfu gerir hún með hliðsjón af óvenjulegum aðstæðum, aldri og sérstaklega því að verulega ósanngjarnt væri að leggja þungar greiðslubyrðar á hana vegna afleiðinga verknaðar sem hún hafi engu um ráðið. Vísar hún í því sambandi til 24. gr. skaðabótalaga.

 

Niðurstöður:

Í máli ákæruvaldsins gegn stefndu í máli þessu, sem dæmt var í Héraðsdómi Vesturlands 8. október 1996, og Hæstaréttardóminum frá 6. mars 1997 í máli ákæruvaldsins gegn stefndu Lindu Dögg Ragnarsdóttur var dæmt um sök og orsakartengsl í þessu máli. Dómari þessa máls er bundinn af niðurstöðum þessara dóma um þau efni.

Samkvæmt ákærunni í héraðsdómsmálinu krafðist ákæruvaldið þess að allar fjórar ákærðu, stefndu í þessu máli, yrðu dæmdar fyrir samverknað, sem talinn var varða við 2. mgr. 218. gr. hegningarlaga. Niðurstaða héraðsdómsins varð sú að stefndu Gerður Yrja, Rakel Björk og Björg Anna voru dæmdar fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en stefnda Linda Dögg var dæmd fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Sannað þótti að hnéspark stefndu Lindu Daggar hefði valdið hinum alvarlega höfuðáverka stefnanda, og var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti. Hér verður því við það að miða að tjón það, sem stefnandi krefst bóta fyrir, eigi sér orsök í umræddu hnésparki stefndu Lindu Daggar, en ekki þeim áverkum sem meðstefndu Gerður Yrja, Rakel Björk og Björg Anna veittu stefnanda.

Af umræddum dómum í héraði og Hæstarétti verður ekki ráðið að um hafi verið að ræða samverknað hinna fjögurra stefndu í máli þessu. Niðurstöður héraðsdómsins benda til hins gagnstæða, og fram á annað hefur ekki verið sýnt í máli þessu. Ekki er fram komið að stefnda Linda Dögg og hinar þrjár meðstefndu hafi haft með sér neins konar samráð um árás á stefnanda eða að meðstefndu hafi með einum eða öðrum hætti hvatt stefndu Lindu Dögg til árásar. Á það ber að vísu að fallast að orsakasamband í víðasta skilningi hafi verið milli verknaðar stefndu Lindu Daggar og hinna þriggja meðstefndu, þannig að „ekki hefði komið til atlögu stefndu Lindu ef meðstefndu hefðu ekki þegar veist að stefnanda með ítrekuðum árásum og eftirför,” eins og segir í stefnu. Tjón stefnanda getur hins vegar að mati dómara ekki talist vera sennileg afleiðing af verknaði stefndu Gerðar Yrju, Rakelar Bjarkar eða Bjargar Önnu. Því ber að sýkna hinar þrjár síðastnefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Af hálfu stefndu Lindu Daggar hefur ekki verið sótt þing í máli þessu og engin vörn höfð uppi. Ber því að dæma í málinu að því er hana varðar samkv. 1. mgr. 96. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Dómari sér ekki neina þá annmarka á dómkröfum stefnanda sem leitt gætu til frávísunar málsins. Ekki er heldur neitt það fram komið sem leitt gæti til lækkunar endanlegra dómkrafna stefnanda, en stefnandi lækkaði kröfur sína verulega frá því sem þær voru í stefnu til samræmis við matsgerð, sem lögmenn hinna þriggja meðstefndu óskuðu eftir. Enginn ágreiningur er um niðurstöður matsins. Varakröfur allra þriggja meðstefndu eru um lækkun dómkrafna, en engar athugasemdir hafa þó verið gerðar við sundurliðun eða útreikning dómkrafna stefnanda.

Samkvæmt því sem nú hefur verið ritað verður stefnda Linda Dögg Ragnarsdóttir dæmd til að greiða dómkröfur stefnanda, höfuðstól og vexti. Um málskostnað verður fjallað hér á eftir.

 

Um málskostnað:

Með vísan til atvika máls og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir dómara rétt að málskostnaður milli aðiljanna stefnanda annars vegar og hins vegar stefndu Gerðar Yrju, Rakelar Bjarkar og Bjargar Önnu falli niður. Allir þessir aðiljar málsins hafa gjafsókn.

Málskostnaður stefnanda, Ingunnar Guðmundu, greiðist úr ríkissjóði. Hann er þessi: útlagður kostnaður vegna örorkumats, taugasálfræðilegar athugunar og birtingar stefnu skv. fram lögðum reikningum kr. 72.970; ferðakostnaður kr. 10.789; málflutningþóknun lögmanns stefnanda, Björns L. Bergssonar hdl., sem dómari telur vera hæfilegan 300.000 krónur auk virðisaukaskatts. Málkostnaður stefnanda samtals kr. 383.759 auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, kr. 73.500, eða samtals kr. 457.259.

Rétt er að stefnda Linda Dögg greiði í ríkissjóð málskostnaðarfjárhæð stefnanda, kr. 457.259.

Kostnaður stefndu Gerðar Yrju, Rakelar Bjarkar og Bjargar Önnu er annars vegar þóknun lögmanna þeirra, Björgvins Þorsteinssonar hrl., Björns Þorra Viktorssonar hdl. og Páls Arnórs Pálssonar hrl., og hins vegar matskostnaður sem skv. fram lögðum reikningum nemur samtals kr. 252.400. Málflutningsþóknun lögmanna hvers um sig telst vera hæfileg kr. 240.000 auk virðisaukaskatts. Þessi kostnaður allur greiðist úr ríkissjóði.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu Gerður Yrja Ólafsdóttir, Rakel Björk Gunnarsdóttir og Björg Anna Skúladóttir eiga að vera sýknar af kröfum stefnanda, Ingunnar Guðmundu Pétursdóttur í máli þessu.

Stefnda Linda Dögg Ragnarsdóttir greiði stefnanda kr. 3.589.740 með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 11. febrúar 1998 til 11. mars 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður milli málsaðiljanna stefnanda annars vegar og hins vegar stefndu Gerðar Yrju, Rakelar Bjarkar og Bjargar Önnu fellur niður.

Málskostnaður stefnanda, samtals kr. 457.259, greiðist úr ríkissjóði.

Stefnda Linda Dögg greiði ríkissjóði málskostnað að fjárhæð kr. 457.259.

Málflutningsþóknun lögmanns stefndu Gerðar Yrju, Björgvins Þorsteinssonar hrl., kr. 240.000 auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Málflutningsþóknun lögmanns stefndu Rakelar Bjarkar, Björns Þorra Viktorssonar, kr. 240.000 auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Páls Arnórs Pálssonar hrl., kr. 240.000 auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Matskostnaður stefndu Gerðar Yrju, Rakelar Bjarkar og Bjargar Önnu, kr. 252.400, greiðist úr ríkissjóði.