Hæstiréttur íslands

Mál nr. 20/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. maí 2001.

Nr. 20/2001.

Þorsteinn Joensen

(Jóhann Halldórsson hrl.)

gegn

Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

                                                        

Sjómenn. Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka.

Þ hlaut varanlegt líkamstjón eftir að hafa orðið fyrir slysi við vinnu sína um borð í fiskiskipi í eigu H. Féll Þ aftur fyrir sig yfir þil eða brík er hann var að toga í trolllínur í því skyni að greiða þær sundur. Þ krafði H um bætur á þeirri forsendu að hemlabúnaður vindu hefði bilað, sem hefði valdið slaka á línunni sem Þ var að toga í er slysið varð. Sú atvikalýsing var ekki talin fá stoð í framburði vitna eða áfrýjanda sjálfs við sjópróf. Þá hafi ekkert komið fram um að stjórnandi vindunnar hafi ætlað að stöðva hana skömmu áður en slysið varð. Var því ekki talið að tjónið hefði orðið vegna atvika sem H bæri ábyrgð á. Var H sýknaður af kröfum Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2001. Krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 14.531.972 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Réttargæslustefndi tekur undir sjónarmið stefnda í málinu.

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 5. apríl 1993 við vinnu um borð í fiskiskipi stefnda, Hólmatindi SU 220. Þegar slysið varð var skipið að veiðum á Selvogsgrunni með bakborðstrollið úti. Á meðan unnu nokkrir skipverjar, þar á meðal áfrýjandi, við að fara yfir og gera við stjórnborðstroll skipsins, sem lá á þilfari þess. Í því skyni að breiða úr trollinu hafði það verið híft upp í gálga á svokallaðri fljúgandalínu, sem liggur milli höfuðlínu og fiskilínu, og síðan var því slakað niður aftur með gilsvindu skipsins. Hlutverk áfrýjanda var að toga á meðan í höfuðlínu eða fiskilínu trollsins í því skyni að greiða þær sundur. Gekk hann við það verk aftur á bak skáhallt fram eftir þilfari skipsins frá stjórnborði að bakborði og féll aftur fyrir sig yfir þil eða brík, sem afmarkar bobbingarennu. Hlaut hann við það meiðsl í baki. Eftir slysið hélt skipið til Vestmannaeyja. Var áfrýjandi lagður þar inn á sjúkrahús, þar sem hann lá í vikutíma.

II.

Sjópróf vegna slyssins var haldið í Héraðsdómi Austurlands 21. desember 1993. Þar bar áfrýjandi að veltingur hafi komið á skipið þegar hann var að toga höfuðlínuna að sér og stóð við enda bobbingarennunnar með þeim afleiðingum að hann hafi dottið aftur fyrir sig og lent með bakið á brún. Í sjóprófinu lýsti hann atvikum meðal annars svo: „Ég er með höfuðlínuna hérna bakborðsmegin og hann er að slaka hérna niður og ég labba hérna aftur á bak héðan, ég bið hann að slaka meira og meira og meira til að fá hana eins strekkta og hægt er þannig að við gátum mælt keðjuna, höfuðlínukeðjuna. Ég labba svona aftur á bak og ég er kominn að brúninni hérna megin, þá er smá eftir og ég bið hann að slaka meira og um leið og hann slakar, ég veit ekki hvort hann hefur slakað of ört eða ekki, en þá kemur akkúrat veltingur og dett aftur fyrir mig ...“. Þrír skipverjar á Hólmatindi, sem voru vitni að atvikinu, komu fyrir dóm við sjóprófið. Voru það Einar Birgir Kristjánsson annar stýrimaður, sem stýrði vindunni sem trollinu var slakað með og var staddur í stjórnklefa fyrir vindur á þilfari, Sævar Sigurjón Þórsson, sem stóð stjórnborðsmegin á þilfarinu, til móts við þann stað þar sem áfrýjandi féll og Björgvin Pétur Erlendsson. Í framburði Einars kom fram að hann taldi að velta skipsins á bakborða hafi verið orsök slyssins. Þar lýsti hann því að þegar þeir hafi verið að slaka fljúgandalínunni „niður aftur þá kemur velta akkúrat í bak, hann er að toga þetta út í bak, Þorsteinn. Hann bakkar undan en línan fylgir honum alltaf eftir, höfuðlínan líka þannig að hún ýtir eiginlega á hann, hann hefur ekkert hald og dettur svo um garðinn ... sem stýrir bakborðstrollinu í rennuna ...“. Í framburði Sævars kom fram að hann taldi áfrýjanda hafa gengið aftur á bak á fyrrnefnda brík og dottið um hana. Hann taldi að ekki hafi verið veltingur á skipinu og mætti kenna klaufaskap áfrýjanda um slysið. Björgvin taldi áfrýjanda hafa rekið fæturna í bobbingarennuna þegar hann gekk aftur á bak og togaði í línuna og hafi hann fallið við það. Hann taldi að veltingur á skipinu gæti hafa átt þátt í slysinu. Við sjópróf kom þannig ekkert fram, hvorki af hálfu áfrýjanda né vitna, sem benti til að aðrar orsakir kynnu að vera fyrir falli áfrýjanda en veltingur skipsins eða vangæsla hans.

 Í októbermánuði 1995 gaf Sturlaugur Stefánsson skýrslu hjá lögreglunni á Eskifirði vegna framhaldsrannsóknar á slysi því, sem áfrýjandi hafði orðið fyrir tveimur og hálfu ári áður. Sturlaugur var fyrsti stýrimaður á Hólmatindi þegar slysið átti sér stað, en var ekki vitni að því, þar sem hann var þá sofandi á frívakt. Í skýrslu sinni taldi Sturlaugur að hemlum á vindum skipsins hafi verið ábótavant á þessum tíma. Hafi vindurnar verið búnar svonefndum segulbremsum, sem hafi verið í ólagi þannig að vindurnar hafi „fríhjólað“ í eina til tvær sekúndur þegar stöðva átti þær og fjórir til fimm metrar af vír þá gengið út af vindunum áður en hemlarnir virkuðu.

 Áfrýjandi reisir málsókn sína á því að slysið hafi orðið með þeim hætti að Einar Birgir Kristjánsson, stjórnandi gilsvindunnar, hafi ákveðið að stöðva hana og hætta að gefa eftir, en þá hafi vindan „fríhjólað“ vegna fyrrnefndrar bilunar í hemlabúnaði, sem hafi valdið slaka á línunni, sem áfrýjandi var að toga í, og þar með falli hans. Þessi atvikalýsing fær hvorki stoð í framburði vitna að slysinu né í áðurgreindum framburði áfrýjanda sjálfs við sjóprófið, en ætla verður að þeir hlytu að hafa orðið varir við ef svo skyndilegur slaki hefði komið á línuna. Þá hefur ekkert komið fram um að stjórnandi vindunnar hafi ætlað að stöðva hana skömmu áður en slysið varð. Í ljósi þessa hefur áfrýjanda ekki tekist að sýna fram á að tjón hans verði rakið til atvika, sem stefndi ber ábyrgð á.

Þar sem stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 19. apríl s.l.

Stefnandi er Þorsteinn Joensen, kt. 130465-3669, Skeljagranda 4, Reykjavík.

Stefndi er Hraðfrystihús Eskifjarðar, kt. 630169-4299, Strandgötu 39, Eskifirði.

Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða­bóta að fjárhæð 14.531.972 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga frá 13. maí 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikn­ingi auk virðisaukaskatts eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.  Stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 20. september 1999.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfu.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málsatvikum svo í stefnu að hann hafi verið skipverji á skut­tog­ar­an­um Hólmatindi SU-220 frá ársbyrjun 1993 þar til hann slasaðist um borð í skipinu 5. apríl sama ár þegar skipið var að veiðum á Selvogsgrunni.  Skipið mun vera í eigu stefnda en tryggt hjá réttargæslustefnda.  Stefnandi segir að bakborðstrollið hafi verið úti og á meðan hafi nokkrir skipverjar, þar á meðal stefnandi, unnið við það að fara yfir og gera við stjórnborðstrollið sem lá á dekkinu.  Til þess að unnt væri að bæta göt, sem hafi verið á trollinu, hafi þurft að greiða í sundur fiskilínu og höfuðlínu sem hafi legið flæktar saman á þilfarinu.  Hafi það verið gert með þeim hætti að híft var í svo­kall­aða fljúgandalínu, en hún liggur á milli fiski- og höfuðlínu.  Hafi trollið þá opnast með þeim hætti að unnt var að greiða línurnar í sundur.  Stefnandi segist hafa haft það hlut­verk með höndum að eftir að híft hafði verið í fljúgandalínuna hafi hann togað í fiski­línuna meðan fljúgandalínunni var slakað niður í því skyni að greiða línurnar í sundur.  Stefnandi segir nokkurt átak hafa verið á línunni en Einar B. Kristjánsson, fyrsti stýrimaður, hafi stjórnað gilsvindunni þegar línunni var slakað niður úr gilsinum.  Stefnandi segir verkið hafa gengið áfallalaust fyrir sig í upphafi og segist hann hafa togað línuna aftur á bak með 45° stefnu þvert á þilfarið.   Þegar stefnandi átti stutt ófarið upp að lunningunni, eða tæpa tvo metra, virtist honum stjórnandi gilsvindunnar hafa ákveðið að stöðva spilið og hætta að gefa eftir.  Segir stefnandi spilið þá hafa frí­hjólað í nokkrar sekúndur vegna bilunar í segulbremsu með þeim afleiðingum að stefnandi, sem á sama tíma togaði í fiskilínuna, féll aftur fyrir sig þegar slaki kom á línuna og lenti með bakið á þili, sem skilur að bobbingarennu og skutrennu.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglunni á Eskifirði 9. nóvember 1993.  Kvaðst hann hafa verið að toga í höfuðlínuna og gengið með hana aftur á bak og dottið um skeifu­brún bakborðsmegin og fallið með bakið ofan á þil á milli bobbingarenna um leið og skipið valt yfir í bak.  Stefnandi kvaðst vera vanur sjómennsku og kvaðst hann hafa verið skipverji á Hólmatindi frá ársbyrjun 1993.

Vegna þessa atburðar fóru fram sjópróf í Héraðsdómi Austurlands 21. desember 1993.  Þar lýsti stefnandi því hvernig hann gekk aftur á bak með höfuðlínuna og þegar hann var kominn að brúninni við bobbingarennuna kvaðst hann hafa beðið um meiri slaka en hann vissi ekki hvort slakað var of ört eða ekki, en í þann mund hafi komið velt­ingur og stefnandi dottið aftur fyrir sig.

Sævar Sigurjón Þórsson var sjónarvottur að slysinu og að mati hans datt stefnandi vegna eigin klaufaskapar en ekki vegna veltings. 

Björgvin Pétur Erlendsson skýrði svo frá við sjópróf að stefnandi hafi rekið fæt­urna í bobbingarennuna þegar hann gekk aftur á bak og hafi hann fallið við það.  Björgvin taldi að veður hafi verið þannig að aðeins hafi verið veltingur. 

Einar Birgir Kristjánsson var stýrimaður á Hólmatindi og skýrði hann svo frá við sjó­próf að bakborðstrollið hafi verið úti en þeir hafi verið að mæla línur á stjórn­borðs­troll­inu.  Hann kvaðst hafa verið að slaka höfuðlínunni eða fljúgandalínunni þegar kom velta í bak, en stefnandi hafi bakkað með línuna.  Hafi hún fylgt honum eftir með þeim afleiðingum að hann datt um garðinn af bakborðstrollinu á miðbríkina í renn­unni.  Einar lýsti spilinu þannig að um rafmagnsspil hafi verið að ræða en þau séu þyngri í vöfum en önnur.  Séu þau með svokallaðri segulbremsu sem hætt sé að nota í nýrri spilum.  Kvað Einar alltaf ákveðinn tíma líða frá því spilinu sé slegið á 0 þar til bremsan tæki.

Skipstjóri Hólmatinds, Árbjörn Magnússon, skýrði svo frá við sjópróf að hann hafi ekki séð slysið.  Hann kvað að gleymst hafi að bóka um veður en hann minnti að verið hafi 4-5 vindstig, en þungur sjór og mikil hreyfing á skipinu.  Aðspurður hvort raf­magnsspilið hafi verið í góðu lagi og virkað fljótt og vel svaraði hann því játandi.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglunni á Eskifirði 2. október 1995 og skýrði hann þá svo frá að hann hafi heyrt Einar Birgi stýrimann skýra frá því að bremsa á gilsa­vind­unni hafi verið biluð, en hann hafi ekkert minnst á þetta í sjóprófum.  Af þessu til­efni var tekin skýrsla af Sturlaugi Stefánssyni, en hann var yfirstýrimaður á Hólma­tindi þegar stefnandi slasaðist.  Sturlaugur lýsti vindunni þannig að um væri að ræða sam­byggða togvindu, grandaravindu og gilsavindu.  Hafi hún verið knúin rafmagni, þ.e. rafmótor knúði þær á einum öxli og síðan voru loftkúplingar á hverri tromlu fyrir sig.  Við rafmótorinn á öxlinum hafi verið svokölluð segulbremsa, en hún hafi átt að vinna þannig að væru stjórntæki sett á 0 átti segulbremsan að grípa strax og stöðva öxul­inn og þá um leið þá tromlu sem notuð var hverju sinni.   Sturlaugur kvað ólag hafa verið á segulbremsunni sem lýsti sér þannig að væri stjórntækið sett á 0 hafi orðið hraða­aukning áður en segulbremsan greip, þ.e.a.s. vindan fríhjólaði augnablik, eða 1-2 sekúndur og hafi gengið út 4-5 metrar af vír áður en bremsan virkaði.  Hann kvað menn hafa vitað af þessum galla og reynt hafi verið að gera við hann án árangurs.

Áðurgreindur Einar Birgir var yfirheyrður hjá lögreglu 2. júní 1997 og staðfesti hann þá að mótorbremsan tók stundum seint við sér.

Lögð hafa verið fram í málinu ljósrit úr véladagbók skipsins.  Þar kemur fram að dag­ana 9. - 30. mars 1993 var alloft unnið við að stilla og herða hemla togspilsins.

Eftir slysið var Hólmatindi siglt til hafnar í Vestmannaeyjum og var stefnandi fluttur á sjúkrahúsið þar.  Lá hann þar í viku og eftir það var honum ráðlagt að vera rúm­liggjandi í þrjár vikur.  Stefnanda var vísað til Atla Þór Ólasonar, bæklunarlæknis og við rannsókn hans 18. maí 1993 kom í ljós brjósklos á neðsta mjóhryggjarliðbili með ertingu í taug hægra megin.

Grétar Guðmundsson, sérfræðingur í taugalækningum, var fenginn til þess að meta örorku stefnanda.  Niðurstaða hans er dagsett 20. mars 1999 og er svohljóðandi:  „Í vinnuslysi 5. apríl 1993 hlýtur Þorsteinn mjóbaksáverka og strax í kjölfar hans mjög slæma verki.  Þessir verkir hafa síðan valdið miklum þjáningum og gert slasaða óvinnu­færan langtímum saman eins og glögglega má sjá og rekja í heimildum.  Verk­irnir eru nú í baki, fótlimum, hálsi og höfði.  Þessir verkir magnast við álag á bak og reyndar allan líkamann.  Læknisskoðun sýnir mikinn stirðleika í mjóbaki og útbreidd vöðva­eymsli.  Það er við læknisskoðun grunur um skaða á mjóbakstaugarót hægra megin en ekki vissa og rannsóknir eru ámóta grunsamlegar hvað þetta varðar með breyt­ingum sem ekki eru afgerandi hvað taugaskaða varðar (röntgenrannsóknir og vöðva­taugarit).  Tölvusneiðmynd og segulómun af mjóbaki sýnir brjósklos milli L5 og S1 liðbola.  Þorsteinn hefur að öllum líkindum hlotið brjósklos milli 5. mjóbaksliðbols og spjaldhryggjar í þessu slysi.  Brjósklosið veldur ekki taugarótarskaðaklemmu með vissu og því hefur líklega ekki var (svo) talin þörf á að fjarlægja það með skurðaðgerð eða lagfæra á annan máta það bakmein sem virðist valda og viðhalda miklu af slæm­um verkjum Þorsteins.  Við fallið 5. apríl 1993 hefur Þorsteinn eflaust marist og togn­að í mjóbaki og spjaldhrygg þótt ekki sjáist um það merki á röntgenmyndum enda tæp­ast við því að búast.  Niðurstöður beinaskanns styðja þennan möguleika.  Hluti af verkjum Þorsteins er að mati undirritaðs af þessum orsökum.  Að mati undirritaðs eru yfir­gnæfandi líkur á að þráláta bakverki og fötlun Þorsteins megi rekja til vinnu­slyss­ins þann 5. apríl 1993.  Bakáverki í mars 1993 á sama vinnustað veldur tæpast nokkru um þetta þráláta verkjavandamál.  Ekki virðist heldur líklegt að væg hryggskekkja, háar ristar, örlítið mislangir fætur og afleiðingar ökklabrots 1985 eigi þátt í verkja­vanda­málinu þótt hugsanlega gætu þessir þættir hafa gert hann eitthvað viðkvæmari fyrir afleiðingum slyssins 5/4 ´93.  Rannsóknir síðari ára á orsökum bakverkja styðja ekki að þessir þættir skipti máli í tilurð þeirra.  Að mati undirritaðs er Þorsteinn nið­ur­brotinn og þunglyndur.  Það er vel þekkt að þrálátir verkir geta spillt skapi og valdið þunglyndi.  Einnig að andleg vanlíðan geti magnað verki, dregið úr verkjaþoli og gert meðferð þeirra erfiðari.  Ekkert kemur fram í heimildum eða sögu Þorsteins um geðræn vandamál fyrir slysið 5. apríl 1993.  Því telst líklegra að skap­breyt­ing­arn­ar megi rekja til slyssins en að þær séu óháðar því og þar með verkir ef til vill að nokkru eða verulegu leyti líka.  Félagsleg staða Þorsteins er slæm sem má eflaust að hluta rekja til slyssins (óbeint) og væntanlega gerir hún verkjavandamálið í heild sinni erf­iðara.  Það er ljóst að afleiðingar vinnuslyssins 5. apríl 1993 valda Þorsteini veru­legri fötlun.  Vinnugeta hans er skert, andleg og líkamleg líðan slæm og afleiðingar þess hafa áhrif á allt daglegt líf hans.  Fremur einhæf menntun og starfsreynsla tak­mark­ar möguleika hans á vinnu sem hentar líkamlegri fötlun hans.  Með í huga hversu langt er liðið frá slysinu, gang mála undanfarið og allt það sem hefur verið gert til að draga úr afleiðingum þess í meginatriðum án árangurs virðist líklegt að ástand Þorsteins verði áfram svipað og það hefur verið síðustu mánuði.“

Læknirinn mat tímabundna örorku stefnanda 100% í 12 mánuði og varanlega læknis­fræðilega örorku taldi hann hæfilega metna 30%.

Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, reiknaði tvívegis út örorkutjón stefn­anda vegna slyssins á grundvelli framangreinds örorkumats, eða 6. apríl 1999 og 31. ágúst s.l. Við fyrri útreikning var miðað við meðaltekjur sjómanna en við síðari út­reikn­ing miðaði tryggingafræðingurinn við tekjur stefnanda síðustu árin fyrir slysið.  Stefn­andi reisir kröfugerð sína á fyrri útreikningnum.  Stefnda var kynnt kröfugerð stefn­anda með bréfi dagsettu 13. apríl 1999 og endanlegar dómkröfur sínar sundurliðar stefn­andi með þessum hætti:

Tímabundið tjón í 12 mánuði:kr.   2.340.200.-

Varanleg örorka 30%:"   18.583.100.-

Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda:"     1.115.000.-

Frádr. v/skatt og eingreiðsluhagr. 30%:"     6.611.490.-

Miskabætur:"        300.000.-

Vextir skv. útreikningi Jón Erlings:"        638.670.-

Útlagður kostnaður vegna örorkumats:"          53.000.-

Útlagður kostnaður vegna útreiknings:"          19.920.-

Útlagður kostnaður vegna læknisvottorðs:"          19.900.-

Útlagður kostnaður vegna skattframtala:"               940.-

Frádr. v/gr. tímab. tjón:"        404.320.-

Frádr. v/gr. bóta úr slysatryggingu:"     1.522.948.-

Samtals:kr. 14.531.972.-

Stefnandi gerði upphaflega ráð fyrir því í kröfugerð sinni til stefnda að frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis næmi 35% eða 7.731.405 krónum.  Stefn­andi kveðst í kröfugerð sinni hér fyrir dómi hafa fellt niður frádrátt vegna ein­greiðslu­hag­ræðis bóta, enda telur hann ljóst að þegar hafi verið tekið tillit til þess með af­vöxt­un í útreikningi tryggingafræðingsins.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að slys hans verði rakið til bilunar í spilbúnaði um borð í Hólmatindi SU-220.  Hafi yfirstýrimaður staðfest að segulbremsa á því spili sem notað var til þess að hífa í fljúgandalínu stjórnborðstrollsins hafi verið biluð.  Hafi bil­unin lýst sér þannig að spilið hafi fríhjólað augnablik þegar átti að stöðva það með þeim afleiðingum að skyndileg hraðaaukning varð á spilvírnum í stað þess að hann stöðvaði.  Þegar stöðva átti hífingu á fiskilínunni, sem stefnandi togaði í, hafi spilið frí­hjólað í nokkrar sekúndur.  Stefnandi hafi því misst alla mótstöðu í þeirri línu sem honum hafði verið sagt að toga í þegar trollið féll niður.  Hafi afleiðingin því aug­ljós­lega orðið sú að stefnandi féll aftur fyrir sig með línuna í höndunum.  Stefnandi byggir á því að stefndi beri fulla og ótakmarkaða skaðabótaábyrgð á slysinu vegna van­bún­að­ar á spilvindunni.  Telur stefnandi bilunina meginorsök slyssins og beri stefndi fulla ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vegna bilunar eða galla í tækjum.  Sé stefndi ábyrgur vegna tjónsins hvort sem honum var kunnugt um bilunina eða ekki.

Stefnandi byggir á því að yfirmönnum á skipinu hafi verið fullkunnugt um fram­an­greindan vanbúnað og telur hann skýrslur þeirra lýsa saknæmu hátterni af hálfu þeirra.  Það sé ein af frumskyldum yfirmanna um borð í fiskiskipum að sjá til þess að tæki og tól sem skipverjar vinni með fullnægi sjálfsögðum öryggiskröfum, sbr. og lög­jöfnun frá ákvæðum laga nr. 46/1980 um ábyrgð og hlutverk verkstjórnanda.  Beri stefndi ábyrgð á saknæmu atferli yfirmannanna á grundvelli almennra reglna skaða­bóta­réttar um vinnuveitendaábyrgð.  Stefnanda hafi verið ókunnugt um bilunina og hann hafi ekki getað gert ráð fyrir því að skyndilegur slaki kæmi á spilvírinn með fyrr­greind­um afleiðingum.

Stefnandi reisir kröfur sínar aðallega á almennum reglum skaðabótaréttar um skaða­bótaskyldu vegna bilunar og galla í tækjum, almennum reglum um sakar- og vinnu­veitendaábyrgð, 264. gr. almennra hegningarlaga og vaxtalögum.  Máls­kostn­að­ar­krafa er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á mál­flutn­ingsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.

Stefndi hafnar því að slysið verði rakið til vanbúnaðar í spilbúnaði.  Stefnandi hafi í sjóprófum margítrekað  að orsök slyssins hafi verið sú að hann missti fótanna vegna veltings.  Þá hafi enginn þeirra sjónarvotta sem gáfu skýrslur í sjóprófum nefnt að um einhverja bilun hafi verið að ræða í spilbúnaði skipsins sem gæti hafa valdið slysinu.  Byggir stefndi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða og sé ekki við aðra að sakast en stefnanda sjálfan.

Stefndi telur með ólíkindum að enginn sem gaf skýrslu við sjópróf hafi minnst á vanda­mál með bremsurnar og telur stefndi ótrúverðugt að stefnandi, sem verið hafði á skip­inu í þrjá mánuði, skyldi ekki vita um slík vandamál.  Sá eini sem tjái sig um bilun í bremsunum sé yfirstýrimaður, en hann hafi ekki verið vitni að slysinu og geti engu lýst um tildrög þess.

Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun á því að verði fallist á það með stefn­anda að um bilun hafi verið að ræða, verði hann að bera verulegan hluta tjónsins sjálfur vegna eigin sakar.  Stefnandi sé vanur sjómaður og vann einfalt og algengt verk og máttu honum vera ljósar þær hættur sem í því fólust.  Hafi verið um bilun í bremsu­bún­aði að ræða, hlyti honum að hafa verið kunnugt um það eftir rúmlega þriggja mán­aða veru um borð í skipinu.  Þá leggi stefnandi á það áherslu í upphaflegri skýrslu sinni í sjóprófum að veltingur skipsins hafi valdið slysinu.  Megi vönum sjómönnum vera það ljóst að skip velti og hljóti það að metast honum til eigin sakar ef  hann var óvið­búinn veltingi skipsins.

Stefndi mótmælir örorkutjónsútreikningi og telur að miða beri við framtaldar tekjur en ekki við meðaltekjur sjómanna.

Þá krefst stefndi þess að bætur, sem kunni að verða dæmdar, verði lækkaðar vegna skattfrelsis og hagræðis af eingreiðslu.

Stefndi mótmælir miskabótakröfu sem of hárri og andstæðri dómvenju.  Hafa beri í huga að nokkur miski sé innifalinn í örorkumati lækna og miski því í raun tvíkrafinn í málinu. Beri að miða ákvörðun miskabóta við slysdag en ekki dómsuppsögudag.

Stefndi mótmælir sérstaklega reikningi sem virðist vera innheimtuþóknun vegna upp­gjörs slysatryggingar, en ekki sé venja að greiða slíka þóknun fyrir slíka innheimtu.

Stefndi byggir á því að vextir áfallnir fyrir 19. apríl 1996 séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hafi stundað sjó­mennsku 10-13 ár fyrir slysið og kvaðst hann hafa verið starfað í nokkra mánuði um borð í Hólmatindi.  Hann kvaðst oft hafa sinnt umræddu starfi og væru spilin not­uð í hverjum túr.  Stefnandi kvað Sturlaug hafa skýrt svo frá að spilin væru biluð og hafi allir vitað af því.

Einar Birgir Kristjánsson, kt. 120565-4519, skýrði svo frá fyrir dómi að komið hafi fyrir að spilið fríhjólaði en þá hafi þurft nokkurn þunga til.  Hann mundi ekki eftir um­ræðum um ólag á spilunum.

Björgvin Pétur Erlendsson, kt. 130464-5809, skýrði svo frá fyrir dómi að stefn­andi hafi bakkað með línuna, rekið fótinn í eitthvað og steyptist hann þá aftur fyrir sig.

Sævar Sigurjón Þórsson, kt. 100865-3009, skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hafi gengið aftur á bak og dottið.  Hann mundi ekki eftir ólagi á spilinu.

Sturlaugur Stefánsson, kt. 270448-4459 skýrði svo frá fyrir dómi að hann stað­festi framburð sinn hjá lögreglu um ólag á segulbremsunni.  Hann kvaðst ekki vita til þess að slys hafi orðið áður af þessum sökum.  Þá kvað  hann þá sem unnu við spilið hafa vitað af vandamálinu.

Forsendur og niðurstaða.

Ekki er ágreiningur með aðilum máls þessa að stefnandi slasaðist um borð í skut­tog­aranum Hólmatindi SU-220 5. apríl 1993 með þeim afleiðingum að hann hlaut mjó­baksáverka og var örorka hans metin 100% í 12 mánuði og varanleg lækn­is­fræði­leg örorka var metin 30%.  Aðila greinir á um orsök slyssins og heldur stefnandi því fram að slysið verði rakið til bilunar í spilbúnaði sem notaður var til þess að hífa í fljúg­andalínu stjórnborðstrolls.  Hafi spilið fríhjólað í nokkrar sekúndur þegar átti að stöðva það með þeim afleiðingum að stefnandi féll aftur fyrir sig og hlaut verulega mjó­baksáverka.  Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi misst fótanna vegna veltings á skipinu og verði slysið því ekki rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á.

Stefnandi bar við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hafi verið að toga í höf­uð­línuna og gengið með hana aftur á bak og dottið  um leið og skipið valt yfir í bak.   Í sjó­prófum lýsti stefnandi því hvernig hann gekk aftur á bak með höfuðlínuna og þegar hann var kominn að brúninni við bobbingarennuna kvaðst hann hafa beðið um meiri slaka en hann vissi ekki hvort slakað var of ört eða ekki, en í þann mund hafi komið velt­ingur og hann dottið aftur fyrir sig.  Skipsfélögum stefnanda bar ekki saman um at­vik að slysinu en þeir voru sammála að stefnandi hafi dottið eftir að hann rak fót í eitt­hvað.  Taldi einn skipverja klaufaskap stefnanda um að kenna.  Ekki kemur fram, svo óyggjandi sé, að mikill veltingur hafi verið á skipinu.  Hvergi er að því vikið í sjó­próf­um að bilun hafi verið í hemlabúnaði spilsins og vangaveltur um það koma ekki fram fyrr en 2. október 1995 þegar stefnandi gefur skýrslu hjá lögreglunni á Eskifirði.  Sturlaugur Stefánsson staðfesti við yfirheyrslu hjá lögreglu daginn eftir og hér fyrir dómi að ólag hefði verið á segulbremsunni og reynt hafi verið að gera við þennan galla án árangurs.  Hafa ber í huga að Sturlaugur var ekki sjónarvottur að slysinu.

Komið hefur fram í máli þessu að stefnandi er þaulvanur sjómennsku og þá hafði hann starfað í nokkra mánuði um borð í skipi stefnda og oft sinnt starfi því sem hér hefur verið lýst.  Það var mat stefnanda við yfirheyrslu í sjóprófum að hann hafi dottið vegna veltings á skipinu.  Stefnandi var þaulkunnugur aðstæðum um borð í skipinu og verður að gera þá kröfu til hans að hann hafi átt að koma því á framfæri án tafar teldi hann að rekja mætti slysið til bilunar á tækjabúnaði.  Stefnandi minntist ekkert á þetta í sjó­prófum og það er ekki fyrr en tveimur og hálfu ári eftir slysið sem stefnandi nefnir hugs­anlega bilun á hemlabúnaði.  Þetta aðgerðarleysi stefnanda leiddi til þess að ekki var unnt að ganga úr skugga um það svo löngu eftir slysið hvort hemlabúnaðurinn hafi verið gallaður.  Verður stefnandi af þessum sökum að bera hallann af því að ekki var unnt að kanna þetta atriði.  Samkvæmt framansögðu hefur stefnanda því ekki tekist að sanna að tjón hans verði rakið til bilunar á hemlabúnaði umræddrar gilsavindu.

Það er því álit dómsins að slys stefnanda verði ekki rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á, heldur hafi það orðið vegna óhappatilviljunar þegar stefnandi hrasaði vegna veltings á skipinu.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns stefnanda, Jóhanns Halldórssonar, hdl., 600.000 krónur að með­töld­um virðisaukaskatti.  Samkvæmt yfirliti lögmannsins er útlagður kostnaður vegna máls­ins samtals 118.070 krónur.  Það athugast að hluti útlagðs kostnaðar er innifalinn í stefnukröfum málsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þorsteins Joensen í máli þessu.

Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Jóhanns Halldórs­­sonar, hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.