Hæstiréttur íslands

Mál nr. 293/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Víxill
  • Fjárnám


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. september 2004.

Nr. 293/2004.

Hjalti Jósefsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Víxill. Fjárnám.

H krafðist þess að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem gert var að kröfu K hf. á grundvelli víxils. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 16. júní 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hnekkt yrði fjárnámi, sem sýslumaðurinn á Blönduósi gerði hjá honum 17. mars 2004 fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind fjárnámsgerð verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Í kæru og greinargerð til Hæstaréttar ber sóknaraðili fram allmargar nýjar málsástæður. Á þeim verður ekki byggt við úrlausn málsins. Vísast um það til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991 og 4. mgr. 150. gr. og 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hjalti Jósefsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 16. júní 2004.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 2. þessa mánaðar, var þingfest 21. apríl sl.

Sóknaraðili er Hjalti Jósefsson, Melavegi 5, Hvammstanga.

Varnaraðili er KB-banki hf. Austurstræti 5, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila.

Sóknaraðili krefst þess, að fjárnámsgerð sýslumannsins á Blönduósi nr. 020-2004-00001 sem fram fór 17. mars sl. sem beindist að honum verði felld úr gildi og felld niður.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Dómkröfur varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess, að aðfarargerð sýslumannsins á Blönduósi nr. 020-2004-00001 á hendur sóknaraðila sem fram fór 17. mars sl. verði staðfest og ógildingar-kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

II

Málavextir.

Mál þetta er til komið vegna tveggja einritaðra víxla útgefnum til greiðslu hjá varnaraðila (Búnaðarbanka Íslands í Búðardal) sem varnaraðili hefur reynt að innheimta hjá sóknaraðila. Víxileyðublöðin munu hafa verið afhent varnaraðila óútfyllt hvað varðar útgáfudag og gjalddaga. Annar víxillinn var að fjárhæð 500.000 krónur en hinn að fjárhæð 2.000.000 króna. Sóknaraðili varð ekki við tilmælum varnaraðila um að greiða kröfur sem hann reisti á nefndum skjölum sem varð til þess að varnaraðili gerði kröfu um að fjárnám yrði gert til hjá sóknaraðila.  Við fyrirtöku aðfararmálsins 17. mars sl. gerði sóknaraðili athugasemdir við kröfu varnaraðila. Varnaraðili kveðst þá hafa fallið frá kröfum vegna víxilsins sem er að fjárhæð 2.000.000 króna í þeim tilgangi að fækka ágreiningsefnum milli aðila.

Í skjali því sem sóknaraðili afhenti varnaraðila, og er grundvöllur aðfarargerðar þeirra sem um er deilt í máli þessu, er svohljóðandi yfirlýsing. ,,YFIRLÝSING UM HEIMILD TIL ÚTFYLLINGAR Viðfest víxileyðublað er hér með afhent Búnaðarbanka Íslands hf. til tryggingar yfirdráttarskuld útgefanda á tékkareikningi hans nr. 400 132 við bankann.  Víxileyðublaðið er útfyllt með fjárhæð kr. 500.000 og áritað af útgefanda en óútfyllt  hvað varðar útgáfudag og gjalddaga. Verði vanskil á yfirdráttarskuldinni er Búnaðarbanka Íslands hf. heimilt að breyta skuldinni ásamt dráttarvöxtum og kostnaði í víxilskuld með útfyllingu þessa víxileyðublaðs að því er varðar útgáfudag og gjalddaga og gera það þannig að fullgildum víxli.”

III

Málsástæður og lagarök.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skjal það sem varnaraðili byggir rétt sinn á fullnægi ekki formskilyrðum víxillaga. Bendir sóknaraðili á að í 1. til og með 8. tölulið 1. gr. víxillaga sé tæmandi talið hvað greina skuli í víxli. Skjal það sem varnaraðili byggir á tilgreini fleira en gera skal í víxli t.d. yfirlýsingu þá sem áður er rakin.  Þetta leiði til þess að skjalið telst ekki vera víxill heldur samkomulag um það hvernig víxileyðublað eigi að fylla út komi til vanskila.  Þá komi fram í yfirlýsingunni að eyðublaðið skuli fyllt út með krónu sbr. skammstöfunina kr. Sóknaraðili telur að með því að skjalið telst ekki víxill beri að vísa málinu frá dómi þar sem það er höfðað sem víxilmál.  Sóknaraðili mótmælir því að skjalið sem slíkt hafi víxilgildi sbr. 1. mgr. 2. gr. víxillaga og því sé ekki heimilt að fara með mál þetta sem víxilmál sbr. 1. tl. 207. gr. laga um meðferð einkamála.

Sóknaraðili byggir á því að hér sé um tryggingarvíxil vegna yfirdráttarláns eða lánssamnings að ræða.  Slíkar málsástæður komist að þar sem mótmælin byggjast á yfirlýsingu sem lögð er fram í málinu og vísar hann til þeirrar grundvallarreglu viðskiptabréfaréttarins, að ef viðskiptabréf beri mótbáru með sér þá sé skuldara bréfsins heimilt að bera hana fyrir sig sem vörn í máli.

Sóknaraðili byggir ennfremur á því, komi til þess að skjalið verið metið sem víxill, að hann sé útgefinn 11. september 2002 með gjalddaga 21. október 2003 og þar með sé meira en ár á milli útgáfudags og gjalddaga. Þetta leiði til þess að skjalið hafi ekki víxilgildi.  Raunverulegur útgáfudagur verði að teljast 11. september 2002 en þann dag var skjalið afhent og skv. 10. gr. víxillaga sé ekki heimilt að semja sig frá þeirri dagsetningu sbr. 34. gr. sömu laga.

Sóknaraðili byggir ennfremur á því að víxillinn hafi ekki verið á greiðslustað á gjalddaga, heldur hafi hann þegar verið afhentur lögmanni til innheimtu.  Þetta sýni sá skammi frestur sem er á milli gjalddaga og útgáfudags.  Þetta leiði til þess að víxilábyrgð útgefanda sé úr gildi fallin.

Loks byggir sóknaraðili á því sem fram kemur í kröfu hans um ógildingu fjárnámsgerðarinnar, að ekki hafi verið rétt staðið að fjárnáminu varðandi birtingu greiðsluáskorunar og tilkynningar um fyrirhugað fjárnám.  Í kemur kröfunni kemur frama að í greiðsluáskorun greini ekki frá því hver birti hana fyrir sóknaraðila.  Þá verði að koma fram í greiðsluáskorun frá hverjum hún stafi og að hún sé grundvölluð á ákveðnu skjali með ákveðna kröfu.  Þá kveður sóknaraðili að undirskrift hans skorti á greiðsluáskorunina.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að umþrætt skjal sé einritaður víxill, útgefinn og samþykktur til greiðslu af sóknaraðila hjá útibúi varnaraðila í Búðardal.  Víxillinn hafi útgáfudag, gjalddaga og greiðslustað, hann sé stimplaður og án afsagnar.  Víxillinn sé undirritaður af sóknaraðila á réttum stöðum, með tiltekinni fjárhæð sem sé í samræmi við kröfur málsins.  Hér sé því um fullkomlega löglegan og eðlilegan víxil að ræða sem fengið hafi eðlilega og lögboðna meðferð. Kröfur varnaraðila séu því réttar og eðlilegar sem leiði til þess að umdeild aðfarargerð sýslumannsins á Blönduósi verði ekki felld úr gildi.

Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að um samning sé að ræða en ekki víxil.  Hann bendir á að víxillinn njóti þess réttarhagræðis sem veitt er í lögum og lögskipti að baki honum komi ekki til álita í því sambandi. Einungis sé unnt að hafa uppi mótmæli varðandi form víxils og sambærileg atriði. Í 1. gr. víxillaga sé gerð grein fyrir lágmarkskröfum sem gerðar eru til að skjal öðlist víxilgildi og víxillinn í þessu máli uppfylli þau öll. Varnaraðili segir að í mörgum dómum Hæstaréttar Íslands hafi reynt á víxla sem afhentir hafa verið óútfylltir að hluta en fylltir út af handhafa þeirra.  Í öllum tilvikum hafi verið talið að afhending slíks skjals hafi falið í sér heimild til handhafa að fylla skjalið út. Þegar sóknaraðili afhenti víxilinn hafi verið við hann áfast umboð til útfyllingar víxilsins. Umboðið hafi verið undirritað af sóknaraðila um leið og víxileyðublaðið var undirritað og afhent varnaraðila. Slíkt umboð hafi lengi verið notað af bankastofnunum og hafa margsinnis verið viðurkenndir sem fullgildir víxlar af dómstólum. 

Varnaraðili mótmælir fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að útgáfudagur víxilsins sé 11. september 2002 en ekki 13. október 2003.  Víxillinn beri greinilega með sér að útgáfudagur hans sé 13. október 2003.  Ekki megi rugla saman útgáfudegi víxilsins og dagsetningu útfyllingarheimildarinnar. Hér sé um mismunandi dagsetningar að ræða enda eðlilegt í ljósi tilgangs útfyllingarheimildarinnar. Fráleitt sé að halda því fram að annar útgáfudagur sé á víxli en ritaður er á hann sjálfan.  Þá séu fullyrðingar sóknaraðila um að ekki megi líða meira en eitt ár á milli útgáfudags og gjalddaga rangar þar sem ekki sé um sýningarvíxil að ræða.

Varnaraðili hafnar því að víxillinn hafi ekki verið vistaður á greiðslustað á gjalddaga líkt og sóknaraðili heldur fram. Víxillinn hafi verið útfylltur af varnaraðila 13. október 2003 og stimplaður í bankanum degi síðar. Víxillinn hafi verið vistaður hjá varnaraðila þar til hann var sendur til innheimtu 28. október 2003 og móttekinn af lögmanni 31. október 2003. Af þessu megi ráða að víxillinn var á greiðslustað á gjalddaga. Bendir varnaraðili á í þessu sambandi að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Varnaraðili heldur því fram að ekkert hafi verið athugavert við birtingu greiðsluáskorunar og tilkynninga um fjárnám. Greiðsluáskorun vegna víxlanna sé skýr og skilmerkileg. Skýrt komi fram frá hverjum hún stafi og hve há hún sé ásamt sundurliðun. Þá sé kröfunni lýst og á hverju hún sé byggð. Birtingarvottorð vegna greiðsluáskorunarinnar sé skýrt undirritað af birtingarmanni og varnaraðila sjálfum.  Sama eigi við um boðun til fjárnáms sem sóknaraðili mætti ekki í og af þeim sökum hafi fjárnámsgerðin verið tekin fyrir á heimili varnaraðila. Ekkert bendi til þess að vankantar á þessum skjölum sé slíkir að þeir verði til þess að ógilda beri fjárnámsgerðina. 

Loks telur varnaraðili að tilkynningar í málinu hafi verið með venjubundnum hætti og fullyrðingar sóknaraðila um annað séu ósannaðar. Einnig komi skýrt fram í víxillögum að vanhöld á slíkum tilkynningum valdi því ekki að víxilrétturinn falli niður.

IV

Niðurstaða.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að skjal það sem hann afhenti sóknaraðila uppfylli ekki formskilyrði víxillaga til þess að teljast víxill.  Meðal gagna málsins er ljósrit af skjali því sem um er deilt í málinu. Yfirlýsing sú sem rakin er í kafla I hér að framan og föst var við hinn umdeilda víxil heimilaði varnaraðila að ljúka við útfyllingu víxileyðublaðsins. Varnaraðili hafði þannig heimild sóknaraðila til að rita útgáfudag og gjalddaga á eyðublaðið. Með því að ljúka við ritun skjalsins gerði varnaraðili það að fullgildum víxli enda var skjalið að útfyllingunni lokinni í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til víxla í 1. gr. víxillaga nr. 93/1933. 

Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að útgáfudagur víxilsins sé 11. september 2002 líkt og hann hefur haldið fram. Sú dagsetning er að sönnu á heimild til varnaraðila að fylla út víxilinn en hefur ekkert með útgáfudag víxilsins að gera. Víxillinn ber með sér að hafa verið gefinn út í Búðardal 13. október 2003 og hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars. 

Sóknaraðili hefur haldið því fram að víxillinn hafi ekki verið vistaður á greiðslustað á gjalddaga. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn eða leitt fram vitni sem styðja þessa fullyrðingu hans. Varnaraðili hefur lagt fram bréf til lögmanns síns dags. 28. október 2003 þar sem lögmanninum er falið að innheimta víxilinn og þá hefur hann einnig lagt fram yfirlýsingu útibússtjóra bankans í Búðardal þar sem m.a. kemur fram að víxillinn hafi verið á greiðslustað á gjalddaga. Verður því lagt til grundvallar að víxillinn hafi verið á greiðslustað á gjalddaga.

Varnaraðili heldur því fram að ekki hafi verið rétt staðið að birtingu greiðsluáskorunar og fyrirkalla í málinu. Við munnlegan flutning málsins skýrði sóknaraðili þessa málsástæðu m.a. með því að undirritun póstmanns á greiðsluáskorun og boðun sé ólæsileg auk þess sem ekki komi fram frá hverjum greiðsluáskorunin stafi. Birtingarvottorð vegna þessa liggja frammi í málinu. Lögmaður sóknaraðila lýsti því yfir við flutning málsins að varnaraðili hafi ritað undir móttöku eins og birtingarvottorðin bera með sér.  Þó svo fallast megi á með sóknaraðila að réttara sé að póstmaður riti nafn sitt undir birtingarvottorð en láti ekki skammstöfun á nafni sínu nægja leiðir það ekki til þess að fjárnámsgerðin skuli ógilt enda liggur fyrir að sóknaraðili tók sjálfur við greiðsluáskorun og boðun til fjárnáms.  Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að hann hafi ekki fengið greiðsluáskorun þá sem liggur frammi í málinu en í henni kemur fram hver sé eigandi kröfunnar og krafan skilmerkilega sundurliðuð. Þá er og ljóst hver ritar undir áskorunina fyrir hönd varnaraðila.  Verða kröfur sóknaraðila því ekki teknar til greina af þessum sökum.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verða kröfur sóknaraðila ekki teknar til greina og fallist á kröfu varnaraðila og umþrætt aðfarargerð staðfest. Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað að fjárhæð 80.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalag lögmanns varnaraðila við flutning málsins.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila, Hjalta Jósefssonar, þess efnis að aðfarargerð sýslumannsins á Blönduósi frá 17. mars 2004 nr. 020-2004-00001 verði felld úr gildi og felld niður, er hafnað og hún því staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, KB-banka hf., 80.000 krónur í málskostnað.