Hæstiréttur íslands
Mál nr. 621/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
- Skuldabréf
- Kröfuréttur
- Aðild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2016. Hann krefst þess aðallega að rift verði fjórum nánar tilgreindum greiðslum sínum á skuld við aðalstefnda á tímabilinu frá 5. til 12. september 2008 samtals að fjárhæð 13.009.861,12 bandaríkjadalur og aðalstefnda gert að greiða sér þá upphæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. maí 2012 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að rift verði sömu greiðslum og í aðalkröfu greinir á skuld við varastefnda og honum gert að greiða sér sömu fjárhæð með dráttarvöxtum frá 27. júní 2012 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að rift verði sömu greiðslum og í aðalkröfu greinir á skuld við 2. varastefnda og honum gert að greiða sér sömu fjárhæð með dráttarvöxtum frá 13. júní 2013 til greiðsludags. Að þessu frátöldu gerir áfrýjandi þær kröfur í fyrsta lagi að rift verði fjórum nánar tilgreindum greiðslum sínum á skuld við 3. varastefnda King Street Capital Ltd. á tímabilinu frá 5. til 12. september 2008 samtals að fjárhæð 7.985.448,76 bandaríkjadalir og þeim varastefnda gert að greiða sér fjárhæðina með dráttarvöxtum frá 12. júní 2013 til greiðsludags. Í öðru lagi að rift verði fjórum nánar tilgreindum greiðslum sínum á skuld við 3. varastefnda King Street Europe L.P. á sama tímabili samtals að fjárhæð 640.089,17 bandaríkjadalir og þeim varastefnda gert að greiða sér fjárhæðina með sömu dráttarvöxtum. Í þriðja lagi að rift verði fjórum nánar tilgreindum greiðslum sínum á skuld við 3. varastefnda King Street Europe Master Fund Ltd. á sama tímabili samtals að fjárhæð 1.488.326,11 bandaríkjadalir og þeim varastefnda gert að greiða sér fjárhæðina með sömu dráttarvöxtum. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðalstefndi og varastefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að fyrrgreindar fjárkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi lét áfrýjandi, sem þá bar heitið Kaupþing banki hf., frá sér fara útgáfulýsingu 26. apríl 2006 vegna fyrirhugaðrar lántöku með skuldabréfum samtals að fjárhæð allt að 10.000.000.000 bandaríkjadalir. Var ætlunin að skuldabréfin yrðu gefin út á síðari stigum í áföngum með skilmálum, sem tilgreindir væru annars vegar í þeirri lýsingu og getið yrði hins vegar í svonefndum verðviðaukum sem gerðir yrðu við hverja útgáfu. Áfrýjandi gaf út slíkan verðviðauka 5. október 2006 vegna þriggja skuldabréfa, þar á meðal eins að fjárhæð 1.500.000.000 bandaríkjadalir með lokagjalddaga 4. október 2011. Slíkt skuldabréf skyldi bera fasta vexti, sem greiða átti á sex mánaða millibili, í fyrsta sinn 4. apríl 2007, en höfuðstóllinn skyldi greiddur í einu lagi á lokagjalddaga. Óumdeilt er í málinu að skuldabréf var gefið út á þessum grunni til bandarísks félags með heitinu Cede & Co. Í tengslum við fyrrnefnda útgáfulýsingu gerði áfrýjandi jafnframt samning 12. apríl 2006 við Deutsche Bank Trust Company Americas, þar sem þeim síðarnefnda var meðal annars falið í þágu eiganda skuldabréfsins að taka við og koma til skila greiðslum frá áfrýjanda á vöxtum af skuldabréfinu og höfuðstól þess, svo og að leita eftir atvikum fullnustu á kröfum samkvæmt því. Í skilmálunum og samningnum, sem hér um ræðir, var gengið út frá því að tiltekin alþjóðleg fjármálafyrirtæki myndu kaupa hlutdeild í skuldabréfinu til að miðla áfram sjálf eða fyrir milligöngu annarra fjármálafyrirtækja í heild eða að hluta til fjárfesta, en hlutdeild, sem myndaðist á þennan hátt, yrði að vera að lágmarki 100.000 bandaríkjadalir og fjárhæð hennar, færi hún fram úr því, að öðru leyti í þúsundum dala. Skráður eigandi skuldabréfsins, Cede & Co., mun hafa verið tengdur öðru bandarísku fyrirtæki með heitinu Depository Trust Company, sem hafi fengist við verðbréfaskráningu og annast eða haft yfirumsjón með rafrænni skráningu á eignarhaldi að hlutdeild í skuldabréfinu. Slík hlutdeild var framseljanleg á verðbréfamarkaði, en skráður eigandi hennar á hverjum tíma naut réttar til að fá frá Deutsche Bank Trust Company Americas sinn hluta af greiðslum sem áfrýjandi myndi inna af hendi til þess banka vegna vaxta af skuldabréfinu og höfuðstól þess. Ekki verður séð af skilmálum fyrir skuldabréfið að skráður eigandi hlutdeildar teldist að öðru leyti en þessu eiga kröfu á grundvelli hennar á hendur Deutsche Bank Trust Company Americas, Cede & Co. eða Depository Trust Company. Í útgáfulýsingunni og samningi áfrýjanda við Deutsche Bank Trust Company Americas voru jafnframt efnislega samhljóða ákvæði um að áfrýjandi mætti hvenær sem er kaupa á verðbréfamarkaði eða öðrum vettvangi hlutdeild í skuldabréfi sem gefið yrði út með stoð í fyrrgreindum heimildum. Eftir slík kaup gæti áfrýjandi ráðið því hvort hann ætti hlutdeildina til frambúðar, endurseldi hana eða afhenti hana til Deutsche Bank Trust Company Americas til að fá hana fellda úr gildi.
Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hver hafi verið aðdragandi að þeim viðskiptum sem um er deilt. Á hinn bóginn eru meðal málsgagna fjórar kaupnótur sem áfrýjandi gaf út fyrir kaupum á hlutdeild í áðurgreindu skuldabréfi. Samkvæmt þremur kaupnótum, útgefnum 2. september 2008, keypti áfrýjandi í jafn mörgum áföngum hlutdeild í skuldabréfinu sem var eins og áður segir á lokagjalddaga 4. október 2011. Í fyrsta tilvikinu var hlutdeild að nafnverði 5.000.000 bandaríkjadalir keypt á genginu 84,125, í öðru tilvikinu var hlutdeild að nafnverði 3.000.000 dalir keypt á genginu 84,375 og í því þriðja var hlutdeild að nafnverði 2.000.000 dalir keypt á genginu 83,375. Á þessum grunni nam kaupverðið alls 8.405.000 dölum, en við þá fjárhæð bættust síðan áfallnir vextir frá síðasta vaxtagjalddaga 4. apríl 2008, sem greiddust að fullu, þannig að alls voru greiddir vegna þessa 8.646.180,56 dalir. Samkvæmt kaupnótu, útgefinni 9. september 2008, keypti áfrýjandi hlutdeild í sama skuldabréfi að nafnverði 5.000.000 dalir á genginu 84,75. Kaupverðið nam því 4.237.500 dölum, en við þá fjárhæð bættust einnig áfallnir vextir frá 4. apríl 2008 þannig að alls voru greiddir vegna þessa 4.363.680,56 dalir. Heildarverðið sem áfrýjandi reiddi af hendi fyrir hlutdeildina nam samkvæmt þessu 13.009.861,12 bandaríkjadal. Á kaupnótunum fjórum var uppgjörsdagur tiltekinn þremur dögum eftir útgáfudag, 5. og 12. september 2008. Var aðalstefndi sagður í öllum tilvikum vera seljandi hlutdeildarinnar í skuldabréfinu.
Jafnframt liggur fyrir í málinu yfirlýsing frá Euroclear Bank SA/NV í Belgíu, þar sem fram kemur að fé hafi verið millifært í samræmi við áðurnefnd viðskipti gegnum uppgjörskerfi, sem mun vera kennt við bankann, af reikningi áfrýjanda á reikning greiðslujöfnunarmiðlarans Fortis Investments Services LLC. Samkvæmt samningi miðlarans og aðalstefnda, sem lagður hefur verið fram, tók sá fyrrnefndi að sér fyrir aðalstefnda að sjá um framkvæmd greiðslufyrirmæla og uppgjör viðskipta hans í greiðslukerfum. Áfrýjandi sendi aðalstefnda bréf 8. desember 2011 þar sem hann var meðal annars beðinn um að upplýsa hver hafi verið aðkoma hans að umræddum viðskiptum. Í ódagsettu svari aðalstefnda við bréfinu var svo að orði komist: „Brains Inc. Ltd., sem miðlari paraðra viðskipta ... seldi Kaupþingi banka hf. verðbréfin sem talin eru upp í fylgiskjali A ... á þeim dögum sem fram koma, hafandi keypt þau samtímis á markaði fyrir eigin reikning daginn sem viðskiptin fóru fram.“
Áfrýjandi hefur lagt fram í málinu yfirlýsingu löggilts endurskoðanda, þar sem staðfest er að við færslur um framangreind kaup á hlutdeild í skuldabréfi í bókhaldi áfrýjanda hafi skuldir hans verið færðar niður um samtals 15.000.000 bandaríkjadali eða sem svarar samanlögðu nafnverði þess sem keypt var. Svo virðist sem mismunur á nafnverði og kaupverði hafi um leið verið færður áfrýjanda til tekna. Eftir gögnum málsins hafði áfrýjandi þrátt fyrir þetta ekki neytt áðurgreindrar heimildar samkvæmt útgáfulýsingu fyrir skuldabréfið og samningi sínum við Deutsche Bank Trust Company Americas til að afhenda þeim banka hlutdeildina í skuldabréfinu til að fá hana fellda úr gildi. Þess í stað átti áfrýjandi enn hlutdeildina þegar Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slitameðferð áfrýjanda, sem fór síðan í hönd með frestdegi 15. nóvember 2008, var lokið með nauðasamningi 23. desember 2015. Meðan á slitunum stóð höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur aðalstefnda og varastefnda 26. og 27. júní 2012, en á hendur öðrum varastefndu 12. og 13. júní 2013 með sakaraukningu. Í málinu leitar áfrýjandi á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, riftunar á greiðslu skuldar við aðalstefnda eða eftir atvikum einhvern eða einhverja af varastefndu, sem áfrýjandi telur hafa falist í áðurnefndum kaupum á hlutdeild í skuldabréfi, svo og endurheimt á þeim 13.009.861,12 bandaríkjadal sem hann lét af hendi í þeim viðskiptum.
II
Samkvæmt því, sem áður greinir, gerði áfrýjandi fjórar kaupnótur 2. og 9. september 2008 vegna viðskiptanna sem málið er sprottið af. Á þeim var aðalstefndi í öllum tilvikum sagður vera seljandi hlutdeildar í skuldabréfinu sem áfrýjandi keypti í þau skipti. Af þessum skjölum verður ekki annað ráðið en að aðalstefndi hafi á þeim tíma verið eigandi hinnar seldu hlutdeildar og samrýmist svar hans við fyrirspurn áfrýjanda í desember 2011 því að sú hafi verið raunin. Þar sem aðalstefndi hefur ekki fært sönnur á hið gagnstæða verður litið svo á að áfrýjandi hafi fest kaup á umræddri hlutdeild í skuldabréfinu af aðalstefnda eftir að hann hafði eignast hana. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu allra varastefndu af kröfum áfrýjanda.
Til samræmis því, sem fram kom á kaupnótunum fjórum, verður jafnframt að leggja til grundvallar að 2. og 9. september 2008 hafi komist á samningur um viðskiptin milli áfrýjanda og aðalstefnda í hverju einstöku tilviki. Eins og áður greinir innti áfrýjandi 5. og 12. sama mánaðar af hendi greiðslur til að efna þessa samninga eða innan sex mánaða fyrir frestdag við slit hans sem eins og fyrr segir var 15. nóvember 2008. Skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslu á grundvelli ákvæðisins er því að þessu leyti fullnægt.
Með viðskiptunum, sem hér um ræðir, keypti áfrýjandi hlutdeild í skuldabréfi sem greiða átti upp í einu lagi á umsömdum lokagjalddaga 4. október 2011. Um leið greiddi áfrýjandi að fullu vexti, sem fallið höfðu á hlutdeild í höfuðstól skuldabréfsins á tímabilinu frá síðasta gjalddaga vaxta, 4. apríl 2008, fram til fyrirhugaðs uppgjörsdags viðskiptanna í september sama ár sem tilgreindur var í einstökum tilvikum í fyrrnefndum kaupnótum. Gjalddagi þeirra vaxta hefði ella verið 4. október 2008. Greiðslur þessar voru þannig að öllu leyti inntar af hendi fyrir umsaminn gjalddaga og þar með fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Er því einnig að þessu leyti fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir riftun greiðslnanna.
Hér að framan var lýst nokkrum meginatriðum í skilmálum, sem giltu um skuldabréfið sem áfrýjandi keypti hlutdeild í af aðalstefnda og komu ýmist fram í útgáfulýsingu 26. apríl 2006, samningi áfrýjanda við Deutsche Bank Trust Company Americas 12. sama mánaðar eða verðviðauka um skuldabréfið 5. október á því ári. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið af þessum skilmálum en að áfrýjandi hafi borið greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu við Deutsche Bank Trust Company Americas í þágu skráðs eiganda þess, Cede & Co. Þessa skyldu hafi áfrýjandi á hinn bóginn ekki borið við þá sem eignast höfðu hlutdeild í skuldabréfinu. Hann hefði því ekki getað losnað undan skyldunni með greiðslu beint til eigenda hlutdeildar í skuldabréfinu og hefði eftir sem áður borið hana óskerta við skráðan eiganda þess þótt hann hefði innt af hendi slíkar greiðslur. Þá verður ekki annað ráðið af þessum heimildum en að eigendur hlutdeildar í umræddu skuldabréfi hafi ekki sjálfir getað snúið sér beint til áfrýjanda og krafið hann um greiðslu sér til handa, heldur hafi aðeins verið á færi Deutsche Bank Trust Company Americas í þágu skráðs eiganda skuldabréfsins að krefja áfrýjanda um greiðslu í einu lagi handa öllum eigendum hlutdeildar í því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. október 2011 í máli nr. 398/2011. Í þessu ljósi stóð áfrýjandi því hvorki í skuld við aðalstefnda né átti aðalstefndi kröfu um greiðslu úr hendi áfrýjanda og hafði þannig ekki myndast milli þeirra kröfuréttarsamband í skilningi meginreglna fjármunaréttar. Til þess verður á hinn bóginn að líta að heimildin í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu á skuld er ekki háð því að hún hafi farið fram við aðstæður, þar sem beint réttarsamband hefur staðið milli kröfuhafa og skuldara, heldur getur ákvæðið einnig tekið til ráðstöfunar sem í raun leiðir til þess í senn að kröfuhafi fái efndir á kröfu sinni og skuldari losni undan greiðsluskyldu sinni. Í máli þessu háttar svo til að ráðstafanir áfrýjanda voru í þeim búningi að hann keypti af aðalstefnda hlutdeild í skuldabréfi, sem áfrýjandi bar greiðsluskyldu á, en með því fékk aðalstefndi í raun efndir á kröfuréttindum sínum, sem hann felldi sig við að gefa eftir að hluta, með því að í viðskiptunum var ekki greitt fullt nafnverð krafna hans. Eftir þessi kaup hefði áfrýjandi getað kosið sem fyrr segir að fá kröfu Cede & Co. á hendur sér samkvæmt skuldabréfinu fellda niður að því marki, sem svaraði til hlutdeildarinnar í því sem hann hafði eignast með þessum ráðstöfunum, en með því hefði hann losnað að þessu leyti undan skuld sinni. Þá leið fór áfrýjandi ekki, heldur valdi hann að eiga áfram hlutdeild í skuldabréfinu, svo sem heimilt var samkvæmt skilmálunum sem giltu um það. Þetta val hafði í raun þá afleiðingu að hann hefði á hverjum gjalddaga þurft að standa Deutsche Bank Trust Company Americas skil á fullri greiðslu samkvæmt skuldabréfinu, en fengið síðan fyrir atbeina milliliða til baka þann hluta af þeirri greiðslu sem svaraði til hlutdeildar hans sjálfs í skuldabréfinu. Með þessu var áfrýjandi nánast eins settur og ef hlutdeild hans í skuldabréfinu hefði verið felld niður og hann losnað að því leyti undan skuld sinni. Að þessu öllu virtu getur engu breytt gagnvart skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að þessar ráðstafanir hafi farið fram beint milli áfrýjanda og aðalstefnda í stað þess að greiðslur færu á þeirri leið um hendur annarra sem kröfuréttarsamband var á milli. Er því jafnframt fullnægt því skilyrði ákvæðisins að ráðstafanir áfrýjanda, sem hér um ræðir, hafi falið í sér greiðslu á skuld við aðalstefnda, en eins og áður er fram komið verður lagt til grundvallar að aðalstefndi hafi sjálfur verið orðinn eigandi hlutdeildarinnar í skuldabréfinu þegar áfrýjandi keypti hana.
Eftir 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki komið fram riftun á greiðslu skuldar, þótt öllum framangreindum skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt, ef greiðslan hefur virst venjuleg eftir atvikum. Eins og fyrr greinir var ætlast til að viðskipti gætu farið fram á verðbréfamarkaði með hlutdeild í skuldabréfinu, sem áfrýjandi hafði gefið út, og verður ráðið af gögnum málsins að sú hafi einnig verið raunin. Í skilmálunum, sem giltu samkvæmt áðursögðu um skuldabréfið, var beinlínis tekið fram að áfrýjandi gæti sjálfur átt slík viðskipti, bæði með því að kaupa hlutdeild í skuldabréfinu og selja hana á ný. Liggur jafnframt fyrir að það hafi hann gert í talsverðum mæli, svo og að viðskipti af þessum toga hafi verið alvanaleg í tilvikum annarra fjármálafyrirtækja, bæði innlendra og erlendra. Af þessum sökum verður að líta svo á að fyrir liggi að viðskiptin milli áfrýjanda og aðalstefnda, sem málið varðar, hafi verið venjuleg eftir atvikum. Þegar af þeirri ástæðu verður einnig staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu aðalstefnda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2016.
I
Mál þetta er höfðað af Kaupþingi hf., Borgartúni 26, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 26. júní 2012 og birtri 27. sama mánaðar, á hendur Brains Inc. Limited, Grenville Court, skráningarnr. 03650951, Britwell Road, Burnham, Buckinghamshire, SL1 8DF, Bretlandi, en til vara á hendur King Street (Europe) LLP, skráningarnr. OC313070, Leconfield House, Curzon Street, London W1J 5JA, Bretlandi.
Stefnandi stefndi síðan þrautavarastefndu inn í málið með sakaukastefnu, sem birt var 12. og 13. júní 2013, þá aðallega á hendur King Street Capital LP, c/o King Street Capital Management, L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New York, New York 10022, en til vara á hendur King Street Capital Ltd., c/o Codan trust Company (B.V.I.) Ltd., Romasco Place, Wickhams Cay 1, P.O. Box 3140, Road Town, Tortola, British Virgin Islands, VG 11 10, King Street Europe L.P., c/o King Street Capital management L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New York, New york 10022, og King Street Europe Master Fund Ltd., c/o Codan Trust Company (B.V.I.) Ltd., Romasco Place, Wickhams Cay 1, P.O. Box 3140, Road Town, Tortola, British Virgin Islands VG 11 10, en til þautavara á hendur King Street Capital L.P., c/o King Street Caital management L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New york, New York 10022 fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd.
Á dómþingi 25. nóvember sl. voru málin í frumsök og sakaukasök sameinuð en í greinargerð sakaukastefndu voru ekki gerðar athugasemdir við þá kröfu stefnanda að sakaukastefndu hefðu eftirleiðis stöðu þrautavarastefndu í málinu þannig að King Street Capital L.P. teldist 1. þrautavarastefndi, King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd. 2. þrautavarastefndu, og loks væri King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Master Fund Ltd. 3. þrautavarastefndi.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til aðalstefnda, Brains Inc. Limited:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 4.326.840,28 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 2.603.604,17 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 4.363.680,56 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.715.736,11 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Þess er krafist að aðalstefndi, Brains Inc. Limited, greiði stefnanda 13.009.861,12 Bandaríkjadollara, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 23. maí 2012 til greiðsludags.
Þá er þess krafist að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu eru gerðar eftirfarandi kröfur á hendur varastefnda:
Að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til varastefnda, King Street (Europe) LLP:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 4.326.840,28 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 2.603.604,17 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 4.363.680,56 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 1.715.736,11 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Að varastefndi greiði stefnanda 13.009.861,12 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/200 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Þá er þess krafist að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Verði hvorki aðalstefnda né varastefnda gert að þola dóm í málinu er gerð eftirfarandi krafa í þrautavaraaðild:
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að rift verði eftirtöldum ráðstöfunum stefnanda til þrautavarastefnda, King Street Capital L.P.:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 4.326.840,28 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 2.603.604,17 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 4.363.680,56 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 1.715.736,11 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Í öðru lagi krefst stefnandi þess að þrautavarastefndi, King Street Capital L.P., greiði stefnanda 13.009.861,12 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Í þriðja lagi er þess krafist að þrautavarastefnda, King Street Capital L.P. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Að því marki sem þrautavarastefnda verður ekki gert að þola dóm fyrir heildarfjárhæð þrautavarakröfu er gerð eftirfarandi krafa í 2. þrautavaraaðild:
I. Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Capital Ltd.:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 2.655.814,56 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 1.597.745,09 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 2.678.427,13 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.053.461,97 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi, King Street Capital Ltd. greiði stefnanda 7.985.448,76 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Capital Ltd. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
II. Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Europe L.P:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 212.880,54 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 128.444,47 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 214.693,08 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 84.071,07 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi King Street Europe L.P. greiði stefnanda 640.089,17 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Europe L.P., verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
III. Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Europe Master Fund Ltd:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 494.990,53 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 297.678,74 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 499.205,06 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 196.451,78 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi, King Street Europe Master Fund Ltd. greiði stefnanda 1.488.326,11 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Europe Master Fund Ltd. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Að því marki sem þrautavarastefnda verður ekki gert að þola dóm fyrir heildarfjárhæð þrautavarakröfu og 2. þrautavarastefndu verður ekki gert að þola dóm í málinu er gerð eftirfarandi krafa í 3. þrautavaraaðild:
Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 3. þrautavarastefnda, King Street Capital, L.P. fyrir hönd King Street Capital, Ltd., King Street Europe, L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd.:
1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 3.363.685,63 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 2.023.868,31 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 3.392.325,27 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 1.333.984,83 bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
Þess er krafist að 3. þrautavarastefndi, King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., greiði stefnanda 10.113.864,03 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Þá er þess krafist að 3. þrautavarastefnda, King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Af hálfu aðalstefnda, Brains Inc. Limited, er þess aðallega krafist að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautavara krefst aðalstefndi stórfelldrar lækkunar á greiðslukröfu stefnanda. Í öllum tilvikum er þess krafist að aðalstefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Varastefndi, King Street (Europe) LLP, gerir þær dómkröfur, aðallega að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst varastefndi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Þrautavarastefndu King Street Capital L.P., King street Capital Ltd., King Street Europe L.P., King Street Europe Master Fund Ltd., og King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Master Fund Ltd., krefjast þess aðallega, að kröfum stefnanda á hendur þrautavarastefndu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þrautavarastefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Í öllum tilvikum er þess krafist að þrautavarastefndu verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Gerð er krafa um að við ákvörðun málskostaðar verði tekið tillit til þess að þrautavarastefndu eru ekki virðisaukaskattsskyldir hér á landi.
Hinn 9. júlí 2013 var kröfu stefndu Brains Inc. Limited og King Street (Europe) LLP um frávísun málsins á hendur þeim hrundið. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 22. maí 2014, var málinu á hendur þrautavarastefndu King Street Capital LP, King Street Capital Ltd., King Street Europe LP, og King Street Europe Master Fund Ltd. vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 25. ágúst 2014 í máli réttarins nr. 399/2014 var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði framangreinda þrautavarastefndu.
Mál þetta var fyrst dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. febrúar 2016. Ekki tókst að leggja dóm á málið innan lögbundins frests og var málið endurflutt og dómtekið að nýju 3. maí sl.
II
Hinn 26. apríl 2006 birti stefnandi útboðslýsingu (e. Offering Circular) að fjárhæð 10.000.000.000 bandaríkjadollara. Verðviðauki, dagsettur 5. október 2006, og fjárvörslusamningur stefnanda við Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA), dagsettur 12. apríl 2006, mynda skilmála skuldabréfaútgáfunnar. Í útgáfulýsingunni eru umfangsmiklar upplýsingar um almenna lýsingu skuldabréfarammans, form skuldabréfanna, skilmála og skilyrði skuldabréfanna, auk þess sem ítarlegar upplýsingar er að finna um greiðslur skuldabréfanna, innlausn þeirra og kaup.
Skuldabréfaútgáfurnar fóru þannig fram að fyrst var gefin út framangreind útboðslýsing og á grundvelli hennar voru gefnir út verðviðaukar. Í útboðslýsingunni voru tiltekin þau ákvæði sem almennt giltu um skuldabréf í viðkomandi útgáfu og í verðviðaukunum var gerð nánari grein fyrir skilmálum tiltekinna skuldabréfa sem stefnandi gæfi út. Dagana 27. september 2006 og 5. október 2006 gaf stefnandi út verðviðauka vegna skuldabréfa að nafnvirði 1.500.000.000 bandaríkjadollara í tengslum við áðurnefnda skuldabréfaútgáfu að fjárhæð 10.000.000.000 bandaríkjadollara. Þessi verðviðauki fékk ISIN númerið US48632GAA76.
Uppbygging allsherjarskuldabréfaútgáfunnar var með þeim hætti að stigskipt vörslukerfi hélt utan um rafrænar skráningar hvers þátttakanda skuldabréfaútgáfunnar, án þess þó að tekin væri ábyrgð á skráðum eignarhlut hvers eiganda fyrir sig, enda kom DBTCA fram sem svokallaður forgangsvörsluaðili (e. Senior Trustee). Sem slíkur kom DBTCA fram, samkvæmt vörslusamningi, sem umsjónaraðili greiðslna (e. Paying Agent). Sérstaklega er fjallað um rafræna eignaskráningu og nánar útskýrt hvert er hlutverk forgangsvörsluaðila með þeim hætti að DBTCA áskapi þátttakendum í allsherjarskuldabréfaútgáfunni rafrænt skráningarkerfi þar sem hverjum sem vill gefst færi á að kaupa hagsmuni í allsherjarskuldabréfaútgáfu. Við slík kaup séu verðbréf almennt skráð í nafni Cede & Co., nema annað sé tekið fram. DBTCA geymi þannig í vörslum sínum verðbréf þar sem þátttakendur leggi inn hjá DBTCA, sem jafnframt annist greiðslujöfnun og uppgjör viðskipta þátttakanda sinna með slík verðbréf með rafrænum eignaskráningum þátttakenda og þannig sé áþreifanlegur flutningur verðbréfaskírteina óþarfur. Hinir beinu þátttakendur í allsherjarskuldabréfaútgáfunni, þ.e. kaupendur, séu verðbréfamiðlarar, bankar, vörslufyrirtæki, greiðslujöfnunarfyrirtæki og ákveðnar stofnanir. Þá beri þessir þátttakendur ábyrgð á því að halda utan um eignarhlutdeildir sínar fyrir hönd viðskiptavina sinna.
Í fjárvörslusamningnum, dagsettum 12. apríl 2012, sem stefnandi gerði við DBTCA er einnig fjallað um eignarhald. Þar segir að handhafi (e. Holder) merki í hvers nafni skuldabréfið sé skráð í skuldabréfaskrá. Í fjárvörslusamningunum segir að áður en skuldabréfi sé framvísað til skráningar framsals sé heimilt að meðhöndla þann aðila, í hvers nafni bréfið er skráð, sem eiganda skuldabréfsins að því er er varðar móttöku og greiðslu höfuðstóls þess. Þá eru í fjárvörslusamningnum ákvæði um þau lög sem gilda skuli um skuldabréfasamninginn og skuldabréf sem eiga undir samninginn. Segir þar í gr. 1.11 að lög New York-fylkis gildi um lögskipti samningsins.
Gjalddagi skuldabréfa í skuldabréfaútgáfunni var 4. október 2011 samkvæmt verðviðaukanum. Atvik við útgáfu skuldabréfa og skilmála þeirra eru óumdeild, auk þess sem ekki er ágreiningur um að stefnandi hafi nýtt sér heimildir í skilmálum bréfanna til endurkaupa á þeim.
Aðalstefndi var einn af rétthöfum skuldabréfa í útgáfu US48632GAA76 og dagana 5. og 12. september 2008 greiddi stefnandi upp skuld sína við stefnda að fjárhæð 13.009.861,12 bandaríkjadollarar og bókfærði greiðsluna sem lækkun útistandandi skulda. Ágreiningur málsins snýr að því hvort umrædd greiðsla stefnanda að framangreindri fjárhæð sé riftanleg greiðsla á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og hvort aðalstefnda, varastefnda eða þrautavarastefndu beri að greiða stefnanda framangreinda fjárhæð í samræmi við 142. gr. sömu laga. Þá er ágreiningur um það, hver hinna stefndu sé réttur aðili að málinu. Stefndu hafa vísað hver á annan sem viðtakanda greiðslna og hluta sem málið snýst um. Einnig er ágreiningur um það, hvort íslenskum lagareglum um riftun verði beitt um kröfur stefnanda en allir stefndu byggja m.a. á því að ekki sé unnt að rifta viðskiptunum á grundvelli íslenskra gjaldþrotaskiptalaga.
Með bréfi 8. desember 2011 óskaði stefnandi eftir upplýsingum um það hvort aðalstefndi teldi sig réttan aðila að viðskiptunum. Var m.a. sérstaklega óskað eftir því að staðfest yrði af hálfu aðalstefnda hvort hann hefði verið aðalrétthafi og/eða rétthafi í tengslum við hin umdeildu endurkaupaviðskipti. Fyrirspurn stefnanda var svarað með bréfi, dagsettu 21. desember 2011. Af bréfinu mátti ráða að aðalstefndi teldi sig eiga í viðskiptum við stefnanda. Með bréfi lögmanns aðalstefnda, dagsettu 13. janúar 2012, er því hins vegar haldið fram að aðalstefndi hefði gegnt stöðu miðlara í viðskiptum fyrir þriðja aðila. Í tölvupósti frá 21. júní 2012 upplýsti aðalstefndi að umræddur þriðji aðili væri varastefndi, King Street (Europe) LLP. Hinn 23. apríl 2012 lýsti stefnandi yfir riftun vegna framangreindra greiðslna og skoraði á aðalstefnda að endurgreiða andvirði þeirra.
Sakaukastefna var gefin út á hendur þrautavarastefndu sem viðbót við stefnu en í greinargerð varastefnda, King Street (Europe) LLP, og bókun fyrir dómi kom fram að viðskiptin, sem stefnandi krefðist riftunar á, hefðu lotið að hagsmunum í eigu fjögurra sjóða, aðallega King Street Capital L.P. sem taldist 1. þrautavarastefndi, King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd. sem nefndir voru 2. þrautavarastefndu, og loks væri King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Master Fund, Ltd. 3. þrautavarastefndi. Þannig var King Street Capital L.P. bæði stefnt sjálfstætt og fyrir hönd þriggja fylgisjóða (e. feeder funds), sem nánar verður vikið að síðar.
III
1. Málsástæður stefnanda gagnvart aðalstefnda
Um aðild sína vísar stefnandi til þess að hann sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. tilskipunar 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit fjármálastofnana, skuli lánastofnun slitið í samræmi við lög og málsmeðferð heimaaðildarríkis. Af 16. mgr. aðfararorða og 1. lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2001/24/EB leiði að löggjöf þess ríkis, sem teljist vera heimaríki við slit fjármálafyrirtækis, skuli gilda við slit fjármálafyrirtækis og að dómstólar viðkomandi ríkis skuli hafa dómsvald í málum sem tengjast gjaldþroti fjármálafyrirtækja, þ.m.t. riftun ráðstafana.
Af hálfu stefnanda er jafnframt bent á að samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, megi við slitameðferð stefnanda krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi við slitameðferðina með sama hætti og við hefðbundin gjaldþrotaskipti.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að greiðslur stefnanda hafi verið greiddar fyrr en eðlilegt var en slíkar greiðslur séu riftanlegar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þau þrjú skilyrði sem tilgreind séu í ákvæðinu séu fyrir hendi, bæði gagnvart aðalstefnda, varastefnda og öllum þrautavarastefndu.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að greiðslurnar hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sem hafi verið 15. nóvember 2008. Stefnandi hafi greitt skuld sína samkvæmt skuldabréfunum 5. og 12. september 2008 og þannig hafi greiðslurnar átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 beri að miða við það tímamark þegar afhending fjármuna fari fram.
Í öðru lagi sé byggt á því að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var þar sem gjalddagi skuldabréfanna í flokki US48632GAA76 hafi verið 4. október 2011 en stefnandi hafi greitt stefnda skuldina dagana 5. og 12. september 2008. Hafi skuldin því verið greidd fyrir gjalddaga en almennt sé talið þegar svo hátti til, sé um það að ræða að greitt sé fyrr en eðlilegt þykir í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi ítrekar enn fremur að 8. október 2008 hafi stjórn stefnanda sagt af sér og að 9. sama mánaðar hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og sett yfir hann skilanefnd. Hafi stefnandi verið tekinn til slitameðferðar í kjölfarið. Stefnandi telur ljóst að ef ekki hefði komið til hinna riftanlegu greiðslna hefðu stefndu máls þessa aldrei fengið kröfur sínar greiddar á gjalddaga, hvorki í heild né að hluta en hefðu þess í stað eignast kröfur við slitameðferð stefnanda. Ljóst sé að við slitameðferð stefnanda muni almennar kröfur ekki greiðast að fullu og ekki fyrr en löngu eftir gjalddaga. Bent sé á að það raski jafnræði kröfuhafa við slitameðferð stefnanda ef sumir þeirra, sem með réttu hefðu átt að eiga kröfu við slitameðferðina, fá kröfur sínar greiddar að fullu. Þannig hafi greiðslur stefnanda verið til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti fyrir stefndu á kostnað annarra kröfuhafa. Gangi kröfur stefnanda hins vegar eftir, muni stefndu njóta jafns réttar á við sambærilega kröfuhafa og þannig sé kröfugerð stefnanda um riftun greiðslna ætlað að skapa jafnræði milli kröfuhafa.
Í þriðja lagi telur stefnandi ekki liggja fyrir að greiðslurnar hafi verið venjulegar eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur að þessi liður lagagreinarinnar feli í sér undantekningu sem beri að skýra þröngt, auk þess sem stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því að hún eigi við.
Til þess að til undantekningarreglan í 134. gr. laganna um að greiðslurnar hafi virst venjulegar eftir atvikum geti mögulega átt við, hafi greiðslur sem þessar, þar sem skuld er greidd löngu fyrir gjalddaga, m.a. þurft að vera venjulegar í viðskiptum milli aðila. Stefnandi byggir á því að uppgreiðsla skuldabréfa fyrir gjalddaga hafi ekki verið venjuleg í viðskiptum milli stefnanda og aðalstefnda.
Jafnvel þótt stefnandi hafi haft heimild til þess að kaupa skuldabréf samkvæmt hefðbundnum skilmálum skuldabréfsins, breyti það engu um að greiðslurnar séu riftanlegar. Ákvæði sem heimili skuldara að kaupa eigin skuld hafi sömu réttaráhrif og uppgreiðsluheimild. Ekki sé hægt að fallast á að ákvæði í skuldabréfi um að þrátt fyrir tilgreindan gjalddaga megi eða beri ávallt að greiða upp skuldina fyrr, gangi framar riftunarreglu 134. gr. laga nr. 21/1991. Ef sú væri raunin, væri ávallt hægt að semja sig undan riftunarreglum.
Stefnandi tekur fram að með þessu sé því ekki haldið fram, að innlausnar- og endurkauparéttur sé almennt ólögmætur í skuldabréfum. Lögmætt sé að áskilja slíkan rétt, bæði fyrir skuldara og kröfuhafa, en slík samningsákvæði víki þó fyrir riftunarreglum gjaldþrotalaga. Þá skipti ekki máli gagnvart riftunarreglunum þótt greiðsla á skuld myndi almennt teljast lögmæt að öllu leyti, enda geti ráðstöfun verið riftanleg á þeim grundvelli þótt hún hafi ekki verið ólögmæt, sviksamleg eða saknæm af hálfu þeirra sem stóðu að henni. Meginreglan sé sú að huglæg afstaða skuldara eða kröfuhafa skipti ekki máli að því er varðar riftun greiðslunnar.
Stefnandi bendir á að riftun á greiðslu skuldar sé ekki ætlað að ógilda skuldabréfin eða aðra löggerninga sem hafi verið grundvöllur að því að skuldir stefnanda við aðalstefnda voru greiddar fyrir gjalddaga. Riftunin beinist eingöngu að því að hnekkja greiðslunum sjálfum og endurheimta í peningum þann hagnað eins kröfuhafa sem sé á kostnað annarra og raski þannig að óbreyttu jafnræði kröfuhafa.
Stefnandi telur að ráða megi af öllu framangreindu að uppgreiðsla skuldanna rúmlega einu ári fyrir gjalddaga hafi ekki verið eðlileg eftir atvikum. Ekkert í viðskiptasambandi aðila hafi gefið tilefni til að ætla að slík venja væri í gildi og þess háttar uppgjör skulda höfðu ekki tíðkast áður milli aðila. Þá hafi hvorki samkvæmt lögum né samningum hvílt á stefnanda skylda til að greiða skuldabréfin fyrir gjalddaga þeirra. Einnig vísar stefnandi til þess að það sé aðalstefnda að sýna fram á að greiðsla skuldanna, sem óumdeilanlega hafi verið inntar af hendi fyrir gjalddaga, séu þrátt fyrir allt venjuleg eftir atvikum. Það hafi aðalstefndi ekki gert.
Stefnandi kveður kröfu um endurgreiðslu byggja á 142., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur að greiðsla krafnanna hafi orðið til þess að aðalstefndi auðgaðist sem nemur 756.427,70 evrum, enda hefði aðalstefndi ekki fengið kröfurnar greiddar á gjalddaga. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð og auðgun aðalstefnda og séu því uppfyllt skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laganna.
Stefnandi vísar til þess, hvað varðar kröfugerð sína, að stefndi hafi fyrst vísað til þess 21. júní 2015 að annar aðili hefði verið raunverulegur móttakandi greiðslunnar. Í 142. gr. laga nr. 21/1991 segi að þegar riftun fari fram með stoð í 131.-138. gr. laganna skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé í kjölfar riftunarinnar. Hafi hann fengið peninga greidda skipti notkun peninganna engu máli hvað varðar kröfu þrotabúsins. Þar sem aðalstefndi hafi verið móttakandi greiðslunnar frá stefnanda sé kröfu réttilega beint að honum þar til sýnt sé fram á annað. Með tilliti til tilhögunar skuldabréfa í útgáfu með númerið US48632GAA76 skipti engu hvort skuldarasamband hafi verið milli stefnanda og aðalstefnda enda hafi stefnandi greitt þær greiðslur, sem krafist sé riftunar á, beint til aðalstefnda. Þegar greiðslur hafi átt sér stað, hafi aðalstefndi fellt niður þá kröfu sem hann átti vegna áðurnefndra skuldabréfa og stefnandi lækkað útistandandi skuldir sínar. Endanleg niðurstaða hafi því verið sú að krafan sem aðalstefndi átti vegna skuldabréfanna var greidd. Aðalstefndi hafi móttekið peningana frá stefnanda og sé því óumdeilanlega sá sem hafi haft hag af ráðstöfuninni. Stefnandi árétti að riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga sé ekki ætla að ógilda samnings– eða skuldarsambönd aðila og að riftun á grundvelli 134. gr. laganna beinist ekki endilega að samningsaðila þrotamanns, heldur gagnvart sjálfri greiðslunni óháð formi hennar og burtséð frá því hvort og þá hvaða grundvöllur hafi legið að baki greiðslu. Þar sem aðalstefndi hafi móttekið greiðsluna sé málshöfðun beint að honum þótt formlegt samningssamband hafi verið á milli aðalstefnda og fjárvörsluaðila. Aðalstefnda beri því að greiða stefnanda tjón búsins á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991, enda sé tjón búsins samsvarandi auðgun stefnda.
Hvað varðar kröfu um dráttarvexti vísar stefnandi til þess að miðað sé við mánuð frá þeim degi sem stefnda var sent kröfubréf, hinn 23. apríl 2012 og eigi dráttarvaxtarkrafan sér stoð í III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.
2. Málsástæður stefnanda gagnvart varastefnda
Stefnandi gerir jafnframt kröfu á hendur varastefnda, King Street (Europe) LLP, um riftun vegna greiðslna hinn 5. og 12. september 2008, sem og kröfu um endurgreiðslu. Varastefnda sé stefnt til vara á grundvelli upplýsinga frá aðalstefnda um að varastefndi hafi verið móttakandi greiðslna í umræddum viðskiptum. Stefnandi vísar til þess að skilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, séu fyrir hendi og verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu, séu sömu kröfur gerðar á hendur varastefnda. Stefnandi byggir á sambærilegum málatilbúnaði gagnvart varastefnda og byggt er á gagnvart aðalstefnda, svo sem rakið er hér að framan.
Stefnandi vísar til þess að varastefndi hafi verið kröfuhafi stefnanda á grundvelli umræddrar skuldabréfaútgáfu og að varastefndi hafi fengið þessa kröfu sína greidda með greiðslu að fjárhæð 13.009.861,12 bandaríkjadollarar hinn 5. og 12. september 2008. Með framangreindum greiðslum hafi varastefndi fengið kröfur sínar greiddar fyrr en eðlilegt var, enda hafi greiðslurnar verið inntar af hendi rúmlega ári fyrir gjalddaga. Greiðslurnar séu því riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 og beri varastefnda að endurgreiða stefnanda auðgun sína af uppgreiðslu skuldanna, sem jafnframt nemi tjóni stefnanda, sbr. 142. gr. sömu laga.
Stefnandi krefst greiðslu dráttarvaxta úr hendi varastefnda með vísan til III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.
Að öðru leyti sé vísað til sambærilegra lagatilvísana og málsástæðna gagnvart varastefnda og byggt er á gagnvart aðalstefnda.
Stefnandi byggir kröfu sína um málskostnað á 129 og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um kröfusamlag vísar stefnandi til ákvæða 27. gr. sömu laga, þ.m.t. um varaaðild, sem eigi sér stoð í 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna og um varnarþing til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 146/2011.
Um málshöfðunarfrest vísar stefnandi til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011.
3. Málsástæður stefnanda gagnvart þrautavarastefndu, aðallega King Street Captital LP (þrautavarastefndi 1) en til vara King Street Capital Ltd. og King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd. (þrautavarastefndu 2)og til þrautavara á hendur King Street Capital, L.P. fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd. (þrautavarastefndu 3)
Undir rekstri málsins var sem fyrr greinir gefin út sakaukastefna í framhaldi af og sem viðbót við stefnu sem þingfest var á hendur aðalstefnda og varastefnda hinn 6. september 2012. Í greinargerð varastefnda hafi komið fram nýjar upplýsingar þar sem því hafi verið haldið fram að aðalstefndi væri ekki réttur aðili að málinu, viðsemjandi aðalstefnda hafi ekki verið varastefndi heldur King Street Capital, L.P. og umræddir hagsmunir hafi verið í eigu fjögurra King Street-sjóða, þ.e. framangreinds King Street Capital, L.P. sem og sjóðanna King Street Capital, Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd. Vegna þessara upplýsinga hafi stefnandi sakaukastefnt tilgreindum aðilum jafnskjótt og viðhlítandi skýringar lágu fyrir af hálfur varastefnda, King Street (Europe) LLP. Því hafi skilyrðum fyrir útgáfu sakaukastefnu verið fullnægt, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og hún verið gefin út í kjölfarið á hendur framangreindum aðilum.
Stefnandi vísar um skilmála skuldabréfaútgáfu stefnanda til þess, sem að framan er rakið, og kveður aðild aðalsakaukastefnda og vara – og þrautavarasakaukastefndu byggja á sömu lögskiptum og lýst hafi verið.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur þrautavarastefndu á sömu málsástæðum og lagarökum og byggt hafi verið á í varasök og sé á því byggt í þrautavarasök að þrautavarastefndi hafi verið hinn raunverulegi rétthafi bréfanna og móttakandi hinnar umdeildu heildargreiðslu. Því sé King Street Capital L.P. stefnt sem þrautavaraaðila ásamt tilgreindum sjóðum, fari svo að hvorki aðalstefnda né varastefnda verði gert að þola dóm í málinu.
Aðild þrautavarastefnda 1, King Street Captital L.P., byggi á því að hann hafi verið svokallaður móðursjóður (e. master-feeder fund) hinna King Street-sjóðanna sem einnig séu gerðar kröfur á, sem jafnframt hafi verið svokallaðir fylgisjóðir móðursjóðsins (e. feeder-funds) og áttu hlutdeild í móðursjóðnum, og þannig hafi þeir óbeint, í gegnum móðursjóð sinn, átt hlutdeild í þeim fjárfestingum sem málið fjalli um. Þannig sé byggt á því í þrautavarasök að King Street Capital L.P. hafi verið rétthafi hinna umdeildu greiðslna í málinu og því sé riftunar- og endurgreiðslukröfu réttilega beint að honum. Verði ekki talið að þrautavarastefndi 1 sé með réttu móðursjóður hinna King Street-sjóðanna, sé á því byggt að hann, í eigin nafni, hafi verið rétthafi og móttakandi hluta greiðslnanna frá stefnanda.
Stefnandi telur að verði þrautavarastefnda 1 ekki gert að þola dóm vegna heildarkröfufjárhæðar í þrautavarasök, sé rétt að beina kröfunni að þrautavarastefndu 2, að því marki sem krafa stefnanda á hendur þrautavarastefnda, King Street Capital, L.P., verði ekki tekin til greina. Þannig sé gert ráð fyrir því að í þrautavarasök, að þegar þrautavarasök hafi verið dæmd um þann hluta, sem falli í skaut King Street Capital L.P. að hluta, beri þrautavarastefndu 2 að þola dóm um eftirstöðvar greiðslnanna og þá hlutdeild hvers fylgisjóðs fyrir sig í viðskiptunum.
Verði ekki fallist á að þrautavarastefndu 2 eigi aðild að málinu, sé í þrautavarasök 3 byggt á því, að King Street Capital L.P. komi fram í málinu fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., hafi þeir sjóðir ekki aðildarhæfi. Þannig séu gerðar kröfur á hendur þrautavarastefnda 3 að því marki sem sýknað verði af kröfum á hendur þrautavarastefnda 1 og 2 í þrautavarakröfu.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur þrautavarastefndu 1, 2 og 3 á sömu málsástæðum og lagarökum og byggt sé á í frumsök á hendur aðalstefnda og varastefnda og vísar til framangreinds þar að lútandi.
Það beri hins vegar í milli hvað varðar hlutdeild hvers þrautavarastefnda 1 fyrir heildarfjárhæð. Stefnandi byggir á því gagnvart þrautavarastefnda að hann hafi verið hinn raunverulegi rétthafi og móttakandi heildargreiðslnanna í málinu sem móðursjóður hinna King Street sjóðanna.Yrði ekki fallist á að þrautavarastefndi sé móðursjóður og þannig rétthafi heildargreiðslnanna í málinu sé á því byggt að þrautavarastefndi 1, King Street Capital LP, hafi í það minnsta verið hlutfallslegur rétthafi greiðslnanna á móti hinum King Street-sjóðunum.
Stefnandi byggir hlutfallseign hvers þrautavarastefnda á bókun stefnanda í frumsök. Reiknað hafi verið út hlutfall hvers sjóðs í hverri greiðslu. Út frá þeim útreikningum stefnanda fáist dómkröfur á hendur hverjum og einum þrautavarastefndu í málinu.
Að því er varðar málshöfðunarfrest telur stefnandi að miða beri við málshöfðunarfrest frumsakar að því er varðar þrautavarastefndu, enda skipti hér ekki máli hvort aðilum sé bætt við á síðari stigum með sakaraukningu. Þótt ekki verði fallist á að sakaraukning miðist við málshöfðun frumsakar, beri að líta svo á að málshöfðunarfrestur sakaraukningar hafi ekki byrjað að líða fyrr en fullnægjandi upplýsingar hafi komið fram um réttan aðila, sbr. einnig 148. gr. laga nr. 21/1991. Stefnanda hafi enda fyrst átt kost á að gera riftunarkröfu á hendur þrautavarastefnda þegar upplýsingar um hann lágu fyrir. Þar sem greinargerð varastefnda hafi veri lögð fram 18. desember 2012 hafi 6 mánaða fresturinn samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið útrunninn þegar sakaukastefna var gefin út.
Stefnandi bendir á að aðalstefndi hafi veitt upplýsingar um að varastefndi hafi verið gagnaðili hans í viðskiptunum og tilkynnt um leið varastefnda um veittar upplýsingar í frumsök. Stefnandi hafi ekki verið upplýstur um þann aðila, sem varastefndi taldi réttan málsaðila, fyrr en í greinargerð varastefnda. Ósanngjarnt væri að seinagangur varastefnda við að upplýsa um aðild hlutaðeigandi bitnaði á stefnanda. Þá væri eðlilegt að sökum tengsla allra sakaukastefndu við frumstefndu í frumsök að vitneskja um málshöfðun í frumsök væri á vitorði allra stefndu. Tilgangi málshöfðunarfrestsins, sem sé að koma í veg fyrir óvissu riftunarþola um hvort stefnandi uni ráðstöfun sem um sé deilt, hafi því verið náð með hinni upphaflegu málshöfðun.
IV
Aðalstefndi vísar til þess að viðskiptin, sem krafist sé riftunar á, hafi farið fram í gegnum Euroclear-uppgjörskerfið og að innleiðing Evróputilskipunar nr. 98/26/EC með lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, valdi því að íslensk gjaldþrotaskiptalög gildi ekki um riftun viðskiptanna. Mótaðili stefnanda hafi verið Fortis. Í 7. gr. laga nr. 90/1999 segir að um réttindi og skyldur þátttakenda í greiðslukerfi, sem teknir hafi verið til gjaldþrotaskipta, skuli fara eftir lögum sem gildi um hlutaðeigandi greiðslukerfi. Aðalstefndi vísar til þess að í athugasemdum frumvarps þess, sem orðið hafi að lögum nr. 90/1999, segi um 7. gr. að með orðunum „í greiðslukerfi“, sé vísað til skuldbindinga sem rekja megi til aðildar þátttakenda í greiðslukerfi eða tengist slíkri þátttöku hans á annan hátt. Aðalstefndi telur með vísan til framangreinds að viðskiptunum verði ekki rift á grundvelli íslenskra gjaldþrotaskiptalaga. Aðalstefndi vísar jafnframt til þess að jafnvel þó svo talið yrði að erlend lög yrðu talin gilda um öryggi greiðslufyrirmæla myndi það leiða til sömu niðurstöðu, enda 8. gr. tilskipunarinnar innleidd með samræmdum hætti í Evrópu.
Aðalstefndi byggir á því að erlendar réttarreglur gildi um ágreining aðila og þá lög New York fylkis. Vísar hann að þessu leyti m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 398/2011 og í málum 9-12/2012. Aðalstefndi sé enskur lögaðili með varnarþing á Englandi. Enskir dómstólar myndu beita enskum lögum og lögum New York fylkis eftir því sem við ætti en ekkert tillit sé tekið til þessa í málatilbúnaði stefnanda. Þá séu skilyrði riftunar samkvæmt enskum rétti og lögum New York fylkis ekki fyrir hendi, auk þess sem þar sé ekki litið svo á að kaup útgefanda á skuldabréfi á markaði, og því síður hlutdeild í allsherjarskuldabréfi, feli í sér greiðslu á skuld samkvæmt viðkomandi bréfi. Þetta komi fram í framlagðri samantekt lögmannsstofunnar Freshfields Bruckhaus Deringer frá 30. desember 2008 og komi jafnframt heim og saman við skilmála sjálfrar útgáfulýsingarinnar. Aðalstefndi vísar til þess að framangreindar málsástæður leiði til sýknu og að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að um uppgreiðslu skuldar hafi verið að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Slíka sönnun skorti.
Í öðru lagi byggir aðalstefndi kröfu um sýknu á aðildarskorti. Aðalstefndi heldur því fram að hann hafi aðeins komið fram sem milligönguaðili í umræddum viðskiptum og hafi hvorki móttekið hina riftanlegu greiðslu né hina seldu hluti fyrir eigin reikning. Þannig hafi aðalstefndi ekki verið mótaðili (e. Counterparty) seljanda og kaupanda í hinum umstefndu viðskiptum, enda hafi það hlutverk fallið í skaut Fortis, greiðslujöfnunaraðila aðalstefnda, samkvæmt samningi milli Fortis og aðalstefnda. Fortis hafi jafnframt verið mótaðili varastefnda, King Street sem aðalstefndi telur hafa móttekið kaupverðið í gegnum Fortis. Þannig hafi kaupverðið aldrei haft viðkomu á reikningi aðalstefnda. Aðalstefndi vísar þessu til stuðnings til niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 702/2011. Þá hefðu hvers kyns greiðslur vegna skuldar útgefanda átt að beinast að þriðja aðila, þ.e. forráðaaðila eða greiðslumóttakanda (Deutsche Bank AG), þar sem aðalstefndi hafi ekki verið kröfuhafi stefnanda en 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga taki aðeins til uppgreiðslna milli aðila í skuldarsambandi.
Aðalstefndi vísar til þess að greiðsla stefnanda hafi ekki leitt til neins konar skuldaniðurfellingar og að samkvæmt útgáfulýsingu yrði niðurfelling skuldar að vera framkvæmd af greiðslumóttakanda. Stefnandi hefði því réttilega átt að beina málshöfðun sinni að þeim aðila, sem fellt hafi skuldina niður, hafi slík niðurfelling í raun átt sér stað. Aðalstefndi vísar einnig til þess að hann hafi aldrei verið skráður eigandi hluta í allsherjarskuldabréfinu og þar af leiðandi hafi hann ekki verið þess umkominn að selja þá. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem sýni fram á að aðalstefndi hafi verið seljandi í viðskiptunum né að hann hafi móttekið kaupverðið.
Í þriðja lagi byggir aðalstefndi á því að ekki sé um að ræða greiðslu skuldar þar sem kaup stefnanda á hlut í allsherjarskuldabréfi skoðist, samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar, ekki sem greiðsla á eigin skuld við seljanda.
Aðalstefndi byggir jafnframt á því að jafnvel þótt 134. gr. laga nr. 21/1991 væru talin eiga við um viðskiptin, teldust þau ekki fela í sér uppgreiðslu skuldar í skilningi ákvæðisins þar sem þau leiddu ekki til niðurfellingar skuldar, auk þess sem aðalstefndi hafi ekki verið kröfuhafi stefnanda. Vísist þessu til stuðnings til Hæstaréttardóms nr. 398/2011 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekkert beint skuldarasamband væri á milli útgefanda og hlutdeildareiganda í allsherjarskuldabréfi og að krafa um greiðslu skv. allsherjarskuldabréfi væri ekki hefðbundin skuldabréfakrafa skv. íslenskum rétti. Þá hafi Hæstaréttardómar nr. 162-163/2010 ekkert fordæmisgildi í þessu tilviki þar sem þau mál hafi varðað annars konar hagsmuni þ.e. hefðbundin endurkaup á skuldabréfi útgefanda að íslenskum rétti þar sem óumdeilt var að um beint skuldarasamband væri að ræða.
Aðalstefndi vísar til þess að stefnanda hafi borið að greiða höfuðstóls– og vaxtagreiðslur á gjalddögum til milligönguaðila samkvæmt skilmálum útgáfunnar en ekki til aðalstefnda. Því geti umrædd viðskipti aldrei talist fela í sér greiðslu fyrir gjalddaga.
Bent sé á að hlutirnir í allsherjarskuldabréfum hafi verið keyptir á markaðsvirði á frjálsum markaði og að skuld á degi viðskipta hafi verið hærri en kaupverðið. Sérstaklega sé kveðið á um það í skilmálum útgáfnanna að skuld falli ekki sjálfkrafa niður við frjáls kaup útgefanda. Samkvæmt útgáfulýsingu þurfi að koma til sérstakra aðgerða með atbeina milligönguaðila svo að skuld falli niður. Ákvæði þess efnis væru markleysa ef frjáls sala væri nægileg forsenda skuldaniðurfellingar og sé því ekki unnt að líta svo á að um greiðslu skuldar hafi verið að ræða. Stefnandi hafi samið einhliða skilmála útgáfulýsingarinnar og fjárvörslusamningsins, sem og önnur undirliggjandi skjöl málsins, án nokkurrar aðkomu aðalstefnda.
Þá vísar aðalstefndi til þess að ekki hafi orðið neinn samruni á réttindum og skyldum þegar stefnandi eignaðist hlutina í allsherjarskuldabréfinu. Til að svo hefði verið, hefði útgefandinn þurft að kaupa heildarkröfurnar samkvæmt allsherjarskuldabréfinu frá handhafanum, þ.e. Cede & Co., enda hafi handhafi bréfsins verið eini aðilinn sem flokkast gæti sem kröfuhafi stefnanda fram að gjaldþroti.
Aðalstefndi byggir einnig á því að jafnvel þótt talið yrði að 134. gr. laga nr. 21/1991 ætti hér við, sé ósannað að skuldin hafi verið felld niður eftir kaupin í skilningi ákvæðisins. Þá mótmælir aðalstefndi staðhæfingu stefnanda um að í greiðslum hafi falist brot gegn reglum um jafnræði kröfuhafa, enda hafi aðalstefndi ekki verið kröfuhafi í þessu samhengi. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að vísa til reglunnar um jafnræði kröfuhafa. Ef einhver hafi hagnast á viðskiptunum hafi það verið Fortis sem greiðslujöfnunaraðili og Deutsche Bank sem greiðslumóttakandi f.h. Cede & Co., eiganda bréfsins, eða seljandi hlutarins, þ.e. varastefndi. Þar sem ekki hafi verið vitað hver var kaupandi bréfanna, sé ótækt að halda því fram að óþekktum aðilum hafi verið hyglað.
Mótmælt sé staðhæfingu stefnanda um að ákvæði sem heimila endurkaup útgefanda séu sambærileg ákvæðum sem heimila greiðslu skuldar fyrir gjalddaga. Ákvæði um endurkaup skuldar leiði hvorki til sjálfkrafa niðurfellingar skuldar, né snúi endurkaup að greiðslu til kröfuhafa stefnanda. Aðalstefndi telur að með vísan til framangreinds sé ekki unnt að halda því fram að skuld hafi verið greidd í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Í fjórða lagi byggir aðalstefndi á því að það sé rangt og ósannað að greiðslur hafi átt sér stað fyrir gjalddaga. Þá hafi greiðslurnar ekki falið í sér niðurfellingu skuldar og þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að halda því fram að greitt hafi verið fyrir gjalddaga.
Í fimmta lagi byggir aðalstefndi á því að umrædd viðskipti hafi virst venjuleg eftir atvikum. Nægilegt sé að viðskipti „virðist“ venjuleg þótt svo sé ekki í reynd. Þá geti viðskiptin ekki talist óvenjuleg þar sem beinlíns sé gert ráð fyrir þeim í útgáfulýsingu stefnanda. Þá bendir aðalstefndi á að í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands sé, við mat á því hvort greiðsla hafi virst venjuleg eftir atvikum, litið til þess hvort upphæð skuldar hafi samsvarað upphæð greiðslu til kröfuhafa. Annars geti kröfuhafi ekki vitað eða mátt vita að um greiðslu skuldar fyrir gjalddaga hafi verið að ræða. Í tilviki aðila hafi kaupverð verið lægra en upphæð útistandandi skuldar og því virðist greiðslan ekki hafa verið greiðsla á skuld. Þá hafi stefnandi átt að greiða skuldir á gjalddaga til þriðja aðila samkvæmt útgáfulýsingunum. Greiðslur hefðu ekki átt að berast beint til hlutdeildareigenda og því hafi aðalstefnda ekki getað grunað að um uppgreiðslu væri að ræða fyrir gjalddaga.
Málsatvik hafi verið venjuleg, enda hafi verið um að ræða frjáls viðskipti á milli viljugs kaupanda og viljugs seljanda á markaðsvirði sem lokið hafi verið innan sama dags. Seljandi bréfanna hafi átt frumkvæði að viðskiptunum og aðalstefndi hafi fengið þóknun fyrir að miðla viðskiptunum og þá hafi kaupin verið lítill hluti bæði af heildarupphæð útgáfunnar og af heildarveltu skuldabréfaviðskipta aðalstefnda. Aðalstefndi vísar til þess að endurkaup skuldaútgefanda séu algeng og oft arðbær viðskipti, enda hafi skilmálar allra helstu fjármálastofnana á Íslandi falið í sér skilmála í útgáfulýsingum um slík viðskipti. Kaup á eigin skuldum séu því algeng og venjuleg viðskipti og í tilviki aðila hafi markmiðið og tilgangurinn með kaupunum jafnframt verið venjulegur, þ.e. að stefnandi hagnaðist sjálfur.
Aðalstefndi bendir á að kaupverð hafi gefið til kynna gjaldfærni og að málsaðila hafi ekki grunað að stefnandi kynni að vera ógjaldfær. Samkvæmt mati Hæstaréttar Íslands í dómum réttarins, sem snúist hafi að beitingu 134. gr. laga nr. 21/1991, hafi hættumerki vegna íslenska bankakerfisins ekki verið sýnileg fyrr en 29. september 2008. Að þessu leyti beri að miða við opinberar upplýsingar um gjaldfærni en hins vegar hafi bæði ársreikningar stefnanda og ársfjórðungsreikningar hans á tíma viðskiptanna staðfest gjaldfærni stefnanda. Reikningarnir hafi verið undirritaðar af endurskoðendum sem hafi haft yfirgripsmikla þekkingu á fjárhagsstöðu bankans. Aðalstefndi bendir einnig á að þegar viðskiptin hafi átt sér stað hafi verið almenn trú sérfræðinga og markaðsaðila að stærri fjármálafyrirtæki yrðu ekki látin fara í þrot. Auk þess hafi verð skuldabréfa og hlutabréfa gefið til kynna gjaldfærni sem og ýmsar skýrslur, lánshæfismöt og fleiri greiningargögn.
Bent sé á að ekki verði felld á aðalstefnda sem venjulegan verðbréfamiðlara meiri rannsóknarskylda á gjaldfærni viðskiptamanna sinna en opinber gögn beri með sér. Því hafi aðalstefndi enga ástæðu haft til að ætla annað en að upplýsingar um gjaldfærni bankans væru réttar á þeim tíma sem samið var um viðskiptin. Viðskiptin hafi því verið venjuleg eftir atvikum og í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Aðalstefndi kveðst aldrei hafa móttekið kaupverð og það hafi aldrei haft viðkomu á reikningi sínum og séu staðhæfingar um annað rangar og ósannaðar. Hann hafi aldrei verið skráður eigandi hluta í allsherjarskuldabréfunum og stefnandi hafi ekki lagt fram á gögn sem sýni fram á annað. Skuldarasamband hafi ekki verið milli aðalstefnda og stefnanda, engin skuld hafi verið felld niður og engin skuld hafi verið greidd fyrir gjalddaga. Þar af leiðandi geti ákvæði 142. gr. laga nr. 21/1991 ekki átt við.
Aðalstefndi bendir á að ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að 134. gr. laga nr. 21/1991 og 142. gr. sömu laga ættu við, geti krafa stefnanda aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tjóni búsins vegna viðskiptanna. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna, enda hafi hin endurkeypta skuld ekki verið felld niður. Engin orsakatengsl séu því milli viðskiptanna og hins meinta tjóns. Aðalstefndi bendir á að stefnandi hefði getað endurselt hina endurkeyptu hluti strax eftir kaupin á sama eða sambærilegu verði og þannig komið í veg fyrir meint tjón. Það að stefnandi hafi kosið að endurselja ekki hlutina, og þannig takmarka tjón sitt og jafnvel græða á viðskiptunum, geti ekki talist sök aðalstefnda. Stefnandi eigi því enga kröfu á hendur aðalstefnda.
Aðalstefndi vísar til þess að sú staðreynd að eignaréttur yfir hlutunum hafi færst milli tveggja aðila skerði á engan hátt jafnfræði kröfuhafa, hafi slíkt framsal ekki leitt til sjálfkrafa niðurfellingar skulda.
Aðalstefndi kveðst ekki hafa notið hags af viðskiptunum í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991. Hafi einhver hagnast á viðskiptunum á kostnað annarra kröfuhafa hafi það verið Fortis eða varastefndi. Þá mótmælir aðalstefndi því að önnur skilyrði 142. gr. séu uppfyllt, enda hafi aðalstefndi hvorki vitað né mátt vita að viðskiptin væru riftanleg þar sem slíkt hafi hvorki verið fyrirsjáanlegt né líklegt.
Þá sé ósanngjarnt að fella áhættuna af viðskiptunum á aðalstefnda, enda eðlilegra að kaupandi eða seljandi beri þá áhættu. Aðalstefndi hafi gengið fram sem verðbréfamiðlari í góðri trú og háttsemi hans hafi verið í samræmi við venjuleg vinnubrögð verðbréfamiðlara á fjármálamarkaði. Aðallega skipti máli að upphæðin hafi aldrei verið móttekin af hálfu aðalstefnda og hann ekki haft hag af viðskiptunum sem sé eðli málsins samkvæmt skilyrði endurgreiðslukröfu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Upphæðin hafi verið millifærð beint frá seljanda til kaupanda í gegnum greiðslujöfnunaraðila og aðalstefndi hafi aldrei haldið hinum seldu hlutum fyrir sinn eigin reikning.
Aðalstefndi vísar einnig til 145. gr. laga nr. 21/1991 fari svo að fallist verði á að 134. gr. og 142. gr. sömu laga eigi við í tilviki aðila. Aðalstefndi bendir á að hann sé lítið verðbréfafyrirtæki með takmarkað starfsleyfi sem geri ekki ráð fyrir þeim möguleika að aðalstefndi verði aðili að viðskiptum fyrir eigin reikning og beri á þeim ábyrgð sem slíkur. Þá hafi aðalstefndi sem verðbréfamiðlari ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir svo hárri greiðslu. Yrði fallist á kröfur stefnanda yrði grafið undan verðbréfamiðlun eins og hún sé nú starfrækt um allan heim.
Aðalstefndi hefur uppi þrautavarakröfu um lækkun kröfu stefnanda og byggir þá kröfu á sama rökstuðningi og rakinn hefur verið að framan.
Aðalstefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti með þeim rökum að erlendur réttur gildi um þá og að um túlkun og beitingu þeirra samninga, sem liggi til grundvallar viðskiptum aðila, sé rétt að beita erlendum lögum. Vísar aðalstefndi þessari málsástæðu til stuðnings til 3. gr. og 12. gr. laga nr. 43/2000 og c-liðar 1. mgr. 10. gr. sömu laga. Jafnframt er vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 9-12/2012. Þá mótmælir aðalstefndi því að greiða beri íslenska dráttarvexti af kröfu sem gerð sé í erlendri mynt. Slík krafa fari gegn forsendunni um órjúfanlegt samhengi myntar og vaxta. Jafnframt mótmælir aðalstefndi upphafsdegi vaxta varðandi dráttarvaxtaútreikning stefnanda. Ekki liggi fyrir niðurstaða um það, hvort stefnandi eigi kröfu á hendur aðalstefnda fyrr en við dómsuppsögu í málinu og því gangi þvert gegn tilgangi dráttarvaxtaúrræðisins að reikna dráttarvexti frá fyrra tímamarki.
V
Varastefndi og þrautavarastefndu byggja kröfu um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með engum hætti hafi þeir átt aðkomu að þeim viðskiptum sem krafist sé riftunar á og því beri að sýkna þá af kröfum stefnanda. Vísist til kaupnóta fyrir viðskipti stefnanda og aðalstefnda þar sem fram komi að stefnandi hafi keypt umrædda hagsmuni af aðalstefnda. Kaupnóturnar tilgreini þannig sérstaklega að seljandi hagsmunanna sé aðalstefndi og vísi bæði viðskiptamannanúmer og svonefnt Euroclear númer á kaupnótunum til aðalstefnda. Hvergi hafi á umræddum kaupnótum verið minnst á aðra stefndu.
Aðalstefndi hafi áður keypt umrædda hagsmuni af varastefnda, King Street Capital L.P., sem hafi selt þá til aðalstefnda fyrir hönd þrautavarastefndu. Aðilaskipti að hagsmununum í viðskiptunum milli þrautavarastefndu og aðalstefnda hafi farið fram þegar aðalstefndi hafi átt í viðskiptum við stefnanda og hafi hvorki varastefndi né þrautavarastefndu á neinum tímapunkti haft aðkomu að síðarnefndu viðskiptunum. Þannig hafi varastefndi ekki átt í neinum samskiptum við stefnanda. Aðalstefndi hafi ekki komið fram í viðskiptunum sem milliliður milli King Street-sjóðanna eða varastefnda, heldur hafi verið um að ræða aðskilin viðskipti þar sem aðalstefndi hafi komið fram í eigin nafni og á eigin forsendum í viðskiptum sínum við stefnanda. Aðalstefndi hafi viðurkennt stöðu sína í viðskiptunum í bréfi 27. janúar 2012 en þar komi fram að hann hafi móttekið greiðslurnar á eigin reikning og að hann hafi verið rétthafi greiðslnanna.
Aðalstefndi hafi keypt umrædda hagsmuni í fjórum sjóðum, í nafni King Street Capital L.P., á eigin áhættu og það hafi verið undir aðalstefnda komið að selja hagsmunina áfram til stefnanda eða eitthvert annað eða halda þeim sjálfur. Um leið og aðalstefndi hafi keypt hagsmunina af sjóðunum, hafi hann borið áhættuna af hagsmunum, þ. á m. áhættuna af breytingum á markaðsverði þeirra. Þá liggi fyrir að aðalstefndi hafi ekki selt stefnanda alla þá hagsmuni sem aðalstefndi keypti af King Street-sjóðunum, en slíkt staðfesti þá niðurstöðu að það hafi verið undir aðalstefnda komið með hvaða hætti hagsmunum yrði ráðstafað, enda höfðu þá þegar átt sér stað aðilaskipti að hagsmununum.
Varastefndi og þrautavarastefndu benda á að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að aðalstefndi hefði komið fram í viðskiptum aðila sem milliliður viðsemjanda síns, andstætt kröfum þeirra, þá hafi þeir allt að einu ekki verið viðsemjendur aðalstefnda. Kaupnótur frá aðalstefnda sýni að viðskiptin hafi farið fram í gegnum vörsluþjónustu Morgan Stanley í gegnum Euroclear. Þannig sé Euroclear-númer á kaupnótum í raun númer Morgan Stanley.
Varastefndi bendir á að hagsmunir þeir, sem King Street Capital L.P. seldi aðalstefnda og aðalstefndi seldi síðar að hluta til áfram til stefnanda, hafi auk þess verið í eigu hinna fjögurra King Street-sjóðanna, þ.e. þrautavarastefndu. Því hafi varastefndi ekki haft aðra aðkomu að viðskiptunum og sé því ljóst að varastefndi hafi ekki verið raunverulegur seljandi umræddra hagsmuna og að kaupverðið hafi runnið til eigenda þeirra, þ.e. þrautavarastefndu. Af framangreindum sökum beri að sýkna varastefnda af kröfum stefnanda.
Varastefndi og þrautavarastefndu byggja jafnframt á því að skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt. Um lögskipti aðila gildi lög New York-ríkis, sbr. ákvæði útgáfulýsingar um allsherjarskuldabréfið. Þá er vísað til ákvæða n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem túlka beri með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og til samræmis við ákvæði 30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins nr. 2001/24/EB. Þetta hafi þá þýðingu að forsenda þess að riftun nái fram að ganga sé sú að skilyrði fyrir riftun á Íslandi og í New York-fylki séu uppfyllt. Varastefndi og þrautavarastefndu telja ljóst að hvorki sé í málinu fullnægt skilyrðum bandarískra né íslenskra gjaldþrotaskiptalaga.
Bandarísk gjaldþrotaskiptalög geri að skilyrði fyrir riftun að mál sé höfðað innan skemmri frests en gert sé í tilviki stefnanda, auk þess sem áskilið sé að sönnuð séu svik af hálfu þess sem riftun beinist gegn. Engin slík sönnun liggi fyrir í málinu og því sé ekki unnt að rifta umræddum greiðslum samkvæmt lögum New York-fylkis.
Þá séu skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun ekki fullnægt. Ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða, heldur kaup hagsmuna af aðalstefnda á opnum markaði. Framlagðri íslenskri þýðingu á útgáfulýsingu sé mótmælt sem rangri og villandi. Þá séu ákvæði í útgáfulýsingu um að heimila útgefanda bréfsins að innkalla það og að handhafi hafi möguleika á að endurgreiða bréfið, ef mælt sé fyrir slíkum rétti í verðviðauka og þá fyrir gjalddaga allsherjarskuldabréfsins. Í verðvikauka sé skýrt tekið fram að útgefandi, þ.e. stefnandi, hafi ekki rétt til að innkalla allsherjarskuldabréfið nema vegna skattalegra ástæðna. Hins vegar sé útgefandi, að beiðni handhafa allsherjarskuldabréfsins, skyldugur til þess að innkalla bréfið, í heild eða að hluta, og með þeim hætti geti handhafi krafist þess að bréfið sé endurgreitt fyrir gjalddaga. Þá sé í útgáfulýsingu umfjöllun um rétt útgefanda til að kaupa bréf á hvaða verði sem er á opnum markaði eða með öðrum hætti. Slíkum bréfum megi kaupandi halda, selja aftur eða afhenda fjárvörsluaðila til niðurfellingar.
Þeir hagsmunir, sem mál þetta lúti að, hafi ekki verið keyptir af útgefanda með framangreindum skilmálum, þ.e. kaupin hafi ekki farið fram fyrir tilstilli handhafa allsherjarskuldabréfsins, Cede & Co. Því sé ljóst að kaup stefnanda á hagsmunum frá aðalstefnda hafi átt sér stað á opnum markaði. Kaupnótur styðji þá niðurstöðu, enda sé þar vísað til þess að um markaðspöntun hafi verið að ræða. Þannig hafi það verið undir stefnanda sjálfum komið hvort hann framseldi hagsmunina, sem hann keypti í allsherjarskuldabréfinu, til þriðja aðila, héldi þeim sjálfur fram að gjalddaga eða hvort hann afhenti þá fjárvörsluaðila til niðurfellingar.
Varastefndi og þrautavarastefndu benda á að til að niðurfelling geti átt sér stað þurfi útgefandi að tilkynna DBTCA sem fjárvörsluaðila um kaupin og óska eftir því við fjárvörsluaðila að hagsmunir séu felldir niður í samræmi við ákvæði 3.9 í fjárvörslusamningi. Sjálfkrafa niðurfelling sé þannig ómöguleg. Af hálfu stefnanda hafi engin gögn verið lögð fram sem sýni fram á að höfuðstóll allsherjarskuldabréfsins hafi verið færður niður sem nemi fjárhæð þeirra hagsmuna sem stefnandi keypti af aðalstefnda. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að höfuðstóll allsherjarskuldabréfsins hafi verið sá sami fyrir og eftir viðskiptin og að hann hafi því ekki verið færður niður.
Í þessu sambandi breyti engu möguleg bókhaldsleg meðferð á viðskiptum, enda sýni slík meðferð ekki fram á að skuldin hafi í raun verið felld niður á grundvelli útgáfulýsingar og fjárvörslusamnings. Innri bókhaldsreglur stefnanda séu málinu óviðkomandi. Með vísan til framangreinds hafi því hvorki verið um greiðslu skuldar að ræða né niðurfellingu kröfu og beri því, þegar af þeirri ástæðu, að sýkna varastefnda og þrautavarastefndu af kröfum stefnanda.
Hagsmunaeigendur séu ekki kröfuhafar í skilningi íslensks kröfuréttar. Hvorki varastefndi né sjóðirnir hafi þannig átt kröfu á hendur stefnanda og þá hafi stefnandi ekki verið í stöðu skuldara gagnvart sjóðunum. Einungis Cede & Co. hafi verið skráður eigandi og handhafi allsherjarskuldabréfsins og haft stöðu kröfuhafa gagnvart stefnanda. Í útgáfulýsingu komi skýrt fram að allsherjarskuldabréfið sé skráð á nafn Cede & Co. samkvæmt tilnefningu DBTCA og hafi Cede & Co. verið eigandi og handhafi allsherjarskuldabréfsins.
Með útgáfulýsingu hafi stefnandi skuldbundið sig gagnvart eiganda og handhafa allsherjarskuldabréfsins, þ.e. Cede & Co. til að greiða höfuðstól bréfsins ásamt vöxtum, í gegnum DBTCA. Cede & Co. hafi þannig verið eini kröfuhafi allsherjarskuldabréfsins. Því sé um að ræða aðskilin kröfuréttarsambönd að ræða þar sem hvorki aðalstefndi né varastefndi hafi verið í skuldarsambandi við stefnanda.
Þá sé í fjárvörslusamningnum ákvæði um að réttur aðili til að taka á móti greiðslu höfuðstóls og vaxta sé Cede & Co. en jafnframt sé kveðið á um að útgefandi og fjárvörsluaðili megi ganga út frá því að skráður eigandi að allsherjarskuldabréfinu sé réttur aðili til þess að beina öllum tilkynningum að og til að taka á móti greiðslum höfuðstóls og vaxta. Þá komi enn fremur fram að hvorki útgefandi né fjárvörslueigandi skuli vera skyldugir eða ábyrgir gagnvart hagsmunaeigendum, hvorki hvað varði greiðslur til þeirra né með öðrum hætti.
Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefnandi hafi ekki getað einhliða komist hjá greiðsluskyldu sinni gagnvart Cede & Co., t.a.m. með því að greiða eigendum hagsmuna milliliðalaust hlutdeild þeirra í heildarkröfu Cede & Co. á hendur stefnanda. Ljóst sé að ekkert skuldarsamband hafi verið milli stefnanda og varastefnda sem valdi sýknu.
Varastefndi og þrautavarastefndu halda því fram að um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða sem ekki geti talist greiðsla á skuld. Af kaupnótum megi ráða að öll viðskiptin séu merkt sem markaðspantanir. Í því felist að um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða þar sem afhending hagsmuna gegn greiðslu gagngjalds hafi verið forsenda viðskipta og átt sér stað samtímis. Þannig hafi stefnandi gegn greiðslu til aðalstefnda fengið afhenta hagsmuni sína í allsherjarskuldabréfinu samtímis greiðslu. Þá hafi greiðslur fyrir hagsmuni ákvarðast af því sem markaðurinn hafi verið tilbúinn að greiða fyrir þá. Varastefndi hafi samið um sölu hagsmunanna fyrir hönd King Street-sjóðanna, þrautavarastefndu, og hafi verð verið miðað við markaðsvirði. Þannig hafi ákvörðun kaupverðs verið algerlega óháð ákvæðum útgáfulýsingarinnar að því er varðar höfuðstól og vexti. Kaupverðið hafi því ekki numið uppgreiðsluverðmæti meintra skulda. Með vísan til framangreinds telur varastefndi ljóst að um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða sem verði til þess að sýkna beri af kröfum stefnanda.
Varastefndi og þrautavarastefndu benda á að stefnandi hafi ekki byggt á reglunni um samruna réttinda og skyldna. Komi slíkar málstæður til á síðari stigum, geti meginreglan ekki komið til álita þegar aðeins sé um að ræða kaup á hagsmunum í allsherjarskuldabréfi, enda skilmálar allsherjarskuldabréfsins skýrir um að lögskipti vegna bréfsins fari eftir lögum New York-fylkis. Því gildi lög þess fylkis um lögskiptin og 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, tryggi að fara skuli að lögum New York-fylkis en samkvæmt þeim lögum gildi umrædd meginregla ekki. Þótt fallist yrði á að mótbárur byggðar á téðri meginreglu kæmust að í málinu, vísar varastefndi til þess að skilyrði séu uppfyllt til þess að víkja frá reglunni og vísist í því tilliti framangreindrar umfjöllunar um að ekkert skuldarsamband sé milli aðila. Þótt talið yrði að skuldarsamband væri milli aðila, mætti allt að einu víkja frá reglunni þar sem kaup útgefanda á eigin skuldabréfi feli ekki í sér óhjákvæmilegan samruna réttinda og skyldna þannig að kröfuréttindum ljúki.
Þá byggja varastefndi og þrautavarastefndu á því að greiðslurnar hafi ekki átt sér stað fyrr en eðlilegt var en greiðsla stefnanda hafi falið í sér staðgreiðsluviðskipti. Hagsmunir í allsherjarskuldabréfi gangi kaupum og sölum fyrir gjalddaga enda verði bréfið verðlaust á gjalddaga við uppgreiðslu þess. Kaupverð hafi farið eftir sveiflum á almennum markaði og vitneskja um kaupendur ekki til staðar þegar viðskipti áttu sér stað. Því sé ómögulegt að halda því fram að gerningar hafi verið til þess fallnir að hygla einum kröfuhafa umfram annan. Þá hafi allir eigendur hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu átt þess kost að selja hagsmuni sína á eftirmarkaði, undir nafnvirði, eins og varastefndi hafi ákveðið að gera, fyrir hönd King Street-sjóðanna. Sú staðreynd að hagsmunaðilar í allsherjarskuldabréfinu kusu að selja ekki, feli ekki í sér mismunun heldur viðskiptalega ákvörðun hvers hagsmunaaðila fyrir sig.
Yrði fallist á að um skuld hafi verið að ræða sem greidd hafi verið fyrr en eðlilegt var, hafi greiðslan allt að einu verið eðlileg eftir atvikum. Vísist í því tilliti til fjölda framlagðra gagna, sem sýni fram á að slík viðskipti hafi verið algeng á íslenskum jafnt sem erlendum markaði, staða stefnanda hafi litið vel út í opinberum gögnum og fjárhagsstaða stefnanda hafi litið vel út. Því hafi varastefnda og þrautavarastefndu ekki verið ljóst að fjárhagsleg staða stefnanda hafi verið bág á umræddum tíma og engin sönnunargögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að svo hafi verið. Auk þessa heimili ákvæði í útgáfulýsingu stefnanda að kaupa hagsmuni í allsherjarskuldabréfi á eftirmarkaði en slíkt ákvæði sé til vitnis um að um venjubundin viðskipti sé að ræða.
Þótt erfiðleikar hafi verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, hafi ekki verið ástæða til að ætla að þeir sneru með einhverjum hætti sérstaklega að stefnanda, enda hafi opinber gögn ekki bent til þess, auk þess sem um alvanaleg viðskipti hafi verið að ræða.
Varastefndi og þrautavarastefndu byggja á því að þótt skilyrði riftunar samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 verði talin vera fyrir hendi, beri að sýkna af kröfum stefnanda vegna tómlætis. Umrætt viðskipt hafi átt sér stað í september 2008 en fyrst þremur árum síðar hafi stefnandi haft samband við aðalstefnda og óskað upplýsinga um þau. Fyrstu samskiptin við varastefnda hafi hins vegar átt sér stað 25. júní 2012 eða tæpum fjórum árum eftir að viðskiptin urðu.
Hvað varðar kröfu stefnanda um endurgreiðslu samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 telja varastefndi og þrautavarastefndu að sýkna beri af slíkri kröfu, óháð því hvort umrædd viðskipti teljist riftanleg eður ei. Skilyrði endurgreiðslukröfu séu að sá sem riftun beinist gegn hafi haft hag af ráðstöfun sem sé rift og að þrotabú hafi orðið fyrir tjóni. Slík sönnun liggi ekki fyrir en sönnunarbyrði hvíli á stefnanda. Því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að varastefndi og þrautavarastefndu hafi hagnast með þeim hætti sem stefnandi haldi fram.
Fyrir liggi að kaupverð stefnanda af hagsmunum hafi verið yfir nafnvirði þeirra og því óljóst hvernig tjón hafi hlotist af sölu hagsmuna miðað við gengi á þeim tíma. Hagsmunir hafi hækkað eftir kaup stefnanda og því hafi stefnanda verið mögulegt að selja hagsmunina með hagnaði á eftirmarkaði. Þá hafi kaup stefnanda leitt til þess að hagsmunir hafi verið felldir niður, líkt og haldið sé fram af hálfu stefnanda, og verði að gera ráð fyrir því að skuldir stefnanda hafi lækkað sem nemi nafnvirði hagsmunanna, sem keyptir voru á undirverði. Tjón hafi því ekkert orðið
Til þrautavara sé krafist lækkunar á kröfum stefnanda og sé byggt á því að tjón stefnanda nemi undir engum kringumstæðum umkrafinni fjárhæð. Raunar hafi þrautavarastefndu keypt hagsmuni á meðalkaupverði sem hafi verið hærra en söluvirði þeirra og hafi þeir því í reynd tapað á viðskiptunum. Auðgun sjóðanna geti í öllu falli aldrei numið hærri fjárhæð en sem söluverði nemur.
Þá liggi ekkert fyrir um hvernig stefnandi fór með hagsmunina eftir að hann keypti þá af aðalstefnda, t.d. hvort hluti hagsmuna hafi verið nýttir til tekna. Komi slíkt í ljós telji varastefndi slíkan hagnað stefnanda koma til lækkunar stefnukröfum.
Lækkunarkrafa styðjist jafnframt við 145. gr. laga nr. 21/1991, enda sé ósanngjarnt að gera kröfu um stefnufjárhæð málsins á hendur varastefnda. Fjögur ár séu frá því umrædd viðskipti hafi átt sér stað, ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða, engum kröfuhafa hafi verið gert hærra undir höfði en þeim næsta. Þá sé fjárkrafan mjög há og yrði að líta sem svo á að stefnandi hafi leynt upplýsingum um fjárhag sinn, yrði komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum. Að öðru leyti vísist til framangreindra málsástæðna hvað varðar frekari rökstuðning fyrir lækkunarkröfu varastefnda.
Kröfum um vexti sé sérstaklega mótmælt enda andsætt lögum nr. 38/2001 að krefjast íslenskra dráttarvaxta af stefnukröfu í erlendri mynt. Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt enda engin efni til að krefjast dráttarvaxta fyrr en við dómsuppsögu þegar fyrst verður ljóst hvort stefnandi eigi kröfu á hendur varastefnda. Fyrr geti ekki verið um að ræða vanefndir á greiðslu sem réttlæti dráttarvexti. Þá sé í öllu falli ekki unnt að krefjast frekari dráttarvaxta fyrr en mánuði frá birtingu stefnu, þar sem krafa gegn varastefnda kom fyrst fram.
Krafa varastefnda um málskostnað úr hendi stefnanda byggi á 129-130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að öðru leyti sé byggt á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, lögum nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum, lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk almennra reglna samninga – og kröfuréttar. Þá sé jafnframt byggt á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/25/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnanna, sem og lögum New York-ríkis og bandarískum gjaldþrotaskiptalögum.
VI
Hinn 27. september 2006 og 5. október 2006 gaf stefnandi út verðviðauka vegna skuldabréfa að nafnvirði 1.500.000.000 USD í tengslum við áðurnefnda skuldabréfaútgáfu að fjárhæð 10.000.000.000 USD. Þessi verðviðauki fékk ISIN númerið US48632GAA76 og gjalddagi skuldabréfa í skuldabréfaútgáfunni var 4. október 2011.
Ekki er í máli þessu tölulegur ágreiningur. Hér á eftir verður tekin afstaða til málsástæðna aðila í tölusettum köflum.
1. Aðild
1. 1. Aðalstefndi Brains Inc. Ltd.
Samkvæmt framlögðum kaupnótum kemur fram að seljandi hagsmunanna sé aðalstefndi og byggir stefnandi kröfu sína á hendur aðalstefnda á því að bæði viðskiptamannanúmer og svonefnt Euroclear-númer á kaupnótunum vísi á aðalstefnda. Aðalstefndi heldur því hins vegar fram að Fortis, greiðslujöfnunaraðili stefnanda, hafi komið fram sem mótaðili (e. Counterparty) stefnanda í viðskiptunum. Fortis hafi móttekið kaupverð og hlutdeildir eða skuldabréf í eigin nafni og í gegnum eigin reikninga hjá Euroclear samkvæmt gr. B2 (a) í greiðslujöfnunarsamningi milli Fortis og aðalstefnda. Aðalstefndi hafi því hvorki móttekið skuldabréfahlutdeildir frá stefnanda né kaupverð frá kaupanda á eigin reikning. Endanlegur móttakandi kaupverðs hafi því verið varastefndi, King Street (Europe) LLP í gegnum Fortis. Þrátt fyrir efni fyrirliggjandi kaupnótna, hafi kaupverð bréfanna því aldrei haft viðkomu á eigin reikningi aðalstefnda. Aðalstefndi heldur því fram að hlutverk sitt í viðskiptunum hafi eingöngu falist í því að miðla saman viljugum aðilum til kaupanna og fyrir þá vinnu hafi verið greidd þóknun. Tímabundin millilending fjármuna á reikningi eða í bókhaldsfærslum aðalstefnda hafi því ekkert vægi að þessu leyti, enda hafi aðalstefndi einungis haft stöðu miðlara við viðskiptin en ekki stöðu kaupanda.
Stefnandi telur aðalstefnda réttan aðila að málinu með vísan til kaupnótnanna, auk þess sem aðalstefndi hafi sjálfur viðurkennt í samskiptum sínum við stefnanda í aðdraganda málsóknarinnar að hafa verið verið sá sem hagnaðist á viðskiptunum og aðili að þeim. Stefnandi byggir á því að samningssamband Fortis og aðalstefnda sé honum óviðkomandi og að slíkt samningssamband komi aðalstefnda ekki undan riftunarreglum laga nr. 21/1991. Þá vísaði stefnandi undir rekstri málsins einnig til þess að samkvæmt einhliða yfirlýsingu Fortis hafi fyrirtækið ábyrgst uppgjör viðskiptanna eftir að þau komust á milli stefnanda og aðalstefnda.
Sú skuldabréfaútgáfa sem um ræðir byggir sem fyrr greinir á útboðslýsingu (e. Offering Circular) dagsettri 26. apríl 2006, verðviðauka (e. Pricing Supplement), dagsettum 5. október 2006 og á fjárvörslusamningi stefnanda við DBTCA, dagsettum 12. apríl 2006. Á grundvelli skilmálana sem saman standa af þremur tilgreindum skjölum gaf stefnandi út allsherjarskuldabréf með ISIN nr. US48632GAA76 og voru hinir umdeildu hagsmunir í því allsherjarskuldabréfi sem deila aðila snýst um.
Samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar var allsherjarskuldabréfið við útgáfu þess afhent „The Depository Trust Company“ og skráð á nafn Cede & Co. sem þar með varð handhafi og eigandi allsherjarskuldabréfsins. Eftir afhendingu allsherjarskuldabréfsins til Cede & Co., voru þeir sem útgáfulýsingin tilgreindi sem sölu – eða áskriftaraðila hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu skráðir fyrir viðkomandi hagsmunum. Af verðviðaukanum voru Citigroup Global Market Inc., Credit Suisse Securities (USA), L.L.C, Lehman Brothers, Inc., og Merill Lynch, Pierce, Fenner & Smith, Inc. hvert skráð fyrir hagsmunum að nafnvirði 375.000.000 bandaríkjadala. Þessir áskriftaraðilar sáu svo um áframhaldandi sölu hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu á eftirmarkaði (e. secondary market) þar sem hagsmunirnir gengu kaupum og sölum milli fjárfesta. Viðskiptin á eftirmarkaði fóru fram með þeim hætti að aðeins var sýslað með hagsmunina í allsherjarskuldabréfinu og þannig aðeins hagsmunirnir sem slíkir sem gengu kaupum og sölum á eftirmarkaði. Allsherjarskuldabréfin sjálf eru þannig ávallt í vörslu handhafa og eiganda þeirra, þ.e. Cede & Co.
Gera þarf greinarmun annars vegar á allsherjarskuldabréfinu sem slíku og þeim hagsmunum sem rúmast innan þess ramma. Þannig má segja að uppbygging allsherjarskuldabréfaútgáfunnar hafi verið með þeim hætti að stigskipt vörslukerfi hélt utan um rafrænar skráningar hvers þátttakanda skuldabréfaútgáfunnar, án þess að tekin væri ábyrgð á skráðum eignarhlut hvers eiganda fyrir sig, enda kom DBTCA fram sem svokallaður forgangsvörsluaðili (e. Senior Trustee). Sem slíkur kom DBTCA fram, samkvæmt vörslusamningi, sem umsjónaraðili greiðslna (e. Paying Agent). Um rafræna eignaskráningu er sérstaklega fjallað þar sem útskýrt er nánar hlutverk forgangsvörsluaðila með þeim hætti að DBTCA áskapi þátttakendum í allsherjarskuldabréfaútgáfunni rafrænt skráningarkerfi þar sem hverjum sem vill gefst færi á að kaupa hagsmuni í allsherjarskuldabréfaútgáfu en við slík kaup séu verðbréf almennt skráð í nafni Cede & Co., nema annað sé tekið fram. Hinir beinu þátttakendur í allsherjarskuldabréfaútgáfunni, þ.e. kaupendur, séu verðbréfamiðlarar, bankar, vörslufyrirtæki, greiðslujöfnunarfyrirtæki og ákveðnar aðrar stofnanir. Þá séu þessir þátttakendur sem beri ábyrgð á því að halda utan um eignarhlutdeildir sínar fyrir hönd sinna viðskiptavina.
Miðað við framangreint fóru endurgreiðslur á grundvelli allsherjarskuldabréfs fram með þeim hætti að skuldari allsherjarskuldabréfsins, þ.e. stefnandi, greiddi kröfuhafanum, handhafa og eiganda allsherjarskuldabréfsins, þ.e. Cede & Co., höfuðstólinn og áfallna vexti. Fjársýsluaðilinn f.h. Cede & Co., kom greiðslunum áfram til sölu – og áskriftaraðilanna sem komu greiðslunum áfram til viðsemjanda og þannig gengu greiðslurnar að endingu til eiganda hagsmunanna í allsherjarskuldabréfinu.
Sem fyrr greinir eru verðviðaukar gefnir út á grundvelli útboðsyfirlýsingar og flyst eignarétturinn raunar aldrei yfir til fjárvörsluaðila heldur til sölu- og áskriftaraðila hagsmunanna í allsherjarskuldabréfinu, og þaðan til kaupenda, t.d. greiðslujöfnunarfyrirtækja. Miðað við kaupnótur sem liggja fyrir í málinu virðist sem aðalstefndi hafi verið sá aðili sem skráður var fyrir hagsmununum. Hins vegar hafa einnig verið lögð fram í málinu yfirlit bankareiknings aðalstefnda á því tímabili sem greiðslurnar bárust en samkvæmt þeim bárust engar greiðslur frá stefnanda til aðalstefnda. Aðalstefndi hefur haldið því fram að kaupnóturnar séu tilkomnar vegna samnings aðalstefnda við Fortis um þjónustu í tengslum við greiðslujöfnun. Hafi Fortis samþykkt að gera upp og jafna viðskipti í eigin nafni og á eigin ábyrgð á grundvelli afhendingar gegn greiðslu. Fortis hafi þannig gefið út allar kvittanir vegna færslna beint til viðskiptavinar aðalstefnda í eigin nafni með tilvísun til aðalstefnda en aðalstefndi hafi aldrei móttekið kaupverðið né hina seldu hluta.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að aðalstefndi hafi greitt fyrir hina keyptu hluti með eigin fjármunum en fyrir liggur að hlutirnir voru afhentir á sama tíma og greiðsla barst. Þá verður ekki annað séð en að þóknun sú, sem aðalstefndi þáði vegna viðskiptanna, hafi verið með þeim hætti að samrýmist fullyrðingum aðalstefnda um að hún hafi verið þóknun fyrir verðbréfamiðlun. Af gögnum málsins þykir því hvorki leitt í ljós að umrædd viðskipti hafi farið fram fyrir reikning aðalstefnda né að hann hafi haft þann fjárhagslega hagnað sem af viðskiptunum leiddi og telst það ósannað. Er það því niðurstaða dómsins að aðalstefndi hafi komið fram sem miðlari í þeim viðskiptum, sem stefnandi krefst riftunar á, og telst aðalstefndi því ekki vera réttur aðili að máli þessu. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna aðalstefnda, Brains Inc. Limited, af dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts með vísan til ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
1. 2. Varastefndi King Street LLP
Samkvæmt ráðgjafasamningi, Investment Sub Adivisory Agrrement, dagsettum 29. júní 2007 við King Street Capital Management, L.L.C. og tiltekna fjóra fjárfestingasjóði tók varastefndi að sér fjárfestingaráðgjöf og fjárfestingastjórnun fyrir umrædda sjóði undir stjórn King Street Management L.P. Samkvæmt grein 3.2 í samningnum tók varastefndi að sér að kaupa, halda, selja eða eiga með öðrum hætti viðskipti með fjármálagerninga fyrir hönd sjóðanna fjögurra. Varastefndi, King Street Europe LLP var einn hinna fjögurra sjóða er féllu undir King Street Capital Management L.P. Varastefndi fellur undir svokallaða evrópskra sjóði sem fjárfesta einkum á evrópskum mörkuðum.
Gerður var samningur við Morgan Stanley & Co. Incorporated af hálfu King Street-sjóðanna. Hlutverk Morgan Stanley & Co. Incorporated var að vera vörsluaðili og halda utan um kaup og sölu fjármálagerninga fyrir sjóðina. Í gegnum vörsluþjónustu Morgan Stanley & Co., Incorporated og Bear Sterns Companies Inc., keyptu King Street sjóðirnir hagsmuni í allsherjarskuldabréfi stefnanda með ISIN nr. US48632GAA76. Það var í gegnum þessa vörsluþjónustu sem varastefndi keypti hagsmuni í skuldabréfaútgáfunni.
Óumdeilt er milli aðalstefnda og varastefnda að kaup hafi átt sér stað milli stefnanda og aðalstefnda og fyrirliggjandi kaupnótur styðja þá fullyrðingu. Kaupnóturnar tilgreina sérstaklega að seljandi hagmunanna hafi verið aðalstefndi en hvergi er minnst á varastefnda á téðum kaupnótum. Með vísan til framangreinds er ljóst að aðalstefndi móttók ekki fjármuni og því rangur aðili að málinu, en engu að síður er ljóst að samkvæmt kaupnótum var aðalstefndi skráður fyrir viðskiptum á kaupnótum, en varastefndi hvergi tilgreindur. Kaupnótur sýna að viðsemjandi hafi verið King Street Capital, L.P. og að viðskipti hafi farið fram í gegnum framangreinda vörsluþjónustu Morgan Stanley & Co., Incorporated og Bear Sterns Companies Inc., í gegnum Euroclear. Út frá gögnum málsins fæst ekki séð að varastefndi hafi haft nokkra aðkomu að viðskiptum aðalstefnda og stefnanda heldur haft viðkomu að viðskiptunum í gegnum vörsluþjónustu Morgan Stanely & Co., Incorparated og Bear Sterns Compaies Inc., og þannig verið liður í öðru skuldarasambandi innan sama skuldabréfaútboðs. Í þeim viðskiptum hafi King Street Capital LLP komið fram sem móðursjóður fyrir hönd fylgisjóða sinna, þ.m.t. varastefnda. Ber því að sýkna varastefnda, King Street LLP vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
1. 3. Þrautavarastefndu (aðallega King Street Capital L.P., til vara King Street Capital Ltd., King Street Europe, L.P., og King Street Europe Master Fund Ltd., en til þrautavara King Street Capital, L.P. f.h. King Street Capital Ltd., King Street Europe, L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd)
Þrautavarastefndi 1, King Street Capital L.P., var samlagsfélag sem tilheyrði King Street Capital Management L.P. Staða King Street Capital L.P. var sú að innan félagseiningarinnar gegndi hann því hlutverki að fjárfesta á alþjóðlegum mörkuðum. King Street Capital L.P. er sameignafélag skráð í Delawere í Bandaríkjunum. Eitt helsta einkenni samlagsfélaga er að innan þeirra eru tvær tegundir félagsmanna, annars vegar einn félagsmaður (eining innan samstæðu), sem ber beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, og hins vegar einn eða fleiri félagsmenn (dótturfélög í samstæðu) sem bera ábyrgð á skuldbindingum sem nemur þeirra eigin fjárframlagi. Fyrir liggur að gerður var ráðgjafasamningur, Investment Sub Advisory Agreement, hinn 29. júní 2007 við King Street Capital Management L.L.C. um fjóra fjárfestingasjóði en varastefndi tók að sér fjárfestingaráðgjöf og fjárfestingastjórnun fyrir umrædda sjóði undir stjórn King Street Capital Management L.L.C. Í ljósi stöðu sinnar framkvæmdi King Street Captital L.P. hin umdeildu viðskipti fyrir hönd King Street-sjóðanna.
Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti yfir reikninga King Street Capital L.P. móttók hann hina umdeildu fjármuni inn á reikninga sína. Ekki liggur annað fyrir en að þessi þrautavarastefndi hafi í þessum tilvikum komið fram sem greiðandi fyrir hlutina og á vissu tímabili verið skráður eigandi nafnverðsfjárhæðar þeirra samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar, að frádreginni þóknun vegna viðskiptanna. Þannig hafi fjármunirnir borist inn á reikning þrautavarastefnda frá greiðslujöfnunaraðila. Þrautavarastefndi hefur ekki fært sönnur á að hann hafi einungis haft milligöngu um viðskiptin fyrir hönd annarra King Street-sjóða. Við túlkun 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er tímamark riftanlegrar ráðstöfunar miðað við greiðsluna sjálfa og er það því afhending fjármuna sem ræður úrslitum hvenær greiðsla á sér stað. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að málsókn stefnanda sé réttilega beint að þrautavarastefnda 1, King Street Capital L.P. Eins og kröfugerð stefnanda á hendur þrautavarastefndu er sett fram í sakaukastefnu og lýst hefur verið, koma ekki til frekari skoðunar málsástæður aðila að því er varðar aðild annarra þrautavarastefndu og verða þeir því sýknaðir af dómkröfum stefnanda.
2. Skilyrði riftunar samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi krefst riftunar á umræddum greiðslum á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæði þetta gildir við slit fjármálafyrirtækis samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þegar ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 er í XX. kafla laganna sem fjallar um riftun ráðstafana til þrotamanns. Þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema að greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að greiðslurnar sem krafist er riftunar á hafi falið í sér greiðslur á skuld sem innt hafi verið af hendi fyrr en eðlilegt var.
Frestdagur við slitin var 15. nóvember 2008 og greiðslurnar voru inntar af hendi 12. september 2008. Því er ljóst að greiðslurnar áttu sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Aðila greinir hins vegar á um hvort unnt sé að líta svo á að með greiðslunum hafi stefnandi greitt skuld fyrr en eðlilegt var og ef svo er, hvort þær hafi virst venjulegar eftir atvikum.
Stefnandi var skuldari samkvæmt umræddu allsherjarskuldabréfi sem umræddir hlutir tilheyrðu. Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 eiga einungis við þegar skuld er greidd. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið þykir ljóst að stefnandi var í skuld á grundvelli fyrrgreindra skuldabréfa þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Við þær aðstæður sem hér eru uppi þykir ekki skipta máli við túlkun 134. gr. laga nr. 21/1991 þótt milligönguaðili hafi einn átt rétt á því að hafa uppi kröfu á grunni skuldabréfanna á hendur stefnanda í þágu eigenda kröfuréttindanna. Ekki verður fallist á það með stefnanda, að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 398/2011, eða í síðari dómum réttarins um hliðstæð efni, sýni að raunverulegir eigendur að hlutum í allsherjarskuldabréfi eigi ekki kröfurétt samkvæmt þeim.
Kemur næst til skoðunar hvort þær greiðslur, sem inntar voru af hendi af stefnanda geti talist greiðsla á skuld í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 sem hafi farið fram fyrr en eðlilegt var. Ekki hefur verið talið að skýra ætti ákvæðið svo þröngt að það taki einungis til greiðslna sem fela með skýrum hætti í sér efndir á skuldbindingum skuldarans. Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 162 og 163/2010, sem í dómum réttarins í málum nr. 702/2011 og nr. 545/2013, hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla vegna kaupa útgefanda á kröfu samkvæmt skuldabréfi eða öðrum skuldaskjölum feli í sér greiðslu skuldar í þessari merkingu, enda falli krafa þá niður samkvæmt meginreglu kröfuréttar þar eð réttindi og skyldur eru þá á sömu hendi. Á það jafnvel við þótt greiðslan sé annarrar og lægri fjárhæðar en sem nemur lækkun á skuldbindingu útgefandans.
Í því máli sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að samkvæmt skýrum skilmálum útgáfulýsingarinnar giltu lög New York-fylkis um viðskipti með hlutdeild í allsherjarskuldabréfum sem gefin voru út á þeim grundvelli. Í útgáfulýsingunni voru jafnframt ákvæði sem tóku til endurkaupa stefnanda á hlutum í allsherjarskuldabréfunum. Inntak ákvæðanna er að keypt skuldabréf sé heimilt að eiga, endurútgefa, endurselja eða að vali útgefanda, afhenda hvaða umsjónaraðila greiðslna sem er til niðurfellingar. Útgáfulýsing var þannig úr garði gerð að sérstakra aðgerða var þörf, með atbeina milligönguaðila eða umsjónaraðila greiðslna (e. Paying Agent), til þess að fella niður skuld. Slík ákvæði væru merkingarlaus ef litið yrði svo á að skuldin félli sjálfkrafa niður við endurkaup.
Við túlkun útgáfulýsingarinnar verður að taka mið af bandarískri löggjöf og þegar litið er til þeirra gagna, sem lögð hafa verið fram um efni hennar, verður ráðið að þar gildi ekki afdráttarlaus regla um að kröfuréttindi á grundvelli skuldabréfa falli niður við það að réttindi og skyldur samkvæmt þeim færist á sömu hendi.
Það er mat dómsins að af útgáfulýsingunni megi ráða að útgefandi allsherjarskuldabréfs teljist eigandi þeirra hlutdeildar í bréfinu, sem hann aflar á frjálsum markaði, og eigi að njóta réttinda samkvæmt því ef hann lætur hjá líða að fara fram á það við vörsluaðila allsherjarskuldabréfsins að skuldbinding hans samkvæmt því verði lækkuð sem nemur nafnvirði hlutdeildarinnar. Slík beiðni hefði því verið nauðsynleg til þess að endurkaup stefnanda á hlutdeild í allsherjarskuldabréfinu gengi til lækkunar á skuld hans. Að íslenskum rétti er ekkert því til fyrirstöðu að skuldari skuldbindi sig á þann veg að vikið sé frá meginreglum kröfuréttar um að krafa falli sjálfkrafa niður við samruna réttinda og skyldna en það virðist stefnandi hafa gert með útgáfulýsingunni.
Með hliðsjón af framangreindu liggur ekki fyrir að endurkaup stefnanda á umræddum hlutum hafi gengið til lækkunar á skuldbindingum hans samkvæmt skuldabréfunum. Engu breytir þótt stefnandi hafi sjálfur fært kaupin þannig til bókar í reikningum sínum að skuldbindingar hans lækkuðu sem þessu nemur. Því liggur ekki fyrir að greiðslurnar, sem stefnandi innti af hendi til þrautavarastefnda sem endurgjald fyrir hlutina, hafi falið í sér greiðslu skuldar fyrr en eðlilegt var þannig að ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við.
Þá er það mat dómsins að af hálfu allra stefndu hafi verið færð fyrir því viðhlítandi rök að greiðslurnar hafi virst venjulegar eftir atvikum þannig að stefnanda sé ekki unnt að bera 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir sig. Í skilmálum framangreindrar útgáfulýsingar vegna skuldabréfaútgáfunnar var gert ráð fyrir því að stefnandi gæti keypt hlutdeildirnar á frjálsum markaði m.a. í því skyni að lækka skuldbindingar sínar. Gáfu kaup stefnanda honum því færi á að lækka skuldir og bókfæra muninn á endurkaupsverði og nafnverði sem hagnað og verður að ætla að þess vegna hafi bankinn talið endurkaupin vera sér hagstæð og m.a. haft í för með sér lækkun skuldatryggingarálags hans. Kaupin virðast hafa verið liður í almennri stefnu bankans um endurkaup á eigin skuldum sem telja verður að hafi byggt á viðskiptalegum forsendum. Þá liggur fyrir í málinu nokkur fjöldi gagna sem sýna fram á að á þeim tíma sem framangreindir gerningar áttu sér stað, hafi verið alvanalegt af hálfu fjármálastofnana að kaupa skuldabréf af sjálfum sér í þeim tilgangi að lækka skuldir. Í þessu ljósi geta umrædd endurkaup stefnanda ekki talist óvenjuleg, auk þess sem ekkert er komið fram sem leiðir líkur að því að umrædd viðskipti hafi grundvallast á öðru en markaðslegum sjónarmiðum og með viðskiptahagsmuni bankans að leiðarljósi.
Af gögnum málsins verður ráðið að endurkaup á eigin skuldum hafi tíðkast hjá bankanum á árunum 2005 til 2008 en fóru vaxandi milli ára og voru mest á árinu 2008. Þótt líklegt megi telja að aukin endurkaup stefnanda á eigin skuldum á því ári megi rekja til versnandi fjárhagsstöðu hans, er það niðurstaða dómsins að því verði ekki slegið föstu að stefndu eða aðrir aðilar, sem stunduðu slík viðskipti á alþjóðlegum mörkuðum, hafi á þessum tíma mátt gera sér grein fyrir því að greiðsluþrot stefnanda væri yfirvofandi. Framlögð gögn um stöðu stefnanda á þessum tíma breyta ekki þeirri niðurstöðu, enda eru þau ekki að öllu leyti á sama veg.
Með vísan til framangreinds og þar sem umrædd viðskipti verða ekki með óyggjandi hætti tengd þeirri staðreynd að stefnandi varð skömmu síðar ógjaldfær, er það niðurstaða dómsins að ekki liggi fyrir að með þeim viðskiptum, sem mál þetta lýtur að, hafi verið vikið svo frá því sem venjulegt geti talist í rekstri viðskiptabanka að þau hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum.
Af framangreindu leiðir að hafna verður riftunarkröfum stefnanda á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Er það því niðurstaða dómsins að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna þrautavarastefnda 1, King Street Capital L.P., af öllum kröfum stefnanda. Í þessu ljósi eru ekki efni til að fjalla um þær málsástæður allra stefndu sem lúta að því að íslensk lög gildi ekki um réttarágreining aðila.
Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða öllum stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn til handa hverjum stefnda fyrir sig þannig, að stefnandi greiði aðalstefnda, Brains Inc. Ltd., og varastefnda, King Street LLP, 5.000.000 króna hvorum fyrir sig en þrautavarastefndu, þ.e. King Street Capital L.P., King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og Kings Street Europe Master Fund Ltd., 1.000.000 króna hverjum fyrir sig.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Aðalstefndi, Brains Inc. Limited, varastefndi, King Street (Europe) LLP, og þrautavarastefndu, King Street Capital L.P., King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., eru sýkn af kröfum stefnanda, Kaupþings hf.
Stefnandi greiði aðalstefnda 5.000.000 króna í málskostnað.
Stefnandi greiði varastefnda 5.000.000 króna í málskostnað.
Stefnandi greiði þrautavarastefndu hverjum fyrir sig 1.000.000 króna í málskostnað.