Hæstiréttur íslands

Mál nr. 700/2009


Lykilorð

  • Landamerki


Fimmtudaginn 25. maí 2011.

Nr. 700/2009.

Grétar H. Guðmundsson

Kristín Hreinsdóttir og

Guðmundur Vigfússon

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Reykjagarði hf.

Jóni Ágústi Jóhannssyni og

(Anton Björn Markússon hrl.)

Steinslæk ehf.

(Jón Egilsson hdl.)

og

Reykjagarður hf. og

Jón Ágúst Jóhannsson

gegn

Grétari H. Guðmundssyni

Kristínu Hreinsdóttur

Guðmundi Vigfússyni og

Steinslæk ehf.

Landamerki.

Aðilar deildu um staðsetningu landamerkja milli jarðanna S og B annars vegar og ÁI, ÁII og Á hins vegar. Óumdeilt var að mörkin skyldu liggja í beinni línu frá tilteknum punkti en aðila greindi á um hvar línan endaði í annarri landamerkjalínu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á kröfu eigenda S og B um stefnu markalínunnar, enda þótti krafan fá stoð í landskiptagerð. Ekki var fallist á með eigendum ÁI, ÁII og Á að tiltekin manngerð kennileiti sýndu fram á að eigendur jarðanna hefðu síðar samið um að mörkin lægju annars staðar.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. 

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. desember 2009. Þau krefjast þess að landamerki jarðanna Sels og Bólstaðar í Ásahreppi og jarðanna Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II, Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, séu í fyrsta lagi milli Sels og Ásmundarstaða I: Bein lína úr nánar tilgreindum hnitapunkti A, sem er í Steinslæk við Markakeldu, í nánar tilgreindan hnitapunkt B, í öðru lagi milli Sels og Ásmundarstaða II: Bein lína úr hnitapunkti B í nánar tilgreindan hnitapunkt C, í þriðja lagi milli Sels og Ásheima: Bein lína úr hnitapunkti C í nánar tilgreindan hnitapunkt D og loks milli Bólstaðar og Ásmundarstaða II, lands: Bein lína úr hnitapunkti D í nánar tilgreindan hnitapunkt E, sem er 200 metra frá Berustaðagirðingu. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 4. febrúar 2010 og krefjast þess aðallega að landamerki milli jarðanna Ásmundarstaða II, Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, gagnvart jörðunum Seli og Bólstað séu í fyrsta lagi milli Ásmundarstaða II og Sels bein lína sem dregin er úr hornmarki Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II og Sels í nánar tilgreindum hnitapunkti L02 í miðjum skurði við norðaustanverðan Brúnarhól og eftir miðjum skurði að hornmarki Ásmundarstaða II, Ásheima og Sels í nánar tilgreindum hnitapunkti L03 á miðjum Ásmundarstaðavegi, í öðru lagi milli Ásheima og Sels bein lína, sem dregin er frá hnitapunkti L03 eftir miðjum skurði og áfram er skurðinum sleppir í hornmark Ásheima, Ásmundarstaða II, lands, Bólstaðar og Sels í nánar tilgreindum hnitapunkti L15, og í þriðja lagi milli Ásmundarstaða II, lands, og Bólstaðar bein lína sem dregin er úr hnitapunkti L15 í hornmark Ásmundarstaða II, lands, Bólstaðar og Áshóls við endastaur girðingar á skurðbrún í nánar tilgreindum hnitapunkti L11. Til vara krefjast gagnáfrýjendur að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi Steinslækur ehf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjenda, en félagið hefur tekið við aðild að málinu af Maríu Jörgensdóttur sem eiganda að Ásmundarstöðum I.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 16. maí 2011.

I

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi voru landskipti gerð 19. júní 1926 á úthögum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða í Ásahreppi í Rangárvallasýslu. Sagði í skiptagerðinni að aðilar hefðu ákveðið merkjalínur og sett landamerki eins og hér segir: „Milli Sels og Áshóls ræður Markakelda við Steinslæk, gagnvart suður oddanum í Kumlholti, þaðan bein lína í vörðu sem er 200 m. í vestur frá landamerkjagirðingu milli Áshóls og Ásmundarstaða annarsvegar, en Berustaða hinsvegar; er þar sett önnur varða og stendur hún þar við girðinguna, er fjárhús í Brekknaholti ber framan til í miðhnjúkinn á Þríhyrningi og varða á Flaghól austan við Sumarliðabæjarbjalla; varða þessi er hornmark milli Áshóls og Ásmundarstaða. Úr hinni fyrrnefndu vörðu (200 m. frá landamerkjagirðingunni) ræður bein lína, milli Sels og Ásmundarstaða, í Markakeldu við Steinslæk.“

Samkvæmt skiptagerðinni voru dregnar tvær beinar markalínur sem hafa hvor sinn upphafspunkt í tveimur aðskildum Markakeldum í Steinslæk, þeirri nyrðri og syðri, og enda í sameiginlegu hornmarki að austan, en upphafspunktarnir eru óumdeildir. Fyrri línan er merkjalínan milli Sels, nú lands Bólstaðar, og Áshóls og liggur frá nyrðri markakeldunni í punkt á landamerkjagirðingu milli Áshóls og Ásmundarstaða annars vegar en Berustaða hins vegar. Aðaláfrýjendur hafa sett punkt E í kröfugerð sinni í 200 m fjarlægð í vestur á þessari línu frá nefndri landamerkjagirðingu. Hann er því á þeim stað, 200 m frá landamerkjagirðingunni, sem fyrrnefnd varða mun hafa átt að vera en hana er ekki nú að finna. Síðari línan var þá samkvæmt skiptagerðinni dregin beint úr þessum stað að syðri markakeldunni við Steinslæk, sem er óumdeildur punktur A í kröfu aðaláfrýjenda og L01 í kröfu gagnáfrýjenda, og er það landamerkjalína milli Sels og Bólstaðar annars vegar og hins vegar Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II, Ásheima og Ásmundarstaða II, lands.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvar á fyrrnefndu markalínunni skuli staðsetja upphafspunkt þeirrar síðarnefndu, þaðan sem bein lína ræður í Markakeldu við Steinslæk. Aðaláfrýjendur reisa kröfu sína á því að hann sé í 200 m fjarlægð frá Berustaðagirðingunni eins og skiptagerðin segi, á línu þeirri sem þar var dregin milli Sels og Áshóls og það sé hnitapunktur E.

Gagnáfrýjendur andmæla því að upphafspunkturinn E sé á réttum stað. Þeir telja að til grundvallar beri að leggja loftljósmynd sem útfærð hafi verið af Ágústi Böðvarssyni mælingamanni við skipti á Ásmundarstöðum í október 1954. Inn á myndina hafi verið færð mörk Ásmundarstaðajarðanna gagnvart Seli og sé hún elsta og skýrasta heimildin um merkin. Á henni sé markalínan dregin úr punkti í Vatnsholtsmýri sem sé í 319 m fjarlægð frá Berustaðagirðingu og komi sá punktur heim og saman við hnitapunkt L11 í kröfugerð þeirra. Að skiptum jarðarinnar hafi staðið meðal annarra hreppstjóri og eigendur Ásmundarstaða I og II, en þeir hafi jafnframt ritað undir skiptagerðina 1926. Gagnáfrýjendur reisa kröfu sína ennfremur á því að um miðja síðustu öld hafi tekist samkomulag með eigendum jarðanna um legu landamerkja þeirra. Á grundvelli þessa samkomulags hafi árið 1955 verið grafinn skurður á landamerkjum Sels og Ásmundarstaða I frá hinum óumdeilda upphafspunkti við Steinslæk í átt að Brúnarhóli. Árið 1967 hafi síðari hluti skurðarins verið grafinn í sömu stefnu yfir Ásmundarstaðaveg svo langt sem landslag leyfði og skurðurinn þar með orðið samtals rúmir 2 km á lengd. Stefna hans sé beint í framangreint hornmark jarðanna samkvæmt loftmynd frá 1954, sem sé hnitapunktur L11 í kröfugerð gagnáfrýjenda, og skeri stefnan þrjú þekkt og áberandi kennileiti. Þau séu sver hornstaur í hlykkjóttri girðingu norðan Hrossatjarnar, sem merktur sé með hnitapunkti L07, áberandi varða merkt með hnitapunkti L08 og loks endastaur hlykkjóttu girðingarinnar í Vatnsholtsmýri við skurðbrún markaskurðar Áshóls og Sels, sem sé merkt með hnitapunkti L11.

Aðaláfrýjendur halda því fram að þegar skurðurinn var grafinn árið 1955 hafi verið talið að hann væri á mörkum jarðanna. Það hafi verið álit manna þar til þeir áttuðu sig á því að mistök hafi verið gerð við mælingu hans, stefna hans væri ekki rétt og hann því ekki á merkjum. Þeir hafna því hins vegar að samkomulag hafi nokkurn tíma orðið með eigendum jarðanna um að skurðurinn yrði látinn ráða merkjum eða þeim breytt að öðru leyti.

II

Framangreind landskiptagerð frá 19. júní 1926 var gerð og undirrituð af þeim, sem áttu í hlut, og ræður hún því mörkum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða nema á annan hátt hafi síðar verið samið. Í skiptagerðinni var sem áður segir gert ráð fyrir tveimur markalínum milli þessara jarða. Af gerðinni verður glögglega ráðið að sé fyrri markalínunni fylgt milli Áshóls og Sels frá Steinslæk í landamerkjagirðingu Berustaða verður upphafspunktur línunnar milli Sels og Ásmundarstaða 200 m frá girðingunni í hnitapunkti E hjá aðaláfrýjendum og er hann því rétt staðsettur. Þess vegna er punktur sá sem dreginn er í 319 m fjarlægð frá nefndri girðingu á loftljósmynd frá 1954 og gagnáfrýjendur hafa tilgreint sem hnitapunkt L11 augljóslega ekki réttur upphafspunktur þessara marka. Gagnáfrýjendur hafa leitast við að sýna fram á að samkomulag hafi tekist með eigendum jarðanna um breytingu á landamerkjum og að skurðurinn sem byrjað var að grafa 1955 frá Steinslæk til austurs í beina stefnu að hnitapunkt L11 sýni fram á þetta samkomulag. Gegn andmælum aðaláfrýjenda hefur engin sönnun tekist um slíkt samkomulag og verður að telja haldlausa þá skýringu gagnáfrýjenda að stefna skurðarins sé því til sönnunar, enda verður að fallast á með aðaláfrýjendum að mistök hafi í upphafi verið gerð við að finna rétta stefnu hans. Þegar af þessum ástæðum verður krafa aðaláfrýjenda tekin til greina eins og fram kemur í dómsorði.

 Gagnáfrýjendum verður gert að greiða aðaláfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en málskostnaður fellur að öðru leyti niður.

Dómsorð:

Landamerki jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og jarðanna Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II, Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, hins vegar, eru í fyrsta lagi á milli Sels og Ásmundarstaða I: Bein lína úr hnitapunkti A 420831.7, 375703.4, sem er í Steinslæk við Markakeldu, í hnitapunkt B 421892.9, 375976.6, í öðru lagi á milli Sels og Ásmundarstaða II: Bein lína úr hnitapunkti B í hnitapunkt C 422601.5, 376159.1, í þriðja lagi á milli Sels og Ásheima: Bein lína úr hnitapunkti C í hnitapunkt D 423094.0, 376285.9, og í fjórða lagi á milli Bólstaðar og Ásmundarstaða II, lands: Bein lína úr hnitapunkti D í hnitapunkt E 424126.4, 376551.7, sem er 200 m frá Berustaðagirðingu.

Gagnáfrýjendur, Jón Ágúst Jóhannsson og Reykjagarður hf., greiði sameiginlega aðaláfrýjendum, Grétari H. Guðmundssyni, Kristínu Hreinsdóttur og Guðmundi Vigfússyni, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur niður að öðru leyti fyrir báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. október 2009.

Mál þetta, sem höfðað er með stefnu birtri 13.-19. júní 2007 en þingfestri 20. júní s.á., var tekið til dóms 7. ágúst sl.

Aðalstefnendur eru Grétar H. Guðmundsson, kt. 110860-5959, Kristín Hreinsdóttir, kt. 080162-5889, bæði til heimilis Seli, Ásahreppi, 851 Hellu, og Guðmundur Vigfússon, kt. 280632-4819, Bólstað, Ásahreppi, 851 Hellu.

Aðalstefndu eru Aðalheiður Jörgensdóttir, kt. 020958-2009, til heimilis í Sviss, María Jörgensdóttir, kt. 130757-7319, Álfhólahjáleigu, 861 Hvolsvelli, Reykjagarður hf., kt. 650903-2180, Fosshálsi 1, 110 Reykjavík, fyrirsvarsmaður Steinþór Skúlason, kt. 201058-3769, Löngulínu 7, 210 Garðabæ og Jón Ágúst Jóhannsson, kt. 250448-3769, Ásmundarstöðum 4, 851 Hellu.

Réttargæslustefndu voru Grétar Geirsson, kt. 311037-4049, Áshóli, Elín Grétarsdóttir, kt. 030772-5559 og Alexandra Lind Lárusdóttir, kt. 030990-3319, báðar til heimilis að Riddaragarði.

Aðalheiður Jörgensdóttir og María Jörgensdóttir höfðuðu gagnsök á hendur aðalstefnendum og aðalstefnda Reykjagarði hf. með birtingu gagnstefnu 10. júlí 2007 og var gagnsökin þingfest 5. september s.á.

Með úrskurði dómsins 17. apríl 2008 var aðalsök í máli þessu vísað frá dómi.

Í þinghaldi 9. mars sl. var mál nr. E-443/2008 sameinað máli þessu. Það mál, er höfðað með stefnu birtri 12. júní 2008, en þingfestri 18. júní s.á. Stefnendur þess máls og stefndu eru þeir sömu og í hinni frávísuðu aðalsök, en réttargæslustefndu er ekki stefnt. Reykjagarður hf. og Jón Ágúst Jóhannsson höfðuðu gagnsök á hendur aðalstefnendum og aðalstefndu Aðalheiði Jörgensdóttur og Maríu Jörgensdóttur með birtingu gagnstefnu 16. júlí 2008 og var gagnsökin þingfest 3. september 2008.

Gengið var á vettvang 5. ágúst sl.

Við upphaf aðalmeðferðar var upplýst að María Jörgensdóttir hefði tekið við aðild málsins af Aðalheiði Jörgensdóttur.                                                                                                

Dómkröfur í gagnsök:

Dómkröfur gagnstefnenda Aðalheiðar og Maríu Jörgensdætra á hendur gagnstefndu Grétari, Kristínu, Guðmundi og Reykjagarði hf. eru þær að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða I og Ásmundarstaða II séu eftirfarandi: Úr hnitapunkti D sem er við Steinslæk við Markakeldu eftir landamerkjaskurði í beina línu í vörðu 200 metrum frá Berustaðalanda- merkjagirðingunni. Landamerkjaskurður á milli jarða ráði að öllu leyti landamerkjum frá Markakeldu við Steinslæk að óumþrættum landamerkjum milli Ásmundarstaða I og Ásmundarstaða II við Svörtubrúnahóla merktur hnitapunktur E. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefndu auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur gagnstefndu Grétars, Kristínar og Guðmundar eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum gagnstefnenda í málinu og dæmt verði að landamerki milli jarðanna Sels og Bólstaðar, annars vegar og Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II og Ásmundarstaða III séu eftirfarandi: Úr hnitapunkti B 424126.4; 376551.7, sem er 200 metra frá Berustaðamarki í hnitapunkt C 420831.7; 373703.4, sem er í Steinslæk við Markakeldu.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda in solidum auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur gagnstefnda Reykjagarðs eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnenda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda.

Dómkröfur í aðalsök hins sameinaða máls:

Dómkröfur aðalstefnenda Grétars H. Guðmundssonar, Kristínar Hreinsdóttur og Guðmundar Vigfússonar á hendur aðalstefndu Aðalheiði, Maríu, Reykjagarði hf. og Jóni Ágústi eru þær að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og jarðanna Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II og Ásheima hins vegar séu eftirfarandi:

Á milli Sels og Ásmundarstaða I: Bein lína úr hnitapunkti A 420831.7, 375703.4 sem er í Steinslæk við Markakeldu í hnitapunkt B 421892.9, 375976.6

Á milli Sels og Ásmundarstaða II (lnr. 165266): Bein lína úr hnitapunkti B 421892.9, 375976.6 í hnitapunkt C 422601.5, 376159.1.

Á milli Sels og Ásheima: Bein lína úr hnitapunkti C 422601.5, 376159.1 í hnitapunkt D 423094.0, 376285.9.

Á milli Bólstaðar og Ásmundarstaða II, land (lnr. 187135): Bein lína úr hnitapunkti D 423094.0, 376285.9 í hnitapunkt E 424126.4, 376551.7, sem er 200 metra frá Berustaðagirðingu.

Þá krefjast aðalstefnendur þess að aðalstefndu verði in solidum dæmd til að greiða aðalstefnendum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur aðalstefndu Aðalheiðar Jörgensdóttur og Maríu Jörgensdóttur eru aðallega þær að þær verði sýknaðar af dómkröfum aðalstefnenda.  Þá krefjast aðalstefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi aðalstefnenda in solidum.

Dómkröfur aðalstefndu Reykjagarðs hf. og Jóns Ágústs Jóhannssonar eru að þeir verði sýknaðir af öllum dómkröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

Dómkröfur í gagnsök hins sameinaða máls:

Dómkröfur gagnstefnenda Reykjagarðs og Jóns Ágústs Jóhannessonar á hendur gagnstefndu Grétari, Kristínu, Guðmundi, Aðalheiði og Maríu eru þær að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Ásmundarstaða II, Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, gagnvart jörðunum Seli og Bólstað séu með eftirfarandi hætti:

Á milli Ásmundarstaða II (lnr. 165266) og Sels (lnr. 165314): Bein lína sem dregin er úr hornmarki Ásmundarstaða I (lnr. 187658), Ásmundarstaða II og Sels í miðjum skurði við norðaustanverðan Brúnarhól (hnitpkt. L02 421873.25 austur – 375992.31 norður) og um miðjan skurð að hornmarki Ásmundarstaða II, Ásheima og Sels á miðjum Ásmundarstaðavegi (hnitpkt. L03 422599.54 austur – 376192,67 norður).

Á milli Ásheima (lnr. 165268) og Sels (lnr. 165341): Bein lína, sem dregin er frá hornmarki Ásmundarstaða II, Ásheima og Sels á miðjum Ásmundarstaðavegi (hnitpkt. L03 422599.54 austur – 376192.67 norður), um miðjan skurð og áfram er skurðinum sleppir í hornmark Ásheima, Ásmundarstaða II, lands, Bólstaðar og Sels (hnitpkt. L15 423112.18 austur – 376334.10 norður).

Á milli Ásmundarstaða II, lands (lnr. 187135) og Bólstaðar (lnr. 165271): Bein lína, sem dregin er úr hornmarki Ásheima, Ásmundarstaða II, lands, Bólstaðar og Sels (hnitpkt. L15 423112.18 austur – 376334.10 norður) í hornmark Ásmundarstaða II, lands, Bólstaðar og Áshóls (lnr. 165262) við endastaur girðingar á skurðsbrún (hnitpkt. L11 424014.55 austur – 376594.85 norður).

Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalmeðferð málsins.

Dómkröfur gagnstefndu Grétars H. Guðmundssonar, Kristínar Hreinsdóttur og Guðmundar Vigfússonar eru þær að gagnstefndu verði sýknuð af öllum kröfum gagnstefnenda í málinu og að gagnstefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða gagnstefndu málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur gagnstefndu Aðalheiðar Jörgensdóttur og Maríu Jörgensdóttur eru þær að þær verði sýknaðar af dómkröfum aðalstefnenda. Þá er þess krafist að dómurinn fallist á dómkröfur gagnstefnenda um landamerki milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða I og Ásmundarstaða II hins vegar. Einnig er þess krafist að gagnstefndu verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi gagnstefnenda in solidum. 

Málavextir.

19. júní 1926 munu hafa farið fram skipti á úthögum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða í Ásahreppi samkvæmt landskiptalögum. Munu skiptin hafa verið framkvæmd þannig að milli Sels og Áshóls ráði „Markakelda við Steinslæk gagnvart suður oddanum í Kumlholti, þaðan bein lína í vörðu sem er 200 metra í vestur frá landamerkjagirðingu milli Áshóls og Ásmundarstaða, en Berustaða hins vegar; er þar sett önnur varða og stendur hún þar við girðinguna, er fjárhús á Brekknaholti ber, framan til í miðhnjúknum á Þríhyrningi og varða við Flaghól austan við Sumarliðabæjarbjalla; varða þessi er hornmark milli Áshóls og Ásmundarstaða. Úr hinni fyrrnefndu vörðu (200 m frá landamerkjagirðingunni) ræður bein lína milli Sels og Ásmundarstaða í Markakeldu við Steinslæk.“

Aðalstefnendur segja að tilvitnuð landamerkjagirðing milli Berustaða, Ásmundarstaða og Áshóls, frá Einstökunös að Flaghól, sé enn í dag á hlöðnum garði sem hlaðinn hafi verið á fyrri hluta síðustu aldar. Hafi Steindór Runólfsson (fæddur eftir 1930), eigandi hluta Berustaða, staðfest við aðalstefnendur að hlaðni garðurinn hafi verið til staðar þegar hann hafi verið á barnsaldri. Steinþór kannist ekki við ágreining um landamerki á þessum stað. Trausti Runólfsson, bróðir Steinþórs, sé sömu skoðunar.

Með skiptagerð dags. 11. október 1954 munu hafa verið framkvæmd landskipti á Ásmundarstöðum og hafi jörðinni verið skipt í tvo jafna parta, Ásmundarstaði I og Ásmundarstaði II. Um mörk jarðanna segi m.a. í skiptagerðinni að túngirðing ráði eftir ásbrún norður að garði með girðingu, en síðan ráði garðurinn út í Selsmörk, en þau séu ekki tilgreind nánar. Garður þessi sé greinilegur á loftmynd frá árinu 1952. Við skiptin hafi verið farið eftir loftljósmynd í mælikvarðanum 1:5000 sem Ágúst Böðvarsson mælingamaður hefði gert.

Þá mun Ásmundarstöðum II hafa verið skipt með landskiptagerð dags. 27. ágúst 1966 til helminga vegna nýbýlisins Ásmundarstaðir III. Fram komi í skiptagerðinni að um útlínur jarðarinnar sé vísað til fyrri skipta er landi Ásmundarstaða, Sels og Áshóls hafi verið skipt og einnig síðari skipta frá 1954 milli Ásmundarstaða I og II. Óumdeilt sé að Ásmundarstaðir III eigi ekki land að jörðum aðalstefnenda.

Með afsali dags. 16. júlí 1957 mun aðalstefnandi Guðmundur hafa keypt hálfa jörðina Sel af föður sínum, Vigfúsi Guðmundssyni, til stofnunar nýbýlis. Sé takmörkum hins selda svo lýst í afsalinu: „Að norðaustan ráða mörk við Áshól, sem eru úr Steinslæk í markavörðu á Vatnsholtsmýri, en varða þessi er einnig í mörkum Ásmundarstaða II (austurbær), síðan ræður bein stefna í suðvesturhorn Hrossatjarnar, þaðan ræður bein stefna í nyrðri hliðstaur í túnhliði, þessi lína framlengist síðan að skurði (bein stefna) vestan við tún (norðvestan við túnið), þá ræður skurðurinn 340 m leið að markavörðu en síðan ræður lína hornrétt á stefnu skurðarins en hún stefnir í Steinslæk, að síðustu ræður Steinslækur að Áshólsmörkum“. Í afsalinu kemur fram að nýbýlið hafi hlotið nafnið Sel II, en af því hafi ekki orðið og hafi það hlotið nafnið Bólstaður.

Um og eftir miðja síðustu öld mun hafa verið grafinn skurður úr Markakeldu við Steinslæk. Aðalstefnendur segja að talið hafi verið að sá skurður hafi legið á mörkum Sels og Ásmundarstaða, en síðar hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið og hafi skurðstefnan reynst við nánari skoðun ónákvæm og beinlínis röng. Skurður þessi hafi fallið saman með árunum þannig að hann hafi ekki lengur haldið skepnum. Á milli Sels og Ásmundarstaða I hafi skurðurinn verið hreinsaður upp svo hann héldi skepnum og hafi kostnaði verið skipt á milli aðila. Gagnstefnendur segja að skurðurinn hafi verið grafinn einvörðungu á mörkum Ásmundarstaða I og Sels og hafi allt frá upphafi gegnt hlutverki landamerkjaskurðar. Stefna skurðarins hafi bersýnilega ráðist af hornmarki Ásmundarstaða, Sels og Áshóls, sem staðsett hafi verið á korti Ágústs Böðvarssonar mælingamanns á árinu 1954. Samtímis hafi skurður verið grafinn á mörkum Ásmundarstaða I og II niður að landamerkjaskurðinum við norðaustanverðan Brúnarhól í hornmark jarðanna gagnvart Seli. Samkvæmt landbúnaðarskýrslum hafi skurðurinn á mörkum Ásmundarstaða I og Sels verið framlengdur í beinni línu svo langt sem landslag hafi leyft árið 1967.

Árið 1969 mun gagnstefnandi Jón Ágúst hafa keypt Ásmundarstaði II í félagi við bróður sinn Gunnar, og síðan Ásmundarstaði III árið 1970. Bræðurnir munu hafa stofnað Holtabúið hf. árið 1979 sem þá hafi orðið þinglýstur eigandi beggja jarðanna.

Aðalstefnendur segja að skömmu eftir árið 1970 hafi verið girt á milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða hins vegar með góðu samkomulagi þeirra sem að hafi komið og hafi öllum verið ljóst að sú girðing hafi ekki verið staðsett í réttum mörkum jarðanna. Þá hafi verið girt svokölluð graðhestagirðing á landamerkjum milli Sels og Ásmundarstaða II vestan við Ásmundarstaðaveg skömmu eftir 1980 og þá hafi verið stuðst við sömu kennileiti og fram komi í skiptagerðinni frá 1926. Enginn ágreiningur hafi verið á þessum tíma milli jarðeigenda um landamerkin. Eigendur Sels hafi haldið girðingunni við og útvegi straum á rafgirðingastreng hennar. Gagnstefnendur segja að gagnstefnandinn Jón Ágúst hafi frá upphafi haldið graðhesta í hólfi á landi Ásmundarstaða II, en skilið hafi verið frá Ásmundarstöðum I með fjárheldum skurði og frá Seli með hinum beina markaskurði, sem ekki hafi verið fjárheldur. Hinn síðari skurður hafi verið plógræstur fyrir ofan Brúnarhól af hálfu Ásmundarstaða án athugasemda af hálfu bænda í Seli. Þá hafi ágangur fjár úr landi Sels á land Ásmundarstaða aukist. Hafi því verið ákveðið að reisa fjárhelda girðingu til að stöðva ágang fjárins. Girðingin hafi ekki verið reist við markaskurðinn þar sem talsvert hafi hrunið úr bökkum hans ofan í skurðinn. Engin kennileiti hafi fundist til að byggja á og því hafi verið gripið til þess ráðs að girða girðingu nokkuð frá skurðinum.

Árið 1981 mun Svínás hf. hafa keypt um 10 hektara landspildu úr landi Ásmundarstaða II og stofnað nýbýlið Ásheima á spildunni. Ásheimar munu nú vera í eigu gagnstefnandans Reykjagarðs hf.

Samkvæmt þinglýstu afsali dags. 26. júní 1998 munu hafa farið fram makaskipti á tilteknu landi úr jörðunum Ásmundarstöðum II og III.  Með makaskiptaafsalinu hafi gagnstefnandinn Jón Ágúst afsalað spildu úr landi Ásmundarstaða III til gagnstefnandans Reykjagarðs hf. gegn spildu úr landi Ásmundarstaða II. Spildur þessar munu bera nöfnin Ásmundarstaðir II, land og Ásmundarstaðir III, land og mun fyrrnefnda spildan eiga land að Bólstað. Hafi makaskiptin verið samþykkt af oddvita Ásahrepps og Jarðanefnd Rangárvallasýslu. Með afsalinu hafi fylgt uppdráttur með innfærðum landamerkjum umræddra spildna og enn fremur með landamerkjum Ásmundarstaða og Bólstaðar og Sels. Liggi merkin um Hrossatjörn frá punkti H í punkt G.

Aðalstefnendur munu hafa haft samband við fyrirsvarsmenn aðalstefnda Reykjagarðs hf. sumarið 2004 og óskað eftir því að þessi stefndi kæmi að því sem jarðeigandi að reisa landamerkjagirðingu milli jarðanna. Hafi þá komið í ljós að eigendur Ásmundarstaða II og Ásheima hafi vefengt landamerki milli jarðanna samkvæmt skiptagerðinni frá 1926. Hafi í framhaldinu verið haldnir sáttafundir hjá sýslumanni en án árangurs.

Með bréfi dagsettu 7. desember 2005 hafi aðalstefnendurnir Kristín og Grétar gert athugasemdir við deiliskipulag af Ásmundarstöðum og bent Ásahreppi á að landamerkin væru rangt dregin á mörkum Sels og Ásmundarstaða I. Í októbermánuði árið 2006 mun aðalstefnandi Grétar hafa girt meðfram þjóðvegi og sem lokað hafi verið með girðingarbúti hornrétt að pípuhliði á mörkum Sels og Ásmundarstaða. Hafi framkvæmdastjóri aðalstefnda Reykjagarðs hf. mótmælt þessari framkvæmd.  Aðalstefnendur segja framangreinda girðingu hafa verið reista að beiðni Vegagerðarinnar og eftir fyrirsögn hennar. Þar sem aðalstefndu hafi vefengt rétt landamerki milli Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða I og II og Ásheima hins vegar og aðalstefnendur geti ekki girt á landamerkjum jarða sinna, sé þeim nauðsyn að höfða mál þetta til að fá skorið úr um landamerkin milli jarðanna.

Málsástæður og lagarök Aðalheiðar Jörgensdóttur og Maríu Jörgensdóttur í gagnsök.

Gagnstefnendur segja að landamerki við Ásmundarstaði I hafi aldrei sætt andmælum eða deilum milli aðliggjandi jarða. Gagnstefnendur byggja á því að skiptagjörð frá 19. júní 1926 beri að leggja til grundvallar landamerkjum milli jarða aðila. Gagnstefnendur byggja kröfugerð sína á beinni línu sem hafi verið á milli tveggja þekktra kennileita á þeim tíma: Markakeldu við Steinslæk og vörðu sem hafi verið 200 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða. Á grundvelli skiptagjörðarinnar hafi verið grafinn skurður á landamerkjum af aðilum sem hafi komið að skiptagjörðinni. Þegar faðir gagnstefnenda hafi keypt jörðina um 1960 hafi verið búið að grafa skurðinn.

Nú sé svo komið að engin Markakelda sé við Steinslæk sem aðalstefnendur setji samt sem viðmiðunarpunkt merktan C. Nokkru austar séu hinsvegar pyttir sem geti haft þetta heiti. Þá sé engin varða 200 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða eða nein ummerki eftir hana. Hrossatjörnin hafi minnkað verulega. Eigendur að Áshóli hafi ekki viðurkennt hnit B sem viðmið sem greini í framangreindri landamerkjagerð. Bæði kennileitin sem skiptagerðin sé miðuð við séu því horfin en landamerkjaskurður sé á sama stað og hafi verið endurgrafinn að beiðni aðalstefnenda. Aðalstefnendur hafi aldrei hreyft því fyrr en í stefnu í aðalsök að skurðlína landamerkjaskurðarins hafi verið röng og mótmæla gagnstefnendur þeirri staðhæfingu. Gagnstefnendur segja kröfugerð sína byggða á þeim grundvelli að Markakelda við Steinslæk sé við enda landamerkjaskurðar þótt engin ummerki sé þar að finna.

Í stað þess að taka beina línu eftir skurðinum leyfi aðalstefnendur sér að taka línu sem sé aðeins vestan megin við landamerkjaskurðinn og leyfi sér að miða við tilbúin hnit, merkt B, án þess að þar sé að finna merki um vörðu eða sannarlega mældir réttir 200 metrar frá landamerkjagirðingu Berustaða. Þessi lína styðjist ekki við nein haldbær kennileiti. Rétt viðmiðun sé að draga línu 200 metra í beinu framhaldi af landamerkjaskurðinum.

Gagnstefnendur segja að aðalstefnendur leggi til grundvallar sínum málatilbúnaði að skurður sé í samræmi við skiptagerðina frá 19. júní 1926 en síðan sé málatilbúnaður þeirra ekki reistur á legu skurðarins nema til að staðsetja Markakeldu. Hér er að mati gagnstefnenda um innbyrðis ósamrýmanleika í kröfugerð að ræða. Ef málsókn aðalstefnenda byggi á því að skurður sé á landamerkjum sé auðvelt að leysa úr máli þessu í fullu samræmi við kröfugerð gagnstefnenda. Líta skuli til þess að skurður sé bein lína og mikið hafi verið haft fyrir því við gerð hans að fara eftir framangreindri skiptagerð um beina línu.

Verði byggt á áframhaldandi beinni línu í framhaldi af skurðinum muni sú lína vera dregin þar til 200 metrar séu í landamerkjagirðingu Berustaða en þar muni framangreind varða hafa verið staðsett. Beitargirðing geti engu máli skipt við úrlausn máls þessa.

Um lagarök vísa gagnstefnendur til landskiptalaga nr. 46/1941 og eldri laga um sama efni. Þá er vísað til landamerkjalaga nr. 5/1881 og 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Einnig er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Um aðild er vísað til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991 og málskostnaðarkrafa er reist á 21. kafla sömu laga. Um kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar vísa aðalstefnendur til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og til þess að lögmönnum er skylt að innheimta virðisaukaskatt á málflutningsþóknun. Aðalstefnendur hafi ekki frádráttarrétt á móti skattinum og er því nauðsynlegt vegna skaðleysissjónarmiða að þessa sé gætt við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök Grétars H. Guðmundssonar, Kristínar Hreinsdóttur og Guðmundar Vigfússonar í gagnsök.

Gagnstefndu byggja á því að helsta heimildin um landamerki milli jarðanna Sels/Bólstaðar og Áshóls séu fyrst og fremst landskiptagerð frá 19. júní 1926, þegar fram hafi farið skipti á úthögum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða í Ásahreppi. Tekið sé fram í skiptagerðinni að svonefnd Markakelda við Steinslæk ráði landamerkjum Sels og Áshóls og þá bein lína í vörðu sem sé staðsett 200 metra í vestur frá landamerkjagirðingu Berustaða sem liggi milli Áshóls og Ásmundarstaða.

Gagnstefndu telja ekki leika vafa á því hvar kennileitið Markakeldu skuli staðsetja og að staðsetningin sé óumdeild, þ.e. hnitapunktur A á loftmynd á dómskjali nr. 3. Varðan sem á sé minnst í skiptagerðinni sé fallin en hafi verið staðsett þar sem nú sé landamerkjaskurður milli Sels og Áshóls. Gagnstefndu staðsetji hnitapunkt B 200 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða eins og beri að gera samkvæmt skiptagerðinni. Landamerkjalína þessi, sem sé kröfulína gagnstefndu í aðalsök og sé bein lína milli framangreindra hnitapunkta A og B, sé hin sama og hafi verið færð inn á túnakort sem Landkostir ehf. hafi gefið út árið 1987 og eigendur Ásmundarstaðajarða hafi aldrei gert athugasemdir við.

Gagnstefndu byggja á því að landamerki milli Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaðajarða hinsvegar séu samkvæmt framangreindri skiptagerð frá 19. júní 1926 úr hnitapunkti B og þaðan bein lína í Markakeldu við Steinslæk. Við skipti á Ásmundarstöðum I og II árið 1954 hafi sérstaklega verið vísað til þess að landamerkin væru samkvæmt skiptagerðinni. Gagnstefndu segja að kröfulína þeirra milli hnitapunkta B og C sé hin sama og færð sé á framangreint túnakort frá 1987. Fyrir liggi að við makaskipti árið 1998 á spildum milli eigenda Ásmundarstaða II og III hafi umræddar spildur verið færðar á uppdrátt sem fylgi makaskiptaafsalinu, svo og landamerkjalína milli Ásmundarstaða og Sels/Bólstaðar.

Gagnstefndu fullyrða að heimildum beri saman um að landamerki Sels/Bólstaðar liggi um svonefnda Hrossatjörn. Í afsalsbréfi gagnstefnda Guðmundar Vigfússonar fyrir hálfri jörðinni Seli (síðar Bólstaður) sé tekið fram að landamerki hins selda liggi í suðvesturhorn Hrossatjarnar. Það komi fram á uppdrætti sem fylgt hafi afsalinu. Þá sé í landskiptagerð frá 27. ágúst 1966 milli eigenda Ásmundarstaða II og III tekið fram að landamerkin liggi um Hrossatjörn ,,norðanvert um miðju hennar“. Þá liggi fyrir að landamerkin séu dregin í gegn um Hrossatjörn á uppdrætti með framangreindu makaskiptaafsali milli eigenda Ásmundarstaða II og III og á framangreindum túnakorti frá 1987. Sú fullyrðing fái því ekki staðist að Hrossatjörn sé að öllu leyti í landi Ásmundarstaða en því hafi gagnstefndi Reykjagarður hf. haldið fram. Kröfulína gagnstefndu liggi gegnum sunnanverða tjörnina í beina stefnu á þann stað þar sem varða hafi verið staðsett 200 metrum frá framangreindri landamerkjagirðingu Berustaða.

Gagnstefndu segja að Hrossatjörn liggi í svonefndri Vatnsholtsmýri. Í skrá Örnefnastofnunar fyrir Sel komi fram að mýrin tilheyri ekki landi Sels, nema lítill hluti, heldur tilheyri mýrin Áshóli og Ásmundarstöðum. Í örnefnaskránni segi orðrétt: ,,Stór tjörn er í mörkum í mýrinni og heitir Hrossatjörn (68). Sel á lítinn hluta hennar, en hún var slegin áður og oftast frá Seli. Hólmi er í tjörninni.

Gagnstefndu telja framangreint leiða til þess að sýkna beri þau af öllum kröfum gagnstefnenda í máli þessu. Gagnstefndu gera einnig athugasemdir við málatilbúnað gagnstefnenda.

Gagnstefndu segjast ekki kannast við samkomulag um ,,hlykkinn á skurðinum“, enda geti það samkomulag ekki hafa verið gert við framangreinda landskiptagerð frá 1926 þar sem skurðurinn hafi ekki verið grafinn fyrr en nokkrum áratugum síðar. Gagnstefndi Guðmundur Vigfússon hafi ekki komið að greftri skurðarins enda hafi hann ekki verið jarðeigandi á þeim tíma. Guðmundur hafi eignast Bólstað árið 1957 sem ekki liggi að Ásmundarstöðum I en hann hafi eignast Sel árið 1981. Gagnstefndu mótmæla þeirri fullyrðingu í gagnstefnu að gagnstefndu hafi lýst því yfir að ekki væri ágreiningur um landamerki við Ásmundarstaði I en samt sé ekki fylgt landamerkjaskurði í dómkröfum gagnstefndu í aðalsök. Gagnstefndu fullyrða að þau hafi ítrekað gert gagnstefnendum grein fyrir því að skurðurinn sé ekki á réttum stað, m.a. á sáttafundi hjá sýslumanni og sumarið 2006 þar sem gagnstefndu hafi boðið að kröfulínan yrði samþykkt af þeirra hálfu þar sem gagnstefndu hefðu ekki heyrt frá gagnstefnendum að línan væri vefengd. Gagnstefndu taka fram að þau hafi gert athugasemdir við hlykkinn á skurðinum þegar nýtt deiliskipulag á Ásmundarstöðum hafi verið auglýst vegna stækkunar á búi gagnstefnda Reykjagarðs hf. árið 2005.

Varðandi þá fullyrðingu gagnstefnenda að nú sjáist engin Markakelda við Steinslæk benda gagnstefndu á að í örnefnaskrám Sels og Ásmundarstaða komi fram að búið sé að grafa skurð í útfalli hennar í Steinslæk, þó heldur Selsmegin. Ljóst megi vera að umræddir pyttir séu hluti af Markakeldu þar sem hún hafi hlykkjast upp mýrina. Grétar Geirsson, bóndi í Áshóli, segist muna eftir vörðunni í Vatnsholtsmýri og að hún hafi fallið í skurðinn sem skýri það að ekki sjáist nú ummerki um hana. Gagnstefndu segja auðvelt að finna út minnkun Hrossatjarnar með því að bera saman loftmyndir sem til séu frá miðri síðustu öld og yngri myndir en gagnstefnendur telji að um mjög óverulega breytingu sé að ræða.

Gagnstefndu segja það koma verulega á óvart ef eigendur Áshóls viðurkenni ekki hnitapunkt B á loftmynd á dómskjali nr. 3 sem réttan landamerkjapunkt, þar sem Grétar Geirsson, bóndi í Áshóli, hafi gengið með gagnstefndu og landmælingamanni og staðsett punktinn og deilt kostnaði af því með gagnstefndu. Gagnstefndu segjast ekki átta sig á því hvað átt sé við þegar gagnstefnendur tali um punkt vestan við skurðinn að öðru leyti en því að hann sé úti í miðjum Steinslæk. Þar eigi punkturinn að vera þar sem lækurinn sé í mörkum við aðra jörð. Gagnstefndu segjast undrast að gagnstefnendur dragi í efa að um sannanlega 200 metra sé að ræða, þ.e. þá vegalengd sem landfræðingur Landnota hafi mælt með nýjustu tækni.

Gagnstefndu fara fram á að gagnstefnendur hnitsetji punktinn 200 metra frá landamerkjagirðingu Berustaða þar sem þau telji að hann sé, svo hægt sé að athuga aðstæður þar og sannreyna hve langt hann gangi inn á núverandi Áshólsland. Skurður sem grafinn sé í ranga stefnu geti ekki ákvarðað landamerki jarða. Gagnstefndu benda á að árið 2006 hafi verið grafnir skurðir í Ásahreppi sem af einhverjum ástæðum hafi haft 100 metra skekkju í annan endann en þeir ráði ekki mörkum.

Gagnstefnendur segja að beitargirðing sem gagnstefnendur vísi til skipti í þessu tilviki máli þar sem hún hafi verið girt í samvinnu við þáverandi ábúendur Ásmundarstaða, eins og Gunnar Jóhannsson hafi staðfest í samtali við gagnstefndu. Aðilar hafi verið sammála um að skurðurinn væri ekki grafinn í rétta stefnu og girt hafi verið í því sem menn hafi verið sammála um að væru rétt mörk.

Um lagarök vísa gagnstefndu til landskiptalaga nr. 46/1941 og eldri laga um sama efni. Þá er vísað til landamerkjalaga nr. 5/1881 og 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Gagnstefndu byggja kröfu um málskostnað á 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar vísa gagnstefndu til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og til þess að lögmönnum er skylt að innheimta virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Málsástæður og lagarök Reykjagarðs hf. í gagnsök.

Gagnstefndi segir að ágreiningur í aðalsök og gagnsök snúist um túlkun framangreindrar skiptagjörðar frá 1926 og staðsetningu kennileita sem þar sé getið.

Gagnstefndi fellst á það með gagnstefnendum að hnitapunkturinn E sé í markalínu Ásmundarstaða I og II en telur kröfugerð gagnstefnenda þannig úr garði gerða að ekki sé hægt að fallast á hana og krefst því sýknu af kröfum þeirra.

Gagnstefndi segir að skurður, sem sagður sé liggja á mörkum Ásmundarstaða I og Sels, hafi verið grafinn árið 1955, ári eftir að Ásmundarstöðum I og II hafi verið skipt. Því hafi ekki aðrir komið að greftri skurðarins en bændur í Seli og Ásmundarstöðum I. Gagnstefndi telur það furðu sæta að skurðurinn hafi verið grafinn í Brúnarhól. Hóllinn sé greinilegt kennileiti á þessum slóðum en sé hvergi getið í skiptagjörðinni frá 1926. Ætla megi að hólsins hefði sérstaklega verið getið í skiptagjörðinni ef mörk úthaga jarðanna hefðu legið um hann. Sem dæmi um tilgreiningu slíkra landfræðilegra einkenna bendir gagnstefndi á landamerkjaskrá Berustaða frá árinu 1886. Gagnstefndi telur líkur á því að tekist hafi samkomulag með bændum að Ásmundarstöðum I og Seli um legu skurðarins og þar með um merki jarðarinnar, en sátt muni nú hafa verið um merkin í rúmlega hálfa öld.

Gagnstefndi byggir á því að þann 27. ágúst 1966 hafi Ásmundarstaðir III verið stofnaðir sem nýbýli úr landi Ásmundarstaða II með landskiptagerð. Við skiptin hafi Steinþór Runólfsson mælingarmaður frá Berustöðum merkt inn afmörkun landspilda og markvörður á loftmynd í mælikvarðanum 1:5000. Engin ummerki sé að finna eftir vörður við landamerkjagirðingu Berustaða eða í 200 metra fjarlægð frá henni. Því leiki verulegur vafi á því að þarna hafi nokkurn tíma staðið vörður. Til stuðnings þeirri ályktun bendir gagnstefndi á að þegar Jón Ágúst Jóhannsson, núverandi eigandi Ásmundarstaða III, hafi komið að Ásmundarstöðum árið 1969, þremur árum eftir landskiptagerðina, hafi Steinn Þórðarson, bóndi að Ásmundarstöðum II, með engu móti vísað á vörðurnar.

Gagnstefndi fullyrðir að árið 1967 hafi skurður verið grafinn frá Brúnarhól og yfir Ásmundarstaðaveg eins langt og landslag hafi leyft. Gagnstefndi telur líkur á því að skurðinum hafi verið ætlað að endurspegla landamerki jarðanna, þar sem greinileg kennileiti séu í stefnu hans. Þau séu tveir rammgerðir girðingarstaurar og augljós manngerð þúfa. Skurðurinn stefni hinsvegar ekki í vörður sem vísað hafi verið til við skiptin 1966, enda virðist þær hafi verið staðsettar af hendingu og án þess að þær hafi raunverulega verið til staðar.

Gagnstefndi telur sterkar vísbendingar vera fyrir því að mörk jarðanna beri samkvæmt skiptagjörðinni frá 1926 að draga nokkru utar en samkvæmt landamerkjaskurðinum, þ.e. nær Seli/Bólstað, og hafi því nokkuð hallað á Ásmundarstaði þegar skurðurinn hafi verið grafinn. Líklega liggi mörk Ásmundarstaða II gagnvart Seli því ekki um hnitapunkt E samkvæmt gagnstefnu og áfram um skurðinn yfir Ásmundarstaðaveg, þrátt fyrir að ekki sé ágreiningur um mörk Ásmundarstaða II að Ásmundarstöðum I.

Gagnstefndi segir að í örnefnaskrá Sels sé sérstaklega tekið fram að sjónhending sé úr markakeldu nyrðri í hornmark austur á Vatnsholtsmýri og þaðan bein lína aftur í Markakeldu syðri. Vegna legu landsins verði hornmark Sels að standa nærri ásbrúninni svo sjónhending sé í Markakeldu nyrðri. Gagnstefndi fullyrðir að ekki sé hægt að sjá Markakeldu nyrðri frá hnitapunkti B í stefnu í aðalsök. Líkleg staðsetning hornmarks Sels samkvæmt þessu hafi verið færð inn á loftmynd frá 1976. Gagnstefndi telur að ekki verði hjá því litið að svokölluð flóð séu í lágmýrinni, Selsmegin skurðarins. Markakelda syðri eigi upptök sín í Markaflóði, en nafn þess bendi til þess að mörk jarðanna hafi legið um flóðin. Þá nái garður frá ásbrún í Ásmundarstaðalandi, sem mörk Ásmundarstaða I og II liggi um samkvæmt landskiptagerðinni frá 1966, talsvert nær Seli en að Brúnarhól. Gagnstefnda þykir þetta allt gefa sterklega til kynna að rétt mörk Ásmundarstaða og Sels liggi mun nær Seli en samkvæmt framangreindum skurði.

Gagnstefndi telur sig þegar af þeirri ástæðu ekki geta fallist á að dæmt verði að landamerki Ásmundarstaða II gagnvart Seli teljist úr hnitapunkti E og þaðan með beinni línu eftir framangreindum landamerkjaskurði eins og gert sé ráð fyrir í kröfugerð gagnstefnanda. Gagnstefndi telur að í kröfugerð gagnstefnenda felist krafa um skilgreiningu landamerkja jarðar gagnstefnda gagnvart Sel og Bólstað en gagnstefnendur geti ekki átt aðild að slíkri kröfugerð.

Um lagarök vísar gagnstefndi til meginreglna einkamálaréttarfars um aðild, 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, landamerkjalaga nr. 41/1919 með síðari breytingum og eldri laga um sama efni, landskiptalaga nr. 46/1941, svo og til meginreglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Gagnstefndi byggir kröfu sína um málskostnað á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök Grétars H. Guðmundssonar, Kristínar Hreinsdóttur og Guðmundar Vigfússonar í aðalsök hins sameinaða máls.

Aðalstefnendur byggja á landskiptagerðinni frá 19. júní 1926 en þann dag hafi farið fram skipti á úthögum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða í Ásahreppi. Fram komi í skiptagerðinni að Markakelda við Steinslæk ráði landamerkjum Sels og Áshóls og þá bein lína í vörðu sem staðsett sé 200 metrum í vestur frá landamerkjagirðingu milli Áshóls og Ásmundarstaða. Aðalstefnendur telja engan vafa leika á því hvar staðsetja eigi tilvitnuð kennileiti, þ.e. Markakelduna sem aðalstefnendur telja óumdeilda þar sem hnitapunktur A sjáist á loftmynd. Þá liggi fyrir að varðan sem nefnd sé í skiptagerðinni sé fallin en hún hafi verið þar sem nú sé landamerkjaskurður milli Sels og Áshóls. Eigandi Áshóls, Grétar Geirsson, hafi staðfest við aðalstefnendur að hnitapunktur E sé rétt staðsettur og ágreiningslaus. Bent sé á að Grétar Geirsson hafi komið að hnitasetningu þessara punkta ásamt landfræðingi og hafi deilt kostnaði af kortagerðinni og hnitasetningunni með eigendum Sels og Bólstaðar. Þá hafi Grétar staðfest á sáttafundi hjá sýslumanni að hann muni vel hvar markavarðan hafi verið staðsett áður en hún hafi fallið í markaskurðinn.

Hnitapunktur E sé staðsettur 200 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða eins og beri að gera samkvæmt skiptagerðinni. Sé þessi landamerkjalína, þ.e. kröfulína aðalstefnenda, milli hnitapunkta A, B, C, D og E, hin sama og færð sé á túnakort sem gefið hafi verið út árið 1987. Hnitapunktur B sé staðsettur í skurði á óumdeildum landamerkjum Ásmundarstaða I og II, hnitapunktur C sé staðsettur á vegi sem sé í óumdeildum mörkum milli Ásmundarstaða II og Ásheima og hnitapunktur D í mörkum milli Ásheima og Ásmundarstaða II (land).

Landamerki milli Sels/Bólstaðar og Ásmundarstaða séu samkvæmt skiptagerðinni úr hnitapunkti E bein lína í Markakeldu við Steinslæk. Við skipti á Ásmundarstöðum I og II árið 1954 hafi sérstaklega verið vitnað til þess að landamerkin væru samkvæmt skiptagerðinni. Þá liggi fyrir að við makaskipti árið 1998 á spildum milli eigenda Ásmundarstaða II og III hafi umræddar spildur verið færðar inn á uppdrátt sem fylgt hafi afsalinu, svo og landamerkjalína milli Ásmundarstaða og Sels/Bólstaðar. Telji aðalstefnendur þá línu á uppdrættinum ekki fjarri lagi því sem rétt er, enda liggi línan í gegnum Hrossatjörn. Því skilji aðalstefnendur ekki hvað valdi því að fyrirsvarsmaður Reykjagarðs, eigandi Ásmundarstaða II og Ásheima, og aðalstefndi Jón Ágúst, eigandi Ásmundarstaða II (land), kannist ekki við það nú að landamerkin liggi um Hrossatjörn eins og stefnendur geri kröfu um.

Aðalstefnendur byggja á því að heimildum beri saman um að landamerki Bólstaðar (áður Sels) liggi um svonefnda Hrossatjörn og benda í því sambandi á afsalsbréf Guðmundar Vigfússonar fyrir hálfri jörðinni Seli (síðar Bólstað), en þar sé tekið fram að landamerki hins selda liggi í suðvesturhorn Hrossatjarnar. Í landskiptagerð frá 27. ágúst 1966 milli Ásmundarstaða II og III sé tekið fram að landamerkin liggi að Hrossatjörn, en þar segi að landamerkjalínan liggi ,,norðanvert við miðju hennar.“ Þá liggi fyrir að landamerkin séu dregin í gegnum tjörnina á uppdrætti með makaskiptaafsalinu, svo og á túnkortum útgefnum árið 1987. Sömu upplýsingar sé að finna á gamalli loftmynd sem sé varðveitt á sýsluskrifstofunni og geymi upplýsingar um útmörk Ásmundarstaða.

Standist því ekki sú fullyrðing að Hrossatjörn sé að öllu leyti í landi Ásmundarstaða eins og eigandi Ásmundarstaða II hafi haldið fram. Liggi kröfulína aðalstefnenda í gegnum norðanverða tjörnina í beina stefnu á þann stað sem varða hafi verið staðsett 200 metrum frá Berustaðagirðingu. Aðalstefnendur byggja á því að Hrossatjörn liggi í Vatnsholtsmýri en í skrá Örnefnastofnunar komi fram að mýrin tilheyri ekki Selslandi nema að litlum hluta og tilheyri mýrin Áshóli og Ásmundarstöðum.

Aðalstefnendur byggja á því að tilvitnaðar landskiptagerðir séu að öllu leyti lögformlegar og rétt gerðar samkvæmt þágildandi lögum.

Aðalstefnendur vísa til landskiptalaga nr. 46/1941 og eldri laga um sama efni. Þá er vísað til landamerkjalaga nr. 5/1882 og 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Um aðild er vísað til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991 og málskostnaðarkrafa er reist á 21. kafla sömu laga. Um kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar vísa aðalstefnendur til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og til þess að lögmönnum er skylt að innheimta virðisaukaskatt á málflutningsþóknun. Aðalstefnendur hafi ekki frádráttarrétt á móti skattinum og er því nauðsynlegt vegna skaðleysissjónarmiða að þessa sé gætt við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök aðalstefndu Aðalheiðar og Maríu Jörgensdætra í aðalsök hins sameinaða máls.

Aðalstefndu Aðalheiður og María Jörgensdætur byggja kröfu sína um sýknu á sömu rökum, málsástæðum og gögnum og greinir í gagnsök þeirra í málinu. Þá beri að sýkna aðalstefndu Aðalheiði þar sem hún hafi selt hlut sinn í Ásmundarstöðum I þann 6. mars 2008.

Málsástæður og lagarök aðalstefndu Reykjagarðs hf. og Jóns Ágústs Jóhannssonar í aðalsök hins sameinaða máls.

Aðalstefndu segja aðila málsins sammála um að ákvarða beri landamerki jarðanna með beinni línu og upphaf línunnar sé óumdeilt, þ.e. í Markakeldu syðri við Steinslæk sem sé hnitsett af hálfu aðalstefnenda sem hnitpunktur A (420831.7, 375703.4). Málsaðilar séu hinsvegar ósammála um endapunkt línunnar uppi á Vatnsholtsmýri. Ágreiningur málsaðila einskorðist því raunverulega við staðsetningu hornmarks Ásmundarstaða II, lands, Áshóls og Bólstaðar, sem sé tilgreindur sem hnitpunktur L11 í kröfugerð aðalstefndu í gagnsök.

Aðalstefndu krefjast sýknu í aðalsök. Í fyrsta lagi geti aðalstefnendur með engu móti rökstutt eða sannað að ákvarða beri landamerki jarðanna til samræmis við kröfugerð þeirra. Í öðru lagi bendi öll gögn málsins, kennileiti, síðari tíma framkvæmdir og áratugalöng skipan á hinu umdeilda landsvæði til þess að bændur jarðanna hafi komið sér saman um að hornmark þeirra yrði staðsett á sama stað og í kröfugerð aðalstefndu í gagnsök, n.t.t. hnitpunkti L11.

Aðalstefndu taka fram að þeir telji að hornmark jarðanna þriggja á Vatnsholtsmýri verði í raun ekki staðsett á grundvelli skiptagjarðarinnar frá 1926, enda leiði af orðalagi hennar að varða, sem hafi verið hornmark Ásmundarstaða, Sels og Áshóls, hljóti að hafa verið staðsett mjög nærri ásbrún. Hún hafi orðið að sjást frá nyrðri Markakeldu við Steinslæk, þar sem draga hafi átt beina línu milli þessara tveggja punkta. Varðan hafi orðið að standa á ásbrúninni vegna legu landsins, sem hækki talsvert frá Steinslæk um ásbrúnina til austurs. Útilokað sé að varðan hafi staðið jafn langt inni á Vatnsholtsmýri og aðalstefnendur haldi fram, enda hefði varðan þá þurft að vera um 12 metra há til að sjást frá Markakeldu nyrðri. Aðalstefndu segjast hafa staðsett leifar grjótvörðu á ásbrúninni, sem sé merkt sem hnitpunktur L09 í kröfugerð aðalstefndu í gagnsök. Aðalstefndu segja einsýnt að höfundar skiptagjörðarinnar hafi ætlast til að landamerki Sels gagnvart Áshóli yrðu dregin frá Markakeldu nyrðri í þessa vörðu og þaðan yrði dregin bein lína í Markakeldu syðri gagnvart Ásmundarstöðum. Aðalstefndu telji að misskilningur síðari tíma manna á orðalagi skiptagjörðarinnar og síðari tíma framkvæmdir þeirra á hinum umdeilda landi leiði til þess að ákvarða verði landamerki jarðanna á öðrum forsendum, þ.e. öðrum elstu fyrirliggjandi heimildum, greinilegum kennileitum og því ástandi sem ríkt hafi á hinu umdeilda landi í áratugi en í því felist þó veruleg eftirgjöf á landi af hálfu aðalstefndu.

Aðalstefndu byggja á því að af stefnu í aðalsök verði ráðið að aðalstefnendur miði staðsetningu hnitpunktsins E einvörðungu við girðingu um land Berustaða. Engin varða sé þó á þessum slóðum þó hennar sé getið í skiptagjörðinni. Aðalstefnendur fullyrði að varðan sé fallin en hún hafi verið staðsett þar sem nú sé landamerkjaskurður milli Sels og Áshóls. Aðalstefndu mótmæla þessari fullyrðingu aðalstefnenda um staðsetningu vörðunnar og hnitpunkts E.

Um landamerki jarðarinnar Berustaða segja aðalstefndu að þeim sé lýst í landamerkjabréfi frá 27. maí 1886. Þar komi m.a. fram að sjónhending sé úr Presthól (Miðmundahól) í Einstökusnös en þaðan bein stefna í Flaghól. Berustaðir hafi verið meðal þeirra jarða í svokallaðri Ástorfu sem hafi ákveðið að girða land sitt árið 1926. Girðingavinna hafi hafist í lok maí það ár en skiptagjörðin hafi verið undirrituð 19. júní s.á. Hafi Berustaðabændur í raun girt land sitt á þessu svæði árið 1926 og muni sú girðing hafa stefnt í réttan Flaghól en um ætlaða staðsetningu hans megi m.a. vísa til örnefnaskrár Áshóls. Við skiptingu Berustaða árið 1959 hafi komið upp ágreiningur um staðsetningu Flaghóls en samkomulag hafi tekist um að mörk Berustaða og Þjóðólfshaga yrðu norðan þjóðvegar. Þar með hafi eldri landamerkjalýsing frá 1886 fallið úr gildi að því er varði mörk jarðanna þar sem miðað hafi verið við Flaghól. Aðalstefndu segja að sú girðing sem nú liggi á vesturmörkum Berustaða sé girt beint úr Einstökunös í hinn umsamda Flaghól norðan þjóðvegarins (hnitpunktur L14). Útilokað sé að núverandi girðing á mörkum Berustaða hafi verið lögð til grundvallar við staðsetningu landamerkja samkvæmt skiptagjörðinni frá 1926 og hún verði því ekki lögð til grundvallar við ákvörðun landamerkja í dag.

Aðalstefndu telja að í skiptagjörðinni frá 1926 sé í raun ekki vísað til girðingar um land Berustaða, enda sé varða sem standa eigi við girðinguna aðeins sögð vera hornmark Ásmundarstaða og Áshóls án þess að Berustaða sé þar getið.

Aðalstefndu byggja á því að útilokað sé að varða sem aðalstefnendur segi að staðið hafi í 200 metra fjarlægð frá Berustaðagirðingu, þ.e. við hnitpunkt E, hafi fallið í skurð milli Bólstaðar og Áshóls, enda hafi skurðurinn ekki verið grafinn nær girðingunni en í 209 metra fjarlægð. Hægt sé að sannreyna þetta með því að mæla fjarlægðir frá hnitpunkti L13 sem sé við landamerkjagirðingu Berustaða að hnitpunkti L12 sem sé við enda skurðarins.

Aðalstefndu telja engar forsendur vera fyrir því að ákvarða hornmark Bólstaðar, Ásmundarstaða II, lands og Áshóls í samræmi við kröfugerð aðalstefnenda, í ljósi þess að ekki sé vísað til girðingar um land Berustaða í skiptagjörðinni, lega núverandi landamerkjagirðingar Berustaða hafi ekki verið ákveðin fyrr en árið 1959 auk þess sem varðan, sem vísað sé til í skiptagjörðinni og aldrei hafi fundist á Vatnsholtsmýri, geti ekki hafa hrunið ofan í skurð Sels og Áshóls.

Aðalstefndu segja aðalstefnendur byggja kröfur sínar að miklu leyti á síðari tíma einhliða landskipta- og afsalsgerningum innan hinna gömlu jarða, Sels og Ásmundarstaða. Aðalstefndu telja fráleitt að miða landamerki jarðanna við þau mörk sem lýst hafi verið í makaskiptaafsali frá 1998, enda hafi afsalinu aðeins verið ætlað að hagræða skiptingu lands innan Ásmundarstaða. Makaskiptaafsalið geti ekki breytt þinglýstri merkjalýsingu jarða málsaðila sem fram komi í skiptagjörðinni frá 1926. Þá samrýmist uppdráttur afsalsins ekki kröfugerð aðalstefnenda, en höfundur þess staðsetji hornmarkið á Vatnsholtsmýri í 100 metra fjarlægð frá landamerkjagirðingu Berustaða. Aðalstefndu mótmæla fullyrðingu aðalstefnenda þess efnis að heimildum beri saman um að landamerki Sels/Bólstaðar liggi um Hrossatjörn. Í afsalsbréfi aðalstefnandans Guðmundar Vigfússonar fyrir hálfri jörðinni Seli komi fram að landamerki hins selda liggi í suðvesturhorn Hrossatjarnar. Á korti Landkosta frá 1987 sem sé einungis unnið samkvæmt upplýsingum frá aðalstefnendum, séu mörk jarðarinnar dregin um norðausturhorn jarðarinnar. Þá séu landamerkin dregin með enn öðrum hætti í framangreindu makaskiptaafsali. Þessar einhliða heimildir geti ekki hróflað við eldri heimildum. Vegna innbyrðis ósamræmis þeirra verði engin ályktun af þeim dregin önnur en sú að merki jarðanna hafi um árabil verið á huldu. Í kröfugerð aðalstefnenda sé markalína dregin um norðausturenda tjarnarinnar og mörk Sels og Bólstaðar dregin í hnitpunkt D nokkuð fjarri tjörninni, þrátt fyrir að aðalstefnandinn Guðmundur hafi sjálfur undirritað afsal sem geri ráð fyrir að mörk jarðanna liggi í jörðina suðvestanverða. Ómögulegt sé að draga beina línu úr Markakeldu og þaðan í Brúnarhól, í sunnanverða Hrossatjörn og þaðan norður fyrir Vatnsholt eins og aðalstefnendur hafi haldið fram í greinargerð sinni um landamerki jarðanna.

Aðalstefndu segja að af málatilbúnaði aðalstefnenda leiði að þeir miði staðsetningu hnitpunktsins E jafnframt við skurð, sem sé sagður grafinn á mörkum jarðanna Bólstaðar og Áshóls, milli hnitpunktanna E og F. Aðalstefndu mótmæla því að skurðurinn sé grafinn á réttum landamerkjum jarðanna samkvæmt skiptagjörð. Girt hafi verið úr Steinslæk í grjótvörðu á ásbrún, hnitpunktur L09, en þaðan breytist stefna merkjalínunnar (hnitpunktar E-F) um 300 til suðausturs á u.þ.b. 20 metra kafla í hnitpunkt L10 sem sé upphafspunktur skurðarins. Veruleg skekkja sé því á landamerkjalínu Sels/Bólstaðar og Áshóls, sem skyldi vera bein samkvæmt skiptagjörðinni. Því verði skurðurinn ekki lagður til grundvallar við staðsetningu hornmarksins.

Aðalstefndu benda á að Hrossatjörn og Vatnsholt séu svo skýr og greinileg kennileiti í einsleitu landslagi að fullyrða megi að þeirra hefði verið getið í skiptagjörðinni ef ætlun manna hefði verið að draga merki jarðanna um þau.

Aðalstefndu byggja á því að jörðinni Ásmundarstöðum hafi verið skipt upp í Ásmundarstaði I og II þann 11. október 1954. Undir skiptagjörðina riti m.a. Ólafur Ólafsson hreppstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson eigandi Ásmundarstaða I og Þórður Brandsson eigandi Ásmundarstaða II. Þeir riti einnig undir skiptagjörð Áshóls, Sels og Ásmundarstaða frá 1926. Við skipti Ásmundarstaða hafi verið stuðst við loftljósmynd í mælikvarðanum 1:5000, sem Ágúst Böðvarsson, mælingamaður, hefði útfært. Ljósmyndin sé varðveitt hjá sýslumanninum á Hvolsvelli og inn á hana hafi verið færð landamerki Ásmundarstaðajarðanna gagnvart Seli. Landamerkjalínan sé dregin úr punkti á Vatnsholtsmýri, sem sé í 319 metra fjarlægð frá landamerkjagirðingu Berustaða og komi sá punktur heim og saman við hnitpunktinn L11 í kröfugerð aðalstefndu í gagnsök. Loftmyndin stafi frá aðilum sem komið hafi að skiptagjörðinni 1926 og sé elsta og greinilegasta heimildin um merki jarðanna. Myndina beri því að leggja til grundvallar við staðsetningu hins umdeilda hornmarks.

Aðalstefndu telja að Ágúst Böðvarsson mælingamaður hafi af einhverjum ástæðum staðsett Markakeldu syðri við Steinslæk ranglega nokkuð til suðurs frá keldunni sjálfri en staðsetning hennar sé óumdeild. Af því leiði að landamerkjalína Ásmundarstaðajarðanna gagnvart Seli sé ranglega dregin um suðvesturhorn Hrossatjarnar á loftmyndinni. Það leiði aftur til þess að merki Bólstaðar séu sögð liggja í suðvesturhorn Hrossatjarnar í afsali frá 16. júlí 1957 þegar jörðinni hafi verið skipt út úr landi Sels. Við skiptin hafi kort Ágústs verið lagt til grundvallar af Kristni Jónssyni, ráðunauti Búnaðarsambands Suðurlands. Þessi mistök Ágústs hafi þó vitanlega engin áhrif á staðsetningu hornmarks Ásmundarstaða, Sels og Áshóls sem sé greinilega merkt inn á loftmyndina frá 1954 í 319 metra fjarlægð frá núverandi landamerkjagirðingu Berustaða.

Aðalstefndu leggja áherslu á að árið 1955 hafi verið grafinn þráðbeinn skurður úr Markakeldu við Steinslæk í Brúnarhól og stefni skurðurinn beint í hornmark jarðanna (hnitpunktur L11) sem staðsett hafi verið árið áður af Ágústi Böðvarssyni mælingamanni og aðilum sem komið hafi að skiptagjörðinni árið 1926. Um leið hafi verið grafinn skurður á mörkum Ásmundarstaða I og II í norðaustanverðan Brúnarhól, n.t.t. hnitpunktinn L02, sem sé jafnframt upphafspunktur landamerkjaskurðarins ofan Brúnarhóls. Að mati aðalstefndu staðfestir það enn frekar að skurðurinn hafi verið ætlaður sem landamerkjaskurður. Skurðurinn frá Steinslæk hafi árið 1967 verið framlengdur frá Brúnarhól í beina línu til norðausturs yfir Ásmundarstaðaveg og svo langt sem landslag hafi leyft. Skurðurinn stefni sem fyrr þráðbeint í hornmark Sels, Ásmundarstaða og Áshóls, sem merkt sé inn á loftmynd Ágústs frá árinu 1954. Aðalstefndu telja það því hafið yfir allan vafa að skurðinum hafi verið ætlað að marka landamerki jarðanna.

Aðalstefndu byggja á því að sé bein lína dregin um miðjan framangreindan skurð úr Steinslæk og beint áfram til norðausturs skeri hún þrjú þekkt og áberandi kennileiti. Í fyrsta lagi sveran hornstaur í hlykkjóttu girðingunni norðan við Hrossatjörn, sem merktur sé með hnitpunkti L07, í öðru lagi áberandi vörðu sem bersýnilega sé búin til af mannavöldum og merkt sé með hnitpunkti L08 og í þriðja lagi endastaur hlykkjóttu girðingarinnar á Vatnsholtsmýri við skurðbrún skurðar Áshóls og Sels/Bólstaðar, sem merktur sé sem hnitpunktur L11 og sé jafnframt merktur inn á loftmynd Ágústs Böðvarssonar mælingamanns frá 1954. Aðalstefndu telja að framangreindum kennileitum hafi verið ætlað að sýna merki jarðanna og verið nýtt til ákvörðunar á legu landamerkjaskurðarins.

Aðalstefndu telja að frekari staðfestingu á því að litið hafi verið á umræddan skurð sem landamerkjaskurð milli jarðanna sé að finna í örnefnaskrá Sels frá 1983 sem byggi á upplýsingum frá Vigfúsi Guðmundssyni, föður aðalstefnandans Guðmundar. Vigfús fullyrði þar að búið sé að grafa skurð á syðri merkjum Sels. Ábúendur beggja jarða hafi kostað viðhald skurðarins eins og tíðkist um landamerkjaskurði, síðast árið 2003 þegar aðalstefnendur hafi greitt hlutdeild í kostnaði við uppgröft úr honum. Þá hafi ábúendur Ásmundarstaðajarðanna og Ásheima frá upphafi farið með allt land sín megin skurðarins sem sitt eigið. Spilda Ásheima hafi verið girt allt fram á brún skurðarins upp úr 1980, enda þótt aðilar hafi á sama tíma staðsett graðhestagirðingu frá Brúnarhól að Ásmundarstaðavegi með öðrum hætti. Staðsetning íbúðarhússins að Ásheimum endurspegli ennfremur þá staðreynd að aðilar hafi talið merki jarðanna liggja mun fjær húsinu en greini í kröfugerð aðalstefnenda.

Aðalstefndu telja enn frekari staðfestingu á því að litið hafi verið á umræddan skurð sem landamerkjaskurð milli jarðanna megi finna í uppdrætti Steinþórs Runólfssonar ráðunautar, sem hafi verið gerður vegna landskipta milli Ásmundarstaða II og III þann 27. ágúst 1966. Steinþór dragi landamerki Ásmundarstaðajarðanna þar úr skurðinum við norðaustanverðan Brúnarhól, þ.e. hnitpunkt L02 í kröfugerð aðalstefndu í gagnsök. Steinþór geri hinsvegar þau mistök að draga landamerkin í ímyndaðan punkt í 200 metra fjarlægð frá landamerkjagirðingu Berustaða og beygja þar með landamerkjalínuna, sem hafi átt að vera bein samkvæmt skiptagjörð, í stað þess að framlengja skurðinn að Brúnarhól með beinni línu, sem endað hefði í hornmarki því sem Ágúst Böðvarsson mælingamaður hafi staðsett í mýrinni 12 árum áður. Jarðeigendur hafi haft uppdrátt Steinþórs að engu árið 1967 þegar skurðurinn hafi verið grafinn áfram frá Brúnarhól í beinni stefnu miðað við skurðinn frá 1955 að hornmarki Ágústs, þ.e. hnitpunktur L11.

Aðalstefndu mótmæla þeirri fullyrðingu aðalstefnenda að upphaflega hafi menn talið skurðinn liggja á mörkum jarðanna en síðar hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið. Aðalstefndu segja að skurðurinn stefni greinilega í hornmark Ásmundarstaða, Sels og Áshóls sem fært sé inn á kort Ágústs Böðvarssonar mælingamanns árið 1954.

Aðalstefndu fullyrða að sé landamerkjalína dregin með þeim hætti sem aðalstefnendur krefjist muni aðalstefnendur eignast stóran hluta Vatnsholtsmýrar auk þess sem hluti Vatnsholtsins myndi falla innan merkja Bólstaðar. Þó komi fram í örmerkjaskrá Sels að mýrin tilheyri Áshól og Ásmundarstöðum en ekki Selslandi, nema að litlum hluta. Vatnsholt hafi ávallt verið talið tilheyra Ásmundarstöðum. Nyrst á Vatnsholti séu skráðar fornminjar þar sem Jósef bóndi að Ásmundarstöðum hafi haldið sauði á 19. öld. Þá sé ósennilegt að sneitt hafi verið af hluta holtsins með skiptagjörðinni. Loks hafi aðalstefnendur haldið því fram að draga beri mörk jarðanna í vörðu norðan við Vatnsholt.

Aðalstefndu telja það staðfesta enn frekar að litið hafi verið á allt land sunnan skurðarins sem eignarland Ásmundarstaðajarðanna að aðalstefndi Jón Ágúst hafi sinnt öllu viðhaldi á hlykkjóttri girðingu sem girt hafi verið á Vatnsholtsmýri frá Ásheimum að skurði sem sagður sé vera á mörkum Áshóls og Bólstaðar, allt frá því hún hafi verið endurreist um 1970, enda sé girðingin að mestu leyti inni á landi Ásmundarstaða II, lands, en að hluta á landi Ásheima. Þetta sé til marks um að aðalstefnendur hafi aldrei talið sig eiga tilkall til þessa landsvæðis fyrr en á síðustu árum, en girðingin standi samkvæmt kröfugerð þeirra inni á landi Sels/Bólstaðar.

Með vísan til framangreinds telja aðalstefndu að sýkna beri þá af öllum kröfum aðalstefnenda. Aðalstefnendur hafi ekki fært fram fullnægjandi sannanir og rök fyrir kröfugerð sinni, en jafnvel þó fallist yrði á sjónarmið þeirra hafi aðalstefndu fyrir löngu unnið hefð að hinu umdeilda landsvæði.

Aðalstefndu vísa um heimild til samaðildar til 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Aðalstefndu byggja sýknukröfu sína á landamerkjalögum nr. 41/1919 með síðari breytingum og á eldri lögum um sama efni, landskiptalögum nr. 46/1941, lögum um hefð nr. 46/1905 og meginreglum íslensks réttar um gildi og túlkun heimilda um landamerki. Aðalstefndu byggja málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda Reykjagarðs hf. og Jóns Ágústs Jóhannssonar í gagnsök hins sameinaða máls.

Gagnstefnendur segja að kröfugerð aðalstefnenda  gangi út á að ákvarða upphaf og endi beinnar línu, sem dregin er milli tveggja punkta samkvæmt orðalagi skiptagjörðarinnar. Kröfugerð aðalstefnenda afmarkist með hnitpunktinum A, sem sagður sé í Markakeldu við Steinslæk og hnitpunktinum E, sem sagður sé 200 metra frá svokallaðri Berustaðargirðingu. Gagnstefnendur byggja á því að af skiptagjörðinni frá 1926 leiði að ákvarða beri merki jarðanna með beinni línu og sé upphaf línunnar óumdeilt, þ.e. í Markakeldu syðri við Steinslæk, sem aðalstefnendur hnitsetji sem hnitpunktinn A, en aðila greini á um endapunkt línunnar uppi á Vatnsholtsmýri. Ágreiningur aðila málsins einskorðist því raunverulega við staðsetningu hornmarks Ásmundarstaða II, lands, Áshóls og Bólstaðar, sem tilgreindur er sem hnitpunktur L11 í kröfugerð gagnstefnenda, en þaðan skuli draga beina línu í Markakeldu við Steinslæk. Hornmörk einstakra jarða verði síðan óhjákvæmilega ákvörðuð á hinni beinu landamerkjalínu.

Gagnstefnendur byggja á því að jörðinni Ásmundarstöðum hafi verið skipt í Ásmundarstaði I og II árið 1954 en við skiptin hafi verið stuðst við loftljósmynd í mælikvarðanum 1:5000 sem Ágúst Böðvarsson mælingarmaður hafi útfært. Ljósmyndin sé varðveitt hjá sýslumanninum á Hvolsvelli og á hana hafi verið færð mörk Ásmundarstaðajarðanna gagnvart Seli og sé landamerkjalínan dregin úr punkti á Vatnsholtsmýri, sem sé í 319 metra fjarlægð frá Berustaðargirðingu og komi sá punktur nákvæmlega heim og saman við hnitpunktinn L11 í kröfugerð gagnstefnenda. Loftmyndin sé elsta og greinilegasta heimildin um merki jarðanna og beri því að leggja hana til grundvallar við úrlausn um staðsetningu hins umdeilda hornmarks.

Gagnstefnendur segja að Ágúst Böðvarsson mælingarmaður hafi af einhverjum ástæðum staðsett Markakeldu syðri við Steinslæk ranglega nokkuð til suðurs frá keldunni sjálfri, en staðsetning hennar sé óumdeild. Því sé landamerkjalína Ásmundarstaðajarðanna gagnvart Seli ranglega dregin um suðvesturhorn Hrossatjarnar á loftmyndinni. Þessi rangfærsla leiði til þess að merki Bólstaðar séu sögð liggja í suðvesturhorn Hrossatjarnar í afsali frá 16. júlí 1957 þegar jörðinni hafi verið skipt út úr landi Sels, en við skiptin hafi kort Ágústs verið lagt til grundvallar. Þessi mistök Ágústs hafi þó ekki haft áhrif á staðsetningu hins gamla hornmarks Ásmundarstaða, Sels og Áshóls sem sé merkt á loftmyndina frá 1954 í 319 metra fjarlægð frá núverandi Berustaðargirðingu.

Gagnstefnendur byggja á því að árið 1955 hafi verið grafinn beinn skurður úr Markakeldu við Steinslæk í átt að Brúnarhól, sem framlengdur hafi verið um beina línu til norðausturs yfir Ásmundarstaðaveg og svo langt sem landslag leyfði árið 1967. Skurðurinn frá árinu 1955 hafi verið grafinn af þeim sem komu að skiptagjörðinni árið 1926 og yfirgnæfandi líkur séu á því að svo eigi einnig við um framlengingu skurðarins. Gagnstefnendur telja hafið yfir allan vafa að skurðinum hafi verið ætlað að marka landamerki jarðanna til samræmis við skiptagjörðina, enda stefni skurðurinn þráðbeint í hornmark Sels, Ásmundarstaða og Áshóls, sem sé hnitpunktur L11 í kröfugerð gagnstefnenda.

Gagnstefnendur byggja á því að frekari staðfestingu á því að litið hafi verið á umræddan skurð sem markaskurð milli jarðanna megi finna í örnefnaskrá Sels frá árinu 1983, sem byggi á upplýsingum frá Vigfúsi Guðmundssyni, föður aðalstefnandans Guðmundar. Vigfús fullyrði þar að búið sé að grafa skurð á syðri merkjum Sels. Ábúendur beggja jarða hafi kostað viðhald skurðarins eins og tíðkist um landamerkjaskurði, síðast árið 2003 þegar aðalstefnandi hafi greitt fyrir hlutdeild í kostnaði við uppgröft úr honum. Þá hafi ábúendur Ásmundarstaðajarðanna og Ásheima allt frá upphafi farið með allt land sín megin skurðarins sem sitt eigið. Hafi heimatún Ásheima t.d. verið girt allt fram á brún skurðarins án nokkurra athugasemda af hálfu aðalstefnenda.

Gagnstefnendur byggja á því að enn frekari staðfestingu á því að litið hafi verið á allt land sunnan skurðarins sem eignarland Ásmundarstaðajarðanna megi finna í því að gagnstefnandinn Jón Ágúst hafi sinnt öllu viðhaldi á hlykkjóttri girðingu sem girt hafi verið á Vatnsholtsmýri frá Ásheimum og að skurði, sem sagður sé á mörkum Áshóls og Bólstaðar, allt frá því að hún hafi verið endurreist upp úr 1970, enda sé girðingin að mestu leyti inni á landi Ásmundarstaða II, lands, en hluti á landi Ásheima. Sé það til marks um að aðalstefnendur hafi aldrei talið sig eiga nokkurt tilkall til þessa landsvæðis fyrr en nú á síðustu árum, en girðingin standi samkvæmt kröfugerð þeirra inni á landi Bólstaðar.

Gagnstefnendur byggja á því, með vísan til þessa, að ljóst sé að gagnstefnendur hafi, hvað sem öðru líður, öðlast eignarrétt að öllu landi sunnan kröfulínu þeirra fyrir hefð.

Gagnstefnendur fullyrða að sé bein lína dregin um miðjan framangreindan skurð úr Steinslæk og beint áfram til norðausturs skeri hún þrjú þekkt og áberandi kennileiti í umhverfinu. Í fyrsta lagi sveran hornstaur í hlykkjóttu girðingunni norðan við Hrossatjörn, sem merktur er með hnitpunkti L07 (423320.01 austur – 376399.57 norður), í öðru lagi áberandi vörðu, sem bersýnilega sé búin til af mannavöldum og merkt er með hnitpunkti L08 (423460.35 austur – 376439.47 norður) og í þriðja lagi endastaur hlykkjóttu girðingarinnar á Vatnsholtsmýri við skurðbrún markaskurðar Áshóls og Sels, sem merktur er sem hnitpunktur L11 (424014.55 austur – 376594.85 norður) og sem sé jafnframt merktur inn á loftmynd Ágústs Böðvarssonar mælingamanns frá árinu 1954. Gagnstefnendur byggja á því að þessar staðreyndir renni enn frekari stoðum undir að stefna skurðarins hafi verið úthugsuð og að skurðinum hafi allt frá upphafi verið ætlað að marka landamerki jarðanna.

Gagnstefnendur byggja á því til enn frekari staðfestingar á því að litið hafi verið á skurðinn sem landamerkjaskurð, að á uppdrætti Steinþórs Runólfssonar ráðunauts, sem gerður hafi verið vegna landskipta milli Ásmundarstaða II og III þann 27. ágúst 1966, hafi Steinþór dregið mörk Ásmundarstaðajarðanna þar úr skurðinum við norðaustanverðan Brúnarhól, þ.e. hnitpunkt L02 í kröfugerð gagnstefnenda, en falli í þá gryfju að draga mörkin í ímyndaðan punkt í 200 metra fjarlægð frá Berustaðagirðingu og beygja þar með landamerkjalínuna sem skyldi vera bein samkvæmt skiptagjörð, í stað þess að framlengja línuna að Brúnarhól sem endað hefði í hornmarkinu sem Ágúst Böðvarsson mælingamaður hafi staðsett í mýrinni 12 árum áður. Jarðeigendur hafi enda haft uppdrátt Steinþórs að engu árið 1967 þegar skurðurinn hafi verið grafinn áfram frá Brúnarhól í beinni stefnu að hornmarki Ágústs.

Gagnstefnendur mótmæla þeirri fullyrðingu aðalstefnenda að upphaflega hafi menn talið skurðinn liggja á landamerkjum jarðanna en síðar hafi komið í ljós að svo væri ekki. Skurðurinn stefni bersýnilega í hið gamla hornmark Ásmundarstaða, Sels og Áshóls, sem fært hafi verið inn á kort Ágústs Böðvarssonar mælingamanns árið 1954.

Gagnstefnendur telja að sé landamerkjalína dregin með þeim hætti sem aðalstefnendur krefjast muni aðalstefnendur eignast stóran hluta Vatnsholtsmýrar, auk þess sem hluti Vatnsholtsins félli innan marka Bólstaðar. Þó segi í örnefnaskrá Sels að mýrin tilheyri ekki Seli nema að litlum hluta, mýrin tilheyri Áshól og Ásmundarstöðum. Vatnsholt hafi ávallt verið talið tilheyra Ásmundarstöðum. Því til staðfestingar benda gagnstefnendur á að nyrst á Vatnsholti séu skráðar fornminjar þar sem Jósef, bóndi að Ásmundarstöðum, hafi haldið sauði á 19. öld. Kröfulína aðalstefnenda liggi ennfremur svo nálægt íbúðarhúsinu að Ásheimum að rotþró hússins yrði innan marka Sels og umtalsverður hluti af hinu girta heimatúni, sem aðalstefnendur hafi þó aldrei gert neina athugasemd við.

Gagnstefnendur byggja kröfur sínar við lög um landamerki nr. 41/1919 með síðari breytingum og eldri lög um sama efni, landskiptalög nr. 46/1941, lög um hefð nr. 46/1905 og almennar reglur íslensks réttar um gildi og landamerkjabréfa og annarra heimilda um merki fasteigna. Gagnstefnendur vísa um heimild til samaðildar til 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Gagnstefnendur byggja málskostnaðarkröfu sína á 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísa gagnstefnendur til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefndu Aðalheiðar og Maríu Jörgensdætra í gagnsök hins sameinaða máls.

Gagnstefndu Aðalheiður og María Jörgensdætur krefjast sýknu af kröfum aðalstefnenda og að fallist verði á kröfur gagnstefnenda. Þetta séu sömu dómkröfur og gagnstefnendur geri í málinu varðandi landamerki milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða I og II hinsvegar. Ekki sé ágreiningur milli þessara aðila um að landamerkjaskurður ráði merkjum á því svæði sem hér um ræði. Krafa gagnstefndu um sýknu byggir á sömu rökum, málsástæðum og gögnum og greinir í gagnsök þeirra. Þá beri að sýkna gagnstefndu Aðalheiði þar sem hún hafi selt hlut sinn í Ásmundarstöðum I þann 6. mars 2008.

Málsástæður og lagarök gagnstefndu Grétars H. Guðmundssonar, Kristínar Hreinsdóttur og Guðmundar Vigfússonar í gagnsök hins sameinaða máls.

Gagnstefndu segja að aðalheimildin um landamerki milli jarðanna Sels/Bólstaðar annars vegar og Áshóls og Ásmundarstaða hinsvegar sé landskiptagerð frá 19. júní 1926, þegar fram fóru skipti á úthögum jarðanna Áshóls, Sels og Ásmundarstaða í Ásahreppi. Í skiptagerðinni kemur fram að svonefnd Markakelda við Steinslæk ráði landamerkjum Sels og Áshóls ,,gagnvart suður oddanum á Kumlholti“ og þá bein lína í vörðu sem sé 200 metra í vestur frá landamerkjagirðingu (svonefndri Berustaðagirðingu) sem liggi milli Áshóls og Ásmundarstaða. Úr vörðunni liggi landamerkin í beinni línu milli Sels og Ásmundarstaða í Markakeldu við Steinslæk, þ.e. syðri Markakeldu.

Gagnstefndu segja staðsetningu kennileitisins Markakeldu syðri vera óumdeilda, þ.e. hnitpunktur A á loftmynd á dómskjali nr. 3. Varða sú sem nefnd sé í skiptagerðinni sé fallin en hafi verið staðsett þar sem nú er landamerkjaskurður milli Bólstaðar (áður Sels) og Áshóls. Gagnstefndu staðsetji hnitpunkt E 200 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða eins og beri að gera samkvæmt skiptagerðinni. Landamerkjalína þessi sé bein lína á milli hnitpunkta A og E og sé kröfulína gagnstefndu. Þessi lína hafi verið færð inn á túnakort Landkosta ehf. frá árinu 1987, sem eigendur Ásmundarstaða hafi ekki gert athugasemdir við.

Gagnstefndu byggja á því að landamerki milli Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaðajarða og Ásheima hinsvegar séu samkvæmt framangreindri landskiptagerð frá 19. júní 1926 úr hnitpunkti B og þaðan bein lína í Markakeldu við Steinslæk. Við skipti á Ásmundarstöðum I og II árið 1954 hafi sérstaklega verið tekið fram að landamerkin væru samkvæmt skiptagerðinni. Kröfulína gagnstefndu milli hnitpunkta A, B, C, D og E sé hin sama og færð sé á framangreint túnakort Landkosta. Fyrir liggi að við makaskipti árið 1998 á spildum milli eigenda Ásmundarstaða II og III hafi umræddar spildur verið færðar inn á uppdrátt sem fylgi makaskiptaafsalinu, svo og landamerkjalína milli Ásmundarstaða og Sels/Bólstaðar, þ.e. bein lína milli hnitpunkta G og H. Sama gildi um uppdrátt sem fylgt hafi afsali fyrir Ásheimum.

Gagnstefndu byggja á því að heimildum beri saman um að landamerki Sels/Bólstaðar liggi um svonefnda Hrossatjörn. Í afsalsbréfi gagnstefnda Guðmundar Vigfússonar fyrir hálfri jörðinni Seli (síðar Bólstað) sé tekið fram að landamerki hins selda liggi í suðvesturhorn Hrossatjarnar. Í landskiptagerð frá 27. ágúst 1966 milli eigenda Ásmundarstaða II og III komi fram að landamerkin liggi að Hrossatjörn ,,norðanvert við miðju hennar“. Fyrir liggi að landamerki milli Sels og Ásmundarstaða séu dregin í gegnum Hrossatjörn á uppdrætti með makaskiptaafsalinu milli eigenda Ásmundarstaða II og III, sem og á framangreindum túnkortum Landkosta ehf. Ljóst sé af framangreindu að ekki fái staðist að Hrossatjörn sé að öllu leyti í landi Ásmundarstaða eins og eigandi Ásmundarstaða II hafi haldið fram. Kröfulína gagnstefndu liggi í gegnum tjörnina í beina stefnu á þann stað þar sem varða hafi staðið, 200 metra frá landamerkjagirðingu Berustaða.

Gagnstefndu segja það óumdeilt að Hrossatjörn liggi í svonefndri Vatnsholtsmýri. Í skrá Örnefnastofnunar fyrir Sel komi fram að Vatnsholtsmýri tilheyri Áshól og Ásmundarstöðum en ekki Selslandi, nema lítill hluti. Síðan segi orðrétt í örnefnaskránni: ,,Stór tjörn er í mörkum í mýrinni og heitir Hrossatjörn (68). Sel á lítinn hluta hennar, en hún var slegin áður og oftast frá Seli. Hólmi er í tjörninni.“ Sama komi fram í örnefnaskrá fyrir Ásmundarstaði.

Gagnstefndu mótmæla öllum fullyrðingum gagnstefnenda um landamerki Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásmundarstaða II og Ásheima hinsvegar. Gagnstefndu mótmæla því að skurður sem grafinn hafi verið árin 1957 og 1968 sé á réttum mörkum milli jarðanna. Til hafi staðið að þessi skurður yrði grafinn á mörkum jarðanna en skurðstefnan hafi reynst ónákvæm og verði skekkjan því meiri sem fjær dregur Steinslæk. Það breyti engu þótt kostnaði af viðhaldi skurðarins kunni að hafa verið skipt milli jarða árið 2003.

Gagnstefndu hafna því að loftmynd Ágústs Böðvarssonar sé nákvæm heimild um landamerki jarðanna. Skiptamenn og jarðeigendur hafi ekki staðfest myndina og hún sé í raun ekki heimild um landskiptin þar sem óvíst sé með öllu um tilvist eða uppruna myndarinnar. Sú fullyrðing að hornmark á loftmyndinni sé á réttum stað fái ekki staðist enda sé það augljóslega of langt til vesturs og þ.a.l. ekki á mörkum Áshóls. Sú staðhæfing gagnstefnenda að fjarlægð hornmarksins frá landamerkjagirðingu Berustaða sé 319 metrar sé röng, enda samræmist það ekki skiptagerðinni frá 1926. Á mynd þessari sé merkjalína dregin í gegnum Hrossatjörn eins og á öllum öðrum eldri uppdráttum.

Gagnstefndu fullyrða að skurðir séu aldrei plógræstir eins og gagnstefnendur haldi fram. Hið rétta sé að stykkið ofan skurðar hafi verið plógræst í skurðinn án athugasemda frá eiganda Sels. Girðingin ofan skurðar, svokölluð graðhestagirðing, hafi verið girt í stefnu á punktinn 200 metra frá landamerkjagirðingu Berustaða. Eigendur beggja jarða hafi komið að þeirri framkvæmd og viðhaldi girðingarinnar síðar. Ljóst sé að punktur sem er 319 metra frá landamerkjagirðingu Berustaða sé ekki á mörkum Áshóls og sé því ekki á sama stað og hnitpunktur L11 í gagnstefnu.

Gagnstefndu mótmæla þeirri fullyrðingu gagnstefnenda að Þórður Brandsson hafi undirritað skiptagjörð frá 11. október 1954 á dómskjali nr. 5. Gagnstefndu mótmæla því einnig að hinn ætlaði landamerkjaskurður hafi verið grafinn árið 1955 og að þeir sem stóðu að skiptagjörðinni frá 1926 hafi komið að því verki. Einnig sé ljóst að enginn þeirra sem stóð að landskiptunum árið 1926 hafi komið að framlengingu skurðarins árið 1969. Lega skurðarins sé í engu samræmi við loftmynd á dómskjali nr. 36 sem sé eignuð Ágústi Böðvarssyni.

Gagnstefndu segja það rétt sem fram komi hjá gagnstefnendum að haft sé eftir Vigfúsi Guðmundssyni, föður gagnstefnda Guðmundar Vigfússonar, í örnefnaskrá að grafið hafi verið á landamerkjum jarðanna, eins og menn hafi talið sig vera að gera, en í örnefnaskrá Ásmundarstaða segi að skurðurinn sé allur í landi Sels. Gagnstefndu mótmæla því að viðhald skurðarins hafi verið eins og um landamerkjaskurð hafi verið að ræða. Þegar hreinsað hafi verið upp úr skurðinum á þeim tíma hafi verið ljóst að skurðurinn hefði verið grafinn í ranga stefnu, sbr. stefnu graðhestagirðingar sem girt hafi verið um 1980, en hann hafi engu að síður nýst aðilum til að halda búpeningi jarðanna aðskildum. Gagnstefndu telja reikning á dómskjali nr. 44 ekki breyta neinu þar um, enda verði ekki af honum séð að henni sé ætluð tiltekin hlutdeild í kostnaði, en um sé að ræða greiðslu fyrir 4,5 klst. vinnu við hreinsun skurðar.

Gagnstefndu telja þá fullyrðingu ranga að heimatún sé á Ásheimum, enda liggi ekkert tún að hinum umdeilda skurði. Gagnstefndu hafi ekki gert athugasemdir við beit utan umræddrar hlykkjóttrar girðingar uppi á ásnum enda hafi hún verið girt til að skilja að búfénað jarðanna með leyfi eigenda Bólstaðar/Sels þar sem þægilegast hafi verið að girða á þeim tíma. Það sé rangt að gagnstefnandinn Jón Ágúst hafi sinnt öllu viðhaldi á ,,hlykkjóttu girðingunni“ sem vitnað sé til í gagnstefnu, enda hafi gagnstefndu komið að viðhaldi allra girðinga á hinni umdeildu markalínu á móti aðliggjandi jörðum. Einnig sé rangt hjá gagnstefnendum að girðingin hafi verið endurreist um 1970. Sú girðing hafi þá verið girt í fyrsta sinn. Enn fremur sé rangt hjá gagnstefnendum að gagnstefndu hafi aldrei talið sig eiga tilkall til landsvæðisins milli hlykkjóttu girðingarinnar og kröfulínu gagnstefndu, heldur hafi þeir alla tíð gert sér grein fyrir eignarrétti sínum. Einnig hafi eigendur Bólstaðar og Áshóls grafið landamerkjaskurð milli þeirra jarða að 200 metra punktinum frá landamerkjagirðingu Berustaða og hafi síðan viðhaldið honum að jöfnu. Umrædd girðing beri þess merki að gagnstefnandinn Jón Ágúst Jóhannsson hafi ekki staðið í girðingarvinnu á hans vegum.

Gagnstefndu mótmæla því að kröfulína gagnstefnenda skeri þrjú þekkt og áberandi kennileiti. Hlykkjótta girðingin hafi verið girt þar sem heppilegast hafi verið með tilliti til landslags og sé hlykkjótt þess vegna. Hornstaurar hennar geti því ekki talist þekkt kennileiti. Auðvelt hefði verið að girða hana í beina stefnu ef hún hefði átt að liggja þar sem gagnstefnendur staðsetja kröfulínu sína. Umrædd þúfa, merkt sem punktur L08 í gagnstefnu, sé ekki búin til af mannavöldum, heldur sé hún svokölluð ,,dritþúfa“. Slíkar dritþúfur séu algengar þarna í landslagi og finnist í tugatali á þessu svæði. Þúfunnar hefði verið getið í landamerkjalýsingu frá 1926 ef hún hefði verið hlaðin sérstaklega til þess.

Gagnstefndu hafna fullyrðingum gagnstefnenda um að Steinþór Runólfsson frá Berustöðum hafi ,,fallið í þá gryfju“ að draga línu 200 metra frá landamerkjagirðingu Berustaða í landaskiptum frá 27. ágúst 1966. Sá punktur hafi byggst á vitneskju um það að punkturinn eigi að vera 200 metra frá umræddri girðingu eins og frá greini í skiptayfirlýsingu frá 1926.

Gagnstefndu segja að fornminjar Jósefs bónda tilheyri væntanlega Ásmundarstöðum en benda á að Hrossatjörn hafi verið slegin og nytjuð frá Seli til forna. Það hafi alltaf verið ljóst að rotþró Ásheima væri í landi Sels þar sem aðstæður væru þannig að ekki væri gott að koma því við öðruvísi. Um þetta sé gagnstefnda Grétari Guðmundssyni vel kunnugt þar sem hann hafi sjálfur grafið fyrir rotþrónni sem verktaki fyrir hreppinn. Öll íbúðarhús á Ásmundarstöðum standi mjög nærri landamerkjum og séu fleiri rotþrær þar í landi nágranna.

Gagnstefndu fullyrða að landamerkjagirðing Berustaða hafi staðið á sama stað svo lengi sem elstu menn muni, enda myndu sjást merki þess í mýrinni ef hún hefði verið færð. Glöggt sjáist á loftmynd á dómskjali nr. 36, sem eignuð sé Ágústi Böðvarssyni, að girðingin sé á sama stað árið 1954 og í dag. Lega girðingarinnar hafi því ekki breyst í deilum milli Þjóðólfshaga og Berustaða árið 1959 eins og fullyrt sé í gagnstefnu. Skurður á mörkum Bólstaðar og Áshóls sé grafinn meðfram gömlum girðingargarði þar sem landamerkjagirðingin hafi verið og skurðurinn uppi á ásnum í beinni línu frá honum og ekki sé ágreiningur á milli eigenda þeirra jarða. Leiðinlegt sé til þess að vita að gagnstefnandinn Jón Ágúst skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því að Berustaðir hafi ekki tilheyrt svokallaðri Ástorfu og landamerkjagirðing Berustaða hafi ekki verið hluti af því sem ákvörðun hafi verið tekin um að girða árið 1926. Sú staðhæfing í gagnstefnu sé því á misskilningi byggð og fjalli ekki um sama svæði og um sé rætt í stefnu og gagnstefnu og sé dómskjal nr. 46 málinu því óviðkomandi. Landamerkjagirðing Berustaða hafi verið staðsett og girt löngu fyrir árið 1959. Ekki sé til neinn ,,umsaminn“ Flaghóll, heldur hafi verið samið um mörkin á milli Berustaða og Þjóðólfshaga sem séu þessu máli óviðkomandi og geti ekki breytt landamerkjagirðingu Berustaða á þeim stað sem mál þetta varði.

Gagnstefndu segja að hnitpunktur í gagnstefnu, merktur nr. L12, 209 metrum frá landamerkjagirðingu Berustaða, sé einhliða fundinn af gagnstefnendum og ósannaður, þar sem umræddur skurður hafi verið framlengdur milli Ásmundarstaða og Áshóls að mörkum nýbýlisins Riddaragarðs, sem stofnað hafi verið úr Áshól. Því sé illmögulegt að segja til um hvar hann hafi áður endað.

Gagnstefndu telja ýmsar heimildir, þ.m.t. loftmyndir og uppdrættir, staðfesta að landamerki jarðanna séu dregin í gegnum Hrossatjörn. Það komi heim og saman við örnefnaskrár bæði Ásmundarstaða og Sels þar sem mörkin séu sögð liggja gegnum Brúnarhóla og Hrossatjörn. Það staðfesti að taka beri kröfu gagnstefndu til greina í málinu, enda hafi stefndu í aðalsök og gangstefnendur ekki hrakið þær heimildir.

Gagnstefndu fullyrða að gagnstefnendur hafi sífellt fundið nýja skýringu á kröfugerð sinni frá því málið hafi fyrst verið tekið fyrir á sáttafundi hjá sýslumanninum á Hvolsvelli í desember 2005. Landamerkin hafi þá verið dregin talsvert inn í Áshólsland til að ná 200 metra punktinum umrædda úr skiptagerðinni frá 1926. Nú hafi blaðinu verið snúið við og mörk landamerkjagirðingar Berustaða dregin í efa. Gagnstefnendur hafi ekki lagt fram neinar haldbærar sannanir fyrir staðhæfingum sínum og vangaveltum og ekki gefið neinar skýringar á reikulli kröfugerð í málinu.

Um lagarök vísa gagnstefndu til landskiptalaga nr. 46/1941 og eldri laga um sama efni. Þá er vísað til landamerkjalaga nr. 5/1882 og 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Málskostnaðarkrafa er reist á 21. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar vísa gagnstefndu til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og til þess að lögmönnum er skylt að innheimta virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Niðurstaða.

Leyst verður úr ágreiningi málsaðila í einu lagi og þegar rætt er um aðalstefnendur er átt við þau Grétar, Kristínu og Guðmund, gagnstefnendur eru Reykjagarður og Jón Ágúst og gagnstefndu eru Aðalheiður og María.

Samkvæmt skiptagerðinni frá 19. júní 1926 var svo fyrir mælt að milli Sels og Áshóls réði : „Markakelda við Steinslæk gagnvart suður oddanum í Kumlholti, þaðan bein lína í vörðu sem er 200 metra í vestur frá landamerkjagirðingu milli Áshóls og Ásmundarstaða, en Berustaða hins vegar; er þar sett önnur varða og stendur hún þar við girðinguna, er fjárhús á Brekknaholti ber, framan til í miðhnjúknum á Þríhyrningi og varða við Flaghól austan við Sumarliðabæjarbjalla; varða þessi er hornmark milli Áshóls og Ásmundarstaða. Úr hinni fyrrnefndu vörðu (200 m frá landamerkjagirðingunni) ræður bein lína milli Sels og Ásmundarstaða í Markakeldu við Steinslæk.“

Við meðferð málsins hafa aðilar orðið sammála um það hvar Markakelda við Steinslæk er en vörður þær sem um er getið í skiptagerðinni eru nú fallnar og eru  málsaðilar ósammála um það hvar þær hafa verið.  Gagnstefnendur Reykjagarður og Jón Ágúst halda því fram að þúfa sem merkt er L08 í kröfugerð þeirra sé manngerð varða en aðalstefnendur Grétar, Kristín og Guðmundur halda því aftur á móti fram að um dritþúfu sé að ræða, en þær séu algengar á þessu svæði.  Ekki hafa verið lögð fram sérfræðigögn um það hvers eðlis þessi þúfa er, hvort hún sé af mannavöldum eða eigi sér náttúrulegar orsakir.   Skoðun á vettvangi leysti ekki úr þessu álitaefni.  Verður því að telja ósannað að um manngerða vörðu sé að ræða.

Um og eftir miðja síðustu öld mun hafa verið grafinn skurður úr Markakeldu við Steinslæk.   Skurðurinn endar ofan Ásmundarstaðavegar og fylgir kröfulína gagnstefnenda Reykjagarðs og Jóns Ágústs skurðlínunni frá Markakeldu að punkti L11 í kröfugerð þeirra. Sú kröfulína fellur einnig að kröfum gagnstefndu.  Ágreiningur er með aðilum um það hvort um landamerkjaskurð sé að ræða en hafa ber í huga að ekki virðist hafa risið ágreiningur um landamerki jarðanna fyrr en á árinu 2004.   Aðalstefnendur segja að talið hafi verið að skurðurinn hafi legið á mörkum Sels og Ásmundarstaða, en síðar hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið og hafi skurðstefnan reynst við nánari skoðun ónákvæm og beinlínis röng.  Skurður þessi hafi fallið saman með árunum þannig að hann hafi ekki lengur haldið skepnum. Á milli Sels og Ásmundarstaða I hafi skurðurinn verið hreinsaður upp svo hann héldi skepnum og hafi kostnaði verið skipt á milli aðila. Gagnstefnendur segja að skurðurinn hafi verið grafinn einvörðungu á mörkum Ásmundarstaða I og Sels og hafi allt frá upphafi gegnt hlutverki landamerkjaskurðar.  Stefna skurðarins hafi bersýnilega ráðist af hornmarki Ásmundarstaða, Sels og Áshóls, sem staðsett hafi verið á korti Ágústs Böðvarssonar mælingamanns á árinu 1954.

Ýmislegt bendir til þess að umræddur skurður hafi verið grafinn sem landamerkjaskurður og hafi honum verið ætlað að afmarka hina beinu línu sem um getur í skiptagerðinni frá 1926.  Til þess ber að líta að ekki er bein sjónlína frá Markakeldunni við Steinslæk að vörðunni sem vera átti 200 metra frá Berustaðagirðingunni, hvort sem miðað er við punkt E í kröfugerð aðalstefnenda eða  punkt L11 í kröfugerð gagnstefnenda.   Þá var ekki á þeim tíma sem skurðurinn var grafinn völ eins nákvæmra mælitækja og nú á dögum.   Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í máli þessu að skurðurinn hafi verið grafinn í öðrum tilgangi og enginn ágreiningur virðist hafa risið um landamerkin fyrr en árið 2004, verður á því byggt að sammæli hafi orðið með landeigendum um að skurðinum hafi verið ætlað að skipta landamerkjum milli umræddra jarða.  Verður niðurstaðan því sú að umræddur skurður skal skipta merkjum milli jarða frá Markakeldu syðri í Steinslæk þar til skurðinum sleppir ofan Ásmundarstaðavegar. 

Kemur þá til skoðunar hvort skurðstefnan skuli ráða og miða beri við punkt L11 eins og gagnstefnendur krefjast eða hvort miða beri við punkt E í kröfugerð aðalstefnenda.  Eins og rakið hefur verið eru vörður þær sem um er getið í skiptagerðinni frá 1926 nú horfnar og greinir aðila á um það hvar þær hafi staðið.  Þá ber að líta til að þess að í skiptagerðinni er engra kennileita getið á hinni beinu línu frá upphafspunktum hennar, hvorki Hrossatjarnar né manngerðrar vörðu.   Samkvæmt skiptagerðinni skyldi önnur varðan sett þar við girðinguna, er fjárhús á Brekknaholti ber, framan til í miðhnjúknum á Þríhyrningi, eins og þar er komist að orði.  Við vettvangsgöngu freistuðu aðalstefnendur þess að sýna fram á að varðan gæti ekki hafa verið á öðrum stað en þeim er þau halda fram, þ.e. á punkti E.  Fjárhúsið að Brekknaholti er nú horfið en hægt var að staðsetja það í landslaginu.  Skyggni var gott og gat dómarinn sannreynt að sá staður sem fjárhúsið hafði verið bar framan til í miðhnjúknum á Þríhyrningi ef staðið var á punkti E.  Ef hins vegar var farið að punkti L11 kom í ljós að fjárhúsið bar ekki lengur í miðhnjúkinn á Þríhyrningi.  Þar sem öðrum gögnum er ekki til að dreifa um það hvar umrædd varða var sett niður í framhaldi af skiptagerðinni telur dómurinn nægilega sannað að miða beri við punkt E í kröfugerð aðalstefnenda. 

Niðurstaða málsins verður því sú að skurður, eins og hann hefur verið grafinn og í því horfi sem hann er við dómsuppkvaðningu, skal ráða merkjum milli jarðanna Sels annars vegar og Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II og Ásheima hins vegar frá óumdeildum hnitapunkti í Markakeldu syðri í Steinslæk (420831.7 austur – 375703.4 norður) þar til skurðinum sleppir í óhnitasettum punkti ofan Ásmundarstaðavegar.  Frá skurðenda ráði bein lína mörkum milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, hins vegar að hnitapunkti E (424126.4 austur – 376551.7 norður).

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila í öllum sökum falli niður að öðru leyti en því að aðalstefnendur, Grétar, Kristín og Guðmundur, greiði gagnstefndu Maríu 600.000 krónur í málskostnað in solidum.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóminn.  Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn málsaðila töldu ekki þörf endurflutnings.

D ó m s o r ð :

Skurður, eins og hann hefur verið grafinn og í því horfi sem hann er við dómsuppkvaðningu, skal ráða merkjum milli jarðanna Sels annars vegar og Ásmundarstaða I, Ásmundarstaða II og Ásheima hins vegar frá óumdeildum hnitapunkti í Markakeldu syðri í Steinslæk (420831.7 austur – 375703.4 norður) þar til skurðinum sleppir í óhnitasettum punkti ofan Ásmundarstaðavegar.  Frá skurðenda ráði bein lína mörkum milli jarðanna Sels og Bólstaðar annars vegar og Ásheima og Ásmundarstaða II, lands, hins vegar að hnitapunkti E (424126.4 austur – 376551.7 norður).

Málskostnaður milli aðila í öllum sökum fellur niður að öðru leyti en því að aðalstefnendur, Grétar H. Guðmundsson, Kristín Hreinsdóttir og Guðmundur Vigfússon, greiði gagnstefndu Maríu Jörgensdóttur 600.000 krónur í málskostnað in solidum.