Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-128

Dalseignir ehf. (Guðmundur Ágústsson lögmaður)
gegn
Fer fasteignum ehf. (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður) og Fjárfestingafélagi atvinnulífsins hf. (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 31. október 2022 leita Dalseignir ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 19. sama mánaðar í máli nr. 547/2022: Dalseignir ehf. gegn Fer fasteignum ehf. og Fjárfestingafélagi atvinnulífsins hf. Um kæruheimild er vísað til 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili Fer fasteignir ehf. leggst gegn beiðninni. Gagnaðili Fjárfestingafélag atvinnulífsins hf. hefur ekki látið beiðnina til sín taka.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til þess að 5. ágúst 2021 var tekin fyrir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu beiðni Kópavogsbæjar og gagnaðila Fjárfestingafélags atvinnulífsins hf. um nauðungarsölu fasteignarinnar að Dalvegi 16b í Kópavogi. Í frumvarpi sýslumanns að úthlutunargerð 10. febrúar 2022 var tilgreindum kröfulýsingum leyfisbeiðanda hafnað. Í framhaldi af því leitaði leyfisbeiðandi úrlausnar héraðsdóms samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991 og krafðist þess í fyrsta lagi að ákvörðun sýslumanns um að hafna kröfulýsingu í uppboðsandvirði fasteignarinnar yrði felld úr gildi. Í annan stað að lagt yrði fyrir sýslumann að taka til greina sex nánar tilgreindar kröfulýsingar og loks í þriðja lagi að ákvörðun sýslumanns þess efnis að eftirstöðvar söluandvirðis eignarinnar samkvæmt frumvarpi sýslumanns yrðu lagðar inn á tilgreindan fjárvörslureikning yrði felld úr gildi og andvirðið í þess stað lagt inn á annan tilgreindan reikning í nafni gagnaðilans Fer fasteigna ehf.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að vísa frá dómi fyrstu tveimur kröfum leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að hann skorti lögvarða hagsmuni af því að hafa þær uppi. Þá gæti leyfisbeiðandi ekki haft uppi kröfu þess efnis að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að leggja skyldi eftirstöðvar söluandvirðis fasteignarinnar inn á tilgreindan fjárvörslureikning og þær í þess stað lagðar inn á reikning gagnaðilans Fer fasteigna ehf. þar sem leyfisbeiðanda skorti, gegn mótmælum gagnaðilans, umboð til að koma slíkri kröfu að. Var þeirri kröfu vísað frá dómi á grundvelli umboðsskorts leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og telur að sambærilegt mál hafi ekki áður komið til kasta dómstóla. Jafnframt hafi kæruefnið grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Loks reisir leyfisbeiðandi beiðni sína á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að héraðsdómi hafi ekki verið heimilt að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum.

6. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér á við.

7. Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 90/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli um nauðungarsölu að hluta eða öllu leyti frá dómi, sbr. meðal annars ákvarðanir Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 2019-155 og 17. maí 2022 í máli nr. 2022-47. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.