Hæstiréttur íslands

Mál nr. 824/2017

A (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)
gegn
Verði tryggingum hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Tímabundið atvinnutjón
  • Varanleg örorka
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Gjafsókn

Reifun

A krafði V hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi. Fyrir lá að A gegndi á slysdegi 60% starfi við E en utan þeirrar vinnu kvaðst hún hafa gegnt ólaunuðum störfum á heimili sínu og eiginmanns síns ásamt því að sinna með honum verkum við búskap, sem þau höfðu ekki tekjur af. Deildu aðilar um hvort A ætti rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku til heimilisstarfa, sem reiknaðar yrðu á grundvelli launa sem hún hefði borið úr býtum fyrir fullt starf við E, sbr. 3. mgr. 1. og 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Talið var að við ákvörðun á fjártjóni af þeim toga, sem A hafði orðið fyrir en ekki þegar fengið bætt, yrði að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Ekkert lægi fyrir um hvert hefði verið umfang slíkra starfa A en ólaunuð störf við búskap gætu ekki talist til heimilisstarfa í skilningi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Þá yrði fjártjón vegna ófærni til heimilisstarfa ekki ákveðið á grundvelli endurgjalds fyrir launað hlutastarf utan heimilis. Hvað varðaði bætur fyrir ófærni til heimilisstarfa vegna varanlegrar örorku væri heldur ekki unnt að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda hefði A sinnt hlutastafi utan heimilis um langt árabil. Var því talið að A hefði þurft að reisa útreikning á fjárhæð beggja liða dómkröfu sinnar á sérstöku mati á verðmæti þeirrar vinnu sem hún hafði lagt af mörkum til heimilisstarfa. Þar sem það hefði ekki verið gert væri kröfugerð A ekki byggð á viðhlítandi grunni og var málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.117.343 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.499.599 krónum frá 10. desember 2013 til 10. desember 2014 og af 13.117.343 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastnefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 2.932.641 krónu miðað við 10. desember 2014 og 5.113.181 krónu 25. október 2016. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi, sem er fædd […], fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 10. desember 2013. Aðilana greinir ekki á um að hún hafi að fullu verið óvinnufær af þessum sökum frá slysdegi til 24. febrúar 2014 og aftur frá 10. mars til 10. desember sama ár, heilsufar hennar hafi orðið stöðugt síðastnefndan dag, varanlegur miski hennar af völdum slyssins nemi 22 stigum og sé varanleg örorka hennar 50%, allt eins og komist var að niðurstöðu um í örorkumati 10. mars 2016, sem aðilarnir leituðu sameiginlega eftir. Þá er óumdeilt að stefndi beri með stoð í samningi um slysatryggingu ökumanns bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins.

Fyrir liggur að áfrýjandi hafi á slysdegi gegnt 60% starfi við E, svo sem hún hafi gert frá árinu 2007, en fram að því hafi hún allt frá árinu 1991 verið þar í hlutastarfi ef frá séu talin tvö tímabil 1997 og 1998, alls innan við fimm mánuði að lengd, þegar hún hafi verið í fullu starfi. Utan þessarar vinnu kveðst áfrýjandi hafa gegnt ólaunuðum störfum á heimili sínu og eiginmanns síns ásamt því að sinna með honum verkum til eigin þarfa við búskap, sem þau hafi ekki haft tekjur af. Vegna þessara aðstæðna telur áfrýjandi sig eiga rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sem reiknaðar verði á grundvelli launa sem hún hefði borið úr býtum fyrir fullt starf við E, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi telur á hinn bóginn áfrýjanda ekki eiga í þessum efnum tilkall til bóta, sem taki mið af öðru en raunverulegum launatekjum hennar fyrir störf við E. Hún hafi notið launa fyrir 60% starf frá þeim vinnuveitanda á öllu tímabilinu, sem hún hafi tímabundið verið óvinnufær, og eigi því ekki rétt til frekari greiðslu á þeim grunni. Þá hafi stefndi greitt henni samkvæmt uppgjöri, sem hún hafi samþykkt með fyrirvara 24. október 2016, þjáningabætur ásamt bótum fyrir varanlegan miska og varanlega örorku að fjárhæð samtals 7.469.231 krónu auk vaxta og þóknunar lögmanns, en með því hafi fullar bætur verið greiddar. Af þeirri fjárhæð hafi bætur fyrir varanlega örorku numið 4.739.991 krónu. Þær hafi verið reiknaðar eftir meðaltali rauntekna áfrýjanda frá E síðustu þrjú ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en frá þeim hafi síðan verið dregin 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, sem áfrýjandi hafi notið og muni njóta til 67 ára aldurs samkvæmt útreikningi tryggingarstærðfræðings, alls 2.932.641 króna, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Fyrir Hæstarétti stendur ágreiningur aðilanna um tvö atriði varðandi höfuðstól kröfu áfrýjanda. Annars vegar hvort hún eigi tilkall til frekari bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þar sem heimilisstörf hennar verði metin hlutfallslega til sömu launa og hún naut fyrir vinnu sína hjá E. Hins vegar hvort meta skuli árslaun hennar sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna þrjú síðustu ár fyrir slysið og tekið þá mið af launum, sem hún hefði fengið hjá sama vinnuveitanda fyrir fullt starf. Á hinn bóginn stendur ekki lengur deila milli aðilanna um frádrátt eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris áfrýjanda frá bótum hennar fyrir varanlega örorku og fellir hún sig þannig við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að því leyti.

II

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur við ákvörðun bóta, bæði fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Gildir þetta hvort sem tjónþoli hefur ekki gegnt launuðu starfi utan heimilis eða verið í hlutastarfi, sbr. dóma Hæstaréttar 14. október 1999 í máli nr. 153/1999 og 7. júní 2001 í máli nr. 451/2000. Eftir hljóðan fyrrnefnds lagaákvæðis verður fjártjón í slíkum tilvikum miðað við verðmæti vinnu við heimilisstörf og breytir þá engu hvort tjónþoli hafi þurft að bera kostnað af því að annar leysti af hendi þá vinnu í sinn stað, sbr. dóm réttarins 10. febrúar 2000 í máli nr. 362/1999. Að þessu gættu hefur því áfrýjandi ekki fengið bætt að fullu tjón sitt af slysinu 10. desember 2013 með því að fá annars vegar óskert laun úr hendi vinnuveitanda síns fyrir 60% starf á tímabili tímabundinnar óvinnufærni og hins vegar bætur frá stefnda vegna varanlegrar örorku, sem tóku mið af meðaltekjum hennar fyrir þetta hlutastarf á þriggja ára tímabili.

Svo sem greinir hér að framan verður við ákvörðun á fjártjóni af þeim toga, sem áfrýjandi hefur orðið fyrir en ekki þegar fengið bætt, að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Í málinu liggur ekkert fyrir um hvert hafi verið umfang slíkra starfa áfrýjanda, sem eins og áður segir gegndi 60% launuðu starfi utan heimilis ásamt því að sinna ólaunuðum störfum við búskap, en þau síðarnefndu geta ekki talist til heimilisstarfa í skilningi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Að auki verður fjártjón vegna ófærni til heimilisstarfa ekki ákveðið á grundvelli endurgjalds fyrir launað hlutastarf utan heimilis, en um það er ekki að finna fordæmi í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 14. október 1999, þar sem ekki var uppi ágreiningur um slíkar forsendur fyrir útreikningi dómkröfu svo sem þar var tekið fram. Að því er varðar bætur fyrir ófærni til heimilisstarfa vegna varanlegrar örorku er heldur ekki unnt í tilviki þessu að styðjast við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem áfrýjandi hefur lagt til grundvallar, enda hafði hún samkvæmt áðursögðu sinnt hlutastarfi utan heimilis um langt árabil og aðstæður hennar að þessu leyti því ekki óvenjulegar síðustu þrjú ár fyrir slysdag. Óhjákvæmilega hefði því áfrýjandi þurft að reisa útreikning á fjárhæð beggja liða dómkröfu sinnar á sérstöku mati á verðmæti þeirrar vinnu, sem hún hafi í framangreindu ljósi lagt af mörkum til heimilisstarfa. Með því að það hefur ekki verið gert er kröfugerð áfrýjanda ekki byggð á viðhlítandi grunni og verður af þeim sökum að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði verður ákveðinn eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, en um þann kostnað hennar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði, 600.000 krónur, og fyrir Hæstarétti, 750.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík, til greiðslu fullra skaðabóta vegna umferðarslyss sem hún lenti í 10. des. 2013. Stefna málsins var birt 7. febrúar 2017.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 13.117.343 kr. með 4,5% ársvöxtum af 1.499.599 kr. frá 10. desember 2013 til 10. desember 2014, af fjárhæðinni allri frá þeim degi til 30. apríl 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.294.868 kr. þann 10. desember 2014 og 5.113.181 kr. þann 25. október 2016. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I

                Stefnandi lenti í umferðaróhappi 10. desember 2013. Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu gagnvart stefnanda en ágreiningur er um fjárhagslegt uppgjör. Málsaðilar öfluðu sameiginlega mats B læknis og D hrl. á afleiðingum slyssins. Niðurstaðan var meðal annars sú að varanleg örorka stefnanda væri 50%, en tímabundið atvinnutjón frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember 2014. Matið var lagt til grundvallar uppgjöri bóta en ágreiningur er um tekjuviðmið til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku og eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum.

Stefnandi var í 60% starfi sem […] hjá Eþegar hún lenti í slysinu og hafði verið frá 2007. Hún og maður hennar voru að auki með smábúskap sem hún sinnti samhliða starfi sínu. Stefnandi sinnti auk þess húsmóðurstörfum og ýmsu öðru, líkt og að gæta barnabarna.

Í mars 2016 sendi stefnandi kröfubréf sem tók mið af niðurstöðum nefndrar matsgerðar. Varðandi útreikning á bótum fyrir varanlega örorku var vísað til þess að stefnandi teldi rétt að byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem hún hefði verið í hlutastarfi þrjú ár fyrir slysið. Hún teldi því rétt að uppreikna tekjur sínar miðað við að hún hefði verið í 100% starfi. Heildarkrafa stefnanda vegna bóta fyrir varanlega örorku var samtals 11.617.744 kr.

                Í kjölfar kröfubréfsins óskaði stefndi eftir útreikningi á eingreiðsluverðmæti bóta frá lífeyrissjóðum vegna slyssins með hliðsjón af 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu á að draga 40% eingreiðsluverðmætis frá bótum vegna varanlegrar örorku. Útreikningsins var aflað af hálfu stefnanda og hann sendur stefnda 22. september 2016. Þar kom fram að eingreiðsluverðmæti bóta næmi 2.932.641 kr. með tilliti til þess að stefnandi yrði metin til örorku til ófyrirséðrar framtíðar, í það minnsta til 67 ára aldurs. Í tölvupósti til stefnda var byggt á því f.h. stefnanda að miða ætti frádrátt vegna þessa við að greiðslur frá lífeyrissjóðum myndu falla niður í apríl 2018, enda gilti örorkumat eingöngu til þess dags. Frádráttur ætti samkvæmt því að vera 1.294.868 kr.

Stefndi svaraði kröfubréfinu 12. október 2016. Í tölvupósti stefnda kemur fram að hann fallist ekki á sjónarmið stefnanda varðandi árslaunaviðmið. Stefndi teldi ekki vera fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sl. þrjú ár fyrir slysið. Stefndi vísaði til þess að stefnandi hefði verið í hlutastarfi í mörg ár og ekki líklegt að hún hefði farið í 100% starf í framtíðinni. Hún hafi verið 58 ára á slysdegi með uppkomin börn sem væru öll flutt að heiman. Aðstæður stefnanda væru því ekki sambærilegar og í dómum Hæstaréttar sem hefðu fjallað um þetta álitaefni. Þá byggði stefndi á því að draga ætti frá eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna m.v. óbreyttar forsendur til 67 ára aldurs stefnanda. Frádráttur samkvæmt því væri 2.932.641 kr.

Hinn 12. október 2016 gerði stefndi upp við stefnanda, þar sem bætur fyrir varanlega örorku miðuðust við tekjur stefnanda fyrir 60% starf. Auk þess miðaðist frádráttur vegna eingreiðsluverðmætis bóta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum við fyrirliggjandi niðurstöðu örorkumats vegna greiðslna frá lífeyrissjóði eins og það mat var á stöðugleikapunkti og horft allt til 67 ára aldurs. Stefnandi tók við bótum með fyrirvara um þessa þætti málsins og áskildi sér jafnframt rétt til að setja fram kröfu á hendur stefnda vegna tímabundins tekjutaps og var hún sett fram í stefnu málsins.

II

Vegna tímabundins atvinnutjóns tekur stefnandi fram að jafnframt því að vera í 60% […] á E sinnti hún hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætti barnabarna, þegar þörf var á. Stefnandi varð óvinnufær þegar hún lenti í slysinu þann 10. des. 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð var tímabil tímabundins atvinnutjóns, samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember s.á. Stefnandi fékk greidd veikindalaun frá E þetta tímabil vegna þess 60% starfs sem hún gegndi þar. Stefnandi fékk ekki greiddar neinar bætur, lífeyri eða slíkt vegna þess að hún var óvinnufær á tímabili atvinnutjóns, hvorki frá lífeyrissjóði, stéttarfélagi, TR, SÍ né öðrum aðilum. Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé kveðið á um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið þannig að því sé ætlað að leiða til jafnræðis fyrir þá sem kjósa að nýta vinnugetu sína að hluta eða öllu leyti til heimilisstarfa um lengri eða skemmri tíma. Þeirri skipan hafi því verið komið á með lögum, að sá, sem gegni ekki launuðu starfi eða einungis hlutastarfi utan heimilis, teldist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins, að hann fari, vegna líkamstjóns, á mis við að geta sinnt heimilisstörfum að hluta eða öllu leyti. Orðalag 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga um réttindi tjónþola sem vinna heimilisstörf sé ótvírætt samkvæmt dómaframkvæmd og miða eigi fjárhæð tekjutaps við sambærileg laun og stefnandi hefði haft ef hún hefði verið í fullu starfi á E, að frádregnu því sem hún fékk greitt í veikindalaun.

                Í annan stað telur stefnandi að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku skuli meta árslaun hennar sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki skv. 1. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. megi víkja frá meginreglu 1. mgr. ef fyrir hendi eru óvenjulegar aðstæður á síðastliðnum þremur almanaksárum sem leiði til þess að laun tjónþola á tímabilinu séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi hafi verið í 60% starfi á E en jafnframt sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna þegar þörf var á. Stefnandi og eiginmaður hennar hafa lengi haft 30 kindur, hænsn og hross á heimili sínu. Stefnandi hafi aðallega séð um að sinna kindunum en eiginmaður hennar hænsnunum. Hrossunum sinntu þau sameiginlega. Eftir slysið hafi stefnandi átt erfitt með að stunda þennan búskap og hafi t.d. ekkert getað sinnt sauðburði. Þá treystir hún sér ekki á hestbak eftir slysið.

Stefnandi byggir á því að það, að vera einungis í launuðu starfi að hluta, teljist óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og vísar til athugasemda með frumvarpi því sem síðar varð að skaðabótalögum nr. 50/1993. Þar segir m.a. í 2. mgr. 7. gr. að túlka eigi orðin „óvenjulegar aðstæður“ þröngt. Stefnandi telur ekki réttmætt að miða eingöngu við tekjur fyrir 60% starf í hennar tilviki þar sem hún sinnti ekki eingöngu 60% starfi fyrir slysið, hún sinnti einnig heimilisstörfum og búskap á heimili sínu. Starfsgeta hennar til þessara starfa sé skert. Það verði að bæta henni tjón vegna þess.

Þá telur stefnandi að réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur sé, að miða útreikning á bótum fyrir varanlega örorku við þær tekjur sem hún hafði hjá E sl. þrjú ár fyrir slysið, uppreiknaðar m.v. 100% starfshlutfall, að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð.

Bent sé á að stefnandi sinnti heimilisstörfum fyrir slysið og hlýtur að teljast óumdeilt samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að verðmæti þeirra skuli leggja að jöfnu við launatekjur. Jafnvel þótt hægt sé að leiða líkur að því, að stefnandi hefði ekki stefnt á að auka starfshlutfall sitt hjá E, þá hefði hún alltaf sinnt heimilisstörfunum, auk þess sem hún sinnti búskapnum og gætti barnabarna þegar þörf var á. Stefnandi telur það því ekki skipta máli hvort hún hefði farið í 100% starf í framtíðinni eða ekki. Aðalatriði málsins sé að hún sinnti vinnu utan heimilis að hluta og heimilisstörfum að hluta fyrir slysið. Ef hún hefði ekki lent í slysinu þá hefði hún mögulega getað aukið starfshlutfall sitt utan heimilis. Það geti hún nú ekki gert vegna afleiðinga slyssins.

Varðandi aldur stefnanda, og þá staðreynd að börn hennar eru öll uppkomin, þá bendir stefnandi á að það sé alltaf ákveðin vinna fólgin í því að halda heimili, óháð því hvort börn séu á heimilinu eða ekki. Stefnandi byggir á því að sú vinna sé að jafnaði meiri þegar um er að ræða heimili þar sem búrekstur sé stundaður.

                Varðandi frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga telur stefnandi að miða eigi útreikning við það tímabil er örorkumat hennar sé í gildi, það er út apríl 2018. Stefnandi telur að túlka verði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með hliðsjón af sanngirnissjónarmiðum og tilgangi skaðabótalaga, sem sé að stuðla að því að tjónþoli fái fullar bætur fyrir tjón sitt. Auk þess byggir hún á því að 4. mgr. 5. gr. sé undantekningarregla sem beri þ.a.l. að túlka þröngt samkvæmt viðteknum venjum sem gilda við lögskýringar. Ekki sé hægt að túlka ákvæðið víðar en eftir orðanna hljóðan.

III

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óvenjulegar aðstæður hafi verið í lífi hennar þremur árum fyrir slysið, sem réttlætt geti beitingu undanþáguákvæðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Í málinu liggi fyrir starfsvottorð frá vinnuveitanda stefnanda sem sýni starfshlutfall hennar á 23 ára tímabili, eða allt frá árinu 1991. Samkvæmt vottorðinu hefur starfshlutfall stefnanda hjá E aldrei verið 100%, ef frá eru taldir tveir mánuðir árin 1997 og 1998. Starfshlutfall stefnanda hafi um langt skeið verið um eða undir 60%. Frá árinu 2007 var stefnandi óslitið í 60% starfi, allt til slysdags í sjö ár. Að mati stefnda séu engar forsendur til að líta svo á að stefnandi hafi sannað að tekjur hennar, uppreiknaðar eins og um fullt starf verði að ræða, feli í sér þær framtíðartekjur sem leggja beri til grundvallar. Atvinnusaga stefnanda um áratugaskeið mæli beinlínis gegn slíkum málatilbúnaði.

Stefnandi kveðst einnig reka búskap með eiginmanni sínum og hafi þau sinnt bústofni sameiginlega. Að mati stefnda hefði verið nærtækara fyrir stefnanda að byggja kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku meðal annars á þeim tekjum sem vinnuframlag hennar hafði gefið af sér í búrekstur þeirra hjóna, enda því lýst í stefnu að tjón stefnanda felist í skertri getu til bústarfa. Þess sé ekki freistað af hennar hálfu. Að sama skapi sé takmarkað fjallað um skerta getu til heimilisstarfa, að öðru leyti en að stefnandi hafði fyrir slysið sinnt barnabörnum af og til.

Engin gögn séu lögð fram sem sýnt gætu fram á þá verðmætisaukningu sem bústörfin höfðu skilað henni á viðmiðunarárum þremur árum fyrir slysið, skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Krafa stefnanda byggir enda ekki á því að útreikningur fyrir varanlega örorku skuli ásamt launum hennar fyrir 60% hlutastarf hjá E byggja á verðmætaaukningu við bústörf. Stefnandi byggir í raun á því að hún hafi verið í 100% starfi á viðmiðunartímabilinu, sem […] hjá E annars vegar en við bústörf hins vegar. Engin sönnunargögn séu lögð fram um síðarnefnda starfið. Að mati stefnda sé það ótæk nálgun af hálfu stefnanda að leggja til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku uppreiknuð laun fyrir störf sín hjá E, sérstaklega þegar því sé haldið fram að stefnandi hafi verið í starfi samhliða […] sem einfalt hefði verið fyrir stefnanda að leggja til grundvallar bótakröfu sinni hafi slíkum tekjum verið til að dreifa. Það eitt að fullyrða að hún hafi sinnt verðmætum bústörfum og heimilisstörfum dugir ekki eitt og sér. Stefnandi beri hallann af því að tjón hennar vegna varanlegrar örorku sé ósannað að þessu leyti og beri að sýkna stefnda af þeim sökum.

Þá sé á því byggt að ráðningarsaga stefnanda gefi ekki til kynna að 60% starfshlutfall hennar þremur árum fyrir slysið hafi falið í sér óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem réttlætt gætu frávik frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Ekkert gefi til kynna að stefnandi hafi haft hug á að vinna í 100% starfshlutfalli, en stefnandi var 58 ára gömul á slysdegi og hafði þá kosið að nýta starfsgetu sína einungis að takmörkuðu leyti til launaðra starfa í rúmlega tvo áratugi. Þá liggur ekkert fyrir um bústörf stefnanda og eiginmanns hennar, m.a. hvort þau hafi verið í atvinnuskyni. Börn stefnanda séu uppkomin og flutt að heiman, vart sé því í raun um það að ræða að stefnandi hafi hagnýtt starfsgetu sýna að öllu leyti til tekjuöflunar eða verðmætasköpunar.

Það eitt að stefnandi hafi verið í launuðu hlutastarfi á viðmiðunartímabili 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skapar ekki sjálfkrafa óvenjulegar aðstæður í skilingi 2. mgr. 7. gr. sömu laga, líkt og stefnandi byggi á.

Stefndi byggir á því að frádráttur vegna 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna eigi að miða við 67 ára. Skaðabætur fyrir varanlega örorku séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann sem miðast við stöðugleikapunkt, en frá þeim bótum dragast áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði vegna slyssins samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Um sé að ræða mat á líkindagreiðslum á sama hátt og greiðslur fyrir varanlega örorku fela í sér greiðslur fyrir líkindatjón. Endurmat á vegum lífeyrissjóðs sem væntanlegt mun vera í apríl 2018 breytir þeirri staðreynd ekki að stefnanda hafði verið metinn réttur til örorkubóta hjá lífeyrissjóðnum á stöðugleikapunkti 10. desember 2014 sem uppgjör bóta úr hendi stefnda miðast við. Frádráttur vegna greiðslna úr lífeyrissjóði tekur þannig mið af heilsufari stefnanda þegar hún hafði náð stöðugleikapunkti við uppgjör. Sá frádráttur getur ekki tekið mið af hugsanlega bættu heilsufari samkvæmt mati lífeyrissjóðs nærri fjórum árum eftir stöðugleikapunkt eins og stefnandi virðist byggja á. Útreikningum tryggingastærðfræðingsins hafi ekki verið hnekkt, en frádráttur frá kröfu stefnanda tók mið af þessum útreikningum. Því beri að sýkna stefnda af kröfu sem nemur þeirri fjárhæð sem stefnandi telur hafa verið dregna frá bótakröfunni umfram það sem lög heimila.

Þá hafnar stefndi því að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skuli taka mið af því að stefnandi hefði verið í 100% starfi á óvinnufærnistímabilinu. Stefnandi var í 60% starfi á E þegar slysið varð og hafði verið það um nokkra hríð. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni vegna launamissis á óvinnufærnistímabilinu, en hún hefur ekki lagt fram gögn til sönnunar á tjóni sínu í þessum efnum. Þar sem greiðslur frá atvinnurekenda dragast frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón ber stefnanda engar greiðslur úr hendi stefnda fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda engu óbættu tjóni til að dreifa. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

IV

Stefnandi málsins lenti í slysi 10. desember 2014. Stefndi hefur viðkennt bótaskyldu sína. Ágreiningslaust er að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins er 50% og tímabundið atvinnutjón frá 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember 2014. Matið var lagt til grundvallar uppgjöri bóta og var bótauppgjörið undirritað með fyrirvara 12. október 2016. Ágreiningur málsins er þríþættur, það er um útreikning á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, um tekjuviðmið samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum, samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna.

                Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á því að hún hafi auk 60% starfs síns á E sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna, þegar þörf var á. Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga sé kveðið á um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga. Hún eigi því rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna, vegna þess að hún var óvinnufær til heimilisstarfa tímabilið 10. desember 2013 til 24. febrúar 2014 og frá 10. mars 2014 til 10. desember s.á. Stefnandi telur eðlilegt að miða fjárhæð tekjutaps á tímabilinu við sambærileg laun og hún hefði haft ef hún hefði verið í fullu starfi á E, að frádregnu því sem hún fékk greitt í veikindalaun. Stefndi hafnar þessu og bendir á að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn til sönnunar tjóni sínu. Stefnandi hafi fengið laun meðan hún var óvinnufær vegna slyssins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvaða tekjum hún hafi orðið af og hafnar því að miða eigi við 100% laun hjá E.

Samkvæmt starfsvottorði stefnanda hefur hún starfað á E allt frá nóvember 1991. Tvisvar hefur hún verið í 100% starfi, það er í sex vikur að sumri til árið 1997 og júní, júlí og ágúst 1998. Annars hefur hún mestmegnis verið í 50% og 60% starfshlutfalli. Frá 1. október 2007 til slysdags 2013 var stefnandi í 60% starfi. Með tilvísun til starfsvottorðs stefnanda verður að telja að það sé val hjá stefnanda að vera í hlutastarfi. Það sé ekki vegna þess að stefnandi hafi til dæmis annast börn sín eða umönnun annarra á heimilinu. Ekkert liggur fyrir um að til hafi staðið hjá stefnanda að auka starfshlutfallið og verður að telja það ólíklegt miðað við starfsvottorð hennar.

Stefnandi krefst þess að hún fái greidd laun með vísan til 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga en þar segir: „Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.“ Stefnandi byggir á því að hún hafi sinnt hefðbundnum heimilisstörfum, smábúskap og gætt barnabarna. Varðandi smábúskapinn kemur fram í gögnum málsins að stefnandi og eiginmaður hennar hafi lengi haft 30 kindur, hænsn og hross á heimilinu og hafi stefnandi aðallega sinnt kindunum og eiginmaðurinn hænsnum og bæði hafi þau sinnt hrossunum. Í málinu liggur ekkert annað fyrir um umfang búskapar eða hugsanlegar tekjur eða hlunnindi af honum. Þá gerir skattframtal stefnanda ekki ráð fyrir því að hún hafi haft tekjur af búskapnum.

Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi og eiginmaður hennar séu tvö í heimili. Börnin séu flogin úr hreiðrinu og barnabörnin komi í pössun, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir umfangi þess. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi þurft að kaupa sér eða fá sérstaka aðstoð við heimilisstörfin eftir slysið. Heimilisstörfin virðast hjá stefnanda vera þau sömu fyrir og eftir slysið. Má ætla að þau séu sambærileg við það sem er hjá meginþorra fólks á þessu aldursskeiði, það er að hugsa fyrir þrifum, matseld og um sjálft sig. Telur dómurinn að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga um að heimilisstörf hennar skapi verðmætaaukningu umfram það sem almennt gerist. Yrði krafa stefnanda um að hún fengi laun vegna heimilisstarfa, sem svarar til launa fyrir 100% starf sem […] á E, tekin til greina væri stefnandi í raun að hagnast á því að hafa lent í slysinu. Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.

                Í annan stað byggir stefnandi á því að meta skuli árslaun hennar sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ekki samkvæmt 1. mgr. 7. gr. svo sem gert var. Hún hafi sinnt hefðbundnum heimilistörfum, smábúskap og gætt barnabarna samhliða starfi sínu á E. Stefnandi telur að það að vera einungs í launuðu starfi að hluta séu óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Því eigi að miða útreikninginn við að hún hafi verið í 100% starfi. Þessu hafnar stefndi. Stefnandi hafi verið óslitið í 60% starfi frá 2007. Engar forsendur séu til að líta svo á að stefnandi hafi sannað að tekjur hennar, uppreiknaðar eins og um fullt starf væri að ræða, feli í sér þær framtíðartekjur sem leggja beri til grundvallar. Stefndi telur að nærtækara hafi verið að byggja kröfuna um bætur fyrir varanlega örorku meðal annars á þeim tekjum sem vinnuframlag hennar hafði gefið af sér í búrekstur þeirra hjóna, enda því lýst í stefnu að tjón stefnanda felist í skertri getu til bústarfa.

                Í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir: „Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónaþola.“ Ekki er fallist á það að það eitt að hafa verið í hlutastarfi uppfylli skilyrði ákvæðisins um óvenjulegar aðstæður. Það þarf að sýna fram á að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur. Eins og áður segir liggur ekkert fyrir um að stefnandi hafi haft hug á hærra starfshlutfalli enda ólíklegt í ljósi þess að hún hefur nánast alla sína tíð verið í hlutastarfi. Þá verður, með vísan til þess sem að framan greinir, ekki fallist á að heimilisstörf stefnanda réttlæti kröfu hennar um að miðað verði við 100% starfshlutfall hjá E. Þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að til sé annar mælikvarði sem sé réttari á líklegar framtíðartekjur hennar, verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda.

                Þá telur stefnandi að frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi að nema 1.294.868 kr. það er að við útreikning á endurgreiðsluverðmæti bóta frá lífeyrissjóðum eigi að miða við apríl 2018, en örorkumat stefnanda gildi til þess tíma. Stefndi telur hins vegar að miða eigi við 67 ára aldur stefnanda því greiðslur haldi áfram til þess tíma.

                Samkvæmt matsgerð þeirra B læknis og D hrl. er stöðuleikapunkturinn 10. desember 2014 og miðast bótaréttur og bótafjárhæðir við þann dag. Ekkert liggur fyrir um það hvort eða hvernig örorkumat stefnanda breytist í lok apríl 2018. Eingreiðsla skaðabóta eru bætur fyrir varanlega örorku sem eru greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og frá þeim dragast að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, samanber 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu stefnanda er því hafnað og til hliðsjónar er einnig vísaða til dóma Hæstaréttar í málum nr. 119/2005 og 20/2013.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.

                Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi dags. 27. desember 2016. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda svo sem getur í dómsorði og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar hrl., 600.000 krónur.