Hæstiréttur íslands
Mál nr. 540/2005
Lykilorð
- Almannatryggingar
- Skaðabætur
- Dráttarvextir
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2006. |
|
Nr. 540/2005. |
Eiríkur Franzson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Almannatryggingar. Skaðabætur. Dráttarvextir. Kyrrsetning
Árið 1991 greiddi T samtals 910.992 krónur vegna sjúkrakostnaðar sonar og eiginkonu E erlendis. Gekkst E við því hjá lögreglu ári síðar að hafa falsað gögn eða aflað sér falsaðra gagna, sem sett voru fram til stuðnings greiðslubeiðnunum. Ákæra var gefin út á hendur honum vegna málsins 1999 og neitaði hann þá sök. Dómur gekk í málinu 2004 og var sök hans talin sönnuð varðandi tvo af þremur liðum ákærunnar er lutu að umræddum greiðslum. Vegna fyrningar var E þó sýknaður af kröfum ákæruvalds og bótakröfu T vísað frá dómi. Í kjölfarið kyrrsetti sýslumaður innistæðu á tveimur bankareikningum, sem höfðu að geyma fé, sem tilheyrði E, til tryggingar kröfu að höfuðstól 682.358 krónum. T krafði E síðan um greiðslu 910.992 króna í skaðabætur auk þess sem krafist var staðfestingar á kyrrsetningunni. Ekki var fallist á kröfu E um frávísun málsins frá héraðsdómi. Með því að sannað þótti í refsimálinu að E hefði svikið út tryggingabætur samtals að fjárhæð 682.358 krónur og með hliðsjón af ummælum hans hjá lögreglu, þar sem hann hafði gengist við því að hafa af ásetningi bakað T tjón, er nam 228.634 krónum, var fallist á að T ætti kröfu á hendur E um skaðabætur, sem nam umkrafinni fjárhæð. Ekki var fallist á að skaðabótakrafan væri fyrnd. Dráttarvextir voru dæmdir frá þeim tíma þegar kyrrsetning var gerð fyrir kröfunni, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá var kyrrsetningargerðin staðfest fyrir þeirri fjárhæð, sem hún tók til, ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2005. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu verði hún lækkuð. Hann krefst þess jafnframt að hafnað verði staðfestingu kyrrsetningar, sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði hjá áfrýjanda fyrir kröfu stefnda 17. nóvember 2004, svo og að stefnda verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar 2005 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði eiginkona áfrýjanda, Jóhanna Jensdóttir, með ódagsettu bréfi frá 1991 til stefnda eftir endurgreiðslu kostnaðar, sem hafi stafað af sjúkrahúsvist sonar þeirra, Jens Eiríkssonar, í Vínarborg frá 19. til 22. mars á því ári. Með erindi þessu fylgdu gögn, sem hermt var að stöfuðu frá lögreglu og tilteknu sjúkrahúsi ytra, svo og frá Heilsugæslustöð Suðurnesja. Stefndi varð við þessari málaleitan 17. maí 1991 og greiddi 228.634 krónur inn á bankareikning, sem mun hafa verið sameiginlegur fyrir áfrýjanda og Jóhönnu. Aftur var borið upp erindi frá Jóhönnu til stefnda í bréfi 2. október 1991 um endurgreiðslu kostnaðar vegna slyss, sem hún hafi orðið fyrir 2. september sama ár í Reutte í Austurríki, og fylgdu bréfinu sambærileg gögn og í fyrstnefnda tilvikinu. Stefndi féllst á þessa ósk og greiddi 275.588 krónur inn á sama bankareikning 18. október 1991. Þá ritaði áfrýjandi bréf 2. desember 1991 til stefnda, þar sem hann sóttist eftir endurgreiðslu kostnaðar af dvöl á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum 11. til 19. nóvember 1991, en þangað hafi hann orðið að leita á ferðalagi. Með bréfinu fylgdu læknisvottorð og reikningur, sem sögð voru stafa frá sjúkrahúsi ytra, ásamt vottorði frá Heilsugæslustöð Suðurnesja. Af þessu tilefni greiddi stefndi áfrýjanda 406.770 krónur með tékka, sem innleystur var 27. desember 1991.
Með bréfi 14. janúar 1992 til rannsóknarlögreglu ríkisins krafðist stefndi ásamt þremur tilgreindum vátryggingarfélögum opinberrar rannsóknar vegna gruns á hendur áfrýjanda, eiginkonu hans og fyrrnefndum syni þeirra um fjársvik í tengslum við endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar. Vegna þessa var áfrýjandi handtekinn og voru teknar lögregluskýrslur af honum 12. og 15. mars 1992. Þar gekkst hann við því að hafa falsað gögn eða aflað sér falsaðra gagna, sem sett voru fram til stuðnings fyrrgreindum greiðslubeiðnum til stefnda og vátryggingafélaganna. Hann tók og fram í þessum skýrslum að eiginkona hans og sonur hafi ekkert vitað um þessi mál. Við rannsókn lögreglu var leitt í ljós að áfrýjandi ætti tvo gjaldeyrisreikninga við Íslandsbanka hf., sem höfðu að geyma jafnvirði 4.041.022 króna, og leitaði hún 17. mars 1992 eftir heimild sakadóms Reykjavíkur til að leggja hald á þetta fé. Var sú krafa tekin til greina samdægurs með úrskurði, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 30. mars 1992 í máli nr. 126/1992, en hann er birtur í dómasafni þess árs á bls. 646.
Lögreglurannsóknin, sem að framan er getið, virðist ekki hafa verið fylgt frekar eftir um árabil eða þar til skýrsla var aftur tekin af áfrýjanda hjá ríkislögreglustjóra 18. febrúar 1999. Þar var áfrýjanda meðal annars kynnt krafa frá stefnda, sem gerð var með bréfi til ríkislögreglustjóra 10. júní 1998, um skaðabætur, sem námu samanlagðri fjárhæð áðurgreindra greiðslna til áfrýjanda, 910.992 krónum, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 frá útborgunardegi hverrar greiðslu. Við þetta tækifæri kvaðst áfrýjandi ekki treysta sér til að taka afstöðu til kröfu stefnda.
Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru á hendur áfrýjanda 5. mars 1999, þar sem hann var í níu liðum borinn sökum um brot gegn 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og vörðuðu 5., 8. og 9. liður ákærunnar háttsemi hans í fyrrgreindum skiptum við stefnda. Í ákærunni var meðal annars borin fram áðurnefnd krafa stefnda um skaðabætur. Mál samkvæmt ákærunni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl 1999, þar sem áfrýjandi sótti þing og neitaði sök, en geymdi sér að tjá sig um einstaka ákæruliði. Verulegur dráttur varð á rekstri málsins og var það ekki dómtekið fyrr en 8. júní 2004, en áfrýjandi hafði þá neitað að tjá sig frekar fyrir dómi um sakargiftir vegna þess hve langt væri liðið frá því að atvik málsins gerðust. Með dómi 29. júní 2004 var áfrýjandi sýknaður af sökum samkvæmt öllum liðum ákærunnar. Að því er varðar 5. lið hennar, sem sneri að greiðslu stefnda 17. maí 1991 á 228.634 krónum, var niðurstaðan reist á því að engin sönnunarfærsla hefði farið fram fyrir dómi um það efni. Sakir samkvæmt 8. og 9. lið ákærunnar þóttu á hinn bóginn sannaðar, en vegna fyrningar var áfrýjandi sýknaður af þeim. Þessu til samræmis var kröfu stefnda um skaðabætur vísað frá dómi. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Með bréfi til ríkislögreglustjóra 16. nóvember 2004 krafðist áfrýjandi þess að fé, sem haldlagt var samkvæmt áðursögðu á árinu 1992, yrði skilað honum. Sama dag gerði stefndi beiðni til sýslumannsins í Keflavík um að kyrrsettar yrðu eignir áfrýjanda til tryggingar kröfu, sem næmi að höfuðstól 682.358 krónum en samtals 6.134.824 krónum með dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði. Af beiðni stefnda er ljóst að kyrrsetningar var leitað fyrir áðurgreindum fjárhæðum, sem hann greiddi 18. október og 27. desember 1991, en til þeirra höfðu 8. og 9. liður ákæru á hendur áfrýjanda tekið. Sýslumaður tók beiðni stefnda fyrir 17. nóvember 2004 og kyrrsetti fyrir kröfu hans innistæðu á tveimur nánar tilgreindum bankareikningum hjá Íslandsbanka hf. Var þess getið í bókun um gerðina að þessar innistæður hafi „áður verið haldlagðar af ríkislögreglustjóra.“ Stefndi fékk útgefna réttarstefnu í máli þessu 24. nóvember 2004. Samkvæmt henni krafðist hann dóms um skyldu áfrýjanda til að greiða sér 910.992 krónur, eða sama höfuðstól og gerð var krafa um í refsimálinu á hendur áfrýjanda, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta, svo og um staðfestingu kyrrsetningargerðar.
II.
Í héraðsdómsstefnu er gerð grein fyrir dómkröfum stefnda og þeim málsástæðum, sem þær eru reistar á, svo að viðhlítandi sé samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt stefndi hafi haft uppi sömu fjárkröfu á hendur áfrýjanda í áðurnefndu sakamáli var ekki felldur á hana efnisdómur þar. Af þeim sökum stendur ákvæði 2. mgr. 116. gr. sömu laga því ekki í vegi að stefndi leiti dóms um hana í þessu máli. Er því ekkert hald í þeim röksemdum, sem áfrýjandi hefur fært fyrir aðalkröfu sinni um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004 voru sakir, sem áfrýjandi var borinn með 5. lið ákærunnar frá 5. mars 1999, taldar ósannaðar, en þær vörðuðu sem fyrr segir greiðslu á 228.634 krónum, sem stefndi hafði innt af hendi 17. maí 1991 samkvæmt erindi, sem sagt var stafa frá eiginkonu hans, vegna sjúkrakostnaðar sonar þeirra. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af áfrýjanda 15. mars 1992 um þetta sakarefni, sagði hann „að allt málið sé uppspuni frá rótum. Slysið hafi aldrei gerst og öll skjöl sem hann framvísaði hafi verið tilbúin af honum sjálfum, þ.e. erlend sjúkraskýrsla og reikningur og erlend lögregluskýrsla. Mætti kveðst hafa móttekið frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 228.634 vegna þessa máls.“ Þótt áfrýjandi hafi verið sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins vegna þessa athæfis verður ekki horft fram hjá því að hann hefur með fyrrgreindum ummælum gengist við því að hafa af ásetningi bakað stefnda tjón, sem svarar til umræddrar greiðslu. Ber hann því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda vegna þessa.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um skaðabótaskyldu áfrýjanda við stefnda að því er varðar greiðslur þess síðarnefnda 18. október og 27. desember 1991 á samtals 682.358 krónum.
Fjárkrafan, sem stefndi gerir í málinu, er um skaðabætur og fyrnist hún á tíu árum, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Áður en sá fyrningarfrestur var á enda var kröfu stefnda fylgt eftir með málsókn í skilningi 1. mgr. 11. gr. sömu laga með því að hún var höfð uppi í refsimáli á hendur áfrýjanda, sem þingfest var 12. apríl 1999. Kröfu stefnda var síðan vísað frá héraðsdómi 29. júní 2004, en mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 3. desember sama ár eða innan þess frests, sem um ræðir í 6. málslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Verður því ekki fallist á málsástæðu áfrýjanda um fyrningu kröfu stefnda, sem hann er réttur aðili að.
Áfrýjandi hefur ekki fært fram frekari rök en að framan er tekin afstaða til fyrir varakröfum sínum um sýknu af kröfu stefnda eða lækkun hennar. Verður hann því dæmdur til að greiða stefnda 910.992 krónur. Krafa stefnda var fyrst kynnt áfrýjanda þegar lögregluskýrsla var tekin af honum 18. febrúar 1999. Gat stefndi því fyrst krafist dráttarvaxta af kröfunni þegar mánuður var liðinn frá þeim degi, sbr. 15. gr. þágildandi vaxtalaga. Til þess verður á hinn bóginn að líta að rekstur refsimálsins á hendur áfrýjanda lá eftir gögnum þessa máls meira eða minna niðri allt þar til á árinu 2004 og verður ekki séð að stefndi hafi hugað frekar að hagsmunum sínum fyrr en með beiðni um kyrrsetningu, sem hann ritaði sama dag og áfrýjandi krafðist að fá fjármuni sína leysta undan haldi. Þegar þessa er gætt verða stefnda ekki dæmdir dráttarvextir af kröfu sinni fyrr en frá 17. nóvember 2004, þegar kyrrsetning var gerð fyrir henni, sbr. síðari málslið 9. gr. laga nr. 38/2001.
Í málinu hafa ekki verið bornar fram haldbærar varnir gegn því að skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. hafi verið fullnægt til að kyrrsetning yrði gerð fyrir kröfu stefnda. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, eru áðurnefndir bankareikningar, sem kyrrsetningargerðin sneri að, á nafni ríkislögreglustjóra. Það fær því á hinn bóginn í engu breytt að með gerðinni var kyrrsett fé, sem varðveitt var á reikningunum og er óumdeilt að tilheyri áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður kyrrsetningargerðin staðfest fyrir þeirri fjárhæð af höfuðstól kröfu stefnda, sem gerðin tók til, ásamt framangreindum dráttarvöxtum af henni, málskostnaði, sem dæmdur er í máli þessu, og 11.500 krónum vegna kostnaðar stefnda af framkvæmd þeirrar gerðar.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu um staðfestingu kyrrsetningar er ekki þörf frekari umfjöllunar um kröfu áfrýjanda á hendur stefnda um greiðslu á 1.500.000 krónum í skaðabætur vegna gerðarinnar, en fyrir kröfu þessari gat áfrýjandi ekki með réttu leitað sjálfstæðs dóms, svo sem hann gerir, nema með því að höfða gagnsök á hendur stefnda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Eiríkur Franzson, greiði stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, 910.992 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. nóvember 2004 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Staðfest er kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði hjá áfrýjanda 17. nóvember 2004 í innistæðu reikninga nr. 0542-38-101077 og 0542-38-560007 hjá Glitni hf. til tryggingar greiðslu á 682.358 krónum af höfuðstól kröfu stefnda, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt framansögðu af þeirri fjárhæð, dæmdum málskostnaði og 11.500 krónum í kostnað vegna kyrrsetningargerðar.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2005.
Mál þetta var þingfest 8. desember 2004 og tekið til dóms 3. nóvember sl. Stefnandi er Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík en stefndi er Eiríkur Franzson, Sólvallagötu 42, Reykjanesbæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að staðfest verði kyrrsetningargerð sem framkvæmd var hjá sýslumanninum í Keflavík miðvikudaginn 17. nóvember 2004 í innistæðum bankareikninga stefnda nr. 0542-38-101077 og 0542-38-560007 hjá Íslandsbanka í Keflavík.
Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 910.992 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af 228.634 krónum frá 16. maí 1991 til 17. október 1991, af 504.222 krónum frá 17. október 1991 til 20. desember 1991, af 910.992 krónum frá 20. desember 1991 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi gerir í fyrsta lagi kröfu um að synjað verði um staðfestingu á kyrrsetningargerð sem framkvæmd var 17. nóvember 2004 hjá sýslumanninum í Keflavík. Í öðru lagi krefst stefndi þess að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega.
Stefndi krefst jafnframt sýknu af dráttarvaxtakröfum stefnanda. Í þriðja lagi krefst stefndi þess að stefnandi verið dæmdur til að greiða stefnda skaðabætur að fjárhæð 1.500.000 með dráttarvöxtum skv. ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2005 til greiðsludags. Að lokum krefst stefndi aðallega að honum verði dæmdur málskostnaður en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.
Kröfu stefnda um frávísun málsins var hrundið með úrskuði 29. apríl 2005.
I.
Upphaf máls þessa er að þann 14. janúar 1992 óskuðu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Tryggingamiðstöðin hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og stefndi eftir opinberri rannsókn vegna gruns um fjársvik stefnda. Lék grunur á að stefndi, eiginkona hans Jóhanna Jensdóttir, og sonur þeirra Jens, hafi fengið greiddar verulegar fjárhæðir vegna 7-8 tjónsatburða erlendis á tímabilinu desember 1988 til nóvember 1991.
Við rannsókn málsins hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins játaði stefndi sök að öllu leyti. Hann tók fram að eiginkona hans og sonur væru saklaus því þau hafi ekki vitað um málið. Kvaðst stefndi hafa búið til öll skjöl sjálfur og falsað sjúkraskýrslur, læknisvottorð og reikninga frá erlendum sjúkrahúsum.
Með bréfi stefnanda til Ríkislögreglustjóra 10. júní 1998 var sett fram skaðabótakrafa á hendur stefnda. Dráttur varð á rannsókn lögreglu og var stefndi ekki ákærður fyrr en 5. mars 1999. Dráttur varð á meðferð málsins hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og var dómur ekki kveðinn upp fyrr en 29. júní 2004. Öllum bótakröfum stefnanda var vísað frá dómi.
Stefnandi gerir þá grein fyrir kröfum sínum að stefndi hafi í þremur aðskildum tilvikum árið 1991 svikið út hjá stefnanda tryggingabætur vegna erlends sjúkrakostnaðar á grundvelli 47. gr. þágildandi laga nr. 67/1971 um almannatryggingar.
Í fyrsta skiptið 228.634 krónur þann 16. maí 1991, með því að hafa lagt fram falsaða reikninga frá Allgemeines Krankenhaus í Austurríki og falsað lögregluskýrslu, dagsetta 22. mars 1991 um slys sem Jens Eiríksson, sonur stefnda, hafi átt að hafa orðið fyrir þann 19. mars 1991 í Vín í Austurríki.
Í annað skiptið 275.588 krónur þann 17. október 1991, með því að hafa lagt fram falsaða lögregluskýrslu austurrískrar lögreglu, dagsett 5. september 1991, falsað læknisvottorð og reikning frá Allgemeines Krankenhaus í Austurríki, dagsettan 11. september 1991 og falsað læknisvottorð Arnbjörns Ólafssonar læknis, dagsett 23. september 1991, um bráðaveiki og nýrnaaðgerð Jóhönnu Jensdóttur, eiginkonu stefnda, sem gerð hafi verið í Reutte í Austurríki þann 2. september 1991.
Í þriðja og síðasta skiptið 406.770 krónur þann 20. desember 1991, með því að hafa lagt fram falsað vottorð og reikning frá The General Hospital of Clearwater, dagsett 19. nóvember 1991 og falsað vottorð Arnbjörns Ólafssonar læknis, dagsett 2. desember 1991 um sjúkrahúsvist stefnda frá 11. nóvember til 19. nóvember 1991.
Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004 í málinu nr. S-666/1999: Ákæruvaldið gegn Eiríki Franzsyni, segir meðal annars að ákærði hafi ekki komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en lögð hafi verið fram yfirlýsing hans um að hann vilji ekki tjá sig um málið. Hann hafði áður lýst því yfir við þingfestingu málsins að hann neitaði sök. Dómskýrsla hafði þó verið tekin af ákærða 12. mars 1992 er hann sat í gæsluvarðhaldi og þar hafði hann verið spurður um sakarefnið að einhverju leyti.
Í dómi þessum segir um ákærulið 5, er varðar kröfur stefnanda í þessu máli að fjárhæð 228.634 krónur, að ákærði hafi neitað sök hjá lögreglu og fyrir dómi. Gegn neitun hans sé því ósannað að hann hafi gerst sekur um þessa háttsemi og sé hann því sýknaður af ákærulið 5.
Í dóminum segir um ákærulið 8, er varðar kröfur stefnanda í þessu máli að fjárhæð 275.588 krónur, að ákærði hafi játað þá háttsemi, sem í þessum ákærulið greinir, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi 12. mars 1992. Afturhvarf hans síðar frá játningu var ekki talin standast og var hann fundinn sekur varðandi þennan ákærulið.
Sama á við varðandi ákærulið 9, en sá liður fjallar um kröfu stefnanda í þessu máli að fjárhæð 406.770 krónur. Er ákærði þar fundinn sekur á sömu forsendum og varðandi ákærulið 8, að hann hafi játað sök hjá lögreglu og fyrir dómi 12. mars 1992 og afturhvarf hans frá játningu síðar ekki talin gild.
Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er hins vegar að öll brot ákærða væru fyrnd og hann því sýknaður af kröfum ákæruvalds. Sem áður sagði var öllum skaðabótakröfum vísað frá dómi, þar á meðal kröfu stefnanda sem nú er höfð uppi í þessu máli.
Stefnandi kveður að sér sé því nauðsynlegt að höfða einkamál á hendur stefnda til endurgreiðslu þeirra bóta sem stefndi hafi svikið út hjá stefnanda. Þegar stefnanda hafi borist það til eyrna að til stæði að aflétta haldi á bankareikningum stefnda hafi hann krafist kyrrsetningar á bankareikningum til að tryggja fullnustu krafna sinna þegar úrlausn héraðsdóms lægi fyrir. Stefndi sé ekki skráður fyrir neinum öðrum eignum í dag. Kyrrsetningargerð hafi verið framkvæmd að beiðni stefnanda þann 17. nóvember 2004 í reikningum nr. 0542-38-101077 og 0542-38-560007. Þetta séu reikningar sem Rannsóknarlögregla ríkisins hafi stofnað vegna rannsóknarinnar en innistæður haldlagðra reikninga stefnda hafi verið fluttir á þessa reikninga. Það hafi verið reikningar nr. 0542-38-101014 og 0542-38-560004.
II.
Stefnandi byggir á því varðandi staðfestingu kyrrsetningar að veruleg hætta hafi verið á undanskoti ef ekki hefði orðið af kyrrsetningu á bankareikningum stefnda en til hafi staðið hjá lögreglu að aflétta haldi sínu á þeim. Ekki sé vitað um að stefndi sé skráður fyrir neinum öðrum eignum en fyrrgreindum bankareikningum. Öll fullnusta hefði því verið mjög erfið. Af þeim sökum telur stefnandi öll skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu lögbann o. fl. vera fyrir hendi þannig að kyrrsetningin verði staðfest.
Stefnandi byggir mál sitt á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti svikið út hjá stefnanda tryggingabætur vegna erlends sjúkrakostnaðar með því að hafa framvísað fölsuðum reikningum, læknisvottorðum og lögregluskýrslum. Stefndi hafi játað öll brot sín fyrir lögreglu árið 1992 og sé því sök óumdeild. Vegna þessara háttsemi stefnda hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefnda beri að bæta ásamt dráttarvöxtum og kostnaði.
Stefnandi gerir í fyrsta lagi kröfu um endurgreiðslu á 228.634 krónum ásamt dráttarvöxtum frá 16. maí 1991 eða frá þeim degi sem bætur voru greiddar út til stefnda. Stefnandi tekur fram að stefndi hafi að vísu verið sýknaður af þessum ákærulið í dómi S-666/1999 þar sem brotið hafi talist ósannað gegn neitun stefnda. Stefnandi heldur því fram að hér sé greinilega um mistök að ræða þar sem stefndi hafi játað þetta brot fyrir lögreglu þann 15. mars 1992 eins og fram komi í framlagðri lögregluskýrslu, sbr. og lögregluskýrslu Jens Eiríkssonar frá 12. mars 1992. Telur stefnandi því einsýnt að stefndi hafi svikið út ofangreinda fjárhæð sem honum beri að endurgreiða. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að allt aðrar og strangari sönnunarkröfur séu gerðar í opinberum refsimálum en í einkamálum sem þessum.
Varðandi kröfu að fjárhæð 275.588 krónur og 406.770 krónur hafi Héraðsdómur Reykjavíkur í áðurnefndum dómi talið sannað að stefndi hafi svikið út þessar fjárhæðir hjá stefnanda. Játning hans liggi fyrir varðandi þessar fjárhæðir. Breyttur framburður hans síðar eftir útgáfu ákæru skipti ekki máli.
Samtals nemi kröfur stefnanda 910.992 krónum sem sé stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi heldur því fram að kröfur hans séu ófyrndar. Um kröfuna gildi 10 ára fyrningarfrestur, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Með framsetningu bótakröfu hjá lögreglu 10. júní 1998 eða eigi síðar en við birtingu ákæru þann 5. mars 1999 hafi fyrning verið rofin gagnvart bótakröfunni. Þá byggir stefnandi jafnframt á 5. málslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 en þar sé veitt heimild til að höfða nýtt mál innan sex mánaða frá því máli hafi verið vísað frá. Bótakröfu stefnanda í refsimálinu hafi verið vísað frá dómi 29. júní 2004 og sé þetta mál því höfðað innan tímamarka sem lög áskilji.
Stefnandi vísar til endurkröfuréttar stefnanda skv. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 67/1976 þágildandi laga um almannatryggingar. Þá er einnig vísað til almennu skaðabótareglunnar en stefnandi kveður stefnda ekki hafa verið bótaþega hjá stofnuninni og því hafi ekki verið unnt að skuldajafna dómkröfunni við kröfu stefnda til bóta. Varðandi staðfestingu á kyrrsetningargerð vísar stefnandi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann og fleira, einkum 5., 36. og 39. gr. laganna.
III.
Stefndi krefst þess að synjað verði um staðfestingu kyrrsetningar aðallega að öllu leyti en til var að hluta, það er að kyrrsetning taki ekki til vaxta og eða málskostnaðar. Innistæða á bankareikningum sé ekki tækt andlag aðfarar sbr. ákvæði 41. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Krafa stefnda um niðurfellingu kyrrsetningar sé reist á dómkröfum stefnda um frávísun máls, sýknu og lækkun á kröfum sbr. 42. gr. laga um kyrrsetningu nr. 31/1990. Skaðabótakrafa stefnda að fjárhæð 1.500.000 krónur auk dráttarvaxta taki til miska og fjártjóns. Lagaskilyrðum sé fullnægt og bótanna krafist að álitum sbr. 42. gr. kyrrsetningarlaga.
Stefndi heldur því fram að kröfur stefnanda séu allar fyrndar. Í því sambandi vísar stefndi til rökstuðnings héraðsdómara fyrir niðurstöðum í máli nr. S-666/1999, að meðferð máls hjá rannsóknaraðila og fyrir dómi á tímabilinu fyrir mars 1992 og til desember 2003 hafi ekki rofið fyrningu. Þessari niðurstöðu hafi ekki verið hnekkt og hafi hún full réttaráhrif í þessu máli. Kröfu stefnanda um endurgreiðslu eigi að fara eftir ákvæðum laga um almannatryggingar. Endurgreiðslukrafa sé almenn krafa og fyrnist á fjórum árum, sbr. 1., 3. og 7. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Þá séu allar kröfur stefnanda fallnar niður fyrir tómlæti. Stefnandi hafi þegar árið 1992 vitað um ofgreiðslur og endurgreiðslurétt en ekkert hafist að.
Það sé rangt hjá stefnanda að stefndi hafi játað öll brot sín. Krafa stefnda um lækkun sé byggð á því að stefndi hafi verið sýknaður af háttsemi skv. 5. tl. ákæru og beri því að lækka stefnukröfur um 228.634 krónur sem greiddar hafi verið 16. maí 1991. Þá er krafist sýknu á endurgreiðslu á 275.588 krónum sem greiddar hafi verið 17. október 1991. Fjárhæðin hafi verið greidd Jóhönnu Jensdóttur og endurgreiðsla sé bundin við bótaþega persónulega. Krafa stefnda um sýknu hvað þetta varðar sé ennfremur reist á niðurlagsákvæðum 16. gr. laga nr. 19/1991.
Varðandi kröfu um sýknu af kröfum stefnanda um dráttarvexti tekur stefndi fram að skaðabætur beri ekki vexti fyrr en eftir formlega framsetningu þeirra. Stefndi mótmælir tilvitnun stefnanda til ákvæða 5. tl. 50. gr. laga nr. 117/1993, sbr. lög nr. 74/2002.
IV.
Eins og að framan er rakið var stefndi fundinn sekur í máli S-666/1999: Ákæruvaldið gegn Eiríki Franzsyni, varðandi kröfur stefnanda í þessu máli, annars vegar að fjárhæð 275.588 krónur og hins vegar að fjárhæð 406.770 krónur. Sekt stefnanda var reist á játningu hans hjá lögreglu og fyrir dómi og afturhvarf hans síðar frá framburði talið haldlaust. Verður því fallist á með stefnanda að stefndi hafi með ólögmætum hætti svikið út tryggingabætur hjá stefnanda í þessi tvö skipti og með því valdið stefnanda tjóni sem þessum fjárhæðum nemur.
Stefndi var hins vegar sýknaður í ofangreindu refsimálinu af því að hafa svikið 228.634 krónur út hjá stefnanda. Sýkna var reist á því að stefndi hefði neitað sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi hvað þetta tilvik varðar og engin sönnunarfærsla hafi farið fram fyrir dómi um þetta atriði.
Stefnandi hefur lagt fram lögregluskýrslur varðandi þetta atvik. Þar kemur fram í yfirheyrslum yfir stefnda 15. mars 1992 að hann játar að allt málið sé uppspuni frá rótum. Hann hafi falsað erlendar lögregluskýrslur, reikning frá Allgemeines Krankenhaus í Vín, nánar tiltekið Zentrales Institut für Radiodiagnostik der Universität Wien og læknisvottorð frá Heilsugæslustöð Suðurnesja og þannig svikið út hjá stefnanda 228.634 krónur. Verður byggt á þessari játningu stefnda hjá lögreglu og ekki talið hafa þýðingu þó hann neitaði sök síðar fyrir dómi. Sú neitun var án allra skýringa og ekki í samræmi við gögn málsins. Þá mætti stefndi ekki við aðalmeðferð þessa máls til að gefa skýrslu þannig að unnt væri að leita skýringa á því hvers vegna hann dró framburð sinn til baka. Stefndi telst því einnig hafa unnið stefnanda tjón að þessu leyti með því að svíkja fé út hjá stefnanda með ólögmætum hætti.
Samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda gildir 10 ára fyrningafrestur um skaðabótakröfu. Sefnandi setti fram skaðabótakröfu 10. júní 1998. Hún var kynnt ákærða í síðasta lagi við þingfestingu sakamálsins 12. apríl 1999 og var þá fyrning skaðbótakröfunnar rofin gagnvart stefnda. Bótakröfunni var vísað frá dómi 29. júní 2004 en þetta mál höfðað með útgáfu réttarstefnu 24. nóvember 2004 eða innan tilskilins frests sem 5. málsliður 1. mgr. 11. gr. sömu laga heimilar. Krafa stefnanda telst því ekki fyrnd en ákvæði almannatryggingalaga um endurkröfur þykja ekki eiga við í málinu þar sem það er rekið sem skaðabótamál.
Þá þykir stefnandi ekki hafa fyrirgert rétti sínum með tómlæti því það var ekki á valdi hans að ráða málahraða hjá lögreglu og fyrir dómi er refsimálið var til meðferðar.
Krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 910.992 krónur verður því tekin til greina. Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda. Eins og hér háttar þykir rétt að beita lokamálslið 9. gr. laga nr. 38/2001 um upphafstíma vaxta. Ákærumálið var þingfest 12. apríl 1999 og stefnda þá kynnt bótakrafan. Verður við það tímamark miðað og stefndi dæmdur til þess að greiða dráttarvexti af kröfunni frá 12. maí 1999 til greiðsludags eins og greinir nánar í dómsorði.
Öll skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o. fl. eru fyrir hendi og innistæða á bankareikningunum telst tækt andlag kyrrsetningar.
Eftir þessari niðurstöðu eru ekki efni til þess að verða við kröfu stefnda um bætur á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990.
Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur og er þá meðtalinn virðisaukaskattur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Eiríkur Franzson, greiði stefnanda, Tryggingastofnun ríkisins, 910.992 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 12. maí 1999 til 1. júlí 2001 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfest er kyrrsetningargerð sem framkvæmd var hjá sýslumanninum í Keflavík miðvikudaginn 17. nóvember 2004 í innistæðum bankareikninga stefnda nr. 0542-38-101077 og 0542-38-560007 hjá Íslandsbanka í Keflavík.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.